Hæstiréttur íslands

Mál nr. 144/2003


Lykilorð

  • Skattskylda
  • Hlutabréf
  • Hlunnindi


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. október 2003.

Nr. 144/2003.

Lísa Ásgeirsdóttir

(Erlendur Gíslason hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Skattskylda. Hlutabréf. Hlunnindi.

Með lögum nr. 50/1997 voru ríkisbankarnir LÍ og BÍ gerðir að hlutafélögum. Í kjölfarið var ákveðið að hækka hlutafé BÍ og var ákveðið að bjóða starfsmönnum bankans að kaupa hlutabréf á genginu 1,26. Keypti L  hlutabréf að nafnvirði 250.000 krónur og greiddi 315.000 krónur fyrir. Í almennu útboði gafst almenningi færi á að kaupa hlutabréf í bankanum á genginu 2,15. Skattyfirvöld töldu að í þessu fælust skattskyld hlunnindi og ákváðu að færa L til tekna, 222.500 krónur, sem var mismunur þeirrar fjárhæðar sem L hafði greitt fyrir hlutabréf sín og þess verðs sem almenningi bauðst stuttu síðar. Ákvörðun þessi var staðfest af yfirskattanefnd. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til röksemda hans, var fallist á það að umræddur mismunur fæli í sér skattskyld hlunnindi í skilningi laga nr. 75/1981 og rétt hafi verið að skattleggja hann með þeim hætti sem gert var. Var Í því sýknað af kröfum L í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. apríl 2003 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hún krefst þess að úrskurður yfirskattanefndar nr. 583/2000 frá 9. nóvember 2000 í kærumáli hennar verði felldur úr gildi. Stefnda verði jafnframt gert að greiða sér 87.818 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1999 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétti lýsti áfrýjandi því yfir að kröfur hennar væru ekki lengur reistar á því að andmælaréttar hefði ekki verið gætt eða álagning skatta hennar væri byggð á röngum lagagrundvelli.

Með skírskotun til raka héraðsdóms ber að staðfesta hann.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                  Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Lísa Ásgeirsdóttir, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2002.

         Mál þetta, sem dómtekið var 25. nóvember síðastliðinn, er höfðað af Lísu Ásgeirsdóttir, Tjarnarbraut 3, Hafnarfirði, gegn íslenska ríkinu, ­

         Stefnandi krefst þess, að úrskurður yfirskattanefndar nr. 583/2000 frá 9. nóvember 2000 í kærumáli hennar verði felldur úr gildi. Þá krefst stefnandi, að stefndi  verði dæmdur til að greiða stefnanda 87.818 krónur, ­ásamt dráttarvöxtum frá greiðsludegi. Að lokum er krafist málskostnaðar.

         Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, en til vara er þess krafist, að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður falli niður.

I.

         Með lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, voru umræddir ríkisbankar gerðir að hlutafélögum. Ákveðið var af yfirvöldum bankamála í árslok 1997, í kjölfar setningar laganna, að bjóða starfsmönnum Búnaðarbanka Íslands að kaupa hluta af nýju hlutafé í bankanum á innra virði bankans í lok þess árs. Á hluthafafundi 29. september 1998 var bankaráði Búnaðarbanka Íslands hf. veitt heimild til að hækka hlutafé félagsins um allt að 600 milljónir króna með útgáfu nýrra hluta. Í útboðslýsingu kemur fram, að starfsmönnum bankans og Lífeyrissjóði starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf. var veittur réttur til að kaupa hlutafé, samtals að verðmæti 250 milljónir króna, á genginu 1,26, sem jafngildir innra virði bankans síðustu áramót þar á undan. Sami hluthafafundur samþykkti jafnframt, að 350 milljónir króna að nafnverði yrðu boðnar til sölu í almennu útboði að loknu útboði til starfsmanna, án þess að verð í almennu útboði væri ákvarðað.

         Með tilkynningu bankastjórnar Búnaðarbanka Íslands hf., dagsettri 13. október 1998, var starfsmönnum bankans greint frá fyrirkomulagi útboðsins til starfsmanna, sem stóð yfir 12. - 26. október 1998. Stefnandi nýtti sér tilboð bankans um kaup á hlutabréfum og bréf keypti að nafnvirði 250.000 krónur á genginu 1,26, þannig að kaupverðið nam 315.000 krónum.

         Á fundi bankaráðs Búnaðarbanka Íslands hf. 10. nóvember 1998 var ákveðið, að í útboði til almennings skyldi það verð, sem boðið væri almenningi, vera 2,15 krónur á  hlut í samræmi við verðmat, sem lagt var fram á fundinum. Var það verð boðið almenningi í útboði, er hófst 12. desember 1998.

         Með boðunarbréfi skattstjórans í Reykjanesumdæmi, dagsettu 19. maí 1999, var stefnanda tilkynnt með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að skattstjóri hefði í hyggju að færa henni til tekna 222.500 krónur, sem hann taldi vera skattskyld hlunnindi stefnanda vegna hlutafjárkaupanna. Var nefnd fjárhæð  fundin þannig út, að skattstjóri reiknaði stefnanda sem skattskyld hlunnindi þann mismun, sem hafði verið á söluverði hlutafjár, er selt var annars vegar stefnanda og öðrum starfsmönnum Búnaðarbanka Íslands hf. í október 1998 og hins vegar almenningi um miðjan desember 1998. Kemur fram í boðunarbréfinu, að það sé niðurstaða ríkisskattstjóra, að undangengnum ítarlegum bréfaskiptum við stjórnendur Búnaðarbanka Íslands hf., að afhending hlutabréfa feli í sér skattskyld hlunnindi. Þar segir einnig, að skattstjóri hafi í hyggju að beita 25% álagi á vantalda skattstofna, þar sem stefnanda hafi verið ljós afstaða ríkisskattstjóra í máli þessu. Stefnandi andmælti ekki boðuðum breytingum skattstjóra og með bréfi, dagsettu 27. júlí 1999, tilkynnti skattstjóri, að hann hefði ákveðið í framhaldi af bréfi sínu frá 17. maí (svo) að færa stefnanda til tekna starfstengdar tekjur að fjárhæð 222.500 krónur vegna undirverðs hlutabréfa, sem stefnandi hafi keypt af launagreiðanda sínum.

