Hæstiréttur íslands

Mál nr. 691/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Matsmenn
  • Hæfi


                                     

Mánudaginn 3. nóvember 2014.

Nr. 691/2014.

Andri Sveinsson og

(Reimar Pétursson hrl.)

Kjartan Gunnarsson

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

gegn

Brit Insurance Ltd.

Liberty Mutual Insurance Europe Ltd.

QBE International Insurance Ltd.

Allianz Global Corporate & Speciality AG

QBE Corporate Ltd.

Alterra Corporate Capital 2 Ltd.

Alterra Corporate Capital 3 Ltd.

Kelvin Underwriting Ltd.

Nameco (No 11) Ltd.

Nameco (No 231) Ltd.

Novae Corporate Underwriting Ltd.

SCOR Underwriting Ltd.

Sorbietrees Underwriting Ltd.

Brian John Tutin

Bridget Anne Carey-Morgan

Carol Jean Harris

David John De Marle Coulthard

Eileen Elsie Hunter

Gary Frederick Sullivan

Ian Richard Posgate

Joseph Elmaleh

John Leon Gilbart

Julian Michael West

Richard Michael Hodgson Read og

Norman Thomas Rea

(Viðar Lúðvíksson hrl.)

Kærumál. Matsmenn. Hæfi.

Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms var hafnað mótmælum gegn ákvörðun dómara um að löggiltu endurskoðendurnir M og J yrðu dómkvödd til að gera matsgerð á grundvelli beiðni B Ltd. o.fl. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A og K hefðu ekki fært haldbær rök fyrir andmælum sínum og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 7. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2014, þar sem hafnað var mótmælum gegn því að löggiltu endurskoðendurnir Margrét Pétursdóttir og Jóhann Unnsteinsson verði dómkvödd til að gera matsgerð á grundvelli beiðni varnaraðila. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hafnað verði að dómkveðja þessa matsmenn. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

LBI hf. höfðaði mál með stefnu 16. janúar 2012 á hendur varnaraðilum og sóknaraðilum ásamt Sigurjóni Þ. Árnasyni, Halldóri J. Kristjánssyni, Þorgeiri Baldurssyni, Svöfu Grönfeldt og Jóni Þorsteini Oddleifssyni. Undir rekstri þess máls kröfðust varnaraðilar þess í þinghaldi 26. nóvember 2013 að dómkvaddir yrðu menn til að leggja mat á nánar tilgreind atriði. Þessari kröfu var andmælt og var málið flutt um þann ágreining 26. febrúar 2014. Krafa varnaraðila var í meginatriðum tekin til greina með úrskurði 14. mars 2014, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 29. apríl sama ár í máli nr. 243/2014. Í þinghaldi 25. júní 2014 greindi héraðsdómari í málinu frá því að hann hefði í hyggju að dómkveðja fyrrnefnda endurskoðendur til matsstarfa og sætti það andmælum af hendi sóknaraðilans Andra Sveinssonar og LBI hf., en um afstöðu annarra málsaðila var fært í þingbók að þeir hafi að varnaraðilum frátöldum „annaðhvort tekið undir mótmæli lögmanns stefnda Andra eða efasemdir um hæfi fyrrgreindra sérfræðinga.“ Var þá slegið á frest að dómkveðja matsmenn, en í þinghaldi 18. september 2014 ítrekaði héraðsdómari að hann hygðist dómkveðja áðurgreinda menn til matsstarfa. Var fært til bókar að sóknaraðilinn Andri hafi sem fyrr mótmælt þeirri ráðagerð og jafnframt LBI hf., sem þó hafi aðeins andmælt því að Margrét Pétursdóttir yrði dómkvödd sem matsmaður. Sagði jafnframt að afstaða „annarra aðila til tillögu dómara um matsmenn“ væri óbreytt. Samkvæmt úrskurðarorði hins kærða úrskurðar var hafnað mótmælum LBI hf. og sóknaraðilans Andra gegn því að umræddir endurskoðendur yrðu dómkvaddir til matsstarfa. Í ljósi þess, sem áður hafði verið fært í þingbók, verður þó að ætla að sóknaraðilinn Kjartan Gunnarsson hafi jafnframt mótmælt þessu vali á matsmönnum og getur hann því réttilega kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður ekki litið svo á að sóknaraðilar hafi fært haldbær rök fyrir andmælum sínum gegn því að Margrét Pétursdóttir og Jóhann Unnsteinsson verði dómkvödd til að gera matsgerð á grundvelli beiðni varnaraðila. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur og sóknaraðilum gert að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Andri Sveinsson og Kjartan Gunnarsson, greiði í sameiningu varnaraðilum, Brit Insurance Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., QBE International Insurance Ltd., Allianz Global Corporate & Speciality AG, QBE Corporate Ltd., Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Kelvin Underwriting Ltd., Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Novae Corporate Underwriting Ltd., SCOR Underwriting Ltd., Sorbietrees Underwriting Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, Joseph Elmaleh, John Leon Gilbart, Julian Michael West, Richard Michael Hodgson Read og Norman Thomas Rea, hverjum fyrir sig 15.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2014.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 17., 18. og 23. janúar 2012. Stefnandi er LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þ. Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík, Halldór J. Kristjánsson, sagður óstaðsettur í hús í Kanada, Kjartan Gunnarsson, Starhaga 4, Reykjavík, Andri Sveinsson, sagður óstaðsettur í hús í Englandi, Þorgeir Baldursson, Stórahjalla 5, Kópavogi, Svafa Grönfeldt, sögð óstaðsett í hús í Bandaríkjunum og Jón Þorsteinn Oddleifsson, Krossakri 6, Garðabæ. Þá er stefnt Brit Insurance Ltd., 55 Bishopsgate, London, Stóra-Bretlandi og 24 öðrum nafngreindum vátryggjendum með lögheimili í Bretlandi og Þýskalandi.

