Hæstiréttur íslands

Mál nr. 334/2012


Lykilorð

  • Milliliðalaus málsmeðferð
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Ítrekun
  • Refsiákvörðun


                                     

Fimmtudaginn 17. janúar 2013.

Nr. 334/2012.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Garðari Oddi Garðarssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Milliliðalaus málsmeðferð. Brot gegn valdstjórninni. Ítrekun. Refsiákvörðun.

G var ákærður fyrir fíkniefnalagabrot og brot gegn valdstjórninni. Við þingfestingu málsins í héraði krafðist verjandi G þess að dómari málsins viki sæti vegna tengsla við tvö vitni í málinu. Áður en dómarinn vék sæti kannaði hann afstöðu G til sakarefna. Eftir að nýr dómari hafði tekið við málinu lagði verjandi G fram yfirlýsingu hans þar sem áréttuð var fyrri afstaða G og því lýst yfir að hann myndi ekkert eftir atvikum er vörðuðu brot hans gegn valdstjórninni. Fyrir Hæstarétti krafðist G aðallega ómerkingar héraðsdóms annars vegar þar sem hann hefði aldrei komið fyrir héraðsdómara þann, er dæmdi málið og hins vegar þar sem nauðsynlegt hefði verið að fjölskipa héraðsdóminn. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að G hefði átt þess allan kost að mæta til þinghalda, m.a. við aðalmeðferð málsins. Þar sem verjandi hans hefði verið við hana staddur og átt þess kost að beina spurningum til vitna hefði réttinda G verið nægilega gætt eins og á stóð. Auk þess hefði sönnunarfærsla um þá ákæruliði þar sem G neitaði sök farið fram fyrir þeim dómara er málið dæmdi. Var því ekki fallist á ómerkingu héraðsdóms af þeim sökum. Þá féllst Hæstiréttur ekki á það með G að tilefni hefði verið til fjölskipunar héraðsdóms. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu G sem og um upptöku á fíkniefnum og tveimur lömpum. Að teknu tilliti til 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Helgi I. Jónsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. maí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og um upptöku á fíkniefnum og tveimur lömpum  verði staðfest, en að refsing hans verði þyngd. 

Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar, til vara að hann verði sýknaður af sakargiftum samkvæmt 1. til 4. tölulið ákæru og gerð „vægasta refsing“ fyrir brot samkvæmt 5. tölulið ákæru, en að því frágengnu að honum verði ekki gerð sérstök refsing vegna háttsemi sem lýst er í 1. til 4. tölulið ákærunnar. Að öllu þessu frágengnu krefst hann þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði bundin skilorði.

I

Kröfuna um ómerkingu héraðsdóms reisir ákærði annars vegar á því að hann hafi aldrei komið fyrir héraðsdómara þann, er dæmt hafi málið, og sá dómari því ekki getað ,,metið ákærða og staðreynt afstöðu hans til sakarefnis“. Hins vegar reisir ákærði þessa kröfu á því, að nauðsynlegt hafi verið að fjölskipa héraðsdóminn.

Fyrrnefnda röksemdin er nánar á því reist að við þingfestingu málsins í héraðsdómi 10. október 2011 hafi skipaður verjandi ákærða gert kröfu um að dómari málsins, Sandra Baldvinsdóttir, viki sæti. Ástæðan hafi verið sú að eitt vitni í málinu sé ritari við Héraðsdóm Reykjaness og annað vitni hafi áður verið settur héraðsdómari við embættið. Í þingbók var jafnframt bókað vegna þessarar kröfu ákærða að verjandinn teldi alla dómara við embættið vanhæfa til meðferðar málsins. Ofangreindur héraðsdómari tók kröfuna ekki strax til úrskurðar heldur háði þing í málinu 20. október sama ár, en ákærði mætti ekki í þinghaldið. Þá var ákveðið að fresta málinu til 28. sama mánaðar og var það þá tekið fyrir að viðstöddum ákærða og verjanda hans. Bókað var að gerð hafi verið grein fyrir ákæru og að ákærði hafi neitað sökum, sem tilgreindar eru í 1. til 4. tölulið ákærunnar, en játað sök í 5. tölulið hennar. Var krafa ákærða um að dómarinn viki sæti vegna vanhæfis áréttuð og hún tekin til úrskurðar. Úrskurður var kveðinn upp 17. nóvember 2011 um að nefndur héraðsdómari viki sæti í málinu. Degi síðar kvað dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness upp úrskurð um að allir dómarar við embættið vikju sæti í málinu. Dómstólaráð fól Sigurði Gísla Gíslasyni, dómara við Héraðsdóm Suðurlands, meðferð málsins samkvæmt 6. mgr. 15. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Hann tók málið fyrst fyrir 16. desember það ár og fór svo aðalmeðferð fram í því 20. febrúar og 12. mars 2012.

Eins og áður greinir mætti ákærði ekki til dómþings eftir að nýr dómari hafði tekið við meðferð málsins en í þinghaldi síðastgreindan dag lagði verjandi hans fram yfirlýsingu 22. febrúar 2012 undirritaða af ákærða. Þar lýsti ákærði því yfir að hann myndi ekki mæta fyrir dóm til að gefa frekari skýrslu. Hann endurtók það sem bókað hafði verið eftir honum um afstöðu til sakarefna, er hann kom áður fyrir dóm, en vildi þó árétta að ástæða þess að hann neitaði sök væri sú að hann myndi ekki eftir atvikum.

Þótt verjandi ákærða hafi krafist við þingfestingu málsins að dómari þess viki sæti við málsmeðferðina vegna tengsla við tvö væntanleg vitni í því, var rétt af hálfu dómarans að fjalla ekki um kröfuna fyrr en aflað hefði verið afstöðu ákærða til sakarefna. Afstaða hans réði því hvort málið yrði þegar tekið til dóms samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eða því frestað og með það farið samkvæmt 165. og 166. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu kom ákærði fyrir dóm og tjáði sig um afstöðu til sakarefna. Eftir það vék dómarinn sæti og var öðrum dómara falin meðferð þess. Ákærði mætti ekki til að gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins. Verjandi ákærða lagði, eins og áður greinir, fram skriflega yfirlýsingu ákærða þar sem áréttuð var fyrri afstaða, svo og því lýst yfir að hann myndi ekkert eftir atvikum. Sama afstaða kom fram í skýrslu hans hjá lögreglu 1. júní 2011. Af því má ljóst vera að ákærði taldi sig ekki geta greint að neinu leyti frá atvikum að því er varðar þá ákæruliði þar sem hann neitar sök og sönnunarfærsla fyrir dómi fór fram um. Liggur fyrir að sú sönnunarfærsla fór fram fyrir þeim dómara, sem málið dæmdi, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var því ljóst að engin sakfelling yrði reist á framburði hans í málinu.

