Hæstiréttur íslands
Mál nr. 491/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Stefna
- Málshöfðunarfrestur
- Samlagsaðild
- Litis pendens áhrif
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
Fimmtudaginn 26. september 2013.
|
Nr. 491/2013.
|
LBI hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) Halldóri Jóni Kristjánssyni (enginn) Kjartani Gunnarssyni (Karl Axelsson hrl.) Andra Sveinssyni (Reimar Pétursson hrl.) Þorgeiri Baldurssyni (Gunnar Sturluson hrl.) Svöfu Grönfeldt (Ragnar Halldór Hall hrl.) Jóni Þorsteini Oddleifssyni (Einar Þór Sverrisson hrl.) Brit Insurance Ltd. Liberty Mutual Insurance Europe Ltd. QBE International Insurance Ltd. Allianz Global Corporate & Specialty AG QBE Corporate Ltd. Alterra Corporate Capital 2 Ltd. Alterra Corporate Capital 3 Ltd. Kelvin Underwriting Ltd. Nameco (No 11) Ltd. Nameco (No 231) Ltd. Novae Corporate Underwriting Ltd. SCOR Underwriting Ltd. Sorbietrees Underwriting Ltd. Brian John Tutin Bridget Anne Carey-Morgan Carol Jean Harris David John De Marle Coulthard Eileen Elsie Hunter Gary Frederick Sullivan Ian Richard Posgate Joseph Elmaleh John Leon Gilbart Julian Michael West Richard Michael Hodgson Read og Norman Thomas Rea (enginn) |
Kærumál. Vanreifun. Stefna. Málshöfðunarfrestur. Samlagsaðild. Litis pendens áhrif. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður þar sem vísað var frá dómi máli L hf. á hendur annars vegar tveimur fyrrum bankastjórum, fjórum fyrrum bankaráðsmönnum og fyrrverandi forstöðumanni fjárstýringar bankans L hf. og hins vegar vátryggingarfélögum vegna ábyrgðartryggingar þeirra. Var málatilbúnaður L hf. reistur á því að áðurgreindir stjórnendur bankans hefðu bakað sér bótaskyldu með því að gefa fyrirmæli um eða samþykkja, með berum orðum eða þegjandi samþykki, greiðslur sem inntar hefðu verið af hendi af L hf. dagana 6. og 7. október 2008. Bar L hf. því við að þessi háttsemi ætti að leiða til skyldu allra áðurgreindra aðila ýmist til greiðslu skaðabóta eða vátryggingabóta. Fyrir Hæstarétti höfðu þrír þeirra, K, A og Þ, uppi frávísunarkröfur á grundvelli fjölþættra röksemda. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að við þingfestingu málsins hafði L hf. lagt fram skjöl um þær greiðslur sem um ræddi í málinu auk fjölmargra skjala sem væri ætlað að sanna að þær hafi bakað honum það tjón sem hann krefðist bóta fyrir í málinu. Talið var að ekki væri unnt að gera þá kröfu til L hf. að hann brygðist þegar í stefnu við hugsanlega vörnum stefndu, enda væri því ekkert til fyrirstöðu eftir lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála að L hf. gerði það með öflun frekari sönnunargagna undir rekstri málsins, þ. á m. með því að neyta úrræða IX. kafla laganna um öflun matsgerða sérfróðra manna. Þá var hvorki talið að efni væru til að vísa málinu frá héraðsdómi á þeirri forsendu að ætluð bótaskylda væri ekki enn til orðin, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, né heldur að 4. mgr. 94. gr. sömu laga stæði málshöfðun í vegi. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir Sigurjón Þorvaldur Árnason, Kjartan Gunnarsson, Andri Sveinsson, Þorgeir Baldursson, Svafa Grönfeldt og Jón Þorsteinn Oddleifsson krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Mál þetta var höfðað af sóknaraðila í ársbyrjun 2012, annars vegar gegn tveimur fyrrum bankastjórum, fjórum fyrrum bankaráðsmönnum og fyrrverandi forstöðumanni fjárstýringar sóknaraðila og hins vegar „vátryggingarfélögum sem gáfu út ábyrgðartryggingar fyrir stjórnarmenn og stjórnendur“ hans eins og sagði í héraðsdómsstefnu. Þar var gerð krafa um að fyrrgreindir stjórnendur sóknaraðila greiddu honum „skaðabætur vegna gáleysis sem leiddi til þess að greiddir voru verulegir fjármunir út úr Landsbanka Íslands þann 6. október 2008 þegar fyrir lá að bankinn var ógjaldfær.“ Því var haldið fram að þessar greiðslur hafi í fyrsta lagi verið inntar af hendi til verðbréfasjóða Landsvaka hf., 16.879.746.580 krónur, 11.718.856 Bandaríkjadalir og 11.292.410 evrur vegna kaupa á nánar tilgreindum kröfum, í öðru lagi til Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., 7.200.000.000 krónur, og í þriðja lagi til MP Banka hf., 7.359.755.111 krónur. Þá hafi síðastnefnda bankanum verið greiddar 158.955.015 krónur 7. október 2008 vegna leiðréttingar á fyrri greiðslunni til hans.
