Hæstiréttur íslands
Mál nr. 450/2000
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 17. maí 2001. |
|
Nr. 450/2000. |
Vátryggingafélag Íslands hf. (Jakob R. Möller hrl.) gegn Íslensku kvikmyndasamsteypunni ehf. (Friðjón Örn Friðjónsson hrl.) |
Vátryggingarsamningar.
Í tók skammtímatryggingu, svokallaða víðtæka eignatryggingu, hjá V á nokkrum tækjum tengdum kvikmyndagerð og framleigði tækin til fyrirtækisins K, sem sagt var með aðsetur í Hollandi. Tækjunum var aldrei skilað og kom í ljós að K var ekki til og að um svikastarfsemi væri að ræða. Í dómi Hæstaréttar sagði að Í og V hefðu lengi átt með sér viðskipti af því tagi sem hér er fjallað um og verði að miða við það að Í hafi verið kunnir skilmálar víðtækrar eignatryggingar þegar stofnað var til vátryggingarsamnings þess sem málið lýtur að. Samkvæmt skilmálunum var það skilyrði að hinir tryggðu munir væru í umsjá vátryggðs og sérstaklega þyrfti að semja um undantekningar frá þessari reglu. Tilvísun í vátryggingaskírteini þess efnis að hið vátryggða væru ýmis tæki “v/Kroon” og viðræður milli starfsmanna aðila um hugsanleg not erlends fyrirtækis af tækjunum þóttu ekki fela í sér sönnun þess að um þetta hafi verið sérstaklega samið. Var V sýknað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. desember 2000 og krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann verulegrar lækkunar á stefnukröfu og að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir málsatvikum og ágreiningi aðila. Eins og þar kemur fram tók stefndi skammtímatryggingu hjá áfrýjanda á nokkrum tækjum, tengdum kvikmyndagerð, fyrir tímabilið 9. til 12. júlí 1999. Var um að ræða svokallaða víðtæka eignatryggingu. Í skírteini vegna tryggingarinnar sagði um hið vátryggða að það væri „Tökuvél, linsa, upptökutæki ofl. v/KROON“. Tæki þessi framleigði stefndi til fyrirtækis, sem hafði bréfleiðis og símleiðis haft samband við hann, KROON Film Productions, sem sagt var með aðsetur í Hollandi. Voru þau afhent manni, sem ætlað var að væri frá því fyrirtæki, hinn 10. júlí 1999, en leiga vegna tækjanna var þá staðgreidd. Tækjunum var aldrei skilað og kom í ljós að ofangreint fyrirtæki var ekki til og að um svikastarfsemi var að ræða, sem fleiri en stefndi urðu fyrir barðinu á.
Af gögnum málsins sést að aðilar þess hafa lengi átt með sér viðskipti af því tagi, sem hér er um fjallað. Þar kemur fram að stefndi hafði frá árinu 1990, þar til umdeild trygging var tekin, tryggt lausafé hjá áfrýjanda í 32 skipti, þar af var í 28 tilvikum um víðtæka eignatryggingu að ræða. Í munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti var því haldið fram af hálfu stefnda, að hann hefði aldrei fengið senda skilmála vegna slíkrar tryggingar. Þessu hefur ekki verið haldið fram fyrr í málinu og gegn mótmælum áfrýjanda er þessi málsástæða of seint fram komin. Verður við það að miða að stefnda hafi verið kunnir skilmálar víðtækrar eignatryggingar þegar stofnað var til vátryggingasamnings þess, sem mál þetta tekur til.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. skilmála víðtækrar eignatryggingar hjá áfrýjanda var það skilyrði hennar að hinir tryggðu munir væru í umsjá vátryggðs. Í 2. mgr. sömu greinar sagði að semja þyrfti sérstaklega við félagið um undantekningu frá þessari reglu, þ.e. þegar hið vátryggða væri í umsjá annarra en vátryggðs. Eins og áður greinir áttu stefnda, sem er fyrirtæki í atvinnurekstri, að vera fyllilega ljós þessi ákvæði skilmálanna, sem voru ótvíræð. Varð hann að semja skýrlega um það við áfrýjanda ef um það frávik yrði að ræða að tækin yrðu í umsjá annars en hans sjálfs. Tilvísun í vátryggingaskírteini með ofangreindum hætti til KROON og viðræður milli starfsmanna aðila um hugsanleg not erlends fyrirtækis af tækjunum verða ekki talin fela í sér sönnun þess að um þetta hafi verið sérstaklega samið. Ber þegar af þessari ástæðu að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda.
