Hæstiréttur íslands

Mál nr. 419/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hlutafélag
  • Hlutafé
  • Handveð


Föstudaginn 20. ágúst 2010.

Nr. 419/2010.

NBI hf.                                              

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

þrotabúi Fons hf.

(Óskar Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Hlutafélag. Hlutafé. Handveð.

Ágreiningur aðila laut að því hvort gilt handveð hefði stofnast í hlutafé ÞF í S  með skriflegri handveðsyfirlýsingu og afhendingu hlutabréfs til N. Ekki var fallist á með ÞF að annmarkar á formi samþykktar stjórnar S hefðu valdið því að ekki hefði stofnast gilt handveð í hlutafénu. Var því fallist á kröfu N og viðurkenndur réttur félagsins í hlutfé ÞF í S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um viðurkenningu veðréttar í eignarhlut varnaraðila í Securitas hf., að nafnverði 149.900.000 krónur, samkvæmt handveðsyfirlýsingu frá 29. október 2008. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind krafa hans tekin til greina. Í endanlegri kröfugerð til Hæstaréttar 5. júlí 2010 krefst hann aðeins kærumálskostnaðar en ekki málskostnaðar í héraði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Aðilar málsins deila um hvort gilt handveð hafi stofnast í hlutafé varnaraðila í Securitas hf. með skriflegri handveðsyfirlýsingu varnaraðila 29. október 2008 og afhendingu hlutabréfs til sóknaraðila. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði byggir varnaraðili mótmæli sín við gildi veðsetningarinnar á því að ekki hafi verið óskað skriflega eftir samþykki stjórnar Securitas hf. svo sem nauðsynlegt hafi verið samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samþykkta félagsins. Gögn málsins benda til þess að stjórn Securitas hf. hafi í reynd verið samþykk veðsetningunni og véfengir varnaraðili ekki að svo hafi verið. Veðsetningin sé allt að einu ógild af framangreindri ástæðu. Þá verður málflutningur varnaraðila skilinn svo að hann byggi ennfremur á því að stjórn Securitas hf. hafi ekki tekið formlega ákvörðun um samþykki á stjórnarfundi og samþykki hafi ekki verið ritað á þann hátt sem samþykktirnar áskilja.

Ekki varð breyting á réttarstöðu aðila innbyrðis við gjaldþrot varnaraðila. Varnaraðili hefur því stöðu veðsala gagnvart sóknaraðila í því ágreiningsmáli sem hér er til úrlausnar. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði er ósamræmi í samþykktum Securitas hf. um þörf á samþykki stjórnar við veðsetningu á hlutafé í félaginu. Fyrir liggur að varnaraðili átti nær allt hlutafé í Securitas hf. og hafði algerlega á valdi sínu hvernig á vettvangi þess félags yrði gengið formlega frá veðsetningunni. Þá liggur einnig fyrir að eigendur alls hlutafjárins voru samþykkir henni. Þegar til alls þessa er litið verður ekki fallist á með varnaraðila að nefndir ætlaðir annmarkar á formi samþykkis stjórnar Securitas hf. teljist hafa valdið því að ekki hafi stofnast gilt handveð í hlutafénu. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á veðrétti hans í greindu hlutafé á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkenndur er veðréttur sóknaraðila, NBI hf., í hlutafé varnaraðila, þrotabús Fons hf., í Securitas hf. að nafnverði 149.900.000 krónur.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2010.

Mál þetta var þingfest 18. desember sl. og tekið til úrskurðar 12. maí sl.

Sóknaraðili er NBI hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Varnaraðili er þrotabú Fons hf., kt. 700394-3799.

Sóknaraðili krefst þess að viðurkenndur verði veðréttur hans í eignarhlut varnaraðila, þrotabúi Fons hf., í Securitas hf., að nafnverði 149.900.000 krónur, eða sem svarar til 99,93% eignarhluta í Securitas hf., samkvæmt handveðsyfirlýsingu frá 29. október 2008.

Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á veðrétti í eignarhlut þrotabús Fons hf. í Securitas hf., verði hafnað.

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins úr hendi sóknaraðila.

Málsatvik

Sóknaraðili var stofnaður 9. október 2008 með lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Fólu lögin meðal annars í sér breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og voru Fjármálaeftirlitinu meðal annars fengnar heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Fjármálaeftirlitið tók þá ákvörðun 7. október 2008 á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum. Skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 í samræmi við 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 var Nýi Landsbanki Íslands hf., nú NBI hf. stofnaður.

Fons hf. var í umfangsmiklum viðskiptum við sóknaraðila og forvera hans, Landsbanka Íslands hf. Sem tryggingu fyrir lánum félagsins gaf félagið út ýmsa veðsamninga og handveðsyfirlýsingar, tryggðar með veði í ýmsum eignum félagsins. Þar á meðal gaf Fons hf. út handveðsyfirlýsingu 19. mars 2008, þar sem Landsbanka Íslands, síðar sóknaraðila, voru settir að veði heildareignarhlutur í Sikker ehf., sem var eignarhaldsfélag í eigu Fons hf. og var eigandi að 99,93% í Securitas hf.

Með handveðsyfirlýsingu dags. 29. október 2008 setti Fons hf., sóknaraðila að handveði heildareignarhlut sinn í Securitas hf. að nafnverði 149.900.000 krónur, eða því sem nam 99,93% eignarhlut í Securitas hf. Í tengslum við veðsetninguna voru hlutabréf Securitas hf. undirrituð og gefin út af stjórn félagsins. Annars vegar bréf nr. 1 að fjárhæð 149.900.000 krónur, útgefið af Fons hf. og hins vegar nr. 2, bréf að fjárhæð 100.000 krónur, útgefið til Pálma Haraldssonar. Samhliða undirritun handveðsyfirlýsingarinnar afhenti Fons hf., sóknaraðila frumrit hlutabréfs nr. 1 til vörslu.

Kveðinn var upp úrskurður um gjaldþrotaskipti á búi Fons hf., 30. apríl 2009. Sóknaraðili lýsti kröfum í þrotabú Fons hf. og nema kröfur hans alls 4.785.642.377 krónum. Öllum kröfum var lýst sem veðkröfum samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, en þó var hluta kröfunnar sem var vegna ritunar kröfulýsingar að fjárhæð 25.000 krónur, lýst sem eftirstæðri kröfu.

Sóknaraðili telur sig njóta veðréttar í eignarhluta þrotabúsins í Securitas hf. og byggir á ofangreindri handveðsyfirlýsingu frá 29. október 2008. Skiptastjóri hafnaði veðkröfu sóknaraðila að svo stöddu á skiptafundi 14. ágúst 2009 á þeim grundvelli að fullnægjandi gögn vantaði um að veðsetning hlutabréfa í Securitas hf. væri gild og hefði öðlast réttarvernd. Sóknaraðili sendi skiptastjóra viðbótargögn, meðal annars yfirlýsingu fjögurra af fimm stjórnarmönnum sem sátu í stjórn Securitas hf., þegar veðsamningur var gerður 29. október 2008, en með yfirlýsingunni staðfesta þeir að þeim hafi verið kunnugt um veðsetninguna og að þeir hafi ekki verið henni mótfallnir. Skiptastjóri taldi að enn hefði ekki verið sýnt fram á að til gildrar veðsetningar hefði stofnast í hlutum þrotabúsins í Securitas hf. Því boðaði skiptastjóri til skiptafundar 7. september 2009, til að jafna ágreining. Í boðunarbréfi gerði skiptastjóri grein fyrir þeirri afstöðu sinni, að þar sem gögn lægju ekki fyrir um að veðsetningin hefði verið réttilega tilkynnt stjórn Securitas hf., hefði hún verið óheimil og væri ógild. Ekki tókst að jafna ágreininginn á skiptafundi 8. september 2009 og er því málið til úrlausnar fyrir dóminum um þá kröfu sóknaraðila að viðurkenndur verði veðréttur hans yfir eignarhluta Fons hf. í Securitas hf. að nafnverði 149.900.000 krónur.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir og Einar Þór Sverrisson.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að fullt gilt handveð hafi stofnast yfir hinum veðsettu hlutum í Securitas hf.

