Hæstiréttur íslands
Mál nr. 366/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Þinglýsing
|
|
Miðvikudaginn 31. ágúst 2005. |
|
Nr. 366/2005. |
Dánarbú Eiríks Hreiðarssonar(Hreinn Pálsson hrl.) gegn Ragnheiði Pétursdóttur og Hreiðari Hreiðarssyni (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) |
Kærumál. Þinglýsing. Lögvarðir hagsmunir.
Í málinu deildu aðilar um nánar tilgreindar úrlausnir þinglýsingastjóra, sem dánarbú EH hafði skotið til héraðsdóms. Var búið ekki talið hafa sýnt fram á lögvarða hagsmuni af umræddum ákvörðunum þinglýsingastjóra og var kröfum hans hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 29. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. júlí 2005 þar sem hrundið var kröfu sóknaraðila um að yfirlýsing Hreiðars Eiríkssonar 4. febrúar 2005 verði innfærð í fasteignabók að nýju, og að afsal um jörðina Grísará I 8. febrúar 2005 verði afmáð úr fasteignabók. Kæruheimild er í 4. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1992. Sóknaraðili krefst þess að teknar verði til greina framangreindar kröfur hans fyrir héraðsdómi, er varða umrædd skjöl. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, dánarbú Eiríks Hreiðarssonar, greiði varnaraðilum sameiginlega 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. júlí
2005.
Mál
þetta barst dóminum hinn 23. mars 2005 með bréfi Hreins Pálssonar hrl. dagsettu
22. s.m. Málið var þingfest 25. apríl
2005.
Sóknaraðili
málsins er dánarbú Eiríks Baldurs Hreiðarssonar, kt. 190242-2509, en
varnaraðilar eru Ragnheiður Pétursdóttir, kt. 211221-3809, Sléttu og Hreiðar
Hreiðarsson, kt. 140642-4799, Skák, bæði í Eyjafjarðarsveit.
Málið
var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 28. júní s.l.
Kröfur
sóknaraðila eru þær:
1. Að yfirlýsing
Hreiðars Eiríkssonar, dagsett 4. febrúar 2005, auðkennd litra 829/2005 verði
innfærð í þinglýsingabók að nýju.
2. Að afmáð verði úr
þinglýsingabók afsal dagsett 8. febrúar 2005, auðkennt litra 143/2005, um
jörðina Grísará I, landnr. 152606, sem þinglýst var 11. janúar 2005.
3. Krafist er
málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðilar
krefjast þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að þeim verði
tildæmdur málskostnaður úr hans hendi.
Í máli
þessu deila aðilar um nánar tilgreindar úrlausnir þinglýsingastjóra við embætti
sýslumannsins á Akureyri, sem sóknaraðili hefur skotið til dómsins.
I.
Málavextir
eru þeir að samkvæmt byggingarbréfi með erfðaleigurétti útgefnu 22. október
1963 var Eiríkur Baldur Hreiðarsson ábúandi jarðarinnar Grísarár. Jörðin var í
eigu Hreiðars Eiríkssonar sem var látinn og sat ekkja hans, Ragnheiður
Pétursdóttir, í óskiptu búi. Eiríkur Baldur Hreiðarsson lést 4. mars 2003 og er
Hreinn Pálsson hæstaréttarlögmaður skiptastjóri í dánarbúi hans.
Í krafti
erfðaleiguábúðarinnar var Snjólfur Eiríksson, kt. 230879-3549, tilnefndur af
Eiríki B. Hreiðarssyni og eiginkonu hans Margréti Sigurðardóttur til að taka
við ábúð. Samkomulag varð milli
erfingja Eiríks um að Snjólfur sæi um búskap á jörðinni, en þar sem ýmis möt
eigna, svo sem úttekt á jörðinni vegna ætlaðra skipta hafi þurft að fara fram,
hafa skiptin tekið alllangan tíma og er enn ólokið. Snjólfur hefur hætt búskapnum og óskar Hreiðar Eiríksson, kt.
