Hæstiréttur íslands

Mál nr. 426/2007


Lykilorð

  • Brunavarnir
  • Skaðabætur
  • Skipting sakarefnis


         

Fimmtudaginn 8. maí 2008.

Nr. 426/2007.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs.

(Anton B. Markússon hrl.

 Jón Ögmundsson hdl.)

gegn

Hringrás hf.

(Sigurbjörn Magnússon hrl.

 Indriði Þorkelsson hdl.)

 

Brunavarnir. Skaðabætur. Skipting sakarefnis.

Stórbruni varð hjá H 22. nóvember 2004. S réðst í sértækar slökkviaðgerðir með heimild í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir og fékk verktakafyrirtækið E.T. ehf. til að leggja til mannskap og tækjabúnað. S reisti kröfu sína um skaðabætur á því að H hefði valdið E.T. ehf. tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti og S hefði fengið skaðabótakröfu félagsins á hendur H framselda. Í dómi Hæstaréttar sagði að E.T. ehf. hefði orðið fyrir tjóni vegna slökkvistarfsins. Samkvæmt 21. gr. laga nr. 75/2000 hefði félagið eignast kröfu á hendur S vegna endurgjalds fyrir veitta þjónustu við slökkvistarfið og lagfæringar á eigin athafnasvæði í framhaldi af því. Hefði S greitt þá kröfu. Hins vegar hefði engum stoðum verið rennt undir þá staðhæfingu S að H hefði valdið E.T. ehf. tjóni og að fyrirtækið hefði af þeim sökum eignast skaðabótakröfu á hendur H, sem S hefði fengið framselda. Brast því lagagrundvöll fyrir kröfu S eins og hún var fram sett og varð því að sýkna H af kröfu S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. ágúst 2007. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna tjóns áfrýjanda af sértækum brunastörfum vegna bruna á athafnasvæði stefnda 22. nóvember 2004. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi höfðaði áfrýjandi mál þetta á hendur stefnda til heimtu skaðabóta að fjárhæð 25.643.378 krónur ásamt vöxtum. Undir rekstri málsins í héraði varð samkomulag með aðilum um skiptingu sakarefnis og að fyrst yrði dæmt um skaðabótaskyldu stefnda. Í stefnu til héraðsdóms lýsti áfrýjandi grundvelli skaðabótaskyldu stefnda svo að krafa hans væri reist á almennu skaðabótareglunni. Stefndi hafi valdið verktakafyrirtækinu E.T. ehf. tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti og áfrýjandi fengið framselda skaðabótakröfu verktakafyrirtækisins.

Svo sem nánar er lýst í héraðsdómi urðu atvik með þeim hætti að í stórbruna þeim er varð hjá stefnda 22. nóvember 2004 ákvað áfrýjandi, með heimild í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, að ráðast í sértækar slökkviaðgerðir til þess að hefta útbreiðslu eldsins með því að fá nefnt verktakafyrirtæki, sem hafði starfsstöð við hliðina á stefnda, til að leggja til mannskap og tækjabúnað. Almannahætta hafði skapast þar sem stefndi hafði, andstætt starfsleyfi sínu frá 17. ágúst 1999, keypt til endurvinnslu mikið magn ónýtra hjólbarða sem eldurinn komst í.  Menn á tveimur hjólaskóflum í eigu verktakafyrirtækisins mokuðu efni úr brennandi hjólbarðahrúgum yfir á lóð fyrirtækisins, þar sem slökkt var í þeim. Við þetta varð fyrirtækið fyrir tjóni bæði vegna slökkvistarfsins og hreinsunar úrgangs á lóð sinni og var það metið af mönnum, sem áfrýjandi og fyrirtækið komu sér saman um, enda væri um að ræða brunatjón samkvæmt 2. mgr. og 3. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2000. Áfrýjandi greiddi fyrirtækinu matsfjárhæðina, sem svarar til fyrrgreindrar stefnufjárhæðar í héraði.

Samkvæmt framansögðu eignaðist verktakafyrirtækið E.T. ehf. kröfu á hendur áfrýjanda vegna endurgjalds fyrir veitta þjónustu við slökkvistarfið og lagfæringar á eigin athafnasvæði í framhaldi af því samkvæmt ákvæðum 21. gr. laga nr. 75/2000 og hefur áfrýjandi greitt þá kröfu. Hins vegar hefur engum stoðum verið rennt undir þá staðhæfingu áfrýjanda að stefndi hafi valdið verktakafyrirtækinu E.T. ehf. tjóni og að fyrirtækið hafi af þeim sökum eignast skaðabótakröfu á hendur stefnda, sem áfrýjandi hafi fengið framselda. Brestur því lagagrundvöll fyrir kröfu áfrýjanda eins og hann setur hana fram og verður þegar af þeirri ástæðu að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu stefnda. Er þá ekki tekin afstaða til þess hvort áfrýjandi gæti á grundvelli sakarreglunnar átt kröfu á hendur stefnda á þeim forsendum að hann hafi brotið reglur um starfsleyfisskylda starfsemi og með því bakað áfrýjanda útgjöld svo að skaðabótaskyldu varði.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., greiði stefnda, Hringrás hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2007.

          Mál þetta er höfðað 11. desember 2006, þingfest 12. s.m. og dómtekið 3. maí sl.

          Stefnandi er Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Skógarhlíð 14, Reykjavík.

          Stefndi er Hringrás hf., Klettagörðum 9, Reykjavík.

          Í stefnu krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 25.643.378 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 13.697.952 krónum frá 14. nóvember 2005 til 5. maí 2006, en af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða máls­kostnað.

          Stefndi krefst aðallega sýknu og greiðslu málskostnaðar. Til vara er gerð krafa um að dómkröfur stefnanda verði verulega lækkaðar og að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

          Í greinargerð óskaði stefndi eftir skiptingu sakarefnis málsins, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þannig að fyrst yrði leyst úr greiðsluskyldu stefnda en álitaefni um bótafjárhæð biði síðari úrlausnar ef greiðsluskylda reyndist vera fyrir hendi. Í þinghaldi 6. mars 2007 féllst stefnandi á þá ósk stefnda og var sakarefni málsins skipt þannig að í þessu máli er leyst úr greiðsluskyldu stefnda. Verði fallist á að hún sé fyrir hendi verður stefndi dæmdur til greiðslu skaðabóta að hæfilegri fjárhæð upp í væntanlegar bætur.

