Hæstiréttur íslands

Mál nr. 116/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Faðerni
  • Börn
  • Mannerfðafræðileg rannsókn


Föstudaginn 9

 

Föstudaginn 9. mars 2007.

Nr. 116/2007.

B og

C

(Jón Sveinsson hrl.)

gegn

A

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Faðerni. Börn. Mannerfðafræðileg rannsókn.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að mannerfðafræðileg rannsókn mætti fara fram á lífsýnum úr A, látinni móður A og látnum föður B og C til sönnunarfærslu í faðernismáli, sem A rak á hendur B og C.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu máli þessu til Hæstaréttar með kæru 16. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2007, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að mannerfðafræðileg rannsókn mætti fara fram á lífssýnum úr honum, látinni móður hans og látnum föður sóknaraðila til sönnunarfærslu í faðernismáli, sem varnaraðili rekur á hendur sóknaraðilum. Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila  gert að greiða kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, aðallega úr hendi sóknaraðila án tillits til ákvæða 11. gr. barnalaga nr. 73/2003 en til vara úr ríkissjóði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður. Samkvæmt 11. gr. barnalaga greiðist þóknun lögmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Þóknun lögmanns varnaraðila, A, fyrir flutning málsins fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2007.

Mál þetta, sem tekið var úrskurðar 15. janúar sl., var höfðað 8. desember 2004.

Stefnandi er A, [heimilsfang].

Stefndu eru B, [heimilisfang] og C, [heimilisfang].

Dómkröfur stefnanda í málinu eru þær að stefndu verði dæmd til að þola að D, [...] , verði dæmdur faðir hans.  Þá er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður.

Í málinu hafa verið uppkveðnir 5 úrskurðir.  Fyrst hinn 7. apríl 2005, þá 8. september 2005, 6. apríl 2006 og síðan tveir úrskurðir 1. nóvember 2006.

Í öðrum úrskurðinum, sem uppkveðinn var 1. nóvember sl., féllst dómurinn á kröfu stefnanda um að leiða sem vitni systkini sín, E og F.  Var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands, 7. desember 2006.

Hinn 5. janúar sl. kom E  fyrir dóm til skýrslugjafar en F var þá nýlega látin.

Í framhaldi af skýrslu E setti lögmaður stefnanda fram þá kröfu að úrskurðað verði að mannerfðafræðileg rannsókn megi fara fram á lífssýnum úr móður stefnanda og föður stefndu og stefnanda sjálfum og öðrum málsaðilum, reynist lífssýni úr föður stefndu ekki tiltækt eða nothæft.  Krafan er reist á 15. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Lögmaður stefndu mótmælti kröfu stefnanda og krafðist úrskurðar dómara um ágreiningsefnið.  Munnlegur málflutningur fór síðan fram 15. janúar sl. og að honum loknum var málið tekið til úrskurðar.

Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 17. maí 2005, hafnaði rétturinn kröfu stefnanda um að mannerfðafræðileg rannsókn væri gerð á lífssýnum stefnanda, G, móður stefnanda, og D, föður stefndu.  Í dóminum segir m.a. að ekkert liggi fyrir í málinu af hendi G að hún hafi talið D föður stefnanda.  Því hafi ekki verið borið við að hún hafi nokkru sinni fyrir yfirvöldum eða dómi lýst D föður stefnanda.  Stefnandi hafi ekkert fært fram, hvorki með gögnum frá móður sinni né öðrum, til stuðnings því að uppfyllt gæti verið meginskilyrði 2. mgr. 10. gr. barnalaga fyrir málssókn þessari.

Í dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 13. október 2005, var stefnanda talið heimilt að leiða nokkur vitni fyrir dóminn til þess að freista þess að færa þær líkur fyrir málssókn sinni sem myndu heimila honum að krefjast sönnunarfærslu samkvæmt 15. gr. barnalaga.

Þegar yfirheyrslum yfir þessum vitnum var lokið setti stefnandi aftur fram kröfu um að heimiluð yrði mannerfðafræðileg rannsókn á lífssýnum úr móður stefnanda og föður stefndu.  Með úrskurði, uppkveðnum 6. apríl 2006, féllst héraðsdómur á þessa kröfu stefnanda en Hæstiréttur hafnaði kröfunni með dómi, uppkveðnum 29. maí 2006.  Segir m.a. í dóminum að öll vitnin hafi sagt að þau hafi oft heyrt rætt um að D hafi verið faðir stefnanda en ekkert vitnanna hafi orðið vitni að því að G léti orð falla um það né greindi nokkurt þeirra frá öðrum sem segðist hafa orðið vitni að slíku.  Frásögn í aðilaskýrslu stefnanda um orðaskipti hans við móður sína um þessi efni geti ekki komið hér að haldi.  Þá segir í dómi Hæstaréttar: „Sönnunarfærslan sem nú hefur farið fram, getur því engu breytt um það, sem réði niðurstöðu í dómi Hæataréttar 17. maí 2005, að ekkert liggur fyrir í málinu um að [G]hafi talið D vera föður stefnanda, hvað þá lýst því yfir fyrir yfirvöldum eða dómi, eða að uppfyllt séu á annan hátt áðurnefnd meginskilyrði 2. mgr. 10. gr. barnalaga fyrir málssókn varnaraðila.“ 

Hinn 5. janúar sl. kom E, bróðir stefnanda, fyrir dóminn til skýrslugjafar.  Í framburði hans kom fram að móðir hans hefði sagt honum að D væri faðir stefnanda.  Jafnframt hafi hún sagt að H væri ekki faðir stefnanda, en það liggur fyrir í máli þessu, sbr. dóm Hérðasdóms Reykjavíkur 2. september 2004. Er framburður E í samræmi við yfirlýsingu hans og systur hans, F, sem gefin var 12 ágúst 2006, en þar segir að snemma í bernsku hafi þau orðið þess áskynja á heimili sínu að stefnandi væri ekki talinn sonur föður þeirra, H.  Það hafi þau heyrt oft á mæli móður sinnar, G, að hann væri sonur D.  Málið hafi verið viðkvæmt báðum foreldrum þeirra og hafi móðir þeirra liðið fyrir það alla ævi.  Eftir að málaferli þessi séu komin í hámæli telji þau ekki verða vikist undan þeirri siðferðilegu skyldu að bera sannleikanum vitni.  Hann sé sá að báðir foreldrar þeirra hafi talið stefnanda son D.  Þau séu þess einnig fullviss og komist enginn efi þar að.  Er yfirlýsingin gefin að viðlögðum drengskap.

Í ljósi þess sem hér að framan er rakið þykir sýnt fram á að G, móðir stefnanda, hafi í vitna viðurvist lýst því yfir að D væri faðir stefnanda.  Af því þykir verða leitt að móðir stefnanda og faðir stefndu hafi haft samfarir á getnaðartíma stefnanda.  Telja verður því að uppfyllt sé ákvæði 2. mgr. 10. gr. barnalaga, eins og það hefur verið túlkað af meirhluta Hæstaréttar, þannig að mannerfðafræðileg rannsókn geti farið fram samkvæmt 15. gr. barnalaga til staðfestingar á faðerni stefnanda.

Krafa stefnanda um að mannerfðafræðileg rannsókn megi fara fram á lífssýnum úr móður stefnanda og föður stefndu og stefnanda sjálfum er því tekin til greina.

Stefnandi gerir einnig þá kröfu að slík rannsókn verði heimiluð á lífssýnum úr stefndu í málinu reynist lífssýni úr föður stefndu ekki tiltækt eða nothæft.

Ekki liggur fyrir í málinu hvort lífssýni úr föður stefndu er tiltækt eða nothæft.  Meðan ekki hefur verið gengið úr skugga um það þykir, gegn andmælum stefndu, ekki sýnt fram á nauðsyn þess að stefndu gangist undir slíka rannsókn. Þegar af þeim sökum er þessari kröfu stefndu hafnað að svo stöddu.

Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Mannerfðafræðileg rannsókn má fara fram á lífssýnum úr móður stefnanda, G, og föður stefndu, D, og stefnanda.

Kröfu um að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr stefndu er hafnað að svo stöddu.

Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.