Hæstiréttur íslands

Mál nr. 479/2016

A (Þórdís Bjarnadóttir hrl.)
gegn
félagsmálastjórn Garðabæjar (Andri Andrason hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræðissvipting
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem í kæru A var í engu vikið að þeim ástæðum sem hún var reist á, sbr. 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 8. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. júní 2016 þar sem sóknaraðili var samkvæmt kröfu varnaraðila svipt lögræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.  

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga kemur fram að úrskurðir samkvæmt lögunum sæti kæru til Hæstaréttar. Er jafnframt tekið fram að um málskotið fari samkvæmt almennum reglum um meðferð einkamála með þeim frávikum sem greini í lögunum. Í 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eru ákvæði um hvað greina skuli í kæru til Hæstaréttar. Þar segir að tilgreina skuli þá dómsathöfn, sem kærð sé, kröfu um breytingu á henni og þær ástæður, sem kæra sé reist á. Í kæru sóknaraðila er í engu vikið að þeim ástæðum sem kæran er reist á, heldur vísað til þess að hann ætli sér að skila greinargerð þar sem fram komi málsástæður og lagarök fyrir kærunni. Samkvæmt þessu eru slíkir annmarkar á kærunni að vísa verður málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og er hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. júní 2016.

Með beiðni, dagsettri 7. júní 2016, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 9. sama mánaðar, hefur Garðabær, kt. [...], Garðatorgi 7, Garðabæ, krafist þess að A, kt. [...], [...], Garðabæ, nú nauðungarvistuð á deild 32A á Landspítalanum við Hringbraut, verði svipt lögræði í tvö ár.

Varnaraðili hefur mótmælt framgangi kröfunnar. Af hennar hálfu er þess aðallega krafist að beiðni sóknaraðila verði hafnað, en til vara að sviptingunni verði markaður skemmri tími en krafist sé af hálfu sóknaraðila.

Í beiðni sóknaraðila er málavöxtum lýst svo að varnaraðili hafi verið nauðungarvistuð á sjúkrahúsi frá 8. apríl sl., fyrst í 72 klukkustundir á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en síðan í allt að 21 sólarhring á grundvelli 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Vísar sóknaraðili í þeim efnum til úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. L-[...]/2016 frá [...]. apríl síðastliðnum og dóms Hæstaréttar í máli nr. [...]/2016 frá [...]. apríl síðastliðnum. Þann sama dag hafi sóknaraðili farið fram á að nauðungarvistun varnaraðila yrði framlengd um allt að tólf vikur frá 2. maí sl. að telja. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness [...]. apríl sl. í máli nr. L-[...]/2016 hafi verið fallist á þá kröfu og hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar [...]. maí sl. í máli nr. [...]/2016. Varnaraðili sæti því nú um stundir nauðungarvistun fram til loka júlí næstkomandi.

Í beiðni sóknaraðila segir að fyrir liggi vottorð B, geðlæknis á móttökugeðdeild 32A á Landspítalanum við Hringbraut, dagsett 30. maí 2016, þar sem fram komi að læknirinn telji að varnaraðili þurfi tvímælalaust lengri tíma en fram til loka júlí næstkomandi til að lyfjameðferð hrífi og því sé fyrirséð að nauðungarvistun sem varnaraðili sæti nú muni ekki duga til. Varnaraðili sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum og fé og því beri nauðsyn til að svipta varnaraðila lögræði.

Með vísan til framangreinds og framlagðs læknisvottorðs telji sóknaraðili að varnaraðili sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum og fé vegna alvarlegs geðsjúkdóms, sbr. a-lið 4. gr. lögræðislaga. Hafi önnur og vægari úrræði verið fullreynd og sé það mat lækna að fyrirsjáanlegt sé að yfirstandandi nauðungarvistun varnaraðila muni ekki duga til að árangur náist af meðferð varnaraðila.

Í læknisvottorði B, sérfræðings á móttökudeild 32A á Landspítala, dagsettu 30. maí 2016, kemur fram að varnaraðili hafi hinn 8. apríl sl. verið lögð inn á geðgjörgæsludeild 32C á Landspítalanum. Þar hafi verið hafin geðrofslyfjameðferð með forðasprautulyfi þar sem engin leið hafi verið að fá varnaraðila til að taka lyf í töfluformi, enda hafi hún verið algjörlega innsæislaus hvað varðar þessi vandamál sín. Hún hafi jafnframt hafnað alfarið öllum rannsóknum, svo sem blóðrannsóknum og röntgenmyndatöku af höfði. Varnaraðili hafi hinn 22. apríl sl. verið flutt yfir á deild 32A, sem sé almenn móttökugeðdeild, til áframhaldandi aðhlynningar og meðferðar, en þar hafi hún sýnt sömu einkenni og áður, sem lítið hafi gengið til baka. Hún hafi áfram verið gríðarlega tortryggin og sjái samsæri gegn sér í hverju horni. Þá hafi hún verið mjög ásakandi í garð starfsfólks sjúkrahússins og telji jafnvel að þar sé verið að myrða fólk.

