Hæstiréttur íslands
Mál nr. 454/2006
Lykilorð
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 18. janúar 2007. |
|
Nr. 454/2006. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Gunnari Þórbergi Harðarsyni (Ásgeir Þór Árnason hrl.) |
Líkamsárás.
G var sakfelldur fyrir að kasta gangstéttarhellubroti í andlit X með þeim afleiðingum að X hlaut skurð sem náði frá hægri augnkrók niður eftir andliti auk þess sem sex tennur brotnuðu í munni hans. Fallist var á að G hafi ætlað að nota hellubrotið til að verja sig eða ógna, en hann var á flótta undan X sem hljóp á eftir honum á mikilli ferð ásamt nokkrum vinum sínum. Talið var hins vegar að G hafi hlotið að vera ljóst að sú háttsemi hans að sveifla þungu hellubrotinu og henda því um leið og hann sneri sér við, vitandi að X var fast á hæla honum, var stórhættuleg og til þess fallin að líkamstjón hlytist af. Var brot hans heimfært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki var fallist á að verknaður G hefði verið unninn í neyðarvörn. Við ákvörðun refsingar var þó litið til 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga þar sem í því fólst erting af hálfu X að elta G við annan mann þegar hann lagði á flótta. Einnig var litið til 4., 5. og 8. töluliðar 70. gr. almennra hegningarlaga. G var dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða X skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. ágúst 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst sakfellingar samkvæmt ákæru og þyngingar á refsingu. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða X 918.505 krónur í skaðabætur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í ákæru.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu X verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.
Málavöxtum er rétt lýst í héraðsdómi. Eins og þar fram kemur kvaðst ákærði hafa rifið sig lausan frá kæranda X með því að slá hann. Í framhaldi af því hafi hann lagt á flótta en X hlaupið á mikilli ferð á eftir honum ásamt nokkrum vinum sínum. Kvaðst ákærði hafa vitað af mönnunum á eftir sér en ekki gert sér grein fyrir fjarlægðinni á milli hans og þeirra þegar hann tók upp hellubrot, sneri sér við og sveiflaði því. X hafi verið „kominn við það sama og hann fær hana beint í andlitið“. Aðspurður um hvort X hafi hlaupið á helluna sagði ákærði að hann hafi hent hellunni en hún hafi ekki farið langt. Að þessu athuguðu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á með héraðsdómara að verknaðarlýsing í ákæru sé rétt. Ákærði kvaðst hafa ætlað að nota hellubrotið til að verja sig eða ógna. Héraðsdómari mat þá frásögn hans trúverðuga og verður það mat ekki endurskoðað af Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 159. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Ákærða hlaut hins vegar að vera ljóst að sú háttsemi hans að sveifla þungu hellubrotinu og henda því um leið og hann sneri sér við, vitandi að X var fast á hæla honum, var stórhættuleg og til þess fallin að líkamstjón hlytist af. Verður brot hans því heimfært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Ákærði hefur borið því við að verknaður hans hafi verið unninn í neyðarvörn þar sem hann hafi verið á hlaupum undan X, sem sé mun stærri og þyngri en hann, og nokkrum félögum X. Hafi ákærði verið hræddur og mátt vænta þess að þeir réðust á hann. Verði því að telja hvað sem öðru líði að háttsemi hans sé refsilaus samkvæmt 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því ákvæði er það skilyrði neyðarvarnar að ekki hafi verið beitt vörnum, sem séu augsýnilega hættulegri en sú árás sem vofir yfir. Þó ákærði hafi verið hræddur og mátt vænta þess að þeir sem á eftir honum hlupu myndu ráðast á hann, var sú háttsemi hans að kasta hellubrotinu á þann veg sem lýst hefur verið stórhættuleg og verður því ekki fallist á að verknaðurinn hafi verið unninn í neyðarvörn. Af sömu ástæðum kemur 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga heldur ekki til álita í málinu.
Af gögnum málsins verður ekki fullyrt hvort ákærði eða X átti upptökin að ryskingum þeim sem urðu milli þeirra áður en ákærði tók til fótanna. Hins vegar er ljóst af framburði X og þáverandi unnustu hans, M, að hann hafði skömmu áður aðstoðað dyravörðinn við að koma ákærða út af skemmtistaðnum, en í kjölfar þess hafi þeir rifist og lent í ryskingum. X var ekki starfsmaður umrædds skemmtistaðar og ekkert er fram komið um að dyravörðurinn hafi þarfnast aðstoðar hans við að vísa ákærða út úr húsinu. Þá fólst erting í því af hálfu X að elta ákærða við annan mann þegar hann lagði á flótta. Verður því við ákvörðun refsingar ákærða litið til 3. mgr. 218. gr. b. honum til málsbóta.
Ákærði er sakfelldur fyrir hættulega líkamsárás sem hafði alvarlegar afleiðingar. Samkvæmt sakavottorði hans hefur hann ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Hann gaf sig fram við lögreglu á vettvangi og var samvinnuþýður við rannsókn málsins. Verður því litið til 5. og 8. töluliðar 70. gr. almennra hegningarlaga svo og 4. töluliðar sama ákvæðis, en ákærði var tvítugur þegar hann framdi brotið. Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í fimm mánuði, en rétt er með hliðsjón af ungum aldri hans og því að hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað að fresta fullnustu refsingar hans og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð.
Tjónþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem eru hæfilega ákveðnar í héraðsdómi. Ákvæði hans um skaðabætur er staðfest að öðru leyti en því að gegn mótmælum ákærða verður hann ekki dæmdur til að greiða áætlaðan tannlæknakostnað. Verður ákærði því dæmdur til að greiða brotaþola samtals 483.505 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Gunnar Þórbergur Harðarson, sæti fangelsi í fimm mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði X 483.505 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 300.000 krónum frá 11. júní 2005 til 27. ágúst sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af sömu fjárhæð frá þeim degi til 12. maí 2006, en af 483.505 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 410.130 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 19. júní 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 29. maí sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 7. apríl 2006 á hendur Gunnari Þórbergi Harðarsyni, kt. 250185-2519, Arnarheiði 9b, Hveragerði, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 11. júní 2005, fyrir utan veitingahúsið [...] kastað gangstéttarhellubroti í andlit X, með þeim afleiðingum að X hlaut skurð sem náði frá hægri augnkrók niður eftir andliti, í gegnum efri vör inn að slímhúð neðri varar, auk þess sem 6 tennur brotnuðu í munni hans. Þá þjáist X ennþá af verkjum í líkamanum, skertu skammtímaminni, svima og sjóntruflunum, og óvíst er um batahorfur.
Ákæruvaldið telur brot ákærða varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu X er krafist skaðabóta að fjárhæð 918.505 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. júní til 20. júlí 2005 en dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Einar Gautur Steingrímsson hrl., var skipaður réttargæslumaður brotaþola við aðalmeðferð málsins og krafðist hann þóknunar fyrir kröfugerð og málflutning fyrir dóminum. Þá lagði hann fram viðbótarkröfu vegna kostnaðar sem ákærði hafi orðið fyrir vegna líkamsárásarinnar, alls að fjárhæð 43.327 krónur, auk dráttarvaxta frá uppkvaðningu dóms til greiðsludags.
Af hálfu ákærða er krafist sýknu af refsi- og bótakröfu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Þá er þess krafist að málsvarnarlaun verjanda á rannsóknarstigi og fyrir dómi og ferðakostnaður greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik og rannsóknargögn
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að aðfaranótt laugardagsins 11. júní 2005 hafi borist tilkynning um áflog utan við [...] og að einn aðili væri án meðvitundar eftir að hafa verið laminn í andlitið með steinhellu. Kærandi var kominn til meðvitundar er lögreglu bar að á sjúkrabifreið. Ákærði gaf sig strax fram við lögreglu og segir í skýrslunni að hann hafi gengist við því að hafa kastað steinhellu í andlit kæranda. Kvaðst hann hafa verið inni á skemmtistaðnum þegar vinur hans lenti í átökum og hafi hann ætlað að koma honum til hjálpar, en verið hent út af staðnum. Hafi hann þá sagt eitthvað á þá leið að [...] væru fífl og við það hafi kærandi og tveir aðrir tekið til við að berja hann og sparka í hann. Hann hafi náð að sleppa frá þeim en þeir elt hann og hann þá tekið upp steinhellu og kastað í þá. Steinhellan hafi lent í andliti kæranda. Dyraverðir hefðu ekki aðhafst neitt er kærandi og félagar hans gengu í skrokk á honum.
Í skýrslu lögreglu segir að kærandi hafi verið mjög æstur á vettvangi og erfiðlega gengið að róa hann niður til að koma honum inn í sjúkrabifreiðina. Kvaðst hann ekkert muna eftir atburðinum né þeim er olli honum áverkunum. Lögreglumenn yfirgáfu vettvang til að flytja kæranda á sjúkrahús, en óskuðu eftir að aðrir lögreglumenn yrðu sendir á staðinn vegna óróa í fólki sem hafði safnast saman við skemmtistaðinn. Samkvæmt skýrslu lögregluvarðstjóra sem þá kom á vettvang kom ákærði hlaupandi að lögreglubifreiðinni um leið og hún kom inn á bifreiðaplanið við [...] í því skyni að forða sér undan mönnum sem höfðu veist að honum eftir atvikið.
Lögregla ljósmyndaði vettvanginn og var blóðflekkur sem talinn var frá kæranda um einn meter frá dyrum að afgreiðslu [...]. Þá voru þar þrjú brot úr gangstéttarhellu og voru tvö þeirra tekin til rannsóknar.
Í læknisvottorði, undirrituðu af A, dagsettu 2. október 2005, segir að kærandi hafi komið á slysa- og bráðadeild út af andlitsáverka sem hann hafi orðið fyrir eftir líkamsárás. Segir í vottorðinu að hann hafi verið með áverka sem samræmst hafi áverkalýsingu. Kærandi hafi verið með rák skáhallt eftir andlitinu, frá hægri augnkrók niður á neðri vör. Þetta byrji sem marrák upp við augnkrókinn og dýpki síðan og kljúfi efri vörina alveg í gegn og neðri vörina inn að munnslímhúð. Þá hafi hann einnig verið með brotnar tennur. Myndataka hafi staðfest að ekki væri um að ræða brot á andlitsbeinum.
Þá liggur frammi læknisvottorð B, læknis á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, dagsett 25. ágúst 2005. Segir þar að við komu 13. júní 2005 hafi verið tekin röntgenmynd sem sýni ekki brot, en vökva í hægri kinnholunni. Sneiðmynd af andlitsbeinum hafi ekki sýnt brot.