Ekki liggur annað fyrir en að ákærði hafi átt þess allan kost að mæta við aðalmeðferð málsins, en hafi sjálfur kosið að gera það ekki. Skipaður verjandi hans mætti við aðalmeðferðina og átti þess kost að spyrja vitni og gæta hagsmuna ákærða að öðru leyti. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. og d. lið 3. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, á sakaður maður almennt rétt á að vera viðstaddur þinghöld í máli sínu og fá að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Svo sem að framan greinir verður að leggja til grundvallar að ákærði hafi átt þess kost að mæta til þinghalda meðal annars við aðalmeðferð málsins. Þar sem verjandi ákærða var við hana staddur og átti þess kost að beina spurningum til vitna var réttinda ákærða nægjanlega gætt eins og á stóð. Samkvæmt þessu er ekki hald í þeirri röksemd ákærða að ómerkja beri héraðsdóm af þessari ástæðu.

Rök sín fyrir því að fjölskipa hafi átt héraðsdóminn útlistar ákærði nánar svo að þar sem fyrir hafi legið að hann neitaði sök hafi verið ljóst að niðurstaða máls myndi ráðast af framburði hans og vitna.

Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að einn héraðsdómari skipi dóm í hverju máli nema svo standi á sem segir í 3. mgr. til 5. mgr. Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ef ákærði neiti sök ,,og dómari telur sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi [geti] dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu.“ Tilvitnuð regla heimilar að hafa dóm fjölskipaðan við þær aðstæður, sem vísað er til. Slíkt er ekki skylt. Með hliðsjón af sakarefnum málsins var ekki tilefni til þess að tekin yrði ákvörðun um að þrír héraðsdómarar skipuðu dóm í málinu.

Með vísan til framangreinds verður kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms hafnað.

II

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi svo og framburði vitna. Fallist er á rökstuðning og niðurstöðu héraðsdóms um að sannað sé að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er þar sakfelldur fyrir. Ákærði er því sakfelldur fyrir að hafa í fjögur skipti 31. mars og 8. apríl 2011 gerst brotlegur við 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Meðal annars er hann sakfelldur fyrir að hóta lögreglumanni ofbeldi með því að sýna tilburði til að kasta stálstól í lögreglumanninn. Hótanir hans 8. apríl 2011 í garð fjölskyldu annars tveggja lögreglumanna, er önnuðust flutning hans frá dómhúsi í fangelsið að Litla-Hrauni, voru sérstaklega alvarlegar. Þær beindust að lögreglumanninum og fólu meðal annars í sér að ákærði ætlaði sér að finna börn hans og elta þau heim til hans og að hann myndi beita eiginkonu hans alvarlegu kynferðislegu ofbeldi. Með hliðsjón af sakaferli ákærða var full ástæða til að taka hótanir hans alvarlega.

Með 1. gr. laga nr. 25/2007 voru gerðar breytingar á 106. gr. almennra hegningarlaga. Með þeim breytingum var refsirammi, þegar brot beindist að opinberum starfsmanni, sem hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, hækkaður úr sex árum í átta. Þá var lögfest sérstakt ítrekunarákvæði sem nú er að finna í 3. mgr. 106. gr. Samkvæmt því má hækka refsingu um allt að helming ef hinn sakfelldi hefur áður sætt refsingu samkvæmt 106. gr. ,,eða honum hefur verið refsað fyrir brot sem tengt er að öðru leyti við vísvitandi ofbeldi“. Í athugasemdum frumvarps þess, er síðar varð að lögum nr. 25/2007, segir meðal annars að markmiðið með 1. gr. frumvarpsins sé að skerpa og auka þá refsivernd sem opinberum starfsmönnum, er hafa heimild til líkamlegrar valdbeitingar, sé veitt í refsilögum. Þessi hópur opinberra starfsmanna lendi mun oftar í þeirri aðstöðu að sæta ofbeldi eða hótun um ofbeldi en aðrir opinberir starfsmenn.

Eins og áður greinir var full ástæða til að taka hótanir ákærða alvarlega. Í héraðsdómi er sakaferill hans rakinn að nokkru leyti og eins og þar kemur fram var hann dæmdur fyrir brot á 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga 5. maí 2009. Sá dómur var skilorðsbundinn og hefur því ekki ítrekunaráhrif, sbr. 61. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var á hinn bóginn dæmdur 14. mars 2007, meðal annars fyrir brot á 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, til átta mánaða fangelsisvistar, en þar af voru þrír mánuðir óskilorðsbundnir. Lauk ákærði afplánun þeirrar refsingar 28. ágúst 2008. Þessi dómur hefur ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu, sbr. 3. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

Fallist er á með héraðsdómi að taka beri upp skilorðsdóma yfir ákærða frá 26. september 2008 og 5. maí 2009, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga og tiltaka  refsingu í einu lagi eftir reglum 77. gr. sömu laga.

Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, þar með talið um að ákvæði 74. og 75. gr. almennra hegningarlaga geti ekki, eins og atvikum er háttað, leitt til mildunar á refsingu. Verður ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 15 mánuði. Hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur að öðru leyti.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Garðar Oddur Garðarsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 464.811 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. apríl 2012.

Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 10. ágúst 2011 á hendur ákærða, Garðari Oddi Garðarssyni, kt. [...], til heimilis að [...], [...],

„fyrir brot gegn valdstjórninni og fíkniefnalagabrot framin á árinu 2011 svo sem hér greinir:

Brot gegn valdstjórninni framin fimmtudaginn 31. mars í Héraðsdómi Reykjaness að Fjarðargötu 9 í Hafnarfirði, þar sem tekin var fyrir krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að ákærði sætti gæsluvarðhaldi í sjö daga.

1.   Með því að hafa hótað A, aðstoðarsaksóknara, ofbeldi en ákærði benti á hana og sagði: „bíddu bara, eftir sjö daga þegar ég losna“, en orðin viðhafði ákærði eftir að dómari hafði, að kröfu A, úrskurðað ákærða í gæsluvarðhald.

2.   Með því að hafa hótað lögreglumanninum B, sem þar var við skyldustörf, ofbeldi en ákærði tók upp stálstól, sveiflaði honum aftur fyrir sig og sýndi tilburði til þess að kasta honum í lögreglumanninn.

3.   Með því að hafa nokkru síðar í bílageymslu Héraðsdóms reynt að hrækja á lögreglumanninn B.

4.   Brot gegn valdstjórninni með því að hafa föstudaginn 8. apríl, í lögreglubifreið á leið í fangelsið að Litla-Hrauni, hótað lögreglumönnum C og D, sem þar voru við skyldustörf, lífláti auk þess að hóta að beita fjölskyldu lögreglumannsins C ofbeldi.

Teljast þessi brot ákærða varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 25/2007 og sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga að því er varðar brot samkvæmt 3. ákærulið.

