Hæstiréttur íslands
Mál nr. 500/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Vitni
|
|
Þriðjudaginn 26. ágúst 2014. |
|
Nr. 500/2014.
|
A (Eva Bryndís Helgadóttir hrl.) gegn B ehf. (Guðmundur Birgir Ólafsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Vitni.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa B ehf. að leiða tvö nafngreind vitni fyrir héraðsdóm við aðalmeðferð í máli sem félagið höfðaði á hendur A.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2014 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að leiða tvö nafngreind vitni fyrir héraðsdóm við aðalmeðferð máls hans á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B ehf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2014.
Mál þetta var þingfest 5. mars sl. Sóknaraðili er B ehf., kt. [...], [...], [...]. Varnaraðili er A, kt. [...], [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta og að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.
Við undirbúning aðalmeðferðar málsins, sem fara átti fram 3. júní sl., kom fram ágreiningur um vitni sem sóknaraðili hugðist leiða fyrir dóminn. Krefst sóknaraðili þess að honum yrði heimilað að leiða vitnin, C löggiltan endurskoðanda hjá D, [...], [...], sem mun vera endurskoðandi félagsins, og E, skoðunarmann reikninga sóknaraðila. Þessu var mótmælt af hálfu varnaraðila. Málið var tekið til úrskurðar 19. júní sl. um framkominn ágreining að loknum munnlegum málflutningi um þennan þátt málsins.
I
Málavextir
Aðila málsins greinir nokkuð á um málavexti. Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa starfað sem framkvæmdastjóra hjá félaginu en henni hafi verið sagt upp störfum með uppsagnarbréfi 10. september 2012. Ástæða uppsagnarinnar hafi verið mikil bókhaldsóreiða. Varnaraðili kveðst vera eigandi 51% hlutafjár í félaginu, F eigandi 29% hlutafjár og félagið G ehf. eigandi 20% hlutafjár. F og varnaraðili hafi verið í sambúð og eigi saman son. Samskipti þeirra hafi gengið erfiðlega eftir að varnaraðili hóf samband við annan mann sem sé núverandi eiginmaður hennar. Í kjölfar þeirra fregna hafi F sent tilkynningu til fyrirtækjaskrár um að stjórn félagsins hefði ákveðið breytingu á framkvæmdastjórn og prókúru á fundi 18. ágúst 2012. Tilkynnt hafi verið að varnaraðili væri ekki lengur framkvæmdastjóri félagsins. Hvorki varnaraðili né fyrirsvarsmaður G ehf. hafi verið boðuð á fundinn. Varnaraðili kveðst ekki hafa verið upplýst um ráðningu nýs framkvæmdastjóra og ekki verið sagt upp störfum.
Fram kemur í beiðni sóknaraðila að við skoðun á bókhaldi félagsins hafi komið í ljós að varnaraðili hafði tekið úr rekstrinum fjármuni og lagt inn á sinn persónulega reikning ,óháð launagreiðslum hennar frá félaginu, auk þess sem keyptar hafi verið ýmsar vörur til persónulegra nota á kostnað félagsins. Varnaraðili hafi með þessum hætti tekið ófrjálsri hendi fjármuni úr eigu sóknaraðila sem nemi 4.530.995 krónum. Fjárhæðin skiptist með þeim hætti að um sé að ræða peningaúttektir á tímabilinu 5. janúar 2011 til 12. júlí 2012 sem greiddar hafi verið beint inn á reikning varnaraðila að fjárhæð 4.010.000 krónur. Greitt hafi verið til H í þágu varnaraðila 120.000 krónur. Þá sé einnig um að ræða kaup á síma að fjárhæð 16.995 krónur og tölvu að fjárhæð 384.000 krónur. Skorað hafi verið á gerðarþola að skila umræddri tölvu ef hún líti svo á að vélin hafi verið keypt í þágu félagsins en hún hafi ekki orðið við því. Innheimtutilraunir hafi reynst árangurslausar og þann 17. október 2013 hafi henni verið send greiðsluáskorun sem birt var 24. sama mánaðar, þar sem henni hafi verið gefinn þriggja vikna frestur til að svara kröfunni en að öðrum kosti yrði krafist gjaldþrotaskipta á búi hennar. Greiðsluáskoruninni hafi verið svarað með tölvubréfi frá lögmanni varnaraðila 22. nóvember sama ár, þar sem kröfum var hafnað. Sóknaraðili krefst gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á grundvelli 4. eða 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem greiðsluáskorun samkvæmt 5. tölulið hafi ekki verið svarað innan tilskilins frests uppfylli krafan skilyrði