Dæma ber stefnda til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfu stefnda, Íslensku kvikmyndasamsteypunnar ehf.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2000.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi hinn 19. október sl., er höfðað fyrir dómþinginu af Íslensku kvikmyndasamsteypunni ehf., kt. 580690-1069, Hverfisgötu 46, Reykjavík á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu þingfestri 28. september 1999.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda verði gert að greiða stefnanda 13.343.026 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28.09.1999 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda lægri fjárhæð, samkvæmt mati dómsins, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. september 1999 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II.
Stefnanda barst bréf frá Kroon Film Production í Hollandi, hinn 21. júní 1999, þar sem farið var fram á, að stefnandi útvegaði kvikmyndatökubúnað til leigu dagana 9.-12. júlí 1999, vegna kvikmyndatöku starfsmanna fyrirtækisins á Íslandi. Stefnandi útvegaði þennan búnað með því að taka á leigu kvikmyndatökubúnað hjá Hugsjón ehf. og Rauða dreglinum hinn 10. júlí 1999. Tók stefnandi víðtæka eignatryggingu hjá stefnda, þar sem vátryggt var tökuvél, linsa, upptökutæki og fleira vegna Kroon, eins og stendur á vátryggingarskírteininu, sem var útgefið 7. júlí 1999. Nam tryggingafjárhæðin 6.750.000 krónum og var sjálfsáhætta samkvæmt skírteininu 100.000 krónur. Stefnandi heldur því fram að starfsmanni stefnda hafi verið skýrt frá því við töku vátryggingarinnar, að búnaðurinn skyldi leigður Kroon Film Productions. Stefndi hefur ekki kannast við það og telur þær fullyrðingar stefnanda rangar. Kveður stefndi, að við töku vátryggingarinnar hafi ekkert komið fram, sem benti til annars en að búnaðurinn yrði í vörslum og umsjá stefnanda á vátryggingartímanum. Hafi starfsmaður stefnanda sagt, að kvikmyndatökubúnaðinn ætti að nota við töku mynda hér á landi fyrir erlent fyrirtæki að nafni Kroon Film Production í Hollandi, en ekkert hafi komið fram um að ætlunin væri að framleigja því fyrirtæki búnaðinn.
Hinn 10. júlí afhenti starfsmaður stefnanda fulltrúa frá Kroon Film Productions búnaðinn og tók við leigugreiðslum vegna hans. Kvittun fyrir greiðslu leigunnar gilti jafnframt sem móttökukvittun.
Kvikmyndatökubúnaðinum var ekki skilað á tilskildum tíma, eða þann 12. júlí 1999, eins og um hafði verið samið. Leitaði stefnandi til lögreglu og útlendingaeftirlits hinn 14. júlí 1999, til þess að reyna að hafa upp á manninum, en án árangurs. Hinn 15. júlí kærði stefnandi þjófnað kvikmyndatökubúnaðarins til lögreglu. Samkvæmt upplýsingum Interpol hafa tveir útlendingar játað að hafa svikið kvikmyndatökubúnaðinn út úr stefnanda, en ekki er vitað um afdrif tækjanna.
Stefnandi krafði stefnda um greiðslu tryggingafjárhæðarinnar samkvæmt vátryggingarskírteini. Stefndi hefur hafnaði bótaskyldu.
III.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því, að eignatrygging stefnda nái til tjóns stefnanda. Stefnandi hafi verið eigandi að Kroon Film Production búnaði, sem stolið hafi verið frá stefnanda. Stefndi sé bótaskyldur á því tjóni stefnanda á grundvelli eignatryggingar, sem stefnandi hafi keypt hjá stefnda samkvæmt vátryggingarskírteini dagsettu 2. júlí 1999. Vátryggingin taki til muna sem skráðir séu á vátryggingarskírteinið og taki til tímabilsins frá 9. júlí 1999 til 12. júlí 1999. Þar sem hinum vátryggðu munum hafi ekki verið skilað á umsömdum tíma, beri að telja að þeim hafi verið stolið. Stefndi beri ábyrgð á því tjóni gagnvart stefnanda.