         Með bréfi 27. ágúst 1999 var af hálfu stefnanda send inn bráðabirgðakæra vegna þessarar ákvörðunar og 4. október 1999 var sendur rökstuðningur með kærunni. Var þess krafist, að ákvörðunin yrði felld úr gildi og álagningu opinberra gjalda breytt til samræmis við það. Með úrskurði, uppkveðnum 3. desember 1999, var þeirri kröfu hrundið og úrskurðað, að ákvörðun skattstjóra 27. júlí 1999 stæði óbreytt. Úrskurðurinn var kærður til yfirskattanefndar með bréfi, dagsettu 29. febrúar 2000, og þess krafist, að hann yrði felldur úr gildi. Yfirskattanefnd úrskurðaði í málinu 9. nóvember 2000 með úrskurði nr. 583/2000 og synjaði kröfum stefnanda. Við það sættir stefnandi sig ekki og hefur því höfðað mál þetta.

II.

         Stefnandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því, að ekki hafi verið um efnislega rétta álagningu skatta að ræða, þar sem ekki hafi verið um að ræða skattskyld hlunnindi í hendi stefnanda. Hafi stefnanda ekki verið seld umrædd hlutabréf á undirverði, eins og skattstjóri haldi fram í tilkynningu frá 27. júlí 1999. Hafi hlutabréfin verið keypt á genginu 1,26, er hafi verið ,,gangverð” á þeim tíma sem þau voru keypt. Öðru verði hafi ekki verið til að dreifa. Sé því ekki til staðar grundvöllur til skattlagningar, þ.e. að um skattskyld hlunnindi væri að ræða, sem næmi mismun á kaupverði og ,,gangverði” hlutabréfanna. Hafi það ekki verið fyrr en tveimur mánuðum síðar, að almenningi hafi verð boðin hlutabréf til kaups á genginu 2,15. Sé þetta grundvallaratriði. Á þeim tíma, sem stefnandi keypti hlutabréfin, hafi   kaupverð og gangverð verið hið sama. Það, hvort hlutabréf væru síðan boðin almenningi til kaups og það síðar teldist ,,gangverð” á bréfunum, sé svo allt annað mál.

         Þar sem umrædd hlutabréf hafi ekki verið keypt á undirverði heldur á eðlilegu verði, sem miðað hafi verið við innra virði bankans á þeim tíma, vegna þess að ekki hafi verið til gangverð á þeim tíma, sé ekki um að ræða neinn grundvöll skattlagningar og beri því að fella hana niður. Hlutabréfin hafi verið seld stefnanda á bókfærðu verði eða miðað við innra virði bankans, sem á þeim tíma hafi ekki verið skráður í kauphöll. Staðfest hafi verið með lagasetningu, að rétt hafi verið af hálfu Búnaðarbanka Íslands hf. að miða við innra virði bankans á þessum tíma. Með 2. gr.  laga nr. 86/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem hafi orðið 8. gr. A í síðarnefndu lögunum, hafi verið lögfest sú skilgreining á gangverði hlutabréfa, að með því sé átt við skráð markaðsverð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði, þegar kaupréttur er nýttur. Séu hlutabréf í félagi ekki skráð í kauphöll, skuli miða við gangverð þeirra í viðskiptum, en annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endur­skoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags. Í athugasemdum við nefnda 2. gr. frumvarps þess, sem orðið hafi að lögum nr. 86/2000, komi fram, að inntak ákvæðisins sé í samræmi við gildandi skattframkvæmd. Sé því ljóst, að verðviðmiðun sú, sem byggt hafi verið á, hafi samrýmst þeirri skattframkvæmd, sem löggjafinn hafi talið vera gildandi. Engin viðskipti hafi verið með hluti, sem sköpuðu gangverð, og því hafi ákvörðun bankans verið í samræmi við gildandi skattframkvæmd um viðmiðunarverð. Eigi slík verðákvörðun ekki að valda skattlagningu hjá stefnanda byggðri á ,,verði undir gangverði.”

          Á fundi bankaráðs Búnaðar­banka Íslands hf. 10. nóvember 1998 hafi verið lögð fram skýrsla um verðmat á Búnaðarbanka Íslands hf. vegna væntanlegrar sölu hlutabréfa til almennings að nafnverði 350.000.000 krónur. Í ljósi verðmatsins hafi verið ákveðið samhljóða, að gengið sem almenningi yrði boðið, yrði 2,15, og að formaður og varaformaður, í samráði við aðalbankastjóra og aðra bankaráðsmenn, hefðu heimild til að ákveða, hvenær hlutabréfin yrðu boðin út og greiðslufrest kaupverðs. Hér sé um að ræða ákvörðun, sem tekin sé, þegar sérstakt verðmat hafi legið fyrir hálfum mánuði eftir að tilboði til starfsmanna var lokað. Á þeim tíma, er starfsmönnum voru boðin hlutabréf í bankanum til kaups, hafi þeir enga möguleika haft á að vita, hvort verðið, sem þeim var boðið, væri eðlilegt verð eða verð, sem síðar yrði talið vera undirverð af skattyfirvöldum. Hefðu skattyfirvöld þurft að ákveða á þeim tímapunkti, er starfsmenn þurftu að gera upp hug sinn varðandi kaupin, hvort um undirverð væri að ræða, hefðu skattyfirvöld ekki haft annað viðmið en bankinn og starfsmenn hans, þ.e. bókfært verð eigin fjár. Á þessum tíma hafi ekki verið staðgreiðsluskylda á þeim launum, sem eru tilkomin vegna kaupa á undirverði. Í dag sé gildandi réttur um staðgreiðslu af þess­ háttar launagreiðslum. Hefði staðgreiðsluskylda verið fyrir hendi um mánaðarmótin október nóvember 1998, hefði ekki verið hægt að standa að staðgreiðslu af viðskiptunum. Skattyfirvöld eigi ekki að geta beðið og séð, hvort starfsmenn hagnist síðar og ákveðið þá, að verð á fyrra tímapunkti hafi verið undirverð. Hafi bankinn gert það eina, sem rétt hafi verið í stöðunni, og hagað sér samkvæmt gildandi skattframkvæmd, sem stuttu síðar hafi verið lögfest, með því að selja starfsmönnum hluti í bankanum á verði, sem endurspeglað hafi innra virði bankans miðað við bókfært verð, þar sem ekki hafi verið um hlunnindagreiðslu að ræða til starfsmanna. Það sé því andstætt gildandi skattframkvæmd og núgildandi lögum, sem staðfesti þá skattfram­kvæmd, að halda því fram, að verið væri að afhenda stefnanda skattskyld hlunnindi með sölu hlutabréfa á því verði.

