Hæstiréttur íslands
Mál nr. 74/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 13. febrúar 2002. |
|
Nr. 74/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. febrúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2002 var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 22. febrúar nk. á grundvelli a. og c. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Hæstiréttur ómerkti úrskurð héraðsdóms 7. þessa mánaðar og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar með vísan til þess að sóknaraðili hafi ekki lagt fram gögn til stuðnings staðhæfingum um tiltekin ætluð brot varnaraðila í kröfugerð sinni. Fyrir héraðsdómara hafi því ekki legið nauðsynleg gögn til að tekin yrði afstaða til kröfunnar. Var talið að dómaranum hafi verið rétt að krefja sóknaraðila um þessi gögn áður en hann tók kröfuna til úrskurðar, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. Sóknaraðili gerði á ný kröfu fyrir héraðsdómi að kvöldi sama dags og lágu þá fyrir framangreind gögn. Með hinum kærða úrskurði var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Varnaraðili hefur viðurkennt að hafa seint í desember 2001 í félagi við nafngreindan mann svikið út vörur og fé í verslunum í Garðabæ og Reykjavík að andvirði rúmlega 450.000 krónur með afhendingu á fölsuðum tékkum. Hann hefur jafnframt viðurkennt að hafa 9. og 10. janúar 2002, að hluta til í félagi við sama mann, svikið út eða reynt að svíkja út vörur í fimm verslunum í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík, samtals að verðmæti rúmlega 3.700.000 krónur. Var varnaraðili úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar þessara mála frá 11. til 17. janúar sl. Þá hefur hann einnig viðurkennt að hafa dagana 22. og 23. janúar sl. í félagi við fyrrnefndan mann staðið að því að svíkja út eða reyna að svíkja út parkett að verðmæti rúmlega 3.000.000 krónur.
Eins og að framan greinir hefur varnaraðili viðurkennt að hafa í desember 2001 og byrjun janúar 2002 svikið út vörur, einn eða í félagi við annan mann, að andvirði á fjórðu milljón króna. Örfáum dögum eftir að hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á þeim brotum var hann handtekinn vegna gruns um umfangsmikil fjársvik á vörum að verðmæti rúmlega 3.000.000 krónur og hefur hann einnig viðurkennt þau brot. Þegar til þessa er litið verður að ætla að varnaraðili haldi áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið gangi hann laus. Er því fallist á með sóknaraðila að fyrir hendi séu skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2002.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. febrúar nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að [...].
Eins og fram kemur í greinargerð lögreglunnar hefur kærði viðurkennt að hafa átt aðild að mörgum brotum sem framin voru í desember og janúar sl. eða að hafa tengst þeim með einhverjum hætti. Þá hefur hann setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar þessara mála. Þegar litið er til rannsóknargagna og þess sem fram hefur komið þykir sýnt að ætla megi að kærði muni halda áfram afbrotum meðan umræddum málum er ekki lokið. Þegar litið er til þess sem að framan er rakið ber að fallast á það að allar líkur séu á að kærði muni halda áfram afbrotum gangi hann laus. Teljast skilyrði c. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 vera fyrir hendi.
Með vísan til c. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 ber að taka til greina kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett.
Kristjana Jónsdóttir kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 22. febrúar nk. kl. 16:00.