Hæstiréttur íslands
Mál nr. 218/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Kröfuröð
|
|
Mánudaginn 29. apríl 2013. |
|
Nr. 218/2013.
|
Glitnir hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) gegn Askar Capital hf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Kröfuröð.
Í málinu deildu aðilar um það hvort kröfulýsing A hf. við slit G hf. hefði falið í sér lýsingu á veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga eða hvort þar hefði einungis verið lýst eftirstæðri kröfu. Talið var að ekki væri hægt að túlka kröfulýsingu A hf. á þann veg að hann hefði lýst kröfu sinni í heild sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr., enda væri skýrlega vísað til þess í kröfulýsingu að verið væri að lýsa annars vegar veðkröfu og hins vegar eftirstæðri kröfu. Skipti þá engu máli þótt röng dagsetning hefði verið nefnd í sambandi við hina eftirstæðu kröfu, enda um augljósa misritun að ræða. Var því fallist á með A hf. að hann hefði lýst kröfu sinni sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. áðurgreindra laga og dráttarvöxtum frá 22. apríl 2009 sem eftirstæðri kröfu. Þar sem veð það sem vísað var til í kröfulýsingunni hafði hins vegar verið selt tæpu ári fyrir kröfulýsinguna þótti ljóst að krafan nyti ekki rétthæðar samkvæmt áðurnefndri 111. gr. Var fallist á það með A hf. að í lýsingu félagsins á veðkröfu fælist jafnframt almenn krafa og að A hf. væri heimilt að gera slíka kröfu þar sem hún gengi skemur en veðkrafa. Var krafa A hf. því viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 og krafa hans um dráttarvexti jafnframt viðurkennd sem eftirstæð krafa.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2013, þar sem kröfu varnaraðila að fjárhæð 88.005.109 krónur var skipað í réttindaröð við slit sóknaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og kröfu hans um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af fyrrgreindri fjárhæð frá 22. apríl 2009 til greiðsludags sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess hafnað verði kröfu varnaraðila um að krafa að fjárhæð 88.005.109 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 og að staðfest verði sú ákvörðun slitastjórnar sóknaraðila að taka ekki afstöðu til þess hvort lýstri kröfu varnaraðila um dráttarvexti frá 22. apríl 2009 verði skipað í réttindaröð við slit sóknaraðila sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðli, Glitnir hf., greiði varnaraðila, Askar Capital hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2013.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. febrúar sl., var þingfest 24. maí 2012.
Sóknaraðili er Askar Capital hf., Suðurlandsbraut 12, Reykjavík.
Varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að við slit varnaraðila verði viðurkennd almenn krafa hans samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 88.005.109 kr. Þá krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991 krafa hans um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 88.005.109 kr. frá 22. apríl 2009 til greiðsludags. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að krafa að fjárhæð 88.005.109 kr. verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst varnaraðili þess að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að taka ekki afstöðu til þess hvort lýst krafa sóknaraðila verði samþykkt sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Loks krefst varnaraðili málskostnaðar.
Málsatvik
Í málinu deila aðilar um hvort kröfulýsing sóknaraðila í slitabú varnaraðila hafi falið í sér lýsingu á veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða hvort þar hafi einungis verið lýst eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. laganna.
Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Með gildistöku laga nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002, var varnaraðili síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Hinn 12. maí sama ár skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn yfir varnaraðila sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur honum. Gaf hún út innköllun til skuldheimtumanna 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Samkvæmt 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda reglur laga nr. 21/1991 um meðferð krafna við slitin, sbr. 2. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 44/2009.