Hlutabréf hafi verið útgefið og afhent sóknaraðila til vörslu. Handveðsyfirlýsing þar sem eignarhlutur Fons hf. í Securitas var settur að handveði sé undirrituð með skuldbindandi hætti fyrir hönd Fons hf., þar sem tveir af þremur stjórnarmönnum undirriti handveðsyfirlýsinguna, en samkvæmt samþykktum Fons hf. hafi það verið meirihluti stjórnar sem ritað hafi firmað að þeim tíma er handveðsyfirlýsing var undirrituð.

Réttarvernd hinna veðsettu hluta sé fólgin í því að hlutabréf nr. 1 að fjárhæð 149.900.000 krónur hafi verið gefið út á nafn Fons hf. og hafi sóknaraðili fengið hlutabréfið í sínar vörslur og Fons hf. sem veðsali, hafi þar með verið sviptur umráðum yfir því.

Hlutabréf séu viðskiptabréf og viðskiptabréfareglur séu sniðnar að því hlutverki að gera viðskipti með bréf sem öruggust og tryggust. Meginregla sem gildi um viðskiptabréf sé að framsalshafi fái við framsalið þann rétt sem bréfið bendi til að framseljandi eigi. Til að tryggja að hlutabréf geti þjónað sem best viðskiptabréfahlutverki sínu, sé að finna í 3. og 4. mgr. 27. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995, þær lágmarksupplýsingar sem greina skuli í hlutabréfi. Samkvæmt 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna skuli skorður þær sem reistar séu við heimild hluthafa til meðferðar á hlutabréfum sínum, tilgreindar í hlutabréfinu sjálfu, svo sem skorður á heimild til veðsetningar. Engar slíkar áritanir sé að finna á hlutabréfinu sjálfu. Hlutabréfið hafi verið gefið út þann 17. október 2008 í tengslum við og vegna veðsetningarinnar, eða 12 dögum áður en handveðsyfirlýsingin sé gefin út. Óumdeilt sé að stjórn félagsins átti að gefa út hlutabréfin með réttum upplýsingum um þau réttindi og þær skyldur sem fylgdu umræddum hlutabréfum. Þar sem engar áritanir hafi verið að finna á hlutabréfinu um hömlur á veðsetningu þess, hafi sóknaraðili mátt gera ráð fyrir því að engar hömlur væru á meðferð hlutafjár félagsins, enda skýrt tekið fram í 5. gr. samþykkta félagsins, að engar hömlur séu á meðferð hlutafjár í félaginu.

Þá bendir sóknaraðili á að meirihluti stjórnarmanna í Securitas hf. hafi samþykkt veðsetninguna, en 3. mgr. 7. gr. samþykkta Securitas hf. hljóði svo:

,,Óheimilt er að veðsetja hluti í félaginu án samþykkis félagsstjórnar. Beiðni um veðsetningu á hlutum þarf að vera skrifleg. Ákvörðun um hvort veita skuli samþykki, skal tekin án tafar og aldrei síðar en tveimur mánuðum eftir að samþykkis er óskað. Ákvörðun stjórnar skal þegar í stað tilkynnt þeim er samþykkis hefur leitað. Hafi samþykki eigi borist innan tveggja mánaða skal litið svo á að samþykki hafi verið veitt“.

