Hæstiréttur íslands

Mál nr. 326/1999


Lykilorð

  • Starfsábyrgð
  • Ökutæki
  • Lausafjárkaup


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 1999.

Nr. 326/1999.

Ágúst Kristmanns

(Klemenz Eggertsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

 

Starfsábyrgð. Ökutæki. Lausafjárkaup.

Á hafði selt bifreið fyrir milligöngu bifreiðasalans R og tekið við annarri bifreið sem hluta greiðslunnar. R óskaði eftir því að kaupa bifreiðina af Á og var gengið frá afsali, þar sem Á afsalaði bifreiðinni til einkahlutafélags, sem R var stjórnarmaður í og aðaleigandi. Tékkar, sem Á hafði tekið við sem greiðslu fyrir bifreiðina, reyndust innistæðulausir og hafði R þegar selt bifreiðina þegar Á óskaði þess að kaupin gengju til baka. Á taldi að mistök hefðu orðið við útgáfu leyfis R til sölu notaðra ökutækja, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994 um sölu notaðra ökutækja, þar sem staðfesting um starfsábyrgðartygginu R hafði verið fölsuð. Krafði hann íslenska ríkið um bætur af þessum sökum. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms, að Á hefði átt persónuleg viðskipti við R fyrir hönd einkahlutafélags og yrði tjón hans ekki rakið til starfa R sem bifreiðasala. Hefðu ekki verið uppfyllt skilyrði til þess að Á fengi tjón sitt bætt úr starfsábyrgðartryggingu bifreiðasala og væri því ekki orsakasamband milli starfa R sem bifreiðasala og tjóns Á. Var ríkið þegar af þeirri ástæðu sýknað af bótakröfu Á.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. ágúst 1999. Hann krefst þess að stefndi greiði 2.285.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. september 1998 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á stefnukröfum og niðurfellingar málskostnaðar.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er hann staðfestur.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                    Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ágúst Kristmanns, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. maí síðastliðinn að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu, þingfestri 2. febrúar 1999.

Stefnandi er Ágúst Kristmanns, kt. 170331-2369, Eskiholti 10, Garðabæ.

Stefndi er íslenska ríkið.

Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda  2.285.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með áorðnum breytingum, frá 18. september 1998 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Af hálfu stefnda eru þær dómkröfur gerðar aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur máls­kostnaður úr hendi stefnda að mati réttarins. Til vara er þess krafist, að stefnukröfurnar verði stórlega lækkaðar og máls­kostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

I.

Málavextir.

 Hinn 26. september 1997 seldi stefnandi Ólafíu Helgadóttur, kt. 230324-2409, Ölduslóð 2G, Hafnarfirði, bifreið sína, VO-129, Jeep Grand Cherokee, árgerð 1997, á 3.500.000 krónur. Sama dag seldi Ólafía stefnanda bifreið sína, MI-021, einnig Grand Cherokee jeppa, árgerð 1993, fyrir 2.050.000 krónur. Fóru kaupin fram fyrir milligöngu Ragnars Lövdal, bifreiðasala, kt. 280958-2559, Garðhúsum 6, Reykjavík, sem rak bílasöluna Bílatorg ehf., Funahöfða 1, Reykjavík. Skrifaði Ragnar undir afsöl vegna þeirra viðskipta fyrir hönd stefnanda, með samþykki hins síðarnefnda. Áður en gengið var formlega frá viðskiptunum hafði Ragnar falast eftir kaupum á bifreiðinni MI-021 á 2.100.000 krónur, samþykkti stefnandi að taka hann upp í vegna sölu á bifreiðinni VO-129. Kvaðst Ragnar myndu greiða kaupverðið með tékkum, dagsettum fram í tímann. Stefnandi kvaðst þá vilja hafa tryggingarveð í bifreiðinni og að Ragnar samþykkti víxla fyrir kaupverðinu. Að sögn stefnanda taldi Ragnar það mjög óheppilegt, þar sem það myndi torvelda honum endursölu bifreiðarinnar. Benti Ragnar stefnanda á að hafa samband við Ólaf Sigurðsson, gjaldkera hjá Ræsi hf., sem tjáði stefnanda, að Ragnar hefði staðið við allar greiðslur með tékkum með þessum hætti gagnvart þeim. Einstaka sinnum hefði hann hringt og fengið frest í 2-3 daga á að tékkarnir yrðu settir í banka. Að þessu fengnu féllst stefnandi í söluna og fékk hann tékkana fyrir kaupverðinu strax í hendur. Ragnar gekk frá afsali fyrr 14. október 1997. Er Gosar ehf., sem Ragnar er aðaleigandi að og stjórnarmaður í, ásamt eiginkonu sinni, tilgreindur sem kaupandi bifreiðarinnar. Afhenti Ragnar stefnanda sem greiðslu fimm tékka á reikning nr. 8588 í Höfðaútibúi Búnaðarbanka Íslands hf., samtals að fjárhæð 2.100.000 krónur. Tékkarnir eru gefnir út af Ragnari og stílaðir á handhafa. Reyndust þeir allir innstæðulausir við sýningu og var reikningnum lokað 13. febrúar 1998.

