Hæstiréttur íslands

Mál nr. 496/2012


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Gripdeild
  • Skjalafals
  • Vanaafbrotamaður


                                              

Fimmtudaginn 12. september 2013.

Nr. 496/2012.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Aðalsteini Árdal Björnssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Þjófnaður. Gripdeild. Skjalafals. Vanaafbrotamaður.

A var sakfelldur fyrir sjö þjófnaðarbrot, tvær gripdeildir og skjalafals. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til þess að með brotunum rauf A reynslulausn sem honum hafði verið veitt. Þá átti hann að baki langan sakaferil sem sýndi svo ekki yrði um villst að hann væri síbrotamaður. Var refsing hans ákveðin 8 mánuðir í fangelsi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.

Lyfja hf. hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að félagið krefjist staðfestingar á einkaréttarkröfu sinni, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Eftir að hinn áfrýjaði dómur gekk var ákærði dæmdur 25. október 2012 til tveggja mánaða fangelsisvistar fyrir brot gegn valdsstjórninni. Þá var hann 19. júní 2013 dæmdur í níu mánaða fangelsi vegna þjófnaða og fíkniefnalagabrots.

Gögn málsins bera með sér að brot ákærða samkvæmt ákærulið I.1 hafi átt sér stað 5. desember 2011 og brot samkvæmt ákærulið I.4 þann 16. febrúar 2012. Þá eru verðmæti þau sem um ræðir í ákærulið II.2 samtals að fjárhæð 77.470 krónur. Þessi ranga tilgreining í ákæru á aukaatriðum brota hefur ekki áhrif á úrlausn málsins, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, greiði áfrýjunarkostnað málsins, 262.887 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2012.

                Mál þetta, sem dómtekið var 15. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 8. maí 2012 á hendur Aðalsteini Árdal Björnssyni, kt. [...]-[...],[...], Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2012, nema annað sé tekið fram:

  1. Fimmtudaginn 8. desember 2011, í verslun Krónunnar við Skógarlind 2 í Kópavogi, stolið matvöru samtals að verðmæti kr. 31.592.
  2. Föstudaginn 17. febrúar, í verslun Krónunnar við Fiskislóð 15, stolið matvöru og þvottaefni, samtals að verðmæti kr. 32.990.
  3. Sunnudaginn 19. febrúar, í verslun Bónuss, Laugavegi 59, stolið matvöru samtals að verðmæti kr. 25.707.
  4. Sunnudaginn 19. febrúar, í verslun 11-11, Laugavegi 116, stolið matvöru samtals að verðmæti kr. 28.548.
  5. Laugardaginn 24. mars, í verslun Bónuss, Fiskislóð 2, stolið matvöru samtals að verðmæti kr. 12.305.
  6. Sunnudaginn 25. mars, í verslun Lyfju, Smáratorgi í Kópavogi, stolið snyrtivöru að verðmæti kr. 14.979.
  7. Mánudaginn 9. apríl, í verslun 10-11, Laugavegi 116, stolið matvöru samtals að verðmæti kr. 17.149.

Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

  1. Mánudaginn 9. apríl, í verslun Ísfoldar við Skólavörðustíg 22, tekið fatnað, samtals að verðmæti kr. 493.860 í fangið og því næst hlaupið með fatnaðinn út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.

                (M. 007-2012-19370)

  1. Mánudaginn 9. apríl, í versluninni The Viking við Hafnarstræti 3, tekið fatnað, samtals að verðmæti kr. 77.380 í fangið og því næst hlaupið með fatnaðinn út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.

                (M. 007-2012-19391)

Teljast brot þessi varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III.

Skjalafals, með því að hafa miðvikudaginn 14. mars, í afgreiðslu Lyfju, Laugavegi 16, framvísað lyfseðli nr. 10933758, sem ákærði vissi að væri falsaður í því skyni að fá afgreidd lyfseðilsskyld lyf.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Vegna ákæruliðar I.-6, gerir A, kt. [...]-[...], f.h. Lyfju hf., kt. 531095-2279, kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 14.979, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 25. mars 2012, og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvexti, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu, skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa.

                Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

                Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

                Ákærði er fæddur í maí 1978. Hann á að baki sakaferil frá árinu 1998. Hefur hann fimmtán sinnum verið dæmdur fyrir brot á almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Hefur ákærði verið dæmdur til langrar fangelsisvistar og jafnan þurft að afplána eftirstöðvar reynslulausnar vegna rofa. Ákærði var síðast dæmdur í 6 mánaða fangelsi með dómi héraðsdóms 9. febrúar 2011. Var honum veitt reynslulausn 28. september 2011 í 1 ár á eftirstöðvum refsingar 164 dögum. Ákærði hefur þegar hafið afplánun á eftirstöðvum þeirrar refsingar. Þó svo brot ákærða samkvæmt ákæru séu ekki stórvægileg sýna þau þó og sakaferill ákærða, svo ekki verður um villst, að ákærði er síbrotamaður. Með hliðsjón af því er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Ekki þykir fært að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.

                Ákærði hefur samþykkt skaðabótakröfu Lyfju og verður hún tekin til greina svo sem í dómsorði greinir. 

                Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns svo sem í dómsorði er mælt fyrir um.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

                                                                              D ó m s o r ð :

                Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, sæti fangelsi í 8 mánuði.

                Ákærði greiði Lyfju hf. 14.979 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. mars 2012 til 20. maí 2012 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 112.950 krónur.