Með úrskurði 14. mars sl. var fallist á beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. 26. nóvember 2013 um dómkvaðningu matsmanna að frátaldri tíundu spurningu í matsbeiðni. Með dómi Hæstaréttar 29. apríl sl. í máli nr. 243/2014 var úrskurður héraðsdóms staðfestur. Málið var tekið fyrir að nýju 25. júní sl. Var þá fært til bókar að dómari hefði, í samræmi við 2. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, gefið aðilum kost á því, utan réttar, að koma sér saman um matsmenn. Jafnframt var fært til bókar að dómari hefði tilkynnt aðilum utan réttar um að hann hygðist kveða til matsstarfa Margréti Pétursdóttur lögg. endurskoðanda og Jóhann Unnsteinsson lögg. endurskoðanda þegar ljóst var að samkomulag tækist ekki með aðilum um hæfa matsmenn.

Af hálfu stefnanda og stefnda Andra var fyrirhugaðri dómkvaðningu framangreindra sérfræðinga mótmælt. Í munnlegum athugasemdum lögmanna komu fram upplýsingar um tengsl nafngreinds lykilstarfsmanns Ernst & Young hf. við innri endurskoðun Landsbanka Ísland hf., en fyrir liggur að umræddir endurskoðendur starfa báðir hjá því félagi. Að virtum þessum upplýsingum ákvað dómari að draga tilbaka tillögu sína um matsmenn og beindi því til aðila að leggja fram nýjar tillögur um hæfa matsmenn og eða reyna til þrautar að ná samkomulagi um hæfa matsmenn. Jafnframt var fært til bókar að yrði ekki um samkomulag að ræða myndi dómari gera nýja tillögu að matsmönnum utan réttar. Var málinu frestað í þessu skyni til nýrrar fyrirtöku 3. júlí sl.

Málið var tekið fyrir að nýju 18. september sl. Við þá fyrirtöku málsins kom fram að ekki hefði orðið af fyrirtöku málsins 3. júlí sl. þar sem málinu hafði verið frestað að beiðni lögmanna stefnanda, stefnda Andra og stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. í því skyni að ná samkomulagi um matsmenn. Jafnframt var fært til bókar að dómari hefði verið upplýstur um það utan réttar að ekki væri lengur um það að ræða neinn lykilstarfsmann Ernst & Young hf. með tengsl við innri endurskoðun Landsbanka Íslands hf. Þá kom fram við fyrirtöku málsins að dómari hefði í ljósi þessara upplýsinga tilkynnt aðilum utan réttar að hann hygðist kveðja til matsstarfa Margréti Pétursdóttur lögg. endurskoðanda og Jóhann Unnsteinsson lögg. endurskoðanda, þ.e. sömu sérfræðinga og áður hafði verið gerð tillaga um, enda lægi ekki fyrir samkomulag aðila um aðra hæfa matsmenn.