         Þá byggir stefnandi á því, að við álagningu viðbótartekna vegna kaupa á hlutabréfum í Búnaðar­banka Íslands hf. hafi málsmeðferðarreglur laga nr. 75/1981 og stjórnsýslu­laga verði þverbrotnar, andmælaréttur stefnanda hafi verð brotinn, álagning viðbótartekna hafi ekki verið byggð á réttum lagaákvæðum, rannsóknarregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin og rökstuðningur með íþyngjandi breytingum skattstjóra hafi verið ófullnægjandi.

         Lögbundins andmælaréttar stefnanda samkvæmt 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, hafi ekki verið gætt, þar sem búið hafi verið að taka ákvörðun í máli hennar, áður en kostur var gefinn á að koma að lögmæltum andmælum. Nauðsynlegt sé í því skyni að rekja aðeins bréfaskriftir milli Búnaðarbanka Íslands hf. og ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 18. desember 1998, til Búnaðarbanka Íslands hf. séu vinnuveitanda stefnanda send boð ,,að gefnu tilefni” um, að kaup á hlutabréfum á undirverði teljist til hlunninda og skattskyldra tekna þeirra, er njóta. Í bréfi ríkisskattstjóra til vinnuveitanda gjaldanda, dags. 26. mars 1999, sé vísað til bréfsins frá 18. desember 1998 og sagt að: ,, ... í bréfi þessu kemur mjög skýrt fram niðurstaða skattyfirvalda þess efnis, að sú afhending verðmæta til starfsmanna bankans, sem fólgin var í að selja þeim hlutabréf í bankanum á undir­verði, sé skattskyld.” Nokkru síðar í bréfinu segi: ,,Ekki er ástæða til að fjalla fremur en þegar hefur verið gert um það álit bankans að ekki sé um skattskyld hlunnindi starfsmanna að ræða. Niðurstaða skattyfirvalda í því efni er skýr en skattaðili getur að sjálfsögðu gert ágreining um hana og skotið málinu til yfirskattanefndar og dómstóla. Búnaðarbankinn er ekki aðili að slíkum ágreiningi ef til hans kemur.” Enn láti ríkisskattstjóri í ljós niðurstöðu sína í málinu í bréfi sínu til vinnu­veitanda gjaldanda í bréfi sínu 29. apríl 1999, þar sem hann m.a. segi: ,,Munu skattyfirvöld við breytingar á framtölum starfsmanna eftir atvikum gera þeim grein fyrir að tilefni til þeirra sé skortur á réttum upplýsingum bankans til skattyfirvalda og þeirra.”                  

         Þessi niðurstaða skattyfirvalda gagnvart stefnanda liggi skv. framansögðu fyrir hugsanlega í desember 1998 og örugglega í mars 1999 og sé áréttuð í apríl sama ár. Boðunarbréf skattstjóra í málinu sé dagsett 19. maí 1999. Samkvæmt þessu telji stefnandi augljóst, að henni hafi ekki verið veittur raunverulegur réttur til tala máli sínu, heldur hafi málsmeðferð í máli hennar einungis miðað að því að tryggja, að hún væri í samræmi við formkröfur laga. Fjarri sé, að umrædd bréfaskipti ríkisskattstjóra verði felld undir leiðbeiningar- og samræmingar­hlutverk hans, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, enda sé þar verið að taka afstöðu í máli stefnanda. Ríkisskattstjóri, sem æðra sett stjórnvald gagnvart skattstjóra, hafi í þessu tilviki verið að ákveða niðurstöðu í fyrirliggjandi máli stefnanda.

         Stefnandi telur, að ákvarðanir skattyfirvalda í máli hennar hafi verið byggðar á röngum lagagrundvelli. Þar sem skattstjóri hafi talið, að kaup stefnanda á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. væru á of lágu verði, hafi honum borið að beita ákvæðum 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981 til að ákvarða hver væru hin skattskyldu hlunnindi stefnanda. Skattyfirvöld hafi hins vegar talið nægjanlegt að byggja ákvörðun á ákvæðum 1. tl. A-liðar 7. gr. sömu laga, sbr. og 1. mgr. B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Stefnandi telji, að ákvæði 2. mgr. 58. gr. verði að skýra til samræmis við ákvæði 1. tl. A-liðar 7. gr., þar sem 2. mgr. 58. gr. sé sérákvæði, sem þrengi heimildir skattstjóra samkvæmt hinu almenna ákvæði 7. gr. Sem frekari rökstuðning fyrir því, að beita skuli ákvæði 2. mgr. 58. gr. í stað 1. tl. A-liðar 7. gr., vísi stefnandi til þess, að Lífeyris­sjóði starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf. hafi staðið til boða að kaupa hlutabréf í Búnaðar­banka Íslands hf. á sama gengi og starfsmönnum, skrifuðu starfsmenn sig ekki fyrir öllu því hlutafé, sem til boða stóð. Ljóst sé, að skattskylda Lífeyrissjóðsins hefði ekki getað grundvallast á ákvæðum 7. gr. laga nr. 75/1981 og hefði skatt­lagningin þurft að fara fram á grundvelli 2. mgr. 58. gr. sömu laga.