Þegar stefnanda var ljóst hvernig komið var, hafði hann þegar samband við Ragnar, sem tjáði stefnanda, að fjárhagsstaða hans væri slík, að honum væri ókleift að standa við skuld­bindingar sínar. Bifreiðina væri hann þegar búinn að selja og gætu kaupin því ekki gengið til baka. Var hann þá krafinn um greiðslu kaupverðsins, sem hann kvaðst engan veginn geta greitt og þá gat hann ekki aflað tryggingar fyrir því. Við meðferð skaðabótamáls, sem hófst í mars 1998, kom í ljós, að Ragnar hafði falsað nafn sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Mýrarsýslu undir starfsábyrgðar­tryggingu frá sparisjóðnum og sent hana í símbréfi til viðskiptaráðuneytisins. Bú Ragnars var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 12. október 1998, og hefur stefnandi lýst bótakröfu í það.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi telur ljóst af aðstæðum við áðurnefnd kaup, að fjárhagsstöðu Ragnars Lövdal bifreiða­sala hafi verið þannig háttað, að honum hafi verið fullljóst, að hann ætti aldrei möguleika á að greiða kaupverð bifreiðarinnar, en því hafi hann leynt fyrir stefnanda. Hafi hann verið sakfelldur fyrir stórfelld fjársvik sem bifreiðasali. Á Ragnari hafi sem bifreiðasala hvílt rík skylda til að gæta hagsmuna viðskiptavina sinna samkvæmt lögum nr. 69/1994, sem hann hafi vanrækt, og með þeirri háttsemi hafi hann valdið stefnanda miklu fjárhagstjóni.

Stefnandi byggir á því, að starfsmönnum viðskiptaráðuneytisins hafi orðið á mistök með því að taka við símbréfi, sendu frá bifreiðasalanum sjálfum, eins og það beri með sér, sem fullnægjandi skilríki fyrir bankatryggingu samkvæmt 3. gr. laga nr. 69/1994, með áorðnum breytingum. Hafi starfsmönnum ráðuneytisins borið að ganga eftir frumriti yfirlýsingar frá sparisjóðnum og beri ríkissjóður ábyrgð á gáleysi hlutaðeigandi starfsmanna viðskipta­ráðuneytisins á grundvelli húsbóndaábyrgðarreglu skaðabóta­réttarins.

 

Stefnufjárhæðin sundurliðast sem hér segir:

1) Kaupverð bifreiðarinnar MI-021 ................. kr.2.100.000

2) Dæmdur málskostnaður í málinu: Ágúst Kristmann gegn Ragnari Lövdal ....... kr.185.000

                                                                                                                                   Samtals: kr.2.285.000

 

