Hæstiréttur íslands

Mál nr. 31/2014


Lykilorð

  • Umferðarlög
  • Bifreið
  • Eigin sök
  • Stórkostlegt gáleysi


                                     

Miðvikudaginn 28. maí 2014.

Nr. 31/2014.

Katrín Ylfa Mjallardóttir

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Sverri Jónssyni og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

Umferðalög. Bifreiðar. Eigin sök. Stórkostlegt gáleysi.

K höfðaði mál gegn S og V hf. og krafðist greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem hún varð fyrir sem farþegi bifreiðar í eigu S. Deilt var um hvort K skyldi vegna eigin sakar bera að hluta ábyrgð á tjóninu en K hafði legið, án öryggisbeltis, ofan á þremur farþegum bifreiðarinnar í aftursæti hennar. Var ekki talið að gáleysi K hefði verið svo stórkostlegt að það leiddi til skerðingar á bótarétti hennar samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Var því fallist á kröfur K.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Sigurður Tómas Magnússon prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2014. Hún krefst þess að stefndu greiði sér sameiginlega 2.863.540 krónur með 4,5% ársvöxtum af 482.918 krónum frá 20. mars til 1. september 2010, af 2.863.540 krónum frá þeim degi til 17. ágúst 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi snýst ágreiningur aðila einvörðungu um hvort áfrýjandi skuli vegna eigin sakar bera að hluta ábyrgð á líkamstjóni er hún varð fyrir sem farþegi í bifreiðinni DG 579, er bifreiðin valt og fór út af Suðurlandsvegi 20. mars 2010. Bifreiðin er af gerðinni Volkswagen Polo og ætluð fimm mönnum. Áfrýjandi var þá á leið heim úr sumarbústað, en í bifreiðinni voru sjö manns.

Samkvæmt 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 skal sá sem ábyrgð ber á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Er hér um að ræða skaðabótaábyrgð án sakar. Eftir 1. mgr. 90. gr. sömu laga er það eigandi eða umráðamaður  ökutækis sem ábyrgðina ber á því og er fébótaskyldur samkvæmt 88. gr. laganna. Þá segir í 1. mgr. 91. gr. þeirra að greiðsla á bótakröfu vegna tjóns sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis skuli vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var bifreið sú sem áfrýjandi var farþegi í tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. og var stefndi Sverrir skráður eigandi bifreiðarinnar.

Mælt er fyrir um það í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga að heimilt sé að lækka eða fella niður bætur fyrir líkamstjón ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Stefndu byggja á því að beita beri þessari heimild og lækka bætur til áfrýjanda, þannig að hún beri tjón sitt sjálf að ⅓ hluta vegna stórkostlegs gáleysis sem hafi falist í því að taka sér far með bifreið sem í voru of margir farþegar og liggja í aftursæti bifreiðarinnar ofan á öðrum farþegum án þess að nota öryggisbelti.

Í athugasemdum með frumvarpi að umferðarlögum segir að með ákvæði 2. mgr. 88. gr. laganna sé dregið úr heimild til að lækka eða fella niður bætur vegna líkamstjóns eða vegna missis framfæranda, þannig að lækkun eða niðurfelling bóta megi því aðeins fara fram að sá sem hafi látist eða orðið fyrir tjóni hafi sýnt af sér ásetning eða stórkostlegt gáleysi. Þá segir í athugasemdunum að vegna þessa sé ekki þörf sérákvæðis um vanrækslu á notkun öryggisbeltis eða hlífðarhjálms, sbr. 2. málslið 3. mgr. 67. gr. eldri umferðarlaga nr. 40/1968, en þar var kveðið á um að vanræksla á notkun öryggisbúnaðar eins og öryggisbeltis leiddi ekki til lækkunar eða niðurfærslu fébóta. Verður þessi athugasemd ekki skilin á annan hátt en að löggjafinn hafi talið að það eitt yrði ekki metið til stórfellds gáleysis að nota ekki öryggisbelti og breytir engu um það mat að slík vanræksla varði sektum samkvæmt reglugerð nr. 930/2006, sem sett var á grundvelli heimildar í 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