180963-4139, einnig sonur hins látna, eftir að taka við erfðaábúðinni.
Nokkur
bréfaskipti urðu milli landeiganda, Ragnheiðar Pétursdóttur og ábúanda,
Snjólfs, þar sem landeigandi vildi breyta ákvæðum byggingabréfsins og hélt því
fram að vanefndir hefðu orðið af hálfu ábúanda. Með bréfi dagsettu 26. nóvember 2004 sagði Ragnheiður Snjólfi upp
ábúðarsamningi um jörðina. Staðfesti
lögmaður Snjólfs, með bréfi dagsettu 20. desember 2004, að honum bæri að
afhenda jörðina 30. maí 2005 en mótmælti því að um vanefndir samningsins væri
að ræða af Snjólfs hálfu.
Með
afsali dagsettu 8. janúar 2005 sem þinglýst var 11. s.m., auðkennt litra
143/2005 afsalaði landeigandi syni sínum Hreiðari Hreiðarssyni jörðinni
Grísará. Sendi Hreiðar Eiríksson þá
yfirlýsingu til sýslumanns þann 4. febrúar 2005 þess efnis að hann teldi að í
nefndu afsali fælust allmörg atriði sem skertu hagsmuni dánarbús Eiríks B. Hreiðarssonar,
auk þess sem gengið hefði verið fram hjá forkaupsrétti ábúanda. Var yfirlýsingu þessari þinglýst sama dag,
litra 829/2005.
Hinn 8.
febrúar 2005 barst Hreiðari Eiríkssyni svo bréf þinglýsingastjóra þar sem vísað
var til bréfs Hreiðars frá 4. febrúar og þeirrar kröfu sem í því fólst að afmáð
yrði afsalið frá 8. janúar. Sagði þar
að tilgreining hinnar afsöluðu eignar væri í samræmi við þinglýsingabók og
kröfu hans væri þegar af þeirri ástæðu hafnað. Þá væri skjal nr. 829/2005 afmáð
úr þinglýsingabók. Taldi skiptastjóri í
dánarbúi Eiríks B. Hreiðarssonar nauðsynlegt að bera þessa úrlausn
þinglýsingastjóra undir héraðsdóm og tilkynnti hann þinglýsingarstjóra þá
afstöðu sína með bréfi dags. 8. mars 2005.
II.
Sóknaraðili
virðist rökstyðja kröfur sínar með því að með umdeildu afsali hafi varnaraðili, Ragnheiður, afsalað til
varnaraðila, Hreiðars, eignum sem tilheyri dánarbúi Eiríks B. Hreiðarssonar sem
ekki hafi verið samið um uppgjör á.
Varnaraðili Hreiðar kunni þannig að vinna rétt til eigna sem ekki sé
ljóst að afsalsgjafi hafi mátt ráðstafa.
Ekki liggi fyrir kaupsamningur þar sem nánar komi fram hvað selt var.
Telur
sóknaraðili að fyrir liggi að með kaupsamningi dags. 7. nóvember 1997,
mótteknum til þinglýsingar 17. nóvember 1997 hafi Hreiðar B. Eiríksson keypt af
Ragnheiði Pétursdóttur tvær geymslur (áður nefnt fjárhús og hlaða). Fyrir þeim hafi verið gefið út afsal
móttekið til þinglýsingar 23. nóvember 1998 og auðkennt litra 4873/1998. Þessa sé að engu getið í afsali því sem hér
sé til umfjöllunar og ekki verði betur séð en að varnaraðili Ragnheiður hafi
selt þessar eignir varnaraðila Hreiðari.
Telur sóknaraðili að þinglýsingastjóra hafi borið að líta til þessa við
afgreiðslu hins umþrætta afsals og átt að færa inn athugasemdir varðandi þetta.
Varðandi
„uppsögn ábúðasamnings“ eins og það sé kallað í afsalinu segir sóknaraðili
henni hafa verið mótmælt. Niðurstaða um
það efni liggi ekki fyrir og erfingi Eiríks B. Hreiðarssonar, Hreiðar
Eiríksson, hafi áhuga á að yfirtaka hann.