5.   Fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 31. mars, á heimili sínu að [...] í [...], haft í vörslum sínum sex kannabisplöntur og 49,26 g af kannabislaufum, og að hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að ofangreindar sex kannabisplöntur og 49,26 g af kannabislaufum verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá er einnig krafist upptöku á 2 lömpum sem hald var lagt á sbr. 7. mgr. 5. gr. sömu laga.“

Mál þetta var þingfest 10. október 2011.  Kom ákærði ekki fyrir dóminn þá en vegna hans var mættur Stefán Karl Kristjánsson hdl. sem var skipaður verjandi ákærða að hans ósk.  Ákærði kom fyrir dóminn 28. október 2011 og neitaði sök hvað varðar 1.-4. lið ákæru, en játaði sök skv. 5. lið ákæru.  Með úrskurði 17. nóvember 2011 vék Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari sæti við meðferð málsins og með úrskurði Þorgeirs Inga Njálssonar dómstjóra þann 18. nóvember 2011 viku allir dómarar við Héraðsdóm Reykjaness sæti í málinu.  Með bréfi Dómstólaráðs, dags. 21. nóvember 2011 var undirrituðum héraðsdómara falin meðferð málsins.  Var málið tekið fyrir 16. desember 2011 og frestað til aðalmeðferðar sem hófst 20. febrúar 2012, en varð ekki lokið þá vegna fjarveru vitna auk þess að ekki hafði náðst í ákærða.  Var málið dómtekið eftir að aðalmeðferð lauk 12. mars 2012, en þá var lögð fram yfirlýsing frá ákærða þar sem m.a. kom fram að hann hygðist ekki gefa frekari skýrslur fyrir dóminum.

Af hálfu ákæruvalds eru gerðar þær kröfur sem að ofan greinir, en af hálfu ákærða er þess krafist að ákærði verði sýknaður af sakargiftum í 1.-4. lið ákæru en til vara að honum verði ekki gerð refsing fyrir þær sakargiftir, en þá er þess jafnframt krafist að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa vegna ákæruliðar 5.  Þá er krafist málsvarnarlauna skipaðs verjanda sem greiðist úr ríkissjóði að hluta eða öllu leyti.

Málavextir.

 Í kæruskýrslu til lögreglu, dags. 26. apríl 2011, kemur fram að vitnið A, aðstoðarsaksóknari [...], hafi verið að fara með gæsluvarðhaldskröfu á hendur ákærða í Héraðsdómi Reykjaness þann 31. mars 2011.  Hafi ákærði verið strax mjög kvikur og ör og verið að grípa frammí í þinghaldinu.  Hafi hún gert grein fyrir kröfunni um gæsluvarðhald inni í dómsal og farið fram á 7 daga gæsluvarðhald.  Hafi ákærði brugðist ókvæða við og slegið af alefli í borðið.  Hann hafi svo staðið upp og bent á vitnið og sýnt „fock“- merki með fingrunum.  Hann hafi starað á sig illu augnaráði og bent á hana og sagt „bíddu bara“.  Hafi hann ítrekað horft á hana og sagt „bíddu bara“.  Hún hafi gert athugasemdir við þetta og hafi ákærði svarað því til að hann væri ekki að hóta, hvort hann mætti ekki horfa á hana enda horfði hún á hann.  Hafi þáverandi verjandi ákærða, E hrl., reynt að róa ákærða niður og gera lítið úr þessu og hafi verjandinn sagt að þetta væru ekki hótanir.  Síðan hafi héraðsdómarinn tekið kröfuna til úrskurðar og gert hlé á þinghaldi.  Eftir hlé hafi héraðsdómarinn komið inn og kveðið upp úrskurð um 7 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.  Þá hafi ákærði aftur brugðist ókvæða við og staðið upp og bent á vitnið og sagt „bíddu bara eftir 7 daga þegar ég losna“.  Eftir þetta hafi ákærði verið leiddur burt af lögreglumönnum.  Kom fram að vitninu hafi ekki staðið á sama eftir þetta, ekki sýnt hræðslu en liðið mjög illa og verið óttaslegin.

Vitnið B lögreglumaður gaf skýrslu við rannsókn málsins og skýrði svo frá að þegar gert hafi verið hlé á þinghaldi vegna kröfu um að ákærði sætti gæsluvarðhaldi umrætt sinn þá hafi ákærði rifið upp stálstól og sýnt tilburði til að kasta stólnum í vitnið með því að sveifla stólnum aftur fyrir sig og gera sig líklegan til að kasta honum, en ekki sleppt stólnum í frákastinu.  Hafi vitninu brugðið og gert sig tilbúinn til varnar.  Þegar þinghaldinu hafi svo verið fram haldið þá hafi ákærði verið með ógnandi tilburði bæði við héraðsdómarann og A aðstoðarsaksóknara og hafi ákærði sagt eitthvað við þær sem vitnið mundi ekki hvað var.  Hafi A fundið að því við dómarann að ákærði væri með ógnandi tilburði við hana, en dómarinn ekkert tjáð sig um það, en þáverandi verjandi ákærða hafi talað um að hvorki væri um að ræða hótanir né ógnanir.  Eftir þinghaldið hafi ákærði verið fluttur út í lögreglubíl og þá hafi ákærði hrækt til sín.

Vitnið F, [...] héraðsdómari, gaf lögreglu skýrslu við rannsókn málsins og skýrði frá því að ákærði hafi verið mjög æstur í umræddu þinghaldi og þegar úrskurðarorð hafi verið lesið upp hafi hann reiðst mjög og þegar hafi verið bókað um kæru á úrskurðinum hafi ákærði verið að horfa á A.  Hafi vitnið ekki heyrt nákvæmlega hvað ákærði hafi sagt en hann hafi eitthvað verið að tala um að hann hlakkaði til að losna út eftir viku.  Hafi A sagt að ef verið væri að hóta henni þá óskaði hún að það yrði bókað.  Verjandi ákærða hafi róað hann og þetta ekki verið bókað.  Þegar þinghaldinu hafi verið að ljúka hafi ákærði aftur verið orðinn æstur og staðinn upp og sagt að hann myndi sleppa eftir viku og horft fast á A og sagst vita hvað hann ætlaði að gera og bent á A.  Hann hafi steytt hnefann að henni og lamið í borðið.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð „fock“ merki, en vera megi að ákærði hafi sýnt það.  Vitninu hafi fundist augljóst að ákærði hafi beint hótunum að A, en þegar ákærði hafi verið farinn hafi verjandi hans beðið afsökunar á hegðun ákærða.  Vitnið kvaðst hafa upplifað það að ákærði hafi hótað A líkamsmeiðingum og hafi vitnið ekki séð ástæðu til annars en að taka þetta alvarlega, enda hafi vitnið séð sakavottorð ákærða og vita að á því væru tilgreind ofbeldisbrot.

Vitnið G, dómritari við Héraðsdóm Reykjaness, gaf lögreglu skýrslu við rannsókn málsins og skýrði frá því að ákærði hafi verið með hótanir umrætt sinn.  Hann hafi barið í borðið og sagt að eitthvað myndi gerast þegar hann losnaði eftir 7 daga.  Verjandi ákærða hafi beðist afsökunar á hegðun ákærða og kvaðst vitnið aldrei hafa séð nokkurn mann haga sér svona í dómsal.  Kvað vitnið að ákærði hafi greinilega verið með hótanir í garð A, en aðspurð um hvort hún teldi að ákærði myndi gera alvöru úr hótunum sínum kvaðst vitnið ekki geta sagt til um það.