Með kröfulýsingu, dags. 25. nóvember 2009, lýsti sóknaraðili kröfu við slitameðferð varnaraðila. Í upphafi kröfulýsingarinnar segir að með vísan til innköllunar, sem birst hafi fyrra sinni í Lögbirtingablaðinu þann 26. maí 2009, lýsi sóknaraðili eftirfarandi kröfu á hendur þrotabúinu:
|
Höfuðstóll |
1.689.245.938 kr. |
|
Dráttarvextir frá 15.10.2008 til og með 30.12.2008 |
94.503.926 kr. |
|
Innágreitt 30.12.2008 |
1.702.110.368 kr. |
|
Nýr höfuðstóll |
81.639.496 kr. |
|
Dráttarvextir frá 30.12.2008 til og með 22.4.2009 |
6.365.613 kr. |
|
Dráttarvextir frá 22.4.2009 til og með 25.11.2009 |
9.766.125 kr. |
|
Samtals |
97.771.233 kr. |
Í kröfulýsingu kemur síðan fram að sóknaraðili byggi kröfu sína á lántöku varnaraðila, þar sem sóknaraðili hafi tekið skuldabréfið HFF 15 0224, að nafnverði 1.500.000.000 kr., að veði fyrir skilvísri greiðslu á láni, dags. 3. september 2009, á milli sóknaraðila og varnaraðila. Lánið hafi verið framlengt til viku í senn frá upphafsdegi fram til gjalddaga þann 15. október 2008. Á gjalddaga hafi varnaraðili ekki greitt umsamda fjárhæð. Þann 30. desember 2008 hafi skuldabréfið verið selt upp í skuld sóknaraðila, en þá hafi lánið verið búið að vera í vanskilum frá 15. október 2008. Andvirði sölunnar hafi runnið fyrst til greiðslu höfuðstóls og síðan til greiðslu áfallinna vaxta. Í kröfulýsingu segir síðan:
„Kröfu þessari er lýst sem veðkröfu í þrotabúið samkvæm [svo] 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Þá er krafist áfallandi dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum af ofangreindum höfuðstól skuldarinnar frá 15.10.2008 til greiðsludags. Þeirri kröfu er lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.“
Með bréfi til sóknaraðila, dags. 4. ágúst 2011, tilkynnti slitastjórn varnaraðila um afstöðu sína til kröfunnar. Í bréfinu er tekið fram að í kröfulýsingu lýsi sóknaraðili kröfunni sem eftirstæðri samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til 1. mgr. 119. gr. sömu laga sé ekki tekin afstaða til þess hvort krafan sé samþykkt sem eftirstæð krafa, þar sem telja megi víst að ekki geti komið til greiðslu slíkra krafna við skiptin. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnarinnar og tók fram um ástæður mótmælanna, sem slitastjórnin móttók þann 30. ágúst 2011, að krafan væri ekki eftirstæð heldur væri henni lýst sem veðkröfu og nú til vara sem almennri kröfu. Þann 22. desember 2011 var haldinn fundur í því skyni að reyna að jafna ágreininginn. Í fundargerð kemur fram að slitastjórn hafi hafnað kröfunni þar sem hún hafi verið talin vanreifuð auk þess sem hún hafi ekki verið talin eiga rétt á sér. Af hálfu sóknaraðila voru fyrri mótmæli ítrekuð. Þar sem ekki tókst að leysa ágreininginn ákvað slitastjórn í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að beina ágreiningsefninu til úrlausnar héraðsdóms eftir 171. gr. sömu laga.
Ekki er deilt um tölulegar forsendur að baki kröfu sóknaraðila. Þannig var bókað eftir lögmanni varnaraðila í aðdraganda aðalmeðferðar þann 21. febrúar 2013, að í kjölfar framlagningar skjala, sem lögð voru fram í þinghaldi þann 16. janúar 2013, væri ekki gerður ágreiningur af hálfu varnaraðila um tölulegar fjárhæðir, heldur stæði deilan eingöngu um það hvort lýst hafi verið veðkröfu eða eftirstæðri kröfu. Rétt er þó að taka fram að af fyrirliggjandi skjölum og því sem lögmaður sóknaraðila lýsti við aðalmeðferð er ljóst að samningsdagur umrædds láns var 10. september 2008 en ekki 3. september 2009, sem nefndur er í kröfulýsingu.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili vísar til þess að í kröfulýsingu sé kröfu hans lýst sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í þeirri tilgreiningu á stöðu kröfunnar í skuldaröð felist jafnframt almenn krafa á grundvelli 113. gr. sömu laga, þar sem slík krafa gangi skemur en veðkrafa. Þar sem veðið sem stóð að baki kröfunni hafi verið selt sé krafan nú einungis gerð á grundvelli 113. gr.