         Einnig telji stefnandi, að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Kaupverð starfsmanna á hlutafé hafi verið ákvarðað á grundvelli innra virðis bankans (bókfærðs verðs eigin fjár), enda hafi ekki öðrum viðmiðum verið til að dreifa á þeim tíma, er þessi ákvörðun var tekin. Sé þetta í samræmi við a. lið 2. gr. laga nr. 86/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem varð 8. gr. A í síðarnefndu lögunum. Þar segi, að með gangverði [hlutabréfa] sé átt við skráð markaðsverð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði, þegar kaupréttur er nýttur. Ef hlutabréf í félagi eru ekki skráð í kauphöll skuli miða við gangverð þeirra í viðskiptum, en annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags. Í athugasemdum við nefnda 2. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 86/2000, komi fram, að inntak ákvæðisins sé í samræmi við gildandi skattframkvæmd. Sé því ljóst, að verðviðmiðun sú, sem byggt var á, hafi samrýmst þeirri skattframkvæmd, sem löggjafinn hafi talið vera gildandi. Það sé grundvallarregla í skattarétti, að skattyfirvöldum beri að sanna, að tekjur skattþegns séu vantaldar, telji þau, að um slíkt sé að ræða, og eins þurfi skattyfirvöld þá að ákvarða á faglega undirbúnum og málefnalegum grundvelli, hver fjárhæð hinna vantöldu tekna sé. Með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga álíti stefnandi, að skattstjóra hafi borið að hlutast til um sjálfstæða rannsókn á því, hvert væri gangverð bréfanna á kaupdegi, ef slíkt verð á annað borð væri til, að öðrum kosti hafi borið að miða við innra verðmæti bankans. Í stað þess að gera það, gangi skattstjóri út frá því, að verðmætið á kaupdegi hafi verið verðmætið tæpum tveimur mánuðum seinna, án frekari rannsóknar. Í þessu sambandi verði að taka skýrt fram, að þegar skattyfirvöld leggja á skatt á matskenndum grundvelli, beri að gera sérstaklega ríkar kröfur til málsmeðferðar af þeirra hálfu, sérstaklega þó um að málið sé nægjanlega upplýst. Hafi skattstjóra borið að rannsaka verðákvörðunarþáttinn til hlítar, en ekki að grípa til mats- og sönnunarreglu og segja þar með, að verðið tveimur mánuðum eftir útboð til starfsmanna sé óbreytt. Séu staðreyndir máls ekki nægjanlega upplýstar sé stjórnvöldum oftast óheimilt að grípa til mats- og sönnunarreglna, fyrr en þau hafa reynt árangurslaust að rannsaka mál á tilhlýðilegan hátt.

         Þá sé og á því byggt, að um hafi verið að ræða ófullnægjandi rökstuðning íþyngjandi ákvörðunar. Í boðunarbréfi skattstjóra komi einungis fram, að kaupverð þyki lágt miðað við það verð, sem almenningi hafi staðið til boða og líta verði á síðarnefnda verðið sem gangverð hlutabréfanna við sölu til gjaldanda. Ekki komi fram af hverju líta skuli til gangverðs á hlutabréfunum tæpum tveimur mánuðum eftir kaup gjaldanda. Hér hefði allur rökstuðningur skattstjóra þurft að koma fram, til að stefnandi sæi á hverju boðuð skattbreyting væri byggð. Ekki sé nóg, að rökstuðningurinn komi fram síðar, enda hangi reglan um rökstuðning saman við andmælarétt stefnanda, sem verður ekki fullnýttur, nema rök skattstjóra komi á fullnægjandi hátt fram.

         Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til ákvæða laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, einkum ákvæða 58. gr., 96. gr. og 101, gr. Einnig er vísað til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sérstaklega ákvæða III. og IV. kafla þeirra og í því samhengi vísar stefnandi einkum til 10. gr., 11. gr., 13. gr. og 22. gr. laganna.

         Á því er byggt af hálfu stefnda, að stefnandi hafi keypt hlutabréf í Búnaðarbanka Íslands hf. á undirverði í lokuðu útboði í því félagi, sem hann starfar hjá, á sérstökum starfsmannakjörum. Alltaf hafi staðið til að bjóða starfsmönnum hlutabréf í bankanum á undirverði. Útboðið hafi því verið ívilnandi gagnvart starfsmönnum bankans. Hafi það verið hluti af kjörum þeirra og salan staðið í beinum tengslum við formbreytingu bankans í hlutafélag og þeirra áhrifa, sem það hafði á réttarstöðu starfsmanna, m.a. um eftirgjöf ríkisábyrgðar á eftirlaunum. Í því sambandi vísi stefndi m.a. til minnisblaðs iðnaðar- og viðskiptaráðherra til ríkisstjórnar Íslands, útboðs- og skráningarlýsingar frá desember 1998 og blaðagreina. Hafi sú ákvörðun, að beina útboði á nýju hlutafé í Búnaðarbanka Íslands hf. að hluta til að starfsmönnum bankans sérstaklega, á sérstökum og hagstæðum kjörum, grund­vallast á starfssambandi milli starfsmanna og bankans. Teljist verðmæti, sem starfsmanni hlotnast við kaup á eign af vinnuveitanda á undirverði, þ.á m. hlutabréfum, til starfstengdra tekna.

         Samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljist til skattskyldra tekna, með þeim undantekningum og takmörkunum er greinir í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verði til peningaverðs, og skipti ekki máli, hvaðan tekjurnar stafa eða í hvaða formi þær eru. Í l. mgr. l. tl. A-liðar greinarinnar sé mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Í ákvæðinu séu nefnd í dæmaskyni ýmiss konar laun og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega séu gefnar sem kaupauki. Tekið sé fram, að hvorki skipti máli hver tekur við greiðslum né í hvaða gjaldmiðli goldið sé, hvort sem það sé í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum. Samkvæmt þessu teljist ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi, sem launamenn hljóta í starfi. Í A-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963 sé fjallað um hvað teljist til launa. Í B-lið greinarinnar sé tekið fram, að ekki skipti máli í hverju laun eða endurgjald fyrir unnið verk sé fólgið, ef það verði metið til peninga. Til launatekna teljist því hvers konar hlunnindi, veitt í launaskyni, og önnur form fyrir greiðslur, svo sem fæði, húsnæði, ljós og hiti, bifreiðaafnot, einkennis­búningur og annar fatnaður, greiðslur í vörum úr verslunum eða afurðum úr framleiðslu­fyrirtæki og greiðsla í sérhverjum öðrum verðmætum eða eignum t.d. hlutafjáreign í hlutafélagi, innstæða í félagi eða fyrirtæki, hlutdeild í skipi eða húseign o.s.frv., og skuli laun greidd í hlunnindum talin til tekna eftir gangverði á hverjum stað og tíma. Tekjuhugtak laga nr. 75/1981 sé því rúmt. Fái maður afhent verðmæti gegn gjaldi og þetta gagngjald er lægra en svarar til verðmætanna, teljist mismunurinn vera tekjur.

         Stefndi telji lykilatriði í þessu máli, að það hafi verið stefnandi sjálfur, sem hafi metið það svo við framtalsgerð í lok febrúar 1999, að í kaupum á hlutabréfum í Búnaðarbanka Íslands hf. hafi ekki falist skattskyld hlunnindi og að gengið 1,26 væri ekki undirverð. Ætla megi, að stefnanda hafi verið ljós afstaða ríkisskattstjóra um þessa skattskyldu, sbr. ódagsett bréf bankans til starfsmanna, er stefnandi taldi fram til skatts. Hafi það fyrst verið eftir að framtal stefnanda hafði borist skattyfirvöldum, að þau hafi haft tækifæri á sinna lögbundnu hlutverki sínu og meta heildstætt, hvort eðlilega hefði verið staðið að framtalsgerð og gera athugasemdir, ef þau teldu þörf á. Skattstjóri hafi byggt á því í þessu mati sínu, að umrædd hlutabréfakaup fælu í sér skattskyld fríðindi/hlunnindi samkvæmt upphafsákvæði og 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 og talið bera að ákvarða fjárhæð þessara skattskyldu tekna sem mismun kaupverðs stefnanda og útboðsverðs til almennings. Nægar upplýsingar hafi legið fyrir í málinu um þessi atriði, áður en skattstjóri tók ákvörðun sína og sé engum rökum né gögnum stutt, að ákvörðun bankans á genginu 2,15 hafi verið áfátt. Fyrir liggi jafnframt, að hlutafé það, sem boðið var í almennri áskrift, hafi selst á því gengi, sem ákveðið var. Hafi verið á nægilega traustum grunni byggt, að stefnandi hafi, með því að nýta sér fyrrgreinda söluskilmála útboðsins og skrá sig fyrir hlutafé samkvæmt áskriftarflokki starfsmanna, haft fjárhagslegan ávinning, sem nam mismun á kaupverði, 315.000 krónum, og kaupverði samsvarandi hlutafjár samkvæmt kjörum í almennum áskriftaflokki, 537.500 krónum, eða 222.500 krónum. Hafi ákvarðanir skattyfirvalda verið málefnalegar og lögmætar. Sá mælikvarði, sem skattyfirvöld miðuðu við, þ.e. gengi hlutabréfa í sölu til almennings, hafi ekki verið ósanngjarn eftir atvikum málsins. Sé áhersla lögð á, að hlutverk skattyfirvalda hafi verið að leita eftir því hverjar hinar raunverulegu tekjur hefðu verið, þ.e. um efni máls, en ekki binda sig í form gerninga. Byggi stefndi á því, að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því, að rétt hafi verið að miða við gengið 1,26 og að rangt hafi verið af skattyfirvöldum að miða skattlagningu við gengið 2,15 miðað við öll atvik máls.

         Með bréfi bankastjórnar Búnaðarbanka Íslands hf., dags. 13. október 1998, hafi starfsmönnum bankans verið kynnt lokað útboð, sem standa skyldi til 26. október 1998. Megi gera ráð fyrir, að greiðsla hafi ekki þurft að berast fyrir þann tíma. Í því sambandi megi benda á, að áskriftartímabil vegna sölu til almennings hafi verið frá 8. - 11. desember 1998 og síðasti greiðslu­dagur áskrifta verið 29. desember 1998. Fram komi á fylgiskjali með skattframtali stefnanda, dags. 28. febrúar 1999, að stefnandi hafi keypt hlutabréf þau, sem mál þetta fjallar um, 19. nóvember 1998 og selt þau um einum mánuði síðar. Á kaupdegi, 19. nóvember 1998, hafi þegar legið fyrir ákvörðun verðs til almennings. Stefnandi hafi keypt hlutabréf að nafnvirði 250.000 kr. í Búnaðarbanka Íslands hf. á genginu 1,26 hinn 19. nóvember 1998, en selt bréfin 21. desember 1998 á genginu 2,77. Stefnandi hafi talið fram til skatts 28. febrúar 1999, löngu eftir að útboð til almennings fór fram og eftir að hún seldi hlutabréf sín. Hafi henni ekki getað dulist, að gengið 1,26 var rangt viðmiðunarverð og allt of lágt. Mótmælir stefndi skýringum stefnanda í stefnu sem röngum um viðmiðunartímamark verðs á hlutafé í bankanum og viðmiðun stefnanda, genginu 1,26.

