Hæstiréttur íslands

Mál nr. 195/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. júní 2004.

Nr. 195/2004.

Jakob A. Traustason

(sjálfur)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var máli J á hendur íslenska ríkinu vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2004 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Til vara krefst hann þess að hann „fái í málinu að koma að lagfæringu og skýringum á kröfugerð, sem héraðsdómari hafnaði í þinghaldi 23. mars sl. og að héraðsdómari taki í úrskurði afstöðu til kröfugerðar og sakarefnis málsins með tilliti og í framhaldi þess.“ Þá krefst sóknaraðili aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar en til vara að hann verði sýknaður af málskostnaðarkröfu í héraði og kærumálskostnaður verði felldur niður.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á, að hann hafi ekki notið leiðbeininga héraðsdómara, en gögn málsins benda til hins gagnstæða. Kæruheimild skortir fyrir varakröfu sóknaraðila og verður henni því ekki sinnt. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Jakob A. Traustason, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2004.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda þriðjudaginn 23. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jakobi A. Traustasyni [...] með stefnu birtri 14. apríl 2003 á hendur íslenzka ríkinu.

 

         Dómkröfur stefnanda eru svohljóðandi:

         Aðallega, að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi eigi bótakröfu á hendur íslenzka ríkinu og ríkissjóði vegna eftirfarandi:

         A.            Vegna þess að stefnandi fékk ekki dóm fyrir þeim sömu kröfum, sem hann gerði í héraðsdómsmálinu nr. E-1151/2000 í framhaldi þess, að hann áfrýjaði þar hlutaðeigandi héraðsdómi til Hæstaréttar Íslands, er þá varð að hæstaréttarmáli nr. 108/2001, ásamt einnig vegna þess að hann fékk ekki dæmdan til sín málskostnað vegna þessara mála fyrir héraði og Hæstarétti.

         A.1.         Vegna þess að stefnandi var dæmdur til að greiða málskostnað í hæstaréttar­málinu nr. 108/2001.

         B.            Vegna þess að stefnandi fékk ekki dæmdan til sín málskostnað í héraðsdómsmáli nr. E-3322/1998 við Héraðsdóm Reykjavíkur, þannig að hann yrði skaðlaus, ásamt vegna þess að hann var þá dæmdur til að greiða málskostnað.

         B.1.         Vegna þess að stefnandi fékk ekki dæmdan til sín málskostnað í kærumálum nr. 171/1999 og nr. 282/1999 fyrir Hæstarétti Íslands, þannig að hann yrði skaðlaus, ásamt vegna þess að hann var þá dæmdur til að greiða málskostnað.

 

A.2 og B.2.      Fyrir dráttarvöxtum af ofangreindum kröfuliðum A. til B.l, frá tjónsdögum til greiðsludags, samkvæmt ákvæðum í vaxtalögum nr. 25/1987 og lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

         Til vara krefst stefnandi þess, að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi eigi bótakröfu á hendur íslenska ríkinu og ríkissjóði vegna eftirfarandi:

         l.              Vegna þess að honum voru ekki dæmdar dómkröfur í héraðsdómsmáli nr. E­3322/1998 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

         2.             Vegna vinnu og kostnaðar við kærumál nr. 171/1999 og nr. 282/1999 fyrir Hæstarétti Íslands.

         3.             Vegna þess að hann var dæmdur til greiðslu á málskostnaði í kærumálinu nr. 282/1999 fyrir Hæstarétti Íslands.

         4.             Vegna vinnu og kostnaðar við héraðsdómsmálið nr. E-1151/2000 og hæstaréttar­málið nr. 108/2001.

         5.             Vegna þess að hann var dæmdur til greiðslu á málskostnaði í hæstaréttarmálinu nr. 108/2001.

         6.             Fyrir dráttarvöxtum af ofangreindum kröfuliðum 1-5, frá tjónsdögum til greiðsludags, samkvæmt ákvæðum í vaxtalögum nr. 25/1987 og lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

         Til þrautavara krefst stefnandi þess, að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi eigi bótakröfu á hendur íslenska ríkinu og ríkissjóði vegna þess sama og getið er í liðum B. og B.l. í aðalkröfu ásamt kröfu til dráttarvaxta, einnig í ljósi af þar greindum kröfuliðum, frá tjónsdögum til greiðsludags, samkvæmt ákvæðum í vaxtalögum nr. 25/1987 og lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

         Þá er þess jafnframt krafizt, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

         Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. 

