Hæstiréttur íslands
Mál nr. 4/1999
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Kjarasamningur
|
|
Fimmtudaginn 27. maí 1999. |
|
Nr. 4/1999. |
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (Þorsteinn Júlíusson hrl.) gegn Francois Luis Fons (Ástráður Haraldsson hrl.) |
Vinnusamningur. Kjarasamningur.
F var ráðinn til H sem matreiðslumaður með ótímabundnum ráðningarsamningi þar sem tiltekin voru föst laun. Í ráðningarsamningnum var jafnframt almenn tilvísun þess efnis, að F skyldi „að öðru leyti” njóta kjara samkvæmt kjarasamningi matreiðslumanna. Ágreiningur reis um hvort F ætti rétt á þeim hlutfallshækkunum launa sem samið var um í kjarasamningum auk þess sem ágreiningur var um hvort F ætti rétt til greiðslu fatapeninga og veikindalauna í orlofi. Stefndi F H til greiðslu þeirrar fjárhæðar sem hann taldi vangoldna. Var talið að F hefði átt samningsbundinn rétt á greiðslum þessum en hluti af kröfu hans til fatapeninga var talinn fallinn niður vegna tómlætis.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. janúar 1999 og krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Dæma ber áfrýjanda til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, greiði stefnda, Francois Luis Fons, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 1998.
1.
Mál þetta var höfðað við þingfestingu þess 21. apríl 1998 og dómtekið 2. þ.m.
Stefnandi er Francois Luis Fons, kt. 020847-7009, Engjaseli 81, Reykjavík.
Stefndi er Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, kt. 480269-6919, Grænumörk 10, Hveragerði.
Stefnandi krefst greiðslu vangreiddra launa að fjárhæð 848.939 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 57.384 kr. frá 1. apríl 1995 til 1. janúar 1996, en af 391.458 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1997, en af 571.698 krónum frá þeim degi til 1. september s.á., en af 848.939 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að auki krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
2.
Stefnandi réð sig til starfa hjá stefnda sem yfirmatreiðslumeistari þann 1. júní 1993. Kveðið var á um starfskjör hans í skriflegum ráðningarsamningi. Þar segir: "Föst mánaðarlaun yfirmatreiðslumeistara verða 220.000 krónur. Hann greiðir ekki leigugjald né hita né rafmagn vegna íbúðar, sem Heilsustofnun lætur honum í té. Einnig fær yfirmatreiðslumeistari frían síma í íbúðina. Að öðru leyti nýtur hann þeirra kjara, sem kveðið er á um í samningum vinnuveitenda og Félags matreiðslumanna." Fram er tekið, að fyrir árslok 1993 verði kannað, hvort unnt verði að haga greiðslum samkvæmt bónusfyrirkomulagi. Samningurinn var ótímabundinn og kvað á um gagnkvæman þriggja mánaða uppsagnarfrest. Samhliða undirritun ráðningarsamningsins undirrituðu aðilar samkomulag um notkun bifreiðar stefnanda til aðdrátta fyrir stefnda og greiðslur fyrir þau afnot. Voru þeir sammála um, að ekki yrði greitt fyrir meira en 1600 km. á mánuði miðað við meðaltal 3ja mánaða. Stefnandi naut einnig greiðslna fyrir fastar yfirvinnustundir, 18,2 klst. á mánuði. Þá er fram komið, að stefndi kostaði nokkrar utanlandsferðir fyrir stefnanda, sem voru a.m.k. öðrum þræði kaupaukar, og var hin síðasta farin sumarið 1997.
Samkvæmt því, sem segir í stefnu, gekk starf stefnanda fyrir stefnda í öndverðu að mestu hnökralaust, en er kom fram á sumar 1994 hafi risið deiluefni með aðilum, sem sé tilefni dómsmáls þessa og jafnframt ástæða þess, að stefnandi sagði upp störfum. Einu ágreiningsefnin til þess tíma hafi verið, að ekkert hafi orðið úr því, að stefndi hrinti í framkvæmd þeirri ráðagerð að taka upp bónuslaunakerfi og eins, að stefndi hafi alla tíð látið undir höfuð leggjast að greiða fatapeninga, sem kveðið sé á um í kjarasamningi.