Áverkavottorð dagsett 14. september 2005, ritað af C, tannlækni, liggur frammi í málinu. Segir þar að tannlæknirinn hafi séð kæranda um klukkan sjö að morgni 11. júní og hafi hann þá verið mjög bólginn hægra megin í andliti. Skoðun hafi leitt í ljós að sex tennur hafi verið brotnar.
Samkvæmt læknisvottorði D, dagsettu 11. nóvember 2005, leitaði kærandi til læknis 23. júní og var þá með mikla vöðvabólgu vinstra megin í hálsi og herðum sem leiddi niður í líkamann. Var honum þá vísað til sjúkraþjálfara. Segir í vottorðinu að kærandi hafi hafið störf 11. júlí 2005 hjá [...], en orðið að hætta sökum svima. Hann hafi hafið störf sem sölumaður á bílasölu en fengið strax verki í mjóbakið og hætt eftir nokkrar vikur. Frá því í byrjun nóvember hafi hann unnið við bílaviðgerðir og finni ávallt fyrir verkjum í vinstri helmingi líkamans. Þá finnist honum skammtímaminni hafa versnað. Hann fái oft svima og sjóntruflanir og verk í mjóbaki sem leiði niður í vinstri fót. Loks er tekið fram að óvíst sé um batahorfur.
Samkvæmt læknisvottorði E, læknis á [...], dagsettu 2. ágúst 2005, leitaði ákærði til læknis 11. júní 2005. Í vottorðinu kemur fram að ákærði hafi verið með skrámur á höndum, eymsli í vinstri úlnlið og verk við beygju um vinstri úlnliðinn. Þá hafi hann verið með eymsli í hægri þumli og kúlu á höfði og kvartað undan höfuðverk.
Lögreglan á [...] tók sem fyrr segir tvö hellubrot til rannsóknar vegna málsins. Annað hellubrotið var 3,90 kg að þyngd, en hitt brotið reyndist 7,40 kg að þyngd. Á báðum hellubrotunum voru blettir sem gáfu jákvæða svörun við sértæku staðfestingarprófi fyrir mennskt blóð.
Tekin var skýrsla af ákærða, Gunnari Þórbergi Harðarsyni, hjá lögreglu að morgni 11. júní 2005 og aftur 27. júlí 2005. Ákærði kvað dyravörð hafa vísað sér út af skemmtistaðnum [...]. Fyrir utan húsið hafi maður, kærandi í máli þessu, farið að skipta sér af ákærða eftir orð sem hann hafi látið falla. Kærandi hafi tuskað ákærða til og tekið hann hálstaki og snúið hann niður á bifreiðaplanið. Ákærði hafi slegið frá sér og lagt á flótta. Félagi kæranda hafi staðið rétt hjá, en ekki aðhafst neitt, fyrr en ákærði hafi hlaupið af stað, en þá hafi hann gripið til hans. Ákærði hafi náð að hlaupa suður fyrir húsið og þá hafi fimm menn verið á eftir honum. Ákærði greindi svo frá að hafa verið orðinn skelfingu lostinn og hafa gripið til þess á hlaupunum að taka upp brot af gangstéttarhellu og kasta því aftur fyrir sig. Tilgangurinn hafi verið sá að vekja ótta með þeim sem á eftir honum voru og vinna tíma til þess að komast undan. Kvað hann það alls ekki hafa verið ætlan sína að meiða nokkurn mann, enda hafi hann ekki miðað á neinn og ekki séð hvar brotið myndi lenda. Við síðari skýrslutökuna greindi ákærði svo frá að hafa tekið helluna upp og snúið sér við með hana, og hún hafi lent í andlitinu á kæranda um leið og hann sneri sér við. Hellan hafi dottið niður um leið vegna þess að ákærði hafi verið búinn að sleppa henni.
Kærandi, X, gaf skýrslu hjá lögreglu 29. ágúst 2005. Kærandi kvaðst lítið muna eftir atvikinu, enda hafi hann rotast við höggið. Hann kvaðst þó muna eftir að hafa talað við ákærða, þegar verið var að vísa honum út af staðnum. Kærandi kvaðst hafa verið að aðstoða dyravörðinn með því að tala ákærða til. Kærandi kvaðst ekki muna eftir að hafa tekið ákærða hálstaki, en kvaðst hugsanlega hafa hrist hann til. Kærandi kvaðst ekki muna hver tilgangurinn hafi verið með því að hlaupa á eftir ákærða, hann kvað félaga sína hafa sagt sér að ákærði hefði slegið hann, og sjálfsagt hafi hann verið ósáttur við það og ætlað að tala við ákærða út af því.
F gaf skýrslu hjá lögreglu 2. ágúst 2005. Vitnið kvaðst hafa verið við [...] og séð hvar kærandi hafi verið með ákærða í höndunum og verið að tuska hann til, m.a. hent honum í jörðina. Ákærði hafi slegið til kæranda þannig að hann hafi losnað, en þá hafi vinur kæranda komið að og veist að honum. Ákærði hafi þá hlaupið niður fyrir húsið á undan kæranda og einum eða tveimur strákum öðrum. Ákærði hafi tekið upp steinhellu og sveiflað henni aftur fyrir sig, án þess að miða á þá sem á eftir fóru, en þá hafi kærandi verið kominn alveg að honum og hellan lent í andliti hans.
