Hæstiréttur íslands
Mál nr. 558/2014
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Samningsveð
- Handveð
- Samningur
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 16. mars 2015. |
|
Nr. 558/2014.
|
Landsbankinn hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) gegn Birki Leóssyni (Ásgeir Þór Árnason hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Samningsveð. Handveð. Samningur. Lánssamningur. Gengistrygging.
L hf. og B greindi annars vegar á um hvort samkomulag hefði verið með þeim um heimild L hf. til að ráðstafa söluandvirði fjármálagerninga á vörslureikningi, sem B hafði sett L hf. að handveði til tryggingar skuldum D ehf. við L hf., þ. á m. um hvort L hf. hefði glatað handveðréttindum sínum. Hæstiréttur taldi sannað, meðal annars að virtum samskiptum aðilanna, að samkomulag hefði tekist þeirra í millum um sölu hinna handveðsettu fjármálagerninga í þeim tilgangi að greiða tilgreinda skuld D ehf. við L hf. Var réttarvernd handveðsins ekki talin hafa fallið niður við það eitt að andvirði veðandlagsins hefði í þessum tilgangi verið lagt inn á kvaðalausa bankareikninga B í skamman tíma. Hins vegar stóð deila aðilanna um hvort lánssamningur milli D ehf. og L hf. hefði væri bundinn ólögmætri gengistryggingu. Hæstiréttur taldi að þegar textaskýring lánssamnings tæki ekki af skarið um hvers efnis skuldbinding hans væri, eins og ætti við um hinn umdeilda lánssamning, yrði að líta til atriða sem lytu að því hvernig hún hefði verið efnd og framkvæmd að öðru leyti, en að því virtu komst rétturinn að niðurstöðu um lögmæti samningsins, sem staðið hefði um skuldbindingu í erlendum myntum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2014. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að áfrýjandi greiði sér 26.089.880 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. mars 2009 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Hinn 25. apríl 2007 setti stefndi áfrýjanda að handveði vörslureikning með fjármálagerningum til tryggingar öllum skuldum einkahlutafélags síns Drómundar við áfrýjanda. Í hinum áfrýjaða dómi er sölu þessara gerninga á tímabilinu 27. febrúar til 2. mars 2009 lýst og því hvernig andvirðið var lagt inn á tvo kvaðalausa reikninga stefnda hjá áfrýjanda áður en það var 6. mars 2009 fært til greiðslu skuldar einkahlutafélagsins við áfrýjanda samkvæmt lánssamningi 2. maí 2007. Greinir málsaðila á um hvort samkomulag hafi verið með þeim um framangreindar ráðstafanir, þar á meðal hvort áfrýjandi hafi glatað handveðréttindum sínum. Þá deila þeir og um hvort lánssamningurinn hafi verið bundinn ólögmætri gengistryggingu.
Eins og greinir í héraðsdómi ritaði stefndi tölvubréf til áfrýjanda 11. febrúar 2009 með lýsingu á bágri fjárhagsstöðu Drómundar ehf. og ósk um sölu hinna handveðsettu gerninga til greiðslu skuldar félagsins samkvæmt lánssamningnum 2. maí 2007, þar sem áfrýjandi gæti gjaldfellt samninginn. Vildi stefndi jafnframt fá samninginn framseldan sér í kjölfarið. Í héraðsdómi eru ítarlega rakin tölvupóstsamskipti málsaðila sem á eftir fóru. Eins og þar greinir tók áfrýjandi þegar vel hugmyndum stefnda, en upplýsti hann jafnframt nokkru síðar um þá stefnu sína að framselja ekki lánsskjöl samhliða uppgjöri sem þessu. Að fengnu þessu svari sendi áfrýjandi tölvubréf til stefnda 24. febrúar 2009 með eftirfarandi spurningu: „Sæll Birkir, hvað segir þú um framhaldið?“ Svar stefnda barst tveimur dögum síðar: „Er ekki rétt að drífa í þessu og klára málið, innleysa sjóðina greiða fyrir lánið. Viltu láta mig vita hvenær ég má vænta þess að þessi mál verði frágengin.“
Hvorki er því haldið fram í málinu að áfrýjandi hafi fallið frá því skilyrði sínu að lánssamningurinn yrði ekki framseldur stefnda né verður af gögnum málsins séð að áfrýjandi hafi beitt veðkalli gagnvart Drómundi ehf. eins og stefndi heldur fram. Verður þvert á móti ekki annað ráðið en að stefndi hafi áfram haft frumkvæði að og gengið eftir því að lánssamningurinn yrði greiddur, eftir að honum var tilkynnt um að ekki yrði af framsali. Þannig er til viðbótar þeim bréfum sem rakin eru í héraðsdómi að finna svofellt tölvubréf áfrýjanda til stefnda 27. febrúar 2009: „Ég er orðinn nokkuð stressaður á þetta hefur enn ekki verið klárað. Þetta á allt að vera komið á hreint. Er ekki hægt að klára málið í dag og ganga frá greiðslum?“
Eins og áður segir hóf áfrýjandi síðastgreindan dag að selja hina handveðsettu fjármálagerninga. Sölunni lauk 2. mars 2009 og var andvirðið fært til greiðslu skuldar Drómundar ehf. fjórum dögum síðar. Samkvæmt öllu framanrituðu er sannað að samkomulag tókst milli málsaðila um sölu hinna handveðsettu fjármálagerninga í þeim tilgangi að greiða umrædda skuld. Verður í því ljósi ekki talið að réttarvernd handveðsins hafi fallið niður við það eitt að andvirði veðandlagsins var í áðurgreindum tilgangi lagt inn á kvaðalausa bankareikninga áfrýjanda í þann skamma tíma sem um ræðir. Verður áfrýjandi af þessum sökum sýknaður af aðalkröfu stefnda.
Efni framangreinds lánssamnings 2. maí 2007 er rakið í héraðsdómi. Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, eins og á við um þann lánssamning sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti. Þegar litið er til þess að áfrýjandi efndi aðalskyldu sína á grundvelli lánssamningsins með útgreiðslu í bandaríkjadölum á gjaldeyrisreikning stefnda, sem sérstaklega var stofnaður af þessu tilefni að hans ósk vegna væntanlegra fjárfestinga erlendis, verður heldur ekki fallist á varakröfu stefnda og áfrýjandi einnig sýknaður af henni.
Eftir atvikum er rétt að hvor aðila beri sinn hluta af kostnaði við rekstur málsins á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnda, Birkis Leóssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2014.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 1. apríl 2014, er höfðað með stefnu útgefinni 27. júlí 2012 af Birki Leóssyni, Fannafold 176, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík.
Stefnandi gerir aðallega svofelldar dómkröfur á hendur stefnda:
1. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 24.129.367 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. mars 2009 til greiðsludags.
2. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 245.239,57 Bandaríkjadali (USD) með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. mars 2009 til greiðsludags en til vara að stefnda verði gert að greiða stefnanda 27.501.166 krónur með sömu vöxtum frá sama degi til greiðsludags.
3. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað eftir mati dómsins eða síðar fram lögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.
Til vara gerir stefnandi svofelldar dómkröfur á hendur stefnda:
Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 232.654,54 Bandaríkjadali (USD) með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. mars 2009 til greiðsludags, en til vara að stefnda verði gert að greiða stefnanda 26.089.880 krónur með sömu vöxtum frá sama degi til greiðsludags, og er þess í báðum tilvikum jafnframt krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað eftir mati dómsins.