Ljóst sé af kröfulýsingu hver hafi verið ætlun sóknaraðila og túlka beri kröfulýsingu í samræmi við þann augljósa tilgang. Sóknaraðili hafi lýst kröfu að fjárhæð 88.005.109 kr. sem veðkröfu við slitin en kröfunni hafi að öðru leyti verið lýst sem eftirstæðri kröfu. Tilvísun í kröfulýsingu í dagsetninguna 15. október 2008 sé augljós misritun en þar hafi borið að standa 22. apríl 2009. Sú misritun sé m.a. augljós þar sem fram komi í fyrrihluta viðkomandi setningar í kröfulýsingu að krafist sé áfallandi dráttarvaxta til greiðsludags. Í þessu sambandi beri jafnframt að líta til tilgreiningar 1. tölul. 114. gr. laga nr. 21/1991 á því hvaða kröfur séu eftirstæðar.
Þá segi í kröfulýsingu að eftirstæð krafa sé gerð um greiðslu dráttarvaxta af höfuðstól skuldarinnar. Samkvæmt kröfulýsingu sé nýr höfuðstóll kröfunnar 81.639.496 kr. þann 30. desember 2008 og sú afstaða varnaraðila sé röng að telja þann höfuðstól vera höfuðstól dráttarvaxta, enda sé m.a. ekki heimilt að reikna dráttarvexti af dráttarvöxtum. Í kröfulýsingu sé höfuðstóll kröfunnar tilgreindur og kröfunni lýst sem veðkröfu. Kröfu um greiðslu dráttarvaxta sé lýst sem eftirstæðri kröfu og því verði ekki ályktað sem svo að kröfu um greiðslu höfuðstóls kröfu hafi einnig verið lýst sem eftirstæðri kröfu. Krafa sóknaraðila sé sundurgreind í kröfulýsingu. Er greitt hafi verið inn á kröfuna þann 30. desember 2008 hafi krafa sóknaraðila staðið í 1.783.749.864 kr. Innborgun hafi gengið fyrst til greiðslu áfallinna dráttarvaxta, líkt og venja sé til, og eftirstöðvar höfuðstóls kröfunnar eftir þá innborgun hafi því verið 81.639.496 kr. Sá höfuðstóll sé skýrlega tilgreindur í kröfulýsingu. Ef þeirri fjárhæð hefði verið lýst sem dráttarvöxtum og því eftirstæðri kröfu hefði kröfunni ekki verið lýst sem höfuðstól í kröfulýsingu. Dráttarvextir af fyrrgreindum höfuðstól kröfunnar frá 30. desember 2008 til úrskurðardags, 22. apríl 2009, nemi 6.365.613 kr. og því sé höfuðstóll kröfunnar auk dráttarvaxta til þess dags 88.005.109 kr. Sóknaraðili hafi ekki lýst kröfu um greiðslu dráttarvaxta frá 15. október 2008 til 30. desember 2008, heldur kröfu um greiðslu höfuðstóls kröfu þann 30. desember 2008 og dráttarvaxta frá þeim degi.
Sóknaraðili kveður að hann hafi lýst eftirstæðri kröfu um greiðslu dráttarvaxta frá þeim degi er úrskurður var kveðinn upp um slitameðferð varnaraðila. Hann bendir á að setningin í kröfulýsingu um að kröfunni sé lýst sem veðkröfu komi á undan setningunni um að dráttarvöxtum sé lýst sem eftirstæðum og telur að því beri að skýra síðari setninguna með hliðsjón af þeirri fyrri, auk þess sem sú fyrri gangi framar samkvæmt almennum skýringarreglum. Fyrri setningin segi berum orðum að kröfunni sem slíkri sé lýst sem veðkröfu. Ef skýring varnaraðila yrði ofan á væri með öllu litið fram hjá fyrri setningunni og hún hefði þá engin réttaráhrif, heldur einungis síðari setningin. Þá sé augljóst að tilgreining vaxta sem eftirstæðrar kröfu geti aldrei átt við um höfuðstól kröfunnar þann 30. desember 2008.
Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 100., 111. og 114. gr. Þá vísar hann til reglna samninga- og kröfuréttar.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Í greinargerð varnaraðila er tekið fram að varnaraðili telji kröfulýsingu sóknaraðila vanreifaða og að hún fullnægi ekki þeim áskilnaði sem felist í 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hvað varði skýrleika og þar sem fullnægjandi gögn hafi ekki fylgt henni. Sem áður segir var því hins vegar lýst yfir af hálfu varnaraðila við upphaf aðalmeðferðar, að eftir gagnaframlagningu sóknaraðila stæði ágreiningurinn eingöngu um það hvort lýst hafi verið veðkröfu eða eftirstæðri kröfu.
Varnaraðili vísar til þess að í kröfulýsingu sóknaraðila komi fram að verið sé að krefjast höfuðstóls að fjárhæð 1.689.245.938 kr. og dráttarvaxta frá 10. október 2008 til 30. desember 2008 að fjárhæð 94.503.926 kr., en þá hafi 1.702.110.368 kr. verið innágreiddar, sem fengist hafi fyrir sölu á veðinu sem verið hafi á bak við lánssamning aðila. Þá tiltaki sóknaraðili að „nýr höfuðstóll“ sé 81.639.496 kr. Þá krefjist hann jafnframt dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 30. desember 2008 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 6.365.613 kr. og frá 22. apríl 2009 til 25. nóvember 2009 að fjárhæð 9.766.125 kr., eða samtals 97.771.233 kr. Sóknaraðili tiltaki jafnframt í kröfulýsingu sinni að hann hafi selt skuldabréf HFF 15 0224 upp í skuld varnaraðila þann 30. desember 2008. Þá hafi lánið verið í vanskilum frá 15. október 2008. Andvirði sölunnar hafi runnið „fyrst til greiðslu höfuðstóls og síðan til greiðslu áfallinna vaxta“. Beri að leggja þá atvikalýsingu til grundvallar, enda engin gögn verið lögð fram af hálfu sóknaraðila sem sýni fram á annað. Þá beri jafnframt að leggja til grundvallar að þar sem ekkert veðandlag hafi verið til staðar eftir umrædda greiðslu þann 30. desember 2008 geti krafa sóknaraðila ekki fallið undir það að teljast veðkrafa í skilningi 111. gr. laga nr. 21/1991. Þá komi einnig fram í kröfulýsingu sóknaraðila að krafist sé áfallandi dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum af „ofangreindum höfuðstól skuldarinnar frá 15.10.2008 til greiðsludags“ og þeirri kröfu sé lýst sem eftirstæðri samkvæmt 114. gr. sömu laga.