Vitnið E hrl., þáverandi verjandi ákærða, gaf lögreglu skýrslu við rannsókn málsins og skýrði frá því að við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar í dómsal umrætt sinn hafi ákærði viðhaft einhverjar hótanir, en ekki mundi vitnið nákvæmlega hvaða orð það hafi verið.  Svo hafi verið beðið eftir úrskurði um kröfuna og þá hafi ákærði tekið upp stól og verið með einhverjar hótanir í garð B.  Eftir að úrskurðarorð hafi verið lesið upp hafi ákærði verið mjög ósáttur og sagt eitthvað í þá áttina að „þið ættuð að bíða þar til hann losnaði“.  Kvaðst vitnið halda að dómarinn og sækjandinn hafi tekið þetta til sín en hann telji að ákærði hafi frekar beint þessu að sækjanda.  Dómarinn og sækjandinn hafi tekið þessu alvarlega og þá sérstaklega sækjandinn.  Eftir þinghaldið hafi vitnið séð að B og H lögreglumenn hafi átt í vandræðum með ákærða í lögreglubifreiðinni.  Var vitninu kynnt atvikalýsing í kæruskýrslu og kvað vitnið hana rétta, sem og lýsing í vitnaskýrslu B lögreglumanns.  Vitnið kvaðst hafa skynjað að ákærði hafi verið „á brúninni“ og verið orðinn mjög tæpur og til alls líklegur.  Það hafi ekki verið nein ástæða til annars fyrir B og sækjandann en að taka hótanirnar alvarlega.

Í skýrslu D lögreglumanns kemur fram að þegar hann og C lögreglumaður voru að flytja ákærða í fangelsið Litla Hrauni 8. apríl 2011 til áframhaldandi gæsluvarðhaldsvistar, þá hafi ákærði verið með hótanir í þeirra garð, þó aðallega í garð C, sem hafi setið í aftursæti lögreglubifreiðarinnar við hlið ákærða, og hafi hótanirnar snúið að honum, konu hans og börnum.  Bæði hafi verið um að ræða það sem ætla megi að séu hótanir um líkamsmeiðingar sem og kynferðislegar hótanir í garð konu hans.  Hafi ákærði sagt við C að hann myndi finna C, konuna hans og börnin hans ef hann ætti börn.  Hafi ákærði svo sagt við C: „þú getur aldrei falið þig fyrir okkur“.  Kemur fram að ákærði hafi jafnframt sagt við C eftirfarandi setningar: 

„Ég losna eftir 6 daga og þá mun ég standa fyrir framan lögreglustöðina og fylgjast með þér í og úr vinnu og þar af leiðandi komast að því hvar þú átt heima“  

„Reykjavík er lítil borg, ég mun finna þig“

„Þú verður fyrir valinu“

„Ég mun finna út hvar kona þín og börnin þín eru“

„Ég mun finna konuna þína og nota gúrku eða banana á hana.  Ætli það sé ekki betra að nota gúrku á konuna þína“

„Vittu til, ég mun finna þig einhvern daginn“

„Ég mun finna börnin þín og elta þau heim til þín“

Þá hafi C tjáð ákærða það að þetta væru hótanir og hafi þá ákærði sakað C um að vera að hóta sér og sagt við C „þú munt sjá hvað gerist, ég mun sitja fyrir þér.“

Þá hafi ákærði sagt við þá að hann gæti verið búinn að drepa þá báða.  Ákærði hafi jafnframt verið ógnandi í hreyfingum sínum og látbragði.  Hafi þeir lögreglumennirnir tekið þessum hótunum mjög alvarlega, enda hafi ákærði við hótanir sínar horft mjög stíft á C og ítrekað mjög skýrt og greinilega að C yrði fyrir valinu.

C lögreglumaður gerði jafnframt skýrslu um framferði ákærða í garð hans og D lögreglumanns þegar þeir voru að flytja hann í fangelsið að Litla Hrauni umrætt sinn og koma þar fram sömu upplýsingar og í síðastgreindri skýrslu D.  Kemur fram að C hafi þótt þessar hótanir mjög ógeðfelldar og hafi honum liðið mjög illa að fá slíkar hótanir sem beindust að sér og fjölskyldu sinni.

Í lögregluskýrslu kvaðst ákærði ekki muna neitt eftir framangreindum atburðum og hótunum, en sér hafi verið mjög brugðið vegna þeirra ásakana sem á hann hafi verið bornar um [...] og hann hafi verið í áfalli og „blackout“.  Hafi hann sagt eitthvað ljótt þá þyki sér það leitt, en engin meining hafi verið á bak við slíkt.  Kveðst ákærði hafa verið vistaður á stofnunum frá 9 ára til 14 ára og sé hann skemmdur eftir það.  Hann sé fíkill og öryrki.

Þá liggja fyrir rannsóknargögn lögreglu þar sem fram kemur að við húsleit á heimili  ákærða 31. mars 2011 hafi fundist þær kannabisplöntur og kannabislauf sem tilteknar eru í 5. lið ákæru.  Játar ákærði í lögregluskýrslu að hafa haft vörslur plantnanna og að hafa staðið að ræktun þeirra.

Fyrir liggur í málinu að þann 19. október 2011 felldi ríkissaksóknari niður mál það er varðaði ætlað [...]brot ákærða [...] og sem var grundvöllur að gæsluvarðhaldi því sem ákærði var látinn sæta, á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem það sem fram hafði komið við rannsóknina yrði ekki talið líklegt eða nægilegt til sakfellis í sakamáli á hendur ákærða.

Framburður fyrir dómi.

Eins og að framan greinir kom ákærði ekki fyrir dóminn við aðalmeðferð, en af hálfu skipaðs verjanda hans var þá lögð fram yfirlýsing ákærða þar sem fram kemur að ákærði hafi á greindum tíma verið handtekinn og látinn sæta gæsluvarðhaldi, grunaður um [...].  Hafi ákærði verið látinn sæta einangrunarvist allan tímann og þannig látinn einn með hugsunum sínum.  [...]  Þessi staða hafi magnað upp veikindi ákærða og hann hafi týnt sjálfum sér og fengið útrás fyrir mikla reiði.  Sem betur fer hafi ákærði verið hreinsaður af ásökunum um brot [...].  Áréttar ákærði að hann neiti sök vegna ákæruliða 1-4 þar sem hann muni ekki eftir atvikum sem gerðust.  Hafi ákærði brotið af sér þá biðji hann alla hlutaðeigandi afsökunar.  Tekur ákærði fram að hann beri engan kala til lögreglumanna eða ríkissaksóknara og hafi hann sett fram hótanir eða ógnað þeim þá skuli það vera ljóst að hugur hafi ekki fylgt máli.  Þá biður ákærði alla þá sem að þessum málum koma að hafa í huga þá stöðu sem hann hafi verið í, en að öðru leyti treysti hann verjanda sínum til að halda fram sínum sjónarmiðum.