lagagreinarinnar. Þá vísar sóknaraðili til dóms Hæstaréttar frá 19. september 2013 í máli nr. 571/2013 þar sem fjallað var um kröfu F um opinber skipti vegna sambúðarslita. Þar hafi varnaraðili borið því við að skuldir væru umfram eignir og í málinu hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að til að opinber skipti gætu farið fram yrði að vera til eign hjá hvorum sambúðaraðila. Því hafi ekki verið að skipta og því hafi kröfu um opinber skipti verið hafnað. Telur sóknaraðili að niðurstaða dómsins og málflutningsyfirlýsing um eignaleysi jafnist á við eignaleysisyfirlýsingu eins og kveðið sé á um í 4. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili greinir svo frá að 17. október 2013 hafi lögmaður F og sóknaraðila skorað á varnaraðila að endurgreiða vangoldnar úttektir að fjárhæð 4.068.204 krónur. Með bréfi 21. nóvember sama ár hafi varnaraðili hafnað því að vera í skuld við sóknaraðila. Sönnunargögn sóknaraðila um tilvist kröfunnar sé yfirlit, útbúið af einum fyrirsvarsmanni sóknaraðila sem eigi að sýna höfuðstól kröfunnar. Hluti yfirlitsins beri það með sér að vera endurgreiddur útlagður kostnaður vegna reksturs félagsins og því með öllu óskiljanlegt hvernig það geti talist vera skuld varnaraðila við félagið. Þá vísar varnaraðili til tölvupóstssamskipta hennar og E, sem sjái um bókhald félagsins, þar sem rætt hafi verið um hvernig haga skyldi bókhaldslegu uppgjöri á millifærslum félagsins til hennar. Í svarinu komi fram að eftir eigi að ganga frá færslum á þeim viðskiptum. Af þessum samskiptum sé ljóst að millifærslurnar hafi alls ekki farið leynt og átt hafi eftir að ganga frá útgáfu reikninga vegna þeirra. Jafnvel þótt varnaraðili teldist skulda sóknaraðila þá séu til staðar óuppgerðar gagnkröfur til skuldajafnaðar en sóknaraðili skuldi varnaraðila laun og óútgefna reikningi. Þá kveður varnaraðila að sér hafi aldrei verið sagt upp en meinaður aðgangur að félaginu bæði sem hluthafi og starfsmaður. Hún eigi laun inni hjá félaginu, laun í uppsagnarfresti auk mögulegra skaðabóta. Varnaraðili kveður Hæstarétt hafa hafnað kröfu sóknaraðila um opinber skipti vegna sambúðarslita m.a. sökum þess að á eign varnaraðila að [...], [...], hvíli tryggingarbréf vegna skuldbindinga F. Tilvist þessara tryggingarbréfa geri varnaraðila ókleift að selja eignina. Á meðan þau hvíli á eigninni teljist eiginfjárstaða hennar neikvæð. Varnaraðili kveðst sjálf vera í skilum með skuldbindingar sem hvíli á eigninni. Geti það ekki talist grundvöllur að beiðni á gjaldþrotaskiptum á búi einstaklings að eiginfjárstaðan í fasteign hennar sé neikvæð sérstaklega ef áhvílandi skuldbindingum sé haldið í skilum. Skilyrði laga nr. 21/1991 miði á engan hátt við stöðu eigna gagnvart skuldum heldur greiðslufærni skuldara. Verði félagið talið eiga lögmæta kröfu á hendur varnaraðila þá sé hún allt að einu um fær um greiðslu á þeirri kröfu og því geti skilyrði 65. gr. laga nr. 21/1991 fyrir kröfu um gjaldþrotaskipti ekki verið uppfyllt.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Í þessum þætti málsins byggir krefst sóknaraðili þess að fá að leiða fyrir dóminn vitnin, C, löggiltan endurskoðanda hjá D, [...], [...], endurskoðanda sóknaraðila, og E, skoðunarmann reikninga sóknaraðila. Tilgangur vitnaleiðslunnar sé að vitnin komi fyrir dóm og staðfesti yfirlýsingu sína og stöðu úr bókhaldi sem krafa hans byggi á og upplýsi um atvik að baki kröfu hans.
Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila byggist á því að hún hafi lagt fjármuni félagsins inn á sinn reikning og látið félagið greiða reikninga í hennar þágu. Fjárhæðir þessar séu óháðar launum sem varnaraðili hafði hjá sóknaraðila. Fjárhæðin nemi 4.530.995 krónum og hafi varnaraðili ekki greitt tilbaka og ekki svarað fyrr en of seint áskorunum þar um. Því beri að úrskurða í málinu um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá hafi varnaraðili með dómi Hæstaréttar í máli nr. 571/2013 lýst því yfir að eignar eignir væru í búinu. Séu því uppfyllt skilyrði fyrir því að gjaldþrotaskipti fari fram á grundvelli 4. töluliðar áðurnefnds ákvæðis.