Varnaraðili telur að miðað við framangreinda framsetningu á atvikum máls og kröfugerð sóknaraðila í kröfulýsingu sé fullljóst að þegar veðið hafi verið selt, hafi fyrst verið greitt inn á höfuðstól en svo inn á áfallna vexti. Salan á veðinu hafi þó verið hærri en hinn meinti höfuðstóll. Þar sem sóknaraðili hafi sjálfur sérstaklega tiltekið að dráttarvextir eftir 15. október 2008 væru eftirstæð krafa og höfuðstóllinn væri allur greiddur af veðinu, verði ekki betur séð en að krafa sóknaraðila sé að öllu leyti eftirstæð krafa. Varnaraðila hafi því verið rétt að taka ekki afstöðu til hennar, sbr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem krafa sóknaraðila sé eftirstæð séu ekki lagaskilyrði til að krefjast þess að dráttarvextir af henni verði samþykktir sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr., sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili vísar til ákvæða 2. mgr., 3. mgr. og 6. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Meðal þess sem koma skuli fram í kröfulýsingu sé hverrar stöðu sé krafist að krafa njóti í skuldaröð. Kröfuhafi verði því beinlínis að taka það fram ætlist hann til að krafa hans standi annars staðar í skuldaröð en sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. Varnaraðili byggir á því að af 117. gr., sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991, leiði að eftir lok kröfulýsingarfrests geti kröfuhafar almennt ekki aukið við kröfur sínar nema að uppfylltum þröngum skilyrðum 1.-6. tölul. 118. gr. laganna. Vísar varnaaðili í því sambandi einnig til 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að auki gildi á sviði gjaldþrotaskiptaréttar meginreglan um jafnræði kröfuhafa um fullnustu krafna sinna og samkvæmt almennum lögskýringarreglum beri að túlka allar undantekningar frá slíkri grunnreglu þröngt. Ef fallist verður á að einstakir kröfuhafar geti aukið við kröfur sínar eftir lok kröfulýsingarfrests, án þess að undantekningarreglur 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi við, stríði slík málsmeðferð gegn fyrrnefndri meginreglu. Einu megi gilda hvort markmið slíkra breytinga sé að leiðrétta kröfulýsingar vegna óheppilegra mistaka eða misskilnings.
Varnaraðili hafnar því að mögulegt sé að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem veðkröfu í skilningi 111. gr. laga nr. 21/1991, enda sé óumdeilt að veðið hafi verið selt og ráðstafað upp í kröfuna áður en til slitameðferðar kom og áskilnaði 111. gr. laganna því ekki fullnægt.
Þá hafnar varnaraðili því, sem sóknaraðili haldi nú fram, að um augljósa misritun hafi verið að ræða. Varnaraðila hafi slíkt ekki verið ljóst enda hafi sérstaklega verið vísað til þess af hálfu sóknaraðila að um væri að ræða dráttarvexti „af ofangreindum höfuðstól frá 15.10.2008“. Í kröfulýsingu hafi orðið „höfuðstóll“ aðeins einu sinni komið fram að þessari setningu frátalinni, en það hafi verið á forsíðu og verið sú fjárhæð sem byrjað hafi að safna á sig dráttarvöxtum 15. október 2008 samkvæmt sóknaraðila. Því sé ekki um augljósa misritun að ræða. Varnaraðili bendir jafnframt á í þessu sambandi að sóknaraðili vísi ekki bara einu sinni, heldur tvisvar, til dagsetningarinnar 15. október 2008, þ.e. um það hvenær vanskil hafi hafist og hvenær krafist sé dráttarvaxta. Ef til vill sé um mistök að ræða í kröfulýsingu en varnaraðila sé ekki stætt á að lagfæra það fyrir sóknaraðila eða gefa honum afslátt hvað það varðar vegna hagsmuna annarra kröfuhafa og meginreglunnar um jafnræði kröfuhafa. Varnaraðili bendir jafnframt á að í lögum nr. 21/1991 sé ekki að finna nein fyrirmæli um að skiptastjóri eigi að benda kröfuhafa á slíkt, enda verði að ætla að kröfuhafi búi sjálfur yfir betri vitneskju um kröfu sína en skiptastjóri.