G gaf skýrslu hjá lögreglu 27. júlí 2005. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða og kæranda vera að rífast, ákærði hafi kýlt kæranda og hlaupið niður fyrir húsið og kærandi og vitnið á eftir, ásamt fleira fólki. Ákærði hafi tekið upp hellu og snúið sér í hálfhring og „dúndrað“ henni í andlitið á kæranda sem hafi komið hlaupandi að honum.
H gaf skýrslu hjá lögreglu 26. júlí 2005. Vitnið kvað kæranda og ákærða hafa rifist. Kærandi hafi haldið í ákærða og verið að tala við hann. Ákærði hafi þá kýlt kæranda í andlitið og komist undan á hlaupum. Ákærði hafi tekið upp gangstéttarhellu á hlaupunum og snúið sér við og lamið kæranda með hellunni beint í andlitið. Vitnið kvað ákærða ekki hafa hent hellunni aftur fyrir sig.
I gaf skýrslu hjá lögreglu 26. júlí 2005. Vitnið kvað ákærða og kæranda hafa verið að rífast. Síðan hafi byrjað ýtingar á milli þeirra og ákærði reynt að kýla kæranda. Ákærði hafi reynt að hlaupa í burtu, en þá hafi vinur kæranda reynt að stöðva hann, en ákærði þá ráðist á hann. Ákærði hafi hlaupið af stað og kærandi og fleiri strákar á eftir honum. Þegar þeir hafi verið komnir fyrir húshornið hafi ákærði tekið upp gangstéttarhellu, snúið sér við og hent henni beint í andlitið á kæranda sem hafi komið hlaupandi á eftir honum. Ákærði hafi sleppt hellunni 20-30 sentimetrum frá andliti kæranda.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Fyrir dómi greindi ákærði, Gunnar Þórbergur Harðarson, svo frá að hann hafi verið með félögum sínum á skemmtistaðnum [...] umrætt sinn. Komið hafi til átaka milli vitnisins J og annars manns og hafi ákærði gengið á milli. Dyravörður hafi komið að og lyft ákærða upp og borið hann út fyrir dyr. Ákærði hafi reynt að útskýra að hann hafi verið að stöðva slagsmál en dyravörðurinn staðið í dyrunum og meinað ákærða inngöngu. Ákærði hafi þá látið falla orðin „helvítis [...]“ og þá hafi kærandi komið aftan að honum þar sem hann stóð í dyragættinni og farið að tuska hann til. Dyravörðurinn hafi ekkert aðhafst. Ákærði kvaðst hafa lent í jörðinni framan við bifreiðastæði sem merkt sé fötluðum og þar hafi hópur [...] staðið yfir honum, en félagar ákærða hafi hvergi verið nálægt.
Ákærði kvaðst hafa komist á fætur og náð að rífa sig frá þeim með herkjum. Ákærði kvaðst hafa veitt kæranda hnefahögg þegar hann var nýstaðinn á fætur í þeim tilgangi að losa sig frá kæranda. Hann hafi reynt að hlaupa í áttina að [...] til að fá einhvern til að stöðva þetta, en þá hafi einn af strákunum hlaupið fyrir hann og hann þá tekið stefnuna suður fyrir staðinn, hann hafi hlaupið niður tröppur sem þar séu og fyrir húshornið. Hópurinn hafi elt hann og kærandi verið rétt á eftir honum.
Ákærði kvaðst hafa séð hellu sem sé notuð til að halda dyrum opnum og tekið hana upp og snúið sér við og þá hafi hún farið beint í andlitið á kæranda sem hafi komið hlaupandi á mikilli ferð. Ákærði kvaðst ekki beinlínis hafa hent hellunni aftur fyrir sig, hann hafi tekið hana upp, sveiflað henni og hent henni, en hún hafi ekki farið langt. Ákærði kvaðst hafa tekið helluna upp í þeim tilgangi að verja sig. Hann kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir hversu langt bil var á milli hans og þess sem var fremstur í hópnum sem elti hann þegar hann tók helluna upp. Ákærði kvaðst hafa vitað af einhverjum á eftir sér og heyrt ópin í þeim rétt fyrir aftan sig. Ákærði kvað þetta allt hafa tekið mjög skamman tíma og gerst í einni samfellu.
Ákærði kvaðst hafa tekið nokkur skref frá vettvangi eftir að kærandi varð fyrir hellunni, en félagar kæranda komið á eftir honum. Dyravörðurinn hafi síðan komið að og skilið ákærða frá félögum kæranda. Dyravörðurinn hafi haldið honum föstum og félagar kæranda komið að og sparkað í ákærða þar sem hann lá. Dyravörðurinn hafi ekki losað takið fyrr en honum hafi verið bent á að það væri ekki þörf á að halda ákærða.
Ákærði kvaðst telja að myndir af hellubrotum sem lögregla tók í sínar vörslur séu ekki af þeirri hellu sem hann notaði. Ákærði kvaðst vera 170 cm á hæð og 63 kg að þyngd.
