Hæstiréttur íslands
Mál nr. 194/1999
Lykilorð
- Sakhæfi
- Virðisaukaskattur
- Tekjuskattur
- Útsvar
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 14. október 1999. |
|
Nr. 194/1999. |
Ákæruvaldið (Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Ólafi Ólafssyni (Hallvarður Einvarðsson hrl.) |
Sakhæfi. Virðisaukaskattur. Tekjuskattur. Útsvar. Skilorð.
Ó var ákærður fyrir að hafa svikið allháar fjárhæðir undan tekju- og virðisaukaskatti auk þess að hafa látið hjá líða að standa skil á innheimtum virðisaukaskatti. Var hann dæmdur til skilorðsbundinnar refsivistar auk þess sem honum var gerð sektarrefsing. Hvorki var talið tilefni til að álykta að andlegt heilsufar hans á þeim tíma sem brotin voru framin hefði verið með þeim hætti að 1. mgr. 16 gr. alm. hgl. gæti átt við, né að unnt væri að fella niður refsingu með stoð í 63. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. maí 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að refsing, sem honum var gerð með hinum áfrýjaða dómi, verði milduð og honum aðeins gerð skilorðsbundin refsivist.
I.
Krafa ákærða um frávísun málsins er reist á því að í héraði hafi verið lagt fram vottorð læknis, þar sem komið hafi fram upplýsingar um líkamlegt og andlegt heilsufar ákærða. Af þessu vottorði og læknisfræðilegum gögnum, sem síðar hafi verið fengin, hafi verið ljóst að vafi gæti leikið á um sakhæfi hans. Ákærði hafi ekki óskað eftir því í héraði að sér yrði skipaður verjandi. Héraðsdómara hefði því borið að eigin frumkvæði að skipa ákærða verjanda, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, svo og að hlutast til um rannsókn samkvæmt d. lið 1. mgr. 71. gr. sömu laga, enda sé tvímælalaust að heilsufar hans hafi verið með þeim hætti, sem um ræði í 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í málinu er ákærði sóttur til saka fyrir skattalagabrot, sem honum er gefið að sök að hafa framið í rekstri einkafirma síns, KR sumarhúsa, á árunum 1992 til 1995. Í vottorði læknis 31. maí 1999, sem ákærði hefur lagt fyrir Hæstarétt, er því lýst að hann hafi orðið fyrir vinnuslysi í maí 1991 og hlotið alvarlega áverka, sem þar greinir nánar, en vandamál annars eðlis hafi að auki komið fram „á umliðnum árum“, því haustið 1996 hafi gætt „mjög ákveðinna depressivra einkenna“ hjá ákærða, sem hafi haft „væntanlega alllangan aðdraganda“. Fyrirliggjandi læknisfræðileg gögn um ákærða geta aðeins um andlegt heilsufar hans á síðara tímaskeiði en þegar ætluð brot hans voru framin. Þau gefa því ekki tilefni til að álykta að ákvæði 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga geti hafa átt við um hagi hans þegar brotin voru drýgð. Þessi gögn eru að auki hvorki svo afdráttarlaus né skýr að til álita geti komið að beita 63. gr. almennra hegningarlaga á grundvelli þeirra. Af þessum sökum eru ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi eða vísa því heim í hérað til meðferðar á ný með stoð í þeim röksemdum ákærða, sem áður greinir.
II.
