Hæstiréttur íslands

Mál nr. 460/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Föstudaginn 14

 

Föstudaginn 14. ágúst 2009.

Nr. 460/2009.

Ríkissaksóknari

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði áfram bönnuð för úr landi á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100 gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. ágúst 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. ágúst 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni allt þar til dómur gengur í máli hennar en þó eigi lengur en til mánudagsins 7. september 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að henni verði gert að leggja fram tryggingu fyrir nærveru sinni.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness ár 2009, mánudaginn 10. ágúst.

Ríkissaksóknari krafðist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um  meðferð sakamála að X, kt. [...], [...], Hafnarfirði verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi farbanni þar til dómur fellur í máli hennar en þó eigi lengur en til mánudagsins 7. september 2009 kl. 16:00.

Í þinghaldi í dag lagði saksóknari fram ákæru á hendur Xog var henni afhent afrit hennar.

Ákærða krefst þess aðallega að kröfu saksóknara um farbann verði hafnað en til vara að í stað þess að henni verði bönnuð för frá Íslandi verði henni gert að leggja fram tryggingu.

Krafa saksóknara er reist á því að ákærða sé undir rökstuddum grun um brot gegn 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. Þá er krafan jafnframt reist á því að kærða sé undir grun um brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í kröfu saksóknara nú og í fyrri farbannskröfum hans kemur meðal annars fram að um skeið hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haft til rannsóknar innflutning ákærðu á samtals rúmlega 400 grömmum af kókaíni. Lögreglan hafi handtekið aðila sem hafi haft þessi efni innvortis og hafi þeir hlotið dóma fyrir að flytja efnin til landsins. Ákærða hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins frá 30. apríl til 12. maí 2009 og farbanni frá þeim tíma. Ákærða sé íslenskur ríkisborgari en fjölskylda hennar búi erlendis og kærasti hennar sé nú í gæsluvarðhaldi í Amsterdam. Þá kemur einnig fram í kröfu saksóknara að ákærðu sé gefið að sök að hafa bitið lögreglumann í bakið. Ákærða sé einnig grunuð um milligöngu á vændi en að mati Ríkissaksóknara þarfnist sá þáttur málsins frekari rannsóknar og hafi hann því verið endursendur lögreglu.

Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með saksóknara að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að ákærða hafi framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Ákærða er íslenskur ríkisborgari en hefur þó að öðru leyti lítil tengsl við Ísland. Ákæra hefur nú verið gefin út á hendur ákærðu þar sem hún er ákærð fyrir að hafa staðið að innflutningi á samtals rúmlega 400 grömmum af kókaíni og fyrir brot gegn valdstjórninni. Verður því fallist á með saksóknara að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru ákærðu meðan máli hennar er ekki lokið. Þykir því heimilt á grundvelli 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að samþykkja að ákærðu verði gert að sæta áframhaldandi farbanni þar til dómur fellur í máli hennar en þó eigi lengur en til mánudagsins 7. september 2009 kl. 16:00.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan

Úrskurðarorð:

Ákærðu, X, er áfram bönnuð för frá Íslandi allt til þess er dómur fellur í máli hennar en þó ekki lengur en til mánudagsins 7. september 2009 kl. 16:00.