Mál nr. 828/2015
- Ríkisstarfsmenn
- Samningur
- Riftun
- Stjórnsýsla
- Skaðabætur
- Sératkvæði
L og K undirrituðu samkomulag í maí 2014 um starfslok K hjá L. L rifti samningnum og byggði á því að engin heimild hefði verið í fjárlögum eða fjáraukalögum til þess að efna samninginn. K taldi riftun L á samkomulaginu hafa verið ólögmæta og höfðaði mál þetta til greiðslu efndabóta. Í dómi Hæstaréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að L hefði með ólögmætum hætti rift samningnum við K, en í dómi héraðsdóms var meðal annars lagt til grundvallar að fyrrverandi forstjóri L hefði í senn haft heimild og verið bær til þess að gera umrætt samkomulag við K, sbr. 42. og 43. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Taldi Hæstiréttur að K ætti því rétt til efndabóta sem myndi gera hana eins setta fjárhagslega og ef samningurinn hefði verið réttilega efndur samkvæmt efni sínu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. desember 2015. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 11. febrúar 2016. Hún krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 67.509.288 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2014 til 1. júlí sama ár og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún þess að aðaláfrýjandi greiði sér 50.825.935 krónur, en að því frágengnu 49.174.716 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. júní 2014 til 1. október 2016. Þá krefst hún þess að viðurkennt verði að aðaláfrýjanda sé skylt að greiða sér laun starfsmannastjóra mánaðarlega frá 1. nóvember 2016 til 31. maí 2017 samkvæmt samningi 31. maí 2013. Að lokum krefst gagnáfrýjandi hærri málskostnaðar en dæmdur var í héraði og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans að aðaláfrýjandi hafi með ólögmætum hætti rift samningi sínum 31. maí 2013 við gagnáfrýjanda. Á gagnáfrýjandi því rétt til efndabóta, sem gerir hana eins setta fjárhagslega og ef samningurinn hefði verið réttilega efndur samkvæmt efni sínu. Verður aðalkrafa gagnáfrýjanda, sem hvorki hefur sætt andmælum aðaláfrýjanda um fjárhæð né vexti, því tekin til greina. Samkvæmt þessu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en framangreint og málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Landspítalinn, greiði gagnáfrýjanda, Kristjönu Ernu Einarsdóttur, 67.509.288 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2014 til 1. júlí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 3.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara
Aðaláfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að samningur aðila 31. maí 2013 hafi falið í sér greiðslur til gagnáfrýjanda umfram það sem hún átti rétt til að lögum. Af þeim sökum hafi samningurinn verið ólögmætur og því verði hann ekki efndur eftir efni sínu. Í lögum er ekki lagt bann við því að forstöðumaður ríkisstofnunar semji um starfslok við ríkisstarfsmann. Hefur komið fram í málinu að ríkið og stofnanir þess hafi um árabil í umtalsverðum mæli bundið endi á þjónustu starfsmanna sinna á þann veg, en slíkir samningar hafa ítrekað verið ræddir á Alþingi í formi fyrirspurna til ráðherra án þess að löggjafinn hafi brugðist við með því að girða fyrir þau starfslok eða sett nánari reglur til að tryggja samræmi við úrlausn mála. Þegar þessi stjórnsýsluframkvæmd er virt er það álit mitt að sá samningur sem málið tekur til og var ívilnandi í garð gagnáfrýjanda hafi ekki verið andstæður lögum. Með þessari athugasemd tek ég undir það sem fram kemur hjá meirihluta dómenda.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2015
I. Dómkröfur
Mál þetta, sem tekið var til dóms 21. október sl., er höfðað 11. nóvember 2014.
Stefnandi er Kristjana Erna Einarsdóttir, Valhúsabraut 20, Seltjarnarnesi.
Stefndi er Landspítali, Eiríksgötu 5, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 67.509.288 kr. með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. júní 2014 til 1. júlí 2014, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara, samkvæmt endanlegri kröfugerð sem lögð var fram við aðalmeðferð málsins í samræmi við áskilnað stefnanda í stefnu um að setja fram endanlega kröfugerð sem tæki mið af gjaldföllnum greiðslum samkvæmt samningi aðila við dómtöku málsins krefst stefnandi þess að:
1) Stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 26.532.093 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 707.020 kr. frá 1. júní 2014 til 1. júlí sama ár, frá þeim degi af 2.358.239 til 1. ágúst sama ár, frá þeim degi af 4.009.458 kr. til 1. september sama ár, frá þeim degi af 5.660.677 kr. til 1. október sama ár, frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, frá þeim degi af 7.311.896 kr. til 1. desember sama ár, frá þeim degi af 9.036.715 kr. til 1. janúar 2015, frá þeim degi af 10.687.934 kr. til 1. febrúar sama ár, frá þeim degi af 12.339.153 kr. til 1. mars sama ár, frá þeim degi af 13.990.372 kr. til 1. apríl sama ár, frá þeim degi af 15.641.591 kr. til 1. maí sama ár, frá þeim degi af 17.372.348 kr. til 1. júní sama ár, frá þeim degi af 19.204.297 kr. til 1. júlí sama ár, frá þeim degi af 21.036.246 kr. til 1. ágúst sama ár, frá þeim degi af 22.868.195 kr. til 1. september sama ár, frá þeim degi af 24.700.144 kr. til 1. október sama ár og frá þeim degi af 26.532.093 kr. til greiðsludags.
2) Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé skylt að greiða stefnanda laun starfsmannastjóra mánaðarlega frá 1. desember 2014 til 31. maí 2017 samkvæmt starfslokasamningi dagsettum 31. maí 2014.
Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu, samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og þess að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins ásamt álagi er nemur virðisaukaskatti eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem áskilinn er réttur til að leggja fram við aðalmeðferð málsins ef til hennar kemur.
Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
II. Málsatvik
Um helstu atvik í málinu er að meginstefnu ekki ágreiningur milli aðila. Stefnandi er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún hóf störf á Borgarspítala árið 1989 og gegndi þar starfi hjúkrunarframkvæmdastjóra, auk þess að vera staðgengill hjúkrunarforstjóra. Eftir sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala var stefnandi yfirmaður starfsmannamála Landspítalans, framkvæmdastjóri mannauðssviðs og starfsmannastjóri. Heyrði stefnandi beint undir forstjóra í starfi sínu og sat í framkvæmdastjórn Landspítalans til 1999. Stefnandi var ráðin ótímabundinni ráðningu og naut launagreiðslna samkvæmt fastlaunasamningi.
