Hæstiréttur íslands

Mál nr. 526/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti


                                     

Fimmtudaginn 13. september 2012.

Nr. 526/2012.

Styrmir Jörundsson

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

Softverki ehf.

(Holberg Másson framkvæmdastjóri)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti.

S kærði úrskurð héraðsdóms þar sem kröfu hans um að bú S ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta var hafnað. Í málinu lá fyrir að árangurslaust fjárnám hafði verið gert hjá S ehf. stuttu áður en krafa S um gjaldþrotaskipti kom fram. Talið var að S hefði sýnt fram á að hann ætti ógreidda kröfu á hendur S ehf. vegna vangoldinna launa. Var krafa S um gjaldþrotaskipti á búi S ehf. því tekin til greina, sbr. 1. töluliður 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júlí 2012 sem barst héraðsdómi 26. sama mánaðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 1. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2012 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila skyldi tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreind krafa hans tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með bréfi 9. febrúar 2012 til Héraðsdóms Reykjavíkur krafðist sóknaraðili þess að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta, en hinn 7. sama mánaðar hafði sýslumaðurinn í Reykjavík gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila vegna kröfu Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti að fjárhæð 1.721.640 krónur er vegna vangoldinna launa í desember 2010 og janúar 2011 og bóta í uppsagnarfresti fyrir tímabilið febrúar til apríl 2011, orlofs, orlofsuppbótar 2010 og 2011 og desemberuppbótar 2010 og 2011. Samkvæmt fyrirliggjandi launaseðlum voru mánaðarlaun sóknaraðila 270.000 krónur. Þá liggur fyrir að sóknaraðila var sagt upp störfum hjá varnaraðila vegna samdráttar með bréfi 31. desember 2010 og tveimur bréfum 13. janúar 2011 eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði. Greinir aðila meðal annars á um rétt sóknaraðila til launa í uppsagnarfresti svo og frá hvaða tíma uppsögnin tók gildi.

Leggja verður til til grundvallar að varnaraðili hafi með greiðslu 27. apríl 2012 á 314.718 krónum til sóknaraðila viðurkennt rétt sóknaraðila til launa út janúar 2011 og þar með að uppsögn vinnuréttarsambands málsaðila hafi tekið gildi frá og með þeim mánaðarmótum. Sú fjárhæð sem varnaraðili greiddi er að vísu ekki sundurliðuð en ráða má af gögnum málsins að um sé að ræða laun fyrir allan desember 2010 og 13 daga í janúar 2011 að frádreginni staðgreiðslu og launatengdum greiðslum og er það að mestu í samræmi við fyrirliggjandi launaseðla. Að teknu tilliti til dráttarvaxta og innheimtukostnaðar gat sú greiðsla ekki hrokkið til fullra efnda á þessum kröfuliðum þegar hún var innt af hendi rúmu ári eftir að krafan gjaldféll auk kröfu um orlofsuppbót og desemberuppbót vegna þess tíma sem óumdeilt er að hann var á launum hjá varnaraðila. Hefur sóknaraðili því sýnt fram á að hann eigi enn ógreidda kröfu á hendur varnaraðila og verður krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila því tekin til greina, sbr. 1. töluliður 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Krafa sóknaraðila, Styrmis Jörundssonar, um að bú varnaraðila, Softverks ehf., skuli tekið til gjaldþrotaskipta er tekin til greina.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2012.

Sóknaraðili, Styrmir Jörundsson, kt. 290479-5179, Rúgakri 3, Garðabæ, krafðist þess með bréfi sem barst dóminum 13. febrúar 2012, að bú varnaraðila, Softverks ehf., kt. 611201-2490, Mímisvegi 6, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrota­skipta. 

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi, til vara að henni verði hafnað.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins. 