Í hinum kærða úrskurði er gerð nánari grein fyrir efni héraðsdómsstefnu og málatilbúnaði sóknaraðila. Í stefnunni var á því byggt af hálfu hans að fyrrgreindir stjórnendur hafi bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart honum „með athöfnum og/eða athafnaleysi sem leiddi til þess að áðurgreindir fjármunir voru greiddir út úr bankanum. Að minnsta kosti frá 29. september 2008 vissu bankaráðsmenn, bankastjórar og forstöðumaður fjárstýringar eða máttu vita að bankinn var í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum. Þá vissu þeir eða máttu þeir vita að, minnsta kosti frá því að breska fjármálaeftirlitið og Evrópski seðlabankinn settu fram kröfur þann 3. október 2008, bankinn gat ekki staðið við skuldbindingar sínar og var því ógjaldfær. Við þessar aðstæður bar þeim skylda til að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að tryggja að gætt yrði hagsmuna lánardrottna bankans. Bankaráðsmönnum og bankastjórunum var við þessar aðstæður skylt að gefa fyrirmæli sem mundu tryggja að eignir bankans yrðu til reiðu fyrir lánardrottna við skipti á búi bankans. Nánar tiltekið bar þeim að gefa fyrirmæli um að óheimilt væri að ráðstafa fjármunum bankans til að greiða stórar kröfur, hvort sem þær voru skuldbindandi fyrir bankann eða ekki og banna að fjármunum bankans yrði ráðstafað til að kaupa skuldabréfakröfur úr sjóðum dótturfélags á yfirverði. Þá er einnig byggt á því að bankaráðsmönnum og bankastjórunum hafi verið óheimilt að gefa fyrirmæli um eða samþykkja að umrædd viðskipti ættu sér stað, hvort sem það hafi verið með beinum orðum eða þegjandi samþykki. Forstöðumanni fjárstýringar bankans var að sama skapi óheimilt að gefa fyrirmæli um greiðslu umræddra fjármuna til MP banka og Straums þegar fyrir lá að bankinn var ógjaldfær“.
Sóknaraðili krafðist þess í stefnu að varnaraðilarnir Sigurjón Þorvaldur, Halldór Jón, Kjartan, Andri, Þorgeir og Svafa yrðu dæmd til að greiða sér óskipt 14.116.395.373 krónur, 10.546.970 Bandaríkjadali og 10.840.714 evrur auk nánar tilgreindra vaxta. Þá krafðist sóknaraðili þess að auki að varnaraðilinn Jón Þorsteinn greiddi sér óskipt með fyrrnefndum varnaraðilum 11.146.310.126 krónur auk nánar greindra vaxta.
Í stefnu kvað sóknaraðili sig hafa „orðið fyrir tjóni vegna þeirra fjármuna sem greiddir voru út úr bankanum samkvæmt framansögðu enda hefur einungis hluti þeirra fengist endurheimtur.“ Færði sóknaraðili síðan rök fyrir því fjárhagstjóni sem hann teldi sig hafa beðið vegna greiðslna til hvers hinna þriggja fjármálafyrirtækja sem áður getur. Tjón vegna greiðslunnar til Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. taldi sóknaraðili nema 4.377.600.000 krónum. Kvaðst hann hafa selt kröfu sína á hendur þessum banka á markaði gegn staðgreiðslu og væri söluandvirði kröfunnar dregið frá fjárhæðinni sem innt hafi verið af hendi til bankans. Sóknaraðili hélt því fram að tjón vegna greiðslunnar til MP Banka hf. væri 6.768.710.126 krónur og væri tjónið þannig fundið út að frá upphæðinni, sem greidd hafi verið, væru dregnar 750.000.000 krónur sem sóknaraðili kvaðst hafa fengið greiddar frá þessum banka. Loks sagði sóknaraðili að tjón sitt vegna kaupa á skuldabréfakröfum af Landsvaka hf. 6. október 2008 næmi samtals 14.116.395.373 krónum, 10.546.970 Bandaríkjadölum og 10.840.714 evrum. Frá þeim fjárhæðum, sem inntar hafi verið af hendi til þessa fjármálafyrirtækis, væri dregið áætlað heildarverðmæti krafnanna, ýmist samkvæmt sölu á sumum þeirra á markaði, ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins þegar aðrar þeirra voru færðar yfir til NBI hf., nú LBI hf., eða vegna þess hve áætlað væri að muni fást upp í enn aðrar þeirra við skipti á þrotabúum hlutaðeigandi skuldara.
Sóknaraðili krafðist þess ennfremur í stefnu að aðrir varnaraðilar en fyrrgreindir stjórnendur yrðu dæmdir til að greiða óskipt með þeim nánar tilgreindar fjárhæðir í sterlingspundum auk vaxta. Hélt sóknaraðili því fram að umræddir varnaraðilar, sem allir eru vátryggjendur, væru ábyrgir fyrir því tjóni sem stjórnendurnir hafi valdið sér samkvæmt framansögðu á grundvelli ábyrgðartrygginga sem varnaraðilarnir hafi tekist á hendur. Væru kröfur á hendur þeim byggðar „á því að ábyrgð þeirra sé hlutfallslega skipt (pro rata) þeirra á milli en óskipt (in solidum) með stefndu stjórnendum að þeirri fjárhæð sem hlutur þeirra í tryggingafjárhæðinni er.“ Í stefnunni voru síðan sundurliðaðar kröfur á hendur hverjum þessara varnaraðila um sig, miðað við áður gefnar forsendur. Þá sagði þar jafnframt: „Þó bótakrafa á hendur ... stjórnendum sé sett fram í íslenskum krónum, USD og EUR eru kröfur á hendur vátryggjendum sett fram í GPB þar sem vátryggingafjárhæðir eru tilgreindar í þeirri mynt og koma því til greiðslu í þeirri mynt. Greiðsla af hálfu ... vátryggjenda á grundvelli tryggingar mun koma fram sem innborgun á kröfur stefnanda á hendur öðrum stefndu miðað við gengi GBP er greiðsla er framkvæmd.“
Í stefnu var tekið fram að við þingfestingu málsins yrðu lögð fram nánar greind skjöl, auk þess sem sóknaraðili áskildi sér rétt til að leggja fram önnur gögn á síðari stigum, þar með taldar matsgerðir „m.a. um fjárhæð tjóns“, gæfi málatilbúnaður varnaraðila tilefni til. Þá voru talin upp nöfn fimmtán aðila og vitna, sem sóknaraðili áskildi sér rétt til að krefjast að gæfu skýrslu við aðalmeðferð málsins, fyrir utan að fleiri aðilar og vitni kynnu að þurfa að koma fyrir dóm til skýrslugjafar. Í samræmi við það, sem að framan greinir, lagði sóknaraðili síðan fram við þingfestingu 126 skjöl, auk stefnu og skrár yfir hin framlögðu skjöl. Varnaraðilar lögðu fram ítarlegar greinargerðir og skjöl af sinni hálfu í héraði, þar sem þeir færðu meðal annars margvísleg rök fyrir kröfum sínum um sýknu.