Þann 19. apríl 1995 var gerður kjarasamningur milli Vinnuveitendasambands Íslands vegna Sambands veitinga- og gistihúsa annars vegar og Félags matreiðslumanna hins vegar. Þar segir í 1. gr., að allir síðast gildandi kjarasamningar aðila framlengist til 31. desember 1996 með þeim breytingum og fyrirvörum, sem í samningnum felist, og falli þá úr gildi án sérstakrar uppsagnar. Í 2. gr. segir, að frá undirskriftardegi samningsins skuli öll laun hækka um 3,5%. Í 3. gr. segir: "Með gildistöku samnings þessa falla úr gildi allir fyrri launataxtar ofangreindra aðila, sbr. 1. gr. samnings þessa. Breytingar á launatöxtum valda ekki hækkun á launum sem eru hærri en tilgreind lágmarkslaun, en þeir sem njóta betri kjara fá hækkun samkvæmt ákvæðum 2. gr. samningsins. . ." Síðan eru raktir launataxtar, eins og þeir urðu að meðtalinni hækkun skv. 2. gr., og námu hæstu laun yfirmatreiðslumanna 85.969 krónum. Samkvæmt 5. gr. samningsins skyldu öll laun hækka um 3% frá 1. janúar 1996.
Stefnandi fékk ekki framangreindar samningsbundnar hækkanir, hvorki 19. apríl 1995 né 1. janúar 1996. Hins vegar voru laun hans hækkuð um 2.700 krónur þ. 19. apríl 1995 og um 710 krónur 1. október s.á. Þann 1. janúar 1996 fékk hann 2.700 króna hækkun.
Þann 1. apríl 1997 var gerður kjarasamningur milli aðila vinnumarkaðarins. Samkvæmt samningnum námu hæstu laun yfirmatreiðslumanna, eftir 7 ára starf í iðninni, 100.000 krónum á mánuði. Sá samningur er enn í gildi.
Stefndi hækkaði laun stefnanda sem nam umsaminni hækkun, 4,7%, en þó ekki frá 1. apríl 1997 heldur 1. maí s.á. Í stefnu segir, að þessi launahækkun hafi verið reiknuð á röngum grundvelli, þar sem fyrri umsamdar launahækkanir hafi ekki verið efndar réttilega. Stefnanda hafi nú verið nóg boðið og hann sagt upp störfum miðað við starfslok 1. september 1997. Að samkomulagi hafi orðið, að stefnandi starfaði til 17. júní, en færi þá í sumarfrí, en hann hafi átt 53 daga inni vegna ótekins vetrarorlofs og orlofs. Stefnandi hafi því næst leitað fulltingis stéttarfélags síns til að fá hlut sinn réttan, en skuld stefnda við hann hafi þá numið 647.234 krónum vegna vangoldinna hækkana og þess, að stefndi hefði látið undir höfuð leggjast að greiða stefnanda fatapeninga, sem hann hafi átt rétt á samkvæmt kjarasamningi.
Í málinu liggur frammi bréf frá MATVÍS (Matvæla- og veitingasambandi Íslands), dags. 29. maí 1997, til lögmanns. Þar er greint frá umkvörtunarefnum stefnanda og lögmaðurinn inntur eftir því, hvernig hann meti stöðuna. Einnig liggur frammi bréf MATVÍS, dags. 25. júlí 1997, til stefnda, þar sem greint er frá kvörtunum stefnanda og hvatt til að deilan yrði leyst. Þar segir, að miðað við þær launahækkanir, sem matreiðslumenn í mötuneytum hafi fengið frá 1. júní 1994, sé mismunur á launum stefnanda 1.062.451 krónur og vangreiddir fatapeningar á starfstíma hans 120.896 krónur.
Í bréfi framkvæmdastjóra stefnda til stefnanda 28. júlí 1997 kveðst hann ekki vera til viðræðu um neinar frekari greiðslur til stefnanda. Þá segir, að stefnanda hafi verið boðið upp á starfslokasamning, sem byggðist á hans eigin tillögum, en hann hafi ekkert látið frá sér heyra um afstöðu til hans.