Í skýrslu ökumanns bifreiðarinnar fyrir héraðsdómi kom fram að áfrýjandi hefði setið við hlið hennar í farþegasæti á leið í sumarbústaðinn fyrr um kvöldið og ,,einhverjir strákar” verið með í för. Ökumaðurinn kvað hafa staðið til að áfrýjandi færi samferða henni í bæinn en kvaðst hafa ætlað sér að skilja strákana eftir. Þeir hafi á hinn bóginn sótt fast að fara með og hafi einn þeirra sest við hlið sér í farþegasætið en áfrýjandi lagst ofan á þá þrjá farþega sem sátu í aftursæti bifreiðarinnar.

Jafnvel þótt áfrýjandi hafi mátt gera sér grein fyrir þeirri hættu er í því fólst að taka sér far í bifreið með ofangreindum hætti, þar sem fyrir voru of margir farþegar, verður ekki talið að það gáleysi teljist svo stórkostlegt að leiði til skerðingar á bótarétti hennar samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Við mat á því er horft til þess að ökumaður bifreiðarinnar bar á því meginábyrgð að of margir farþegar voru í henni og hún átti sök á umferðarslysinu þegar hún missti stjórn á bifreiðinni. Þá ber að líta til þess að áfrýjandi var aðeins sautján ára gömul á slysdegi og hafði þá ekki öðlast ökuréttindi. Að öllu virtu sem rakið hefur verið verða stefndu dæmdir óskipt til að greiða áfrýjanda 2.863.540 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir, en ekki er í málinu ágreiningur um fjárhæðir.

Þá verða stefndu eftir þessum úrslitum dæmdir til að greiða málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir og rennur í ríkissjóð.

 Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda er staðfest. Allur  gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndu, Sverrir Jónsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, Katrínu Ylfu Mjallardóttur, óskipt 2.863.540 krónur með 4,5% ársvöxtum af 482.918 krónum frá 20. mars til 1. september 2010, af 2.863.540 krónum frá þeim degi til 17. ágúst 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði óskipt samtals 1.440.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti er rennur í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 450.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. september sl. var höfðað 18. febrúar sl. af Katrínu Ylfu Mjallardóttur, Noregi, á hendur Sverri Jónssyni, Kríuási 27, Hafnarfirði og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, til greiðslu skaðabóta, vaxta og málskostnaðar vegna afleiðinga umferðarslyss þann 20. mars 2010.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda óskipt 2.863.540 kr. með 4,5% ársvöxtum af 482.918 kr. frá 20. mars 2010 til 20. september 2010, en af 2.863.540 kr. frá þeim degi til 17. ágúst 2012 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Þess er krafist að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi, krafist er þess að dæmdur málskostnaður taki mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og að málskostnaður verði dæmdur eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndu gera þá kröfu aðallega að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Í báðum tilvikum gera stefndu kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Þann 20. mars 2010 varð stefnandi fyrir líkamstjóni í umferðarslysi á Suðurlandsvegi við Sandskeið. Stefnandi var farþegi í bifreiðinni DG-579 af gerðinni Volkswagen Polo. Ökumaður bifreiðarinnar missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af veginum og valt á hliðina. Í bifreiðinni voru þá samtals sjö ungmenni öll fædd á árunum 1992 og 1993. Auk stefnanda voru þar fimm aðrir farþegar, en bifreiðin er skráð fyrir fjóra farþega. Einn farþegi var í framsæti, annar í farangursrými, þrír sátu í aftursætum bifreiðarinnar og lá stefnandi yfir þeim. Ekki voru önnur vitni að slysinu en ungmennin, en það var tilkynnt af vegfaranda sem kom þar að. Samkvæmt lögregluskýrslu varð slysið um klukkan hálfsjö að morgni og er aðstæðum lýst svo að rökkur hafi verið, hálfskýjað og hálka á veginum. Um aðdraganda slyssins er í lögregluskýrslu dagsettri 24. mars 2010 haft eftir ökumanni að bifreiðinni hafi verið ekið á 90 til 100 kílómetra hraða á klukkustund þegar hún byrjaði að rása til hliðar, fór yfir á rangan vegarhelming, valt niður vegkantinn og hafnaði á hliðinni. Ekkert hafi verið að færðinni og gerði hún sér enga grein fyrir því af hverju bifreiðin byrjaði að rása. Ferðin hafi gengið vel yfir heiðina, en ungmennin voru á leið til Reykjavíkur úr sumarbústað fyrir austan fjall.