 Stefnandi byggir kröfu sína á reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna, lögum nr. 69/1994 um sölu notaðra ökutækja og reglugerð nr. 406/1994.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því, að ekki sé unnt að fallast á, að það tjón, er stefnandi krefst bóta fyrir í máli þessu, sé bótaskylt samkvæmt starfsábyrgðartryggingu bifreiðasala, hefði gildri tryggingu þess efnis verið fyrir að fara.Trygging bifreiðasala sé samkvæmt 3. gr. laga nr. 69/1994, sbr. 3. gr. laga nr. 20/1997 og reglugerð nr. 406/1994, ábyrgðartrygging, sem taki yfir skaðabótaskylt tjón, er þeir kunna að valda viðskiptamönnum með störfum sínum sem bifreiðasalar, en sem slíkir séu þeir í þjónustu beggja aðila, kaupanda og seljanda. Skilgreining á störfum og skyldum bifreiðasala komi fram í 4. - 7. gr. laganna. Felist ekki í störfum bifreiðasala samkvæmt lögunum, að þeir takist á hendur ábyrgð á því að kaupsamningar séu efndir. Það sé þannig ekki tilgangur lögboðinnar starfsábyrgðartryggingar bifreiðarsala að tryggja bætur vegna vanefnda samnings­aðila í viðskiptum með bifreiðar. Hafi stefnandi því aldrei átt nokkra kröfu í lögboðna starfsábyrgðar­tryggingu vegna tjóns, er kynni að leiða af vanefndum kaupanda bifreiðarinnar á greiðslu kaupverðs. Eigi tjón stefnanda ekki rót í vanrækslu Ragnars á starfsskyldum sem bifreiðasala, er starfs­ábyrgðar­trygging gæti tekið til, heldur sé það sprottið af vanefndum hans á kaupsamningi sem kaupanda bifreiðarinnar. Sé tjón stefnanda fólgið í því, að hann hafi ekki fengið greitt andvirði tékkanna, sem hafi verið að rekja til síðar tilkominnar ógjaldfærni Ragnars Lövdal sem kaupanda bifreiðarinnar, en ekki til starfa hans sem bifreiðasala á þeim tíma, er salan fór fram. Stefnandi hafi sjálfur ákveðið, að yfirveguðu ráði, að taka þá áhættu að gefa út afsal fyrir bifreiðinni til einkahlutafélags Ragnars og taka við sem fullnaðargreiðslu söluandvirðis, tékkum, öllum útgefnum langt fram í tímann, er skyldu koma til greiðslu 20. hvers mánaðar, talið frá 20. janúar til og með 20. maí 1998, án þess að veð eða önnur trygging yrði sett. Hafi stefnandi sjálfur tekið áhættuna af því, að innstæða reyndist vera fyrir hendi, þegar til sýningar tékkanna kæmi. Ekkert samband sé þannig milli tjóns stefnanda, starfa Ragnars sem bifreiðasala eða þeirrar staðreyndar, að síðar hafi komið í ljós, að starfsábyrgðartrygging hans reyndist vera fölsuð. Sé tjón stefnanda alfarið að rekja til áhættutöku og aðgæsluleysis hans sjálfs, og geti hann ekki gert aðra bótaábyrga fyrir því að lögum.

Því er eindregið mótmælt, að skilyrðum fyrir áfalli bótaábyrgðar samkvæmt reglum um ábyrgð vinnuveitanda sé uppfyllt gagnvart stefnda. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 20/1997 hafi borið að gera og halda skrá yfir þá, sem leyfi höfðu til sölu notaðra ökutækja. Viðskiptaráðuneytið hafi því óskað eftir því, í kjölfar breytingar á lögum nr. 69/1994 með lögum nr. 20/1997, að sýslumenn sendu ráðuneytinu afrit af þeim leyfum, sem voru í gildi, auk þess sem óskað hafi verið eftir afriti af þeim gögnum, er leyfin voru byggð á, þar á meðal staðfestingu þess, að umsækjandi um leyfi hefði aflað sér starfsábyrgðartryggingar og að fyrirsvarsmaður bílasölu hefði sótt námskeið og lokið prófi með fullnægjandi hætti. Með auglýsingu 7. júlí 1997 til þeirra, sem höfðu leyfi til sölu notaðra ökutækja, hafi ráðuneytið óskað þess, að allir þeir, sem ráku verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki, sendu upplýsingar þar um til viðskipta­ráðuneytisins, þar á meðal afrit leyfisbréfs og gilda starfsábyrgðartryggingu. Meðal gagna, er ráðuneytinu bárust, hafi verið símbréf, dagsett 26. ágúst 1997, undirritað af sparisjóðsstjóra með stimpli Sparisjóðs Mýrasýslu, þar sem staðfest hafi verið, að Ragnar Lövdal hefði starfs­ábyrgðartryggingu hjá sparisjóðnum. Efnislega hafi því verið um samhljóða starfsábyrgðartilkynningu að ræða og þá, er sýslumaðurinn í Reykjavík gaf út honum til handa hinn 12. júlí 1995, með gildistíma til 12. júlí 2000. Hafi atvik því ekki verið þess eðlis, að þau gæfu ráðuneytinu sérstaka ástæðu til að ætla, að sú endurstaðfesting á starfsábyrgðartryggingu, sem því barst frá bílasalanum í símbréfi, væri fölsuð, eins og síðar kom í ljós varðandi staðfestingu á starfsábyrgðartryggingu, sem látin hafði verið sýslumanni í té, er hann gaf út leyfið hinn 12. júní 1995. Samkvæmt því sé ekki unnt að fallast á, að það verði virt ráðuneytinu til sakar að hafa byggt á þeirri endurstaðfestingu samkvæmt símbréfi við upptöku leyfisins á skrá yfir gild leyfi til viðskipta með sölu notaðra ökutækja samkvæmt fyrirmælum 2. gr. laga nr. 69/1994, sbr. 2. gr. laga nr. 20/1997.