Stefnandi lýsti málavöxtum svo fyrir dómi að hún hefði verið kölluð til fundar hjá Birni Zoëga, þáverandi forstjóra stefnda 2. maí 2014 og þar tilkynnt að hann óskaði eftir því að hún léti af störfum og að gerður yrði samningur við hana í því sambandi.
Þann 31. maí 2014 var undirritað samkomulag milli stefnanda og stefnda en helstu ákvæði þess voru svohljóðandi:
,,1. gr.
Erna verður í námsleyfi frá 1. júní 2013 til 31. maí 2014 og nýtur réttinda í samræmi við almennar reglur þar um. Hún mun ekki snúa aftur til starfa sem starfsmannastjóri Landspítala að loknu námsleyfi en nýtur áfram launa starfsmannastjóra.
2. gr.
Erna skal á tímabilinu 1. júní 2014 til 31. maí 2017 vera forstjóra spítalans til ráðgjafar um starfsmannamál og sinna öðrum verkefnum sem hann kann að óska eftir og samkomulag næst um.
3. gr.
Fyrir 31. maí 2017 munu aðilar leita samkomulags um að Erna fái sambærilegt starf og hún nú gegnir á Landspítala eða annars staðar hjá ríkinu. Bjóðist Ernu ekki sambærilegt starf og samkomulag næst um, lýkur ráðningarsambandi hennar við spítalann 31. maí 2017.
4. gr.
Laun Ernu á gildistíma samnings þessa eða þar til samkomulag verður um annað skulu vera hin sömu og nú er. Ef Erna ræður sig til starfa hjá ríkinu eða öðrum aðila á gildistíma samnings þessa, skulu launagreiðslur samkvæmt þessari grein falla niður ef laun þau er í nýja starfinu fylgja eru jöfn eða hærri en þau sem eru í núverandi starfi starfsmannastjóra Landspítala. Ef launin í nýja starfinu eru lægri skal greiða launamismuninn til loka samningsins 31. maí 2017. Um uppgjör launa, orlofs og annarra réttinda í kjölfar starfsloka, ef til þeirra kemur, fer eftir almennum reglum spítalans.“
Í byrjun janúar 2014 óskaði settur forstjóri stefnda, Páll Matthíasson, eftir því að stefnandi kæmi til fundar við sig. Á fundi þeirra, 9. janúar 2014, tjáði Páll stefnanda að forveri hans í starfi, Björn Zoëga, hefði ekki haft leyfi til að gera við hana starfslokasamning og að fjármálaráðuneytið hefði sent stefnda bréf með tilmælum um að leysa málið með öðrum hætti.
Í kjölfar fundarins sendi stefndi bréf til stefnanda samdægurs en þar sagði meðal annars:
„Landspítala hefur með bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytis dags. 12. desember 2013 verið tilkynnt um þá afstöðu ráðuneytisins að það telji forstöðumenn stofnana ekki hafa lagaheimild til að gera starfslokasamninga við ríkisstarfsmenn. Af þessum sökum hefur ráðuneytið beint þeim tilmælum til Landspítala að binda endi á starfslokasamning þann sem gerður var milli þín og forstjóra spítalans þann þann 31. maí 2013. Ráðuneytið telur þó að stofnun geti í þessu sambandi, með vísan til framkvæmdar, greint á milli námsleyfis annars vegar og annarra þátta samningsins hins vegar.
Samkvæmt framanrituðu og þegar af þeirri ástæðu að fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að Landspítala hafi verið óheimilt að gera umræddan samning telur spítalinn sér óskylt að efna hann samkvæmt efni sínu að öllu leyti óheimilt að efna hann eftir lok námsleyfistíma 1. júní 2014.
Með vísan til þess að ráðuneytið telur að stofnun kunni að vera heimilt að greiða starfsmönnum námsleyfi við lok starfs mun Landspítali greiða laun þér til handa til og með 31. maí 2014. Orlof var gert upp að fullu með fyrirframgreiðslu þann 1. júlí 2013 og reiknað er með að orlof hafi verið tekið á námsleyfistímanum lögum samkvæmt.
Með hliðsjón af framangreindu tilkynnist, að hafi ekki náðst samkomulag milli Landspítala og þín um annað starf fyrir 1. júní 2014 lítur spítalinn svo á að ráðningarsamningi aðila sé lokið frá og með sama tíma. Að teknu tilliti til aðstæðna lítur Landspítali svo á að uppsagnarfrestur hafi verið hluti af námsleyfistímanum sem þá hefur jafnframt verið greiddur að fullu.“
Stefnandi og settur forstjóri stefnda áttu annan fund 30. janúar 2014 til að ræða hugmyndir um verkefni hennar þegar hún sneri aftur til starfa. Kveður stefnandi settan forstjóra stefnda hafa sagt að hann myndi tryggja henni sömu laun í nýju starfi.
Með bréfi, sem dagsett er samdægurs mótmælti lögmaður stefnanda þeirri afstöðu sem kom fram í bréfi stefnda 9. janúar 2014. Í bréfi lögmannsins sagði meðal annars:
„Fyrir liggur að forstjóri fer með fjárstjórnarvald Landspítala og ber ábyrgð á því að stofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf ráðherra. Þá ber forstjóri ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar sé í samræmi við fjárlög. Samkvæmt 5. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, sbr. lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmann, fer forstjóri með heimildir til að stofna til ráðningarsamninga við starfsmenn og slíta ráðningarsamningum. Var forstjóri því að lögum bær til að gera samninga um starfslok við umbjóðanda minn.