II
Varnaraðilarnir Kjartan Gunnarsson, Andri Sveinsson og Þorgeir Baldursson krefjast þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi og hafa þeir fært fjölþætt rök fyrir þeirri kröfu. Í fyrsta lagi telja þeir að kröfugerð sóknaraðila sé vanreifuð þar sem orðalag hennar sé óskýrt, innbyrðis samhengi kröfuliða óljóst og að kröfurnar séu settar fram í fleiri en einum gjaldmiðli án þess að tiltekið sé við hvaða gengi eigi að miða fjárhæðir í hinum erlendu gjaldmiðlum. Þá sé óljóst hvort tilteknir kröfuliðir séu innifaldir í öðrum eða hvort þeir komi þeim til viðbótar. Þessir annmarkar á kröfugerð sóknaraðila hafi leitt til þess að aðilar málsins leggi ólíkan skilning í hana. Taka varnaraðilarnir þrír til að mynda undir þann skilning sem héraðsdómur leggur í kröfugerðina í hinum kærða úrskurði, en vísa á bug því inntaki sem þeir varnaraðilar, sem eru vátryggjendur, hafa lagt í hana. Auk þess telja varnaraðilarnir kröfugerðina svo óákveðna að það myndi leiða til verulegrar óvissu um stöðu einstakra varnaraðila yrði hún tekin til greina, enda séu skaðabótakröfur sóknaraðila ýmist gerðar óskipt á hendur varnaraðilum eða á grundvelli skiptrar ábyrgðar, allt í mismunandi fjárhæðum og gjaldmiðlum. Halda varnaraðilarnir því fram að þessi framsetning eigi sér ekki stoð í reglum skaðabótaréttar þar sem ekki sé unnt að gera í senn kröfur um óskipta og skipta ábyrgð, heldur verði að velja annan kostinn. Þá færa þeir rök fyrir því að ómögulegt myndi reynast að reikna út skuldastöðu einstakra dómþola í tilefni af innborgunum að fengnum dómi á grundvelli kröfugerðar sóknaraðila. Varnaraðilarnir þrír byggja í öðru lagi á því að aðild málsins sé vanreifuð þar sem sóknaraðili hafi ekki rökstutt að skilyrði samaðildar samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 eða samlagsaðildar eftir 1. mgr. 19. gr. sömu laga séu uppfyllt í málinu, en fyrir liggi að varnaraðilar hafi haft mismunandi tengsl við sóknaraðila og ólíkum hlutverkum að gegna gagnvart honum. Varnaraðilarnir Kjartan og Þorgeir vísa í þriðja lagi til þess að málatilbúnaður sóknaraðila sé svo vanreifaður að hann standi í vegi fyrir því að varnaraðilar fái haldið uppi vörnum í málinu, auk þess sem verulega skorti á að röksemdir sóknaraðila og málatilbúnaður hans að öðru leyti fái stoð í gögnum sem lögð hafi verið fram af hans hálfu. Varnaraðilinn Þorgeir vekur sérstaka athygli á því að örðugt sé að festa hendur á hvaða röksemdir eigi við um einstaka varnaraðila, þar á meðal sé engin grein gerð fyrir því hver aðkoma sín hafi verið að ætluðum tjónsatvikum 6. október 2008, en hann hafi verið staddur erlendis dagana 5. og 6. þess mánaðar. Þá sé ekki vikið að því hvort grundvöllur ætlaðrar bótaskyldu sinnar og annarra bankaráðsmanna sé athafnaleysi þeirra eða það að skort hafi á samþykki bankaráðsins. Að því er þessa málsástæðu varðar lætur varnaraðilinn Andri nægja að vísa til forsendna hins kærða úrskurðar. Í fjórða lagi halda varnaraðilarnir þrír því fram að ætlað fjárhagslegt tjón sóknaraðila sé vanreifað af hans hálfu og að ekki hafi verið tekið tillit til ýmissa nánar greindra þátta, sem kunni að hafa áhrif á það, þar á meðal hafi sóknaraðili höfðað mál til riftunar á tilteknum greiðslum, sem hann reisi skaðabótakröfu sína á, svo og mál á hendur endurskoðendum sínum til heimtu skaðabóta vegna sömu atvika og hér um ræðir. Samkvæmt því beri að vísa málinu frá dómi, meðal annars samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991. Í fimmta lagi reisa varnaraðilarnir frávísunarkröfu sína á því að málshöfðunarfrestur samkvæmt 136. gr. þágildandi laga um hlutafélög, nr. 2/1995, hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað.
Með hinum kærða úrskurði var máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum sem fyrr greinir vísað frá dómi. Var sóknaraðili ekki talinn hafi gert reka að því að staðreyna tjón sitt með þeim úrræðum sem honum væru tæk að lögum, svo sem með öflun mats dómkvaddra manna eftir ákvæðum laga nr. 91/1991. Svo sem nánar er rakið í úrskurðinum var tjón sóknaraðila talið vanreifað og sömuleiðis grundvöllur fyrir fjárhæð kröfugerðar hans. Var málinu vísað frá dómi með skírskotun til þess að annmarkarnir lytu að málinu í heild og væru svo verulegir að ekki yrði úr þeim bætt á síðari stigum málsins.
III
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði er héraðsdómsstefna 46 blaðsíður á lengd. Þótt um sé að ræða viðamikið mál hefur sóknaraðili ekki gætt þess að greina þar svo glöggt sem verða má dómkröfur sínar, málsástæður og lagarök á gagnorðan hátt, svo sem áskilið er í d., e. og f. liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar er fallist á með héraðsdómi að þessir annmarkar á framsetningu málatilbúnaðar sóknaraðila geti ekki, einir og sér, leitt til frávísunar málsins.