Stefnandi byggir á því að vátryggingaskilmálar stefnda takmarki ekki ábyrgð stefnda á áðurgreindu tjóni. Samkvæmt vátryggingarskírteini og vátryggingarskilmálum fyrir „víðtæk eignatrygging á lausafé” taki vátryggingin til muna sem skráðir séu á vátryggingarskírteinið og hafi vátryggingartímabilið verið frá 9. júlí 1999 til 12. júlí 1999. Þar sem hinum vátryggðu munum hafi ekki verið skilað til stefnanda á þeim tíma, sem samið hafi verið samið um, hafi þeim verið stolið á vátryggingartímabilinu.
Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni í kjölfar þjófnaðarins, þar sem Hugsjón ehf. og Rauði Dregillinn ehf., hafi krafið stefnanda um leigu frá því að búnaðinum hafi verið stolið. Stefnandi hafi reynt sitt ýtrasta til að takmarka tjón sitt og reynt að semja við fyrrgreind fyrirtæki um að fella niður eða lækka kröfur sínar, en án árangurs. Þar sem stefndi hafi neitað að gangast við ábyrgð sinni og bæta tjón stefnanda, hafi fjártjón stefnanda vegna krafna um leigugreiðslur aukist dag frá degi. Byggir stefnandi á því að stefndi eigi þátt í því hvernig komið sé fyrir stefnanda og stefnda beri að bæta stefnanda fjártjón hans vegna þessa.
Stefnandi byggir á því að hin víðtæka eignatrygging nái til tjóns stefnanda vegna þjófnaðar þriðja aðila á hinu vátryggða. Samkvæmt vátryggingarskilmálum stefnda, sé ljóst að tilgangur tryggingafélaga sé að bæta vátryggingatökum allt tjón sem þeir verði fyrir á þeim munum sem tryggðir séu hjá viðkomandi tryggingafélagi. Þjófnaður á vátryggðum munum verði ekki túlkaður öðru vísi, en að um beint tjón vátryggingartaka sé að ræða vegna skyndilegra og óvæntra óhappa, sem tryggingin taki til, þar sem orðið „óhapp” sé ekki skilgreint sérstaklega í skilmálunum og ekki tekið þar fram, að þjófnaður verði ekki settur þar undir. Við túlkun vátryggingarskilmálans verði að taka mið af því að um einhliða skilmála sé að ræða, sem samdir hafi verið af einu stærsta tryggingafélagi landsins. Óljós íþyngjandi ákvæði skilmálans beri því að túlka stefnanda í hag.
Samkvæmt vátryggingarskilmálunum beri að endurgreiða vátryggingataka óhjákvæmileg útgjöld vegna vátryggingatjóns, ef tryggingartaki hafi gert allt sem í hans valdi hafi staðið til að draga úr tjóni sínu. Stefnandi hafi reynt allt til að takmarka tjón sitt með því að reyna að ná samkomulagi um leigugreiðslur fyrir hinn stolna búnað. Leigugreiðslur þessar séu útgjöld, sem stefnandi hafi óhjákvæmilega þurft að inna af hendi og beri því stefnda að endurgreiða stefnanda þessi útgjöld.
Í 2. gr. skilmálanna komi fram, að vátryggingin gildi hvar sem er , enda séu munirnir í umsjá vátryggðs, en semja þurfi við vátryggingafélagið um undantekningu þar frá. Stefnandi kveður starfsmenn sína hafa tilkynnt starfsmanni stefnda tilgang tryggingarinnar og að búnaðurinn yrði framleigður Kroon Film Productions á vátryggingartímabilinu. Stefndu hafi því vitað hver myndi hafa umsjá búnaðarins og veitt samþykki sitt fyrir því án þess að skilgreina frekar í hverju umsjónin fælist. Hefði það verið í höndum tryggingafélagsins og höfunda skilmálanna að ganga frá slíkum atriðum hefði stefndi talið nauðsyn bera til.
Stefnandi kveðst ekki hafa sýnt af sér gáleysi við meðferð hins vátryggða. Búnaðurinn hafi verið afhentur fulltrúa Kroon Film Productions í góðri trú gegn leigugreiðslu eins og kvittun, sem gefin hafi verið og staðfesti viðskiptin. Slík framkvæmd sé í samræmi við hefðbundna viðskiptahætti kvikmyndafélaga við leigu á kvikmyndatökubúnaði þegar erlend tökulið komi til landsins í skamman tíma og hafi sams konar leigusamningar áður verið gerðir við erlend kvikmynda- og sjónvarpsfyrirtæki. Stefnandi hafi því ekki sýnt af sér gáleysi við meðferð hins vátryggða búnaðar.