Í stefnu segir, að stefnandi hafi orðið fyrir slysi í orlofi sínu þ. 8. ágúst 1997, er hafi gert hann óvinnufæran allt til 14. september. Stefnanda beri réttur til greiðslu launa í veikindaforföllum frá 8. ágúst 1997 til 1. september, eða í fimmtán virka daga. Skuld stefnda við stefnanda vegna þessa, sem hann hafi neitað að greiða, sé að fjárhæð 201.705 krónur.
Í greinargerð stefnda segir, að þegar í upphafi hafi verið samkomulag milli aðila um að fara ekki að launatöxtum Félags matreiðslumanna og tengja grunnlaunin ekki kjarasamningum eða kaupskrá félagsins, enda hafi grunnlaun stefnanda verið ákveðin u.þ.b. þreföld byrjunarlaun yfirmatreiðslumanna á þeim tíma og raunar nær því að vera þreföld en tvöföld hæstu taxtalaun samkvæmt kaupskrá Félags matreiðslumanna. Af þessari ástæðu m.a. hafi verið skýrt tekið fram í ráðningarsamningnum, að laun stefnanda skyldu vera ákveðin, föst fjárhæð. Þá er því haldið fram í greinargerðinni, að meginástæða þess, að stefnandi sagði starfi sínu lausu hafi verið erfiðleikar í samskiptum hans við samstarfsfólk sitt eða undirmenn.
Í samantekt launafulltrúa stefnda frá 2. apríl 1998 segir, að umsamin mánaðarlaun, 220.000 krónur, hafi ekki verið fundin út úr kjarasamningi eða taxta Félags matreiðslumanna, heldur sé um að ræða tilbúinn launaflokk, 506-300-8, "samkvæmt Árna Gunnarssyni og Francois Fons. . . Þannig er launataxti þessi til kominn á taxta SFR til að hann fylgi lögboðnum launahækkunum". Að auki hafi stefnandi átt að fá 18,2 fasta yfirvinnutíma og 1.600 km. bifreiðastyrk á mánuði. Samtals hafi mánaðarlegar greiðslur til stefnanda numið 315.741 krónu (mánaðarl. 220.000 kr. + yfirv. 40.040 kr. + bifrst. 50.480 kr. + orlof 5.221 kr.), en vegna launaþróunar frá apríl 1993 til og með ágúst 1997 hafi stefnandi verið kominn í 236.737 króna mánaðarlaun, þegar hann hætti störfum hjá stefnda.
Lögmaður stefnanda sendi lögmanni stefnda bréf 27. október 1997 og 15. janúar 1998. Í hinu síðara er tekið fram, að hafi ekki borist viðbrögð innan 14 daga muni krafa stefnanda heimt með fulltingi dómstóla. Í hvorugu framangreindra bréfa eru settar fram ákveðnar fjárkröfur.
3. Málsástæður stefnanda og lagarök.
Stefnda ber að efna samning aðila réttilega. Þar er skýrt kveðið á um, að efndir ráðningarsamnings aðila skuli fara eftir ákvæðum gildandi kjarasamnings vinnuveitenda og Félags matreiðslumanna, er efnisákvæðum samningsins sleppi. Þar var ekkert kveðið á um launabreytingar, og er því augljóst að fara ber eftir þeim breytingum, sem um var samið í hinum tilgreinda kjarasamningi. Stefndi hefur viðurkennt þetta í verki, þar sem hann hækkaði laun stefnanda oftast á þeim sömu dögum, sem hækkanir samkvæmt kjarasamningum tóku gildi, auk þess sem hann hækkaði laun stefnanda beinlínis um umsamda prósentuhækkun þ. 1. apríl 1997. Leikur því enginn vafi á tengslum kjarasamnings og ráðningarsamnings aðila hvað þetta snertir. Kjör, sem samið er um í kjarasamningum, þ.m.t. umsamdar launahækkanir, fela í sér lágmarkskjör, sem óheimilt er að víkja frá, starfsmanni til tjóns.