Eitt af því sem ástæða hefði verið til að gera grein fyrir í stefnu er við hvaða lagaheimild það styðjist að varnaraðilum skuli vera stefnt saman í einu dómsmáli. Hér fyrir dómi heldur sóknaraðili því fram að skaðabótaábyrgð varnaraðila sé sprottin af athöfnum og athafnaleysi bankastjóranna tveggja og bankaráðsmannanna fjögurra 6. október 2008 og eftir atvikum dagana þar á undan og eigi kröfurnar gegn þeim því rætur að rekja til sömu atvika og aðstöðu. Þó kunni að leika vafi á því hvort skilyrði standi til aðildar varnaraðilans Jóns Þorsteins Oddleifssonar eins og atvikum málsins sé háttað. Með vísan til þessa rökstuðnings sóknaraðila verður talið að skilyrði samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 hafi verið fyrir hendi til að sækja aðra varnaraðila en Jón Þorstein í sama máli, sbr. og 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Þar sem þessi varnaraðili hefur ekki krafist frávísunar málsins kemur ekki til skoðunar hvort skilyrði hafi verið til að höfða það gegn honum ásamt öðrum varnaraðilum, sbr. lokamálslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.
Þrír varnaraðila hafa sem fyrr segir krafist þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi á þeirri forsendu að það hafi ekki verið höfðað innan þess frests sem mælt hafi verið fyrir um í b. lið 1. mgr. 136. gr. laga nr. 2/1995. Í ljósi þess að hér var í reynd kveðið á um sérstakan fyrningarfrest í þágildandi lögum um hlutafélög verður að líta svo á að álitaefni um hvort þessi frestur hafi verið liðinn við höfðun málsins sé atriði, sem taka verði afstöðu til við efnisúrlausn þess, en geti ekki varðað frávísun, sbr. dóm Hæstaréttar 7. desember 2011 í máli nr. 614/2011. Samkvæmt því er ekki fallist á þessa röksemd fyrir frávísunarkröfu varnaraðilanna þriggja.
Eins og áður greinir var í stefnu gerð grein fyrir málsatvikum, málsástæðum og lagarökum sem sóknaraðili telur að leiða eigi til skyldu varnaraðila til greiðslu skaðabóta og vátryggingarbóta. Lagði sóknaraðili fram við þingfestingu málsins fjölda skjala í því skyni að færa sönnur á að hann hafi átt í svo miklum fjárhagserfiðleikum þegar 3. október 2008 að bankaráðsmenn, bankastjórar og forstöðumaður fjárstýringar hans hafi vitað eða mátt vita að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar og væri því ógjaldfær. Er á því byggt af hálfu sóknaraðila að fyrrgreindir stjórnendur hans hafi bakað sér bótaskyldu með því að gefa fyrirmæli um eða samþykkja, með berum orðum eða þegjandi samþykki, tilteknar greiðslur sem inntar hafi verið af hendi af sóknaraðila 6. og 7. október sama ár. Kröfur hans á hendur varnaraðilum eru reistar á því að þessar greiðslur hafi valdið honum tjóni eins og nánar voru færð rök fyrir í stefnu. Við þingfestingu lagði sóknaraðili fram skjöl um þessar greiðslur, auk fjölmargra skjala sem ætlað er að sanna að þær hafi bakað honum það tjón sem hann krefst bóta fyrir úr hendi varnaraðila. Ekki er unnt að gera þá kröfu til sóknaraðila að hann hafi þegar í stefnu brugðist við hugsanlegum vörnum af hálfu varnaraðila, enda er ekkert því til fyrirstöðu eftir lögum nr. 91/1991 að sóknaraðili geri það með öflun frekari sönnunargagna undir rekstri málsins, þar á meðal með því að fara samkvæmt IX. kafla laganna fram á mat sérfróðs manns eða manna á atriðum sem dómari leggur ekki sjálfur mat á. Með vísan til alls þessa verður talið að sóknaraðili hafi reifað nægilega í stefnu kröfur sínar um bætur úr hendi varnaraðila til þess að leyst verði efnislega úr málinu.
Sóknaraðili heldur því sem fyrr segir fram að fyrrgreindir stjórnendur bankans hafi valdið sér fjárhagstjóni með ólögmætri og saknæmri háttsemi sinni í byrjun október 2008, enda þótt fram komi í kæru hans til Hæstaréttar að ekki sé enn að fullu ljóst hvert umfang þess hafi verið. Að teknu tilliti til þessa eru ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi á þeirri forsendu að ætluð bótaskylda varnaraðila sé ekki enn til orðin, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Þá standa ákvæði 4. mgr. 94. gr. þeirra laga ekki í vegi fyrir málshöfðun sóknaraðila á hendur varnaraðilum þótt hann hafi áður höfðað dómsmál gegn öðrum aðilum og haft þar uppi aðrar kröfur en gerðar eru í þessu máli.
Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Rétt er að málskostnaður í héraði vegna þessa þáttar málsins og kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2013.
Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 17., 18. og 23. janúar 2012 var tekið til úrskurðar um frávísun 13. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi. Stefnandi er LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þ. Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík, Halldór J. Kristjánsson, sagður óstaðsettur í hús í Kanada, Kjartan Gunnarsson, Starhaga 4, Reykjavík, Andri Sveinsson, sagður óstaðsettur í hús í Englandi, Þorgeir Baldursson, Stórahjalla 5, Kópavogi, Svafa Grönfeldt, sögð óstaðsett í hús í Bandaríkjunum og Jón Þorsteinn Oddleifsson, Krossakri 6, Garðabæ. Þá er stefnt Brit Insurance Ltd., 55 Bishopsgate, London, Stóra-Bretlandi og 24 öðrum nafngreindum vátryggjendum með lögheimili í Bretlandi og Þýskalandi.
Í þessum þætti málsins gera stefndu Andri, Kjartan og Þorgeir þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi og þeim úrskurðaður málskostnaður.
Stefnandi krefst þess að kröfu um frávísun verði hafnað og stefndu Andri, Kjartan og Þorgeir verði úrskurðaðir til greiðslu málskostnaðar.
Af hálfu annarra stefndu liggur enn fremur fyrir krafa um málskostnað og var sú krafa áréttuð af stefnda Brit Insurance Ltd. o.fl. við munnlegan flutning málsins.