Stefnandi kveður, að um hafi verið að ræða skipulagða glæpastarfsemi og hafi glæpamennirnir viðurkennt fyrir lögreglu að hafa stolið kvikmyndatökubúnaði frá mörgum öðrum evrópskum kvikmyndafélögum. Stefnandi hafi verið fórnarlamb allþjóðlegra glæpamanna.
Í 20. gr. laga nr. 20/1954 sé kveðið á um að bótaábyrgð falli einungis niður ef vátryggingataki hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, sem leitt hafi til vátryggingaratburðar. Skilmálar tryggingafélags, sem kveði á um annað, séu því ógildir. Samkvæmt orðalagi 20. gr. laganna og dómaframkvæmd við túlkun ákvæðisins, hvíli sönnunarbyrði um stórkostlegt gáleysi vátryggingartaka á tryggingafélaginu. Stefnandi hafi ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við meðferð hins vátryggða, sem leitt hafi til vátryggingaratburðar og þar sem aðrar takmarkanir á ábyrgð á tjóni í skilmálum vátryggingarsamnings séu ógildar beri stefnda að bæta tjón stefnanda.
Stefnandi byggir og á því að stefndi hafi ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína gagnvart stefnanda samkvæmt lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi. Stefndi hafi fullvissað stefnanda um, að víðtæk eignatrygging myndi vera fullnægjandi trygging búnaðarins, án þess að gefa upplýsingar um takmarkanir á þeirri ábyrgð sinni eða kynnt fyrir stefnanda vátryggingarskilmálana áður en gengið hafi verið frá skírteininu og greiðslu iðgjaldsins. Þá hafi stefndi ekki upplýst stefnanda um efni þeirrar löggjafar, sem semja hafi átt um að gilti um samning þeirra, eins og stefnda hafi borið að gera samkvæmt 1. mgr. 56. gr. fyrrgreindra laga. Stefndi geti því ekki nú borið fyrir sig takmörkun á bótaábyrgð samkvæmt tryggingaskilmálum.
Varakröfu sína byggir stefnandi á því, að verði hann talinn hafa átt þátt í því að tjónið varð hafi hann ekki valdið því af stórkostlegu gáleysi og falli því bótaréttur hans ekki niður heldur geti tryggingabætur til hans einungis lækkað í samræmi við þátt stefnanda í tjóninu.
Stefnandi hefur sundurliðað fjárhæð tjóns síns með eftirfarandi hætti í stefnu:
„Kröfur Hugsjónar ehf. á hendur stefnanda sundurliðast svo:
Krafa um greiðslu andvirðis kvikmyndatökubúnaðar,
með vsk. kr..329.226
(sbr. dskj. nr. 15)
Krafa um greiðslu á leigu kvikmyndatökubúnaðar frá 10. júlí
Kröfur Rauða dregilsins ehf. á hendur stefnanda sundurliðast svo:
Krafa um greiðslu andvirðis kvikmyndatökubúnaðar, með vsk.
(sbr. dskj. nr. 17) kr.4.033.800
Krafa um greiðslu á leigu kvikmyndatökubúnaðar frá 10. júlí
1999 til 7. september 1999, með vsk. (sbr. dskj. nr. 18) kr.3.299.250
Kröfur alls kr.13.343.026
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. Þá vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins. Einnig byggir stefnandi á lögum nr. 20/1954, um vátryggingasamninga, og laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 2571987, með síðari breytingum.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála
Kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
IV.
Stefndi byggir aðalkröfu sína á því, að stefnandi eigi engan bótarétt úr hinni umstefndu vátryggingu hjá stefnda samkvæmt vátryggingarskírteini.
