Hæstiréttur íslands

Mál nr. 432/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


         

Mánudaginn 20. ágúst 2007.

Nr. 432/2007.

Ákæruvaldið

(Jón H.B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Oddgeir Einarsson hdl.)

 

Kærumál. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

 

Ekki var fallist á X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar sem skilyrði stafliðarins þótti ekki fullnægt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. ágúst 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. ágúst 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 4. september 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 29. júní 2007, fyrst á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en frá 6. júlí á grundvelli c. liðar sömu málsgreinar, sbr. dóm Hæstaréttar 11. júlí 2007 í máli nr. 365/2007. Tilefni gæsluvarðhalds samkvæmt framangreindum dómi var grunur um aðild varnaraðila að fjölmörgum auðgunarbrotum, sem flest voru framin í maí og júní. Ákæra var gefin út á hendur honum ásamt þremur öðrum sakborningum 7. ágúst 2007 fyrir ýmis brot framin á þessu ári. Þar er honum, ýmist einum eða með öðrum sakborningum, gefin að sök tilraun til þjófnaðar 5. febrúar, hilming 24. maí, þjófnaður í tveimur sumarbústöðum 23. til 25. júní, hilming 26. júní og tilraun til þjófnaðar 28. júní. Tekur ákæran á hendur varnaraðila til mun færri brota en lágu til grundvallar áðurnefndum dómi Hæstaréttar. Þegar litið er til þeirra brota sem hann ákærður fyrir að hafa framið í maí og júní verður ekki talið nægilega fram komið að fullnægt sé skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um að ætla megi að hann muni halda áfram brotum á meðan máli hans er ólokið. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 16. ágúst 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að kærði, X, [kt.], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 4. september nk. kl. 16:00.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 16. apríl 2006, hlaut kærði sjö mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm. Þann 29. júní sl. var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sbr. úrskurð Hérðasdóms Reykjavíkur nr. R-320/2007.  Með úrskurði Hérðasdóms Reykjavíkur 6. júlí sl. í máli nr. R-339/2007 var gæsluvarðhaldið framlengt til föstudagsins 17. ágúst kl. 16.00 og þá með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. sömu laga.  Með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 365/2007 frá 11. júlí sl. var úrskurður hérðasdóms staðfestur.

Þann 7. ágúst sl. höfðaði lögreglustjórinn áhöfðuborgarsvæðinu opinbert mál á hendur kærða með útgáfu ákæru.  Í ákæruskjali er honum gefið að sök tvö þjófnaðarbrot tvær tilraunir til þjófnaðar og tvö hilmingarbrot, en brot þessi eru framin í félagi.  Flest brotanna eru framin á stuttum tíma eða í lok júnímánaðar.  Um er að ræða innbrot inn í sumarhúsnæði og íbúðarhúsnæði fólks, auk þess að hafa tekið við og varlsað þýfi úr innbrotum.  Í kröfugerð lögreglustjórans segir að ljóst sé að kærði eigi nú yfir höfði sér fangelsisrefsingu og að við rannsókn mála hans hafi komið í ljós að hann sé fíkniefnaneytandi og fjármagni neyslu sína með afbrotum.

Framangreint mál kærða verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 21. ágúst nk.

Á grundvelli gagna málsins er fallist á það mat lögreglustjóra að veruleg hætta sé á að kærði muni halda áfram brotastarfsemi verði hann frjáls ferða sinna.  Með tilvísun í c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:     

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 4. september nk. kl. 16.