Sóknaraðili kveðst eiga launakröfu á hendur varnaraðila.  Í gjaldþrotabeiðni lýsir hann atvikum svo að hann hafi starfað hjá varnaraðila, en látið af störfum 13. janúar 2011.  Hafi það verið að ósk varnaraðila.  Hafi ekki verið óskað eftir vinnu­framlagi sínu í uppsagnarfresti.  Sér hafi ekki verið greidd laun fyrir desember 2010 og janúar 2011, auk þess sem ekki hafi verið greidd laun í þriggja mánaða uppsagnar­fresti frá 1. febrúar 2011.  Loks sé orlof og hlutdeild í orlofs- og desemberuppbót ógreidd. 

Um sundurliðun kröfu sinnar vísar sóknaraðili til bréfs VR, dags. 19. janúar 2011.  Þar er krafan sögð að höfuðstól 1.721.640 krónur. 

Sóknaraðili byggir kröfu sína á 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.  Árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá varnaraðila 7. febrúar 2012, að kröfu Lífeyrissjóðs verslunarmanna. 

Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína á því að beiðni sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði 66., sbr. 7. gr. laga nr. 21/1991.  Vanti bæði upp á upplýsingar í beiðni svo og þau gögn sem eigi að fylgja kröfunni.  Segir varnaraðili að gera verði strangar kröfur til beiðni um gjaldþrotaskipti, en hún marki grundvöll málsins. 

Kröfu um að gjaldþrotaskiptabeiðni verði hafnað byggir varnaraðili á því að hann skuldi ekki sóknaraðila fé, því sé öfugt farið.  Vísar hann til þess að samkomulag hafi orðið með aðilum um uppgjör og starfslok.  Honum hafi verið sagt upp í lok desember, en hafi hætt störfum um miðjan þann mánuð.  Hann hafi tilkynnt 13. janúar að hann hefði fengið aðra vinnu frá þeim tíma.  Kveðst varnaraðili hafa útbúið í tví­gang ný uppsagnarbréf að beiðni sóknaraðila, síðast bréf þar sem tekið var fram að hann þyrfti ekki að vinna uppsagnarfrestinn.  Nokkru síðar hafi borist innheimtubréf frá VR þar sem krafist hafi verið launa fyrir desember og janúar auk þriggja mánaða uppsagnarfrests.  Kveðst varnaraðili þá hafa boðað sóknaraðila til vinnu, en forsendur fyrir samþykki til að hann ynni ekki uppsagnarfrestinn hafi verið brostnar og sóknar­aðili hafi vanefnt samkomulag aðila.  Sóknaraðili hafi ekki mætt til vinnu. 

Þar sem sóknaraðili hafi ekki unnið uppsagnarfrestinn beri ekki að greiða honum laun fyrir þann tíma.  Samþykki fyrir því að hann hætti störfum strax hafi verið gefið til málamynda.  Þann texta sé einungis að finna í einu af þremur uppsagnar­bréfum.  Þá hafi vanefndir sóknaraðila á samkomulagi aðila heimilað afturköllun þessa samþykkis, verði það talið hafa verið gilt. 

Loks bendir varnaraðili á að uppsagnarfrestur reiknist frá lokum desember, en ekki lokum janúar eins og sóknaraðili krefjist. 

Varnaraðili hefur lagt fram þrjú mismunandi afrit uppsagnarbréfa, öll árituð af sóknaraðila til staðfestingar á móttöku.  Eitt er dagsett 31. desember 2010, en tvö þann 13. janúar 2011.  Af útskýringum varnaraðila að dæma verður að meta síðari uppsagnarbréfin sem málamyndaskjöl, en engar útskýringar hafa komið fram frá sóknaraðila á þessu atriði.  Segir hann ekki frá því að uppsagnarbréfin hafi verið þrjú.  Í bréfi varnaraðila, dags. 3. febrúar 2011, segir:  „Eins og kom fram í uppsagnarbréfi til þín þann 13. janúar þá samþykkti Softverk að þú þyrftir ekki að vinna út uppsagnar­frest þar sem þú varst farinn að vinna annarsstaðar og við höfðum samþykkt að borga þér laun út janúar.“  Í bréfinu er þess síðan krafist að sóknaraðili mæti aftur til starfa, en að hann falli ella af launaskrá. 