Í upphaflegri kröfugerð krafðist stefndi þess að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að hann yrði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Þá krafðist stefndi þess að stefnandi yrði dæmdur til að greiða sér málskostnað að mati dómsins auk virðisaukaskatts. Stefnandi krafðist þess að frávísunarkröfu yrði hafnað. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2013 var frávísunarkröfu hafnað og ákvörðunar um málskostnað frestað til efnisdóms.
II.
Málsatvik
Í máli þessu er deilt um það hvort stefnda hafi verið heimilt að ráðstafa innistæðu á tveimur bankareikningum stefnanda, annars vegar gjaldeyrisreikningi og hins vegar tékkareikningi, til greiðslu skulda Drómundar ehf., áður Hverafoldar ehf., einkahlutafélagi í eigu stefnanda. á grundvelli handveðsyfirlýsingar sem stefnandi gaf út þann 25. apríl 2007 til handa Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt yfirlýsingunni setti og afhenti stefnandi Landsbanka hf. að handveði tilgreinda fjármálagerninga.
Stefndi var stofnaður 9. október 2008 með lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Fólu lögin meðal annars í sér breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og var Fjármálaeftirlitinu meðal annars fengnar heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Þann 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun á grundvelli 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum. Skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 og í samræmi við 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008, var Nýi Landsbanki Íslands hf., nú Landsbankinn hf., stofnaður.
Stefnandi byggir á því í stefnu að handveðsyfirlýsingin, sem stefnandi gaf út þann 25. apríl 2007 til handa Landsbanka Íslands hf., hafi verið gefin út til stefnda en ekki forvera hans Landsbanka Íslands hf., en skýrt má ráða af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu að hér er ekki um sama aðila að ræða. Ekki er ágreiningur um það milli málsaðila til hvers henni var beint heldur byggir stefnandi málssókn sína á því að handveðið hafi ekki átt að ná til söluandvirðis bréfanna.
Stefnandi hafði tvo bankareikninga hjá stefnda, annars vegar gjaldeyrisreikning í Bandaríkjadollurum (USD) nr. 0116-38-100800 og hins vegar tékkareikning nr. 0116-26-001704. Þá hafði stefnandi á vörslureikningi nr. 961905 hjá stefnda ýmsa fjármálagerninga, m.a. eignarhluti í „Landsbanki Global Equity Fund“, eignarhluti í „Global Value Portfolio-A-USD“ og eignarhluti í „Global Growth Trends Portfolio-A-USD“. Hinn 27. febrúar 2009 seldi stefndi greinda eignarhluti stefnanda í „Landsbanki Global Equity Fund“ og lagði söluverðið 27.710.315 krónur inn á tékkareikning stefnanda og hinn 2. mars 2009 seldi stefndi annars vegar greinda eignarhluti stefnanda í „Gobal Value Portfolio-A-USD“ og lagði söluverðið USD 115.420,39 inn á gjaldeyrisreikning stefnanda, og hins vegar greinda eignarhluti stefnanda í „Global Growth Trends Portfolio-A-USD“ og lagði söluverðið USD 129.819,18 inn á gjaldeyrisreikning stefnanda, samtals lagði stefndi því inn á gjaldeyrisreikninginn USD 245.239,57 vegna sölu verðbréfa stefnanda. Stefndi tók síðan þessa fjárhæð hinn 6. mars 2009 út af gjaldeyrisreikningnum og lagði hana inn á tékkareikning stefnanda sem 27.501.166 krónur. Sama dag tók stefndi síðan til sín 51.630.533 krónur af tékkareikningnum og greiddi sér með þeim ætlaða skuld Drómundar ehf. við sig að sömu fjárhæð.
Sú skuld Drómundar ehf. (áður Hverafold ehf.), sem stefndi greiddi sér með úttekt af tékkareikningi stefnanda nr. 0116-26-001704, var samkvæmt lánasamningi við Landsbanka Íslands hf. sem var nr. 7837, dags. 2. maí 2007, að fjárhæð 25.000.000 kr. og átti höfuðstóll skuldarinnar að breytast í réttu hlutfalli við gengi tveggja erlendra gjaldmiðla, þ.e. svissneskra franka (CHF) og japanskra jena (JPY). Stefnandi hafði óskað eftir þessu láni hjá stefnda og að lántakandi yrði einkahlutafélagið Hverafold ehf., sem væri í 100% eigu stefnanda.
Lánið var veitt í japönskum jenum og svissneskum frönkum, sbr. kaupnótu, dags. 4. maí 2007. Félagið óskaði eftir því að fá lánið greitt út í bandarískum dollurum og að andvirði lánsins yrði lagt inn á gjaldeyrisreikning stefnanda nr. 0116-38-100800 en hann er í bandarískum dollurum og stefnandi hafði stofnað reikning þennan þann 30. apríl 2007. Þann 2. maí 2007 óskaði starfsmaður lánavinnslu Landsbanka Íslands hf. eftir því við starfsmenn gjaldeyrisborðs bankans að fengið yrði gengi á CHF og JPY á móti USD. Þann 4. maí 2007 voru svo erlendu myntirnar seldar (CHF og JPY) og fyrir andvirði þeirra voru keyptir dollarar sem voru lagðir inn á gjaldeyrisreikning stefnanda nr. 0116-38-100800.
Lánið bar Drómundi ehf. að endurgreiða með einni afborgun í lok lánstímans þann 16. maí 2009.
Stefnandi hafði samband við Kristján Guðmundsson, þáverandi útibússtjóra stefnda, með tölvupósti, dags. 11. febrúar 2009, þar sem hann staðfesti að Drómundur ehf. ætti ekki fyrir skuldum og upplýsti að hann væri að reyna að bjarga félaginu og hefði hug á að forða félaginu frá gjaldþroti. Í tölvupósti þessum gerði stefnandi grein fyrir þeirri hugmynd sinni að hann myndi persónulega kaupa lánasamning Landsbankans á Drómund ehf. og greiða fyrir með því að selja þær eignir sínar sem bankinn hafði að veði. Síðan segir í tölvupóstinum: „Með þessari hugmynd um að ég kaupi kröfu Landsbankans á Drómund er ég að gera ráð fyrir að Landsbankinn fái alla kröfu sína greidda uppreiknaða með áföllnum vöxtum en bæti ekki á neinum aukakostnaði. Hver er afstaða bankans, er þetta eitthvað sem kæmi til greina að gera?“
Þann 17. febrúar 2009 svaraði þáverandi útibússtjóri stefnda erindi stefnanda með tölvupósti þar sem hann segir, „þetta gengur, ég læt innleysa bréfin.“
Stefnandi svaraði sama dag og þakkaði fyrir svör hans og sagði að hann legði mikla áherslu á að þetta væri framkvæmt eins og hann hefði mælt fyrir um, það er að hann eignaðist persónulega skuldabréfið eða lánasamninginn á Drómund ehf. „Þ.e ég kaupi þá pappíra af bankanum og fæ þá framselda og grundvalla síðan mína kröfu á Drómund á þeim lánasamningum. Þarf ég að koma við hjá þér til að skrifa undir eitthvað eða sendir þú mér pappírana. Viltu þá innleysa að fulla báða ACM sjóðina mína og það sem þarf af Landsbanka Global Equity fund upp í restina af kaupverðinu fyrir skuldabréfinu.“
Með tölvupósti daginn eftir tilkynnti lögmaður stefnda að bankinn hefði tekið þá stefnu að framselja ekki lánsskjöl samhliða uppgjöri. Þetta var stefnandi ekki sáttur við og málið dróst. Tölvusamskipti fóru fram milli stefnanda og starfsmanna stefnda þar sem reynt var að ná samkomulagi um það hvernig hægt væri að ganga frá málinu og útbúa skjöl varðandi greiðslu lánasamningsins þannig að stefnandi væri sáttur við það.