Telur sóknaraðili að hvort sem af því verði eða ekki, liggi fyrir að
ómetnar og óuppgerðar séu, vegna langrar ábúðar Eiríks Hreiðarssonar,
margvíslegar framkvæmdir og mannvirki, jarðhitaréttindi og jarðabætur. Ekki sé einu orði vikið að því í afsalinu
hvernig fara skuli um það uppgjör og megi allt eins álíta að samningsaðilar
hunsi það og setji þar hagsmuni dánarbús Eiríks B. Hreiðarssonar í mikla
óvissu.
Sóknaraðili
reisir kröfur sínar einnig á því, að við sölu jarðarinnar hafi sóknaraðili átt
forkaupsrétt, sbr. 27. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Forkaupsréttur hafi ekki verið boðinn sóknaraðila. Hvorki liggi fyrir hvert verð eignarinnar
var né önnur samningskjör. Hvort
tveggja hafi átt að kynna forkaupsréttarhafa.
Heldur sóknaraðili því fram að varnaraðilar hafi ekki mátt telja
forkaupsrétt dánarbúsins fallinn niður samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laga nr. 81,
2004, þar sem ábúandi hafði ekki sagt samningi upp. Þótt uppsögn hefði borist hefði því verið andmælt að um vanefndir
hefði verið að ræða en það sé skilyrði þess samkvæmt 3. mgr. 27. gr. að um
löglega uppsögn sé að ræða og vanefndir sannaðar.
Að öllu
samanlögðu telur sóknaraðili slíka ágalla á sölunni að þinglýsingastjóri hefði
átt að fara að kröfu Hreiðars Eiríkssonar frá 4. febrúar 2005 og afmá afsalið
úr þinglýsingabók, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 39, 1978 og láta yfirlýsingu
hans sem þinglýst hafði verið auðkennt litra 829/2005 standa óhreyfða. Lítur skiptastjóri svo á að umrætt bréf
Hreiðars túlki a.m.k. að flestu leyti sjónarmið dánarbúsins og varði málefni
þess einnig.
III.
Kröfu
sína um höfnun á kröfum sóknaraðila byggja varnaraðilar á því að hann hafi ekki
sýnt fram á að hann eigi lögvarðra hagsmuna að gæta vegna þeirra ákvarðana
þinglýsingastjóra sem deilt er um í máli þessu. Með skjalinu hafi varnaraðili Ragnheiður Pétursdóttir afsalað
jörðinni til sonar síns, varnaraðila Hreiðars Hreiðarssonar, í samræmi við
kaupsamning milli sömu aðila sem undirritaður hafi verið sama dag. Varnaraðilar telja að afsalið og
kaupsamningurinn hafi verið í fullu samræmi við efni þinglýsingabókar, sbr.
þinglýsingavottorð dagsett 04.10.2004 sem aðilar hafi haft til grundvallar við
undirritun skjalanna. Í afsalinu sé
getið um að afsalshafa sé kunnugt um ábúðarsamning sem upphaflega hafi verið
gerður 22.10.1963 og einnig, án þess að þinglýsingabók geti um, að búið sé að
selja spildur frá jörðinni.
Varnaraðilar
telja að af þinglýsingavottorði hafi ekki verið hægt að sjá að dánarbúið ætti
nein réttindi varðandi tvær geymslur sem byggðar hafi verið árin 1958 og 1959
(fjárhús og hlaða) eins og getið sé um í þinglýstu afsali dagsettu 15.11.1998,
merktu 424-A-004973/1998. Hafi þeir
talið að byggingar þessar tilheyrðu ábúðasamningi jarðarinnar sem sé samningur
um erfðaábúð. Í því sambandi vísa þau
til úttektar á hinni seldu eign, sem gerð var samkvæmt ábúðarlögum, dagsett 28.