Samningar við starfsfólk um starfslok hafa verið gerðir innan Landspítalans og almennt hjá stjórnendum ríkisstofnana. Mátti umbjóðandi minn treysta því að forstjóri Landspítalans hefði í krafti stöðu sinnar heimild til samningagerðarinnar eða hefði aflað sér heimildar væri þess þörf. Við gerð samningsins upplýsti forstjórinn sérstaklega að hann hefði notið aðstoðar yfirlögfræðings spítalans við samningsgerðina. Auk þess hefur samningurinn verið efndur til dagsins í dag. Þá eru umsvif Landspítalans gríðarleg og telja starfsmenn um 4600 og er ársvelta um 45 milljarðar króna. Starf forstjóra fest meðal annars í því að ráðstafa fjármunum stofnunar við rekstur og starfsemi hennar, þar á meðal starfsmannahald.“
Forstjóri Landspítalans svaraði þessu bréfi með bréfi, dags. 18. febrúar 2014 þar sem afstaða stefnda var ítrekuð. Þann 14. apríl 2014, átti stefnandi síðan fund með forstjóra stefnda Páli Matthíassyni. Í framhaldi af þeim fundi sendi forstjóri stefnda tölvubréf til stefnanda, dags. 16. apríl 2014 þar sem henni var boðið starf við uppbyggingu nýrra bygginga á Landspítala en með lækkuðum launum. Í bréfinu sagði svo um það atriði:
„Launakjör þín yrðu að sjálfsögðu lægri en laun framkvæmdastjóra mannauðssviðs voru (enda ekki eðlilegt að fólk haldi fyrri launum í nýju, umfangsminna og ábyrgðarminna starfi) en launin myndu samt taka mið af langri starfsreynslu þinni, því hvernig gert er við aðra í svipaðri aðstöðu á spítalanum og vera þér fyllilega sæmandi. Þótt semja megi um ákveðinn yfirgangstíma í upphafi þar sem þú ert lausari við, þá geri ég ráð fyrir að í framhaldinu (frá hausti 2014) sé um að ræða fullt starf með viðveru í samræmi við starfshlutfall (sem við erum ráð fyrir að sé 100%).“
Svar stefnanda við þessu bréfi var sent með tölvubréfi dags. 12. maí 2014. Þar sagði meðal annars:
„Ég hef mikinn áhuga á því verkefni sem við ræddum á fundinum í apríl og tel mig geta nýst vel í því starfi. Ég er hins vegar ekki tilbúinn til þess að sætta mig við að taka á mig launalækkun vegna þessa. Bæði innan spítalans og ríkistarfsmanna eru fordæmi fyrir því að laun starfsmanna séu ekki skert við það að breytingar séu gerðar á störfum þeirra, óháð því hvort þau störf eru viðaminni en fyrri störf.
Sá samningur sem gerður var við mig og undirritaður af forstjóra og yfirlögfræðingi spítalans er ekki frábrugðinn ýmsum starfslokasamningum sem hafa verið gerðir. Frávikin lúta fyrst og fremst að því að yfirleitt hafa slíkir samningar verið gerðir við karlmenn í stjórnunarstöðum til lengri tíma, en sá samningur sem spítalinn gerði við mig. Ef litið er svo á að hálfu spítalans að þessi samningur sé ekki í gildi er nauðsynlegt að fá upplýsingar um hvaða samningur spítalinn telur að sé í gildi við mig.
Lögmaður minn hefur alfarið ráðlagt mér frá því að sætta mig við launalækkun og réttilega bent á að ekkert er því til fyrirstöðu að Landspítalinn geri við mig nýjan samning með lægri launum sem síðan yrði sagt upp með 6 mánaða uppsagnarfresti.“
Forstjóri stefnda svaraði stefnanda með tölvubréfi, dags. 21. maí 2014. Þar sagði meðal annars:
,,Vegna spurningar í tölvupósti þínum 12. maí 2014 um afstöðu spítalans til gildandi samnings milli þín og spítalans vísa ég til eftirfarandi sem fram kom í bréfi Landspítala til þín dags. 9. janúar 2014: ,,hafi ekki náðst samkomulag milli Landspítala og þín um annað starf fyrir 1. júní 2014 lítur spítalinn svo á að ráðningarsamningi aðila sé lokið frá og með sama tíma.
Um er að ræða 100% starf sem heyrir beint undir forstjóra LSH og verður vinnuaðstaða til staðar í húsnæði rekstrarsviðs/NLSH í Heilsuverndarstöðinni. Eins og áður hefur komið fram er ég til viðræðu um tiltekinn sveigjanleika hvað varðar viðveru af þinni hálfu fram til 1. september 2014. Frá og með þeim tíma verður hins vegar gerð venjuleg krafa um viðveru og viðveruskráningu af þinni hálfu.
Um launakjör í starfi þessu vísa ég til viðræðna okkar og þess sem ég hef sagt þér í framangreindum tölvupóstum. Ég tel við ákvörðun launa verði að horfa til þess sem almennt gerist í sambærilegum störfum og taka skuli mið af umfangi og ábyrgðarsviði starfsins. Það er ljóst að fjöldi yfirvinnutíma sem starfinu tilheyra getur ekki verið sá sami og framkvæmdastjórar spítalans fá greidda. Ég geri ráð fyrir að dagvinnulaun haldist óbreytt frá því sem verið hefur en fjöldi greiddra yfirvinnutíma verði 50 á mánuði miðað við fullt starf. Mánaðarleg greiðsla til þín vegna fasts símakostnaðar fellur niður.
Með vísan til framanritaðs vænti ég þess að fá svar frá þér sem fyrst og að þú komir til starfa til að sinna þeim verkefnum sem um var rætt og að framan greinir mánudaginn 2. júní 2014.“
Stefnandi svaraði forstjóra stefnda með tölvubréfi 27. maí 2014. Kom þar fram að það væri óbreytt afstaða hennar að samkomulagið frá 31. maí væri í fullu gildi og því skyldi um launakjör hennar í nýju starfi fara samkvæmt ákvæðum samkomulagsins þann tíma sem því var markaður. Samkvæmt skýrum ákvæðum samningsins skyldu laun stefnanda vera óskert á gildistíma samningsins og vinnuskylda vera eftir því sem samkomulag næðist um. Sagðist stefnandi ekki vera tilbúin að falla frá þeim réttindum. Forstjóri stefnda sendi stefnanda aftur tölvubréf 29. maí þar sem hann ítrekaði að ekki yrði gengið lengra varðandi launakjör og viðveru af hálfu spítalans en áður hefði komið fram. Stefnandi ritaði forstjóra stefnda aftur tölvubréf 1. júní 2014 þar sem hún kvaðst tilbúin að takast á við það verkefni sem forstjóri stefnda hefði lagt til en á þeim kjörum sem fyrirliggjandi samningur hefði sagt til um.