Í gagnkvæmu samningssambandi er það ekki á forræði annars aðilans að gera breytingar einhliða gegn andmælum hins. Einu gildir, þó að hin umsömdu kjör hafi verið umfram þann launataxta, sem kjarasamningur vinnuveitenda og Félags matreiðslumanna gerir ráð fyrir sem lágmarkslaunum. Það kemur enda skýrt fram í kjarasamningnum, að beinlínis er gert ráð fyrir því, að um hærri laun kunni að vera að ræða.
Staðhæfingu stefnda, sbr. bréf lögmanns hans frá 26. janúar 1998, um að stefnandi hafi aldrei hreyft athugasemdum vegna launahækkana þann 1. júní 1994 og 19. apríl 1995, fyrr en eftir að hann lét af störfum er mótmælt sem rangri. Þvert á móti gerði stefnandi athugasemdir við stefnda um þetta, er leiddu til þess að starfsmaður stefnda hafði samband við stéttarfélag stefnanda til að fá upplýsingar um orðnar launabreytingar, auk þess að bera mál stefnanda undir félagið. Þessar fyrirspurnir komu ekki til af annarri ástæðu en þeirri, að stefnandi gerði athugasemdir við launagreiðslur til sín.
Um greiðsluskyldu stefnda vísar stefnandi til meginreglna vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga. Þá styður stefnandi kröfu sína við lög nr. 55/1980, lög nr. 19/1979 og lög nr. 80/1938.
4. Málsástæður stefnda og lagarök.
Sýknukrafa stefnda er fyrst og fremst á því reist, að ráðningarsamningur stefnanda hjá stefnda sé tvíþættur. Annars vegar hafi orðið fullt samkomulag um það að greiða stefnanda allt að þrisvar sinnum hærri föst laun en yfirmatreiðslumenn höfðu rétt til samkvæmt kjarasamningi Félags matreiðslumanna, auk þess sem stefnandi hafi fengið til afnota íbúð endurgjaldslaust auk endurgjaldslausra afnota af síma í íbúðinni. Þessi launakjör hafi verið svo langt yfir öllum launatöxtum, að það hafi verið sameiginlegur skilningur stefnanda og stefnda, að um væri að ræða óbreytanlega fjárhæð, nema sérstaklega væri um annað samið, enda næsta ólíklegt, að matreiðslumenn næðu með kjarasamningum betri launkjörum. Um önnur atriði, svo sem lífeyrisréttindi, orlof o.fl., skyldi hins vegar fylgja ákvæðum í samningum vinnuveitenda og Félags matreiðslumanna. Ljóst sé, að ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 verði ekki beitt í því tilviki, sem hér um ræðir, þar sem hæstu taxtalaun yfirmatreiðslumanns, ásamt öllum taxtahækkunum, sem orðið hafi á kjarasamningum Félags matreiðslumanna á ráðningartíma stefnanda hjá stefnda, hafi ekki nálgast upphaflega samningsbundin laun stefnanda.
Þeim þætti kröfu stefnanda, sem lýtur að greiðslu launauppbóta, er einnig sérstaklega mótmælt vegna tómlætis af hálfu stefnanda, sem hafi aldrei haft kröfuna uppi, fyrr en eftir að ráðningarsamningi hans lauk, enda gegn betri vitund um innihald ráðningarsamnings hans við stefnda.
Þeim þætti kröfugerðarinnar, sem er byggður á vangreiðslu fatapeninga, er mótmælt vegna þess, að stefnandi hafi keypt öll vinnuföt á reikning stefnda, og vegna tómlætis stefnanda, sem hafi aldrei haft slíka kröfu uppi á samningstímanum.
Þá er kröfu um laun vegna veikinda stefnanda á orlofstíma mótmælt í greinargerð stefnda, þar sem hún sé ekki studd neinum gögnum.