Eins og framan greini, segi í 5. gr. samþykkta Securitas hf. að engar hömlur skuli vera á meðferð hlutafjár í félaginu. Efnislega sé því ósamræmi milli þessara tveggja greina samþykkta félagsins en samkvæmt 5. gr. þurfi ekki að afla samþykkis stjórnar fyrir veðsetningu eða sölu hlutafjár í félaginu, en gildisskilyrði veðsetningar samkvæmt 3. mgr. 7. gr. sé að afla þurfi samþykkis stjórnar Securitas hf. til að heimilt sé að veðsetja hluti í félaginu. Með hliðsjón af því að stjórnin hafi gefið út hlutabréfin í félaginu án nokkurra skilyrða um að hömlur væru á veðsetningu þeirra og samkvæmt efni 5. gr. samþykkta félagsins, verði að telja að vilji félagsins hafi verið sá að engar hömlur ættu að vera yfir hlutum í félaginu. En jafnvel þótt hömlur hafi átt að vera yfir hlutum í félaginu, telji sóknaraðili að samþykki stjórnar hafi legið fyrir þegar við undirritun handveðsyfirlýsingar.

Á þeim tíma sem veðsetningin hafi átt sér stað hafi Fons hf. verið skráður eigandi að 99,93% hlutafjár í Securitas hf. Þá hafi stærsti hluthafi Fons hf. verið Pálmi Haraldsson, skráður eigandi að 0,07% hlutafjár. Securitas hf. hafi því lotið yfirráðum Fons hf., en stjórn þess hafi á þeim tíma verið skipuð þeim Jóhannesi Kristinssyni, Einari Þór Sverrissyni og Pálma Haraldssyni. Í kjölfar kaupa Fons hf. á fyrrgreindum hlut í Securitas hf. í gegnum eignarhaldsfélagið Sikker ehf. hafi verið haldinn hluthafafundur í félaginu, 26. október 2007, þar sem kjörin var ný stjórn Securitas hf. Stjórnina hafi skipað Pétur Már Halldórsson, Andri Freyr Stefánsson, Einar Þór Sverrisson, Pálmi Haraldsson og Rannveig Guðmundsdóttir. Allir stjórnarmenn hafi setið í umboði Fons hf. sem eiganda félagsins.

Þegar handveðsyfirlýsingin hafi verið gefin út 29. október 2008, hafi Pálmi Haraldsson og Einar Þór Sverrisson undirritað skjalið fyrir hönd Fons hf. og Andri Freyr Stefánsson hafi vottað rétta dagsetningu og undirskrift. Meirihluti stjórnarmanna Securitas hf. hafi því undirritað handveðsyfirlýsinguna. Stjórn Securitas hf. hafi því verið fullkunnugt um veðsetninguna enda hafi sóknaraðili fengið yfirlýsingu, undirritaða af fjórum af fimm stjórnarmönnum sem setið hafi í stjórn Securitas hf.  þegar veðsamningur var gerður, þar sem staðfest er, að stjórn félagsins hafi verið fullkomlega meðvituð um veðsetninguna á sínum tíma, og gert engar athugasemdir við hana, enda hafi þrír stjórnarmenn skrifað á veðskjalið. Þá beri jafnframt að geta þess að öll stjórn Securitas hf. hafi undirritað eigin hendi hlutabréf nr. 1 sem gefið hafi verið út í þeim tilgangi að afhenda sóknaraðila til vörslu vegna veðsetningar á hlutabréfinu.

Augljós ásetningur allra aðila hafi verið að skapa sóknaraðila fullgilt veð yfir eignarhluta Fons hf. í Securitas hf., en sökum þess hve stjórn Securitas hf. var nátengd stjórn og stjórnendum Fons hf., á þeim tíma er handveðsyfirlýsingin var undirrituð, hafi Fons hf. látið hjá líða að senda skriflega beiðni til Securitas hf., þar sem óskað sé eftir heimild til veðsetningarinnar. Sú vanræksla ein og sér geti ekki leitt til þess að réttindi sóknaraðila sem veðhafa yfir bréfunum, hafi ekki stofnast.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og þeim meginreglum sem gildi um viðskiptabréf.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili kveður ágreining málsins mjög afmarkaðan, einungis sé deilt um gildi veðsetningar Fons hf. á hlutabréfi sínu í Securitas hf. að nafnverði 149.900.000 krónur.

Varnaraðili kveður að skýrar hömlur séu við veðsetningu, samkvæmt samþykktum Securitas hf. Almennt sé sala og veðsetning hlutabréfa frjáls, en þó sé heimilt að leggja hömlur við slíku, séu um það ákvæði í samþykktum hlutafélags. Meðal annars sé heimilt að áskilja að veðsetning hlutabréfa sé því aðeins heimil að stjórn félagsins samþykki hana. Um slíkar hömlur gildi 23. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, en af 2. mgr. þess ákvæðis megi ráða að í slíkum tilvikum skuli tilkynning um veðsetningu til stjórnar félags vera skrifleg. Þar segi m.a.: ,,Stjórn félags tekur ákvörðun um hvort samþykki skuli veitt, nema annað sé ákveðið í samþykktum. Ákvörðun um hvort veita skuli samþykki skal tekin án tafar og aldrei síðar en tveimur mánuðum eftir að samþykkis var óskað. Ákvörðun stjórnar um þetta efni skal þegar í stað tilkynnt þeim er samþykkis hefur leitað. Hafi samþykki eigi borist innan tveggja mánaða frá skriflegri beiðni um það skal litið svo á að samþykki hafi verið veitt“.

Ákvæði 3. mgr. 7. gr. samþykkta Securitas hf. hljóði svo: ,,Óheimilt er að veðsetja hluti í félaginu án samþykkis félagsstjórnar. Beiðni um veðsetningu á hlutum skal vera skrifleg. Ákvörðun um hvort veita skuli samþykki skal tekin án tafar og aldrei síðar en tveimur mánuðum eftir að samþykkis er óskað. Ákvörðun stjórnar skal þegar í stað tilkynnt þeim er samþykkis hefur leitað. Hafi samþykki eigi borist innan tveggja mánaða skal litið svo á að samþykki hafi verið veitt.“

Samkvæmt framangreindu sé skýrlega tekið fram í samþykktum félagins að óheimilt sé að veðsetja hluti í félaginu án samþykkis stjórnar og að beiðni um slíkt samþykki skuli vera skrifleg. Verði það ekki skilið á annan veg en þann að óheimilt sé að veðsetja hluti í félaginu nema a) skriflegri beiðni sé beint til stjórnarinnar og b) sú beiðni sé beinlínis þess efnis að óskað sé heimildar til veðsetningar.

Varnaraðili kveður gildi veðsetningar ekki velta á handveðsyfirlýsingunni. Lögð sé áhersla á að ágreiningur málsins snúist ekki um hvort handveðsyfirlýsingin hafi verið undirrituð með réttum hætti eða samþykkt réttilega af Fons hf., heldur því hvort veðsetningin hafi verið heimil vegna skýrra veðsetningarhafta í samþykktum félagsins. Það kunni vel að vera að umrædd handveðsyfirlýsing hafi uppfyllt skilyrði samningsveðlaga nr. 75/1997, en varnaraðili byggi á því að veðréttur hafi allt að einu ekki getað stofnast í umræddu bréfi.

Varnaraðili bendir á, að þrátt fyrir að hlutabréf séu viðskiptabréf, séu þau um margt sérstaks eðlis, einkum þar sem ekki sé hægt að ganga út frá því að þau hafi að geyma tæmandi upplýsingar um hömlur sem kunni að hafa verið settar við meðferð þeirra. Hæstiréttur hafi enda slegið þessu föstu í máli sem varðað hafi ágreining, áþekkan þeim sem uppi sé í þessu máli, sbr. Hrd. 1996, bls. 1926.

Þá byggir varnaraðili á því að sú óskráða meginregla sem sóknaraðili vísi til í greinargerð sinni, þess efnis að framsalshafi skuli við framsal fá þann rétt sem viðskiptabréf bendi til að framseljandi eigi, eigi ekki við í umræddu tilviki. Reglur um mótbárutap skuldara og réttindamissi þriðja manns eigi við um framsal viðskiptabréfa, en ekki veðsetningu þeirra. Þannig hefði meintur veðréttur sóknaraðila fallið niður við framsal, hefði hann ekki verið skráður á bréfið, en reglur um mótbárutap skuldara og réttindamissi þriðja manns geti ekki fært sóknaraðila slíkan rétt í trássi við hömlur samþykkta. Hafi Hæstiréttur staðfest þann skilning.

Varnaraðili bendir á, að skráning meints veðréttar á hlutabréfið og vörslur þess, geri veðréttinn ekki lögmætan. Varnaraðili leggi á það áherslu að þrátt fyrir að sóknaraðili kunni að hafa  gripið til þeirra ráðstafana sem til þurfi til að veð öðlist réttarvernd gagnvart þriðja manni samkvæmt samningsveðlögum nr. 75/1997, geri þær veðréttinn ekki lögmætan. Þær aðgerðir geti engu breytti um það að veðsetningin sem slík hafi verið andstæð lögum og samþykktum félagsins. Verði meðal annars að líta til þess að samningsveðlögin víki samkvæmt 3. mgr. 2. gr. þeirra fyrir sérákvæðum um samningsveðsetningar í öðrum lögum.

Heimild 23. gr. laga nr. 2/1995 um að leggja hömlur við veðsetningu hlutabréfa, sé slíkt sérákvæði sem gangi framar almennum reglum samningsveðlaga.

Þá bendir varnaraðili á, að umrætt hlutabréf beri þess glögglega merki að það sé ekki tæmandi um þau réttindi sem því fylgi. Í bréfinu segi, að sá sem sé eigandi hlutabréfsins sé eigandi að 149.900.000 hlutum í hlutafélaginu Securitas hf., ,,með öllum þeim réttindum og skyldum hluthafa, sem samþykktir félagsins mæla fyrir um“.

Þá hafi sóknaraðili lagt fram útprentun úr hlutafélagaskrá sem beri það glögglega með sér að hömlur séu á meðferð hlutabréfa í félaginu.

Hafi ofangreint gefið sóknaraðila ríkt tilefni til að kynna sér samþykktir félagsins, enda hafi verið um að ræða að stofnun sem hafi opinbert leyfi til lánveitinga og hafi á að skipa fjölda sérfræðinga. Sé á því byggt að sóknaraðili verði að bera allan halla af því að hafa ekki gengið með formlega réttum hætti frá umþrættri veðsetningu.

Varnaraðili bendir á, að ekki verði annað séð en að sóknaraðili hafi í framkvæmd virt þá staðreynd að veðsetning án samþykkis stjórnar væri óheimil í þeim tilvikum, þar sem slíkt samþykki sé áskilið í samþykktum. Til marks um það hafi tilkynningar til stjórna Jötun Holding ehf. og Sikker ehf., verið viðaukar með handveðsyfirlýsingu.

Í umræddum tilkynningum hafi stjórnir félaganna verið látnar staðfesta að veðsetningin hafi verið samþykkt, eins og samþykktir félagsins áskilji.

Loks komi það berlega fram í sjálfri handveðsyfirlýsingunni, sem sóknaraðili byggi rétt sinn á, að samþykki útgefanda skuli afhent veðhafa við undirritun yfirlýsingarinnar, sé þess þörf samkvæmt samþykktum hans.

Það sé því ljóst að sú málsástæða sóknaraðila að hann hafi mátt treysta því að engar hömlur væru á meðferð hlutafjár í félaginu sé í andstöðu við framkvæmd sóknaraðila á þeim tíma sem meint veðsetning fór fram.

Varnaraðili hafnar því að engar hömlur hafi átt að vera við veðsetningu hluta í Securitas hf. Varnaraðili byggir á þeirri meginreglu að þegar ákvæði laga eða samninga stangist á, skuli þau sértækari hafa meira vægi en almenn ákvæði. Byggi varnaraðili á því að ákvæði 3. mgr. 7. gr. samþykkta Securitas hf. skuli ganga framar almennt orðuðum 2. tl. 5. gr. þeirra.

Þá er því hafnað að sem haldið er fram í greinargerð sóknaraðila, að það hafi nokkur áhrif á gildi meintrar veðsetningar að stjórnarmönnum í Securitas hf. hafi verið kunnugt um að handveðsyfirlýsing hafi verið undirrituð. Það ófrávíkjanlega formskilyrði sem samþykktir Securitas hf. mæli fyrir um, þ.e. að skrifleg beiðni um veðsetningu sé send stjórn félagsins, þurfi að vera uppfyllt, til að veðsetning sé gild.

Óumdeilt sé að ekki hafi verið aflað skriflegs samþykkis stjórnar Securitas hf. fyrir handveðsetningunni á hlutabréfi Fons hf. í félaginu og stjórn var ekki tilkynnt skriflega um veðsetninguna. Af því leiði að handveðsyfirlýsing sú sem sóknaraðili byggi rétt sinn á hafi farið í bága við skýr ákvæði 2. mgr. 23. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 2. mgr. 7. gr. samþykkta Securitas hf. og sé því ógild.

Niðurstaða

Óumdeilt er, að handveðsyfirlýsing sú sem mál þetta er sprottið af, er undirrituð með skuldbindandi hætti fyrir hönd Fons hf. og að hlutabréf það sem gefið var út, ber engar áritanir um hömlur á veðsetningu þess.

Niðurstaða málsins veltur á því hvort farið hafi verið að ákvæðum hlutafélagalaga og ákvæðum samþykkta Securitas hf., er bréfið var sett til tryggingar skuldum Fons hf. við sóknaraðila. Í handveðsyfirlýsingunni sjálfri segir í 1. gr. hennar að samþykki útgefanda, þ.e. Securitas hf., skuli afhent veðhafa við undirritun yfirlýsingarinnar, en af gögnum  málsins er ljóst að samþykki útgefenda hefur verið krafist af veðhafa í sambærilegum tilvikum. Óumdeilt er að slíkt samþykki var ekki afhent við undirritun handveðsyfirlýsingarinnar.

Í 5. gr. samþykkta Securitas hf. er kveðið á um að engar hömlur skuli vera á meðferð hlutafjár í félaginu, en í 3. mgr. 7. gr. samþykkta félagsins segir að óheimilt sé að veðsetja hluti í félaginu án samþykkis félagsstjórnar og skuli beiðni um veðsetningu á hlutum að vera skrifleg. Ákvörðun um hvort veita skuli samþykki, skuli tekin án tafar og aldrei síðar en tveimur mánuðum eftir að samþykkis var óskað. Framangreind 5. gr. samþykkta félagsins og 3. mgr. 7.gr. þess eru þannig ósamrýmanlegar.

Í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög segir enn fremur að stjórn félags taki ákvörðun um hvort samþykki til veðsetningar skuli veitt, nema annað sé ákveðið í samþykktum. Ákvörðun um hvort veita skuli samþykki skuli tekin án tafar og aldrei síðar en tveimur mánuðum eftir að samþykkis er óskað. Ákvörðun stjórnar um þetta efni skuli þegar í stað tilkynnt þeim er samþykkis hafi leitað. Hafi samþykki eigi borist innan tveggja mánaða frá skriflegri beiðni um það skuli litið svo á að samþykki hafi verið veitt.

Í yfirlýsingu meirihluta stjórnar Securitas hf. frá 20. ágúst 2009, kemur fram að meirihluta stjórnar hafi verið kunnugt um að handveðsyfirlýsingin hefði verið undirrituð og að meirihluti stjórnar hefði engar athugasemdir gert við hana á þeim tíma er hún var gerð. Staðfesti vitnið, Einar Þór Sverrisson, fyrrum stjórnarmaður í Securitas það, en hann sat í stjórn Securitas hf. á þeim tíma er umrædd veðsetning fór fram. Hlutabréf að fjárhæð 149.900.000 krónur var og afhent sóknaraðila til vörslu.

Fram er komið í málinu að haldinn var hluthafafundur í Securitas hf., 26. október 2007, þar sem kjörin var ný stjórn. Hina nýju stjórn skipuðu Pétur Már Halldórsson, Andri Freyr Stefánsson, Einar Þór Sverrisson, Pálmi Haraldsson og Rannveig Guðmundsdóttir. Á þeim tíma er veðsetning var gerð, var Fons hf. skráður eigandi að 99,93% hlutafjár í Securitas hf. og stærsti hluthafi Fons hf., Pálmi Haraldsson, var skráður eigandi að 0,07%. Securitas hf. laut því yfirráðum Fons hf. en stjórn þess félags skipuðu þeir Jóhannes Kristinsson, Einar Þór Sverrisson og Pálmi Haraldsson. Undir handveðsyfirlýsinguna skrifuðu Pálmi Haraldsson og Einar Þór Sverrisson fyrir hönd Fons hf., og Andri Freyr Stefánsson vottaði undirskrift og rétta dagsetningu.

Augljóst er af framangreindu hversu nátengd stjórn Securitas hf. var stjórn og stjórnendum Fons hf. á þeim tíma er handveðsyfirlýsing var undirrituð.

Ákvæði 3. mgr. 7. gr. samþykkta Securitas hf. um að óheimilt sé að veðsetja hluti í félaginu án samþykkis félagsstjórnar er sértækara en ákvæði samþykkta 5. gr. samþykkta félagsins, um að engar hömlur skuli vera á meðferð hlutafjár í félaginu og gengur því framar hinu síðarnefnda. Ákvæði 3. mgr. 7. gr. samþykkta félagsins á sér og samhljóm í ákvæði 2. mgr. 23. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

Þrátt fyrir þá vitneskju um umþrætta handveðsetningu til sóknaraðila, sem telja verður að stjórn Securitas hf. hafi haft á þeim tíma er veðsetning var gerð, í ljósi þess hversu nátengdar stjórnir félaganna Securitas hf. og Fons hf. voru, er það engu að síður ljóst að veðsetning hlutafjár í Securitas hf. til handa sóknaraðila var andstæð hlutafélagalögum og samþykktum félagsins. Ekki var óskað skriflega eftir samþykki stjórnar Securitas hf. fyrir veðsetningunni og það lá því ekki fyrir við undirritun yfirlýsingarinnar. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að tekin hafi verið formleg ákvörðun í stjórn Securitas hf. um veðsetningu hlutafjár í félaginu á þeim tíma sem um ræðir. Réttra formreglna var samkvæmt framangreindu ekki gætt við veðsetninguna.

Sóknaraðili er opinber stofnun, sem hefur á að skipa fjölda sérfræðinga sem eiga að gæta þess að formlega sé rétt gengið frá slíkum veðsetningum og verður því að bera hallann af því, hafi ekki verið farið að formreglum við slíkar veðsetningar.

Þegar framangreint er virt, verður ekki talið að gilt handveð hafi stofnast í hinum umþrætta hlutabréfi og er því kröfu sóknaraðila hafnað.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu sóknaraðila, NBI hf., um viðurkenningu veðréttar í eignarhlut varnaraðila, þrotabús Fons hf. í Securitas hf., að nafnverði 149.900.000 krónur, samkvæmt handveðsyfirlýsingu frá 29. október 2008, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.