Forstjóri stefnda ritaði stefnanda síðan tölvubréf 4. júní 2014 þar sem sagði m.a. eftirfarandi:
,,Eins og áður hefur komið fram í samskiptum okkar hefur spítalinn rift þeim samningsskilmálum gagnvart þér sem fólu í sér ólögmætan starfslokasamning. Í því felst einhliða yfirlýsing spítalans um að hann muni ekki framkvæma þau efnisatriði samningsins sem teljast ólögmæt.
Launakjör eru í samræmi við hið nýja starfssvið og þá ábyrgð sem því fylgir. Ég hvet þig eindregið til að þiggja starfið svo við getum notið starfskrafta þinna áfram. Ef þér hugnast það ekki eða telur nauðsynlegt til að setja einhver skilyrði til að mynda um launakjör þá get ég ekki orðið við slíkum skilyrðum og þar með væri ráðningarsambandi þínu og Landspítala endanlega lokið.“
Stefnanda bárust greiðslur frá stefnda samkvæmt samkomulaginu frá 31. maí 2013 til loka maí 2014 en þá var greiðslum hætt.
III. Málsástæður aðila
Stefnandi telur riftun stefnda á samkomulagi aðila frá 31. maí 2013 vera ólögmæta og höfðar mál þetta til greiðslu efndabóta.
Stefnandi byggir á því að forstjóri stefnda, Björn Zoëga, hafi með hliðsjón af ákvæðum 42. til 46. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo og 9. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, verið bær að lögum til að gera samkomulagið við stefnanda, enda fari forstjóri á þessum grundvelli með heimildir til að stofna til ráðningarsamninga við starfsmenn og slíta þeim. Stefnandi vísar sérstaklega til erindisbréfs sem ráðherra hefur sett forstjóra spítalans samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2007, en af þeim leiði enn fremur að forstjóri stefnda hafi heimildir til að taka ákvarðanir um útfærslu og uppgjör við starflok starfsmanna.
Stefnandi vísar til þess að stefndi sé rekinn af ríkisframlagi, þjónustutekjum og öðrum sértekjum. Stefnandi bendir á að samkvæmt ársreikningi stefnda árið 2013 hafi 4.683 starfsmenn starfað hjá stefnda að meðaltali í hverjum mánuði í 3.666 stöðugildum og ársveltan hafi verið 48.556 milljónir kr. Rekstrarumsvif stefnda hafi verið gríðarleg og ljóst sé að starf forstjóra felist meðal annars í því að ráðstafa fjármunum stofnunarinnar til að mæta kostnaði við rekstur og starfsemi hennar þar á meðal starfsmannhald. Af þeim sökum beri stefnda sönnunarbyrði um að forstjóri stefnda hafi ekki haft fjárheimildir til að gera og efna starfslokasamning við hana.
Stefnandi byggir á því að henni hafi ekki mátt vera kunnugt um að forstjóri stefnda hefði ekki heimild til að gera samninginn. Frumkvæði að gerð og efni samningsins hafi komið frá forstjóra stefnda sem hafi við samningsgerðina notið liðsinnis yfirlögfræðings stefnda.
Í málatilbúnaði stefnanda er enn fremur á því byggt að stefndi hafi gert starfslokasamninga við einstaka stjórnendur spítalans sem feli í sér að verulega sé dregið úr ábyrgð og vinnuframlagi án þess að laun hafi verið skert. Jafnframt hafi stefndi gert samning þar sem farið er á svig við reglur um rétt til launa í veikindaleyfi. Dæmi séu um að yfirlæknar hverfi úr stjórnunarstöðum og nýir aðilar séu ráðnir í þeirra starf án þess að það hafi áhrif á launagreiðslur þeirra fyrrnefndu og jafnvel starfstitil. Þessir samningar eigi það sameiginlegt að vera gerðir við læknismenntaða karla, en núverandi forstjóri stefnda hafi staðfest að óútskýrður kynbundinn launamunur sé á spítalanum. Er byggt á því af hálfu stefnanda að hreinar geðþóttaákvarðanir ráði því hvaða samninga stefndi gerir við einstaka starfsmenn og hvort og þá með hvaða hætti staðið er við þá. Þar ráði meðal annars sjónarmið um læknismenntun og kynferði. Telur stefnandi að ákvörðun um að standa ekki við gerðan samning gagnvart henni brjóti gegn jafnræðisreglu.
Af hálfu stefnanda er einnig vísað til þess að hún hafi verið reiðubúin til þess að koma til starfa hjá spítalanum á nýjan leik og starfa með öðrum verkefnum út samningstímann eða taka við starfi sínu að nýju. Stefnda hefði þannig verið í lófa lagið að nýta starfskrafta hennar að fullu og tryggja með því hag beggja sem best. Stefndi kaus hins vegar að gera það ekki og telur stefnandi að stefndi hafi með því brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
Stefnandi telur að ákvörðunin um að standa ekki við samninginn sé ekki byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Með ákvörðuninni sé stefndi að koma sér hjá því að inna af hendi samningsbundnar greiðslur af fjárveitingum til Landspítalans og láta þær í staðinn greiðast úr ríkissjóði sem dæmdar skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar á samningi.