         Stefndi byggi á því, að virða eigi hið lokaða útboð og útboðið til almennings heildstætt og að viðmiðun við 2,15 í tilviki stefnanda hafi verið málefnaleg og lögleg viðmiðun. Gengi hlutabréfa hafi verið metið 2,0 - 2,3 skv. fundargerð stjórnar Búnaðarbanka Íslands hf. vegna fundar 10. nóvember 1998. Megi gera ráð fyrir, að nokkurn tíma hafi tekið að vinna slíkt mat og að upplýsingar þessar hafi því verið til staðar, þegar stefnandi skráði sig fyrir framangreindum hlutabréfum. Hafi stefnanda verið í lófa lagið að grennslast fyrir um það hjá bankanum, sem sé sérhæfð fjármálastofnun um markaðsverð hlutabréfa í bankanum eða leita álits óháðs þriðja aðila. Hafi stefnandi borið ábyrgð á því að telja rétt fram til skatts. Af fundargerðinni sjáist, að framan­greind skýrsla hafi verið tilbúin nokkru fyrir 10. nóvember 1998, þar sem þann dag hafi verið búið að senda skýrsluna til KPMG Corporate Finance, sem hafi yfirfarið skýrsluna og skilað niðurstöðu fyrir 10. nóvember 1998. Megi gera ráð fyrir, að slíkt mat hafi tekið nokkurn tíma. Af fundargerðinni sjáist einnig, að rætt hafi verið fyrir 10. nóvember 1998 við viðskiptaráðuneytið og viðskiptaráðherra, sem komist hafi að þeirri niðurstöðu fyrir 10. nóvember 1998, að gengið yrði 2,15. Þetta hafi einnig tekið nokkurn tíma. Af öllu framangreindu leiði, að verulegar líkur séu á því, að bankinn hafi vitað um verðmæti hlutabréfa á markaði, áður en áskrift til starfsmanna bankans hófst. Af framangreindu sjáist einnig, hversu fráleit viðmiðun stefnanda er við gengi 1,26.

         Engum vafa sé undirorpið, að starfsmönnum Búnaðarbanka Íslands hf. hafi boðist hlutabréf í félaginu á undirverði. Stefnandi leggi áherslu á lagabreytingar með lögum 86/2000, þar sem inn í lög nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt hafi verið bætt 8. gr. A, og dragi þá ályktun, að sé félag ekki skráð í kauphöll, skuli sérhver afhending hlutabréfa eiga að miðast við bókfært verðmæti eigin fjár. Þessu sé mótmælt sem röngu. Þá vísi stefnandi til texta í greinargerð, þar sem kveðið var á um, að ,,inntak ákvæðisins” sé í samræmi við gildandi skattframkvæmd. Þessi texti greinargerðarinnar virðist ekki nægilega nákvæmur, sem sjáist best á því, hvaða ályktanir stefnandi dregur af honum. Það sé út af fyrir sig rétt, að það að miða við gangverð við ákvörðun á verði til skattlagningar, þegar hlutabréf eru afhent á undirverði, sé í samræmi við gildandi skattframkvæmd. Það að miða við bókfært verðmæti eigin fjár eigi sér enga stoð í skattframkvæmd, nema þegar útilokað sé að finna annað verð, en slík tilvik komi því aðeins til greina, þegar um sé að ræða hlutabréf, sem enginn ótengdur aðili myndi vilja kaupa og ætla mætti að rekstur félags væri í slíkum járnum, að til greina kæmi að slíta félaginu og selja allar eignirnar og raungera þannig hið bókfærða verðmæti eigin fjár. Það að miða við bókfært verðmæti eigin fjár feli nefnilega það í sér, að ekki sé gert ráð fyrir, að eignirnar skili neinu af sér í nánustu framtíð. Í auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 10/1999 komi fram gildandi skattframkvæmd í þessum efnum á þeim tíma, sem mál þetta taki til. Þar komi fram, að til að finna verðmæti hlutabréfa, sem ekki eru skráð í kauphöll, skuli miða við það verð, sem teljast mætti eðlilegt verð á hlutabréfunum í viðskiptum á milli óháðra aðila. Í reglunum sé tekið fram, að þetta verð geti eðli máls samkvæmt ekki farið niður fyrir bókfært verðmæti eigin fjár samkvæmt reikningsskilum, og myndi sú stærð þannig nokkurs konar gólf við verðmatið.

         Verðviðmiðun stefnanda, í þessu tilviki við bókfært verð eigin fjár um áramótin 1997/1998, sé fráleit. Sé litið til þess, að stefnandi hafi skráð sig fyrir hlutabréfum á genginu 1,26 allt fram til 26. október 1998 og að lögð hafi verið fram skýrsla verðbréfadeildar bankans sjálfs á bankaráðsfundi 10. nóvember 1998, þar sem hún taldi, að verðmæti hluta í bankanum gæti numið allt að 2,3, sbr. nefnda fundargerð, og þess, að stefnandi hafi keypt hlutabréfin 19. nóvember 1998, og sé litið til þeirrar ákvörðunar bankaráðs sama dag um sölugengi til almennings 2,15, sem staðfest hafi verið af viðskiptaráðherra og erlendu matsfyrirtæki, og síðan til þess, að stefnandi hafi umrædd hlutabréf 21. desember 1998 á genginu 2,77, sjáist hversu fráleitur málatilbúnaður stefnanda sé. Inn í töluna 1,26 séu ekki tekin grundvallarsjónarmið við mat á raunverulegu verðmæti hlutabréfa. Hafi ekki verið hægt að byggja verðmætamat á hlutafélagi eins og Búnaðarbanka Íslands hf. á bókfærðu verði eigin fjár. Hafi verðmæti bankans ekki verið meira en sem þeirri fjárhæð nam, hefði aldrei verið reynt að selja bankann, enda engin eftirspurn eftir hlutafélögum, sem eru ekki verðmetin umfram bókfært verðmæti eigin fjár. Mun fleiri þættir komi þar til skoðunar, m.a. sjóðsstreymisgreining, og sé þannig litið til rekstrarhæfis og tekjumöguleika fyrirtækis til framtíðar. Benda megi á það sjónarmið um verðmat félaga, að sé verðmæti hluta 1, séu vart nokkrar væntingar í gangi hjá félaginu. Eins og áður greini hafi verðbréfadeild Búnaðarbanka Íslands hf. talið, að verðmæti hlutafjár í bankanum gæti numið allt að 2,3. Megi færa fram rök fyrir því, að sala til almennings á gengi 2,15 kunni að hafa verið í lægra lagi til að örva sölu. Því megi ætla, að almenningur hafi fengið hlutabréfin á mjög hagstæðu verði. Bent sé á, að allt hlutafé, sem í boði var, 600.000.000 krónur, í lokaða útboðinu og í útboðinu til almennings, seldist upp. Í útboðslýsingu komi fram undir kaflanum: ,,útboðsfyrirkomulag”, að hver áskrifandi gat skráð sig fyrir hlutabréfum að hámarki 500.000 krónur að nafnverði. Svo mikil hafi áskriftin verið, að hver einstaklingur/lögaðili hafi aðeins keypt bréf að nafnverði 3.760 krónur skv. upplýsingum frá Búnaðarbanka Íslands hf. Hafi markaðurinn því metið gengið 2,15 sem mjög hagstætt verð á hlutabréfunum. Engar efnahagslegar, hagrænar eða aðrar forsendur hafi staðið til, að bankinn hefði verið svo miklu verðminni í október 1998 en hann var í nóvember sama ár. Hafi ekkert breyst, sem réttlætti önnur viðhorf til verðákvörðunar. Skuli sérstaklega bent á, að bankinn hafi á þessum tíma verið í vexti og haft hafi verið eftir formanni bankaráðs í Morgunblaðinu 16. september 1998, að bankinn yxi stöðugt og auka þyrfti eigið fé hans, til þess að vöxturinn gæti haldið áfram.

