Hæstiréttur íslands
Mál nr. 366/2000
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Kjarasamningur
|
|
Fimmtudaginn 1. mars 2001. |
|
Nr. 366/2000. |
Kaupfélag Árnesinga (Sigurður Jónsson hrl.) gegn Páli Bergssyni (Ástráður Haraldsson hrl.) |
Vinnusamningur. Kjarasamningur.
P starfaði við bensínstöð K. Síðla árs 1998 var vaktafyrirkomulagi á stöðinni breytt og voru teknar upp þrískiptar vaktir í stað tvískiptra. Kvaðst K hafa ráðist í breytingarnar vegna ábendinga Alþýðusambands Íslands um að eldra fyrirkomulag hefði ekki verið í samræmi við kjarasamning. Þá hefði það farið í bága við hvíldartímaákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Við breytinguna dró mjög úr möguleikum P til að vinna yfirvinnu en hann hafði áður unnið mikla yfirvinnu. Hélt hann því fram að breytingin hefði í raun falið í sér uppsögn ráðningar og boð um nýtt starf. Krafði hann K um jafnvirði yfirvinnu á nánar tilgreindu tímabili. Ekki var talið að sýnt hefði verið fram á að P hefði unnið yfirvinnu með föstum eða reglubundnum umsömdum hætti á lengri tíma, þannig að leggja mætti til grundvallar að um föst ráðningarkjör hefði verið að ræða. Var P talinn þurfa að bera hallann af skorti á sönnun í því efni. Var K því sýknaður af kröfum P.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. september 2000. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til þess að 5. ágúst 1998 tilkynnti áfrýjandi stefnda og öðrum starfsmönnum á bensínstöð áfrýjanda við Austurveg 6 á Selfossi að breytingar yrðu gerðar á vinnufyrirkomulagi þeirra. Tók breytingin gildi 1. september sama árs og fólst í því að í stað tvískiptra vinnuvakta, sem verið höfðu á stöðinni, voru teknar upp þrískiptar vaktir. Áfrýjandi kveður þetta hafa verið gert vegna athugasemda, sem Alþýðusamband Íslands gerði 27. apríl 1998 um að hliðstætt vinnufyrirkomulag á öðrum vinnustöðum áfrýjanda væri ekki í samræmi við ákvæði kjarasamnings frá vori 1997, sem tók til stefnda, um samfellda lágmarkshvíld hvers starfsmanns í ellefu klukkustundir á sólarhring. Var vinnufyrirkomulagið heldur ekki talið standast ákvæði um hvíldartíma í 52. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 52/1997.
Fram er komið að fyrir 1. september 1998 hafi stefndi starfað sem afgreiðslumaður á bensínstöðinni í ellefu ár. Hafi hann unnið aðra vinnuvaktina alla virka daga og að auki aðra hvora helgi. Á laugardögum hafi hann unnið frá kl. 8 til 23 og á sunnudögum frá kl. 10 til 23 auk einnar klukkustundar við uppgjör hvorn þessara daga. Loks hafi hann unnið tilfallandi yfirvinnu því til viðbótar. Heildarlaun hans hafi að stórum hluta verið fyrir yfirvinnu, en við breytinguna á vinnufyrirkomulaginu 1. september 1998 hafi launin lækkað mjög mikið. Ekki liggur fyrir í málinu hver mánaðarleg yfirvinna stefnda hefur verið eftir þetta, en af hans hálfu var því lýst svo við flutning málsins fyrir Hæstarétti að hún væri miklu minni eftir breytinguna á vöktunum en áður. Þeirri staðhæfingu er ekki mótmælt af áfrýjanda.
II.
Stefndi reisir kröfu sína á því að áfrýjanda beri að efna réttilega ráðningarsamning þeirra og kjarasamning, sem hinn fyrrnefndi tók laun eftir. Hafi stefndi fyrir 1. september 1998 haft fastan vinnutíma og fasta yfirvinnu og þar með föst ráðningarkjör. Eldra vinnufyrirkomulag hafi verið hluti af starfskjörum hans. Þrátt fyrir að breyting á vinnutímanum hafi verið óhjákvæmileg til að standast reglur um lágmarkshvíld, verði hún ekki gerð án þess að um leið sé breytt ráðningarkjörum stefnda. Tilkynningin 5. ágúst 1998 hafi í raun falið í sér uppsögn ráðningar og boð um nýtt starf. Í slíku tilviki beri að veita umþóttunartíma með sama hætti og við slit ráðningarsamnings. Hér eigi við sex mánaða uppsagnarfrestur, en til vara þriggja mánaða.