Varnaraðili hafnar því að sóknaraðila sé stætt á að auka við kröfugerð sína frá kröfulýsingu til greinargerðarskila. Með því að sóknaraðili byggi á framangreindri málsástæðu sé hann að auka við málsástæður sínar sem ekki hafi verið lýst í kröfulýsingu og slíkt sé óheimilt með vísan til 117., sbr. 118. og 120. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili vísar hér sérstaklega til ákvæðis 2. mgr. 117. gr. um efni kröfulýsingar. Þrátt fyrir að ákvæði 1. mgr. 177. gr. laganna kveði á um að í greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms skuli koma fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar, verði að telja að það veiti sóknaraðila ekki heimild til að koma að algjörlega nýjum kröfum eða málsástæðum, eftir að ágreiningnum hefur verið beint til dómsins, nema með samþykki varnaraðila. Með engu móti megi telja að sóknaraðili geti komið að nýjum kröfum eða málsástæðum löngu eftir lok kröfulýsingarfrests, án þess að slitastjórn varnaraðila hafi haft nokkur tök á því að sannreyna kröfurnar, taka afstöðu til þeirra og eftir atvikum reyna að jafna ágreining um þær. Slíkt væri einnig til þess fallið að svipta aðra kröfuhafa rétti sínum til mótmæla. Varnaraðili telur því að miða verði við kröfulýsingu sóknaraðila og þær kröfur sem þar komi fram. Þar sé þess krafist að krafa sóknaraðila sé eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991 og verði hann að bera ábyrgð á kröfulýsingu sinni hvað það varðar.
Varnaraðili vísar til þess að sönnunarbyrði um að krafa sóknaraðila sé fyrir hendi og um eðli hennar og stöðu í skuldaröð hvíli á sóknaraðila. Vísar varnaraðili m.a. til þeirrar meginreglu sem búi að baki ákvæði 117. gr. laga nr. 21/1991, þ.e. varðandi form og efni kröfulýsingar og sönnunargagna sem kröfur séu studdar við.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., og almennra reglna kröfuréttar.
Niðurstaða
Aðilar deila um hvort kröfulýsing sóknaraðila í slitabú varnaraðila hafi falið í sér lýsingu á veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða hvort þar hafi einungis eftirstæðri kröfu verið lýst samkvæmt 114. gr. laganna. Óumdeilt er að hin umdeilda krafa nýtur ekki rétthæðar samkvæmt 111. gr., en það veð sem vísað er til í kröfulýsingu var selt þann 30. desember 2008. Sóknaraðili byggir hins vegar á því að í lýsingu hans á veðkröfu felist jafnframt almenn krafa, þar sem slík krafa gangi skemur en veðkrafa, og krefst þess að almenn krafa hans að fjárhæð 88.005.109 kr. verði viðurkennd. Ekki er ágreiningur um tölulegar forsendur þeirrar kröfu og verður afstaða varnaraðila við aðalmeðferð ekki skilin öðruvísi en svo, að varnaraðili telji að sóknaraðili hafi átt almenna kröfu að umræddri fjárhæð að efni til, en hafna beri því að viðurkenna hana þar sem kröfunni hafi verið lýst sem eftirstæðri kröfu.
Í upphafi kröfulýsingar sóknaraðila er að finna sundurliðun á kröfu hans. Þar er fyrst tilgreindur höfuðstóll að fjárhæð 1.689.245.938 kr. og dráttarvextir frá 15. október 2008 til og með 30. desember 2008, að fjárhæð 94.503.926 kr. Frá samtölu þessara tveggja fjárhæða er dregin innágreiðsla 30. desember 2008, að fjárhæð 1.702.110.368 kr., og þannig fundinn út „Nýr höfuðstóll“, að fjárhæð 81.639.496 kr. Við þá fjárhæð er loks bætt dráttarvöxtum frá 30. desember 2008 til og með 22. apríl 2009, að fjárhæð 6.356.613 kr., og dráttarvöxtum frá 22. apríl 2009 til og með 25. nóvember 2009, að fjárhæð 9.766.125 kr., og þannig fengin út kröfufjárhæðin 97.771.233 kr. Fjárhæð þeirrar almennu kröfu, sem sóknaraðili krefst viðurkenningar á, er samtala hins nýja höfuðstóls og dráttarvaxta frá 30. desember 2008 til og með 22. apríl 2009.