Varnaraðili hafi borið því við að sóknaraðili eigi enga kröfu á hendur sér og hún sé því ósönnuð. Bendir sóknaraðili á í málinu liggi fyrir tölvupóstssamskipti varnaraðila og skoðunarmann reikninga félagsins, E, sem hann hyggist leiða fyrir dóminn, um hvernig fara eigi með þessar færslur. Með þessu hafi varnaraðili í raun viðurkennt tilvist kröfunnar. Sóknaraðili telji kröfuna aftur á móti vera fullsannaða en til að sanna hana enn frekar sé óskað eftir að framangreind vitni verði leidd fyrir dóminn.
Þá telji sóknaraðili ljóst að fært sé í máli um gjaldþrotaskipti að taka efnislega afstöðu til þess hvort krafa sé fyrir hendi og vísar um það til dóms Hæstaréttar frá 13. september 2012 í máli nr. 586/2012 þar sem tekin hafi verið efnislega afstaða til þess hvort sóknaraðili í því máli ætti rétt til tiltekinna launagreiðslna úr hendi félags sem hann hafði krafist gjaldþrotaskipta á. Svipað sé upp á teningnum í þessu máli. Dómurinn verði að taka efnislega afstöðu til þess hvort varnaraðili hafi fært umrædda fjármuni af reikningi félagsins yfir á sinn eigin reikning og auk þess látið félagið borga fyrir sig ýmsa reikninga í sína þágu. Liður í þeirri sönnunarfærslu sé að umrædd vitni verði leidd fyrir dóminn til að hægt sé svo að sýna fram á að sóknaraðili eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila og að krafa hans um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila verði tekin til greina.
Þá bendir sóknaraðili á að hvergi sé bannað í lögum nr. 21/1991 að slík sönnunarfærsla fari fram í málum er varða töku bús til gjaldþrotaskipta. Í 4. mgr. 70. gr. laganna segi að ef skuldari sæki þing þegar krafa er tekin fyrir um að töku bús hans til gjaldþrotaskipta og mótmæli kröfu lánadrottins skuli farið með hana eftir ákvæðum 168. gr. sömu laga. Í þeirri grein sé vísað til þess að um meðferð málsins fari samkvæmt 3. mgr. 166. gr. laganna. Þar segi svo að um málið fari að öðru leyti eftir reglum XXIV. kafla laganna sem fjallar um málsmeðferð fyrir dómi. Í 2. mgr. 178. gr. sé vísað til almennra reglna í eldri lögum um meðferð einkamála í héraði sem séu sambærileg og í núgildandi lögum nr. 91/1991. Af greinargerð með 174. 178. gr. laga nr. 21/1991 megi ráða að um almenna málsmeðferð sé að ræða hvað varði gagnaöflun og sönnunarfærslu en meginmunurinn felist á að frestir í málum af þessu tagi séu skemmri. Engin heimild sé því í lögum fyrir því að hafna sönnunarfærslu af þessu tagi. Einungis gildi almennra reglur laga nr. 91/1991 um hvort vitnaleiðslan skipti ekki máli eða sé tilgangslaus að mati dómara sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna.
Varnaraðili byggi á því að krafan varnaraðila um gjaldþrotaskipti eigi ekki rétt á sér. Sóknaraðili verði því að geta látið staðfesta þau sönnunargögn fyrir dómi sem hann hafi lagt fram í málinu kröfu sinni til stuðnings. Þá sé honum og heimilt, lögum samkvæmt, að leiða vitni fyrir dóm til að sannreyna hvort skuld sé til staðar.
III
Málsatvik og lagarök varnaraðila
Varnaraðili hafnar því að fallist verði á umræddar vitnaleiðslur yfir áðurnefndum endurskoðanda og skoðunarmanni fari fram. Álitaefnið í þessu máli sé hvort skilyrði séu fyrir hendi lögum samkvæmt um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Álitaefnið afmarkist því við skilyrði 65. gr. laga nr. 21/1991 en krafa sóknaraðila sé hér ekki til efnislegrar meðferðar. Í málinu verði ekki leyst úr óljósri fjárkröfu sóknaraðila. Krafan sé ódæmd og óljós. Sóknaraðili geti ekki bætt úr þessu undir rekstri málsins með því að leiða áðurnefnd vitni fyrir dóminn.
Lög nr. 21/1991 geri ráð fyrir að krafa um töku bús til gjaldþrotaskipta sé lögvarin og dæmd. Einu undantekninguna sé að finna í 16. gr. laganna. Vitnin eigi að bera um lögmæti kröfunnar en hafa engin tengsl við sakarefni málsins. Vitnaleiðsla af þessu tagi fari ekki saman við málsforræðisreglu laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Engin grein sé gerð fyrir því hvernig vitni eigi að skýra málið frekar.