júní 2004 vegna ættliðaskipta þegar Snjólfur Eiríksson tók við ábúðinni að
föður sínum látnum. Meðal þeirra
mannvirkja sem lýst sé í úttektinni og talin til eigna fyrrum ábúanda séu
ofangreind mannvirki sem afsalað hafi verið til Eiríks Hreiðarssonar með afsali
dagsettu 15.11.1998. Varnaraðili Ragnheiður Pétursdóttir telji að
kaupsamningurinn og afsalið um fjárhúsin og hlöðuna sem þá hafi verið búið að
breyta í geymslur hafi verði gerður til að taka af allan vafa um að þær
tilheyrðu ábúanda ef til uppgjörs kæmi milli jarðeiganda og ábúanda, þar sem
viðkomandi mannvirki hafi verið reist áður en ábúðarsamningur var gerður. Hafi henni verið ókunnugt um þinglýsingu
skjala þessara og telji varnaraðilar vafasamt að skilyrði þinglýsingalaga hafa
verið uppfyllt þegar fyrrnefndum skjölum um geymslurnar tvær var þinglýst.
Að þessu
virtu telja varnaraðilar að sóknaraðili eigi engra hagsmuni að gæta varðandi
ofangreindar tvær geymslur þar sem þær tilheyri Snjólfi Eiríkssyni sem
fráfarandi ábúanda.
Varnaraðilar
mótmæla efasemdum sóknaraðila um vilja varnaraðila Hreiðars Hreiðarssonar um að
fram fari uppgjör varðandi eignir ábúanda.
Þetta eigi sér enga stoð. Í
afsalinu sé getið um viðkomandi ábúðarsamning og tilgreint að honum hafi verið
sagt upp. Varnaraðilar telji sóknaraðila
ekki vera aðila að framangreindu uppgjöri, engu breyti þótt sóknaraðili telji
fjárhagsmálefni hans óuppgerð gagnvart Snjólfi Eiríkssyni, eða eftir atvikum
Garðyrkjustöðinni Grísará ehf. Hafi
varnaraðili Hreiðar Hreiðarsson farið fram á með bréfi dagsettu 09.05.2005 til
úttektarmanna samkvæmt ábúðarlögum að þeir geri úttekt og meti eignir og
endurbætur fráfarandi ábúanda, þ.á.m. áðurgreindar geymslur.
Varnaraðilar
mótmæla því að þeim hafi borið að geta um ætluð hitaveituréttindi ábúanda í
afsali dagsettu 08.01.2005. Við kaup
Hreiðars Eiríkssonar á eldri jörðinni frá ríkinu með afsali dagsetu 12.11.1954
hafi verið undanskilin sölunni vatns- og jarðhitaréttindi umfram
heimilisþarfir. Vatns- og
jarðhitaréttindi til heimilisþarfa hafi fylgt með í ábúðarsamningi og telji
varnaraðilar fráfarandi ábúanda ekki eiga neina fjárkröfu á hendur landeiganda
í tengslum við heitt vatn á jörðinni.
Ef hann telji svo vera geti hann komið því á framfæri við matsmenn
samkvæmt ábúðarlögum er væntanlegt mat fer fram.
Varnaraðilar
mótmæla þeirri málsástæðu sóknaraðila að forkaupsréttarákvæði hafi ekki verið
virt. Varnaraðilar telji að sóknaraðili
geti ekki verið aðili að kröfu sem byggi á þessari málsástæðu og ekki heldur
Hreiðar Eiríksson sem getið sé í málskotsskjalinu. Varnaraðilar telji að Snjólfur Eiríksson hafi verið fullgildur
ábúandi og því verði sá sem ætli að kalla til réttar á erfðaábúð að leiða rétt
sinn frá honum. Ekki sé gert ráð fyrir
að systkini eða dánarbú foreldris erfi réttinn. Varnaraðilar telja að forkaupsréttur hafi ekki verið virkur við
söluna þar sem móðir seldi syni sínum.