Ákærði var spurður um framburð sinn hjá lögreglu þess efnis að hann hafi ætlað að nota helluna til að ógna þeim sem eltu hann vegna þess að hann hafi verið einn á móti þeim öllum og að kærandi hafi verið á mikilli ferð og hefði keyrt ákærða niður ef þetta hefði ekki gerst. Ákærði skýrði þetta svo að honum hafi fundist sem hann yrði „keyrður niður“ er hann hafi séð kæranda sem sé um tveir metrar að hæð koma á harðahlaupum að sér. Ákærði kvaðst hafa séð einhvern koma á mikilli ferð um leið og hann sneri sér við með helluna og sá hefði örugglega fellt hann ef hann hefði ekki verið með helluna. Ákærði kvað helluna hafa farið niður með það sama. Ákærði kvað það aldrei hafa verið ætlun sína að nota helluna í að skaða kæranda.
Kærandi X gaf skýrslu fyrir dómi. Kærandi kvaðst hafa verið á leið út af af [...] ásamt unnustu sinni á sama tíma og verið var að koma ákærða út fyrir dyr. Kærandi kvaðst hafa aðstoðað dyravörðinn við það verk og beðið ákærða að haga sér almennilega, en ákærði hafi verið æstur og með einhver leiðindi. Ákærði hafi fari í burtu, en svo verið að kalla eitthvað að kæranda, en kærandi kvaðst þó ekki muna þetta fyrir víst. Kærandi kvaðst hafa farið að ræða við hann. Ákærði hafi farið niður tröppurnar og kærandi á eftir til að reyna að fá á hreint hvers vegna ákærði væri æstur út í hann. Ákærði hafi verið alveg brjálaður og kærandi reynt að fá hann til að segja „hvað málið væri“. Meira kvaðst kærandi ekki muna af atburðarásinni.
Kærandi kvaðst hafa farið að skipta sér af því sem var að gerast því ákærði hafi verið að rífa kjaft. Kærandi kvað dyravörðinn hafa verið einan að henda ákærða út. Kærandi mundi ekki efni orðaskipta sinna við ákærða og mundi ekki til þess að ákærði hafi lent í jörðinni. Þá mundi hann ekki eftir því að hafa ráðist á ákærða né að ákærði hafi slegið hann til að losna. Kærandi kvaðst síðast muna eftir sér hægra megin við ruslatunnurnar, en bifreiðastæði fyrir fatlaða sé vinstra megin við þær. Kærandi kvaðst muna eftir að þar hafi verið rifist og þar hafi ákærði verið ásamt vini sínum og einhver kunningi kæranda komið og sagt þeim að hætta þessu. Næst kvaðst kærandi muna eftir að einhver hafi staðið yfir honum og reynt að ná í hann lífi. Kærandi kvaðst hafa verið mjög ringlaður og fundið fyrir miklum sársauka. Kærandi kvaðst ekki hafa verið mjög drukkinn, en minnisleysið stafi af því að hann hafi fengið heilahristing. Kærandi kvaðst ekki muna ástæðuna fyrir því að hafa elt ákærða, en kvaðst telja að það hafi verið af því að ákærði hafi slegið hann, eftir því sem vinir hans hafi sagt honum. Kærandi kvaðst vera 193 cm að hæð og 96 kg að þyngd.
Kærandi kvaðst ekki hafa verið rúmligjandi á sjúkrahúsi eftir atvikið, en ekki hafa átt gott með að stunda vinnu eftir atvikið, þar sem hann hafi tognað illa á hálsi og niður í bak. Þá kvaðst hann vera allur dofinn í líkamanum, finna fyrir svima og ekki geta unnið á vinnuvélum, eins og hann hafi áður gert. Kærandi kvaðst finna fyrir mikilli þreytu og sjóntruflunum við lestur. Kærandi kvaðst ekki geta stundað vinnu vegna afleiðinganna og kvaðst hann finna fyrir kvíða og andlega líðan vera slæma. Kærandi kvað koma tímabil þar sem líðan hans sé ágæt.
Vitnið G kom fyrir dóm. Vitnið kvaðst vera vinur kæranda. Vitnið kvaðst hafa gengið út úr húsinu og séð ákærða og kæranda vera að rífast. Vitnið kvaðst ekki hafa séð kæranda snerta ákærða og kannaðist ekki við að hafa séð þá í jörðinni. Þeir hafi verið uppistandandi, á bifreiðaplaninu, og fólk í kring. Vitnið kvaðst hafa staðið aðeins til hliðar og séð ákærða slá til kæranda, kýla hann niður og hlaupa í burtu. Kærandi hafi hlaupið á eftir ásamt vitninu og fleirum. Vitnið kvaðst hafa verið aðeins á eftir og staðið í tröppunum, sem liggi niður fyrir húsið, þegar hann hafi séð ákærða beygja sig niður og snúa sér við með höndina á lofti og sveifla henni og slá kæranda beint í andlitið með einhverju sem hann tók upp, þannig að kærandi féll í jörðina. Nánar aðspurður kvað vitnið ákærða hafa sveiflað hellunni frá jörðu og upp í andlit kæranda. Vitnið kvað kæranda hafa litið út fyrir að vera dáinn og farið að huga að honum. Vitnið kvað um það bil 6-8 metra hafa verið á milli hans og kæranda þegar atvikið átti sér stað. Vitnið kvað ákærða ekki hafa hent hellunni frá sér, heldur slegið kæranda í andlitið með helluna í hendinni.