         Til vara krefst stefndi þess, að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda, og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

II.

Málavextir:

Málavextir eru þeir, að stefnandi tapaði dómsmálum þeim fyrir héraði og Hæstarétti, sem kröfugerð hans lýtur að, og er ósáttur við þá niðurstöðu.  Í stefnu lýsir stefnandi samskiptum sínum við lögmenn og dómstóla, sem að deilumálum hans komu.  Er í fyrsta lagi um að ræða skaðabótamál, sem hann höfðaði á hendur Almennu málflutningsstofunni og þremur starfandi lögmönnum, mál nr. E-3143/1977, sem hann felldi niður, og er ekki gerð bótakrafa vegna þess.  Hann höfðaði málið á ný, mál nr. E-3322/1998.  Í því máli krafðist stefnandi þess, að dómari viki sæti, sem var hafnað með úrskurði.  Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem staðfesti hann, mál nr. 171/1999.  Héraðsdómsmálinu var síðan vísað frá dómi, og var sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti, mál nr. 282/1999.  Stefnandi hafði kröfuna uppi í þriðja málinu, mál nr. E-1151/2000, en því lauk með sýknu, sem staðfest var í Hæstarétti, mál nr. 108/2001.  Er stefnandi ósáttur við meðferð málanna og niðurstöður fyrir báðum dómstigum og telur sig eiga bótarétt vegna þess.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, svo sem að framan greinir, að hlutaðeigandi dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur og Hæstarétt Íslands hafi á saknæman og ólögmætan hátt valdið honum bótaskyldu tjóni við meðferð og dómsúrlausnir tiltekinna mála, sem rekin voru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og Hæstarétti Íslands, með því að málin hafi ekki fengið þá málsmeðferð og dómsniðurstöðu, sem efni stóðu til.  Telur stefnandi tjón sitt felast í því m.a., að hann hafi fyrir þær sakir ekki fengið greiddar umkrafðar fjárkröfur auk umkrafins málskostnaðar, auk þess sem honum hafi verið gert að greiða málskostnað.

         Stefnandi byggir á því m.a., að máli nr. E-3322/1998 hafi ranglega verið vísað frá dómi og að hann hefði fengið tildæmdar kröfur, ef málið hefði hlotið efnismeðferð, auk þess sem hann hefði ekki verið dæmdur til greiðslu málskostnaðar, ef málinu hefði ekki verið vísað frá dómi, og hann hefði fengið tækifæri til að skila í því sókn.  Byggja kröfur stefnanda að verulegu leyti á staðhæfingum um, hvað hefði gerzt, ef atvikum hefði verið háttað á annan veg en raun var, en ekki þykir ástæða til að rekja það nánar hér.  Þá byggir stefnandi á því, að hann hafi ekki fengið lögskyldar leiðbeiningar dómara, ásamt tækifæri til að laga málatilbúnað sinn í framangreindu máli.  Þá sýnist stefnandi einnig byggja á meintri hlutdrægni héraðsdómara í máli nr. E-5490/1998, en kröfugerð hans lýtur hins vegar ekki að því máli.  Hafi eftirtaldir dómarar, sem að hinum umdeildu málum komu, á saknæman og ólögmætan hátt valdið stefnanda bótaskyldu tjóni við meðferð og dómsúrlausnir framangreindra mála.  Umræddir dómarar séu Ragnheiður Bragadóttir, Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson, Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Árni Kolbeinsson.

 

Málsástæður stefnda:

Aðalkrafa stefnda er um frávísun málsins, og er sá þáttur þess einungis hér til umfjöllunar.  Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á því, að dómkröfur stefnanda eigi það sammerkt, að í þeim felist, að stefnandi telji dómsniðurstöðurnar sjálfar fela í sér bótaskylda háttsemi.  Höfði stefnandi mál með þessum kröfum öðru sinni, en hið fyrra hafi verið höfðað 12. júní 2002 og þingfest 18. sama mánaðar í Héraðsdómi Reykjavíkur, nr. E-8975/2002.  Er málið var tekið fyrir í héraðsdómi 28. október 2002, hafi það verið fellt niður að kröfu stefnanda.  Dómkröfur stefnanda nú séu samhljóða þeim, er hann hafði uppi í fyrra máli.  Málatilbúnaður í stefnu sé af sama toga, en öllu lengri nú, eða á 36 tölusettum blaðsíðum í stað 29 áður.