Stefnandi heldur því jafnframt fram að ljóst sé að forstjóri stefnda hafi skuldbundið stefnda til að greiða henni laun við starfslok hennar í samræmi við efni samningsins. Samningurinn hafi ekki að geyma heimild til uppsagnar á gildistíma samningsins. Tímabundnir samningar séu almennt óuppsegjanlegir nema sérstaklega sé samið um annað. Með vísan til þess að stefndi hafi með ólögmætum hætti rift samningnum eigi stefnandi rétt til efndabóta úr hendi stefnda sem geri stefnanda eins settan fjárhagslega og réttar efndir hans hefðu verið virtar. Nemi bætur launum og öðrum launatengdum greiðslum og réttindum sem stefnandi hefði notið út gildistíma samningsins. Bótakrafa stefnanda sundurliðast þannig:
Mánaðarlaun kr. 707.020
Yfirvinna-föst kr. 810.704
Orlof áunnið kr. 86.963
Símakostnaður kr. 43.240
Desemberuppbót kr. 6.133
Orlofsuppbót kr. 3.292
Mótfrl í lífeyrissjóð kr. 185.623
Mótfrl. í viðbótarlífeyrissp. kr. 32.282
Samtals krafa pr. mánuð kr. 1.875.258
Krafa stefnanda samsvarar samningsbundnum launagreiðslum frá júní 2014 til og með maí 2017, alls 36 mánuði, samtals kr. 67.509.288 (1.875.258 x 36). Tekur krafa þessi mið af óbreyttum kjarasamningum á tímabilinu stefnda til hagsbóta. Bótakrafan gjaldféll við hina ólögmætu uppsögn og ber krafan því dráttarvexti mánuði frá þeim tíma.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda um að stefnda beri að greiða henni efndabætur vegna ólögmætrar riftunar á starfslokasamningi byggist varakrafa stefnanda á þeim grundvelli að stefnda sé skylt að greiða henni 26.532.093 kr. sem er samtala ógreiddra launaseðla hvers mánaðar frá og með júní 2014 til og með 1. október 2014. Er krafan þannig fundin að lögð hafa verið saman mánaðarlaun tímabilsins, fastar yfirvinnugreiðslur, fastur símakostnaður, áunnar orlofsgreiðslur og orlofsuppbót vegna tímabilsins. Eru mánaðarlaun greidd fyrir fram en föst yfirvinna, símakostnaður og orlof greidd eftir á.
Í öðru lagi krefst stefnandi viðurkenningardóms um skyldu stefnda til að virða efni samningsins og greiða stefnanda í hverjum mánuði til og með maí 2017 launagreiðslur starfsmannastjóra stefnda.
Um helstu réttarreglur vísar stefnandi máli sínu til stuðnings til meginreglu kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og reglna um efndabætur. Um vexti vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingar.
Stefndi vísar til þeirrar grundvallarreglu að stjórnsýsla ríkisins sé lögbundin en af henni leiði að ákvarðanir stjórnvalda verði að styðjast til lög. Óumdeilt sé að stefnandi var í 25 ár starfsmaður stefnda og forvera hans og að um stöðu hennar sem ríkisstarfsmanns hafi farið samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Meðal þeirra réttinda sem stefnandi hafi notið samkvæmt þeim lögum voru að óheimilt var að segja henni upp störfum nema samkvæmt ákvæðum IX. kafla laganna. Í því sambandi hafi heimildir stefnda til að segja henni upp takmarkast af lögbundnum réttindum hennar, sbr. 2. mgr. 38. gr. laganna. Þá séu heimildir forstjóra samkvæmt 42.-46. gr. laganna ekki eins rúmar og byggt er á í stefnu. Uppsögn verði ekki afráðin nema lagaskilyrði til hennar séu uppfyllt en í lögum nr. 70/1996 sé hvergi mælt fyrir um heimild stjórnvalds til að binda enda á ráðningu starfsmanns með starfslokasamningi.
Stefndi telur að stefnanda hafi mátt vita í ljósi reynslu sinnar sem starfsmannastjóri stefnda um árabil að engar forsendur væru til uppsagnar hennar og henni hefði því ekki verið nauðugur sá kostur að undirrita starfslokasamning. Þá hafi henni verið fullkunnugt um hverjar væru heimildir forstjóra til að gera samninga af þeim toga sem hún byggir rétt sinn á og hvaða takmörkunum sá réttur væri bundin. Því hafi stefnanda mátt vera ljóst að heimildir forstjóra til að semja við hana takmörkuðust við greiðslur sem hún átti fyrirsjáanlega rétt til. Ákvæði samkomulagsins um greiðslur til hennar eftir að námsleyfi lauk hafi verið beinlínis andstæð fyrirmælum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 39. gr. sömu laga, um laun ríkisstarfsmanna og þar með ólögmæt og óheimilt að efna. Forstjóri Landspítalans hafi verið bundinn af þessum lagafyrirmælum, enda sé forstjórum stofnana ríkisins óheimilt að gera starfslokasamninga við starfsfólk án sérstakrar lagaheimildar.
Stefndi telur ótvírætt og óumdeilt á milli málsaðila að samkomulag aðila frá 31. maí 2013 sé fyrst og fremst starfslokasamningur. Umfjöllun um að stefnandi skyldi vera forstjóra innan handar og til ráðgjafar hafi engar þær skyldur lagt á herðar stefnanda sem leitt gætu til þess að samningurinn hafi falið í sér gagnkvæm atriði, enda hafi vinnuframlagið algerlega verið háð vilja hennar. Samkomulagið fól heldur ekki í sér samning um breytingar á starfsskyldum stefnanda, sbr. t.d. 19. gr. laga nr. 70/1996.
Stefndi vísar jafnframt til þess að engin fjárheimild hafi verið til staðar til að gera samninginn frá 31. maí 2013. Þá hafi engum sértekjum verið til að dreifa hjá stefnda sem sækja mætti fé til greiðslna í og ekki var um að ræða að stefnandi ætti lögvarinn rétt til greiðslna umfram fyrrnefnt námsleyfi. Stefndi telur enn fremur að ákvæði II. kafla samningalaga nr. 7/1936 geti ekki rýmt út lögákveðnum skyldum stjórnenda ríkisstofnana sem kveðið er á um í starfsmannalögum. Heimildir stjórnenda til að gera samninga við starfsmenn geti ekki byggst á stjórnunarheimildum þeirra einum saman. Þær greiðslur sem gert er ráð fyrir í samkomulaginu eftir að námsleyfi stefnanda lauk eigi sér hvorki stoð í kjarasamningum, ráðningarsamningi né ákvæðum laga nr. 70/1996, um laun ríkisstarfsmanna. Slíkar greiðslur hafi því verið ólögmætar og því óheimilt að efna samningsákvæði um þær.
Stefndi mótmælir enn fremur málsástæðum stefnanda um að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu með því að standa ekki við gert samkomulag á þeim forsendum að gerðir hafi verið sambærilegir samningar við læknismenntaða karla. Stefndi telur að þeir samningar sem stefnandi vísi til byggi á annars konar atvikum en mál hennar þar sem í þeim samningum hafi ýmist verið kveðið á um breytingar á starfsskyldum starfsmanna eða uppgjör við starfsmann vegna veikinda. Þannig hafi fimm þessara sex samninga kveðið á um réttindi sem viðkomandi starfsmenn nutu samkvæmt kjarasamningi en einn lotið að mjög breyttu inntaki starfs sem tengdist miklum breytingum á sinni tíð. Í öllum þessara mála hafi launagreiðslur verið háðar vinnuframlagi ef frá er talið það mál sem tengdist uppgjöri vegna veikindaréttar.