Vitnið H vinur kæranda kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa komið að þar sem nýlega hafi verið búið að henda ákærða út og hann og kærandi verið að rífast í tröppunum. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt orðaskipti, en rámaði í að hafa heyrt orðin „helvítis [...]“. Þetta hafi borist að ruslatunnunum. Um stimpingar hafi verið að ræða á báða bóga, tog í fatnað og þess háttar, en vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða falla í jörðina. Þá kvaðst vitnið ekki hafa séð kæranda með ákærða í tökum. Ákærði hafi síðan slegið kæranda og hlaupið á bak við [...] og vitnið á eftir ásamt kæranda. Þegar þeir hafi verið komnir á bak við húsið hafi ákærði gripið upp hellu við dyrnar að afgreiðslu [...] og slegið kæranda í andlitið. Þegar þetta hafi gerst hafi vitnið verið í tröppunum sem liggi niður á bak við [...] og vegalengdin á milli hans og ákærða og kæranda verið 10 til 15 metrar. Nánar aðspurður kvað vitnið ákærða hafa tekið helluna upp á hlaupunum, snúið sér við og lamið kæranda í andlitið, en hann hafi verið rétt á eftir ákærða. Hellan hafi ekki verið í lausu lofti þegar kærandi lenti á henni.
Vitnið I kunningi kæranda kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa orðið var við ýtingar við ruslageymslu við bílastæðið fyrir utan [...], ekki hafi þó verið um stimpingar að ræða, frekar rifrildi. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða eða kæranda í jörðinni og ekki hafa heyrt orðaskipti á milli þeirra. Kærandi og ákærði hafi hlaupið á bak við [...] og vitnið farið á eftir og séð ákærða lemja kæranda með hellu í andlitið. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða taka helluna upp, en séð hann með hana í hendinni. Vitnið kvað ekki rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu þar sem segir að ákærði hafi snúið sér við og hent hellunni, hið rétta sé að ákærði hafi snúið sér við og lamið kæranda með hellunni, sem hann hafi haldið um það bil í höfuð hæð. Ákærði hafi ekki hent hellunni af einhverju færi, en sleppt henni þegar hún var 10 til 20 sentimetra frá andlitinu á kæranda. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt við kæranda um málið eftir að atvikið átti sér stað. Vitnið kvaðst ekki hafa verið undir miklum áhrifum áfengis.
Vitnið K kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa setið í bifreið sem lagt hafi verið á bifreiðastæði við [...] umrætt sinn. Vitnið kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis. Vitnið kvaðst hafa séð kæranda og H vera að tuskast við ákærða og kærandi haldið í ákærða. Ákærði hafi slegið til kæranda og minnti vitnið að kærandi hafi fallið við. Ákærði hafi þá reynt að hlaupa í burtu en H rifið í hann. Síðan hafi kærandi og H báðir hlaupið á eftir ákærða fyrir húshornið og þar með hafi vitnið misst þá úr sjónmáli. Félagi vitnisins hafi verið kominn út úr bifreiðinni á undan vitninu og farið fyrir húshornið á undan honum.
Vitnið F kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst upphaflega hafa verið inni í bifreið sem var kyrrstæð utan við [...]. Hann kvaðst hafa séð ákærða, kæranda og einn aðila til á grasbletti við göngustíginn. Kærandi hafi haldið í ákærða og verið að tuska hann til. Ákærði hafi fallið í jörðina á meðan á þessu stóð. Ákærði hafi slegið í kæranda til að losa sig og hlaupið niður fyrir húsið. Hinir hafi hlaupið á eftir. Vitnið kvaðst þá hafa verið kominn út úr bifreiðinni og hafa staðið á móts við húshornið. Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar ákærði tók helluna upp, en séð þegar hann henti henni aftur fyrir sig og hún lenti í andlitinu á kæranda. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða líta við áður en hann henti hellunni. Vitnið kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis.
Vitnið L kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa verið að skemmta sér á [...] umrætt sinn, en ekki verið ölvaður. Vitnið kvaðst hafa séð átök fyrir utan [...], framan við aðalinnganginn. Fjórir aðilar hafi verið í þessum átökum og hafi kærandi og ákærði verið að tuskast á. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neinn lenda í jörðinni þar og ekki séð kýlingar á milli manna. Átökin hafi borist niður fyrir húsið eftir að ákærði hafi losnað og hlaupið burt og tveir eða þrír aðrir hafi elt hann á hlaupum. Vitnið kvaðst hafa farið að athuga hvað væri um að vera og séð þá hvar kærandi lá alblóðugur og fjöldi fólks flykktist að. Vitnið kvaðst hafa tekið ákærða og haldið honum undir sér til að fólk kæmist ekki að honum, en félagar kæranda hafi verið mjög æstir. Lögregla og sjúkrabifreið hafi síðan komið að.