Lagt var fram vottorð vinnuveitanda til Vinnumálastofnunar, dags. 13. janúar 2011, undirritað af framkvæmdastjóra varnaraðila.  Þar kemur fram að sóknaraðili hafi verið í starfi til 13. janúar 2011 og að hann fái ekki greiðslur vegna starfsloka. 

Lagt var fram yfirlit um staðgreiðslu skatta af launum sóknaraðila.  Samkvæmt því greiddi varnaraðili síðast vegna janúarmánaðar 2011, en Vinnumálastofnun frá og með marsmánuði það ár. 

Niðurstaða

Fyrst verður að leysa úr frávísunarkröfu varnaraðila.  Byggir hann á því að beiðni sóknaraðila fullnægi ekki skilyrðum 7. gr., sbr. 66. gr. laga nr. 21/1991.  Á þetta verður ekki fallist.  Ekki eru gerðar sömu kröfur til atvikalýsingar í beiðni um gjaldþrotaskipti og í stefnu í almennu einkamáli.  Þrátt fyrir að beiðnin leggi eins og varnaraðili segir grundvöll að rekstri ágreiningsmáls, verður 7. gr. ekki túlkuð svo að nákvæm sundurliðun kröfu og reifun málsatvika og málsástæðna komi fram í beiðni.  Eftir atvikum kemur þá sókaraðili til með að bera hallann af því að hafa ekki reifað sjónarmið sín um einstök atriði.  Verður málinu ekki vísað frá dómi. 

Aðilar lýsa atvikum hvor á sinn hátt að mestu leyti.  Óumdeilt er að sóknaraðili var í vinnu hjá varnaraðila og að hann er nú hættur.  Meginágreiningur aðila sýnist snúa að því hvort sóknaraðili eigi rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti.  Varnaraðili fullyrðir að sóknaraðili hafi sagt sér þann 13. janúar að hann væri byrjaður í nýrri vinnu.  Þá hefur hann lagt fram gögn um það að sóknaraðili hafi þegið atvinnuleysis­bætur á því tímabili sem hann kallar uppsagnarfrest og krefst launa fyrir.  Með því hefur hann lýst því að hann ætti ekki rétt á launum eða greiðslum frá vinnuveitanda.  Getur það ekki farið saman að taka við atvinnuleysisbótum og krefjast launa í uppsagnarfresti.  Skiptir ekki máli þótt Vinnumálastofnun kunni síðar að endurkrefja sóknaraðila.  Verður því að miða við í þessum úrskurði að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann eigi rétt á launum í uppsagnarfresti. 

Meðal gagna sem sóknaraðili lagði fram eru launaseðlar um greiðslu launa fyrir desember og hluta janúar.  Eins og áður kemur fram er ekki sýnt að sóknaraðili eigi kröfu á launum í uppsagnarfresti.  Er þá ekki annað eftir af fjárkröfu þeirri sem hann reifar en orlof og desemberuppbót.  Varnaraðili greiddi sóknaraðila 314.718 krónur þann 27. apríl sl. og nefndi uppgjör á launum.  Nákvæmur útreikningur á þessu liggur ekki fyrir, frekar en öðrum fjárhæðum sem aðilar nefna í málinu.  Allt að einu virðist þessi greiðsla svo há að ósennilegt er að sóknaraðili eigi frekari kröfur á hendur varnaraðila, miðað við það hvernig málið hefur verið reifað og hvaða gögn hafa verið lögð fram.  Því er ekki sýnt fram á að sóknaraðili sé lánardrottinn varnaraðila í skilningi 65. gr. gjaldþrotalaga.  Verður því að hafna kröfu hans um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. 

Þar sem krafa sóknaraðila var ekki greidd fyrr en eftir að rekstur máls þessa hófst verður málskostnaður felldur niður. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kröfu sóknaraðila, Styrmis Jörundssonar, um að bú varnaraðila, Softverks ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta, er hafnað. 

Málskostnaður fellur niður.