Í tölvupósti stefnanda til starfsmanns stefnda þann 24. febrúar 2009 kemur fram að stefnandi, samkvæmt ráðleggingum lögmanna, sætti sig alls ekki við yfirlýsingu sem fæli í sér að litið yrði svo á eða að túlkað yrði að hann ætti endurkröfu á Drómund ehf., enda væri það ekki það sem væri að gerast, heldur yrði hann að eignast kröfuna á Drómund ehf.
Þann 24. febrúar 2009 sendi útibússtjóri stefnda stefnanda tölvupóst þar sem segir: „Sæll Birkir, hvað segir þú um framhaldið?“
Með tölvupósti til stefnda þann 25. febrúar 2009 segist stefndi vera sammála stefnanda í grunninn varðandi endurkröfurétt, en vafi sé þar sem hann hafi ekki verið í persónulegri ábyrgð.
Stefnandi svarar síðan með tölvupósti, dags. 26. febrúar 2009 og segir: „Er ekki rétt að drífa í þessu og klára málið, innleysa sjóðina greiða fyrir lánið. Viltu láta mig vita hvenær ég má vænta þess að þessi mál verði frágengin.“
Daginn eftir, þann 27. febrúar 2009, byrjaði stefndi að selja hina handveðsettu fjármálagerninga og kláraði hann sölu þeirra þann 2. mars 2009.
Í handveðsyfirlýsingu stefnanda, dags. 25. apríl 2007, sem gefin var út til Landsbanka Íslands hf., kom fram að eftirtaldir fjármálagerningar, sem geymdir væru á vörslureikningi veðsala nr. 961905, væru settir að handveði til tryggingar skaðlausri greiðslu á skuldum þeim, sem Hverafold ehf., nú eða síðar standi í við veðhafa, en þessir fjármálagerningar voru:
Global Growth Trends Portfolio-A-USD að nafnvirði ISK 4.753,650,
Global Value Portfolio-A-USD að nafnvirði ISK 17.330,840,
Landsbankinn Global Equity Fund að nafnvirði ISK 30.413,8415,
American Value Portf. A-USD að nafnvirði 22.916,333.
Fjármálagerningar þessir voru á vörslureikningi í umsjón stefnda og náði handveðrétturinn til hvers konar endurgreiðslna af handveðsettum fjármálagerningum. Þá er ákvæði um það að stefnanda væri óheimilt að ráðstafa hinum veðsettu fjármálagerningum nema með skriflegu samþykki stefnda og þá skyldi söluandvirði ganga til lækkunar á skuld þeirri sem handveðið átti að tryggja. Þá var stefnda við vanskil á skuldum Drómundar ehf. heimilt að nota andvirði hinna veðsettu fjármálagerninga í heild eða að hluta til fullnustu þeirra skulda og kostnaðar sem handveðið átti að tryggja enda hefði stefndi áður skorað á stefnanda að greiða vanskilin og gefið honum eigi skemmri frest en 15 sólarhringa. Þá var jafnframt ákvæði um það að stefndi tæki hina veðsettu fjármálagerninga til sín til fullnustu kröfum sínum skyldi tilteknum aðferðum beitt við að ákveða verð þeirra. Þá var og ákvæði um að tæki stefndi andvirði hinna veðsettu fjármálagerninga til fullnustu á kröfum sínum skyldi undirritun stefnanda undir handveðsyfirlýsinguna jafngilda framsali á fjármálagerningnum til stefnda.
Með bréfi, dags. 12. maí 2009, krafðist stefnandi þess að stefndi skilaði sér fjármunum þessum. Stefndi hafnaði því og taldi að sér hefði verið heimilt að slá eign sinni á þessa fjármuni vegna þess að stefnandi hefði hinn 25. apríl 2007 veitt honum handveð í fjármálagerningunum með útgáfu sérstakrar handveðsyfirlýsingar til tryggingar öllum skuldum Drómundar ehf. við bankann. Stefndi hélt því fram að handveðið hefði færst yfir á bankainnstæðureikninga stefnanda. Stefnandi hélt því aftur á móti fram að handveðréttindi stefnda í fjármálagerningunum hefðu fallið niður við sölu þeirra og ráðstöfun andvirðisins inn á bankareikninga hans og stefnanda því verið óheimilt að taka fjármuni sína af bankareikningunum og höfðaði hann mál þetta til þess að stefndi yrði dæmdur til að greiða sér þá til baka með vöxtum.
Sú skuld Drómundar ehf., sem stefndi greiddi sér með fjármunum stefnanda hinn 6. mars 2009, eins og áður er rakið, var samkvæmt lánasamningi, útgefnum 2. maí 2007, að fjárhæð 25.000.000 króna og átti höfuðstóll skuldarinnar að breytast í réttu hlutfalli við gengi tiltekinna tveggja erlendra gjaldmiðla, þ.e. svissneskra franka (CHF) og japanskra jena (JPY). Stefndi reiknaði út skuld Drómundar ehf. á grundvelli þeirra forsendna og greiddi sér skuldina þannig reiknaða. Stefnandi telur að skuldin hafi frá upphafi verið ólöglega tengd við gengi þessara gjaldmiðla.
Stefnandi bar ágreining sinn við stefnda varðandi aðalkröfu sína undir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hinn 29. desember 2009, sem féllst á að stefndi hefði glatað veðréttindum sínum en hafnaði allt að einu kröfum stefnanda með þeim rökum að stefnandi myndi ella „auðgast með óréttmætum hætti“ á kostnað stefnda.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að samkvæmt handveðsyfirlýsingu þeirri sem hann gaf út til 25. apríl 2007 hafi veðréttur tekið til tiltekinna fjármálagerninga en þar hafi hins vegar ekki verið kveðið á um að veðrétturinn skyldi færast yfir á andvirði þeirra ef til sölu þeirra kæmi. Að lögum þurfi sérstaka yfirlýsingu veðsala ef svo eigi að vera, sbr. Hrd. í máli nr. 666/2010. Liggi þannig fyrir að stefndi hafi glatað handveðréttindum sínum í fjármálagerningunum þegar þeir voru seldir og andvirðinu ráðstafað inn á óveðsetta og kvaðalausa bankareikninga stefnanda. Beri stefnda því að endurgreiða stefnanda það fé sem hann hafi þannig ranglega af honum tekið eins og krafist sé í aðalkröfu.