         Stefndi mótmælir málsástæðu stefnanda, um að lögbundins andmælaréttar hennar skv. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993, hafi ekki verið gætt, þar sem búið hafi verið að taka ákvörðun í máli stefnanda, áður en kostur hafi verið gefinn á að koma að lögmæltum andmælum. Ríkisskattstjóri hafi verið innan lögmælts valdsviðs síns varðandi leiðbeiningar, sam­ræmingar og yfirumsjónar-verkefni embættisins og annað skv. 101. og 102. gr. laga nr. 75/1981. Fái  ekki staðist, að framkvæmd lögmæltra embættisskyldna feli í sér, að farið sé á svig við lögmæltan andmælarétt skattþegna við meðferð einstakra mála og hafi stefnandi notið hans í hvívetna við málsmeðferð hjá skattstjóra og fyrir yfirskattanefnd. Ekkert í málinu bendi til, að andmælaréttur hafi verið veittur eingöngu til málamynda. Í þessu sambandi sé vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 26/2002.

         Í máli þessu hafi skattstjóri ekki byggt á því, að um óeðlileg viðskipti í fjármálum væri að ræða í skilningi 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, þar sem um óeðlilega lágt verð hefði verið að ræða, heldur því, að grundvöllurinn að þeim kjörum lægi í starfs­sambandinu á milli stefnanda og Búnaðarbanka Íslands hf. og því væri í raun um að ræða launagreiðslur. Engan veginn verði talið, að laganauðsyn hafi borið til að beita 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, eins og stefnandi haldi fram, fremur en endranær, þegar lagt er á það mat, hvort í starfskjörum launamanna felist skattskyld hlunnindi. Þannig sé augljóst, að sú grein feli ekki í sér, að tekjur séu felldar undan skattskyldu samkvæmt 7. gr., og geti engu breytt um mat á þeim tekjum, sem stefnanda hafi hlotnast við kaupin. Eðlilegt kaupverð hlutabréfanna í skilningi 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981 hafi verið það gengi, sem almenningi buðust hlutabréfin á, þegar stefnandi keypti hlutabréf á starfsmannakjörum.

         Þá er mótmælt, að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst, áður en skattyfirvöld tóku ákvörðun í því, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993. Vísist til þeirra sjónarmiða, sem að framan greini, og sé sérstaklega áréttað, að mat skattyfirvalda hafi farið fram, eftir að stefnandi skilaði inn framtali sínu og þá legið fyrir allar nauðsynlegar upplýsingar til að finna sanngjarna og eðlilega viðmiðun á verðmæti bréfanna. 

         Einnig er mótmælt sem röngu, að ákvörðun skattstjóra hafi ekki verið rökstudd með fullnægjandi hætti. Byggir stefndi á því, að fullnægt hafi verið skilyrðum 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 og l. mgr. 22. gr. laga nr. 37/1993. Stefndi mótmæli og sem röngu, að l. mgr. B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963 eigi ekki við í máli stefnanda.

         Vegna varakröfu um lækkun stefnukrafna er vísað til sömu sjónarmiða og fram koma varðandi sýknukröfu. Mótmælt er, að stefnandi geti átt rétt á dráttarvöxtum frá fyrri tíma en þingfestingu málsins, sbr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

III.

         Samkvæmt upphafsákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast til skattskyldra tekna, með þeim undantekningum og takmörkunum er greinir í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður, sem skattaðila hlotnast og metin verði til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan tekjurnar stafa eða í hvaða formi þær eru. Í l. mgr. l. tl. A-liðar lagagreinarinnar er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila, og eru þar nefnd í dæmaskyni ýmiss konar laun og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega séu gefnar sem kaupauki. Er tekið fram, að hvorki skipti máli, hver tekur við greiðslum né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi, sem launamenn hljóta í starfi. Þá segir í B-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, að ekki skipti máli í hverju laun eða endurgjald fyrir unnið verk sé fólgið, verði það metið til peninga. Teljist til launatekna hvers konar hlunnindi, veitt í launaskyni, og önnur form fyrir greiðslur, svo sem fæði, húsnæði, ljós og hiti, bifreiðaafnot, einkennisbúningur og annar fatnaður, greiðslur í vörum úr verslunum eða afurðum úr framleiðslufyrirtæki og greiðsla í sérhverjum öðrum verðmætum eða eignum, t.d. hlutafjáreign í hlutafélagi, innstæða í félagi eða fyrirtæki, hlutdeild í skipi eða húseign og svo framvegis. Samkvæmt því, sem rakið hefur verið, verður að skýra tekjuhugtak laga nr. 75/1981 rýmkandi lögskýringu. 