Bifreiðin DG-579 var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. á slysdegi og stefndi Sverrir Jónsson var þá skráður eigandi bifreiðarinnar. Stefnandi og stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. fólu í sameiningu Stefáni Carlssyni lækni og Guðmundi Péturssyni hrl. að meta afleiðingar slyssins samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Þeir skiluðu matsgerð 3. júlí 2012 og var niðurstaða þeirra sú að stöðuleikatímapunktur væri 20. september 2010, tímabundin óvinnufærni samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga væri ein vika frá slysdegi, tímabil þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga væri ein vika frá slysdegi án rúmlegu, varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga væri 15 stig og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga væri 15%. Að fenginni þessari niðurstöðu matsmanna sendi lögmaður stefnanda stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. kröfubréf 17. júlí 2012, þar sem krafist var greiðslu skaðabóta í samræmi við niðurstöður matsmanna og ákvæði skaðabótalaga. Kröfur stefnanda tóku mið af því að hún ætti rétt til fullra bóta vegna afleiðinga slyssins.

Í málinu er ekki ágreiningur um bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar DG-579 eða metnar afleiðingar áverka sem stefnandi hlaut í slysinu, en deilt er um það hvort stefnandi eigi að bera hluta af tjóni sínu sjálf vegna eigin sakar. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf., sem viðurkennt hefur greiðsluskyldu sína vegna afleiðinga slyssins, hélt því fram í upphafi að stefnandi hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að taka sér far með bifreiðinni DG-579 í umrætt sinn og sú háttsemi leiði til þess að bótaréttur eigi að skerðast þannig að hún beri tvo þriðju hluta tjóns síns sjálf samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga og sjónarmiðum um áhættutöku. Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum taldi í úrskurði sínum 16. ágúst 2011 með vísan til 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga að stefnandi ætti að bera þriðjung tjóns síns sjálf. Bætur hafa verið greiddar á grundvelli þeirrar niðurstöðu, en stefnandi telur að hún eigi rétt til fullra skaðabóta vegna afleiðinga slyssins.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu í síma og fyrir dóminn komu og báru vitni ökumaður og fjórir farþeganna sem voru í bifreiðinni þegar slysið varð. Þá kom fyrir dóminn tilkynnandi slyssins sem kom að vettvangi rétt eftir að slysið hafði orðið.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Málsókn stefnanda byggist á 1. mgr. 88. gr., 90. gr., 91. gr. og 95. gr., sbr. 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, ákvæðum laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Bifreið stefnda Sverris Jónssonar, DG-579, sem stefnandi hafi verið farþegi í þegar hún hafi slasast hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. á slysdegi. Málsókn á hendur stefnda Sverri Jónssyni byggi á sakarreglunni og 88. og 90. gr. umferðarlaga. Málsókn á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. byggi á því að bifreið stefnda Sverris Jónssonar, DG-579, hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu skv. 91. gr. umferðarlaga hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. og beri félagið því greiðsluskyldu vegna afleiðinga slyssins, sbr. 95. gr. og 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga.