Í kjölfar framangreindrar sundurliðunar í kröfulýsingu er tekið fram að krafan byggi á lántöku varnaraðila, þar sem sóknaraðili hafi tekið nánar tiltekið skuldabréf að veði fyrir skilvísri greiðslu varnaraðila á láni á milli sóknaraðila og varnaraðila. Þann 30. desember 2008 hafi skuldabréfið verið selt upp í skuldina, eftir að hafa verið í vanskilum frá 15. október 2008, og andvirði sölunnar runnið fyrst til greiðslu höfuðstóls og síðan áfallinna vaxta. Síðan segir: „Kröfu þessari er lýst sem veðkröfu í þrotabúið samkvæm [svo] 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá er krafist áfallandi dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum af ofangreindum höfuðstól skuldarinnar frá 15.10.2008 til greiðsludags. Þeirri kröfu er lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.“
Framangreind framsetning verður ekki túlkuð með þeim hætti að sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni í heild sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr., enda er skýrlega vísað til þess að verið sé að lýsa annars vegar veðkröfu og hins vegar eftirstæðri kröfu um áfallandi dráttarvexti af höfuðstól. Þannig segir berum orðum annars vegar „Kröfu þessari er lýst sem veðkröfu í þrotabúið“ en hins vegar „Þá er krafist áfallandi dráttarvaxta af ofangreindum höfuðstól“ og síðarnefndu kröfunni lýst sem eftirstæðri. Þótt dagsetningin 15. október 2008 sé nefnd í sambandi við hina eftirstæðu kröfu, en ekki 22. apríl 2009, verður að fallast á það með sóknaraðila að þar hafi verið um augljósa misritun að ræða, sem ekki gat leitt til þess að kröfulýsingin í heild yrði skilin svo að einungis eftirstæðri kröfu væri lýst. Með slíkri túlkun væri í reynd algjörlega horft fram hjá hinu beina orðalagi kröfulýsingar, sem er skýrt um að áðurnefndum tvenns konar kröfum sé lýst. Hér athugast jafnframt að hinn nýi höfuðstóll, sem tilgreindur er í upphafi kröfulýsingar, inniheldur m.a. dráttarvexti eftir 15. október 2008, á meðan eftirstæðu kröfunni er lýst svo að krafist sé „áfallandi dráttarvaxta ... af ofangreindum höfuðstól“. Þá væri kröfugerð í þá veru sem varnaraðili leiðir af kröfulýsingunni talsvert óvenjuleg í ljósi efnis 1. tölul. 114. gr., en eftirstæðar kröfur samkvæmt ákvæðinu leiða af öðrum lýstum kröfum og falla fyrst til við tímamark sem í þessu tilviki var 22. apríl 2009. Sá skilningur sem varnaraðili heldur fram verður því ekki talinn nærtækur, á kröfulýsingu sem berum orðum vísar til bæði veðkröfu og eftirstæðrar kröfu, heldur verður að túlka hana í samræmi við þann augljósa tilgang sem birtist í orðum hennar og framsetningu. Þá verður ekki talið, að tilgreiningin í kröfulýsingu á því að innborgunin 30. desember 2008 hafi runnið fyrst til greiðslu höfuðstóls, geti leitt til þess að skilja beri kröfulýsinguna svo að þar sé einungis eftirstæðri kröfu lýst. Í sundurliðuninni í upphafi kom enda fram, að eftir stæði hinn nýi höfuðstóll, sem síðan var fylgt eftir með yfirlýsingu um að „Kröfu þessari“ væri lýst sem veðkröfu, áður en fram kom að einnig væri lýst eftirstæðri kröfu um áfallandi dráttarvexti af höfuðstól.
