Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-229
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Kyrrsetning
- Sönnunarbyrði
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 16. september 2021 leitar HD verk ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 3. sama mánaðar í málinu nr. 409/2021: HD verk ehf. gegn A o.fl., á grundvelli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 5. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Gagnaðilar lögðu sameiginlega fram beiðni um kyrrsetningu 18. desember 2020 til tryggingar greiðslu kröfu, samtals að fjárhæð 79.610.698 krónur, og er þáttur hvers og eins í kröfunni tilgreindur í beiðninni. Kröfur þeirra beinast að leyfisbeiðanda sem var eigandi fasteignar í Reykjavík sem brann í júní 2020. Gagnaðilar eru annars vegar fyrrum leigjendur í húsnæðinu og hins vegar aðstandendur þeirra íbúa sem létu lífið í brunanum. Þeir telja að leyfisbeiðandi hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið þeim fjártjóni og miska þar sem fasteignin hafi ekki uppfyllt lögbundnar kröfur um brunavarnir. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort skilyrðum til kyrrsetningar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt.
4. Með framangreindum úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 14. janúar 2021 um að synja um framgang kyrrsetningar var felld úr gildi. Á hinn bóginn voru ekki talin efni til að verða við þeirri kröfu gagnaðila að lagt yrði fyrir sýslumann að framkvæma kyrrsetningu í nánar tilgreindum eignum leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði meðal annars til þess að við mat á fjárhagslegri stöðu leyfisbeiðanda hefði verið horft sérstaklega til þeirrar vanrækslu hans að leggja ekki fram gögn í málinu um rekstur og efnahag sinn árið 2020 og eftir atvikum 2021. Þá leit rétturinn til þess að þrjár af sex fasteignum leyfisbeiðanda hefðu verið seldar á tiltölulega skömmum tíma eftir brunann og hefði verðmæti þeirra numið þriðjungi af heildareignum hans. Í eignasafni leyfisbeiðanda væru einungis fjórar fasteignir og verðmæti tveggja þeirra, sem fyrir lægi að gerð hefðu verið kauptilboð í, næmi stærstum hluta af heildarverðmæti eignasafnsins. Þá stafaði langstærstur hluti rekstrartekna leyfisbeiðanda jafnframt af útleigu þeirra fasteigna. Þyrfti því lítið að koma til svo að stærstur hluti eignasafns leyfisbeiðanda og tekna hyrfi úr rekstri hans með tilheyrandi áhrifum á möguleika gagnaðila til að leita fullnustu í eigum hans. Með vísan til þessa og viðvarandi rekstrartaps leyfisbeiðanda síðastliðin ár, samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi fyrir árið 2019, taldi rétturinn að sennilegt mætti telja, ef kyrrsetning færi ekki fram, að draga myndi mjög úr líkum á að fullnusta krafna gagnaðila tækist eða að fullnusta þeirra yrði verulega örðugri, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Vísar hann til þess að alkunna sé að frestur lögaðila til að skila inn ársreikningum samkvæmt 109. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga sæti undanþágum og að sá frestur hafi ekki verið liðinn. Landsrétti hafi borið að líta til þeirra gagna sem leyfisbeiðandi lagði fram, þar á meðal yfirlýsingu endurskoðanda um fjárhagslega stöðu hans, verðmat eignasafns og kaupsamninga sem sýndu fram á verulega aukningu á verðmæti fasteigna hans. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að sönnunarbyrði í málinu hafi ranglega verið snúið við og að niðurstaða Landsréttar „sé til þess fallin að breyta réttarstöðu varðandi kyrrsetningarmál“. Hafi kæruefnið þar með verulegt almennt gildi. Leyfisbeiðandi kveður niðurstöðu Landsréttar um fjárhagslega stöðu sína ranga þar sem hún byggi á því að lausafjárstaða hans hafi verið slæm og á niðurstöðum rekstrarreiknings um taprekstur. Horft hafi verið framhjá því að eiginfjárstaða hans hafi styrkst. Því til stuðnings fylgir ársreikningur leyfisbeiðanda vegna ársins 2020 beiðninni. Hann vísar jafnframt til þess að í dómi Hæstaréttar 25. júlí 2017 í máli nr. 427/2017 hafi sjónarmiðum um slæma lausafjárstöðu verið hafnað við mat á því hvort fallast ætti á kyrrsetningu. Loks hafi Landsréttur dregið rangar ályktanir af sölu á hluta af eignasafni leyfisbeiðanda þar sem söluandvirðinu hafi verið varið til að greiða niður veðskuldir sem hvílt hafi á eignum sem enn séu í eignasafni hans.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti meðal annars haft fordæmisgildi um mat á skilyrðum fyrir kyrrsetningu svo og framkvæmd kyrrsetningar þegar fleiri en einn gerðarbeiðandi standa sameiginlega að kyrrsetningarbeiðni. Beiðnin er því samþykkt.