Samkvæmt ákæru er ákærða í fyrsta lagi gefið að sök að hafa látið hjá líða að færa nánar tilteknar tekjur í bókhaldi sínu og gera grein fyrir þeim í virðisaukaskattskýrslum, en með því hafi hann komið sér undan greiðslu virðisaukaskatts á tímabilinu frá maí 1993 til ágúst 1994 að fjárhæð samtals 2.888.834 krónur. Í öðru lagi er hann borinn sökum um að hafa ranglega fært til frádráttar við virðisaukaskattskil innskatt að fjárhæð alls 159.244 krónur á tímabilinu frá nóvember 1992 til október 1994. Í þriðja lagi er hann sóttur til saka fyrir að hafa látið hjá líða að standa skil á virðisaukaskatti vegna nóvember og desember 1994 að fjárhæð samtals 1.461.050 krónur. Loks er hann í fjórða lagi ákærður fyrir að hafa látið ógert að telja fram til skatts tekjur á árunum 1993 og 1994, að fjárhæð samtals 11.578.246 krónur, og komið sér þannig undan að greiða alls 4.804.406 krónur í tekjuskatt og útsvar. Ákærði gekkst við sakargiftum fyrir héraðsdómi. Verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu hans fyrir framangreind brot, sem voru þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Með röngum skattskilum kom ákærði sér samkvæmt framangreindu undan að greiða alls 7.852.484 krónur í opinber gjöld. Að auki hefur hann unnið sér til refsingar með því að standa ekki skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 1.461.050 krónur. Brot ákærða voru drýgð á löngum tíma og sýnilega af ásetningi. Ákærði hefur hins vegar ekki áður sætt refsingu. Eins og greinir í héraðsdómi varð jafnframt verulegur dráttur á meðferð málsins í höndum skattyfirvalda, sem luku rannsókn á brotum ákærða með skýrslu 15. nóvember 1995 en beindu þó ekki málinu til ríkislögreglustjóra fyrr en með bréfi 25. júní 1998. Verður og að líta til heilsuhaga ákærða við ákvörðun refsingar. Að öllu þessu virtu verður staðfest niðurstaða héraðsdómara um að ákærði sæti fangelsi í fjóra mánuði skilorðsbundið. Þá verður einnig að dæma ákærða til að greiða sekt að fjárhæð 3.500.000 krónur, en í stað hennar komi fangelsi í sjö mánuði ef hún greiðist ekki innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ólafur Ólafsson, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 3.500.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 7 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hallvarðs Einvarðssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 25. mars 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. þ.m., er höfðað með ákæru ríkislögreglustjórans 29. desember 1998 á hendur Ólafi Ólafssyni, kt. 040355-4999, Norðurtúni 8, Bessastaðahreppi.
Ákærða er annars vegar gefið að sök að hafa brotið gegn lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með því að hafa ekki staðið sýslumanninum í Hafnarfirði skil á virðisaukaskatti að fjárhæð samtals 4.582.701 króna, sem hann innheimti í nafni einkafirma síns, KR sumarhús, á árunum 1992, 1993 og 1994. Í ákærunni er gerð nánari og svofelld grein fyrir sakargiftum að þessu leyti:
„a) Vegna útskatts af söluverði fimm sumarhúsa og söluverði efnis í eitt sumarhús, sem hvorki var tekjufært í bókhaldi ákærða, talinn fram á virðisaukaskýrslum, né staðið skil á virðisaukaskatti vegna til [sýslumannsins] í Hafnarfirði:
|
Greiðslutímabil: |
Skattverð: |
Útskattur: |
Samtals útskattur: |
|
Árið 1993 |
|
|
|
|
Maí - júní |
kr. 1.670.683 |
kr. 409.317 |
|
|
Júlí ágúst |
kr. 2.409.639 |
kr. 590.361 |
|
|
September október |
kr. 2.409.639 |
kr. 590.361 |
|
|
|
kr. 401.606 |
kr. 98.394 |
kr. 1.688.433 |
|
Árið 1994 |
|
|
|
|
Maí júní |
kr. 4.337.350 |
kr. 1.062.650 |
|
|
Júlí ágúst |
kr. 562.249 |
kr. 137.751 |
kr. 1.200.401 |
|
|
|
|
kr. 2.888.834 |
b) Vegna ólögmæts frádráttar innskatts, við skil á útskatti, vegna reikninga sem til voru komnir vegna einkaneyslu ákærða og reikninga sem ekki voru hæfir til innsköttunar lögum samkvæmt:
|
Greiðslutímabil: |
Fjöldi reikn: |
Ofreikn. innskattur: |
Samtals ofreikn. innskattur: |
|
Árið 1992 |
|
|
|
|
Nóvember-desember |
4 |
kr. 73.573 |
kr. 73.573 |
|
Árið 1993 |
|
|
|
|
Maí júní |
3 |
kr. 49.561 |
|
|
September október |
2 |
kr. 7.353 |
|
|
November desember |
1 |
kr. 13.775 |
kr. 70.689 |
|
Árið 1994 |
|
|
|
|
Maí júní |
2 |
kr. 53.134 |
|
|
September október |
2 |
kr. 35.421 |
kr. 88.555 |
|
|
|
|
kr. 232.817 |
c) Vegna vanskila á innheimtum útskatti samkvæmt innsendri virðisaukaskýrslu samtals kr. 1.461.050 sem hér greinir:
|
Greiðslutímabil: |
|
|
|
|
Árið 1994 |
|
|
|
|
Nóvember desember |
kr. 1.461.050 |
|
kr. 1.461.050 |
|
|
|
Samtals úr liðum a, b og c |
kr. 4.582.701“ |
Í ákæru er þessi háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr., sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. nú 3. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995.