         Í kjölfar setningar laga nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, ákváðu yfirvöld bankamála að bjóða starfsmönnum bankanna kaup á hluta nýs hlutafjár í bönkunum. Sú ákvörðun var reist á vinnu tveggja undirbúningsnefnda, sem settar voru á laggirnar með stoð í 2. gr. nefndra laga. Kemur fram í athugasemdum með frumvarpi til laganna, að rétt sé að huga að því, hvernig veita megi starfsmönnum bankanna aukinn rétt eða aðgang að kaupum á hlutafé. Í minnisblaði viðskiptaráðherra frá 30. desember 1997 til ríkisstjórnarinnar segir meðal annars, að við umfjöllun sína hafi undirbúningsnefndirnar athugað sérstaklega, hvort og hvernig veita beri starfsmönnum aðila að sölu sem þessari, en eins og kunnugt sé, hafi jafnan verið lögð á það áhersla af hálfu starfsmanna, að þeim verði með einum eða öðrum hætti veittur aukinn réttur í tengslum við sölu hlutabréfa í bankanum. Í þessu efni telji nefndirnar koma til greina, að starfsmönnum og eftirlaunasjóði verði boðið tiltekið hlutfall heildarhlutafjár til sölu og miðist söluverð bréfanna við gengi, sem samsvari verðmati, jafnháu eigin fé í árslok. Verði þannig tryggð samstaða starfsmanna með fyrirtækinu, auk þess sem almenn sátt náist um aðgerðina. Var starfsmönnum Búnaðarbanka Íslands hf. og Lífeyrissjóði Búnaðarbanka Íslands hf. veittur réttur til að kaupa hlutafé, samtals að nafnverði 250.000.000 króna, á genginu 1,26, sem jafngilti innra virði bankans um áramótin 1997/1998, í lokuðu útboði. Fór útboðið fram á tímabilinu frá 12. til 26. október 1998. Segir í útboðs- og skráningarlýsingu, dagsettri 1. desember 1998, að þetta hafi verið liður í heildarskipulagi á breytingu bankans í hlutafélag og breytingu á lífeyriskerfi starfsmanna. Hins voru hlutabréfin seld almenningi, dagana 8. til 11. desember 1998, á genginu 2,15.

         Stefnandi var einn þeirra starfsmanna bankans, sem nýtti sér lokaða útboðið, en upplýst er, að starfsmennirnir keyptu hlutabréf á þessum kjörum fyrir 167.000.000 króna. Keypti stefnandi hlutabréf að nafnvirði 250.000 krónur á genginu 1,26, og nam kaupverð því 315.000 krónum. Jafnvirði hlutabréfa þeirra, sem almenningi stóðu til boða á genginu 2,15, nam því 537.500 krónum.

         Ljóst er af framansögðu, að stefnandi keypti hlutabréf í bankanum á sérstökum starfsmannakjörum í hinu lokaða útboði, sem stóð í beinum tengslum við formbreytingu bankans í hlutafélag. Var útboðið þannig ívilnandi gagnvart starfsmönnum bankans, sem nutu sérstöðu umfram aðra og fengu bréfin á lægra verði, en öðrum stóð til boða skömmu síðar. Er ekkert fram komið í málinu, sem gerir það að verkum, að gengi þeirra hlutabréfa, sem stóðu til boða samkvæmt almenna útboðinu, hafi verið rangt metið. Má í því sambandi benda á, að verðbréfadeild Búnaðarbanka Íslands hf. taldi, að gengi hlutafjár í bankanum gæti numið allt að 2,3. Verður því að telja, að gengi hlutabréfa, sem almenningi stóð til boða, hafi fremur verið í lægra lagi en hærra, enda seldust bréfin upp á fjórum dögum.

         Þegar framangreind útboð hlutabréfa í bankanum eru virt heildstætt er það mat dómsins, að um starfstengdar tekjur stefnanda hafi verið að ræða með kaupum hennar á hlutabréfum á sérstökum kjörum greint sinn og þar með skattskyld hlunnindi í skilningi laga nr. 75/1981. Hafði stefnandi því fjárhagslegan ávinning af kaupum hlutabréfanna, sem nemur mismun á kaupverði, 315.000 krónum, og kaupverði samsvarandi hlutafjár á kjörum þeim, sem giltu í hinum almenna útboði, 537.500 krónum, eða 222.500 krónur. Ber því að telja mismuninn til skattskyldra tekna stefnanda samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.

         Ekkert er annað komið fram í málinu, en að stefnandi hafi við meðferð skattyfirvalda sannanlega notið lögmælts andmælaréttar síns samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993  

         Það er niðurstaða dómsins samkvæmt framansögðu, að eðlilegt hafi verið að miða verðgildi hlutabréfa í Búnaðarbanka Íslands hf. á þeim tíma, sem stefnandi gerði umrædd kaup sín, við gengið 2,15, svo sem gert var skömmu síðar. Verður því hvorki fallist á með stefnanda, að 2. mgr. 58. gr. né 8. gr. A laga nr. 75/1981, sbr. 2. gr. laga nr. 86/2000, eigi hér við. Sama gildir um 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987 um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu.

         Allar nauðsynlegar upplýsingar lágu fyrir, til að skattstjóra væri fært að taka ákvörðun í máli stefnanda. Sú ákvörðun var og rökstudd með fullnægjandi hætti. Var því í senn farið að fyrirmælum 10. gr. og 22. gr. laga nr. 37/1993 við meðferð málsins.

         Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en rétt þykir eftir atvikum, að málskostnaður falli niður.

         Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

         Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Lísu Ásgeirsdóttur, í máli þessu.