Vitnið A, aðstoðarsaksóknari hjá [...], kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hafi verið umrætt sinn að gera kröfu um að ákærði sætti gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á [...].  Á leiðinni í Héraðsdóm Reykjaness hafi hún heyrt af því að ákærði hafi verið lögreglumönnum erfiður áður en til þinghaldsins kom.  Hafi vitnið látið dómarann F vita af þessu.  Svo hafi ákærði komið í dómhúsið í fylgd lögreglumanna.  Hafi þurft að róa hann.  Svo hafi krafan verið tekin fyrir í dómsal og þá hafi ákærði verið nokkuð yfirvegaður, en verjandi hans hafi verið búinn að ræða við hann.  Hafi hún og verjandi flutt sitt mál.  Þegar úrskurður hafi verið kveðinn upp, þá hafi ákærði byrjað að ókyrrast í sæti sínu og hvessa augun á vitnið.  Ákærði hafi slegið hnefanum í borðið og hún hafi horft framan í hann og hann hafi gefið sér „fokkmerki“ og steytt hnefa að vitninu og sagt svo „bíddu bara, bíddu bara“.  Hafi vitnið spurt verjanda ákærða hvort hann ætlaði ekki að róa skjólstæðing sinn.  Hafi verjandinn reynt það, en ákærði hafi haldið áfram.  Hafi vitnið sagt við dómarann að vitnið liti á þetta sem hótun og vildi fá þetta bókað.  Eftir þetta hafi ákærði sagt „bíddu bara eftir viku“, en ákærða hafi einmitt verið gert að sæta vikulöngu gæsluvarðhaldi.  Hafi vitnið aftur spurt um bókun á þessu en ákærði hafi róast aðeins við tilmæli frá verjanda sínum, en verjandinn hafi sagt eitthvað á þá leið að þetta væru ekki hótanir.  Hafi ákærði horft á sig mjög ákveðið.  Í framhaldinu hafi verið farið með ákærða og hafi hann þá áfram verið æstur.  Eftir þetta hafi vitnið látið yfirmann sinn, I, vita um þetta og hafi I tekið þessu mjög alvarlega.  Hafi vitnið viljað sjá til hvernig hlutirnir gengju fyrir sig eftir viku ef krafist yrði framlengingar á gæsluvarðhaldinu. I hafi síður viljað að vitnið færi með framhaldskröfuna, en þá hafi ákærði verið kominn með nýjan verjanda, J hrl., sem hafi sagt að ákærði sæi eftir þessu og væri rólegur.  Inni í dómsal við fyrirtökuna hafi allt gengið vel, en á leiðinni á Litla Hraun hafi ákærði verið með hótanir í garð lögreglumanna.  Eftir þetta hafi vitninu orðið ljóst að það yrði að taka þetta alvarlega og að ákærði væri óútreiknanlegur, en vitninu hafi alltaf verið órótt.  Eftir þetta hafi verið tekin lögregluskýrsla af vitninu.  Framkoma ákærða og bendingar í dómsal hafi verið mjög óhugnanlegar.  Hafi vitninu verið órótt, en reynt að halda höfði.  Þetta hafi haft áhrif á sig.  Ekki hafi vitnið séð annað það sem lýst er í ákærunni, en hafi heyrt af því.  Vitnið kvað aðspurð að sakborningar [...] brygðust mismunandi við sakaráburði, en aldrei hefði hún upplifað neitt þessu líkt, en þó hafi verið reynt að sýna ákærða skilning vegna þess að hann hafi verið í uppnámi og tekið þetta mjög nærri sér.  Kom fram hjá vitninu að málið hafi verið fellt niður hjá ríkissaksóknara, en ekki vissi vitnið á hvaða grundvelli það var. 

Vitnið H rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að þeir lögreglumennirnir hafi verið komnir með ákærða í dómhúsið umrætt sinn.  Fyrr um daginn hafi ákærði verið yfirheyrður og gerð húsleit hjá honum.  Hafi ákærði verið æstur en verjandi hans hafi verið að reyna að róa hann niður.  Hafi vitnið heyrt af því, en ekki séð, að ákærði hafi ógnað lögreglumanni með stól, en svo sjálfviljugur lagt frá sér stólinn.  Inni í dómsal í þinghaldinu hafi ákærði verið með framíköll við dómarann og við A, en ekki hafi vitnið skilið allt sem ákærði hafi sagt en ákærði hafi talað óskírt.  A hafi verið brugðið og hafi komið fram hjá henni að hún vildi að yrði bókað um þetta.  Eftir þetta hafi vitnið spurt A hvað ákærði hafi sagt og það hafi verið eitthvað um það að hún skyldi bara bíða eftir nokkra daga.  Hafi vitnið ekki heyrt nákvæmlega hvað ákærði hafi sagt en það hafi verið eitthvað ógnandi.  Ákærði hafi verið æstur og reiður og talað um réttarmorð eða mannsmorð.  Hafi ákærði verið að segja eitthvað við A og benda á hana.  Hafi lögreglumennirnir lent í vandræðum við að koma ákærða inn í bíl eftir þinghaldið og orðið átök.  Hafi ákærði veist að B lögreglumanni.  Aðspurður mundi vitnið að ákærði hafi hrækt að B.  Á leiðinni frá dómhúsinu hafi ákærði beðist afsökunar á framferði sínu.  Vitnið minnti að málið á hendur ákærða hafi verið fellt niður.

Vitnið F, [...] héraðsdómari, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hafa úrskurðað ákærða í gæsluvarðhald umrætt sinn.  Lýsti vitnið því að ákærði hefði verið frekar æstur og þegar úrskurðurinn var kveðinn upp hafi hann æstst meira.  Hafi ákærði verið eitthvað að segja við A aðstoðarsaksóknara meðan verið var að bóka um kæru á úrskurðinum. Hafi vitnið ekki fylgst nákvæmlega með því í upphafi, en svo þegar A hafi sagt að ef verið væri að hóta henni þá vildi hún fá það bókað, þá hafi verjandi ákærða snúið sér að ákærða og sagt að það væri ekkert slíkt að gerast og róað ákærða.  Hafi vitnið ekki skilið verjanda svo að í orðum ákærða hefðu ekki falist hótanir.  Hafi verjandi eitthvað beðist afsökunar fyrir hönd ákærða.  Hafi vitnið þá haldið að ekki yrði frekar úr þessu.  Þegar þinghaldinu hafi verið lokið hafi ákærði staðið við endann á borðinu og þá hafi hann aftur farið að segja svipað og hann hafi áður sagt.  Hafi ákærði sagt eitthvað á þá leið að hann hlakkaði til þegar hann yrði laus eftir 7 daga og að hann vissi hvað hann ætlaði að gera þá og þá horft á A og bent á hana, kreppt hnefann og lamið í borðið.  Hafi ákærði sagt þetta ítrekað.  Hafi vitninu fundist þetta vera hótanir um líkamsmeiðingar gagnvart A.  Ekki hafi vitnið séð aðra merkingu í orðum ákærða.  Hafi vitninu fundist þetta vera eitthvað sem ætti að taka alvarlega.