Yfirlit yfir efnishlið málsins
Í máli þessu gerir stefnandi, sem áður bar heitið Landsbanki Íslands hf. og sætir nú slitum samkvæmt reglum XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, kröfu um skaðabætur gegn tveimur fyrrverandi bankastjórum bankans, þ.e. stefndu Kristjáni og Sigurjóni, og fjórum af fimm bankaráðsmönnum, þ.e. stefndu Andra, Kjartani, Svöfu og Þorgeiri, vegna tiltekinna ráðstafana bankans degi fyrir fall hans eða 6. október 2008. Einn bankaráðsmaður, Björgólfur Guðmundsson, er ekki sóttur til greiðslu bóta í málinu með vísan til þess að hann sé ógjaldfær og málsókn því tilgangslaus. Einnig er stefnt forstöðumanni fjárstýringar bankans, stefnda Jóni Þorsteini, vegna einnar ráðstöfunar sem málið varðar og nánar greinir síðar. Þá er Brit Insurance Ltd. og 24 öðrum nafngreindum vátryggjendum stefnt á grundvelli vátryggingasamnings um ábyrgðartryggingar fyrir stjórnarmenn og stjórnendur bankans.
Kröfur stefnanda byggjast á því að hinir stefndu stjórnendur beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna ráðstafana sem gerðar voru á vegum bankans 6. október 2008 þegar fyrir lá að bankinn var ógjaldfær, en þetta hafi verið síðasti starfsdagur bankans áður en Fjármálaeftirlitið tók hann yfir og skipaði honum skilanefnd. Þær ráðstafanir sem hér er um að ræða skiptast í þrjá hluta sem hér segir:
1. Kaup á kröfum af Landsvaka hf. fyrir samtals 19.980.925.818 krónur: Í stefnu segir að þrátt fyrir lokun fyrir viðskipti í sjóðum Landsvaka hf., þá dótturfélagi stefnanda, hafi átt sér stað umtalsverð viðskipti milli bankans og verðbréfsjóða í umsjón Landsvaka hf. umræddan dag þar sem bankinn hafi keypt skuldabréfakröfur á yfirverði og orðið fyrir tjóni af þeim sökum. Ráðstafanirnar eru taldar upp í 14 liðum í stefnu og eru taldar hafa numið 16.879.746.580 krónum, 11.718.856 bandaríkjadölum og 11.292.410 evrum. Því er lýst í stefnu hvernig ráðstöfun umræddra krafna var háttað. Var í sumum tilvikum um að ræða sölu stefnanda á kröfum til þriðja aðila en í öðrum tilvikum voru kröfur færðar yfir til nýja Landsbankans hf. í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Miðar stefnandi tjón sitt við mismun söluandvirðis, eða þess verðs sem ákvörðun Fjármálaeftirlitsins byggðist á, og kaupverðs bréfanna 6. október 2008. Í enn öðrum tilvikum miðar stefnandi tjón sitt við áætlaðar endurheimtur krafna sem lýst hefur verið í þrotabú annarra fyrirtækja á grundvelli hinna keyptu bréfa. Samkvæmt þessu er heildartjón stefnanda vegna kaupa á skuldabréfum af Landsvaka hf. talið nema 14.116.395.373 krónum, 10.546.970 sterlingspundum og 10.840.714 evrum.
2. Útborgun reikningslánalínu til Straums fjárfestingarbanka hf. (Straums) að fjárhæð 7,2 milljarðar króna: Í stefnu er greint frá því að stefnandi hafi veitt Straumi svokallaða reikningslánalínu með samningi 30. janúar 2007 að fjárhæð 7,2 milljarðar króna. Ekki hafi verið óskað eftir láni samkvæmt samningnum fyrr en með tölvupósti kl. 15:57 hinn 6. október 2008 eða skömmu fyrir ávarp forsætisráðherra um yfirvofandi hrun bankakerfisins. Samkvæmt ákvæði 4.1 í lánasamningnum hafi ádráttarbeiðni þurft að berast fyrir kl. 13:30 til þess að útgreiðsla gæti átt sér stað sama dag. Þrátt fyrir þetta og þær aðstæður sem hafi verið uppi hafi téð fjárhæð verið greidd frá bankanum til Straums kl. 18:38 þennan sama dag samkvæmt fyrirmælum stefnda Jóns Þorsteins. Í stefnu er greint frá því að þetta hafi verið gert þótt greiðslukerfi fyrir stórar greiðslur samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands hafi verið lokað og því þurft sérstök fyrirmæli Seðlabankans til að greiðslan gæti farið fram. Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi selt kröfu sína gegn Straumi, sem síðar hafi verið tekin til slita, og fengið um 39,2% af fjárhæð kröfunnar greiddar. Er tjón stefnanda fyrir þennan lið miðað við það hlutfall eða 4.377.600.000 krónur auk vaxta og kostnaðar.
3. Uppgjör á viðskiptum við MP banka hf. að fjárhæð 7.518.710.126 kr.: Í stefnu er ítarlega lýst kaupum MP banka hf. á skuldabréfum að jafnvirði 10 milljarða króna og, útgefnum af stefnanda, til nota í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands. Í samningnum hafi m.a. verið tilgreind sú forsenda að ekki kæmi til breytinga á viðskiptakjörum í endurhverfum viðskiptum Seðlabanka Íslands og kaupanda væri heimilt að skila skuldabréfunum ef forsendur brystu. Nýjar reglur Seðlabanka Íslands um endurhverf viðskipti hafi tekið gildi 25. ágúst 2008, en með reglunum hafi leyfilegt hlutfall verðbréfa fjármálastofnana í slíkum viðskiptum átt að lækka um 10% á hverjum mánuði þar til hlutfallið væri komið í 50% hinn 1. janúar 2009. Þá er í stefnu gerð grein fyrir atvikum upp úr hádegi 6. október 2008 þegar MP banki hf. lýsti yfir riftun samningsins. Kemur þar fram að afstöðu MP banka hf. hafi fyrst verið hafnað en síðar um daginn hafi erindi MP banka verið samþykkt og fallist á að forsendur samningsins væru brostnar. Beiðni um greiðslu inn á reikning MP banka hf. hafi svo fyrst verið móttekin í Seðlabanka Íslands þegar búið var að loka stórgreiðslukerfi bankans og hafi hún verið afgreidd þar samkvæmt sérstökum beiðnum starfsmanna stefnanda. Skuldabréfin hafi verið í umráðum Seðlabankans þegar greiðslurnar fóru fram og hafi þau ekki verið afhent stefnanda fyrr en tveimur dögum síðar andstætt því sem fram hafi komið í yfirlýsingu MP banka hf. Stefnandi hafi lýst yfir riftun á þessum greiðslum 31. maí 2010, aðallega á þeim grundvelli að greidd hafi verið upp skuldabréf fyrr en eðlilegt var sbr. 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, en hafi fallið frá málsókn þar sem talið hafi verið að MP banki hf. myndi ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til þess að greiða nema hluta af kröfunni. Hinn 8. júlí 2010 hafi aðilar gert með sér samkomulag um að MP banki hf. greiddi stefnanda 750.000.000 króna til uppgjörs á kröfunni. Miðar stefnandi tjón sitt við mismun þessarar fjárhæðar og þeirrar fjárhæðar sem innt var af hendi til MP banka hf., þ.e. 6.768.710.126 krónur. Telur stefnandi ljóst með hliðsjón af síðari atvikum að umrætt uppgjör hafi tryggt stefnanda eins háar endurheimtur og framast var unnt.
