Hæstiréttur íslands
Mál nr. 467/2005
Lykilorð
- Þjófnaður
- Akstur sviptur ökurétti
- Fíkniefnalagabrot
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 2. mars 2006. |
|
Nr. 467/2005. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn Einari Þór Sigríðarsyni (Halldór H. Backman hrl.) |
Þjófnaður. Akstur sviptur ökurétti. Fíkniefnalagabrot. Hegningarauki.
E var í fyrsta lagi gefið að sök að hafa í félagi við annan mann stolið bensíni úr tanki bifreiðar, í öðru lagi að hafa ekið bifreið án þess að hafa meðferðis ökuskírteini og í þriðja lagi að hafa haft eiturlyf í vörslum sínum. E var í héraði dæmdur í fangelsi í 11 mánuði, og var 10 mánaða skilorðsdómur dæmdur með. Héraðsdómara hafði hins vegar ekki verið kunnugt um að umræddur skilorðsdómur hafði áður verið dæmdur með. Brot E voru framin áður en hann hlaut 14 mánaða fangelsisdóm. Að því virtu og þegar litið var til þess að E játaði greiðlega brot sín var niðurstaða Hæstaréttar sú að E skyldi ekki gerð sérstök refsing fyrir framangreind brot.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 19. október 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, að fengnu leyfi Hæstaréttar samkvæmt 188. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst þess að refsing ákærða verði milduð.
Ákærði krefst þess aðallega að honum verði ekki gerð refsing í málinu en til vara að refsing hans verði milduð.
Í máli þessu er ákærða í fyrsta lagi gefið að sök að hafa í félagi við annan mann 4. maí 2004 stolið bensíni úr tanki bifreiðar, sem stóð við Gagnheiði 67, Selfossi. Í öðru lagi að hafa ekið bifreið 1. október 2004 suður Reykjanesbraut án þess að hafa meðferðis ökuskírteini, en lögregla stöðvaði aksturinn á móts við Hnoðraholt í Garðabæ. Í þriðja lagi er hann sakaður um að hafa 2. október sama ár haft í vörslu sinni í bifreið 1,94 grömm af marihuana og 0,18 grömm af tóbaksblönduðu hassi, en lögregla fann efnin við leit í bifreiðinni eins og nánar er getið í ákæru. Ákærði játaði sakargiftir og var farið með málið og það dæmt í héraði eftir 125. gr. laga nr. 19/1991.
Samkvæmt sakavottorði ákærða, sem lagt var fyrir Hæstarétt, var hann dæmdur 30. ágúst 2004 fyrir þjófnað, gripdeild, nytjastuld og fíkniefnalagabrot í 12 mánaða fangelsi, þar af voru 10 mánuðir af refsingunni skilorðsbundnir í þrjú ár. Hann var dæmdur á ný 16. mars 2005 fyrir þjófnað, eignaspjöll, nytjastuld og fíkniefnalagabrot í 14 mánaða fangelsi og var skilorðsbundna refsing dómsins 30. ágúst 2004 dæmd upp. Með hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 18. apríl 2005, var sama skilorð aftur dæmt með og liggur fyrir að héraðsdómara var ekki kunnugt um dóminn frá 16. mars 2005, enda var hans ekki getið á framlögðu sakavottorði í héraði. Sakaferill ákærða er að öðru leyti rétt rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Brotin sem hann var þar sakfelldur fyrir voru framin áður en hann var dæmdur í 14 mánaða fangelsi 16. mars 2005 og ber því að líta til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar hans. Brot ákærða eru smávægileg og hann játaði þau undanbragðalaust. Þegar framangreint er virt verður honum ekki gerð frekari refsing í máli þessu.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku fíkniefna sem varða ákærða verða staðfest.
Engan sakarkostnað leiddi af þætti ákærða í málinu í héraði. Með vísan til 2. mgr. 191. gr. laga nr. 19/1991 skal allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem eru ákveðin með virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærða, Einari Þór Sigríðarsyni, verður ekki gerð refsing í máli þessu.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna skulu vera óröskuð.
Allur sakarkostnaður málsins fyrir Hæstarétti, 205.176 krónur, greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Halldórs H. Backman hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 18. apríl 2005.
Mál þetta, sem þingfest var 11. janúar síðastliðinn og dómtekið 21. febrúar, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 1. desember 2004, á hendur S, kt. [...], [...], Bláskógabyggð, og Einari Þór Sigríðarsyni, kt. 100982-4989, Vatnsstíg 4, Reykjavík,
I.
gegn ákærðu báðum fyrir þjófnað
með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 4. maí 2004 í félagi stolið bensíni úr bensíntanki bifreiðarinnar IB 881, þar sem hún stóð á bifreiðastæði við Gagnheiði 67, Selfossi, með því að stinga gat á bensíntank bifreiðarinnar.