Vitnið G dómritari kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hafa verið dómritari í dómsal Héraðsdóms Reykjaness umrætt sinn þegar tekin var fyrir krafa um að ákærði sætti gæsluvarðhaldi.  Hafi þinghaldið byrjað á venjulegan hátt, en svo hafi ákærði farið að vera með uppsteyt og verið ógnandi.  Verjandi ákærða hafi þurft að afsaka framkomu ákærða því hann hafi verið farinn að berja í borðið.  Svo í lokin þegar þetta hafi verið búið þá hafi ákærði sagt að það myndi eitthvað gerast eftir 7 daga og hafi það klárlega beinst að A aðstoðarsaksóknara enda hafi ákærði horft alveg á hana.  Þetta hafi verið klár ógnun í garð A.  Kvaðst vitnið ekki hafa skilið þetta þannig að það væru orðin tóm, heldur að hugur ákærða fylgdi máli.  Hafi ákærði jafnframt gefið A fingurinn.  Áður hafi ákærði verið að grípa frammí og verið truflandi.  Hafi þetta verið hegðun sem vitnið hafi ekki áður séð í dómsal.  Viku síðar, þegar tekin var fyrir krafa um framlengingu á gæsluvarðhaldi ákærða hafi hann verið stilltur og prúður og ekkert sagt. 

Vitnið D lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hafi, ásamt C lögreglumanni, verið að flytja ákærða austur að Litla Hrauni frá dómhúsi Héraðsdóms Reykjaness 8. apríl 2011.  Þegar þeir hafi verið tæplega hálfnaðir á leiðinni hafi ákærði byrjað að koma með hótanir í þeirra garð og þá aðallega í garð lögreglumannsins C, sem hafi setið aftur í lögreglubílnum við hlið ákærða, en vitnið hafi ekið bílnum.  Um hafi verið að ræða hótanir í garð barna C og kynferðislegar hótanir í garð konu C.  Þá hafi ákærði haft í frammi óbeinar hótanir í garð C s.s. að fylgja honum heim og sjá hvar hann byggi.  Ekki hafi verið um að ræða sérstakar hótanir frá ákærða sem hafi aðeins beinst að vitninu sjálfu, heldur frekar þeim báðum.  Vitnið kvað að strax eftir að þeir komu á Litla Hraun hafi þeir skrifað niður hvað ákærði hafi sagt á leiðinni.  Það sem fram komi í lögregluskýrslu sé skrifað strax eftir að ferðinni lauk og sé beint eftir ákærða.  Vitnið kvað sér hafa verið kunnugt um hvers konar brot ákærði hafi verið grunaður um og hafi verið grundvöllur gæsluvarðhaldsins.  Sennilega hafi þeir verið á Skoda Octavia bifreið, en þeir hafi ekki verið á merktum lögreglubíl.  Ekki hafi verið myndbandsupptökukerfi í bílnum.  Ekki hafi ákærði sett fram neina hótun eingöngu gagnvart vitninu persónulega, en í einhverjum tilfellum hafi hann hótað þeim báðum.  Hafi ákærði sagt að hann gæti verið búinn að drepa þá báða.  Vitnið kvaðst á þeim tíma ekki hafa skilið það sem líflátshótun enda hafi ákærði ekki verið í neinni aðstöðu til að gera slíkt, enda í handjárnum og fangabelti.  Vitnið kvaðst hafa fundið fyrir því eftir á að hafa verið á varðbergi vegna alls þess sem ákærði sagði umrætt sinn.  Vitnið kvaðst hafa munað nákvæmlega hvaða orð hafi fallið þegar hann skrifaði skýrsluna, en hann myndi það ekki í dag.  Ekki kvaðst vitnið hafa orðið fyrir neinu ónæði af hálfu ákærða.

Vitnið C lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hafi, ásamt D lögreglumanni, verið að flytja ákærða á Litla Hraun umrætt sinn.  Framan af hafi ferðin gengið ágætlega, en u.þ.b. þegar þeir hafi verið hálfnaðir og komnir á að giska á móts við Litlu Kaffistofuna hafi ákærði skyndilega farið að verða æstur og farið að hóta þeim.  Hótanirnar hafi meira beinst að vitninu sem hafi setið aftur í bílnum með ákærða.  Hafi ákærði verið meira og minna með stanslausar hótanir það sem eftir var ferðarinnar á Litla Hraun.  Hafi verið um að ræða mjög ógeðfelldar og miklar hótanir í garð vitnisins og hans fjölskyldu.  Vitnið kvaðst muna vel eftir hótununum og hafi vitnið gert um þetta skýrslu.  Hafi ákærði sagst ætla að finna vitnið og börnin hans og gera ýmislegt við konu vitnisins.  Það sem væri í skýrslunni og væri í gæsalöppum væri orðrétt það sem ákærði hafi sagt.  Fyrst hafi ákærði beint hótunum að þeim báðum, en svo aðallega að vitninu.  Kvaðst vitnið hafa tekið hótanirnar mjög alvarlega.  Lýsti vitnið því að ákærði hafi virst mjög einbeittur og hafi verið mjög ógnandi.  Ákærði hafi ekki aðeins notað orð heldur hafi hann verið ógnandi í hreyfingum og viðhaft ýmsar snöggar hreyfingar eins og til að fá fram viðbrögð frá vitninu.  Ákærði hafi verið í handjárnum og með fangabelti.  Aðspurður kvað vitnið að þeir hefðu verið á ómerktum Skoda Octavia lögreglubíl.  Vitnið kvaðst hafa vitað um tilefni þess að ákærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, en ekki vissi vitnið hver hefðu verið afdrif þess máls.  Ekki minntist vitnið þess að ákærði hefði talað um að hann væri hafður fyrir rangri sök eða slíkt.  Aðspurður kvað vitnið að ákærði hefði sagt að hann ætlaði að „gúrka“ konu vitnisins.  Hafi ákærði sagst ætla að sitja fyrir vitninu þegar vitnið væri búinn í vinnunni og sitja fyrir börnum vitnisins.  Þá hafi ákærði sagt „vittu til, ég mun finna þig og börnin þín, ég losna hérna eftir nokkra daga og þá mun ég finna þig“.  Hafi ákærði verið mjög einbeittur þegar hann hafi sagt þetta og dagana á eftir hafi vitnið verið á varðbergi og verið mikið heima við til að gæta fjölskyldu sinnar.  Vitnið kvað sér hafa verið brugðið og hafi vitnið tekið hótanirnar mjög alvarlega.  Ekki hafi ákærði viðhaft svona alvarlegar hótanir gagnvart D.  Ekki kvaðst vitnið hafa orðið fyrir neinu ónæði af hálfu ákærða eftir þetta.

Vitnið K lögreglumaður gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hafi flutt ákærða úr Héraðsdómi Reykjaness og austur á Litla Hraun.  Hafi ákærði verið mjög æstur.  Ekki mundi vitnið frekar eftir atburðum.

Vitnið B lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hafi verið í Héraðsdómi Reykjaness 31. mars 2011 þegar verið var að taka fyrir kröfu um gæsluvarðhald ákærða.  Þegar vitnið hafi komið hafi ákærði verið í dómsal 3 og svo verið komið með hann í dómsal 1.  Þar hafi ákærði verið með allskyns aðdróttanir gagnvart öllum sem þar voru staddir, vitninu, lögmanni sínum og öðrum lögreglumanni.  Það hafi verið einhverjar hótanir sem maður láti fara fram hjá sér.  Hafi ákærði m.a. rekið verjanda sinn.  Hafi svo ákærði tekið upp stól í dómsalnum og gert sig líklegan til að kasta stólnum í vitnið með því að lyfta stólnum, sveifla stólnum aftur fyrir sig og svo hratt fram á við í átt að vitninu, en í framkastinu hafi ákærði ekki sleppt stólnum heldur látið hann niður.  Kvað vitnið að stóllinn hefði lent á vitninu ef ákærði hefði látið vaða í stað þess að leggja stólinn frá sér.  Hafi ákærði sýnt alla tilburði til að kasta stólnum í vitnið, en enginn hafi beðið ákærða um að leggja stólinn niður.  Þegar þeir hafi svo verið á bílastæði fyrir utan dómhúsið að koma ákærða inn í bíl að þinghaldinu loknu hafi ákærði gert sig líklegan til að hrækja á vitnið, og sparka í bílnum.  Hafi ákærði hrækt og hafi hrákinn komið á ermi á fötum vitnisins.  Hafi vitnið þurft að halda ákærða í bílnum á leið til Reykjavíkur.  

