Hæstiréttur íslands
Mál nr. 625/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Gagnaöflun
|
|
Þriðjudaginn 12. desember 2006. |
|
Nr. 625/2006. |
Ákæruvaldið(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri) gegn X (enginn) |
Kærumál. Vitni. Gagnaöflun.
X krafðist þess að saksóknari og yfirlögregluþjónn yrðu leiddir fyrir dóm sem vitni í máli, sem ákæruvaldið hafði höfðað gegn honum, og að héraðsdómur aflaði gagna úr öðru máli, sem hann hafði átt aðild að. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var kröfu X hafnað þar sem framburður vitnanna og téð gögn hefðu enga þýðingu í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2006. Kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2006, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Egill Stephensen saksóknari og Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn yrðu leiddir fyrir dóm sem vitni í málinu, svo og að aflað yrði upplýsinga frá lögreglustjóranum í Reykjavík um „afdrif og gögn í máli nr. A-3082/82.“ Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að kveðja umrædd vitni fyrir dóm og afla upplýsinga um afdrif og gögn í ofangreindu máli.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2006.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 29. nóvember sl. um kröfu ákærða um að tiltekin vitni verði leidd í málinu og að dómurinn hlutist til um öflun tilgreindra gagna, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 28. ágúst sl. á hendur X, [kt. og heimilisfang], fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 6. apríl 2006 ekið bifreiðinni [...] með 80 km hraða á klst. vestur Hringbraut í Reykjavík, á vegarkafla við Njarðargötu, þar sem leyfður hámarkshraði var 60 km á klst.
Er háttsemi ákærða talin varða við 1., sbr. 3. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í þessum þætti málsins krefst ákærði þess að Egill Stephensen saksóknari og Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn verði kvaddir fyrir dóminn sem vitni í málinu. Þá krefst ákærði þess að dómurinn hlutist til um að aflað verði upplýsinga frá lögreglustjóra um afdrif og gögn í máli nr. A-3082/82.
Í þessum þætti krefst ákæruvald þess að kröfu ákærða um að hin tilgreindu vitni verði leidd í málinu verði hafnað, sem og kröfu ákærða um upplýsingar um afdrif og gögn í máli nr. A-3082/82.
Samkvæmt skýrslu lögreglustjórans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 var hraði bifreiðar með skráningarnúmerið [...] mældur á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu með hraðamyndavél með einkennisnúmerið TPH III-SR (2). Hraði bifreiðarinnar hafi mælst 83 km á klst. Með skýrslunni eru myndir úr hraðamyndavélinni sem sýna bifreiðina [...] aka um nefnd gatnamót. Með sektarboði 4. maí 2006 var eiganda bifreiðarinnar gefinn kostur á að ljúka málinu með greiðslu sektar að fjárhæð 10.000 krónur og yrði veittur 25% afsláttur yrði sektin greidd innan 30 daga frá dagsetningu bréfsins. Ákærði sendi lögreglustjóra tölvupóst þar sem hann tilkynnti að hann hafi ekið bifreiðinni um umrædd gatnamót 11. apríl 2006 en þegar blossi hafi komið af ljósastaur er hann hafi ekið um gatnamótin hafi hraði bifreiðar ákærða verið 57 km á klst. Kvaðst ákærði mótmæla hraðamælingunni.
Með bréfi 4. maí 2006 var ákærða tilkynnt að ekki þættu skilyrði fyrir niðurfellingu málsins. Ákærða var send ítrekun sektarborðs með bréfi lögreglustjóra 12. júní 2006. Ákæra var gefin út sem áður sagði 28. ágúst 2006. Við þingfestingu málsins neitaði ákærði sök og fór aðalmeðferð málsins fram 29. nóvember 2006. Við aðalmeðferð leiddi ákæruvald sem vitni Viðar Waage fyrrverandi lögreglumann og Ragnar Þór Árnason lögreglumann. Gerðu þeir grein fyrir því með hvaða hætti hraðamyndavél lögreglu starfar. Þá gerðu þeir grein fyrir því hverjir kæmu að afgreiðslu einstakra mála. Í máli þeirra kom fram að lögreglumenn er umsjón hefðu með hraðamyndavélum lögreglu settu vélar upp hverju sinni. Framkvæmd væru ákveðnar prófanir til að sannreyna að vélarnar væru í lagi. Þegar vélarnar væru teknar niður væru þær prófaðar á ný. Ef allt væri í lagi væru filmur sendar í framköllun. Eftir að þær kæmu úr framköllun færu lögreglumenn í sektardeild yfir myndirnar til að sannreyna brot gegn umferðarlögum. Ef brot hefðu verið framin væri rituð kæruskýrsla. Sú skýrsla færi til staðfestingar hjá lögfræðingi deildarinnar. Að því búnu væru send út sektarboð. Einungis starfsmenn sektardeildar kæmu að hverju og einu máli.
Ákærði krafðist þess að Egill Stephensen saksóknari og Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn yrðu kallaðir fyrir dóminn sem vitni. Kvað ákærði það nauðsynlegt til að honum gæfist færi á að leita upplýsinga um hvort tilefni ákæru lögreglu væri að rekja til eldra máls er ákærði hafi rekið gegn embættinu og varðar afdrif máls þar sem ákærði varð fyrir líkamsárás. Er það mál lögreglu nr. A-3082/82. Því máli hafi bæði Egill og Hörður tengst. Þá kvaðst ákærði gera þær kröfur að aflað yrði upplýsinga um afdrif og gögn í því máli, en hann hafi ítrekað beint til lögreglu fyrirspurnum í þá veruna.
Ákæruvald hefur mótmælt kröfum ákærða og telur að umrædd vitnaleiðsla sé með öllu óþörf þar sem vitnin hafi á engan hátt komið nærri því sakamáli sem sé til meðferðar. Þá hafi gögn í máli nr. A-3082/82 enga þýðingu fyrir það mál sem hér sé rekið.
Fyrir dómi hafa vitnin Viðar Waage og Ragnar Þór Árnason lýst venjubundini meðferð mála þar sem hraðamyndavélar eru notaðar við að sannreyna umferðarlagabrot. Í ljósi framburðar þeirra má ljóst vera að hvorki Egill Stephensen saksóknari né Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn hafa komið nærri því að kæra ákærða fyrir hraðakstur, né að taka ákvörðun um ákæru á hendur honum, enda á færi sækjanda þessa máls að svara fyrir ákæru í málinu. Hefur framburður þessara vitna enga þýðingu í málinu. Verður því hafnað kröfu ákærða um að þessi vitni verði leidd. Þá bera gögn með sér að mál lögreglu nr. A-3082/82 er með öllu óskylt því máli sem hér er til úrlausnar og hafa þau gögn enga þýðingu fyrir niðurstöðu þess. Verður því jafnframt hafnað þeirri kröfu ákærða að dómurinn hlutist til um að aflað verði upplýsinga frá lögreglustjóra um afdrif og gögn í máli nr. A-3082/82.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Jóhann Hauksson fulltrúi.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu ákærða, X, um að Egill Stephensen saksóknari og Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn verði leiddir fyrir dóminn sem vitni í málinu, er hafnað.
Hafnað er kröfu ákærða um að aflað verði upplýsinga frá lögreglustjóra um afdrif og gögn í máli nr. A-3082/82.