5. Krafa stefnanda er þannig sundurliðuð:
|
1.Vangoldið vegna ógreiddra fatapeninga frá 01.06.93 til 01.04.95 |
kr. 57.384 |
|
- Krafist er dráttarvaxta frá 01.04.95. |
|
|
2.Vangoldið vegna hækkunar 19. apríl 1995 |
kr. 314.314 |
|
Fatapeningar 01.04.95 - 31.12.95 |
kr. 19.760 |
|
- Krafist er dráttarvaxta frá 01.01.96. |
|
|
3.Vangoldið vegna hækkunar 01.01.96 |
kr. 142.110 |
|
Fatapeningar 01.01.96 - 31.03.97 |
kr. 38.130 |
|
- Krafist er dráttarvaxta frá 01.04.97. |
|
|
4.Vangoldið vegna hækkunar frá 01.04.97 |
kr. 62.231 |
|
Fatapeningar 01.04.97 - 31.08.97 |
kr. 13.305 |
|
- Krafist er dráttarvaxta frá 01.09.97. |
|
|
5.Vangoldið vegna veikinda í orlofstíma |
kr. 201.705 |
|
- Krafist er dráttarvaxta frá 01.09.97 |
|
|
Þannig er dómkrafa stefnanda samtals: |
kr. 848.939 |
Af hálfu stefnda er dómkröfu stefnanda ekki andmælt tölulega.
Árni Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri stefnda, gerði ráðningarsamninginn við stefnanda og annaðist skráningu hans.
Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi, að rætt hefði verið um það við samningsgerðina, að laun sín ættu að hækka til samræmis við laun annarra matreiðslumanna. Árni Stefán Gunnarsson kvað það hafa verið alveg ljóst, að ekki kæmi til greina, að stefnandi fengi greidd laun samkvæmt samningum Félags matreiðslumanna og hefði það aldrei komið til umræðu. Að því leyti, sem skírskotað sé til þeirra í samningnum, hafi einungis verið átt við, að orlofs- og lífeyrisgreiðslur skyldu vera samkvæmt honum.
Ekkert er fram komið í málinu, sem styður það, að með föstum launum í hinum ótímabundna ráðningarsamningi hafi verið átt við óbreytanleg laun, sem er andstætt almennri málvenju. Laun stefnanda voru hækkuð á ráðningartímanum, með þeirri einhliða ákvörðun stefnda að miða við samninga Starfsmannafélags ríkisstofnana. Niðurstaða dómsins að þessu leyti er sú, að viðmiðun þessi hafi ekki verið réttmæt, heldur verður ráðningarsamningur stefnanda skilinn svo, að um öll önnur kjaraatriði en þau, sem sérstaklega eru upp talin í honum, skyldi fara eftir því, sem þegar hefði verið og síðar yrði um samið í samningum vinnuveitenda og Félags matreiðslumanna.
Árni Stefán Gunnarsson kvað stefnanda aldrei hafa fært kjarasamningshækkanir í tal og engar athugasemdir gert út af þeim, en hann hefði rætt um að laun sín væru farin að dragast aftur úr launum starfsbræðra sinna. Kvaðst Árni Stefán hafa hringt á skrifstofu (stéttarfélags stefnanda - innskot dómara) og hafi komið í ljós, að stefnandi var með 50.000 - 100.000 króna hærri laun en aðrir, eða það sem almennt gerðist.
Vitnið Níels Sigurður Olgeirsson er formaður og framkvæmdastjóri Matvæla- og veitingasambands Íslands, en var árið 1994 formaður Félags matreiðslumanna. Hann kvaðst hafa frétt af ágreiningi aðila máls þessa á því ári. Stefnandi hefði komið til sín eftir að samið hafði verið um starfsaldurshækkanir til yfirmatreiðslumanna, sem þýddu um 20.000 króna hækkun á mánuði, en þá hefði ekki verið um að ræða almennar launahækkanir. Kvaðst hann í framhaldi af því hafa haft samband við Unni (launafulltrúa stefnda) og hefði skoðun sín verið, að gera ætti nýjan samning við stefnanda af þessu tilefni. Aðspurður um það, hvort hann hefði frétt af málinu eftir þetta og til vors 1997, kvaðst hann hafa frétt, að þetta hefði ekki gengið eftir, og síðan, þegar hækkanir hafi orðið, hafi málið komið upp aftur. Hann kvaðst alltaf hafa reiknað með því, miðað við þann samning, sem gerður hefði verið, að þetta væri lítið mál og aðeins vantaði, að aðilarnir töluðu meira saman og "kláruðu þetta". Hann hafi talað við fyrrnefnda Unni, og hún einnig haft samband við sig. Henni hafi verið kunnugt um breytingar á töxtum Félags matreiðslumanna. hann hafi sent henni kauptaxta í símbréfi, og stefnda muni hafa verið sendar áfram í pósti breytingar á kauptöxtum og kjarasamningum, þ.e. að stefndi hafi verið settur á "póstskrá". Hann kvað yfirborganir vera almennar í stéttinni, og sé það undantekning, taki einhver laun samkvæmt kjarasamningi eða umsömdum launatöxtum. Taxtarnir séu eingöngu til viðmiðunar. Hann kvað marga starfsbræður stefnanda hafa haft hærri laun en hann. Hann kvaðst hafa talið óeðlilegt, að sjálfvirkar breytingar á samningum matreiðslumanna almennt skyldu ekki gilda hjá hinni stefndu stofnun. Hann kvaðst hafa gert tilraun til að sætta málin og farið austur þeirra erinda, áður en hann sendi bréf þau f.h. MATVÍS, sem getið er í 2. kafla dómsins.