Kröfur gegn vátryggjendum: Svo sem áður greinir byggjast kröfur gegn Brit Insurance Ltd. o.fl. á ábyrgðartryggingu sem keypt var fyrir stjórnendur og starfsmenn stefnanda. Grundvallast fjárhæð þeirra krafna, sem gerðar eru hlutfallslega gegn sérhverjum gagnaðila vátryggingarsamningsins, á tiltekinni skiptingu samningsins sem nánar greinir í samningnum sjálfum. Í stefnu er þó jafnframt greint frá því að á „bakvið vátryggjendur sem séu tilgreindir sem „Syndicate“ sé hópur vátryggjenda sem koma fram sameiginlega undir nöfnum hópanna“. Segir í stefnu að við nöfn stefndu sé að finna tilvísun í þann hóp sem stefndu tilheyra. Jafnframt beri samkvæmt samningi að tæma greiðslur úr frumtryggingu áður en komi til greiðslu úr fyrstu viðbótartryggingu og greiðsla úr annarri viðbótartryggingu komi ekki til fyrr en greiðsluskylda samkvæmt frumtryggingu og fyrstu viðbótartryggingu sé tæmd. Ekki er ástæða til að rekja samskipti stefnanda málsins við umrædda vátryggjendur á þessu stigi málsins.
Málatilbúnaður stefnanda byggir í meginatriðum á því að hinir stefndu stjórnendur hafi bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda með athöfnum og/eða athafnaleysi sem leiddi til þess að áðurgreindir fjármunir voru greiddir út úr bankanum. Vísar stefnandi til þess að frá a.m.k. 29. september 2008 hafi þeir vitað að stefnandi ætti í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum og frá 3. október þess árs vitað eða mátt vita að stefnandi gat ekki staðið við skuldbindingar sínar. Við þessar aðstæður hafi þeim borið skylda til að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að tryggja að gætt yrði hagsmuna lánardrottna bankans, nánar tiltekið að gefa út fyrirmæli um að óheimilt væri að ráðstafa fjármunum bankans til að greiða stórar kröfur, hvort sem þær voru skuldbindandi fyrir bankann eða ekki, og banna að fjármunum bankans yrði ráðstafað til að kaupa skuldabréfakröfur úr sjóðum dótturfélags á yfirverði. Þá er einnig byggt á því að hinum stefndu stjórnendum, þ. á m. stefnda Jóni Þorsteini, hafi verið óheimilt að gefa fyrirmæli um eða samþykkja að umrædd viðskipti ættu sér stað, hvort sem það hafi verið með beinum orðum eða þegjandi samþykki, meðal annars greiðslu fjármuna til MP banka hf. sem gerð var eftir ávarp forsætisráðherra og eftir að bankanum hafði verið lokað 6. október 2008. Af hálfu stefnanda eru skyldur hinna stefndu stjórnenda einkum rökstuddar með vísan til ákvæða 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, laga nr. 161/2002 um starfsemi fjármálafyrirtækja og starfsreglna stefnanda svo og almennra sjónarmiða um skyldur bankastjóra og bankaráðsmanna. Um þátt stefnda Jóns Þorsteins er einnig vísað til áhættureglna stefnanda til stuðnings saknæmri og ólögmætri háttsemi hans.
Málsástæður og lagarök aðila
Við munnlegan flutning málsins sameinuðust stefndu Andri, Kjartan og Þorgeir um málsástæður fyrir kröfum sínum um frávísun málsins. Þessir stefndu reisa þannig kröfu sína um frávísun í fyrsta lagi á því að kröfugerð sé óákveðin og í ósamræmi við málsreifun stefnanda. Ekki sé ljóst hvort leggja beri fyrsta og annan hluta kröfugerðar saman, ekki síst þegar horft sé til orðalags þriðja hluta kröfugerðar. Þá sé gerð krafa um greiðslu í fleiri myntum. Í öðru lagi sé ekki rökstutt í stefnu að skilyrði séu fyrir hendi til þess að stefna öllum stefndu saman í einu máli, þ.e. að fyrir hendi séu skilyrði samaðildar eða samlagsaðildar, sbr. 18. og 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndu leggja í þessu sambandi áherslu á að bótakrafa eigi ekki rót sína í sömu atvikum. Stefndu byggja á því í öllu falli að skilyrði framangreindra ákvæða fyrir samaðild eða samlagsaðild séu ekki fyrir hendi, sem leiði til frávísunar málsins. Í þriðja lagi er byggt á því að málatilbúnaður stefnanda sé verulega vanreifaður. Þannig sé stefna málsins úr hófi löng, samhengi skorti á milli dómkrafna og málsástæðna auk þess sem örðugt sé að átta sig á því hvaða rök eiga við gagnvart hverjum stefnda. Óljóst sé hver bótagrundvöllur sé vegna sérhvers hinna stefndu, svo sem hvort um sé að ræða ætlað athafnaleysi eða hvort skort hafi á samþykki bankaráðs. Þá benda stefndu á að stefnandi reifi með engum hætti hvernig skilyrðum samaðildar eða samlagsaðildar sé fullnægt í málinu. Í fjórða lagi er vísað til þess að stefnandi hafi höfðað riftunarmál gegn Landsvaka hf. vegna umræddra viðskipta með skuldabréf sjóða fyrirtækisins og þá hafi stefnandi einnig höfðað mál gegn PricewaterhouseCoopers ehf. í Reykjavík og PricewaterhouseCooper LLP í London. Í þessum málum séu gerðar skaðabótakröfur vegna sama tjóns og um ræði í málinu. Stefndu telja af þessum sökum óvíst hvaða tjóni stefnandi hafi orðið fyrir og beri að vísa málinu frá á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt sé rétt að vísa málinu frá dómi á grundvelli 4. mgr. 94. gr. sömu laga. Án tillits til þessara atriða telja stefndu að tjón stefnanda sé vanreifað þar sem ekkert mat hafi farið fram á því hvert tjón stefnanda hefði orðið hefðu stefndu gripið til þeirra aðgerða sem stefnandi telur að stefndu hafi borið að grípa til. Þá sé ekkert tillit tekið til þátta sem hafa áhrif við mat á ætluðu tjóni, t.a.m. hverjar heimtur stefnanda verða vegna nauðasamninga í Straumi eða hver niðurstaða endurmats á eignum sem voru færðar úr stefnanda yfir í nýja Landsbankann verður. Að lokum er á því byggt að málshöfðunarfrestur samkvæmt b-lið 136. gr. laga nr. 30/1995 um hlutafélög sé liðinn.