Áfrýjandi mótmælir því að um föst ráðningarkjör hafi verið að ræða. Stefndi hafi sjálfur kosið að vinna alla þá yfirvinnu, sem í boði hafi verið, og áfrýjandi ekki haft neitt við það að athuga. Stefnda hafi hins vegar ekki verið það skylt. Þá hafi yfirvinna hans í reynd verið misjafnlega mikil, eins og sjáist glöggt af vinnuseðlum fyrir mánuðina september 1997 til febrúar 1998 að báðum meðtöldum, sem stefndi hafi lagt fram og miði kröfugerð sína við. Þar komi fram að mánaðarleg yfirvinna hans hafi verið frá 37 klukkustundum upp í 114 klukkustundir. Engin skylda hafi því hvílt á áfrýjanda að fara með breytingar á vinnufyrirkomulaginu eins og uppsögn á föstum, umsömdum ráðningarkjörum. Breytingin hafi leitt af kjarasamningi og stefndi sé bundinn af samningi, sem stéttarfélag geri fyrir hans hönd, jafnvel þótt af honum leiði að heildartekjur verði lægri, svo unnt sé að ná markmiði um hvíldartíma. Þá sé þess loks að gæta að áfrýjanda yrði óheimilt að taka við vinnuframlagi stefnda samkvæmt eldra fyrirkomulagi meðan uppsagnarfrestur væri að líða. Ef fallist yrði á kröfu stefnda væri í raun verið að knýja áfrýjanda til efnda á samningi, sem sé andstæður lögum og kjarasamningi.
III.
Krafa stefnda er studd við launaseðla fyrir tímabilið september 1997 til febrúar 1998, en meðaltal yfirvinnu kveður hann þá hafa verið 76,75 klukkustundir á mánuði. Ekkert er fram komið um yfirvinnu stefnda frá mars 1998 fram til þess er vinnufyrirkomulagið breyttist 1. september sama árs eða eftir það. Er ljóst að miklar sveiflur hafa verið á yfirvinnu stefnda á áðurnefndu sex mánaða tímabili, en ekki hafa verið gefnar neinar skýringar á því. Eins og málið er lagt fyrir hefur ekki verið sýnt fram á að stefndi hafi unnið yfirvinnu með föstum eða reglubundnum umsömdum hætti á lengri tíma, þannig að leggja mætti til grundvallar að um föst ráðningarkjör hafi verið að ræða. Ber stefndi hallann af skorti á sönnun í þessu efni og verður áfrýjandi þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfu hans.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Kaupfélag Árnesinga, er sýkn af kröfu stefnda, Páls Bergssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 19. apríl 2000.
Mál þetta höfðaði Páll Bergsson, kt. 300932-3399, Lambhaga 13, Selfossi, með stefnu birtri 16. nóvember 1999 á hendur Kaupfélagi Árnesinga svf., kt. 680169-5869, Austurvegi 3-5, Selfossi. Málið var dómtekið 24. mars sl.
Stefnandi krefst greiðslu á kr. 384.608 með dráttarvöxtum af kr. 63.331 frá 1. október 1998 til 1. nóvember s.á., af kr. 126.662 frá þeim degi til 19. nóvember s.á., og af kr. 384.608 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. Til vara krefst hann lækkunar á kröfum stefnanda, þannig að hann verði aðeins dæmdur til að greiða kr. 189.993 með dráttarvöxtum frá 16. nóvember 1999. Í varakröfu er jafnframt krafist málskostnaðar, en til þrautavara krefst stefndi þess að málskostnaður verði felldur niður.
Stefnandi var starfsmaður á bensínstöð stefnda að Austurvegi 6. Í kjölfar ábendinga til stefnda um að starfsmenn á stöðinni nytu ekki lögbundins hvíldartíma var vaktafyrirkomulagi þeirra breytt. Breytingarnar voru tilkynntar stefnda með bréfi dagsettu 5. ágúst 1998. Áður hafði stefndi unnið alla virka daga til skiptis frá 8:00 til 15:30 og 15:30 til 23:00 og aðra hvora helgi laugardaga frá 8:00 til 23:00 og sunnudaga frá 10:00 til 23:00. Breytingin tók gildi 1. september 1998. Við þetta styttist vinnutími stefnanda og laun hans lækkuðu verulega.