Til viðkomandi ákvæðis hafi verið vísað í afsalinu og til áréttingar
hafi einnig verið vísað til ákvæðis í jarðalögum sem geri ráð fyrir að
forkaupsréttur ábúanda falli niður þegar ábúðarlok séu ákveðin með tilteknum
hætti. Ábúandinn Snjólfur Eiríksson
hafi þá verið búinn að staðfesta að ábúðarlok hans yrðu 30. maí 2005.
Varnaraðilar
mótmæla því að sóknaraðili geti á einhvern hátt verið ábúandi samkvæmt nefndum
ábúðarsamningi eins og látið sé að liggja í málsskotskjali sóknaraðila.
Með
vísan til framangreindra málsástæðna telji varnaraðilar að hafna beri kröfum
sóknaraðila, hann hafi ekki sýnt fram á að færsla afsalsins um Grísará I,
Eyjafjarðarsveit, dagsett 08.01.2005 í fasteignabók sé röng eða að mistök hafi
orðið við þinglýsinguna. Þeir telji
þinglýsingu yfirlýsingar Hreiðars Eiríkssonar, dags. 04.02.2005 hafa verið
mistök, hann hafi ekki átt neinna hagsmuna að gæta og hafi ekki getað átt aðild
að málinu. Hann hafi ekki getað komið
fram fyrir hönd sóknaraðila og hafi enga persónulega hagsmuni haft af því að
krefjast leiðréttingar vegna þinglýsingar afsalsins, þar sem hann geti ekki
verið forkaupsréttarhafi að jörðinni.
Ákvörðun þinglýsingastjóra um að afmá skjalið hafi því verið rétt.
Til
stuðnings kröfu sinni vísa varnaraðilar til 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr.
39, 1978, svo og 2. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga, ennfremur
vísa þeir til 1. mgr. 31. gr. jarðalaga nr. 81, 2004 og 3. mgr. 27. gr. sömu
laga.
Varnaraðilar telja afsalið hafa
verið réttilega fært í þingbók og engin þau mistök hafi orðið við þinglýsinguna
sem leiða hafi átt til breytinga þinglýsingastjóra, sbr. 1. mgr. 27. gr.
þinglýsingalaga. Telja þeir hins vegar
að tilvitnað ákvæði hafi átt við þegar þinglýsingastjóri ákvað að afmá
yfirlýsingu Hreiðars Eiríkssonar dags. 04.02.2005.
Að lokum
vísa varnaraðilar til 1. mgr. 67. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. varðandi
forsvar dánarbús og til 129., sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála varðandi málskostnaðarkröfu
sína.
IV.
Samkvæmt
1. mgr. 38. gr. jarðalaga nr. 80/2004 fer fram uppgjör milli jarðeiganda og
ábúanda við lok ábúðar vegna þeirra framkvæmda sem ábúandi hefur ráðist í á
jörðinni. Fer þetta uppgjör fram á
milli jarðeiganda og fráfarandi ábúanda.
Uppgjör vegna ættliðaskipta fer hins vegar fram á milli fráfarandi
ábúanda og þess sem við tekur.
Í máli þessu liggur fyrir að Snjólfur Eiríksson tók við ábúð á jörðinni Grísará ásamt öllum réttindum og skyldum sem ábúðinni fylgja. Lauk þar með réttarsambandi sóknaraðila við eiganda jarðarinnar. Af þessari ástæðu verður sóknaraðili ekki talinn hafa sýnt fram á lögvarða hagsmuni af þeim ákvörðunum þinglýsingarstjóra sem nú eru bornar undir dóminn, sbr. 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Ber því að hafna kröfum sóknaraðila.
Rétt
þykir með vísan til úrslita málsins að sóknaraðili greiði varnaraðila 120.000
krónur í málskostnað.
Úrskurð
þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
ÁLYKTARORÐ.
Kröfum
sóknaraðila, dánarbús Eiríks Baldurs Hreiðarssonar, á hendur varnaraðilum,
Ragnheiði Pétursdóttur og Hreiðari Hreiðarssyni, er hafnað.
Sóknaraðilar
greiði varnaraðilum 120.000 krónur í málskostnað.