Samkvæmt framansögðu verður að túlka kröfulýsingu sóknaraðila svo að þar hafi hann lýst kröfu, sem óumdeilt er að hann hafi átt að efni til og numið hafi 88.005.109 kr. þann 22. apríl 2009, sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem óumdeilt er að krafan nýtur ekki rétthæðar samkvæmt 111. gr. nýtur hún rétthæðar sem almenn krafa samkvæmt 113. gr., en þar kemur fram að næstar kröfum samkvæmt 109.-112. gr. gangi allar aðrar kröfur á hendur þrotabúi, nema þær sem taldar eru í 114. gr., en samkvæmt framansögðu var umræddri kröfu hvorki lýst sem eftirstæðri kröfu né fellur hún undir þá afmörkun sem fram kemur í 114. gr.
Þá verður kröfu sóknaraðila ekki hafnað á þeim grunni að kröfulýsingin hafi farið í bága við 2. og 3. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 eða þar sem sóknaraðili hafi með óheimilum hætti aukið við kröfur sínar og málsástæður. Í því sambandi athugast að niðurstaðan að framan byggir á túlkun á kröfulýsingunni sjálfri, þ.e. á því að þar hafi hinni umdeildu kröfu verið lýst sem veðkröfu en ekki eftirstæðri kröfu, og af því leiði að hún njóti rétthæðar sem almenn krafa. Þegar varnaraðili tók þá afstöðu, eftir að kröfulýsing var komin fram, að tilgreining á dagsetningunni 15. október 2008 fæli í sér að einungis eftirstæðri kröfu væri lýst, var fyllilega innan heimilda sóknaraðila að byggja á því að sú dagsetning fæli í sér misritun, sem engu breytti um að veðkröfu hefði verið lýst, sbr. m.a. 1. málsl. 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991. Eins er ljóst að sóknaraðili hefur ekki aukið við kröfur sínar fyrir dómi, enda krefst hann hér réttlægri stöðu en lýst var. Af því leiðir um leið að þau dómafordæmi sem lögmaður varnaraðila lagði áherslu á við málflutning, þ.e. dómur Hæstaréttar 7. október 2003 í máli réttarins nr. 303/2003, dómur Hæstaréttar 6. september 2012 í máli réttarins nr. 506/2012 og dómur Hæstaréttar 22. mars 2012 í máli réttarins nr. 156/2012, eiga ekki við um aðstöðuna hér. Þar var í öllum tilvikum krafist rétthærri stöðu en í kröfulýsingu, þ. á m. í síðastnefnda málinu, þar sem viðurkenningu á almennri kröfu var hafnað á þeirri forsendu að henni hefði skýrlega verið lýst sem eftirstæðri. Slíkri aðstöðu er ekki að heilsa hér, enda lýsti sóknaraðili umræddri kröfu ekki sem eftirstæðri, heldur sem veðkröfu, sem er rétthærri en almenn krafa og ber að viðurkenna sem slíka njóti hún ekki hinnar lýstu rétthæðar og falli ekki undir 114. gr.
Með vísan til framangreinds og þess að ekki er tölulegur ágreiningur um kröfu sóknaraðila verður krafa hans að fjárhæð 88.005.109 kr. viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Jafnframt verður viðurkennd eftirstæð krafa hans um dráttarvexti af umræddri fjárhæð frá 22. apríl 2009 til greiðsludags, en ekki verður séð að aðilar deili efnislega um þá kröfu, að fenginni framangreindri niðurstöðu, þótt varnaraðili vísi til þess að óskylt hafi verið að taka afstöðu til eftirstæðra krafna samkvæmt 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins vera hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Jóhannes S. Ólafsson hdl.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson hdl.
Eiríkur Jónsson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Krafa sóknaraðila, Askar Capital hf., að fjárhæð 88.005.109 krónur er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, Glitnis hf.
Krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 88.005.109 krónum frá 22. apríl 2009 til greiðsludags er viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 350.000 krónur í málskostnað.