Upphaf þeirra breytinga sem gerðar voru á vaktafyrirkomulagi á bensínstöð stefnda má rekja til bréfs Alþýðusambands Íslands til Alþýðusambands Suðurlands, en það er dagsett 27. apríl 1998. Þar er fjallað ítarlega um það vaktafyrirkomulag sem viðhaft var á bensínstöðinni og stefnandi vann eftir. Bent er á að vinnutíminn uppfylli hvorki vinnutímasamning aðila né ákvæði kjarasamninga um hámarkslengd skipulagðrar vinnulotu og lágmarkshvíld á sólarhring. Þá er og vísað til laga nr. 46/1980. Í lok bréfsins segir: „ nú þegar [ber] að leggja niður það vinnuskipulag, sem hér er til skoðunar. ”
Þegar stefnandi hóf störf á bensínstöð stefnda voru í gildi lög nr. 46/1980, óbreytt frá upphaflegri gerð um það atriði sem hér er um fjallað. Þar var í 1. mgr. 52. gr. almenn regla þess efnis að vinnutíma skyldi haga þannig að starfsmenn fengju a.m.k. 10 klukkustunda samfellda hvíld.
Ákvæði 52. gr. var breytt með 1. gr. laga nr. 52/1997, en þá var mælt fyrir um 11 klukkustunda hvíld. Breytingin tók gildi 1. október 1997.
Sams konar ákvæði hafði verið sett í kjarasamninga fyrr á því ári, þ.á.m. kjarasamning þann sem gilti í vinnusambandi málsaðila.
Við aðalmeðferð var lagður fram Samningur um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Stefndi var aðili að Vinnumálasambandinu, en því var lýst yfir að samhljóða samningur hefði verið gerður milli þess og Alþýðusambandsins.
Stefnandi gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð. Hann kvaðst hafa hafið störf á bensínstöð stefnda í júlí 1987. Vaktafyrirkomulag hafi þá verið með þeim hætti að hann vann hálfa virku dagana og síðan báðar vaktirnar aðra hvora helgi. Sá sem var á móti honum hafi um tveimur árum síðar hætt að vinna helgarnar og fengið afleysingamann fyrir sig. Síðan hafi fallið til yfirvinna vegna forfalla eða af öðrum ástæðum. Þetta fyrirkomulag hafi verið viðhaft lengi áður en hann hóf störf. Síðan hafi þessu verið breytt í september 1998 og vaktirnar orðið þrískiptar. Þá hafi öll yfirvinna fallið niður.
Málsástæður stefnanda.
Stefnandi byggir á því að hann hafi unnið fasta yfirvinnu og haft fastan vinnutíma. Þetta hafi verið föst ráðningarkjör. Breytingar sem gera þurfti á vaktafyrirkomulagi hafi ekki verið unnt að gera án þess að breyta ráðningarkjörum. Sú mikla lækkun á launum sem þetta hafði í för með sér hafi í raun verið uppsögn og boð um nýtt starf og því hafi borið að tilkynna breytinguna með þeim fyrirvara sem uppsagnarfrestur hans sé, en stefnandi telur sig hafa sex mánaða uppsagnarfrest.
Dómkrafan byggist á útreikningi er Verkalýðsfélagið Þór vann. Þar er lögð til grundvallar yfirvinna eins og hún var á tímabilinu september 1997 til febrúar 1998, samtals 76,75 stundir að meðaltali hvern mánuð. Er sá tímafjöldi reiknaður miðað við launataxta er giltu á september 1998 til febúar 1999. Er niðurstaða þess útreiknings 384.608, en hún sætir ekki sérstökum andmælum.
Stefnandi vísar sérstaklega til meginreglna um greiðslu verkkaups. Þá vísar hann til laga um orlof nr. 30/1987 og laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl. auk ýmissa annarra lagaákvæða, sem ekki er nauðsynlegt að taka upp hér.
Málsástæður stefnda.
Stefndi heldur því fram í fyrsta lagi að stefnandi hafi ekki verið skyldugur að vinna alla þá yfirvinnu sem hann vann. Bendir hann á að samstarfsmaður hans hafi ekki staðið vaktir með sama hætti og hafi afleysingamaður unnið á móti honum eftir því sem óskað hafi verið eftir. Breytingar á vaktafyrirkomulagi hafi því ekki falið í sér uppsögn á föstum ráðningarkjörum.
Þá segir stefndi að breytingin hafi verið gerð í kjölfarið á kjarasamningagerð 1997. Óumdeilt sé að eldra vaktafyrirkomulag hafi verið í andstöðu við ákvæði kjarasamningsins. Hann hafi farið eftir reglum kjarasamningsins við breytingu á vaktskrá. Vísar hann til greinar 3.3.3 þar sem segi að vaktir skuli ákveðnar að jafnaði fyrir fjórar vikur í senn.