Vitnið E hæstaréttarlögmaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hann hafi verið skipaður verjandi ákærða þegar krafist hafi verið gæsluvarðhalds yfir honum 31. mars 2011.  Lýsti vitnið því að ákærði hafi verið mjög reiður og óstýrilátur.  Þegar kveðinn hafi verið upp gæsluvarðhaldsúrskurður yfir ákærða hafi ákærði verið með dólgslæti og barið í borðið.  Hafi ákærði sagt til A „bíddu bara þangað til ég losna eftir 7 daga“ eða eitthvað svoleiðis.  Hafi A verið mjög brugðið og óskað eftir að þetta yrði bókað.  Þegar hafi verið beðið uppkvaðningar úrskurðar inni í öðrum dómsal hafi ákærði gripið upp stól og hótað að kasta honum í lögreglumann.  Lýsti vitnið því að ákærði hefði gripið um stólbakið og tekið stólinn upp og hótað að henda honum í lögreglumanninn.  Vitnið kvaðst hafa verið í því að reyna að róa ákærða allt þinghaldið, en ekki minntist vitnið þess að hafa reynt að draga úr því sem ákærði hafi sagt við A aðstoðarsaksóknara.

Niðurstaða.

Ákærði hefur sem fyrr segir neitað sök vegna ákæruliða 1-4 og hefur komið fram hjá honum að hann muni ekki eftir því sem þar er lýst.  Verður ljóslega engin sakfelling vegna þeirra sakargifta byggð á framburði hans í málinu.

Vitnið A lýsti því fyrir dómi að þegar verið var að kveða upp úrskurð um gæsluvarðhald yfir ákærða umrætt sinn hafi hann ókyrrst í sæti sínu og hvesst augun á vitnið.  Hafi hann slegið hnefanum í borðið, gefið sér „fokkmerki“ og steytt hnefann framan í vitnið inni í dómsalnum.  Hafi ákærði jafnframt sagt „bíddu bara, bíddu bara“.  Eftir að ákærði hafi verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi í 7 daga hafi ákærði sagt „bíddu bara eftir viku“ og horft á sig mjög ákveðið.  Kom fram hjá vitninu að hún hafi tekið þetta alvarlega og verið órótt enda framkoma og bendingar ákærða í dómsalnum mjög óhugnanlegar.

Vitnið H lýsti því að inni í dómsal hafi ákærði verið með frammíköll við dómarann og A, en vitnið hafi ekki skilið allt sem ákærði hafi sagt, en A hafi verið brugðið og hafi hún sagt sér eftir á að ákærði hafi sagt að hún skyldi bara bíða nokkra daga.  Hafi ákærði verið æstur og ógnandi og sagt eitthvað við A og bent á hana.

Vitnið F lýsti því að ákærði hafi verið frekar æstur umrætt sinn og þegar gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hafi verið kveðinn upp hafi hann orðið enn æstari.  Í lok þinghaldsins hafi ákærði sagt eitthvað á þá leið að hann hlakkaði til þegar hann yrði laus eftir 7 daga og að hann vissi hvað hann ætlaði þá að gera og þá horft á A og bent á hana, kreppt hnefann og barið í borðið.  Þetta hafi ákærði sagt ítrekað og hafi vitninu fundist þetta vera hótanir um líkamsmeiðingar gagnvart A og hafi vitnið ekki séð neina aðra merkingu í orðum ákærða.  Tók vitnið fram að henni hafi fundist þetta eitthvað sem bæri að taka alvarlega.

Vitnið G lýsti því að ákærði hafi umrætt sinn verið með uppsteyt og verið ógnandi í framkomu sinni í þinghaldinu.  Hafi ákærði barið í borðið og verjandi hans þurft að afsaka framkomu hans.  Í lok þinghaldsins hafi ákærði sagt að eitthvað myndi gerast eftir 7 daga og þá hafi ákærði horft á A og hafi þetta klárlega beinst að henni.  Hafi þetta verið ótvíræð ógnun í garð A og fannst vitninu sem hugur ákærða fylgdi máli og ekki væri aðeins um að ræða orðin tóm.

Vitnið E lýsti því að ákærði hafi verið mjög reiður og óstýrilátur þegar kveðinn hafi verið upp um það úrskurður að hann myndi sæta gæsluvarðhaldi.  Hafi ákærði verið með dólgslæti og barið í borðið og svo sagt til A „bíddu bara þangað til ég losna eftir 7 daga“.  Hafi A verið mjög brugðið.

Með hliðsjón af framansögðu þykir það vera hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í 1. lið ákæru, en það er mat dómsins, með hliðsjón af aðstæðum og framkomu ákærða umrætt sinn, að sú háttsemi og orðalag verði ekki skilin á annan veg en þann að ákærði hafi verið að hóta A ofbeldi umrætt sinn, en óumdeilt er að A var í umrætt sinn opinber starfsmaður að sinna skyldustörfum sínum.  Er þannig sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið 1 og er þar réttilega færð til refsiákvæðis.

Vitnið B hefur lýst því ítarlega og skilmerkilega hvernig ákærði hafi tekið upp stól í dómsal umrætt sinn og gert sig líklegan til að kasta stólnum í vitnið með því að sveifla stólnum aftur fyrir sig og svo hratt fram á við í stefnu að vitninu, en ekki sleppt stólnum í framkastinu heldur látið stólinn aftur á gólfið. 

Vitnið E lýsti því að ákærði hefði gripið um stól umrætt sinn og hótað að kasta honum í B.  Hafi ákærði gripið um stólbakið og tekið stólinn upp og hótað því að henda stólnum í B.

Þykir vera hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í 2. lið ákæru, en það er mat dómsins með hliðsjón af aðstæðum og framkomu ákærða umrætt sinn að þessi háttsemi ákærða verði ekki skilin á annan veg en þann að með þessu hafi ákærði hótað að kasta stólnum í B og beita hann með því ofbeldi.  Er óumdeilt að B var í umrætt sinn opinber starfsmaður að sinna skyldustörfum sínum og er þannig sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 2. lið ákæru og er þar rétt færð til refsiákvæðis.

Vitnið H bar um það að hann myndi eftir því að eftir þinghald í greint sinn, þegar var verið að koma ákærða í lögreglubíl, hafi ákærði veist að B og hrækt að B.