Niðurstaða vottorðsins er sú að varnaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi þar sem fyrst og fremst sé um að ræða mjög skrautlegar tortryggnihugmyndir, hún sé algjörlega innsæislaus, vilji ekki þiggja nokkra meðferð og krefjist útskriftar. Mjög líklega sé um að ræða geðklofasjúkdóm af paranoid-gerð, en vinnugreining sé óvefrænt geðrof F29. Meðferð til þessa hafi ekki skilað tilætluðum árangri, en varnaraðili fá geðrofslyf í forðasprautuformi og tvímælalaust þurfi lengri tíma til að lyfið hrífi. Nauðungarvistun varnaraðila hafi verið framlengd í allt að 12 vikur, en þar sem ýmis vandkvæði og takmarkanir séu á því fyrirkomulagi sé nú talið óhjákvæmilegt að óska eftir að varnaraðili verði svipt lögræði í allt að tvö ár. Sé það talið nauðsynlegt til að tryggja lyfjameðferð varnaraðila, sem sé langveik, og eftirfylgd til langs tíma. Ljóst sé að 12 vikna framlenging á nauðungarvistun nægi engan veginn. Að auki þurfi að skipa varnaraðila lögráðamann til þess að tryggja henni fjárhagslegt öryggi og framfærslu, en hún hafi verið ófáanleg til að sækja um bætur af nokkru tagi og sé því að missa húsnæði sitt. Tengist þetta algjörlega sjúkdómsástandi varnaraðila sem ekki sjái fyrir endann á.

Við meðferð málsins óskaði varnaraðili eftir að leitað yrði eftir áliti óháðs læknis á geðhögum varnaraðila og var C geðlæknir kvaddur til að framkvæma óháð geðmat á varnaraðila. Í niðurstöðukafla vottorð hans, sem dagsett er 26. júní 2016, segir að varnaraðili hafi sennilega verið að þróa með sér geðklofasjúkdóm með aðsóknarhugmyndum í allmörg ár. Hugmyndir hennar feli í sér verulegar mikilmennskuhugmyndir samhliða því sem hún sé tortryggin og telji að morð hafi verið framin henni til viðvörunar. Þessar mikilmennskuhugmyndir hafi gert það að verkum að hún hafi ekki unnið eða tryggt sé framfærslu með öðrum hætti þar sem hún hafi væntingar um mikil afrek, forsetaembætti og Nóbelsverðlaun. Mikið uppnám sé í fjármálum heimilis hennar af þeim sökum og hafi hún ekkert innsæi í þann vanda. Af gögnum megi ráða að varnaraðili hafi mjög lítið svarað meðferð sem hafi staðið yfir frá 8. apríl síðastliðnum, en læknar telji hana þó mildari í framgöngu. Þá hafi hún ekki þýðst nauðsynlegar rannsóknir. Ljóst sé að sá rúmi mánuður sem eftir sé af nauðungarvistun varnaraðila muni ekki duga til að færa heilsu hennar í þann farveg að hún geti ráðið sínum málum sjálf. Telja verði líklegt og sennilegt að meðferð varnaraðila taki a.m.k. eitt ár áður en varnaraðili nái þeim bata að hún geti ráðið sínum persónulegu högum og fé vegna sjúkdóms síns. Án sviptingar og nauðsynlegrar meðferðar verði að telja miklar líkur á því að varnaraðili missi eigur sínar vegna sinnuleysis um persónulega hagi sem fylgi hennar alvarlegu veikindum.

Í lok vottorðsins segir að þegar horft sé til þessa virðist ljóst að varnaraðili sé með alvarlegan geðsjúkdóm sem þarfnist meðferðar og eftirlits til þess að koma í veg fyrir að hún missi frá sér hús og heimili. Varnaraðili hafi ekkert innsæi í þennan vanda. Í ljósi þess að varnaraðili hafi ekki verið meðhöndluð áður verði að gera ráð fyrir að nokkrar líkur séu á að hún svari meðferð innan árs með nægjanlegum hætti til þess að hún geti ráðið högum sínum. Í ljósi þess og með tilliti til meðalhófs sé mælt með því að varnaraðili verði svipt lögræði í 12 mánuði.

B geðlæknir og C geðlæknir gáfu báðir símaskýrslu fyrir dómi og staðfestu áðurgreind vottorð sín. Þá staðfestu þeir að varnaraðili væri hvorki fær um að ráða persónulegum högum sínum né fé vegna alvarlegs geðsjúkdóms og því væri nauðsynlegt að krefjast þess að hún yrði svipt lögræði.

Niðurstaða

Í ljósi þess sem að framan er rakið auk fyrirliggjandi gagna telur dómari að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til að unnt sé að fallast á kröfu sóknaraðila í málinu, en þó þannig að nægjanlegt þykir með vísan til læknisvottorðs og skýrslu C geðlæknis fyrir dóminum að svipta varnaraðila lögræði í 12 mánuði.

Samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 160.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, kt. [...], er svipt lögræði í 12 mánuði frá deginum í dag að telja.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., að fjárhæð 160.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.