Málið er jafnframt höfðað á hendur ákærða fyrir brot gegn lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt „[með] því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram til skatts, skattskyldar tekjur sem ákærði hafði af framangreindri ótekjufærðri sölu á sumarhúsum á árinu 1993 og 1994, sem námu kr. 11.578.246 og honum bar að greiða af tekjuskatt og útsvar samkvæmt B-lið, 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og 21. gr. laga nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. nú 19. gr. laga nr. 30/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og að hafa með þessari háttsemi komist hjá greiðslu tekjuskatts og útsvars af greindum tekjum, samtals að fjárhæð kr. 4.804.406 og sundurliðast sem hér segir:
|
Rekstrar-ár
|
Vantalinn tekjustofn. |
Vangreiddur tekjuskattur: |
Tekjuskatts-prós: |
Vangreitt útsvar: |
Útsvars- prósenta |
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar |
|
|
1993 |
kr. 6.012.661 |
kr. 2.062.343 |
(34,30) |
kr. 402.848 |
(6,7) |
kr. 2.465.191 |
|
|
1994 |
kr. 5.565.585 |
kr. 1.843.878 |
(33,15) |
kr. 495.337 |
(8,9) |
kr. 2.339.215 |
|
|
Samt. |
kr. 11.578.246 |
kr. 3.906.221 |
|
kr. 898.185 |
|
kr. 4.804.406 |
|
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 6. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sjá nú 2. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 um breytingu á þeim lögum og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 um breytingu á þeim lögum og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1990 um tekjustofna sveitarfélaga, sjá nú 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995.“
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Undir rekstri málsins var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds, að það teldi brot ákærða að því er tekur til ólögmæts frádráttar á innskatti á árinu 1992, en hann nam samkvæmt ákæru 73.573 krónum, fyrnt. Ber að líta svo á að ákæruvaldið hafi fallið frá saksókn á hendur ákærða að þessu leyti. Kemur þessi þáttur ákærunnar því ekki til frekari umfjöllunar hér fyrir dómi.
I.
Ákærði kom fyrir dóm 8. þ.m. og játaði skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Telst með þeim framburði ákærða, sem er í samræmi við annað það sem fram er komið í málinu, nægilega sannað að hann hafi framið þau brot sem í ákæru greinir. Ákvæðum 107. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt var breytt með 1. gr. laga nr. 42/1995. Með þessari athugasemd eru brot ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
II.
Brot þau, sem ákærði er nú sakfelldur fyrir, voru framin fyrir gildistöku laga nr. 39/1995 og laga nr. 42/1995. Verður litið til þessa við ákvörðun refsingar, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með hliðsjón af umfangi brots ákærða verður honum gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði. Er sú refsing skilorðsbundin á þann veg sem í dómsorði greinir, en ákærði hefur ekki áður sætt refsingu.
Fyrir liggur að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og virðis-aukaskattskilum ákærða lauk 15. nóvember 1995. Málinu var hins vegar ekki vísað til lögreglu fyrr en með bréfi skattrannsóknarstjóra til ríkislögreglustjórans 25. júní 1998. Hefur þessi dráttur ekki verið skýrður, en ákærða verður í engu um hann kennt. Þá er upplýst að ákærði búi við skerta heilsu og örorku vegna slyss sem hann varð fyrir í maí 1991. Þegar þetta er virt og jafnframt litið til þess sem fyrir liggur um hagi ákærða að öðru leyti, þykir sektarrefsing, sem honum verður gerð samhliða skilorðsbundinni refsivist, hæfilega ákveðin 2.000.000 króna. Greiðist sektin ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa skal ákærði í hennar stað sæta fangelsi í fjóra mánuði.
Dæma ber ákærða til að greiða allan sakarkostnað.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð :
Ákærði, Ólafur Ólafsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 2.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í fjóra mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað.