Hæstiréttur íslands

Mál nr. 58/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 20. janúar 2015.

Nr. 58/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Steinn S. Finnbogason hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 10. febrúar 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 10. febrúar nk. kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að, að kvöldi laugardagsins 10. janúar sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] við [...] í [...]. Samkvæmt tilkynningunni hefði karlmaður verið stunginn í brjóstið. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi hún hitt fyrir brotaþolann A. Brotaþoli hafi síðan verið fluttur á slysadeild Landspítalans.

Að sögn lögreglustjóra mun brotaþoli hafa skýrt frá því að kærði X hefði stungið sig. Brotaþoli segði að hann og kærði hefðu rifist og slegist í framhaldinu. Þá hefði kærði dregið upp eggvopn og reynt að stinga brotaþola mörgum sinnum og náð að lokum að stinga hann í brjóstkassann og síðan hlaupið í burtu.

Þá er þess getið að lögreglan hafi rætt við vitni sem stödd hafi verið í [...] við árásarstaðinn. Þau hefðu sagt að brotaþoli hefði verið í annarlegu ástandi umrætt kvöld. Hefði hann komið inn í einn [...] og þar slegið vitnið B í andlitið og hrækt á hann. Vitnið C segði að kærði hafi síðan farið út ásamt dökkklæddum manni með dökkt hár. Vitnið B segðist þekkja dökkklædda manninn sem X. Eftir að brotaþoli og X hafi farið út úr [...] hafi vitnin heyrt mikil læti og öskur fyrir utan. Vitnin segðu að það næsta sem þau vissu væri að brotaþoli hefði verið stunginn.

Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að kærði játi sök. Kærði segi að hann og brotaþoli hafi rifist fyrir utan [...] og í kjölfarið tekist á. Hann hafi síðan stungið brotaþola í brjóstið með eggvopni sem hann hafi sjálfur búið til og gengi um með á sér. Samkvæmt áverkavottorði D sérfræðings hafi brotaþoli verið með eina u.þ.b. 4 cm. stungu á hægra brjóstholi með loftbrjósti. Áverki brotaþola sé metinn lífshættulegur.

Lögreglustjóri er þeirrar skoðunar að kærði liggi undir sterkum grun um að hafa ráðist á brotaþola, sem hafi verið óvopnaður, með eggvopni og stungið hann beint í brjóstið. Beiting vopnsins og staðsetning áverkans sé lífhættuleg og háttsemi kærða hefði því hæglega geta dregið brotaþola til dauða. Af öllu framangreindu sé ljóst að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og því sé það mat lögreglu að gæsluvarð­hald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Brot kærða sé talið varða við 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. s.l.  og kunni því að varða 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

Lögreglan hefur nú til rannsóknar alvarlega hnífstunguárás sem átti sér stað 10. janúar sl. Atlagan er talin vera brot á 211., sbr. 20. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sem varðað getur allt að ævi­löngu fangelsi. Kærði hefur játað brotið hér fyrir dóminum og hjá lögreglu, og sterkur grunur um sekt hans er studdur gögnum málsins. Með tilliti til almanna­hags­muna er fallist á það með lögreglu að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar. Eru því skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir hendi til að gera kærða að sæta gæsluvarðhaldi. Verður krafa lög­reglu­stjórans á höfuðborgarsvæðinu því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurð­ar­orði. Ekki er tilefni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarð­haldi allt til þriðjudagsins 10. febrúar nk. kl. 16.00.