II.
gegn ákærða S fyrir eftirtalin umferðarlagabrot á árinu 2004:
1.
með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 16. ágúst, ekið bifreiðinni KL 037 með 119 km hraða miðað við klukkustund vestur Suðurlandsveg, Sveitarfélaginu Ölfusi, vestan við bæinn Kotströnd. Leyfður hámarkshraði á vegarkaflanum var 90 km á klukkustund. Hraði bifreiðarinnar KL 037 var mældur með ratsjá nr. 1 sem staðsett var í lögreglubifreið nr. 33-289.
2.
með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 22. ágúst, ekið bifreiðinni KL 037 af Lækjargötu inn á gatnamót Lækjargötu, Bankastrætis og Austurstrætis, Reykjavík, og beygt suður Lækjargötu, þrátt fyrir það að rauð ljós loguðu á götuvitunum fyrir akstursstefnu hans á gatnamótunum.
3.
með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 30. september, ekið bifreiðinni KL 037 með 109 km hraða miðað við klukkustund norður Vesturlandsveg, við Korpúlfsstaði, Reykjavík, án þess að hafa skráningarmerki bifreiðarinnar fest framan á hana, en lögregla stöðvaði akstur ákærða á Vesturlandsvegi. Leyfður hámarkshraði á vegarkaflanum var 80 km á klukkustund. Hraði bifreiðarinnar KL 037 var mældur með ratsjá nr. KR 015 sem staðsett var í lögreglubifreið nr. 10-271.
III.
gegn ákærða S fyrir þjófnað
með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 30. september 2004 stolið 75 lítrum af bensíni úr bensíntönkum golfbifreiða við svæði Golfklúbbs Reykjavíkur í Grafarholti.
Ákæruvaldið telur háttsemi ákærðu Einars Þórs og S samkvæmt I. kafla ákæru varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þá er hegðun ákærða S samkvæmt 1. tl. II. kafla ákæru talin varða við 2. mgr. 37. gr., sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Þá er háttsemi ákærða S samkvæmt 2. tl. II. kafla ákæru talin varða við 1. mgr. 5. gr., sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Þá er háttsemi sú sem ákærða S er gefin að sök í 3. tl. II. kafla ákæru talin varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 751/2003 um skráningu ökutækja, sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Loks er hegðun ákærða S samkvæmt III. kafla ákæru talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Einnig er þess krafist að ákærði S fái punkta samkvæmt 7. gr., sbr. viðauka, reglugerðar nr. 431/1998 um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna brota samkvæmt II. kafla ákæru og hann dæmdur til að sæta svptingu ökuréttar samkvæmt 2. mgr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 57/1997 og 8. gr., sbr. 10. gr., reglugerðar nr. 431/1998 vegna uppsafnaðra punkta.
Þá er mál höfðað gegn ákærða S með ákæru lögreglustjórans á Selfossi útgefinni 15. desember 2004, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 1. október 2004, haft í vörslu sinni 0,09 grömm af maríhúana sem lögregla fann við leit í bifreiðinni KL 037 sem ákærði var farþegi í, en lögregla stöðvaði akstur bifreiðarinnar á Reykjanesbraut við Hnoðraholt, Garðabæ.
Ákæruvaldið telur þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. auglýsingu nr. 84/1986.
Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrárnúmer 036-2004-146), en lagt hafi verið hald á greind fíkniefni samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Var málið þingfest sem mál S-1089/2004 en sameinað máli nr. S-1014/2004 11. janúar 2005.
Loks er mál höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 15. desember 2004, gegn ákærða Einari Þór,
I.
fyrir umferðarlagabrot
með því að hafa, aðfaranótt föstudagsins 1. október 2004, ekið bifreiðinni KL 037 suður Reykjanesbraut, án þess að hafa ökuskírteini meðferðis, en lögregla stöðvaði akstur ákærða á móts við Hnoðraholt, Garðabæ.
II.
fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni
með því að hafa að kvöldi laugardagsins 2. október 2004, haft í vörslu sinni í bifreiðinni SV 659, sem ákærði var farþegi í, 1,94 grömm af maríhúana og 0,18 grömm af tóbaksblönduðu hassi, en lögregla fann efnin við leit í bifreiðinni, eftir að hafa haft afskipti af ákærða á bifreiðaplani Esso við Lækjargötu, Hafnarfirði.
