Hæstiréttur íslands

Mál nr. 670/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


                                     

Fimmtudaginn 16. október 2014.

Nr. 670/2014.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Súsanna Björg Fróðadóttir fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.   

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. október 2014 þar sem varnaraðila var áfram gert að sæta farbanni allt til þriðjudagsins 11. nóvember 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.  

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er áfram bönnuð för frá Íslandi allt til þriðjudagsins 11. nóvember 2014 klukkan 16.  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. október 2014. 

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi farbanni allt til þriðjudagsins 11. nóvember 2014 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að hinn 1. ágúst sl. hafi tollgæslan á Keflavíkurflugvelli haft afskipti af kærða við komu hans til landsins. Hafi tollgæsluna grunað að kærði hefði í vörslum sínum barnaklám. Við leit í farangri hafi fundist vísbendingar um slíkt og lögreglan verið kölluð til í framhaldinu. Vegna rannsóknar málsins hafi verið lagt hald á tvær Samsung tölvur og sex minnislykla sem kærði hafi haft meðferðis umrætt sinn.

Rannsókn á mununum sem haldlagðir voru er kærði hafi komið hingað til lands sé í fullum gangi. Við skoðun á annarri Samsung tölvunni hafi komið í ljós rúmlega 36.000 ljósmyndir sem sýni unga drengi nakta og á kynferðislegan hátt. Einnig hafi rannsókn leitt í ljós að kærði hafi vistað á tölvum sínum og minnikubbum kvikmyndaskrár sem hafi verið eytt af tölvunum. Telji lögregla að kvikmyndaskrárnar hafi innihaldið kynferðisbrot gegn börnum. Lögregla vinni m.a. að því að endurheimta kvikmyndaskrárnar.

Þá hafi lögregla einnig lagt hald á fartölvu á dvalarstað kærða hér á landi, við húsleit sem framkvæmd hafi verið 19. ágúst sl. Hafi rannsókn lögreglu á tölvunni m.a. leitt í ljós að horft hafi verið á hreyfimyndir í tölvunni sem lögregla telur innihalda kynferðisbrot gegn börnum. Um sé að ræða skrá sem síðast hafi verið opnuð 12. ágúst sl. og heiti skráin: „[...]“ 

Rannsókn á tölvugögnum kærða sé sem stendur ekki lokið en vænta megi endanlegrar niðurstöðu á næstu vikum.

Rannsókn málsins sé í fullum gangi og enn sem komið er hafi kærði verið yfirheyrður í tvígang. Kærði hafi við skýrslutökur hjá lögreglu alfarið neitað sök. Hann hafi gefið þær skýringar á tilvist framangreindra mynda í tölvum sínum og á usb kubbum að hann hafi ekki einn haft aðgang að tölvum sínum. Hafi samstarfsmenn hans haft aðgang að tölvunum og telur kærði að þeir gætu hafa komið þeim fyrir í tölvunum. Varðandi usb kubbana hafi kærði greint frá því að hann hefði keypt þá notaða á útimarkaði í [...]. Varðandi tölvuna sem hald var lagt á á dvalarstað kærða hér á landi hafi kærði gefið þær skýringar að tölvan sé í eigu dóttur hans og hann hafi ekki horft á framangreinda hreyfimynd í tölvunni. Miðað við þau rannsóknargögn sem liggi fyrir í málinu telur lögregla skýringar kærða á tilvist umræddra ljós- og hreyfimynda vera afar ótrúverðugar. Rannsókn málsins sé því í fullum gangi og liggi fyrir að lögregla þurfi að yfirheyra kærða á nýjan leik þegar rannsókn á tölvugögnum lýkur.

Þá segir í greinargerð lögreglustjóra að hinn [...] hafi kærði verið dæmdur í Hæstarétti í þriggja ára og sex mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn ungum dreng, brot gegn 1. og 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærða hafi verið veitt reynslulausn 7. desember 2012 í tvö ár á eftirstöðum refsingar, 420 dagar. Kærði sé því enn á reynslulausn fyrir kynferðisbrot gegn barni.

Þau brot sem kærði er sakaður um séu mjög alvarleg að mati lögreglu og telur lögregla rökstuddan grun vera fyrir hendi um að kærði hafi brotið gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, nánar tiltekið 210. gr. a. Við þeim brotum sem kærða er gefið að sök að hafa framið liggi allt að tveggja ára fangelsi.

Kærði sé íslenskur ríkisborgari en búsettur og með lögheimili í [...] og starfi hann þar sem [...]. Kærði hafi því takmörkuð tengsl við landið að mati lögreglu. Þá beinist rannsókn lögreglu að alvarlegum brotum sem kærða er gefið sök að hafa framið. Í ljósi þess og alvarleika þeirra brota sem kærða er gefið að sök telur lögregla hættu á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér undan með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar verði honum ekki gert að sæta farbanni meðan á rannsókn málsins stendur. Af þessum sökum telur lögregla að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga um meðferð sakamála, um farbann, sé fullnægt í málinu. Vísast í þessu skyni einnig til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 559/2014 frá 26. ágúst sl., þar sem fyrri farbannskrafa lögreglu var tekin fyrir og krafa lögreglu um farbann staðfest.

Með vísan til alls framangreinds, b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1., 2. og 3. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 210. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, telur lögreglustjóri brýna hagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta áframhaldandi farbanni allt til þriðjudagsins 11. nóvember 2014 kl. 16:00.

   Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undur rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Kærði er íslenskur ríkisborgari en hann er með lögheimili í [...] þar sem hann býr og starfar. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 559/2014, var kærða gert að sæta farbanni til 16. september sl. og með dómi Hæstaréttar í máli nr. 614/2014, var kærða gert að sæta farbanni til dagsins í dag. Rannsókn málsins er ekki lokið. Rannsóknin mun bæði vera flókin tæknilega séð og sérlega yfirgripsmikil, enda um margar tölvur að ræða og verulegan fjölda mynda. Með vísan til þessa er fallist á að áfram sé nauðsynlegt að tryggja nærveru kærða meðan máli hans er ekki lokið, enda skilyrðum 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, sbr. b-liður 1. mgr. 95. gr. sömu laga, fullnægt til þess að kærða verði bönnuð för úr landinu. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, er áfram bönnuð för frá Íslandi, allt til og með þriðjudagsins 11. nóvember 2014 kl. 16:00.