Stefnandi mótmælir málatilbúnaði stefndu. Hann telur kröfugerð sína skýra, meðal annars þannig að leggja beri fjárhæðir í fyrsta og öðrum hluta kröfugerðar saman. Í þriðja hluta kröfu sé hins vegar krafist greiðslu á fjárhæð sem sé hluti þessarar heildarfjárhæðar eins og orðalagið „jafnframt“ vísi til samkvæmt almennri orðnotkun og skilgreiningum í orðabókum. Stefnandi vísar til þess að 18. gr. laga nr. 91/1991 eigi ekki við um málatilbúnað stefnanda en samlagsaðild stefndu byggi á því að kröfur verði raktar til sömu atvika og/eða sömu aðstöðu, sbr. 19. gr. laganna. Stefnandi mótmælir sjónarmiðum um vanreifun og vísar til þess að stefndu haldi uppi ítarlegum vörnum í greinargerðum sínum. Þá eigi atvik málsins eftir að skýrast við gagnaöflun og aðalmeðferð. Stefnandi telur að viðhlítandi grein sé gerð fyrir þætti sérhvers hinna stefndu og samhengi krafna og málsástæðna liggi vel fyrir. Þá sé tjón reifað en jafnframt hafi stefnandi áskilið sér rétt til að afla mats dómkvaddra manna ef ástæða þyki til. Stefnandi mótmælir því að málsástæða vegna málshöfðunarfrests laga nr. 138/1994 um hlutafélög geti leitt til frávísunar málsins.
Niðurstaða
Stefna í máli þessu er 46 blaðsíður á lengd og er lýsing málsatvika þar af rúmlega 26 blaðsíður. Þótt ekki sé unnt að útiloka að slík lengd stefnu geti samrýmst meginreglu réttarfars um munnlegan málflutning, þegar um er að ræða sérlega flókin og umfangsmikil mál, skortir á að hin ítarlega málsatvikalýsing í stefnu málsins sé sett í fullnægjandi samhengi við málsástæður og lagarök stefnanda þannig að fyllilega sé ljóst á hverjum atvikum málatilbúnaður hans grundvallast. Telur dómari að þetta hafi gert stefndu nokkuð erfiðara um vik en ella að hafa uppi varnir, leitt til þess að greinargerðir þeirra urðu lengri en efni stóðu til og þannig átt þátt í því að auka á umfang málsins úr hófi. Dómari telur allt að einu að stefndu hafi ekki getað dulist hvert sakarefnið málsins var og þannig verið kleift að hafa uppi efnisvarnir í málinu. Umræddur annmarki á málatilbúnaði stefnanda getur því ekki, einn og sér, leitt til frávísunar málsins, en getur hins vegar haft þýðingu við ákvörðun málskostnaðar við endanlega úrlausn þess, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
A
Svo sem áður greinir hefur stefnandi uppi þá kröfu að stefndu Sigurjón, Halldór, Kjartan, Andri, Þorgeir og Svafa verði dæmd til að greiða stefnanda sameiginlega 14.116.395.373 krónur, 10.546.970 bandaríkjadali og 10.840.714 evrur ásamt nánar tilteknum vöxtum og dráttarvöxtum. Þá krefst stefnandi þess „að auki að stefndi Jón Þorsteinn Oddleifsson greiði stefnanda in solidum með stefndu Sigurjóni, Halldóri, Kjartani, Andra, Þorgeiri og Svöfu kr. 11.146.310.126“ ásamt nánar tilteknum vöxtum og dráttarvöxtum.
Að mati dómara verður fyrrgreind kröfugerð samkvæmt orðum sínum ekki skilin á aðra leið en þá að stefndu Sigurjón, Halldór, Kjartan, Andri, Þorgeir og Svafa séu í heild krafin sameiginlega um 14.116.395.373 krónur, auk framangreindra bandaríkjadala og evra, en þar af eigi stefndi Jón Þorsteinn að greiða 11.146.310.126 krónur með þessum stefndu. Af hálfu stefnanda hefur hins vegar verið áréttað við munnlegan flutning málsins að málatilbúnaður hans grundvallist á því að umrædd stefndu séu krafin um samtals 25.262.705.499 krónur, auk framangreindra bandaríkjadala og evra, og sé sá skilningur jafnframt í samræmi við reifun málsástæðna og nánari sundurliðun kröfunnar í stefnu.