Eftir að stefnandi lét af störfum hjá stefnda gerði hann án undandráttar reka að heimtu kröfu sinnar.
Krafa stefnanda um vangoldin laun vegna hækkana 19. apríl 1995, 1. janúar 1996 og 1. apríl 1997 (sbr. 2., 3. og 4. tl. kröfugerðar) styðst við 1. gr. laga nr. 55/1980, sbr. 7. gr laga nr. 80/1938. Eigi er fallist á, að hún sé niður fallin fyrir tómlæti.
Stefnandi átti samningsbundinn rétt á fatapeningum. Stefndi greiddi fyrir vinnufatnað, sem stefnandi festi kaup á fyrir starfsfólk í eldhúsi. Árni Stefán Gunnarsson bar, að hann hefði talið, að þetta hefði einnig gilt um vinnufatnað stefnanda sjálfs. Stefnandi kvað svo ekki hafa verið, heldur hefði hann eingöngu notað vinnuföt, sem hann átti fyrir. Ekki er fram komið, að stefnandi hafi haft uppi kvartanir eða kröfu að þessu leyti, fyrr en með milligöngu MATVÍS í bréfi 25. júlí 1997. Ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda að þessu leyti fyrir fyrri tímabil en 1. apríl 1997 til 31. ágúst s.á., þ.e. samkvæmt kröfuliðum 1- 3 (samtals 115.274 krónur), vegna tómlætis hans um að halda kröfu sinni fram.
Stefnandi bar fyrir dóminum, að hann hefði slasast á fæti í Frakklandsför í ágúst 1997, þannig að hann hefði ekki getað stigið í annan fótinn. Hann kvaðst hafa látið Unni, launafulltrúa stefnda, vita um þetta og sent henni læknisvottorð. Árni Stefán Gunnarsson staðfesti, að þetta væri rétt. Stefnandi lagði fram tvö læknisvottorð. Í vottorði Guðmundar Elíassonar, heimilislæknis stefnanda, dags. 18.8.1997, segir, að stefnandi hafi verið skoðaður 8.8. og 11.8., og sé hann óvinnufær með öllu vegna slyss frá 8.8. og óvíst hve lengi. Í vottorði Stefáns Dalberg, sérfræðings í orthopediu, dags. 18.8.1997, segir, að stefnandi sé með öllu óvinnufær vegna meiðsla í hné frá 18.8 ´97 til 14.9. ´97, og að hann muni fara í aðgerð á hnénu þ. 4.9.´97.
Að því leyti, sem hér var greint, er niðurstaða dómsins sú, samkvæmt. 3. gr., 6. gr. og 8. gr., sbr. 2. mgr. 7. gr., laga nr. 30/1987, að fallist er á kröfu stefnanda, sbr. 5. tl. kröfugerðarinnar.
Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú, að dæma beri stefnda til að greiða stefnanda 733.665 (848.939 ÷ 115.274) krónur með vöxtum, eins og greinir í dómsorði, og málskostnaði, sem ákveðinn er 200.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, greiði stefnanda, Francois Luis Fons, 733.665 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 314.314 krónum frá 1. janúar 1996 til 1. apríl 1997, en af 456.424 krónum frá þeim degi til 1. september s.á., en af 733.665 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.