          Í stefnu er stefndi tilgreint sem einkahlutafélag. Í greinargerð stefnda, sem og í tilteknum öðrum gögnum málsins, kemur fram að stefndi er hlutafélag. Hefur aðild málsins hér fyrir dómi verið leiðrétt þessu til samræmis.

          Mánudagskvöldið 22. nóvember 2004 barst tilkynning til Neyðarlínunnar þess efnis að eldur hefði kviknað á athafnasvæði stefnda við Klettagarða 9 í Reykjavík. Tilkynnandi var starfsmaður stefnda, en hann varð fyrstur var við eldinn. Samkvæmt lýsingu hans kom eldurinn upp í rúmlega 200 m2 bárujárnsklæddri skemmu sem stóð á suðausturhlið lóðarinnar en þaðan náði hann að teygja sig í dekkjahrúgu sem og timburhaug sem staðsett voru við og ofan á skemmunni. Stefnandi sendi þegar í stað allt tiltækt lið og tækjabúnað á vettvang til að ráða niðurlögum eldsins. Erfiðlega gekk að ráða við eldhafið sem myndast hafði en stefnandi kveður að þar hafi ráðið mestu að aðstæður á vettvangi til slökkvistarfs voru óhagstæðar, auk þess sem eldmatur var mikill. Stefnandi tók þá ákvörðun um að ráðast í sértækar slökkviaðgerðir til að hefta frekari útbreiðslu eldsins, en við þær aðgerðir naut stefnandi aðstoðar verktakafyrirtækisins E.T. ehf., sem lagði til mannskap og tækjabúnað. Fór slökkvistarf þannig fram að tvær hjólaskóflur í eigu E.T. ehf. mokuðu efni úr brennandi dekkja- og brotajárnshrúgum en síðan var efninu rutt yfir á lóð E.T. ehf., þar sem slökkt var í dekkjunum með vatni. Stærstum hluta slökkvistarfs lauk árla morguns 23. nóvember 2004. Formlegu slökkvistarfi lauk síðan rétt eftir hádegi daginn eftir.

Með bréfi dagsettu 21. desember 2004 krafði E.T. ehf. vátryggingafélag stefnda, Vörð Íslandstryggingu hf., um greiðslu bóta vegna þess tjóns sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir við slökkvistarfið. Í bréfinu kemur fram að tjónsfjárhæðin hafi numið 14.593.688 krónum. Með bréfi tryggingafélagsins frá 5. janúar 2005 var greiðsluskyldu hafnað með þeim rökstuðningi að dekkjahrúgan sem björgunaraðgerðir E.T. ehf. hefðu einkum beinst að hefði verið ótryggð. Stjórn stefnanda tók þá ákvörðun á fundi stjórnar 14. janúar 2005 að greiða kostnað þeirra utanaðkomandi aðila sem hefðu komið að slökkvistarfi umrætt sinn, þ.á m. verktakafyrirtækisins E.T. ehf. Til að leggja mat á sannanlegt tjón E.T. ehf. voru af hálfu stefnanda fengnir til þess tveir óvilhallir matsmenn, þeir Ólafur B. Jónsson meistari í vélvirkjun og Ingvar Sveinbjörnsson lögmaður. Sömdu þeir tvær matsgerðir í tengslum við álitaefnið. Eina í tengslum við kostnað sem E.T. ehf. þurfti að bera vegna aðstoðar við slökkvistarf, en sú matsgerð er dagsett 13. ágúst 2005. Þá sömdu þeir aðra vegna kostnaðar við hreinsun úrgangs af lóð E.T. ehf. í kjölfar brunans. Sú matsgerð er dagsett 4. apríl 2006. Niðurstaða fyrri matsgerðarinnar er sú að áfallinn kostnaður E.T. ehf. vegna aðstoðar við slökkvistarf nemi 13.679.952 krónum. Niðurstaða síðari matsgerðarinnar er sú að tjón E.T. ehf. vegna hreinsunar á lóð sinni í kjölfar brunans á athafnasvæði stefnda nemi 11.963.426 krónum. Eftir að niðurstöður matsgerðanna lágu fyrir gekk stefnandi til uppgjörs við E.T. ehf. á grundvelli þeirra og greiddi félaginu 25.643.378 krónur 24. ágúst 2005. Á dskj. nr. 19 og 28 liggja frammi kvittun og svonefnt uppgjör vegna þeirrar greiðslu.

          Stefnandi heldur því fram að stefnda hafi verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við matsgerðirnar og skipan matsmanna. Stefndi mótmælir því hins vegar og bendir á að umræddir matsmenn hafi verið skipaðir án nokkurs samráðs við stefnda og hafi stefndi aldrei átt þess kost að gæta hagsmuna sinna þegar möt hafi farið fram.

          Með bréfum lögmanns stefnanda til stefnda frá 5. maí 2006 og 18. ágúst 2006 var þess krafist að stefndi greiddi stefnanda bætur vegna sannanlegs tjóns sem stefnandi hefði orðið fyrir. Hafnaði stefndi kröfum stefnanda með bréfum dagsettum 22. maí 2006 og 28. ágúst 2006.

          Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Einar Ásgeirsson framkvæmdastjóri stefnda, Lúðvík Gústafsson deildarstjóri og Baldur Sturla Baldursson áður verkefnisstjóri á forvarnarsviði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

          Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveður kröfur sínar sundurliðast miðað við bætur vegna ráðstafana við slökkvistarf og bætur vegna hreinsunar úrgangs. Skaðabótakrafan byggist á almennu skaðabótareglunni, eða sakarreglunni. Stefndi hafi valdið verktakafyrirtækinu E.T. ehf. tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti í skilningi reglunnar. Eigi það einnig við um stefnanda sem tekið hafi yfir og fengið framselda skaðabótakröfu félagsins. Sú starfsemi sem fari fram á athafnasvæði stefnda geti haft í för með sér mengun og sé því starfsleyfisskyld lögum samkvæmt. Þar sem stefndi sérhæfi sig í móttöku, flokkun og pökkun spilliefna og annarra úrgangsefna sem þurfi sérstaka meðhöndlum og forvinnslu fyrir endurvinnslu og förgun blasi við að á honum hvíli rík öryggis- og eftirlitsskylda í tengslum við starfsemina. Að mati stefnanda hafi stefndi vanrækt þetta hlutverk og hafi það orsakað fjártjón E.T. ehf. og þar með stefnanda. Um að sakarskilyrði almennu skaðabótareglunnar séu uppfyllt vísi stefnandi til þess sem fram sé komið um atvik málsins og leggi áherslu á eftirfarandi. Stefndi reki starfsleyfisskylda starfsemi eins og fyrr greini. Um starfsleyfið gildi ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerða sem settar hafi verið með stoð í lögunum, þ.á m. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun.

Meginmarkmið með setningu þess stranga regluverks sem um starfsleyfið gildi sé fyrst og fremst að stuðla að því að meðhöndlun spilliefna, s.s. rafgeyma og olíu og úrgangsefna valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið. Þá sé því ekki síður ætlað að tryggja að kröfur í starfsleyfi og reglugerðum séu uppfylltar. 

Starfsleyfi skuli ná til allra rekstrarþátta, en í ákvæðum þess skuli m.a. gera kröfu um að dregið sé með skipulögðum hætti úr myndun úrgangs. Úrgangi sem myndast hafi skuli komið í endurnotkun og endurnýtingu og förgun þess úrgangs sem ekki sé hægt að endurnota eða endurnýta verði með skipulögðum hætti. Þá skuli gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir mengunaróhöpp og til að draga úr afleiðingum þeirra, m.a. með gerð viðbragðs- og neyðaráætlana. Stefndi hafi fyrst fengið starfsleyfi vegna mengunarvarna árið 1991 útgefið af umhverfisráðherra til 10 ára. Á árinu 1998 hafi umhverfisráðuneytið úrskurðað að útgáfa starfsleyfis og eftirlit með starfsemi fyrirtækisins væri hjá Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur. Að fenginni þeirri niðurstöðu hafi verið hafist handa við gerð nýs starfsleyfis sem út hafi verið gefið 12. apríl 1999. Stefndi hafi kært starfsleyfisskilyrðin til umhverfisráðuneytisins, sem fallist hafi á eina meginkröfu fyrirtækisins um að ekki þyrfti að malbika jafnstórt svæði á lóðinni og starfsleyfisskilyrði gerðu ráð fyrir. Starfsleyfi, svo breytt, hafi síðan verið gefið út 17. ágúst 1999 til fimm ára. Hafi það þar af leiðandi fallið úr gildi 17. ágúst 2004.

Gildissvið starfsleyfisins sé markað í gr. 1.1, en þar segi m.a. að leyfið gildi fyrir móttöku forvinnslu og geymslu brotamálma á lóðinni Klettagörðum 9 og flutning brotamálms til og frá fyrirtækinu. Það nái þó ekki til móttöku og forvinnslu rafgeyma og rafhlaðna eða rafspenna, rofa og þétta sem hafi ekki verið tæmdir á fullnægjandi hátt, brennslu af neinu tagi eða flutnings á spilliefnum. Það nái heldur ekki til móttöku spilliefna annarra en þeirra sem kunni að tilheyra og berast með bílhræjum, vélum, tækjum og öðrum slíkum búnaði, sbr. önnur ákvæði starfsleyfisskilyrðanna. Í öðrum ákvæðum starfsleyfisins sé síðan fjallað á mjög ítarlegan og greinargóðan hátt um hvaða skilyrði starfsemin þurfi að uppfylla.  

Samkvæmt fortakslausum skilyrðum starfsleyfisins hafi stefnda verið óheimilt að taka á móti, safna og geyma hjólbarða að undanskildum hjólbörðum sem hafi tilheyrt bílhræjum sem stefndi hafi fengið til förgunar. Með öðrum orðum þá hafi stefndi ekki verið viðurkenndur aðili til móttöku hjólbarða einna og sér. Þrátt fyrir þá staðreynd hafði stefndi stundað þá iðju um allnokkurt skeið, eða frá því lög nr. 162/2002 um úrvinnslugjald hafi öðlast gildi, að kaupa ónýta hjólbarða frá ýmsum aðilum, m.a. hjólbarðaverkstæðum, til endurvinnslu og útflutnings. Samkvæmt þeim upplýsingum sem aflað hafi verið í þessu skyni hafi að meðaltali verið um að ræða 150 tonn í hverjum mánuði. Þegar bruninn varð hafi um 2000 tonn af tættum og heilum hjólbörðum verið á lóð stefnda. Af þeim hafi um 300 tonn orðið eldinum að bráð. Samkvæmt skýrslu Tæknideildar lögreglu hafi eldurinn komið upp í vesturhorni skemmu sem stóð á suðaustur hluta lóðarinnar að öllum líkindum vegna bilunar í raftaug sem legið hafi frá hleðslutæki að lyftara sem þar var í hleðslu. Eldsupptök verði þannig rakin beint til fyrirmæla stefnda um að skilja lyftarann eftir í sambandi yfir nótt þegar starfsemin hafi legið niðri. Allt skynsamt fólk eigi að geta sagt sér hversu vafasamt slíkt fyrirkomulag sé og í raun til þess fallið að bjóða hættunni heim. Ekki síst þegar haft sé í huga að inni í mannvirkinu voru, auk margvíslegrar eldfimra efna og málma, geymdir gas- og súrefniskútar. Það blasi við að með háttsemi sinni í umrætt sinn hafi stefndi brotið afar gróflega gegn reglum sem gildi um aðbúnað og öryggi á vinnustað enda hafi honum mátt vera ljós hættan af geymslu eldfimra efna í skemmunni þar sem hleðslutækið var í sambandi. Að mati stefnanda eigi aðgæsluleysi stefnda eitt og sér að nægja til fella bótaábyrgð á hann, enda liggi í augum uppi að hann hafi ekki gætt ýtrustu skyldna sinna í þessu efni. 

Ástæða þyki til að taka það fram að skemman sem um ræði hafi ekki verið til í skrá Fasteignamats ríkisins og þar með ekki til opinbert brunabótamat á húsinu. Þá hafði stefndi ekki sótt um byggingarleyfi fyrir mannvirkið né greitt af því opinber gjöld. Stefnandi haldi því fram að háttsemi stefnda hafi verið saknæm á fleiri vegu. Þannig liggi það alveg ljóst fyrir að það háttsemi stefnda að taka á móti ónýtum hjólbörðum í því mikla magn sem raun beri vitni, safna þeim í hrúgu og geyma þá á lóð sinni, hljóti að teljast saknæm enda hafi stefndi með háttsemi sinni þverbrotið öll skilyrði sem starfsemi hans sé sett í starfsleyfi. Hitt sé þó sýnu alvarlegra að á þeim tíma sem bruninn varð hafi starfsemi stefnda verið án starfsleyfis og hafði raunar verið svo allt frá því 19. ágúst s.á., er þágildandi starfsleyfi féll úr gildi. Megi rekja það ástand til þess að stefndi hafði ekki, þrátt fyrir endurtekin tilmæli Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, nú Umhverfissvið Reykjavíkur, gert viðeigandi ráðstafanir til að koma starfseminni í það horf að unnt væri að endurnýja starfsleyfið. Sé vísað í því sambandi til athugasemda í bréfum Umhverfis- og heilbrigðisstofu annars vegar frá 27. nóvember 2003 og hins vegar frá 25. október 2004, þar sem gerðar séu fjölmargar athugasemdir við starfsemina. Af handahófi megi nefna móttöku og geymslu ónýtra rafgeyma, meðhöndlun spilliefna, geymslumáta mengunarvarnarbúnaðar, eftirlit með olíuskiljum, hæð söfnunarhauga brotamála, hæð rusla og timburhauga, skráningu á starfsemi fyrirtækisins, o.fl. Sérstök athygli sé vakin á þeirri athugasemd sem lúti að móttöku og geymslu ónýtra rafgeyma en líkt og fram komi í síðarnefnda bréfinu hafði stefndi ekki leyfi fyrir móttöku slíkra spilliefna. Hafi verið farið fram á það í bréfinu að stefndi aflaði sér tafarlaust slíks starfleyfis hjá Umhverfisstofnun. Skemmst sé frá því að segja að stefndi hafði ekki orðið við tilmælum Umhverfis- og heilbrigðisstofu er bruninn varð.

Þá liggi einnig fyrir að fleiri eftirlitsaðilar hafi gert athugsemdir við starfsemi stefnda fyrir brunann. Á grundvelli fyrirmæla í lögum og reglugerðum um brunamál og brunavarnir, sbr. lög nr. 75/2000 um brunavarnir, reglugerð nr. 198/2000 um eldvarvarnareftirlit sveitarfélaga með atvinnuhúsnæði sem tekið hafi verið í notkun, reglugerð nr. 200/1994 um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði og byggingarreglugerð nr. 441/1998, hafi forvarnardeild stefnanda sent bréf til stefnda 4. júní 2004 þar sem bent hafi verið á þá augljósu staðreynd að almannahætta gæti skapast ef kviknaði í haugum af endurvinnanlegum efnum á lóð hans. Í bréfinu hafi fyrirsvarsmönnum stefnda verið veittur frestur til 14. s.m. til að gera grein fyrir því á hvern hátt þeir hygðust koma í veg fyrir fyrrgreindar afleiðingar ef um bruna yrði að ræða. Svar stefnda hafi borist forvarnardeild stefnanda með bréfi 30. september sama ár. Í því segi m.a. „Tímabundið ástand hefur skapast hjá fyrirtækinu þar sem dekk og dekkjakurl hefur safnast upp. Þetta ástand hefur skapast af þeim sökum að fyrirtækið stefnir að því að flytja þennan úrgang erlendis og hefur það þegar náð samningum við erlendan úrvinnsluaðila og flutningsaðila. Það sem uppá vantar er staðfesting frá umhverfistofnun í Bretlandi (Environmental Agency) sem er væntanleg á næstu dögum.

Stefnt er að því að flytja dekkjakurlið með 40ft. gámum þar sem hver gámur rúmar 26 tonn. Áætlanir fyrirtækisins stefna að því að klára þær birgðir sem safnast hafa upp á næstu 3-4 mánuðum, en strax í byrjun nóvember munu dekkjabirgðir hafa minnkað umtalsvert“.

Þá komi fram í bréfinu lýsing á því hvernig stefndi hygðist leysa þessi mál til framtíðar með því að hafa steypt hólf á milli efnisflokka þannig að bruni bærist ekki á milli hólfa. Af hálfu forvarnardeildar stefnanda hafi ekki verið gerðar athugasemdir við þann frest sem stefndi æskti til að gera úrbætur í tengslum við brunavarnir á athafnasvæði sínu. Fresturinn hafi hins vegar verið liðinn þegar bruninn varð án þess að fyrirætlanir stefnda um minnkun dekkjabirgða næðu fram að ganga. Að mati stefnanda blasi við að sú saknæma háttsemi sem stefndi hafi sýnt af sér í málinu, fólgin í því að brjóta gróflega gegn ákvæðum þeirra laga sem um starfsemi hans gildi, hafi verið meginorsök þess að bruninn hafi orðið af þeirri stærðargráðu sem raun beri vitni. Að sama skapi sé óhætt að fullyrða að ef saknæmri háttsemi stefnda hefði ekki verið til að dreifa í málinu hefði verktakafyrirtækið E.T. ehf. ekki orðið fyrir tjóni af völdum brunans. Hér komi það til að hefði eldurinn takmarkast við það mannvirki sem hann kom upp í megi slá því föstu að venjubundinn viðbúnaður af hálfu stefnanda, fjórar til sex slökkvibifreiðar ásamt tilheyrandi mannskap, hefðu dugað til að ráða niðurlögum hans. Sem kunnugt sé hafi hins vegar reynst nauðsynlegt að grípa til sértækra slökkviaðgerða þegar á vettvang var komið enda um stórbruna að ræða. Við þær hafi stefnandi notið aðstoðar E.T. ehf., sem stefnandi hafði sérstaklega óskað eftir. Í málinu liggi fyrir að E.T. ehf. hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa. Á því tjóni beri stefndi hiklaust ábyrgð, enda hafi verið færð fyrir því gild rök að hefði hann gert viðeigandi ráðstafanir í samræmi við fyrirmæli eftirlitsaðila varðandi nánar tilgreinda þætti starfseminnar, hefði það gríðarlega mikla magn hjólbarða sem brann aldrei safnast saman á athafnasvæði hans með þeim hætti sem það gerði. 

Framangreindu til viðbótar byggi stefnandi skaðabótakröfu sína á reglum um óbeðinn erindrekstur, negotiorum gestio, enda skilyrði hans skýrlega fyrir hendi. Skilyrði þess að reglur um óbeðinn erindrekstur eigi við sé meðal annars að eigandi þeirra hagsmuna sem bjargað sé geti ekki gætt þeirra sjálfur. Við stórbrunann á athafnasvæði stefnda að Klettagörðum 22. nóvember 2004 hafi sú ákvörðun verið tekin af þáverandi slökkviliðsstjóra að grípa til sértækra slökkviaðgerða, m.a. í því skyni að afstýra almannahættu og hindra frekara tjón. Meðal ráðstafana sem gripið hafi verið til í því sambandi hafi verið að óska eftir aðstoð E.T. ehf., enda fyrirtækið búið tækjakosti sem hafi hentað afar vel til slökkvistarfs. Á grundvelli þeirra meginsjónarmiða sem eigi við um óbeðinn erindrekstur liggi alveg skýrt fyrir að erindrekinn, í þessu tilviki stefnandi, eigi rétt á bótum úr hendi þess sem erindið var rekið fyrir, þ.e.a.s. stefnda, vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir við erindreksturinn, enda stefndi átt sök á þeirri stöðu sem upp var kominn og var tvímælalaust útilokað að gæta hagsmuna sinna á staðnum. Ekki sé kunnugt um íslenska dóma þar sem reglum um óbeðinn erindrekstur sé beitt til að fella bótaábyrgð á eiganda þeirra hagsmuna sem bjargað sé, en í dómi í UfR 1997, bls. 183, í máli sem sé að öllu leyti sambærilegt máli því sem hér um ræði, hafi Hæstiréttur Danmerkur reist dómsniðurstöðu meðal annars á reglum um óbeðinn erindrekstur.

Verktakafyrirtækið E.T. ehf. hafi verið fengið til aðstoðar við slökkvistarf á grundvelli reglu 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2000, en þar sé mælt fyrir um heimild slökkviliðs til að nota öll tæki og áhöld sem til náist og að gagni megi koma við slökkvistarf þegar eldsvoða beri að höndum. Ágreiningslaust sé í málinu að E.T. ehf. hafi orðið fyrir tjóni við slökkvistarf. Hafi fyrirtækið krafið bæði stefnda sem og vátryggingafélag hans um bætur vegna tjónsins. Báðir aðilar hafi hafnað greiðsluskyldu. Að fenginni þeirri afstöðu hafi verið samþykkt á stjórnarfundi stefnanda 14. janúar 2005 að hann myndi greiða kostnað utanaðkomandi aðila vegna aðgerða við slökkvistarf og sækja svo málið gagnvart tryggingafélagi stefnda eða þeim sem málið varði. Í málinu liggi fyrir að stefnandi hafi greitt E.T. ehf. 25.643.378 krónur vegna tjóns sem það hafi orðið fyrir við slökkvistarf á athafnarsvæði stefnda 22. nóvember 2004 á grundvelli tveggja matsgerða sem liggi fyrir í málinu. E.T. ehf. hafi framselt kröfuna til stefnanda. Við blasi að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um dómkröfuna.

Til stuðnings dómkröfum sínum vísar stefnandi til ólögfestra meginreglna íslensks skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerða sem settar hafi verið með stoð í lögunum, þ. á m. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Ennfremur til einstakra ákvæða í lögum nr. 75/2000 um brunavarnir, lögum nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda, reglugerð nr. 198/2000 um eldvarvarnareftirlit sveitarfélaga með atvinnuhúsnæði sem tekið hafi verið í notkun, reglugerð nr. 200/1994 um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Um dráttarvaxtakröfu vísast til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

          Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að kröfum stefnanda sé í heild eða að hluta ranglega beint að sér. Að svo miklu leyti sem kröfum stefnanda sé ranglega beint að stefnda beri að sýkna hann af þeim á grundvelli aðildarskorts, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2000 sé hverjum manni skylt þegar eldsvoða beri að höndum að leyfa aðgang að húsi sínu og lóð og una því að brotið verði niður og rutt burt því sem til fyrirstöðu sé við slökkvistarf. Hafi slökkviliðið rétt til að nota öll tæki og áhöld sem til náist og að gagni megi koma við slökkvistarf þegar eldsvoða beri að höndum. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar teljist tjón samkvæmt 2. mgr. „brunatjón“. Að mati stefnda verði að líta svo á að aðkoma E.T. ehf. að slökkvistarfi hafi byggst á ákvæði 2. mgr. 21. gr. laga um brunavarnir, sbr. einnig eftirfarandi umfjöllun sem fram komi í stefnu: „[V]erktakafyrirtækið E.T. ehf. var fengið til aðstoðar við slökkvistarf á grundvelli reglu 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir.“ Tjón E.T. ehf. vegna slökkvistarfsins teljist því „brunatjón“ í skilningi 3. mgr. sama ákvæðis. Af stefnu og öðrum gögnum málsins verði ótvírætt ráðið að stefnandi líti svo á að fyrri kröfuliður hans að fjárhæð 13.697.652 krónur „vegna aðstoðar E.T. ehf. við slökkvistarf“ teljist „brunatjón“. Að mati stefnda beri einnig að líta svo á að seinni kröfuliður stefnanda, þ.e. að fjárhæð 11.963.426 krónur „vegna hreinsunar á lóð E.T. ehf.“, teljist „brunatjón“, en af stefnu og gögnum málsins verði, að mati stefnda, ekki fullkomlega ráðið hver sé afstaða stefnanda í þessu tilliti. Stefndi byggi niðurstöðu sína um að þessi kröfuliður flokkist einnig sem „brunatjón“ á því að hér sé um að ræða tjón sem sé til komið vegna slökkvistarfsemi í skilningi 2. mgr. 21. gr. laganna. Sé ekki fallist á að umrætt tjón eigi samkvæmt orðum sínum undir ákvæði 21. gr. laganna telji stefndi rétt að ákvæðinu sé beitt um tjónið samkvæmt grunnrökum þess eða með lögjöfnun.

Í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2000 sé fjallað um brunatjón sem hljótist af ráðstöfunum skv. 2. mgr. greinarinnar: „Fjártjón sem hlýst af ráðstöfunum skv. 2. mgr. telst brunatjón og skal bætt af viðkomandi vátryggingafélagi sé eign brunatryggð. Sveitarstjórn greiðir kostnað sem kann að koma til vegna nauðsynlegra aðgerða við framkvæmd slökkvistarfs og ekki er greiddur af vátryggingafélagi“. Sé síðari málsliður greinarinnar í samræmi við meginreglu 10. gr. laganna um að sveitarstjórnir beri ábyrgð á kostnaði vegna slökkvistarfsemi. Samkvæmt tilvitnaðri málsgrein skuli viðkomandi tryggingafélag, væntanlega stefnda, bæta tjón sem hljótist af ráðstöfunum samkvæmt 2. mgr. greinarinnar sé eign brunatryggð. Sé eign hins vegar ekki brunatryggð skuli viðkomandi sveitarstjórn bera kostnaðinn. Samkvæmt framangreindu beri stefnanda að beina hvers konar kröfum vegna brunatjóns að vátryggingafélagi stefnda, í fyrsta lagi, eða hlutaðeigandi sveitarstjórn fáist tjón ekki þannig bætt. Stefndi ber hins vegar að lögum ekki persónulega greiðsluábyrgð vegna brunatjóns. Sé kröfum stefnanda vegna brunatjóns þannig ranglega beint að stefnda og í beinu ósamræmi við það fyrirkomulag sem lagt sé upp með í 3. mgr. 21. gr. laganna, sbr. og einnig 10. gr. þeirra. Í þessu sambandi verði að hafa hugfast að niðurstaða um skyldu stefnda til greiðslu „brunatjóns“ þýði ekki að stefndi eigi sjálfkrafa endurkröfu á hendur vátryggingafélagi sínu. Dómur um skyldu stefnda til greiðslu bindi m.ö.o. ekki vátryggingafélag stefnda. Hafi vátryggingafélag stefnda raunar þegar hafnað greiðsluskyldu í þessu tilliti. Stefndi gæti því á endanum „setið uppi“ með „brunatjón“ stefnanda andstætt því sem lögin ráðgeri. Jafnframt sé rétt að taka fram að það sé ekki hlutverk stefnda að svara fyrir afstöðu vátryggjanda síns í þessu tilliti.

Fari svo að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að allt tjón E.T. ehf. teljist ekki „brunatjón“ byggi stefndi á því að Reykjavíkurborg beri ábyrgð á hvers konar slíku tjóni. Vísi stefndi í þessu sambandi til meginreglu 10. gr. laga nr. 75/2000 þar sem segi að sveitarfélög beri kostnað af starfsemi slökkviliðs, en ljóst sé að allt tjón E.T. ehf. sé til komið vegna slökkvistarfsemi stefnanda. Niðurstaða þess efnis að aðili sem eldsvoða beri að höndum hjá sé persónulega ábyrgur fyrir kostnaði sem til falli vegna slökkvistarfsemi sé að mati stefnda í andstöðu við það fyrirkomulag sem lagt sé upp með í 10. gr. laganna svo og tilgang þeirra, sem og önnur lög um kostnað vegna almannaþjónustu á Íslandi. Skýra verði lög nr. 75/2000 með hliðsjón af þeim að mati stefnda.

Stefndi byggi jafnframt á því að hvers konar „kröfur“ sem stefnandi telji sig eiga á hendur stefnda séu fallnar niður. Af stefnu málsins verði ráðið að stefnandi líti svo á að hann hafi fengið kröfur E.T. ehf. framseldar til sín. Gögn málsins beri það hins vegar ótvírætt með sér að umræddar kröfur E.T. ehf. hafi verið greiddar af stefnanda, sbr. t.d. uppgjör og kvittun 24. ágúst 2005 og 12. maí 2006. Í kvittun milli stefnanda og E.T. ehf. frá 24. ágúst 2005, segi t.d. orðrétt: „Móttakandi staðfestir að ofangreind fjárhæð er lokagreiðsla vegna þess brunatjóns sem ET ehf. varð fyrir þann 23. nóvember 2004 og allar kröfur vegna þess þannig að fullu greiddar“. Í uppgjöri stefnanda og E.T. ehf. frá 12. maí 2006, segi orðrétt: „E.T. ehf. staðfestir með undirritun sinni á skjal þetta að um lokagreiðslu er að ræða vegna þess tjóns sem fyrirtækið varð fyrir vegna aðstoðar þess við slökkvistarf... Um frekari greiðslur af hálfu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. til fyrirtækisins vegna brunans verður þar af leiðandi ekki að ræða.“ Umræddir gerningar geti aldrei túlkast sem framsalsgerningar, enda algjörlega á skjön við hefðbundna framsalsgerninga.

Að mati stefnda sé augljóst samkvæmt framangreindu að stefnandi hafi greitt E.T. ehf. þær kröfur sem fyrirtækið taldi sig eiga. Slíkt feli ekki í sér framsal í skilningi kröfuréttar, svo sem stefnandi virðist telja, heldur sé það meginregla í kröfurétti að við greiðslu kröfu falli kröfuréttindi niður óháð því hver greiði kröfuna. Ekki sé hægt að framselja kröfu sem þegar hafi verið greidd. Verði samkvæmt þessu að sýkna stefnda af hvers konar kröfum stefnanda.

Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á að stefnandi ætti ekki „endurkröfu“ á hendur stefnda samkvæmt almennum reglum þar um. Sé heldur ekki byggt á því sem málsástæðu í málinu.

Stefndi byggi jafnframt á því að skilyrði skaðabótaábyrgðar séu ekki uppfyllt í málinu. Vísi stefndi í þessu sambandi einkum til saknæmis- og ólögmætisskilyrða skaðabótaábyrgðar samkvæmt almennu skaðabótareglunni, svo og til krafna skaðabótaréttar um orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Í málinu liggi ekki fyrir nein sönnun þess með hvaða hætti eldsupptök voru. Fáist að mati stefnda vart staðist að hafa uppi skaðabótakröfu vegna tjóns af völdum eldsvoða án þess að eldsupptök séu leidd í ljós. Dugi þannig ekki í þessu tilliti að vísa með almennum hætti til þess að stefndi hafi vanrækt þær öryggis- og eftirlitsskyldur sem á honum hvíldu og að stefndi hafi brotið gegn ýmsum reglum, án nákvæmrar tilgreiningar, og án þess að leitt sé í ljós hvort og þá nákvæmlega hvaða afleiðingar meint vanræksla og meint brot gegn einstökum reglum höfðu á tjónsatburðinn. Að mati stefnda verði slíkt tæpast leitt í ljós nema með matsgerð dómkvaddra matsmanna. Verði stefnandi, sem bótakrefjandi, að bera hallann af hvers konar sönnunarskorti í þessum efnum. Að mati stefnda leiði þetta eitt og sér til þess að sýkna verði stefnda af hvers konar kröfum stefnanda.

Stefndi ítreki jafnframt, sbr. og fyrri umfjöllun, að þó svo að stefndi hafi ekki haft starfsleyfi á tíma brunans sé það venjuhelguð framkvæmd að fyrirtæki sem stundi starfsleyfisskylda starfsemi geti haldið áfram undir reglubundu eftirliti eftirlitsaðila að sinna hlutaðeigandi starfsemi í skjóli hins eldra leyfis meðan beðið sé útgáfu nýs leyfis svo sem hér hafi verið ástatt. Hefði enda að öðrum kosti verið farið fram á það við stefnda af hálfu eftirlitsaðila að allri starfsleyfisskyldri starfsemi yrði hætt án tafar.

Stefndi árétti jafnframt að hann hafi verið í fullkomlega góðri trú um að honum væri heimilt að taka við hjólbörðum án þess að þeir fylgdu sérstaklega einstökum bílhræjum. Hér beri að hafa í huga að engin rökbundin nauðsyn hafi staðið til þess að afla sérstaklega útgáfu nýs starfsleyfis vegna þess eins að stefndi, í sumum tilvikum, tæki við hjólbörðum án þess að þeir fylgdu sérstaklega einstökum bílhræjum. Um meðferð og vinnslu slíkra hjólbarða hafi gilt nákvæmlega sömu sjónarmið og um meðferð og vinnslu annarra hjólbarða sem stefndi hafi tekið á móti. Engin leynd hafi hvílt yfir starfsemi stefnda í þessu tilliti og hafi verið reglubundið eftirlit með þessari starfsemi stefnda eins og annarri starfsemi fyrirtækisins. Hafi þessi starfsemi stefnda að öllu leyti verið „uppi á borðinu“ gagnvart þeim aðilum sem höfðu eftirlit með starfsemi stefnda lögum samkvæmt. Í samræmi við þetta hafi stefnda sérstaklega verið heimiluð meðferð hjólbarða með útgáfu nýs starfsleyfis 16. nóvember 2005. Þess utan sé starfsleyfið útgefið í ágúst 1999 ekki fullkomlega skýrt um heimildir stefnda í þessu tilliti, þ.e. þannig að ótvírætt megi ætla að móttaka hjólbarða sé bundin við einstök bílhræ sem móttekin séu. Sé ekki rétt að stefndi beri hallann af óskýrleika starfsleyfisins í þessu tilliti. Ennfremur leyfi stefndi sér að benda á að fordæmi séu fyrir því að fyrirtæki stundi starfsemi undir sérstöku eftirliti heilbrigðisyfirvalda sem ekki sé í fullkomnu samræmi við útgefið starfsleyfi, enda sé um eðlislíka starfsemi að ræða svo sem hér var ástatt.

Stefnandi byggi jafnframt kröfu sína á reglum um óbeðinn erindrekstur. Sé á því byggt að á grundvelli þeirra meginsjónarmiða sem liggi til grundvallar reglum um óbeðinn erindrekstur liggi fyrir að erindrekinn, í þessu tilviki stefnandi, eigi rétt á bótum úr hendi þess sem erindið var rekið fyrir, þ.e. stefnda, vegna þess tjóns sem erindrekinn varð fyrir við erindreksturinn. Af hálfu stefnda sé hvers konar kröfum stefnanda í þessu tilliti alfarið hafnað. Stefndi bendi í fyrsta lagi á að stefnandi flokkist ekki sem „erindreki“ gagnvart stefnda í skilningi tilvísaðrar reglu. Verði þegar af þeirri ástæðu að hafna hvers konar kröfum stefnanda. Stefndi bendi jafnframt á að samkvæmt meginreglum um óbeðinn erindrekstur sé talið að bíði erindreki eignatjón við erindreksturinn sé sá sem hann vinnur fyrir, hér stefndi, almennt ekki bótaskyldur, nema að uppfylltum skilyrðum almennra skaðabótareglna. Verði jafnframt af þessari ástæðu að hafna hvers konar kröfum stefnanda. Að sama skapi sé ljóst að um tjón vegna eldsvoða gilda lögákveðnar reglur, sbr. lög nr. 75/2000, og komi því að mati stefnda ekki til greina að beita hér reglum um óbeðinn erindrekstur. 

Fjárhæð dómkröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt sem allt of hárri og ekki nægilega rökstuddri. Jafnframt telji stefndi ósannað að allt tjón stefnanda, samkvæmt dómkröfu hans, verði rakið til eldsvoðans á lóð stefnda. Fyrri kröfuliður stefnanda að fjárhæð 13.679.952 krónur, þ.e. „vegna aðstoðar E.T. ehf. við slökkvistarf“, byggi á matsgerð frá 13. ágúst 2005. Svo sem ráðið verði meðal annars af matsgerðinni sjálfri, sem og matsbeiðninni, hafi stefndi ekki verið aðili að umræddri matsbeiðni og matsgerð. Umræddir matsmenn hafi verið skipaðir án nokkurs samráðs við stefnda og stefndi aldrei átt þess kost að gæta hagsmuna sinna við matið. Hafi matsgerðin ekkert sönnunargildi í málinu að mati stefnda. Í þessu sambandi skuli jafnframt bent á að umræddur kröfuliður stefnanda sé ekki studdur neinum öðrum sýnilegum gögnum svo sem greiðslukvittunum. Verði stefnandi, sem bótakrefjandi, að bera hvers konar halla af sönnunarskorti í þessum efnum.

Að því er varði síðari kröfulið stefnanda að fjárhæð 11.963.426 krónur vegna hreinsunar á lóð E.T. ehf., hafni stefndi honum jafnframt sem allt of háum, órökstuddum og ósönnuðum. Jafnframt telji stefndi að sér hafi ekki verið gefinn fullnægjandi kostur á að gæta hagsmuna sinna við matið. Telji stefndi nauðsynlegt að dómkvaddir matsmenn leggi mat á tjón stefnanda.