Stefndi bendir á að það hafi verið að tilhlutan verkalýðshreyfingarinnar sem breytingar voru gerðar á vinnutilhögun stefnanda. Megi rekja breytingarnar til aðlögunar að tilskipun Evrópusambandsins nr. 93/104/EB. Hafi það verið að kröfu ASÍ sem tilskipunin var aðlöguð með þeim hætti sem gert var. Vinnumálasambandið hafi lagst gegn þessari aðlögun þar sem hún myndi leiða til tekjulækkunar hjá ýmsum launþegum, eins og raunin hafi orðið hjá stefnanda.
Því telur stefndi að það skjóti skökku við að stefndi sé krafinn um bætur vegna þeirra aðgerða sem grípa þurfti til vegna breytinga á lögum og kjarasamningum. Tekjulækkun stefnanda verði fyrst og síðast rakin til lagabreytinga og kjarasamninga. Ef fallist verði á kröfur stefnanda felist í því að honum verði gert að greiða bætur fyrir ólögmætt ástand, sem honum sé óheimilt að halda uppi.
Varakröfu um lækkun stefnukröfu rökstyður stefndi með því að grein 13.5 eigi ekki við í tilviki stefnanda. Hinn lengdi uppsagnarfrestur sé bundinn við eiginleg starfslok. Stefnandi sé hins vegar enn í starfi.
Niðurstaða.
Málsaðilar eru sammála um að eftir að ákvæðum um lágmarkshvíld í lögum og kjarasamningum var breytt á árinu 1997 hafi vaktafyrirkomulag á bensínstöð stefnda verið í andstöðu við lögin. Stefnandi hélt því raunar fram í málflutningi að vaktafyrirkomulagið hefði einnig verið í andstöðu við lög nr. 46/1980 áður en þeim var breytt með lögum nr. 52/1997.
Stefnandi hafði unnið eftir ákveðnu vaktaskipulagi í ellefu ár er því var breytt í september 1998. Verður að fallast á það með stefnanda að um hafi verið að ræða föst ráðningarkjör. Breyting á þessum ráðningarkjörum verður ekki gerð nema með sama fyrirvara og uppsagnarfrestur starfsmanns er. Skiptir ekki máli í því sambandi þó lagabreytingar hafi knúð stefnda til að breyta skipulagningu vakta á bensínstöðinni. Sú breyting sem gerð var er ekki tilkynning um vaktaskiptingu í skilningi greinar 3.3.3 í kjarasamningi þeim sem stefndi vísar til. Stefndi gat breytt vöktum, hann gat hins vegar ekki breytt launakjörum stefnanda nema gæta uppsagnarfrests samkvæmt lögum nr. 19/1979 og kjarasamningi.
Nokkur orðalagsmunur er á þeim ákvæðum kjarasamnings sem mæla fyrir um annars vegar þriggja mánaða uppsagnarfrest og hins vegar sex mánaða. Samkvæmt grein 13.3.2 bar stefnanda þriggja mánaða uppsagnarfrestur þar sem hann hafði haft " fimm ára samfellda ráðningu ". Grein 13.5 hefur fyrirsögnina Starfslok, en þar segir: "Sé starfsmanni sagt upp, eftir a.m.k. 10 ára samfellt starf hjá sama fyrirtæki, er uppsagnarfrestur og 6 mánuðir þegar hann er orðinn 63 ára. "
Stefndi byggir á því að sex mánaða uppsagnarfrestur sé bundinn við endanleg starfslok launþega, en gildi ekki þegar um breytingu á starfskjörum er að ræða. Fræðilega er uppsagnarfrestur miðaður við starfslok og honum er beitt við breytingar á starfskjörum er jafna má til uppsagnar ráðningarsamnings og boðs um áframhaldandi starf með breyttum starfskjörum. Ekki er nein forsenda til að þrengja gildissvið hins lengda uppsagnarfrests í grein 13.5 þannig að hann gildi ekki þegar um breytingar á starfskjörum er að ræða.
Samkvæmt þessu ber að fallast á kröfur stefnanda. Útreikningur kröfu hans sætir ekki andmælum og verður stefndi því dæmdur til að greiða kr. 384.608 með dráttarvöxtum af kr. 63.331 frá 1. október 1998 til 1. nóvember s.á., af kr. 126.662 frá þeim degi til 19. nóvember s.á., og af kr. 384.608 frá þeim degi til greiðsludags. Þá verður að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar, sem ákveðst kr. 140.000, er tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Kaupfélag Árnesinga svf., greiði stefnanda, Páli Bergssyni, kr. 384.608 með dráttarvöxtum af kr. 63.331 frá 1. október 1998 til 1. nóvember s.á., af kr. 126.662 frá þeim degi til 19. nóvember s.á., og af kr. 384.608 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 140.000 í málskostnað.