Stefndi telur stefnanda bundinn við alla skilmála vátryggingarinnar, en honum hafi verið eða átt að vera fullkunnugt um skilmálana, þar sem hann hafi oft áður tekið slíka tryggingu og fengið bætt tjón á grundvelli hennar. Innihald og vátryggingarvernd víðtækrar eignatryggingar hafi og borið á góma í viðræðum starfsmanna aðila við töku trygginganna. Því sé bæði rangt og ósannað að stefndi hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína gagnvart stefnanda samkvæmt VI. kafla laga nr. 60/1964. Einnig sé ljóst að stefnandi sé ekki einstaklingur í skilningi fyrrgreindra laga, heldur fyrirtæki í atvinnurekstri. Stefnanda hafi því sjálfum borið að kynna sér skilmálana, en til þeirra hafi verið vísað í vátryggingarskírteininu og séu þeir því hluti vátryggingasamningsins. Stefnandi hafi haft næg tækifæri og ástæðu til að kynna sér skilmálana áður en tryggingin hafi verið tekin. Stefnandi sé því bundinn við alla skilmála tryggingarinnar.
Tryggingin gildi ekki um muni, sem séu í umsjá annars en vátryggðs nema um það hafi verið samið við félagið, samkvæmt 2. gr. skilmálanna. Ekki hafi verið samið um slíka undanþágu. þá hafi stefndi ekki vitað um, að stefnandi ætlaði að framleigja kvikmyndatökubúnaðinn eða setja hann í umsjá annarra á vátryggingatímanum. Búnaðurinn hafi glatast eftir að hann hafi verið kominn úr umsjá stefnanda og stefnandi afhent hann til annars aðila, sem leigt hafi búnaðinn af stefnanda.
Þá byggir stefndi á því, að atburður, sem leitt hafi til tjónsins falli ekki undir gildissvið vátryggingarinnar. Samkvæmt vátryggingaskilmálum takmarkist vátryggingin við að tjón hljótist af skyndilegu og óvæntu óhappi í flutningi, notkun eða geymslu á hinu vátryggða. Tjónið hafi hins vegar hlotist af fjársvikum.
Stefndi byggir og á því, að tjónið hafi orðið vegna skorts á eðlilegri aðgæslu og stórfelldu gáleysi starfsmanna stefnanda. Ekkert hafi verið gert til að tryggja að kvikmyndabúnaðurinn félli ekki í rangar hendur. Stefnandi hafi ekkert gert til að staðreyna að viðsemjendur hans væru þeir sem þeir sögðust vera og ekki hafi verið krafist kvittunar fyrir móttöku við afhendingu búnaðarins.
Stefndi telur stefnanda ekki eiga lögvarið eða samningsbundið tilkall til vátryggingabóta samkvæmt vátryggingunni, en stefnandi hafi tekið umræddan kvikmyndatökubúnað á leigu hjá eigendum búnaðarins, Hugsjón ehf. og Rauða dreglinum ehf. Hvergi sé tilgreint að vátryggingin skuli vera til hagsbóta stefnanda. Vátryggingin sé fyrst og fremst til hagsbóta fyrir eigendur búnaðarins, sbr. 1.mgr. 54. gr. laga nr. 20/1954 og séu þeir vátryggðir, en ekki stefnandi, sem sé leigutaki.
Stefndi mótmælir og fjárhæð stefnukröfu, sem bersýnilega rangri. Kvikmyndatökubúnaðurinn hafi verið vátryggður fyrir 6.750.000 krónur með 100.000 króna sjálfsáhættu, sem sé hámark bóta úr umstefndri vátryggingu. Þá séu fjárkröfur vegna leigugjalds stefnanda til eigenda búnaðarins óviðkomandi vátryggingunni, þar sem vátryggingin bæti aðeins tjón á vátryggðum munum.
Stefndi mótmælir og dráttarvaxtakröfu frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Þá beri að dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar hver sem úrslit málsins verði vegna bersýnilega haldlausrar kröfugerðar stefnanda að stærstum hluta, sbr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V.
Ágreiningur aðila snýst um greiðslu samkvæmt vátryggingarsamningi. Samkvæmt framlögðu vátryggingarskírteini tók stefnandi vátryggingu hjá stefnda, svokallaða víðtæka eignatryggingu, til að tryggja kvikmyndabúnað. Í skírteininu segir að hið vátryggða sé tökuvél, linsa, upptökutæki o.fl. v/ Kroon og var vátryggingarstaður „hvar sem er á Íslandi”, eins og þar er tilgreint. Viðfestur er listi með sundurliðun þeirra tækja sem tryggð voru samkvæmt skírteininu. Eins og áður er rakið leigði stefnandi tæki þessi til fyrirtækis, sem kallaði sig Kroon Film Productions, en tækjunum var ekki skilað til stefnanda og hafa þau ekki enn komið í leitirnar.