Vitnið M kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst vera fyrrverandi unnusta kæranda. Vitnið kvaðst hafa verið með kæranda að skemmta sér, þau hafi verið búin að smakka áfengi og verið farin að finna á sér, en ekki verið ofurölvi. Þau hafi verið á heimleið og gengið fram í anddyri, þar sem verið var að tala við ákærða. Kærandi hafi farið að tala við ákærða og dyravörðinn og aðstoða við að koma ákærða út. Vitnið hafi þá farið inn á skemmtistaðinn til að kveðja vinkonu sína. Þegar hún hafi komið út aftur hafi kærandi og ákærði staðið í tröppunum fyrir utan [...] og enn verið að tala saman, þeir hafi ekki verið að rífast en kærandi verið að segja ákærða að láta ekki svona og vera ekki með vesen. Vitnið kvaðst þá hafa farið inn aftur og er hún kom aftur út hafi ákærði og kærandi verið komnir niður fyrir [...] og H komið og sagt vitninu að fara ekki lengra. Vitnið hafi síðan farið niður tröppurnar og séð kæranda liggja þar. Ákærða hafi verið haldið föstum rétt hjá.
Vitnið J kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa verið farinn af vettvangi þegar atvik það sem ákært er út af átti sér stað og skiptir framburður vitnisins því ekki máli.
Vitnið A, sérfræðingur á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, gaf símaskýrslu fyrir dómi. Vitnið staðfesti læknisvottorð sitt dagsettt 2. október 2005. Vitnið kvað áverkana fyrst og fremst hafa verið mar, hrufl og sár sem legið hafi skáhallt yfir andlitið og náð inn í slímhúð. Þá hafi tennur verið brotnar. Röntgen- og sneiðmyndir af andlitsbeinum hafi leitt í ljós að bein hafi ekki verið brotin. Vitnið kvaðst ekki hafa stundað kæranda eftir að hann leitaði á slysadeild í framhaldi af atvikinu.
Vitnið D heimilislæknir, kom fyrir dóminn. Vitnið staðfesti læknisvottorð sitt sem liggur frammi í málinu. Hún kvaðst hafa vitjað kæranda í heimahús daginn eftir atvikið. Vitnið kvaðst hafa sótt um endurhæfingu á Reykjalundi fyrir kæranda vegna afleiðinga atvikisins. Vitnið kvað verki þá sem kærandi finni fyrir stafa frá stoðkerfinu vegna slinks sem hann hafi fengið við höggið.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Hann kveður það ekki hafa verið ásetning sinn að valda kæranda skaða, heldur hafi hann ætlað að nota hellubrotið til að verja sig eða ógna þeim sem eltu hann. Ákærði kveðst ekki hafa hent hellubrotinu aftur fyrir sig, heldur tekið það upp, sveiflað því og hent því frá sér, en það hafi þó ekki farið langt. Kærandi hafi komið á harðahlaupum og fengið hellubrotið í andlitið.
Framburður vitnisins I er í samræmi við framburð ákærða um það að hann hafi ekki hent hellubrotinu langa leið, heldur snúið sér við eftir að hann tók það upp, sveiflað því og sleppt takinu á því er það var 10 til 20 sentimetra frá andliti kæranda. Vitnin G og H bera aftur á móti að ákærði hafi snúið sér við með hellubrotið í hendinni og enn haldið í það þegar það lenti á kæranda. Vitnið F bar á þann veg að ákærði hafi hent hellubrotinu aftur fyrir sig og minntist þess ekki að hafa séð hann snúa sér við áður en hann henti hellubrotinu. Þó svo að ekki sé fullt samræmi í framburði ákærða og allra vitnanna þykir mega byggja á því að ákærði hafi sleppt takinu á hellubrotinu áður en það lenti í kæranda. Þykir því mega byggja á verknaðarlýsingu í ákæru.
Framburður ákærða um að hann hafi ætlað að nota hellubrotið til að verja sig eða ógna þeim sem eltu hann hefur verið staðfastur og þykir ekki ótrúverðugur í því ljósi að ekkert hefur komið fram annað en að hann hafi verið einn gegn kæranda og félögum hans. Þá verður ekki annað ráðið af framburðum vitna en að ákærði hafi verið á hlaupum undan kæranda og félögum hans.
Af gögnum málsins og framburðum vitna er ekki unnt að greina hversu langt var á milli ákærða og kæranda er ákærði tók hellubrotið upp og sneri sér við með það. Ákærði kveðst hafa vitað af mönnum á eftir sér og heyrt ópin í þeim, en kveðst ekki hafa gert sér grein fyrir hve langt væri í fremsta mann, þá hefur hann viðurkennt að hafa séð kæranda koma hlaupandi að sér á mikilli ferð er hann sneri sér við með hellubrotið. Framburður ákærða um að hann hafi sveiflað hellubrotinu upp, um leið og hann sneri sér við, fær stoð í framburði G og H, sem stóðu í tröppunum rétt við þann stað þar sem kærandi féll niður. Ekki verður af atvikum málsins og framburðum vitnanna ályktað að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að valda kæranda skaða, heldur hafi fyrst og fremst vakað fyrir honum að ógna þeim sem á eftir honum fóru. Verður hann ekki sakfellldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar stofnaði ákærði á mjög ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu kæranda í verulega hættu með því að sveifla hellubrotinu á loft og sleppa því, vitandi af því að honum var veitt eftirför. Hefur hann með þessari atlögu brotið gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot svo kunnugt sé. Ákærði er fæddur 25. janúar 1985 og var tvítugur að aldri þegar brotið var framið og þykir því rétt að líta til 4. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Ákærði gaf sig sjálfur fram við lögreglu á vettvangi og var samvinnuþýður við rannsókn málsins, er því litið til 5. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður, svo sem að framan greinir, ekki séð að honum hafi gengið annað til verksins en að ógna þeim sem eltu hann, verður því einnig litið til 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Á móti kemur að háttsemi ákærða beindist gegn lífi og heilsu kæranda og olli honum talsverðu tjóni og óþægindum. Hefur kærandi enn ekki náð sér að fullu þó svo að heilt ár sé liðið frá atvikinu. Aðferð sú sem ákærði beitti var til þess fallin að valda skaða. Verður því einnig litið til 1., 2. og 3. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar.