Enginn samningur hafi verið gerður milli stefnanda og stefnda um að andvirði fjármálagerninganna, ef til sölu þeirra kæmi, væri veðsett bankanum. Stefnandi hafi heldur ekki með öðrum hætti heimilað stefnda að taka til sín umrædda fjármuni. Stefnandi vísar til skilmála sparireikninga hjá stefnda þar sem því sé lýst að skilyrði fyrir úttekt sé að viðkomandi hafi heimild til úttektar af reikningnum, viti leyninúmer og sýni fullgild persónuskilríki. Því sé ljóst að stefndi hafi hvorki haft samningsbundinn né lögbundinn rétt til að ráðstafa fjármununum af reikningum stefnanda eins og raun varð á. Engin heimild til handa stefnda til að slá eign sína á innstæður á bankareikningum stefnanda sé að finna í lögum nr. 75/1997 um samningsveð. Þvert á móti séu gerðar ríkar kröfur til þess að tryggilega sé gengið frá samningum ef stofna eigi til veðréttinda í fjármálagerningum. Stefnandi byggir á því að strangar kröfur séu gerðar til fjármálafyrirtækja og lánastofnana um að þær tryggi sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir tilvist veðréttinda sinna, umfangi þeirra og heimildir að öðru leyti. Beri lánastofnanir að öðrum kosti halla af sönnunarskorti í þeim efnum, sbr. Hrd., 1990 bls. 1250, Hrd. 1993 bls. 1882, Hrd. 1995 bls. 1807, Hrd. 1997 bls. 2805 og í sambærilegu máli og þessu Hrd. nr. 666/2010. Stefnda hafi verið í lófa lagið að ráðstafa söluandvirði fjármálagerninganna inn á reikning í sinni eigu hafi hann litið svo á að hann ætti andvirðið. Engu skipti í þessu sambandi þótt Drómundur ehf. hafi á greindum tíma skuldað stefnda einhverja fjármuni því stefnda hafi verið óheimilt að greiða þær skuldir með fjármunum stefnanda án hans samþykkis eftir að þeir voru komnir inn á kvaðalausa bankareikninga hans. Ráðstöfun stefnda hafi því verið ólögmæt og honum beri að endurgreiða stefnanda fjármunina ásamt dráttarvöxtum frá þeim degi er þeir voru frá honum teknir. Þá mótmælir stefnandi því sérstaklega að unnt sé að líta svo á að handveð stefnda í fjármálagerningum stefnanda hafi flust yfir á innlánsreikninga stefnanda við bankann þegar andvirði þeirra var lagt inn á þá. Stefnandi byggir á því að hafa skuli ákvæði 36. gr. a. og b. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 að leiðarljósi við túlkun samnings aðila.
Við aðalmeðferð mótmælti lögmaður stefnanda öllum rökum stefnda fyrir því að stefnandi myndi auðgast með ólögmætum hætti á kostnað stefnda yrði fallist á endurgreiðslukröfu hans og sýkna ætti stefnda af þeim sökum.
Stefnandi sundurliðar aðalkröfur sínar þannig að hann krefst annars vegar endurgreiðslu á 24.129.367 krónum og hins vegar endurgreiðslu á 245.239,57 Banaríkjadollurum (USD). Annars vegar byggir stefnandi á því að stefnda hafi verið óheimilt að taka 245.239,57 Banaríkjadollara (USD) af gjaldeyrisreikningi hans nr. 0116-38-100800 hinn 6. mars 2009 og beri honum að endurgreiða sér þá fjárhæð, alveg án tillits til þess að þeir fjármunir hafi samdægurs verið lagðir inn á tékkareikning stefnanda og síðan teknir af þeim reikningi, einnig með ólögmætum hætti. Hins vegar byggir stefnandi á að stefnda hafi verið óheimilt þann sama dag og hann lagði inn að taka til sín 51.630.533 krónur af tékkareikningi stefnanda nr. 0116-26-001704. Aðallega er því krafist endurgreiðslu á greindri fjárhæð í Bandaríkjadollurum og endurgreiðslu á 24.129.367 krónum, sem er mismunur á þeirri fjárhæð sem stefndi tók út af tékkareikningi stefnanda og þeim 27.501.166 krónum, sem hann hafði lagt inn á reikninginn sama dag sem andvirði hinnar erlendu fjárhæðar. Verði ekki fallist á að stefnandi geti krafið stefnda um endurgreiðslu á 245.239,57 banaríkjadollurum (USD) er þess til vara krafist að þess í stað verði stefnda gert að endurgreiða stefnanda andvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum eins og stefndi reiknaði það sjálfur 6. mars 2009, þ.e. 27.501.166 krónur. Fyrsta aðalkrafa og varakrafa annarrar aðalkröfu séu jafnar þeirri fjárhæð sem stefandi tók út af tékkareikningi stefnanda 6. mars 2009, þ.e. samtals 51.630.533 krónur (kr. 24.129.367 + kr. 27.501.166).
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda dráttarvexti af kröfðum fjárhæðum frá 6. mars 2009 en þann dag hafi stefndi tekið heimildarlaust hinar kröfðu fjárhæðir út af bankareikningum stefnanda.
Verði ekki fallist á aðalkröfur stefnanda og á því byggt að stefnda hafi verið heimilt að slá eign sinni á innstæður stefnanda svo sem að framan sé rakið, vegna þess að hann hafi notið veðréttinda í þeim eða af öðrum ástæðum, þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að skila stefnanda fjárhæð sem svari til mismunar þess sem hann tók af reikningunum og fjárhæðar, sem hann átti réttmæta kröfu á hinn 6. mars 2009, til uppgreiðslu á skuld Drómundar ehf., samkvæmt lánssamningnum frá 2. maí 2007, sem stefandi setti fjármálagerninga sína að veði fyrir. Stefnandi byggir á því að lánssamningurinn, sem upphaflega var að fjárhæð 25.000.000 króna, hafi ólöglega verið bundinn við gengi erlendra gjaldmiðla og að stefndi hafi hinn 6. mars 2009 tekið sér 51.630.533 krónur til uppgreiðslu þess í stað 25.540.653 króna, sem hann hafi að réttu lagi átti rétt til.
Stefnandi byggir á því að taka beri varakröfu hans til greina vegna þess að sú skuldbinding Drómundar ehf. í greindum lánssamningi að lánsfjárhæð sú sem upphaflega var tekin að láni hjá stefnda, 25.000.000 króna, ætti að taka breytingum í samræmi við breytingar á gengi svissneskra franka (CHF) og japanskra jena (JPY) sé ógild. Skuldbindingin hafi verið ógild við undirritun lánssamningsins hinn 2. maí 2007, með vísun til ófrávíkjanlegra ákvæða 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. fordæmi Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010, 471/2010, 603/2010, 604/2010, 30/2011, 31/2011 og 155/2011 en lánssamningur sá sem lýst sé í síðastgreinda málinu sé sambærilegur þeim lánssamningi sem mál þetta tekur til. Á því sé byggt að raunverulega hafi verið um að ræða lán í íslenskum krónum, sem ólöglega var bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Þessu til stuðnings vísar stefnandi sérstaklega til:
1. Lánið var í grunninn ákveðið sem lán í íslenskum krónum eins og heiti lánssamningsins ber með sér en á forsíðu hans er lánveitingin tilgreind að vera: „ISK 25.000.000,- LÁNSSAMNINGUR.
2. Lánsfjárhæðin er í íslenskum krónum samkvæmt orðalagi lánssamningsins, sbr. upphafsákvæði hans um „fjölmyntalán að jafnvirði kr. 25.000.000, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 50% og JPY 50%“. Eina tilgreiningin á fjárhæð lánsins í lánssamningi er í íslenskum krónum. Lánsfjárhæðin er ekki tilgreind í erlendum gjaldmiðlum.
3. Drómundur ehf. greiddi þær vaxtaafborganir af láninu, sem gjaldféllu á lánstímanum, með íslenskum krónum enda sérstaklega umsamið að skuldfæra ætti íslenskan tékkareikning stefnanda nr. 0116-26-1704 fyrir afborgunum, sbr. grein 2.2. í lánssamningnum og viðauka 1 með honum. Drómundur ehf. efndi þannig samningsskyldur sínar með íslenskum krónum.