         Eins og fyrr segi, sýnist kröfur stefnanda varða beinlínis niðurstöður dómsmála og miði dómkröfur að því að afla dóms um, að þær séu í sjálfu sér bótaskyld háttsemi, þ.e. að stefnandi eigi bótakröfu vegna þess að niðurstöður dómstóla hafi ekki orðið í samræmi við kröfur hans.  Þrátt fyrir óljóst orðalag dómkrafna eigi þær allar sameiginlegt að varða endanleg úrslit í málum, sem dómar hafi verið kveðnir upp í af Hæstarétti Íslands.  Engin heimild sé í lögum nr. 91/1991 til endurskoðunar á dómsniðurstöðum með þeim hætti, sem krafizt sé.  Sé til stuðnings frávísunarkröfu að þessu leyti vísað til V. kafla stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. og ákvæði 1. gr. dómstólalaga nr. 15/1998, laga nr. 91/1991, einkum 116. gr. og meginreglna einkamála­réttarfars.  Hafi stefnandi ekki óskað eftir endurupptöku í samræmi við ákvæði XXVI. eða XXV. kafla laganna svo vitað sé og ekki reifað málið eða sett fram kröfur, sem unnt væri að dæma um á grundvelli 32. gr. dómstólalaga nr. 15/1998.  Hvergi sé rökstutt, hvers eðlis stefnandi telji ætlað tjón sitt vera, en að því leyti sem stefnandi byggi á ákvæðum dómstólalaga, geti ekki komið til úrlausar bótakrafa um það eitt að hafa ekki fengið kröfum sínum framgengt í dómsmáli.  Sé því handan við lögsögu dómstóla að leysa úr kröfum og málatilbúnaði stefnanda, og beri að vísa málinu frá dómi.  Gildi sama um kröfuliði 2 og 4 undir varakröfum stefnanda, en kröfur við kostnað af málaferlum verði ekki dæmdar að öðru leyti en leiði af reglum laga nr. 91/1991 um málskostnað, og hafi þegar verið tekin afstaða til í þeim málum, sem dómkröfur stefnanda varði.

         Dómkröfur stefnanda séu á engan hátt dómhæfar í skilningi 24. og 25. gr. og l. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Enn fremur sé frávísunar­krafa byggð á því, að kröfur og málatilbúnaður allur sé samhengislaus, óljós og í brýnni andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars og ofangreind ákvæði laga nr. 91/1991.  Sé t.d. blandað inn í greinargerð í stefnu atriðum, sem í engu varði þær dómkröfur, sem hann hafi uppi, þ.á m. önnur dómsmál.  Hvergi sé að finna vísbendingu eða rök­stuðning um ætlað tjón í tengslum við dómkröfur.  Þá séu svokallaðar dráttarvaxta­kröfur stefnanda ódómhæfar, þar sem engin fjárkrafa sé sett fram í málinu.

 

Sjónarmið stefnanda varðandi frávísunarkröfu stefnda:

Stefnandi krefst þess í þessum þætti málsins, að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og stefnanda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnda að mati réttarins fyrir þennan þátt málsins sérstaklega, en til vara að málskostnaður verði felldur niður, verði kröfum hans í þessum þætti málsins hafnað og málinu vísað frá dómi.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Aðalkrafa stefnda er sú, að málinu verði vísað frá dómi og er einungis sá þáttur þess hér til úrlausnar.

         Kröfugerð stefnanda er þannig úr garði gerð í aðalsök, að viðurkennd verði bótakrafa stefnanda á hendur stefnda vegna þess að stefnandi hafi ekki fengið dóm fyrir kröfum sínum í máli, sem hann áfrýjaði til Hæstaréttar, auk þess sem hann hafi ekki fengið tildæmdan málskostnað fyrir báðum dómstigum, en verið látinn greiða málskostnað.  Þá hafi hann ekki fengið tildæmdan málskostnað í öðru dómsmáli fyrir héraði og í tveimur kærumálum fyrir Hæstarétti, en hafi verið dæmdur til greiðslu málskostnaðar í þeim málum.  Þá krefst hann viðurkenningar á bótakröfu vegna dráttarvaxta af ofangreindum kröfuliðum.

         Stefnandi byggir á því, að tilteknir dómarar, einn við Héraðsdóm Reykjavíkur og fimm við Hæstarétt Íslands, hafi á saknæman og ólögmætan hátt valdið honum tjóni við meðferð og úrlausnir framangreindra mála, með því að málin fengu ekki þá málsmeðferð og dómsniðurstöðu, sem efni stóðu til, svo sem það er orðað í stefnu.  Meint tjón stefnanda felist í því, að hann hafi ekki fengið fjárkröfum sínum fullnægt, auk þess sem honum hafi verið gert að greiða málskostnað.