Stefndi mótmæli jafnframt upphafstíma dráttarvaxta. Af hálfu stefnda sé þess krafist að dráttarvextir verði reiknaðir frá þingfestingardegi málsins, sbr. 2. málsl. 9. gr. laga nr. 38/2001, en stefndi telji sig ekki hafa átt þess fyrr kost að taka fullnægjandi afstöðu til bótakröfu stefnanda.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 1. mgr. 16. gr. laganna, 31. gr. og IX. kafla laganna, laga um brunavarnir nr. 75/2000, sbr. einkum 10. gr. og 2. og 3. mgr. 21. gr. laganna, meginreglna skaðabótaréttar, svo og meginreglna kröfu- og samningaréttar, þ.m.t. um lok og framsal kröfuréttinda. Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við 129. og 130 gr. laga nr. 91/1991.

          Niðurstaða:   

          Tildrög þess réttarágreinings sem hér er dæmt um eru þau að mánudagskvöldið 22. nóvember 2004 kom upp eldur á athafnasvæði stefnda við Klettagarða 9 í Reykjavík. Allt tiltækt slökkvilið stefnanda var sent á staðinn en að sögn stefnanda gekk erfiðlega að ráða niðurlögum eldsins. Stefnandi réðst í sértækar slökkviaðgerðir til að hefta frekari útbreiðslu eldsins en við þær aðgerðir naut hann aðstoðar verktakafyrirtækisins E.T. ehf. Lagði félagið til mannskap og tækjabúnað til slökkviaðgerða. Fólst það einkum í því að stórar hjólaskóflur mokuðu brennandi dekkjum úr eldhafinu og færðu yfir á athafnasvæði verktakafyrirtækisins. Þar var í kjölfarið slökkt í dekkjunum. Í dóminum var sýnt myndskeið úr ljósvakamiðlum er teknar voru þetta kvöld. Í þeim má vel sjá hve yfirgripsmikið eldhafið hefur verið þetta kvöld og í hverju slökkvistarf fólst.

Í máli þessu reisir stefnandi málatilbúnað sinn alfarið á almennu sakarreglunni. Er við það miðað að stefndi hafi vanrækt öryggis- og eftirlitsskyldu sem á honum hvíldi og þar af leiðandi hafi hann valdið verktakafyrirtækinu E.T. ehf. tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Er á því byggt að E.T. ehf. hefði ekki orðið fyrir tjóni af völdum brunans ef stefndi hefði sinnt lögbundnum skyldum sínum. Stefndi byggir aftur á móti sýknukröfu sína á því að stefnandi beini kröfum sínum að röngum aðila, auk þess sem greiðsluskylda hvíli ekki á stefnda heldur annað hvort vátryggingafélagi stefnda eða hlutaðeigandi sveitastjórn samkvæmt ákvæðum laga nr. 75/2000.  

Á því er byggt af hálfu stefnanda sjálfs að aðgerðir hans á brunastað umrætt sinn hafi sótt stoð í 21. gr. laga nr. 75/2000. Samkvæmt 2. gr. laganna gilda þau m.a. um slökkvistarf vegna eldsvoða og merkir eldsvoði það þegar eldur er laus og nauðsyn er sérstakra slökkviráðstafana. Samkvæmt 10. gr. laganna ber sveitastjórn, hver í sínu umdæmi, ábyrgð á starfsemi slökkviliðs og ber kostnað af þeirri starfsemi. Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laganna er hverjum manni skylt að leyfa aðgang að húsi sínu og lóð og una því að brotið verði niður og rutt burt því sem til fyrirstöðu er við slökkvistarf þegar eldsvoða ber að höndum. Heimilt er að rífa niður byggingar ef slökkviliðsstjóri álítur það nauðsynlegt til að stöðva útbreiðslu elds og slökkvilið hefur rétt til að nota öll tæki og áhöld sem til næst og að gagni mega koma við slökkvistarf þegar eldsvoða ber að höndum. Í 3. mgr. 21. gr. sömu laga kemur fram að fjártjón sem hlýst af ráðstöfunum samkvæmt 2. mgr. teljist brunatjón og skuli það bætt af viðkomandi vátryggingafélagi sé eign brunatryggð. Sé kostnaður hins vegar ekki greiddur af vátryggingafélagi kemur það í hlut sveitarstjórnar að greiða þann kostnað sem kann að koma til vegna nauðsynlegra aðgerða við framkvæmd slökkvistarfs.  

Að mati dómsins er ótvírætt komið fram að allar ákvarðanir og heimildir stefnanda til slökkvistarfs umrætt sinn hafi verið innan gildissviðs laga nr. 75/2000. Lög nr. 75/2000 mæla með skýrum hætti fyrir um hvernig með greiðslu á kostnaði fer í slíkum tilvikum. Byggir niðurstaða um greiðslu kostnaðar ekki á sök á bruna. Þar sem stefnandi ákvað að nota tæki og mannafla verktakafyrirtækisins E.T. ehf. á grundvelli heimilda í 21. gr. laga nr. 75/2000, og vátryggingafélag stefnda hefur neitað greiðsluskyldu, er það sveitarstjórn, í þessu tilviki sveitarfélög þau sem standa að baki sameiginlegu slökkviliði á höfuðborgarsvæðinu, sem ber kostnað af slökkvistarfi á athafnasvæði stefnda. Sá kostnaður sem til féll og um er deilt í máli þessu fólst í notum á tækjabúnaði og mannafla. Auk þess var um að ræða kostnað við hreinsun á athafnasvæði verktakafyrirtækisins, en því var gert að hreinsa svæðið eftir brunann þar sem hætta var talin á að í brunaleifunum væru efni sem gætu valdið mengun. Sá þáttur var í beinum tengslum við brunann sjálfan og órjúfanlegur þáttur í kostnaði við hann. Er hann brunatjón samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2000. Verður ekki fjallað hér um að hvaða marki endurkrafa sveitarfélaga þeirra er standa að sameiginlegu slökkviliði á höfuðborgarsvæðinu hefði komið til álita þar sem málið er ekki lagt upp með þeim hætti. Í samræmi við þessa niðurstöðu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.     

          Í samræmi við niðurstöðu málsins greiði stefnandi stefnda 300.000 krónur í málskostnað.

          Af hálfu stefnanda flutti málið Anton B. Markússon hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefnda Stefán A. Svensson héraðsdómslögmaður.

          Dóminn kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

                                                            D ó m s o r ð:

          Stefndi, Hringrás hf., er sýknað af kröfum stefnanda, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs.

          Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.