4. Stefndi greiddi lánið ekki út í þeim viðmiðunargjaldmiðlum, svissneskum frönkum (CHF) og japönskum jenum (JPY), sem um var samið, með ólögmætum hætti, að endurgreiðsla lánsins í íslenskum krónum ætti að taka mið af. Stefndi efndi samningsskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með því að leggja lánsfjárhæðina inn á gjaldeyrisreikning stefnanda í Bandaríkjadollurum (USD) nr. 0116-38-100800. Ástæða þessa var að lántakinn, skuldarinn, Drómundur ehf. skuldaði stefnanda bandaríkjadollara og þegar stefnandi fékk þær upplýsingar frá stefnda að lánið yrði greitt út til lántaka í íslenskum krónum þá óskaði stefnandi fyrir hönd Drómundar ehf. sérstaklega eftir því að lánsandvirðið yrði lagt inn á fyrrnefndan USD gjaldeyrisreikning í eigu stefnanda.
5. Kveðið var á um í grein 2.3 að ef Drómundur ehf. fái heimild til að greiða lánið hraðar niður skuli lágmarksgreiðsla nema a.m.k. jafnvirði 1 milljónar íslenskra króna hverju sinni.
6. Í grein 4.1 er skýrt fjallað um skuldina í eintölu. Því er um að ræða eitt gengistryggt lán. Í greininni er kveðið á um heimild til að breyta gjaldmiðlum, en þar kemur glöggt fram að hinir erlendu gjaldmiðlar voru til viðmiðunar um höfuðstól skuldarinnar í íslenskum krónum. Við breytingar á viðmiðunargjaldmiðlum bar enda að miða við kaup- og sölugengi á íslensku krónunni.
7. Í greinum 7.1 og 11.2 er stefnda veitt heimild til að umreikna skuldina yfir í íslenskar krónur við vanskil.
8. Í greinum 2.5 og 11.3 kemur fram að dráttarvextir við vanskil skuli vera íslenskir dráttarvextir en ekki dráttarvextir á þá gjaldmiðla sem höfuðstóll skuldarinnar miðaðist við, eða viðbótarálag á Libor vexti eins og algengt er á erlendum lánum.
Þá vísaði stefnandi til þess að hann hefði hvorki afrit lánsumsóknar undir höndum né önnur gögn varðandi lánsbeiðnina sem hafi orðið til þess að stefndi veitti Drómundi ehf. (hét þá Hverafold) gengistryggt lán að fjárhæð 25.000.000 íslenskra króna. Í varakröfu byggi stefnandi á því að stefndi geti ekki talist hafa átt veðréttindi í fjármálagerningum stefnanda umfram fjárhæð þeirrar skuldar sem þau hafi átt að tryggja. Stefnda beri því að skila stefnanda ofteknum fjármunum.
Varakröfu sína sundurliðar stefnandi þannig að Drómundur ehf. hafi verið í skilum með greiðslur gjaldfallinna vaxta af láninu en höfuðstólinn hafi félaginu borið að greiða í lok lánstímans með einni greiðslu þann 16. maí 2009. Samtals hafi Drómundur ehf. greitt vexti í samræmi við ákvæði lánssamningsins hinn 16. nóvember 2007, 16. maí 2008 og 17. nóvember 2008 á grundvelli greiðsluseðla frá stefnda og fengið fullnaðarkvittanir við greiðslu þeirra fyrir greiðslu vaxtanna og kostnaðar, samtals að fjárhæð 2.316.374 krónur. Áður en til næsta gjalddaga kom, sem vera átti 16. maí 2009, hafi stefndi hins vegar gjaldfellt lánssamninginn hinn 6. mars 2009 og tekið sér 51.630.533 krónur til uppgreiðslu hans svo sem að framan sé rakið. Á þeim tíma hafi réttmæt krafa stefnda á hendur Drómundi ehf. samkvæmt lánssamningnum hins vegar verið að fjárhæð 25.540.653 krónur, annars vegar höfuðstóllinn að fjárhæð 25.000.000 króna og hins vegar áfallnir vextir frá 17. nóvember 2008 til 6. mars 2009 að fjárhæð 540.653 krónur. Varakrafan sé því mismunur þeirrar fjárhæðar sem stefndi hafi tekið sér hinn 6. mars 2009 og þeirrar fjárhæðar sem hann hafi átt réttmæt tilkall til úr hendi Drómundar ehf. á þeim degi eða 26.089.880 krónur ( 51.630.533 krónur 25.540.653 krónur).
Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði sér dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. mars 2009 en þann dag hafi stefndi tekið sér umkrafða fjármuni með ólögmætum hætti frá stefnanda.
Stefnandi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar innan og utan samninga og til samningalaga nr. 7/1936, til laga nr. 75/1997 um samningsveð og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Um varnarþing vísar stefndi til 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og til 129. gr., 130. gr. og 131. gr. sömu laga varðandi málskostnað.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og byggir á því að komist hafi á samningur milli stefnanda og stefnda þess efnis að stefndi myndi selja hina handveðsettu fjármálagerninga og nota andvirði þeirra til þess að greiða upp lán Drómundar ehf. Uppgreiðsla á láni Drómundar ehf. hafi farið fram eftir nákvæmum fyrirmælum og leiðbeiningum stefnanda, sem komi fram í tölvupóstsamskiptum milli hans og starfsmanna bankans. Stefnandi geri þar ákveðnar kröfur um framgang uppgjörsins og vísar stefndi þar sérstaklega til þess að stefnandi hafi haft hug á því að fá viðskiptaskjölin framseld svo hann gæti örugglega haldið uppi kröfu vegna uppgreiðslunnar gagnvart Drómundi ehf. Einnig komi fram í þessum tölvupóstsamskiptum að stefnandi hafi notið ráðgjafar lögmanns við uppgreiðsluna. Stefndi hafi reynt til koma á móts við óskir stefnanda að svo miklu leyti sem honum hafi verið unnt en hann hafi ekki getað orðið við ósk hans um að framselja honum lánssamninginn. Aðdragandi uppgreiðslunnar eigi því rætur sínar að rekja til þess að stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að fá að greiða upp lán Drómundar ehf. í tengslum við endurskipulagningu félagsins, sbr. tölvupóst, dags. 11. febrúar 2009. Salan á fjármálagerningunum og uppgreiðsla lánsins hafi farið fram að frumkvæði stefnanda og í samræmi við óskir hans. Stefndi hafi ekki verið að leysa til sín hina handveðsettu fjármálagerninga heldur að selja þá að beiðni stefnanda og nota andvirði þeirra til að greiða upp lánið. Stefndi hafi því selt fjármálagerningana og lagt andvirði þeirra í USD inn á gjaldeyrisreikning stefnanda og það sem seldist í íslenskum krónum inn á tékkareikning stefnanda. Þannig hafi stefnandi getað séð hvert var söluandvirði þeirra. Stefndi hefði getað lagt andvirði fjármálagerninganna inn á reikning í sínu nafni en í ljósi samnings aðila um uppgreiðslu lánsins hafi verið ákveðið að leggja inn á framangreinda reikninga svo stefnandi sæi hvert söluandvirði þeirra væri og gæti fylgst með framvindu uppgreiðslunnar.
Stefndi telur að stefnandi leitist við í stefnu sinni að setja aðdraganda og atburðarás málsins í búning atburðarásar dóms Hæstaréttar Íslands nr. 666/2010 sem stefnandi vísi til í stefnu en hún sé afar ólík aðdraganda þessa máls og telur stefndi að sá dómur hafi ekkert fordæmisgildi í þessu máli. Fyrir liggi í þessu máli að stefnandi hafi óskað eftir því að stefndi seldi hina handveðsettu fjármálagerninga og notaði andvirði þeirra til þess að gera upp lánið. Stefndi hafi lagt fram tölvupóstsamskipti stefnanda og starfsmanna stefnda þessu til sönnunar. Stefnandi hafi sent tölvupóst á starfsmann stefnda þann 26. febrúar 2009 með eftirfarandi skilaboðum: „Sæll Kristján. Er ekki rétt að drífa í þessu og klára málið, innleysa sjóðina og greiða fyrir lánið. Viltu láta mig vita hvenær ég má vænta þess að þessi mál verði frágengin. Kveðja, Birkir.“
Í kjölfarið hafi stefndi framfylgt þessum fyrirmælum stefnanda, innleyst sjóðina og greitt upp lánið. Stefndi hafnar því að nokkuð í viðskiptum stefnanda við stefnda hafi verið framkvæmt án heimildar eins og komi fram í stefnu og ítrekar að allar aðgerðir hafi verið framkvæmdar í samræmi við kröfur stefnanda. Það sé því ljóst að um var að ræða uppgreiðslu lánsins að frumkvæði stefnanda og því hafi aldrei komið til skoðunar að leysa handveðið eða andvirði þess til stefnda á grundvelli skilmála handveðssamningsins og/eða lánssamningsins.
Ef ekki verður fallist á það með stefnda að sala á fjármálagerningum stefnanda og uppgreiðsla lánsins hafi verið í samræmi við vilja og óskir stefnanda þá telur stefndi að handveð hans hafi náð yfir andvirði hinna seldu fjármálagerninga. Slík túlkun sé í fullkomnu samræmi við handveðsyfirlýsingu þá sem fyrir liggi í máli þessu og skilmála hennar. Þar komi fram að handveðsetningin nái til hvers konar endurgreiðslna handveðsettra fjármálagerninga, sjá dskj. nr. 3, bls. 2. Jafnframt komi fram að: „Verði vanskil á þeim skuldum sem handveðið á að tryggja eða veðsali hefur brotið gegn ákvæðum þessarar yfirlýsingar er veðhafa heimilt að nota andvirði hinna veðsettu fjármálagerninga í heild að hluta til fullnustu þeirra skulda og kostnaðar sem handveðið á að tryggja.“ Stefndi telur því að veðhafi hafi skv. skilmálum þessum getað selt í heild sinni eða að hluta handveðsetta hlutum veðsala í fjármálagerningum til þess að greiða það sem handveðsetningin var sett til að tryggja. Því til stuðnings bendir stefndi á að væri sú staða uppi að aðeins þyrfti að selja hluta þeirra fjármálagerninga sem handveðsettir væru stæði næst að selja einungis nægilegt magn hluta verði það best gert með því að selja þá í nafni veðsala og séu þá hans réttindi best varin varðandi þá hluti og andvirði þeirra sem eftir standi við uppgjör.
Stefndi bendir jafnframt á að þó að skilmálar handveðsyfirlýsingar séu ekki með þeim hætti að þeir næðu yfir andvirði seldra fjármálagerninga þá færist veðsetningin yfir á bankareikning þann sem andvirðið er lagt inn á, jafnvel þó aðhann sé ekki læstur eða tryggður með öðrum sambærilegum hætti enda væri það hluti af uppgjöri samningsins og hafi legið fyrir að um var að ræða andvirði handveðsettu eignanna og að það myndi einungis vera í mjög stutta stund á reikningnum en það byggist á ígildisreglu veðréttar. Stefndi hafnar því alfarið að ákvæði handveðsyfirlýsingarinnar og lánssamningsins stangist á við 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Stefnandi hafi á engan hátt fært rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni og bendir stefndi á að stefnandi sé reynslumikill löggiltur endurskoðandi eigandi einnar stærstu endurskoðendaskrifstofu landsins og geti ekki með trúverðugum hætti haldið því fram að skilmálar lánssamnings sem hann undirritar séu honum torskildir eða að hann myndi undirrita viðskiptaskjöl sem væru honum óhagstæð eða andstæð lögum. Í þessu samhengi vísar stefndi til tölvupóstsamskipta stefnanda við starfsmenn Landsbanka Íslands hf. í aðdraganda lánveitingarinnar og kröfur hans um breytingar á einstökum ákvæðum lánssamningsins.
Stefndi telur að ef krafa stefnanda nær fram að ganga muni það leiða til ólögmætrar auðgunar hans. Að mati stefnda hefði stefnanda verið óheimilt að reyna að ráðstafa andvirði handveðsettu eignanna áður en það yrði nýtt til uppgreiðslu lánsins. Kæmist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi hefði ekki viðhaft rétta aðferð við uppgreiðslu lánsins krefst stefndi þess samt sem áður að hann verði sýknaður á grundveli þess að stefnandi myndi með óréttmætum hætti auðgast á kostnað stefnda. Í íslenskri löggjöf má finna þess dæmi að byggt sé á viðhorfum um óréttmæta auðgun, sbr. t.d. 74. gr. víxillaga nr. 93/1933 og 57. gr. laga nr. 94/1933 um tékka og samkvæmt eðli máls verði að líta til þess að stefnandi geri kröfu um að sér verði greiddir fjármunir sem hann óskaði eftir að yrði ráðstafað til greiðslu láns sem hann hafði veitt handveð fyrir. Stefndi vísar til stuðnings máli sínu til úrskurðar úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki frá 27. apríl 2010 í máli nr. 66/2009 þar sem úrskurðarnefndin fjallaði um kvörtun stefnanda við stefnda. Stefndi vísar í þessu samhengi í dóm Hæstaréttar frá 19. júní 2003 í máli Samtaka um kvennaathvarf gegn Auði Einarsdóttur í máli nr. 39/2003. Stefndi telur ljóst að ef stefnda væri gert að greiða fjárhæðina myndi það valda samsvarandi tapi fyrir hann og á sama tíma myndi stefnandi auðgast um sömu fjárhæð enda hafi hann verið skuldbundinn að lögum til að tryggja efndir lánsins sem félagi hans var veitt. Það liggi fyrir að lánið hafi verið veitt til persónulegra fjárfestinga stefnanda en hann hafi kosið að taka lánið í nafnið einkahlutafélags sem var 100% í hans eigu og hafi stefnandi veitt handveð í eignum sínum til tryggingar láninu. Andvirði lánsins hafi verið lagt inn á persónulega reikninga stefnanda og stefnandi notað það í fjárfestingar sem ætlaðar hafi verið til þess að hann auðgaðist. Hvort sem þær fjárfestingar hafi reynst stefnanda arðbærar eða ekki komi ekki til skoðunar í máli þessu, heldur að hann fékk fjármunina afhenta og hafi greitt þá til baka, sbr. umdeilt uppgjör lánsins. Fái hann fjármunina afhenta á nýjan leik muni hann því auðgast um þá fjárhæð á kostnað stefnda þar sem það liggi fyrir að Drómundur hf. eigi engar eignir og geti ekki greitt kröfuna.
Stefndi hafnar því að stefnandi geti krafið hann um endurgreiðslu á 245.239,45 USD. Ofangreind fjárhæð hafi verið tekin út af gjaldeyrisreikningi stefnanda þann 6. mars 2009 og hafi dollararnir verið seldir og andvirði þeirra, 27.501.166 kr. lagðir inn á tékkareikning stefnanda. Hugsanlegt tjón stefnanda getur því aldrei verið meira en sem nemi andvirði dollaranna, 27.501.166 kr.
Stefndi krefst sýknu af varakröfu stefnanda vegna aðildarskorts samkvæmt 2. mgr. 16. gr. eml. Stefnandi sé ekki aðili að lánasamningi nr. 7837 og geti því ekki verið aðili að máli sem varði það hvort lánasamningurinn sé löglegt erlent lán eða innihaldi ákvæði sem feli í sér ólögmæta gengistryggingu.
Stefndi telur að lánasamningur nr. 7837 sé lögmætt erlent lán. Stefndi hafnar fullyrðingum stefnanda um að lánssamningurinn feli í sér ákvæði sem tengi hann með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla. Lánssamningurinn kveði á um lán að jafnvirði 25.000.000 kr. í japönskum jenum (50%) og í svissneskum frönkum (50%), sbr. kaup á þeim gjaldmiðlum á kaupnótu. Fyrir liggi beiðni, undirrituð af stefnanda f.h. Drómundar ehf. (þá. Hverafold ehf.), þar sem hann geri kröfu á grundvelli lánssamningsins um að lánsfjárhæðin verði greidd inn á persónulegan gjaldeyrisreikning stefnanda nr. 116-38-100800, sem hann stofnaði fyrir það tilefni sbr. umsókn dags. 30. apríl 2007. Félagið hafi óskað eftir að lánið yrði greitt út í bandarískum dollurum enda væri það hagræði fyrir stefnanda, sem hafi verið 100% eigandi þess, þar sem hann ætlaði þá til fjárfestinga í bandarískum félögum eða hlutabréfasjóðum utan Bandaríkjanna en skráðum á bandarískum mörkuðum. Ljóst sé af framlögðum gögnum í málinu að stefndi hafi efnt skyldu sína samkvæmt lánasamningnum með því að greiða erlenda mynt, USD, inn á gjaldeyrisreikning stefnanda. Félagið hafi skuldbundið sig til að greiða það til baka í erlendum gjaldmiðlum og heimilað að tékkareikningur stefnanda yrði gjaldfærður fyrir fjárhæð vaxta og höfuðstóls lánsins. Stefndi hafi því tekið íslenskar krónur út af reikningnum og keypt USD og greitt inn á lánið en stefndi hafi ekki talið sig geta neitað stefnanda um það að skuldfæra íslenskan tékkareikning fyrir greiðslunum enda séu íslenskar krónur lögmætur greiðslueyrir á Íslandi. Lánasamningurinn hafi því falið í sér skyldu beggja samningsaðila til að efna samningsskyldu sína í erlendum myntum.
Skuldbindingar samningsaðila á grundvelli lánssamningsins hafi því verið skuldbinding í erlendri mynt sem falli utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Lántaka og stefnanda hafi borið að efna gerða samninga og virða skuldbindingu þeirra. Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda sem fram komi í stefnu um að lánið hafi verið „tekið“ í íslenskum krónum sem taka ættu breytingum í samræmi við gengi svissneskra franka og japanskra jena. Í því samhengi sé því sérstaklega mótmælt að dómar sem stefnandi vísi til í stefnu sinni hafi fordæmisgildi í máli þessu og bendir hann á að nýjasti dómurinn af þeim sem stefnandi vísar til sé dómur í máli nr. 155/2011, Landsbanki Íslands gegn þrotabúi Mótormax. Eftir þetta hafi Hæstiréttur Íslands kveðið upp marga dóma sem skýri betur réttarsviðið. Í Mótormax dómnum hafi verið um að ræða lánssamning sem kveðið hafi á um íslenskar krónur sem tækju mið af erlendum gjaldmiðlum og efndir beggja aðila hafi verið í íslenskum krónum. Í máli þessu hafi útgreiðsla lánsins verið í erlendri mynt og lántakinn átt kost á að greiða lánið í erlendri mynt eða íslenskum krónum. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 332/2012, Íslandsbanki hf. gegn Asknesi hf., hafi Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að lán sem greitt sé út í erlendri mynt teljist lögmætt erlent lán þó svo að lánssamningurinn kveði á um íslenskar krónur að jafnvirði erlendra gjaldmiðla. Jafnframt vísi stefndi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli, nr. 3/2012, Arion banki hf. gegn Hætti ehf.
Stefndi bendir einnig á að stefnandi, sem sé löggiltur endurskoðandi og eigandi einnar stærstu endurskoðendaskrifstofu landsins, hafi greitt upp lánið án nokkurs fyrirvara um það að lánið innihéldi ákvæði um ólögmæta gengistryggingu. Stefnandi hafi þannig sýnt í verki að hann teldi að aðilar lánasamningsins hefðu tekið á sig skuldbindingar í erlendri mynt enda hafi hann fengið lánið greitt út í USD á gjaldeyrisreikning sinn.
Ef ekki verður fallist á það með stefnda að lánið sé lögmætt erlent lán heldur lán sem innihaldi ólögmæta gengistryggingu og að stefnda beri að endurreikna lánið þá telur stefndi að endurreikna verði lánið í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Stefndi bendir á að ákvæði laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, kveði skýrt á um það hvernig standa eigi að endurreikningi lána sem innihaldi ólögmæta gengistryggingu. Þar komi fram í 3. mgr. 18. gr. að við endurreikninginn skuli nota vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laganna. Þessi aðferð við endurreikning hafi verið staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010, sem kveðinn var upp 16. september 2010, en þar hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt væri að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Niðurstaða réttarins hafi verið sú að samið hafði verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Segi síðan orðrétt í dómnum um hvaða vexti eigi þá að miða við: “Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 skulu vextir þegar svo stendur á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna.
Stefndi telur að niðurstaða Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011 hafi ekkert fordæmisgildi við endurreikning á láni stefnanda og að við endurreikning eigi að reikna vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu allt frá lántökudegi. Stefndi vísi til meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi sem fengið hafi minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum við skuldara, eigi tilkall til viðbótargreiðslu. Atvik séu ekki með þeim hætti varðandi lán stefnanda að víkja beri frá meginreglu þessari.
Stefndi mótmælir sérstaklega upphafstíma á dráttarvaxtakröfum stefnanda, bæði í aðal- og varakröfu. Stefndi telur að upphafstími dráttarvaxta eigi að taka mið af ákvæði 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 75/1995, um samningsveð, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og meginreglna samninga- og veðréttar.
Krafa stefnda um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.
IV.
Niðurstaða
Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort stefnda hafi verið heimilt að ráðstafa innistæðu á tveimur bankareikningum stefnanda, annars vegar gjaldeyrisreikningi og hins vegar tékkareikningi, til greiðslu lánasamnings Drómundar ehf., áður Hverafoldar ehf.
Umræddir fjármálagerningar stefnanda voru eins og rakið hefur verið settir að handveði til tryggingar lánasamnings Drómundar ehf. við Landsbanka Íslands hf., en stefndi tók síðan við lánasamningi þessum eins og rakið hefur verið. Samkvæmt ákvæðum handveðsyfirlýsingarinnar var stefnanda óheimilt að ráðstafa þeim nema að fyrir lægi skriflegt samþykki veðhafa og skyldi söluandvirði þá ganga til lækkunar á þeirri skuld sem veðið átti að tryggja. Veðhafi átti við vanskil að fá fjármálagerningana framselda, en undirritun stefnanda undir handveðsyfirlýsinguna skiydi jafngilda framsali hans á fjármálagerningunum. Áður en veðhafi gæti gripið til þessa úrræðis bar honum að skora á stefnanda að greiða vanskilin innan að minnsta kosti 15 sólarhringa frests. Að þeim fresti liðnum væri veðhafa heimilt að selja eða ráðstafa fjármálagerningunum með öðrum hætti eða nota andvirði þeirra til lækkunar á skuldum Drómundar ehf. Ekkert liggur fyrir um að stefndi hafi beint slíkri áskorun að stefnanda.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi glatað handveðréttindum sínum í fjármálagerningunum þegar stefndi, eftir sölu þeirra, ráðstafaði söluandvirðinu inn á óveðsetta og kvaðalausa bankareikninga stefnanda.
Stefndi byggir á því að þó að skilmálar handveðsyfirlýsingarinnar væru ekki með þeim hætti að þeir næðu yfir andvirði seldra fjármálagerninga þá hafi veðsetningin færst yfir á bankareikning þann sem andvirðið var lagt inn á þó að hann væri ekki læstur eða tryggður með öðrum sambærilegum hætti.
Samkvæmt handveðsyfirlýsingunni tók veðréttur stefnda til tiltekinna fjármálagerninga en ekki var kveðið á um að veðrétturinn skyldi færast yfir á andvirði þeirra ef til sölu kæmi, en að lögum þarf slík yfirlýsing af hálfu veðsala að liggja fyrir ef svo á að vera.
Ekki er í lögum 75/1997 um samningsveð heimild til handa stefnda til að slá eign sinni á innistæður á bankareikningum stefnanda eins og hann gerði. Gerðar eru ríkar kröfur til fjármálafyrirtækja og lánastofnana um að tryggja sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir tilvist veðréttinda sinna og heimildir að öðru leyti. Í 3. tölulið 1. gr. laga um samningsveð er handveð skilgreint þannig að átt sé við veðrétt þar sem veðsali er sviptur umráðum hins veðsetta. Verður því að líta svo á að stefndi hafi glatað handveðréttindum sínum þegar hann ráðastafaði söluandvirði fjármálagerninganna inn á óveðsetta og kvaðalausa bankareikninga stefnanda.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að uppgreiðsla á láni Drómundar ehf. hafi farið fram eftir nákvæmum fyrirmælum og leiðbeiningum stefnanda, sem komi fram í tölvupóstsamskiptum milli hans og starfsmanna bankans þannig að komist hafi á samningur milli stefnanda og hans þess efnis að stefndi myndi selja hina handveðsettu fjármálagerninga og nota andvirði þeirra til þess að greiða upp lán Drómundar ehf.
Stefnandi byggir á því að enginn samningur hafi verið gerður milli stefnanda og stefnda um að andvirði fjármálagerninganna ef til sölu kæmi væri veðsett bankanum eða hafi hann með öðrum hætti heimilað stefnda að taka til sín umrædda fjármuni.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið um samskipti stefnda og stefnanda í aðdraganda þess að stefndi greiddi vanskil Drómundar ehf. við stefnda með fé af bankareikningum stefnanda er ekki hægt að líta svo á að komist hafi á samningur um heimild stefnda til að taka söluandvirði fjármálagerninganna út af bankareikningum stefnanda í þessu skyni. Stefnda hafi því verið óheimilt að taka 245.239,57 USD út af gjaldeyrisreikningi stefnanda og leggja inn á tékkareikning stefnda sem 27.501.166 krónur þann 6. mars 2009 og taka sama dag til sín 51.630.533 krónur af tékkareikningnum og greiða sér með þeim ætlaða skuld Drómundar ehf. við sig að sömu fjárhæð.
Stefndi byggir á því að verði fallist á endurgreiðslu kröfur stefnanda leiði það til óréttmætrar auðgunar hans og líta verði til þess að stefnandi gerði kröfu um að sér yrði greiddir fjármunir sem hann hafi óskað eftir að ráðstafað yrði til greiðslu láns sem hann hafi veitt handveð fyrir. Stefndi vísar til þess að hann hefði getað lagt andvirði fjármálagerninganna inn á reikning í sínu nafni en í ljósi samnings aðila um uppgreiðslu lánsins hafi verið ákveðið að leggja inn á framangreinda reikninga svo að stefnandi sæi hvert söluandvirði þeirra væri og gæti fylgst með framvindu uppgreiðslunnar.
Varðandi þetta verður að líta til þess að stefnda var í lófa lagið að fara þá leið sem mælt var fyrir um í skilmálum handveðsyfirlýsingarinnar og leggja söluandvirði inn á eigin reikning. Ekki verður fallist á þau rök stefnda að í ljósi samningsaðila hafi verið rétt að leggja söluandvirðið inn á reikninga stefnda. Ljóst er að kvittanir fyrir sölu og innborgunum hefðu þjónað sama tilgangi. Stefnandi var eigandi umræddra fjármálagerninga sem hann setti að handveði til tryggingar skuld þriðja aðila. Stefnandi hafði boðist til að greiða upp umræddan lánasamning Drómundar ehf. gegn því að hann fengi lánasamninginn framseldan og útibússtjóri stefnda hafði samþykkt það í tölvupósti. Það samþykki var síðan afturkallað eins og rakið hefur verið.
Við mat á því hvort um óréttamæta auðgun stefnanda sé að ræða í máli þessu verður að líta til allra aðstæðna. Tjón stefnda af því að endurgreiða þá fjármuni sem hann tók án heimildar af bankareikningum stefnanda verður fyrst og fremst rakið til þess að ekki var staðið rétt að málum af hálfu stefnda við sölu umræddra fjármálagerninga í nafni stefnanda og millifærslu og úttektir af reikningum hans hjá stefnda. Gera verður þá kröfu til fjármálastofnunar að rétt sé staðið að málum í tilvikun eins og hér um ræðir og verður ekki fallist á að um óréttamæta auðgun stefnanda sé að ræða þó að stefndi hafi glatað handveðrétti sínum vegna eigin mistaka.
Að öllu framanskráðu athuguðu og virtu er það niðurstaða dómsins að fallast beri á þær dómkröfur stefnanda, sbr. kröfu 1 og varakröfu í lið 2, að stefnda beri að endurgreiða stefnanda þá fjármuni sem hann tók út af tékkareikningi stefnanda nr. 0116-26-001704, samtals að fjárhæð 51.630.533 krónur. Ekki verður hins vegar fallist á að stefnandi eigi rétt á endurgreiðslu í Bandaríkjadölum vegna þeirra 245.239,45 USD sem stefndi tók út af gjaldeyrisreikningi stefnanda þann 6. mars 2009 og seldi og lagði andvirði þeirra, 27.501.166 krónur, inn á tékkareikning stefnanda þar sem hugsanlegt tjón hans vegna þessa verður ekki metið hærra en nemur söluandvirði dollaranna.
Fyrir liggur að með bréfi, dags. 12. maí 2009, krafðist stefnandi þess að stefndi skilaði sér fjármunum þeim sem hér um ræðir og reiknast upphafstími dráttarvaxta því samkvæmt 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefndi greiði stefnanda 51.630.533 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júní 2009.
Í samræmi við þessa niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn eins og kveðið er á um í dómsorði.
Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Dómari og lögmenn aðila eru sammála um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Landsbankinn hf., greiði stefnanda, Birki Leóssyni, 51.630.533 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júní 2009 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 2.400.000 krónur í málskostnað.