         Kröfugerð og málsástæður stefnanda fela m.a. í sér kröfu um, að dómari þessa máls endurskoði ákvarðanir og mat héraðsdómara í máli nr. E-3322/1998, hvað varðar ákvörðun héraðsdómara um endurupptöku málsins og synjun héraðsdómara á því, að stefnandi fengi að koma að sókn í málinu.  Byggir stefnandi á því, að málinu hefði ekki verið vísað frá dómi, hefðu framangreindar ákvarðanir dómarans ekki komið til, og niðurstaða í því hefði orðið efnisdómur stefnanda í hag.  Þá byggir stefnandi á því, að hann hafi ekki fengið lögskyldar leiðbeiningar dómara eða tækifæri til að laga málatilbúnað sinn.  Byggir stefnandi á því, að í ljósi framanritaðs sé ljóst, að hann hefði aldrei verið dæmdur til greiðslu málskostnaðar í málinu, hefði málið fengið þá meðferð, sem hann telji rétta, heldur hefði hann fengið tildæmdan málskostnað.  Þá byggir stefnandi á því, að málsmeðferðin sé í andstöðu við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  Kveður stefnandi dóm Hæstaréttar í máli nr. 108/2001 um hlutaðeigandi sakarefni vera óvéfengjandi sönnun þess, að héraðsdómsmálið hafi verið þannig úr garði gert, að dómari hefði getað tekið allar kröfur stefnanda til greina, ef það hefði gengið til efnisdóms.  Þá segir í málsástæðum stefnanda m.a.:  “Verði það hins vegar álit dómsins nú, að eitthvað hafi vantað upp á málatilbúnað stefnanda í málinu til að dæma mætti honum kröfur að fullu þá er á því byggt að ofangreind skrifleg sókn sem stefnanda var heimiluð í málinu og viðbótargögn hefðu nægilega bætt úr því.  Ríkið hefur svo sönnunarbyrði um annað, verði það niðurstaðan að brotið hafi verið gegn rétti stefnanda með því að sókninni var hafnað vegna endurupptöku málsins.”

         Stefnandi rekur enn fremur í stefnu í löngu máli málavexti og málsgrundvöll í máli nr. E-1151/2000.  Byggir stefnandi m.a. á því, að Hæstiréttur hafi varðandi það sakarefni í máli nr. 108/2001 fallizt á og viðurkennt mistök og vanrækslu, gagnstætt héraðsdómi, en sýkni samt stefnda og minnist ekkert á sannanir, sem stefnandi hafi byggt á í því máli.

         Eins og kröfugerð stefnanda er fram sett, verður ekki annað séð, en stefnandi byggi á því, að dómsniðurstöður umdeildra dómsmála feli í sér bótaskylda háttsemi í sjálfu sér.  Sýnist krafa stefnanda lúta að því, að dómari þessa máls endurskoði formlegar og efnislegar ákvarðanir og niðurstöður tilgreindra dómara í héraði og Hæstarétti í þessum málum.  Felur framsetning dómkrafnanna og málsástæður, sem kröfur hans byggja á, í raun í sér, að það sé út af fyrir sig saknæm og bótaskyld háttsemi að komast að niðurstöðu í framangreindum dómsmálum, sem stefnandi sættir sig ekki við. 

         Framangreind dómsmál hafa verið endanlega til lykta leidd með dómi fyrir Hæstarétti Íslands.  Er engin heimild til endurskoðunar þeirra á þeim grundvelli, sem stefnandi byggir mál sitt á.  Þá eru dómkröfur stefnanda, málavextir og málsástæður samhengislaus, óskýr og ruglingsleg og fela að auki í sér skriflegan málflutning, sem er í andstöðu við 1. málslið. 1. mgr. 101. gr. l. nr. 91/1991 og er málatilbúnaður allur andstæður ákvæðum e- liðar 1. mgr. 80. gr. sömu laga.  Að öllu framansögðu virtu er ekki hjá því komizt að vísa málinu frá dómi í heild sinni.

         Eins og málið er vaxið þykja ekki efni til að fella málskostnað niður og ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst kr. 100.000.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Málinu er vísað frá dómi.

         Stefnandi, Jakob Adolf Traustason, greiði stefnda, íslenzka ríkinu, kr. 100.000 í málskostnað.