Stefndi bendir enn fremur á að jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins veiti stefnanda ekki heimild til neins sem ekki samrýmist lögum. Þá er því eindregið mótmælt að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið því að stefndi stöðvaði greiðslur til stefnanda. Jafnframt telur stefndi að tilvísun stefnanda til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sé óskýr og vandséð hvernig hún geti átt við með þeim hætti sem lýst er í stefnu.
Af hálfu stefnda er því auk þess mótmælt að forstjóri stefnda hafi lofað stefnanda óbreyttum launum í nýju starfi. Áréttað er að stefnandi hafði samkvæmt samkomulaginu sjálfdæmi um hvort hún tæki við öðru starfi sem hún gerði síðan ekki. Starfið sem um ræddi hafi verið vel samboðið stefnanda með hliðsjón af kunnáttu hennar og reynslu. Fráleitt sé að stefnandi hefði einhliða og skilyrðislaust val um hvort hún þæði starfið eða ætti rétt á greiðslum án vinnuframlags. Stefndi vísar í þessu sambandi til 3. gr. samkomulagsins frá 31. maí 2014 um að stefndi skuli á tímabilinu 1. júní til 31. maí 2017 leitast við að finna starf handa stefnda eða öðrum aðila. Jafnframt segi í 4. gr. samkomulagsins að laun stefnanda skyldu „á gildistíma samnings þess eða þar til samkomulag verður um annað vera hin sömu og nú er“. Af ákvæðum 3. og 4. gr. megi því ráða að þegar sú staða kæmi upp að stefnanda yrði boðið annað starf yrði hægt að semja um launakjör upp á nýtt, enda ekki hægt að tryggja stefnanda sömu launakjör í nýju starfi.
Stefndi telur því að í samkomulaginu frá 31. maí 2013 hafi verið gert ráð fyrir að til breytinga gæti komið, bæði hvað varðar verkefnin og launaliðinn. Þá sé óhjákvæmilegt að benda á það að á hvíli stefnanda skylda til að takmarka tjón sitt. Ef svo færi að stefnandi væri talin eiga bótakröfu á hendur stefnda, yrði með vísan til þessarar skyldu að draga frá slíkri kröfu þá fjárhæð sem nemur þeim tekjum sem stefnandi hefði haft ef hún hefði þegið starfið sem henni var sannanlega boðið.
Stefndi vekur athygli á því að af hálfu stefnanda sýnist vera byggt á því að stefndi sé skuldbundinn samkvæmt samkomulagi aðila frá 31. maí 2013 samkvæmt meginreglum samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga, að forstjóri stefnda hafi verið innan heimilda sinna og að hann hafi brotið jafnræðisreglu. Þannig virðist stefnandi eingöngu byggja á reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga en ekki á því að uppsögnin sem slík hafi verið ólögmæt og að reglur laga nr. 70/1996 og stjórnsýsluréttarins hafi verið brotnar.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort stefndi sé bundinn af samkomulagi sem aðilar málsins gerðu með sér 31. maí 2013 og forstjóri Landspítalans undirritaði. Að hálfu stefnda er á því byggt að svo sé ekki þar sem engin heimild hafi verið í fjárlögum eða fjáraukalögum til þess að efna samninginn, auk þess sem engum sértekjum hafi verið til að dreifa hjá stefnda sem sækja mætti fé til greiðslna í.
Ljóst er að forstöðumönnum ríkisstofnana er skylt að gæta þess að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir, sbr. 49. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Er sú regla í samræmi við þá meginreglu 41. gr. stjórnarskrárinnar að ekkert gjald megi greiða nema fyrir hendi sé heimild til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum, og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 88/1997 um að fyrir fram skuli leitað heimilda Alþingis til greiðslna úr ríkissjóði, eftirgjafar krafna og til að gera hvers konar samninga um fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir.
Við afmörkun á því hvaða kröfur verða gerðar til þess að forstöðumenn afli sér fjárheimildar fyrir greiðslum samkvæmt samkomulagi á borð við það sem ágreiningur þessa máls stendur um verður hins vegar að hafa í huga að forstöðumönnum er almennt séð, bæði samkvæmt einstökum ákvæðum í lögum sem og á grundvelli fjárlaga, veitt ákveðið svigrúm um hvernig þeir ráðstafa þeim fjármunum sem veitt hefur verið til stofnana þeirra samkvæmt ákvörðun Alþingis.
Heimildir forstjóra stefnda Landspítalans sem forstöðumanns til að ráðstafa fjármunum til starfsmannahalds sjúkrahússins ráðast af öðru leyti af ákvæðum laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu og ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þannig er í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2007, sbr. 8. tölul. 4. gr. sömu laga kveðið á um að forstjóri Landspítalans beri ábyrgð á því að starfsemi sjúkrahússins sé í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf sem ráðherra setur samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu er það á meginábyrgð forstjóra að fjármunir stofnunarinnar séu nýttir á árangursríkan hátt og þjónusta hennar sé viðunandi.
Ákvæði 4. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2007 svarar að þessu leyti efnislega til ákvæðis 1. málsl. 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í 2. málsl. 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 er þó einnig tekið fram að forstöðumaður beri og ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Að því leyti sem ekki er mælt sérstaklega fyrir um annað í öðrum lögum, sbr. 3. gr. laga nr. 70/1996, verður að leggja ákvæði laga nr. 70/1996 um stjórnunarheimildir og þau sjónarmið sem af þeim verða leidd til grundvallar við úrlausn þessa máls.