Bótakröfu stefnanda er mótmælt sem ósannaðri.

Varakröfu sína um stórfellda lækkun stefnukrafna byggir stefndi á framangreindum sjónarmiðum um stórkostlegt gáleysi stefnanda sjálfs og takmörkun á bótagreiðslum úr starfsábyrgðatryggingu, sbr. 5. tl. 3. gr. laga nr. 69/1994 og 4. gr. reglugerðar nr. 406/1994.

IV.

Niðurstaða.

Stefnandi seldi Gosar ehf., sem áðurnefndur Ragnar Lövdal er aðaleigandi að og stjórnarformaður í, bifreið sína, MI-021, með afsali 14. október 1997, en stefnandi hafði fengið þá bifreið sem greiðslu upp í bifreiðina VO-129, er hann seldi Ólafíu Helgadóttur 26. september sama ár fyrir milligöngu Ragnars. Var kaupverð bifreiðarinnar MI-021, 2.100.000 krónur, allt greitt með tékkum, dagsettum fram í tímann. Áður en stefnandi gekk frá kaupunum, hafði hann samband við Ólaf Sigurðsson, gjaldkera hjá Ræsi hf., sem staðfesti, að Ragnar hefði ávallt staðið við greiðslur vegna bifreiðakaupa með þeim hætti gagnvart því fyrirtæki.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 406/1994 um tryggingarskyldu við sölu notaðra ökutækja, sem sett er með heimild í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994, sbr. c-lið 3. gr. laga nr. 20/1997 um breyting á þeim lögum, er það eitt skilyrða þess að geta öðlast leyfi til þess að reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki, að viðkomandi leggi fram skilríki því til sönnunar, að hann hafi gilda tryggingu, sem bæti viðskiptavinum tjón, er þeir kunna að verða fyrir vegna ásetnings eða gáleysis bifreiðasala. Í 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram, að bifreiðasala beri að bæta viðskiptamönnum sínum það tjón, sem hann kann að baka þeim með störfum sínum, eftir almennum reglum skaðabótaréttar.

Af gögnum málsins verður ráðið, að stefnandi hafi átt persónuleg viðskipti við Ragnar Lövdal fyrir hönd ofangreinds einkahlutafélags vegna sölu bifreiðar sinnar, MI-021, greint sinn. Verður tjón stefnanda því ekki rakið til starfa Ragnars sem bifreiðasala. Eru þar með  ekki uppfyllt skilyrði til þess að fá það bætt úr hinni lögboðnu ábyrgðartryggingu bifreiðasala.

Það er því niðurstaða dómsins, að tjón stefnanda vegna sölu bifreiðarinnar verði rakið til vanefnda Ragnars fyrir hönd Gosa ehf. á greiðslu kaupverðs hennar, en stefnandi tók vísvitandi þá áhættu í umræddum viðskiptum, að innstæða yrði fyrir andvirði tékkanna á innlausnardegi þeirra. Af því leiðir, að eigi er fyrir að fara orsakasambandi milli starfa Ragnars sem bifreiðasala og tjóns stefnanda. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður milli þeirra falli niður.

Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

DÓMSORÐ:

Stefndi, íslenska ríkið, á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Ágústs Kristmanns, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.