Á það er fallist með stefnanda að af lestri stefnu megi álykta um heildarkröfu að fjárhæð 25.262.705.499 krónur, auk fyrrgreindra bandaríkjadala og evra, gegn stefndu Sigurjóni, Halldóri, Kjartani, Andra, Þorgeiri og Svöfu. Sú fjárhæð kemur þó hvorki fram berum orðum í kröfugerð stefnanda né annars staðar í stefnu. Samkvæmt þessu byggist málatilbúnaður stefnanda í reynd á því að skilja beri kröfugerð hans andstætt því sem leiðir af orðanna hljóðan og þá til samræmis við það sem ráða má af efnisumfjöllun í stefnu.
Í ljósi fjárhæðar kröfunnar sem höfð er uppi gegn stefnda Jóni Þorsteini telur dómari einnig óútskýrt í málatilbúnaði stefnanda hvers vegna stefndi Jón Þorsteinn er í þriðja hluta kröfugerðar krafinn um greiðslu sameiginlega með stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. án aðgreiningar frá öðrum meðstefndu sem krafðir eru um mun hærri fjárhæð, svo sem áður greinir. Þótt stefndi Jón Þorsteinn hafi ekki krafist frávísunar málsins fyrir sitt leyti er óhjákvæmilegt að horfa til þess að grundvöllur kröfugerðar stefnanda er að þessu leyti óútskýrður.
Samkvæmt framangreindu er kröfugerð stefnanda óljós um ákveðin atriði. Á það verður þó fallist með stefnanda að annmarkar á kröfugerð hans lúti eingöngu að öðrum hluta kröfugerðar stefnanda, svo og aðild stefnda Jóns Þorsteins sem ekki hefur uppi kröfu um frávísun hvað hann snertir, og geti því aldrei leitt til frávísunar málsins í heild.
B
Svo sem áður greinir krefur stefnandi stefndu Sigurjón, Halldór, Kjartan, Andra, Þorgeir og Svöfu um skaðabætur vegna tiltekinna ráðstafana sem gerðar voru af hálfu stefnanda, þá Landsbanka Íslands hf., hinn 6. febrúar 2008, en stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. eru krafin um greiðslur á grundvelli vátryggingarsamnings. Til stuðnings tjóni sínu vísar stefnandi ýmist til endurgjalds sem hann hefur þegar fengið við sölu þeirra eigna sem hann fékk afhentar með umræddum ráðstöfunum, til væntanlegra endurheimtu krafna við gjaldþrotaskipti skuldara eða til verðmætis krafna við yfirfærslu þeirri til nýja Landsbankans hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Þá vísar stefnandi til samkomulags við MP banka hf. um samkomulag um uppgjör þess láns sem bankanum var veitt og áður greinir.
Samkvæmt framangreindu byggir tjón stefnanda og fjárhæð stefnukrafna annaðhvort á tilteknum ráðstöfunum stefnanda sjálfs, á áætlunum hans eða á stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Í málinu er þannig hvergi að finna gögn um ætlað tjón stefnanda sem gætu orðið grundvöllur undir mat dómsins á tjóni hans. Við þetta bætist að fyrir liggur að stefnandi hefur höfðað mál til riftunar þeim kröfum sem keyptar voru af Landsvaka hf. 6. október 2008 og hefur lýst því yfir við munnlegan flutning málsins að eðlilegt sé að úrlausn um þann þátt málsins, sem lúti að þessum viðskiptum, bíði meðan leyst sé úr því máli, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Liggur þannig í reynd fyrir að tjón stefnanda vegna þessa hluta kröfu er ekki að fullu komið fram. Er málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti ósamrýmanlegur grunnrökum 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt framangreindu telur dómari að mjög skorti á að stefnandi hafi gert reka að því að fá tjón sitt staðreynt með þeim úrræðum sem honum eru tæk að lögum, svo sem öflun mats samkvæmt ákvæðum IX. kafla laga nr. 91/1991. Er tjón stefnanda því vanreifað og grundvöllur fjárhæðar kröfugerðar hans í reynd getgátur. Lúta þessir annmarkar að málinu í heild og eru þeir svo verulegir að ekki verður úr þeim bætt á síðari stigum. Er því skylt að vísa málinu í heild frá dómi.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að úrskurða stefnanda til að greiða stefndu málskostnað í samræmi við kröfu þeirra þar að lútandi. Málskostnaður til stefnda Andra, Kjartans og Þorgeirs, þykir hæfilega ákveðinn tvær milljónir króna til hvers um sig. Málskostnaður til Brit Insurance Ltd. o.fl. þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur til hvers og eins eða samtals 2.500.000 krónur. Er þá litið til sambands þessa aðila og sameiginlegs fyrirsvars þeirra fyrir dómi. Málskostnaður til annarra stefndu þykir hæfilega ákveðinn 1.750.000 krónur. Hefur þá í öllum tilvikum verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnda Þorgeirs flutti málið Ólafur Vignisson hdl.
Af hálfu stefnda Andra flutti málið Reimar Pétursson hrl.
Af hálfu stefnda Kjartans flutti málið Karl Axelsson hrl.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes Sigurðsson hrl.
Aðrir stefndu létu ekki málið til sín taka við flutning þess um frávísun að öðru leyti en því að lögmaður stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., Viðar Lúðvíksson hrl., áréttaði kröfu þessara stefndu um málskostnað.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, LBI hf., greiði stefndu, Andra Sveinssyni, Kjartani Gunnarssyni og Þorgeiri Baldurssyni, 2.000.000 krónur í málskostnað, en stefndu, Sigurjóni Þ. Árnasyni, Halldóri J. Kristjánssyni, Svöfu Grönfeldt og Jóni Þorsteini Oddleifssyni, 1.750.000 krónur í málskostnað. Stefnandi greiði eftirtöldum stefndu hverjum um sig 100.000 krónur í málskostnað: Brit Insurance Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Internationanl Insurance Ltd., Allianz Global Corporate & Specialty AG, QBE Corporate Ltd., Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Kelvin Underwriting Ltd., Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Novae Corporate Underwriting Ltd., SCOR Underwriting Ltd., Sorbietrees Underwriting Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, Joseph Elmaleh, John Leon Gilbart, Julian Michael West, Richard Michael Hodgson Read og Norman Thomas Rea.