Við túlkun þeirra heimilda sem forstjóra Landspítalans eru fengnar sem forstöðumanni ríkisstofnunar samkvæmt lögum nr. 70/1996 verður að líta til þess að þegar lögin voru sett höfðu þau í för með sér talsverðar breytingar á fyrirkomulagi ráðninga hjá ríkinu og þeim heimildum sem forstöðumenn höfðu til að stofna til útgjalda í því skyni. Með tilkomu laga nr. 70/1996 var það að mestu leyti sett í hendur forstöðumanns hverrar stofnunar fyrir sig hvort hann réði starfsmann en slíkar ákvarðanir höfðu áður verið háðar samþykki sérstakrar nefndar sem starfaði samkvæmt lögum nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana. Samkvæmt athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 70/1996 var með þessum breytingum stefnt að því að starfsmannafjöldi hjá stofnunum ríkisins yrði framvegis miðaður við raunverulega starfsmannaþörf á hverjum tíma en ekki við fyrirfram ákveðin stöðugildi. (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3137 og 3144.)
Í samræmi við þessi markmið Alþingis var kveðið sérstaklega á um það í 2. mgr. 5. gr. laganna að forstöðumenn réðu í önnur störf hjá stofnun en starf forstöðumanns og embættismanna, svo lengi sem lög mæltu ekki fyrir um annað. Þar var jafnframt mælt fyrir um að forstöðumenn hefðu rétt til að ráða tilhögun starfs og gefa starfsmanni fyrirmæli um framkvæmd þess, hvort sem það varðaði starf hans almennt eða einstaka grein þess eða greinar, sbr. 2. mgr. 8. gr. sömu laga.
Af framangreindum ákvæðum og þeim sjónarmiðum sem byggt var á við setningu laganna um að auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnana og möguleika þeirra til að taka ákvarðanir er varða stjórnun og starfsmannahald, verður að ganga út frá því að það sé almennt á forræði forstöðumanns hverrar ríkisstofnunar að ákveða hvaða viðfangsefnum einstakir starfsmenn skuli sinna innan hennar, svo framarlega sem önnur lagaákvæði mæla ekki beinlínis fyrir um annað. Þessi tilhögun er í samræmi við þá ábyrgð sem lögð er á herðar forstöðumönnum um að stofnanir sem þeir veita forstöðu starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf, svo og að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnana sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996.
Telja verður að forstöðumenn ríkisstofnana hafi af þessum sökum nokkurt svigrúm á grundvelli stjórnunarheimilda sinna til að ákveða hvaða tilteknu viðfangsefnum á vegum stofnunar einstakir starfsmenn sinni. Þótt þessar stjórnunarheimildir forstöðumanns kunni að takmarkast annars vegar af reglum um réttindi starfsmanna stofnunarinnar og hins vegar af almennum reglum sem gilda um starfsemi hins opinbera, sbr. t.d. 19. gr. laga nr. 70/1996 og reglum XI. kafla laganna, sem stefndi hefur vísað til í málatilbúnaði sínum, er aftur á móti ekki unnt að útiloka að forstöðumaður stofnunar og starfsmaður komist að samkomulagi um hvaða verkefnum starfsmaður sinnir og að starfsmaður hætti störfum að ákveðnum tíma liðnum.
Aðilar þessa máls hafa í málatilbúnaði sínum og flutningi málsins fyrir dómi vísað til þess samkomulags sem gert var 31. maí 2013 sem starfslokasamnings. Ekki er umdeilt að því leyti að samkomulagið fól í sér að stefnandi myndi ekki snúa aftur til starfa sinna sem starfsmannastjóri stefnda og njóta áfram launa starfsmannstjóra, sbr. 1. gr. samkomulagsins. Samkomulagið markaði þannig starflok hennar sem starfsmannastjóra stefnda. Ekki verður þó fram hjá því litið að í 2. gr. samkomulagsins er gagngert kveðið á um að stefnandi skuli vera forstjóra spítalans til ráðgjafar um starfsmannamál á tímabilinu 1. júní 2013 til 31. maí 2017 og sinna öðrum verkefnum sem stefndi kann að óska eftir og samkomulag næst um. Þá er kveðið sérstaklega á um það í 3. gr. samningsins að ef stefnanda býðst ekki sambærilegt starf og samkomulag næst um fyrir 31. maí 2017 skuli ráðningarsambandi hennar við spítalann ljúka þann dag.
Í framburði fyrrverandi forstjóra stefnda fyrir dómi kom fram að af hans hálfu hefði ekki verið litið á umrætt samkomulag sem starfslokasamning, heldur hefði hann gengið út frá því að stefnandi yrði áfram starfsmaður sjúkrahússins en sinnti öðrum verkefnum en hún hefði gert sem starfsmannastjóri stefnda. Kveðst forstjórinn hafa litið svo á að stefnandi kæmi aftur til starfa þegar námsleyfi hennar lyki og tæki þá við nýju starfi. Um störf hennar hjá stefnda gilti þá samkomulagið sem væri í gildi til 31. maí 2017 og hún yrði áfram starfsmaður stefnda fram til þess tíma og héldi fyrri launum.
Í ljósi þessa framburðar fyrrverandi forstjóra stefnda og orðalags samkomulagsins frá 31. maí 2013 að öðru leyti verður að leggja til grundvallar að í samkomulaginu hafi í reynd falist að stefnanda skyldu falin önnur verkefni á vegum stefnda og að ráðningarsambandi hennar við sjúkrahúsið væri ólokið. Með vísan til þess sem að framan er rakið um svigrúm forstöðumanna ríkisstofnana til að fela starfsmönnum önnur verkefni á grundvelli stjórnunarheimilda sinna verður að telja að forstjóri stefnda hafi, eins og atvikum er háttað í þessu máli, haft fulla heimild til að fela stefnanda önnur verkefni innan sjúkrahússins.
Í samræmi við framangreint og þegar litið er til þess að í samkomulagi aðila frá 31. maí 2013 var aðeins mælt fyrir um að stefnandi skyldi áfram halda þeim launagreiðslum sem hún naut þá þegar í ráðningarsambandi sínu við stefnda verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til að stefndi aflaði sérstakrar fjárheimildar í því skyni að efna samkomulagið, enda var með því ekki stofnað til frekari fjárskuldbindinga af hálfu stefnda umfram þær sem þegar voru til staðar í ráðningarsambandi aðila. Af þeim sökum verður að leggja til grundvallar að fyrrverandi forstjóri stefnda hafi í senn haft heimild og verið bær til þess að gera umrætt samkomulag við stefnanda, sbr. 42. til 46. gr. laga nr. 70/1996. Með vísan til þeirrar niðurstöðu hafa sjónarmið um hugsanlega grandsemi stefnanda og sértekjur stefnda, sem tilteknar eru í ársreikningnum stefnda 2013 og 2014, ekki þýðingu fyrir úrlausn um kröfu stefnanda.
Samkomulag það sem aðilar málsins gerðu 31. maí 2013 fól, eins og áður hefur komi fram, í sér að stefnandi skyldi gegna störfum áfram fyrir stefnda og að ráðningarsambandi hennar lyki 31. maí 2017 ef henni byðist ekki annað starf sem samkomulag næðist um á þeim tíma. Með því að samningur þessi, og ráðning stefnanda samkvæmt samningnum, var á þennan hátt gerður tímabundinn var stefnda Landspítalanum ekki heimilt að slíta ráðningarsambandi aðila upp á sitt eindæmi, nema skilyrði til riftunar samningsins væru uppfyllt.
Í þessu máli hefur ekkert komið fram um að skilyrði til riftunar samningsins væru uppfyllt. Þannig verður ekki séð að stefnandi hafi nokkru sinni hafnað því að koma aftur til starfa hjá stefnda og taka þá að sér önnur verkefni hjá Landspítalanum en hún sinnti áður. Einu fyrirvarar hennar að því leyti lutu að því að hún héldi óbreyttum launakjörum sínum úr starfi starfsmannastjóra, í samræmi við það sem kveðið var á um í 1. og 4. gr. samkomulags aðila frá 31. maí 2013.
Í þessu sambandi verður að geta þess að ekki er unnt að fallast á þá málsástæðu stefnda að það leiði af 3. og 4. gr. samkomulagsins að semja yrði um launakjör stefnanda upp á nýtt þegar henni yrði boðið nýtt starf. Slíkt samhengi milli launakjara stefnanda og hugsanlegra síðari breytinga á störfum hennar verður ekki ráðið af orðalagi þessara ákvæða. Enn fremur verður að telja að stefndi verði að bera hallann af óvissu um merkingu ákvæða samkomulagsins að þessu leyti, enda var það forstjóri stefnda sem hafði frumkvæði að samkomulaginu og naut við gerð þess aðstoðar yfirlögfræðings stefnda. Hafa verður í huga að aðstaða stefnanda við gerð samkomulagsins var allt önnur. Hún var þá 59 ára gömul, hafði starfað mest allan hluta starfsævi sinnar hjá stefnda og hafði nokkuð sérhæfða menntun og starfsreynslu.
Þá verður alfarið að hafna þeirri málsástæðu stefnda að stefnanda hafi borið skylda til að takmarka tjón sitt með því að fallast á samningstilboð stefnda um að koma til starfa á lægri kjörum en mælt var fyrir um í 1. og 4. gr. samkomulags aðila frá 31. maí 2013. Morgunljóst er að ef stefnandi hefði gengið að slíku boði hefði hún þar með afsalað sér þeim rétti til óbreyttra launa sem kveðið var á um í samkomulagi aðila og eru grundvöllur kröfu hennar til efndabóta í þessu máli.
Aðalkrafa stefnanda í málinu grundvallast á því að stefnda beri að greiða stefnanda bætur sem svari til samtölu allra þeirra launagreiðslna sem hún átti tilkall til samkvæmt samkomulagi aðila frá 31. maí 2013 eftir að greiðslum til hennar var hætt í maí 2014. Krafa stefnanda vegna vanefnda stefnda á samkomulaginu að þessu leyti byggist hins vegar á reglum um efndabætur sem miða að því að gera samningsaðila eins settan fjárhagslega og ef fullar efndir hefðu farið fram. Í ljósi þess að aðalkrafa stefnanda miðast við eingreiðslu allra launagreiðslna samkvæmt samkomulaginu og þannig hærri bætur en stefnanda hefði borið samkvæmt samkomulaginu verður ekki fallist á þá kröfu, enda hefur stefnandi ekki fært fram nein gögn um að hún hafi sætt frekara tjóni vegna ólögmætra vanefnda stefnda en nemur greiðslum til hennar samkvæmt samkomulaginu.
Með vísan til forsendna dómsins að öðru leyti verður hins vegar fallist á varakröfu stefnanda eins í dómsorði greinir um að stefndi skuli greiða stefnanda þær greiðslur samkvæmt samkomulagi aðila frá 31. maí 2013 sem gjaldfallnar voru þegar málið var dómtekið og að viðurkennt verði að stefnda sé skylt að greiða stefnanda laun mánaðarlega frá 1. nóvember 2014 til 31. maí 2017 á grundvelli samkomulagsins. Rétt er að taka fram að í kröfugerð stefnanda er ekki getið greiðslna sem gjaldfallið hafa samkvæmt samkomulaginu frá 1. nóvember til 1. desember 2013. Í dómi þessum er því ekki tekin afstaða til þeirra, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn, að teknu tilliti til umfangs þess, 1.300.000 kr. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefndi skal greiða stefnanda 26.532.093 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 707.020 kr. frá 1. júní 2014 til 1. júlí sama ár, frá þeim degi af 2.358.239 kr. til 1. ágúst sama ár, frá þeim degi af 4.009.458 kr. til 1. september sama ár, frá þeim degi af 5.660.677 kr. til 1. október sama ár, frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, frá þeim degi af 7.311.896 kr. til 1. desember sama ár, frá þeim degi af 9.036.715 kr. til 1. janúar 2015, frá þeim degi af 10.687.934 kr. til 1. febrúar sama ár, frá þeim degi af 12.339.153 kr. til 1. mars sama ár, frá þeim degi af 13.990.372 kr. til 1. apríl sama ár, frá þeim degi degi af 15.641.591 kr. til 1. maí sama ár, frá þeim degi af 17.372.348 kr.til 1. júní sama ár, frá þeim degi af 19.204.297 kr. til 1. júlí sama ár, frá þeim degi af 21.036.246 kr. til 1. ágúst sama ár, frá þeim degi af 22.868.195 kr. til 1. september sama ár, frá þeim degi af 24.700.144 kr. til 1. október sama ár og frá þeim degi af 26.532.093 kr. til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda laun starfsmannastjóra mánaðarlega frá 1. desember 2014 til 31. maí 2017 samkvæmt starfslokasamningi dagsettum 31. maí 2014.
Stefndi greiði stefnanda 1.300.000 kr. í málskostnað.