Af hálfu stefnda Andra og stefnanda var tillögu dómara um matsmenn enn sem fyrr mótmælt, þó þannig að stefnandi mótmælti aðeins fyrirhugaðri skipun Margrétar Pétursdóttur lögg. endurskoðanda. Í munnlegum athugasemdum lögmanna kom fram að mótmæli við tillögu dómara grundvölluðust í fyrsta lagi á því að Ernst & Young hf. hefði aðstoðað við gerð skýrslu um ýmis atriði reikningsskila og endurskoðun Landsbanka Íslands hf. sem unnin var af norsku lögmannsstofunni Lynx advokatfirma DA og dagsett er 2. nóvember 2010 („Report on the auditor files of Landsbanki Íslands hf.“). Mun skýrslan hafa verið unnin að beiðni sérstaks saksóknara. Voru færð að því rök að í skýrslunni væri í reynd tekin meiri eða minni afstaða til matsefna þannig að umræddir sérfræðingar gætu ekki talist „óaðfinnanleg vitni“ um þau atriði sem ætti að meta, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Í þessu sambandi var á það bent að Margrét Pétursdóttir lögg. endurskoðandi hefði verið sá meðeigandi Ernst & Young hf. sem borið hefði ábyrgð á verkinu gagnvart norsku lögmannsstofunni. Í annan stað var á það bent að Ernst & Young hf. væru endurskoðendur ýmissa þeirra manna, eða fyrirtækja þeim tengdum, sem sætu í slitastjórn stefnanda. Í þriðja stað var vísað til þess að Ernst & Young hf. hefði sinnt ýmsum ótilgreindum verkefnum fyrir stefnanda. Í fjórða lagi var bent á að óæskilegt væri að báðir matsmenn kæmu frá sömu endurskoðendastofu. Slíkt fyrirkomulag raskaði í raun sjálfstæði þeirra þannig að þeir fullnægðu ekki skilyrðum 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Í málinu er óumdeilt að framangreindir sérfræðingar hafa yfir að ráða nauðsynlegri kunnáttu til að leysa af hendi fyrirhuguð matsstörf. Byggjast mótmæli við skipun sérfræðinganna þannig annars vegar á því að þeir, eða fyrirtækið Ernst & Young hf. sem þeir starfa hjá, hafi í reynd þegar tekið afstöðu til matsefna þannig að þeir geti ekki talist óaðfinnanleg vitni í skilningi 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar grundvallast mótmælin á því að þessir sérfræðingar hafi þau tengsl við stefnanda málsins að þessu skilyrði greinarinnar sé ekki fullnægt.

Í málinu er ekki komið fram að störf umræddra sérfræðinga fyrir stefnanda eða einstaka stjórnendur stefnanda séu svo umtalsverð eða þess eðlis að líta megi svo á að þeir, eða  Ernst & Young hf., séu honum fjárhagslega háðir. Verður því ekki á það fallist að tengsl sérfræðinga eða téðs fyrirtækis við málsaðila séu með þeim hætti að ekki sé fullnægt áðurgreindu skilyrði 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991.

Í fyrrgreindri skýrslu norsku lögmannstofunnar Lynx kemur fram að Ernst & Young hf. hafi veitt aðstoð við að leit, lestur og skilning á endurskoðunargögnum á íslensku samkvæmt verkáætlun lögmannsstofunnar. Þá eru nafngreindir tveir starfsmenn Ernst & Young hf. sem komu að verkefninu og er í hvorugu tilviki um að ræða þá menn sem dómari hefur gert tillögu um. Með hliðsjón af hlutverki  Ernst & Young hf. við umræddrar skýrslu telur dómari ekkert komið fram sem bendi til þess að umræddir sérfræðingar geti ekki sinnt matsstörfum í máli þess af hlutleysi og fagmennsku þannig að þeir séu óaðfinnanleg vitni um þau atriði sem á að meta, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Verður því hafnað mótmælum stefnanda og stefnda Andra við fyrirhugaðri dómkvaðningu Margréti Pétursdóttur lögg. endurskoðanda og Jóhann Unnsteinsson lögg. endurskoðanda.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Hafnað er mótmælum stefnanda LBI hf. og stefnda Andra Sveinssonar við skipun Margrétar Pétursdóttur lögg. endurskoðanda og Jóhanns Unnsteinssonar lögg. endurskoðanda sem dómkvaddra matsmanna til að framkvæma það mat sem greinir í úrskurði héraðsdóms 14. mars sl.