Stefndi hefur neitað bótaskyldu, þar sem tryggingin gildi ekki um muni, sem séu í umsjón annarra eða sem hafa verið framleigð, nema um það hafi verið samið, en svo hafi ekki verið í þessu tilviki.
Fram hefur komið að stefnandi leitaði til starfsmanna stefnda um tryggingu fyrir þessa muni vegna kvikmyndatöku Kroon Film Productions. Fóru samskipti aðila fram í síma. Fram kom fyrir dómi að starfsmanni stefnda var kunnugt um að hið erlenda kvikmyndafyrirtæki hugðist nota tækin við kvikmyndun hér á landi. Hins vegar kvaðst hann hafi talið að við notkun tækjanna yrðu alltaf einhverjir starfsmenn stefnanda, sem fylgdust með. Þegar litið er til fyrrgreindrar tilgreiningar á vátryggingarskírteini og þess sem fram hefur komið fyrir dómi verður að telja að stefnda hafi átt að vera nægilega ljóst að ætlunin hafi verið að framleigja búnaðinn til erlends kvikmyndatökufyrirtækis. Með útgáfu skírteinisins tók því stefndi að sér tryggingu munanna, sem yrðu í umsjá annarra en stefnanda.
Eins og áður greinir var búnaði þessum ekki skilað á réttum tíma og liggur fyrir í málinu að honum var stolið af þeim, sem tóku við honum úr hendi stefnanda. Verður að telja, þar sem áðurgreind trygging tryggir vátryggingartaka fyrir þjófnaði, samkvæmt skilmálum tryggingarinnar, að í því felist að stefnandi sé tryggður fyrir skilasvikum þessum. Starfsmaður stefnanda bar fyrir dómi, að erfitt væri að fylgjast með hvaða kvikmyndafyrirtæki væru skráð og starfandi, enda væri þeim oft ætlaður stuttur líftími. Þó svo að stefnandi hafi ekki aflað sér upplýsinga frá öðrum um viðsemjendur sína er, þegar eðli viðskiptanna eru virt, ekki unnt að líta svo á að starfsmenn stefnanda hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með afhendingu búnaðarins til þess manns, sem kvaðst vera í umboði Kroon Film Productions, enda ekkert það fram komið sem bendir til þess að stefnandi hefði átt að búast við því að ekki væri ætlunin að skila búnaðinum. Lýsing starfsmanns stefnanda í lögregluskýrslu á klæðnaði mannsins, gefur ekki til kynna að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með afhendingu búnaðarins.
Stefnandi varð fyrir tjóni við það að búnaðinum var ekki skilað. Á hann því, sem vátryggingartaki, bæði lögvarið og samningsbundið tilkall til vátryggingabóta samkvæmt vátryggingunni.
Þegar allt framanritað er virt ber stefnda að greiða stefnanda bætur úr hinni víðtæku eignatryggingu, sem tekin var hjá stefnda til tryggingar mununum.
Stefnandi byggir kröfu sína um bætur úr hendi stefnda á vátryggingarsamningi aðila. Stefnandi á því rétt á bótum samkvæmt skírteininu, að hámarki 6.650.000 krónur. Stefnanda bar að standa viðsemjendum sínum, Hugsjón ehf. og Rauða dreglinum ehf., skil á áðurgreindum búnaði. Þó svo að stefnandi hafi ekki greitt þeim andvirði búnaðarins fyrr en í september 1999 og greitt leigugreiðslur fram til þess tíma, geta það ekki talist óhjákvæmileg útgjöld stefnanda og ekki til þess fallin að takmarka tjón hans. Ber því stefnanda ekki réttur til þess kostnaðar úr hendi stefnda. Stefnandi greiddi viðsemjendum sínum rúmar átta milljónir, sem andvirði munanna og er sú fjárhæð hærri en tryggingafjárhæðin. Samkvæmt því ber stefnda að greiða stefnanda hámarksfjárhæð samkvæmt tryggingarskírteininu vegna tjóns hans ásamt dráttarvöxtum eins og krafist er í stefnu, en upphafsdagur vaxta, er tæpum mánuði frá þeim degi, að stefnandi greiddi andvirði kvikmyndatökubúnaðarins.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Íslensku kvikmyndasamsteypunni ehf., 6.650.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 28. september 1999 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt.