Hæstiréttur íslands
Mál nr. 614/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Skjal
|
Mánudaginn 1. nóvember 2010. |
|
|
Nr. 614/2010. |
Ákæruvaldið (Eyþór Þorbergsson fulltrúi) gegn X og Y (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Afhending gagna. Skjöl.
X og Y voru sökuð um blygðunarsemisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa staðið saman að töku 64 mynda af tíu nafngreindum stúlkum, þar sem þær voru fáklæddar eða naktar í sturtu eða búningsklefum. Kærðu þau úrskurð héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu þeirra um afhendingu myndanna sem lágu til grundvallar ákæru í málinu. Samkvæmt 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur lögregla synjað verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum meðan á rannsókn máls stendur ef brýnir einkahagsmunir annarra en skjólstæðings hans standa því í vegi. Í ákvæðinu felst að heimilt er að fara þá leið, sem er síður íþyngjandi í garð ákærða, að veita ákærða aðgang að skjölum á lögreglustöð en synja honum um afrit af þeim. Var talið að þrátt fyrir að sambærilegt ákvæði væri ekki að finna í lögunum eftir að mál hefði verið höfðað yrði allt að einu talið að sömu reglur giltu eftir málshöfðun, enda væri þess gætt svo sem í máli þessu að X og Y fengju viðunandi aðstöðu og nægan tíma til að kynna sér myndirnar og undirbúa vörn sína í málinu. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. október 2010, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um afhendingu þeirra mynda, sem ákæra í málinu er byggð á. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að sóknaraðila verði gert skylt að afhenda verjanda þeirra afrit af 64 myndum sem liggi til grundvallar ákæru sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í ákæru ríkissaksóknara 2. júlí 2010 eru varnaraðilar sakaðir um blygðunarsemisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa staðið saman að töku alls 64 mynda af tíu nafngreindum stúlkum, þar sem þær voru fáklæddar eða naktar í sturtu eða búningsklefum. Á dómþingi gerði verjandi ákærðu kröfu um að sér yrði afhent „eintak þeirra mynda sem ákært er fyrir í málinu, annað hvort á tölvutæku formi eða útprentuð.“ Sóknaraðili hafnaði þeirri ósk en lýsti sig reiðubúinn „að greiða götu verjanda til að kynna sér efni myndanna.“ Með hinum kærða úrskurði var kröfu varnaraðila hafnað en þeim heimilað að kynna sér myndirnar á þeirri lögreglustöð sem verjandi vísar á.
Samkvæmt 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 getur lögregla synjað verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum meðan á rannsókn máls stendur ef brýnir einkahagsmunir annarra en skjólstæðings hans standa því í vegi. Í ákvæðinu felst að heimilt er að fara þá leið, sem er síður íþyngjandi í garð ákærða, og veita honum aðgang að skjölum á lögreglustöð en synja honum um afrit af þeim. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í lögunum eftir að mál hefur verið höfðað þó að þeir hagsmunir sem ákvæðið verndar breytist ekki við málshöfðunina. Verður allt að einu talið að sömu reglur gildi eftir málshöfðun, enda sé þess í hvívetna gætt svo sem í máli þessu að varnaraðilar fái viðunandi aðstöðu og nægan tíma til að kynna sér myndirnar og undirbúa vörn sína í málinu. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. október 2010.
Með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 2. júlí 2010, eru X, kt. [...], og Y, kt. [...], ákærð fyrir blygðunarsemisbrot og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa staðið saman að töku alls 64 mynda af tíu nafngreindum stúlkum, lítt eða ekki klæddum, í steypibaði eða búningsklefum. Er í ákærunni tíundað hversu margar myndir sýni hverja og eina, og segir að þær hafi fundizt á farsíma og í tölvu í eigu ákærðu X, en ákærði Y hafi geymt tölvuna á heimili sínu.
Verjandi ákærða hefur undir rekstri málsins gert kröfu um að fá afhent afrit myndanna, hvort sem væri á tölvutæku formi eða prentaðar út. Ákæruvaldið krefst þess að kröfunni verði hafnað en aðgangur verjanda og ákærðu að myndunum verði takmarkaður við sýningu þeirra á lögreglustöð. Skipaður réttargæzlumaður tekur undir sjónarmið ákæruvaldsins.
Skipaður verjandi kveður myndirnar grundvallarsönnunargagn málsins og án þeirra verði ekki kveðið upp úr um hugsanleg lögbrot skjólstæðinga hans. Án myndanna geti ákærðu ekki haldið uppi nauðsynlegum vörnum og ekki sé jafnræði með aðilum ef aðeins sækjandi en ekki verjandi hafi aðgang að slíkum grundvallarsönnunargögnum. Kveði lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála skýrt á um að ákærði og verjandi skuli hafa aðgang að öllum gögnum málsins. Þá verði að líta svo á að efni mynddiska teljist til skjala máls, þótt ekki hafi verið prentað út, enda væri ella hægt að halda öllum gögnum frá ákærða með því að halda þeim tölvutækum en birta aldrei á öðru formi.
Ákæruvaldið kveðst byggja synjun sína á 37. gr. laga um meðferð sakamála. Þar sé gerður greinarmunur á skjölum máls og öðrum gögnum þess. Þá kveður ákæruvaldið að meint brot ákærðu sé meðal annars falið í því að afla umræddra mynda og með afhendingu þeirra til ákærðu eða verjanda þeirra væri í raun framið sérstakt brot, þar eð ákærðu hafi ekki heimild til að hafa umræddar myndir undir höndum. Hefði ákærður maður sjálfstæðan rétt til aðgangs að öllum þeim gögnum málsins sem verjandi hefði undir höndum og væri því í raun gerð krafa um að ákærðu væru afhentar þær myndir sem ákæruvaldið teldi þeim refsivert að hafa aflað og haft undir höndum. Sækjandi tók fram, að ákæruvaldið væri reiðubúið að greiða þann kostnað sem hlytist af því að verjandi og ákærðu kynntu sér myndirnar á lögreglustöð, hvort sem væri ferðakostnað verjandans eða ákærðu.
Ljóst er, að við úrlausn málsins skipta umræddar myndir verulegu máli, ef á annað borð verður talið sannað að ákærðu hafi, svo sem þeim er gefið að sök, staðið að töku þeirra og varðveizlu. Ljóst er, að ákærðu fá ekki varizt ákærunni, svo sem þau eiga rétt á, nema geta vefengt að efni myndanna sé svo sem haldið er fram í ákæru. Til þess verða þau eða verjandi þeirra að fá fullnægjandi aðstöðu.
Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála skal verjandi „jafnskjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu“. Með dómi sínum í máli nr. 495/2009, sem kveðinn var upp hinn 21. september 2009, kvað Hæstiréttur Íslands upp úr um það, að afhendingarskylda samkvæmt þeirri lagagrein tæki til afrita af skjölum sem væru í pappírsformi en ekki til eftirgerðar af mynddiskum.
Dóminum þykir ljóst, að þær stúlkur sem í hlut eiga, hafi af því skiljanlega einkahagsmuni að umræddar myndir deilist í ekki fleiri staði en meðferð málsins kallar óhjákvæmilega á. Þykir rétt að hafa þá einkahagsmuni í huga, eftir því sem samrýmzt getur brýnum réttindum ákærðu til málsvarnar.
Eins og áður segir, er það álit dómsins að ákærðu verði að hafa tök á því að kynna sér, ásamt verjanda sínum, þær myndir sem ákæra á hendur þeim er reist. Þykir dóminum ekki hafa verið sýnt fram á, að ekki nægi að þau kynni sér myndirnar í góðu tómi á lögreglustöð, svo sem ákæruvaldið hefur boðið, en ákæruvaldið hefur jafnframt boðið að greiða allan kostnað sem af því hlytist. Við þá skoðun ákærðu og verjanda á myndunum geta komið upp einhver þau atriði sem þau telji kalla á afhendingu afrits einstakra mynda, og mun verjandi þá geta borið synjun um slíka afhendingu undir dóm að nýju. Verður ákærðu og verjanda heimilt að kynna sér myndirnar á lögreglustöð en á þessu stigi málsins verður ekki fallizt á kröfu um afhendingu myndanna, eða afrita þeirra, til þeirra. Lögheimili beggja ákærðu er á landsbyggðinni en verjandi hefur starfstöð á höfuðborgarsvæðinu og þykir því rétt að sýning myndanna standi til boða á þeirri lögreglustöð sem verjandi óskar.
Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu um afhendingu þeirra mynda, sem ákæra í málinu er byggð á, er synjað. Ákærðu og verjanda þeirra skal heimilt að kynna sér myndirnar. Skal aðstaða til þess veitt á þeirri lögreglustöð sem verjandi vísar á.