Ákæruvaldið telur háttsemi þá sem ákærða er gefin að sök í ákærulið I varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Er háttsemi samkvæmt ákærulið II talin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 131985, sbr. lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. auglýsingu nr. 84/1986.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrárnúmer 036-2004-148), en lagt hafi verið hald á greind fíkniefni samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Mál þetta var þingfest sem mál nr. S-1088/2004 en sameinað máli nr. S-1014/2004 11. janúar 2005.
Ákærði Einar Þór Sigríðarson kom fyrir dóminn 11. janúar síðastliðinn og játaði ofangreindar ákærur réttar. Með málið var farið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákærði S mætti 21. febrúar síðastliðinn og játaði sök. Farið var með mál hans samkvæmt 125. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærðu frömdu brot þau sem greinir í ákæru og og þar eru réttilega færð til refsiákvæða. Hafa ákærðu með greindri háttsemi unnið sér til refsingar.
Samkvæmt sakavottorði ákærða S hefur hann ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 90.000 króna sekt til ríkissjóðs sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en ella sæti ákærði fangelsi í 20 daga.
Um kröfu ákæruvaldsins um að ákærði fái punkta samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 431/1998 vísast til 3. tl. 11. gr. nefndrar reglugerðar. Samkvæmt ökuferilsskrá ákærða hefur hann á tímabilinu frá 11. janúar 2004 til 3. nóvember sama ár hlotið samtals 16 punkta. Ber því með vísan til þeirra lagaákvæða er í ákæru greinir og fyrrgreindrar reglugerðar að svipta ákærða ökurétti í 3 mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Þá ber að gera upptæk til ríkissjóðs 0,09 grömm af marihuana sem lagt var hald á við rannsókn málsins.
Samkvæmt sakavottorði ákærða Einars Þórs var hann dæmdur í 1 mánaðar fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár og 35.000 króna sekt þann 14. maí 2001 fyrir þjófnað, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og of hraðan akstur. Ákærði var sektaður um 60.000 krónur 10. desember sama ár fyrir brot gegn 48. gr. umferðarlaga og 25. febrúar 2003 var hann dæmdur í 20.000 króna sekt fyrir þjófnað. Ákærði gekkst undir 78.000 króna sekt 11. júní sama ár fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og of hraðan akstur. Þá var ákærði dæmdur í 3 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár fyrir þjófnað 29. mars 2004 og með dómi upp kveðnum 17. maí sama ár var hann dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi í 2 ár fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 71. gr., þjófnað og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Með dómi upp kveðnum 2. júní sama ár var hann dæmdur í 4 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár fyrir nytjastuld og 2. júlí sama ár hlaut hann 8 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár fyrir nytjastuld og þjófnað. Loks var ákærði dæmdur 30. ágúst s.l. í 12 mánaða fangelsi, þar af voru 10 mánuðir skilorðsbundnir í 3 ár fyrir þjófnað, gripdeild, nytjastuld og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
Brot ákærða Einars Þórs sem fjallað er um í ákæru dagsettri 1. desember s.l. var framið áður en síðastgreindir fjórir dómar féllu. Ber með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp skilorðshluta síðasttalda dómsins og ákveða ákærða hegningarauka í samræmi við ákvæði 78. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða, sem fjallað er um í ákæru dagsettri 15. desember s.l. eru hins vegar framin eftir að síðastgreindur dómur gekk og verður því höfð hliðsjón af ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar hans. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 11 mánuði, en með hliðsjón af því að um hegningarauka að hluta er að ræða og þjófnaðarbrot ákærða var ekki stórvægilegt þykir mega skilorðsbinda refsinguna og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Dæma ber ákærða jafnframt til greiðslu 40.000 króna sektar til ríkissjóðs og komi fangelsi í 10 daga í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan fjögurra vikna.
Þá ber að gera upptæk til ríkissjóðs 1,94 grömm af marihúana og 0,18 grömm af tóbaksblönduðu hassi sem lagt var hald á við rannsókn málsins.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna veikinda við embættið og anna dómarans.
Dómsorð:
Ákærði, S, greiði 90.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 20 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti í 3 mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði Einar Þór Sigríðarson, sæti fangelsi í 11 mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal fresta og skal hún niður falla að liðnum 3 árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði greiði jafnframt 40.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi fangelsi í 10 daga í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan fjögurra vikna.
Ákærði S sæti upptöku á 0,09 gömmum af maríhúana (efnaskrárnúmer 036-2004-146).
Ákærði Einar Þór Sigríðarson sæti upptöku á 1,94 grömmum af maríhúana og 0,18 grömmum af tóbaksblönduðu hassi (efnaskrárnúmer 036-2004-148).
Ákærðu greiði allan sakarkostnað.