Vitnið B bar um það að á bílastæði fyrir utan dómhúsið í greint sinn, þegar var verið að færa ákærða í lögreglubíl eftir þinghaldið, hafi ákærði gert sig líklegan til að hrækja á B.  Hafi ákærði svo hrækt og hafi hrákinn komið á ermi á fatnaði B. 

Með framburði síðastgreindra tveggja lögreglumanna er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 3. lið ákæru og er þar réttilega færð til refsiákvæðis, en vafalaust er að B var umrætt sinn opinber starfsmaður að sinna skyldustarfi sínu.  Ekki þykir það koma að sök þó að í ákæru segi ranglega að brotið hafi verið framið í bílageymslu Héraðsdóms Reykjaness, en í ljós hefur komið að brotið var framið á bílastæði við dómhúsið, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en vörn ákærða hefur ekki orðið áfátt af þessum sökum.

Vitnið D hefur borið um það að þá er hann og C voru að flytja ákærða á Litla Hraun umrætt sinn hafi ákærði verið með hótanir í þeirra garð, en þó aðallega C.  Hafi verið um að ræða hótanir í garð barna C og kynferðislegar hótanir í garð konu C.  Þá hafi ákærði haft í frammi hótanir í garð C sjálfs með því að segjast myndu elta hann heim úr vinnu og sjá hvar hann byggi.  Engar sérstakar hótanir hafi beinst aðeins að D sjálfum en frekar þeim sameiginlega.    Hafi ákærði sagt að hann gæti verið búinn að drepa þá báða, en það hafi ekki verið ákærða mögulegt þar sem hann hafi verið í handjárnum og fangabelti.  Hafi vitnið á þessum tíma ekki skilið þetta sem líflátshótun.

Vitnið C lýsti því fyrir dóminum að þegar hann og D voru að flytja ákærða á Litla Hraun hafi ákærði verið með hótanir.  Fyrst og fremst hafi hótanirnar beinst að C og fjölskyldu hans og hafi þær verið miklar og ógeðfelldar.  Hafi ákærði sagst myndu „gúrka“ konu vitnisins, sitja fyrir vitninu þegar hann væri búinn að vinna og sitja fyrir börnum hans, en ákærði hafi sagt „vittu til ég mun finna þig og börnin þín“.  Kvað vitnið sér hafa verið brugðið við þetta og verið mikið heima við dagana á eftir í því skyni að gæta fjölskyldunnar.  Kvaðst vitnið hafa tekið þetta alvarlega.

Með vísun til framburðar D og C þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi haft í frammi hótanir um ofbeldi gagnvart C og fjölskyldu hans, en C var opinber starfsmaður að sinna skyldustörfum sínum umrætt sinn.  Ekki þykir hins vegar nægilega fram komið að ákærði hafi haft í frammi líflátshótanir gagnvart C og ekki heldur gagnvart D, en ekki hefur komið fram annað sem rennt geti stoðum undir það en að ákærði hafi sagt að hann gæti verið búinn að drepa þá báða.  Fyrir liggur hins vegar að á þeim tíma var ákærða það ómögulegt og að vitnið D tók þau orð ekki alvarlega sem hótun.  Er þannig sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 4. ákærulið, að frátöldu því að ekki þykir sannað að hann hafi hótað þeim D og C lífláti.  Er háttsemin réttilega færð til refsiákvæðis í ákærunni.

Með játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð gögn, er sannað að ákærði framdi brot það er greinir í 5. lið ákæru og er háttsemin rétt færð til refsiákvæða, en ekki eru nein efni til að draga það í efa að játning ákærða sé sannleikanum samkvæm.

Hefur ákærði unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hófst sakaferill ákærða árið 1979.  Það sem hér skiptir máli við ákvörðun refsingar er að 14. mars 2007 var ákærði dæmdur í 8 mánaða fangelsi, þar af 5 mánuði skilorðsbundið í 3 ár, fyrir líkamsárás skv. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1949 sem og eignaspjöll skv. 1. mgr. 257. gr. sömu laga.  Var þá dæmdur með skilorðsdómur frá 2004.  Þá var ákærði dæmdur þann 26. september 2009 í 6 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár fyrir hótanir.  Var skilorðshluti dómsins frá 14. mars 2007 dæmdur með vegna skilorðsrofs.  Loks var ákærði dæmdur í 2 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, þann 5. maí 2009, fyrir brot gegn valdstjórninni.  Auk þessa var ákærði dæmdur til greiðslu 55.000 kr. fésektar þann 9. október 2009, fyrir ávana- og fíkniefnabrot.

Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð dómanna frá 26. september 2008 og 5. maí 2009 og ber skv. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að dæma framangreinda skilorðsdóma upp og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga.

Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að í ákæruliðum 2-4 beindust brot ákærða að lögreglumönnum sem hafa heimildir til líkamlegrar valdbeitingar, sbr. 2. ml. 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Voru brot ákærða ófyrirleitin, sérstaklega gagnvart A og C.  Þá þykir það auka á alvarleika brotanna að hluti þeirra var framinn í dómsal.

Þá þykir bera að líta til ákvæða 3. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar, en ákærða hefur áður verið refsað fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. laganna, sem og fyrir líkamsárás skv. 217. gr. laganna.

Af hálfu ákærða hefur verið á það bent að brot sín skv. ákæruliðum 1-4 hafi hann framið þegar hann hafi verið miður sín og í uppnámi vegna sakaráburðar [...].  Það er mat dómsins að refsilækkunarástæður 4. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1949 eigi hér ekki við, en ekki er um það að ræða að þeir sem brotin beindust að hafi vakið reiði eða geðshræringu hjá ákærða með ólögmætri árás eða stórfelldri móðgun.  Þá er það mat dómsins að ákvæði 75. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 geti ekki átt við hér, enda ekki um að ræða einn stakan atburð sem geti hafa orðið vegna skammvinns ójafnvægis á geðsmunum, heldur er um að ræða nokkra aðskilda atburði og á verður ekki horft fram hjá því að nokkrir dagar liðu frá atburðunum í 1. – 3. lið ákæru og þar til ákærði framdi brot sitt sem lýst er í 4. lið ákæru.  Þykir þannig ákvæðið ekki eiga við, en reiði getur almennt ekki talist til refsilækkunar, jafnvel þótt hún geti talist vera skiljanleg.  Þá er við ákvörðun refsingar ekki unnt að horfa til sjónarmiða um erfiða æsku ákærða sem haldið var fram af hálfu verjanda hans.

Að framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en vegna alvarleika brotanna og sakaferils ákærða kemur ekki til álita að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.

Með vísun til þeirra lagaákvæða sem tilfærð eru í ákæru ber að gera upptækar haldlagðar kannabisplöntur, kannabislauf, sem og tvo lampa sem notaðir voru við ræktun plantnanna, eins og nánar greinir í dómsorði.

Samkvæmt 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, en ekki verður séð að kostnaður hafi hlotist af rannsókn málsins hjá lögreglu og er þá aðeins um að tefla málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., en málsvarnarlaunin þykja hæfilega ákveðin 363.950 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Garðar Oddur Garðarsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Upptækar skulu vera sex kannabisplöntur og 49,26 g af kannabislaufum, sem og tveir lampar.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., kr. 363.950.