Skilyrði laganna séu hlutlæg. Annað hvort eru þau uppfyllt eða ekki og engin önnur sönnunarfærsla fyrir hendi.
Varnaraðili sé í skilum með sínar fjárskuldbindingar. Hún sé 51% hluthafi í sóknaraðila. Ef sóknaraðili verði talinn eiga kröfu á hendur henni sé hún bær til að greiða hana. Varnaraðili byggir því á því að skilyrði 65. gr. til töku bús hennar til gjaldþrotaskipta séu ekki uppfyllt. Fyrirhuguð skýrslutaka af umræddum tveimur vitnum tengist ekki sakarefni málsins sem snúist um greiðslufærni varnaraðila. Vitnin geti ekkert sagt til um það hvort hún sé greiðslufær eða ekki. Þá sé hugtakið greiðslufærni og neikvæð eiginfjárstaða vegna tryggingarbréfa sem hvíla á eign varnaraðila ekki það sama. Auk þess byggi varnaraðili á því að hún sé greiðslufær.
Vísar varnaraðili til dóms Hæstaréttar frá 18. febrúar 2011 í máli nr. 1/2011 máli sínu til stuðnings þar sem talið var að tilgangur umbeðinnar vitnaleiðslu væri ekki sá að varpa ljósi á þau atvik sem sóknaraðili þess máls taldi grundvöll skaðabótakröfu sinnar.
Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili að hafna verði kröfu sóknaraðila.
IV
Niðurstaða
Sóknaraðili hefur krafist þess að fram fari gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila á grundvelli 4. og/eða 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sbr. beiðni hans til dómsins sem móttekin var 24. janúar sl. Í þessum þætti málsins krefst hann þess að leiða tvö vitni fyrir dóminn, annars vegar endurskoðanda sóknaraðila og hins vegar skoðunarmann reikninga sóknaraðila. Krafa sóknaraðila byggist á því að honum sé slík sönnunarfærsla nauðsynleg og ekkert í lögum komi í veg fyrir að hún fari fram. Varnaraðili byggir á því að vitnin tvö geti ekkert upplýst um sakarefni málsins sem takmarkist við umfjöllun um greiðslufærni varnaraðila.
Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að tilteknum skilyrðum uppfylltum sem nánar er kveðið á um í 1. 5. tölulið málsgreinarinnar. Skuldari á þess kost eftir upphafsorðum 2. mgr. 65. gr. að verjast kröfu um gjaldþrotaskipti með því að sýna fram á að hann geti, þrátt fyrir röksemdir lánardrottins, staðið í fullum skilum með skuldbindingar sínar þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms. Hvað sem ofangreindu líður er það þó frumskilyrði þess að fallist sé að kröfu um gjaldþrotaskipti að sá sem þeirra krefst eigi lögvarða kröfu á hendur skuldara. Sóknaraðili telur að sönnunarfærsla sú, sem hann fer fram á, sé nauðsynleg til að sýna fram á að hann eigi eigi lögvarða kröfu á hendur sóknaraðila þannig að hann geti krafist gjaldþrotaskipta á búi hennar á grundvelli áðurnefnds ákvæðis.
Mál þetta er rekið eftir 3. mgr. 166. gr. og XXIV. kafla laga nr. 21/1991. Almennar reglur um meðferð einkamála í héraði gilda um mál samkvæmt þeim kafla laganna eftir því sem við getur átt, sbr. 2. mgr. 178. gr. þeirra. Verður því ekki séð að sönnunarfærsla af því tagi sem sóknaraðili fer fram á takmarkist af öðru en ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar að lútandi. Af 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 51. gr. þeirra laga verður ályktað að aðili einkamáls megi færa sönnur að umdeildu atviki með því að leiða fyrir dóm vitni sem svari munnlega spurningum um atvik af eigin raun. Þá segir í 3. mgr. 46. gr. laganna að telji dómari bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu. Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum verður ekki fullyrt að ákvæði 3. mgr. 46. gr. laganna standi í vegi beiðni sóknaraðila um að leiða umrædd vitni fyrir dóminn. Afstaða til þess verður fyrst tekin þegar leyst verður úr því álitaefni hvort sóknaraðili eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi hennar. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila eins og nánar greinir í dómsorði og er við þá niðurstöðu hafður til hliðsjónar dómur Hæstaréttar frá 3. september 2002 í máli nr. 321/2002.
Aðilar hafa ekki gert kröfu um málskostnað úr hendi hins í þessum þætti málsins og úrskurðast hann því ekki.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við málinu 2. maí sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Sóknaraðila, B ehf., er heimilt að leiða fyrir dóminn við aðalmeðferð máls hans á hendur varnaraðila, A, vitnin C, löggiltan endurskoðanda sóknaraðila og E, skoðunarmann reikninga sóknaraðila.