Þykir refsing ákærða vera hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, en þar sem ákærði er ungur að aldri og hefur ekki áður sætt refsingu fyrir brot samkvæmt XXIII. kafla almennra hegningarlaga, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Af hálfu kæranda er krafist skaðabóta og er krafan sundurliðuð svo:
Miskabætur .........................................................500.000 krónur,
þegar greiddur tannlæknakostnaður.................183.505 krónur,
fyrirhugaður tannlæknakostnaður.....................235.000 krónur,
samtals ................................................................ 918.505 krónur.
Þá er krafist vaxta svo sem að framan greinir.
Krafa um miskabætur er rökstudd með vísan til læknisvottorða D og A, auk þess sem kærandi er sagður hafa orðið fyrir verulegu áfalli og miska vegna slyssins, og af lögregluskýrslum megi sjá þá örvinglan sem hann hafi komist í. Þá lagði réttargæslumaður kæranda fram áverkavottorð N, augnlæknis, þar sem segir að kærandi hafi komið til skoðunar 8. nóvember 2005 þar sem hann hafi séð flygsur með hægra auga, sem séu áberandi í sól eða björtu ljósi. Skoðunin hafi leitt í ljós að hann sé með glerhlaupslos á hægra auga, sem sé að öllum líkindum afleiðingar af áverkanum sem hann hlaut umrætt sinn.
Árás ákærða olli kæranda líkamlegu tjóni og er til þess fallin að valda andlegum þjáningum, og er ákærði því bótaskyldur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Miskabætur þykja með hliðsjón af áverkum kæranda hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.
Þá verður ákærða gert að greiða tannlæknakostnað þann sem kærandi hefur þegar lagt út fyrir, eða 183.505 krónur, enda er krafan studd gögnum. Krafa um bætur vegna fyrirhugaðs tannlæknakostnaðar er studd við áætlun C, tannlæknis, og verður ákærða gert að greiða þann kostnað, 235.000 krónur. Samkvæmt þessu nemur óbætt tjón kæranda samtals 718.505 krónum.
Með framburði ákærða sjálfs og vitnanna H, F, K og L þykir sannað að ákærði og kærandi hafi stimpast á utan við skemmtistaðinn. Vitni hafa lýst stimpingum þessum svo að ákærði og kærandi hafi tuskast á og togað í föt hvors annars. Þá þykir sannað að ákærði hafi slegið frá sér og hlaupið í burtu, en kærandi og félagar hans elt ákærða. Þrátt fyrir þessi átök, sem kærandi kann að hafa átt að einhverju leyti upptökin að, þykja viðbrögð ákærða ekki hafa verið í samræmi við það sem á undan var gengið í samskiptum hans við kæranda. Eins og mál þetta er vaxið þykir ekki efni til að láta kæranda bera hluta tjóns síns sjálfur. Skal ákærði því greiða kæranda bætur að fjárhæð 718.505 krónum, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. júní 2005 til dómsuppkvaðningardags. Upplýst er að bótakrafa var ekki birt ákærða í heild fyrr en við birtingu ákæru þar sem bótakröfu var getið hinn 12. apríl 2006 og reiknast dráttarvextir frá uppsögu dómsins.
Í skaðabótakröfu kæranda, sem lögð var fram hjá lögreglu við upphaf rannsóknar málsins, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða lögfræðikostnað, 67.735 krónur með virðisaukaskatti. Kröfu þessarar er ekki getið í ákæru. Beiðni um skipun réttargæslumanns kom fram við rannsókn málsins og er það mat dómara að fallast hefði mátt á hana á því stigi. Verður réttargæslumanni því ákvörðuð þóknun í einu lagi fyrir kröfugerð og málflutning um kröfuna fyrir dómi, svo sem nánar greinir hér að aftan.
Svo sem að framan greinir lagði réttargæslumaður kæranda fram viðbótarkröfu vegna útlagðs kostnaðar ákærða í tengslum við líkamsárásina, að fjárhæð 43.327 krónur. Ákærði samþykkti ekki að krafan yrði tekin til meðferðar og er henni því vísað frá dómi.
Með vísan til 165. gr. laga nr. 19/1991 skal ákærði greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Arnar Clausen hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi sem ákvarðast 199.200 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 40.000 krónur í ferðakostnað vegna fimm ferða verjanda í tengslum við málið. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar, hrl., 93.375 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 24.000 krónur í ferðakostnað, en hann mætti þrívegis fyrir dómi og reifaði sjónarmið skjólstæðings síns um framkomna bótakröfu.
Ásta Stefánsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, Gunnar Þórbergur Harðarson, sæti fangelsi í þrjá mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði X 718.505 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. júní 2005 til dómsuppsögu, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001. Bótakröfu er að öðru leyti vísað frá dómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Arnar Clausen, hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi, 199.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 40.000 krónur í ferðakostnað, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar, hrl., 93.375 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 24.000 krónur í ferðakostnað.