Krafa um skaðabætur sé byggð á ákvæðum skaðabótalaga og niðurstöðum matsmannanna Stefáns Carlssonar læknis og Guðmundar Péturssonar hrl. í matsgerð 3. júlí 2012.

Lækka megi eða fella niður, samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga, bætur fyrir líkamstjón af völdum umferðarslyss hafi sá sem fyrir tjóni verði verið meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Við skýringu á skilyrði 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga um „stórkostlegt gáleysi“ megi hafa hliðsjón af því hvernig skilyrðið birtist í vátryggingarétti, sbr. einkum 27. gr. og 90. gr. laga um vátryggingasamninga. Í ákvæðunum komi fram heimild til að lækka eða fella niður ábyrgð vátryggingafélags hafi vátryggður valdið slysi með stórkostlegu gáleysi. Við mat á því skuli litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð hafi borið að og til atvika að öðru leyti. Í athugasemdum við 27. gr. í frumvarpi til laga um vátryggingarsamninga, sem eftir atvikum eigi einnig við um 90. gr. laganna, segi m.a. orðrétt:

„Í 2. mgr. er regla um þau tilvik er vátryggður veldur vátryggingaratburði af stórkostlegu gáleysi. Með sama hætti og kveðið er á um í 2. mgr. 18. gr. VSL losnar félagið úr ábyrgð í heild eða að hluta í þessum tilvikum. Við mat á því að hvaða marki félagið losnar undan ábyrgð skal líta til nokkurra atriða. Er þar fyrst nefnd sök, þ.e. meta á hve mikil sökin er. Einnig skal líta til þess hvernig vátryggingaratburð bar að, en með þessu er átt við, eins og skýrt hefur verið fyrr í frumvarpinu, að líta á til orsakasamhengis milli háttsemi og þess að vátryggingaratburður verður.“

Stefnandi hafni því alfarið að hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í umrætt sinn sem eigi að leiða til þess að réttur hennar til bóta skerðist. Stefnandi telji að sú háttsemi að taka sér far með bifreið þar sem of margir farþegar séu fluttir samtímis geti í mesta falli talist gáleysi, en ekki stórkostlegt gáleysi. Þá bendi stefnandi á að engin orsakatengsl séu á milli háttsemi hennar og þess að slysið átti sér stað. Vera stefnanda í bifreiðinni hafi engan þátt átt í því að bifreiðin fór út af Suðurlandsvegi. Stefndu beri alfarið sönnunarbyrðina fyrir því að háttsemi stefnanda teljist stórkostlegt gáleysi í skilningi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Stefndu beri einnig sönnunarbyrðina um orsakatengsl slyssins og háttsemi stefnanda.

Stefnandi telji að orsök umferðarslyssins verði rakin til annarra atvika en þess að stefnandi hafi tekið sér far með bifreiðinni, og/eða að í bifreiðinni hafi verið of margir farþegar. Sennilegasta skýringin á slysinu sé sú að ökumaður bifreiðarinnar hafi misst stjórn á henni vegna hálku á veginum. Þessi skýring sé mjög líkleg miðað við framburð ökumannsins í lögregluskýrslu þess efnis að bifreiðin hafi byrjað að rása til hliðar. Ökumaðurinn taki jafnframt fram að ekkert hafi verið að færðinni, en í lögregluskýrslunni komi fram að hálka hafi verið á vettvangi slyssins. Af þessu verði ekki dregin önnur ályktun en sú að ökumaðurinn hafi ekki tekið eftir því að hálka hafi verið á veginum og því ekki hagað akstrinum í samræmi við aðstæður. Framangreint verði síðan æ sennilegra þegar litið sé til þess að ökumaður hafi á slysdegi verið um það bil 17 ára og 8 mánaða gömul. Hún hafi haft ökuréttindi frá 11. september 2009 eða í um það bil hálft ár þegar slysið varð. Orsakir slyssins verði frekar raktar til aðstæðna á vettvangi og reynsluleysis ökumannsins, en til þess að of margir farþegar hafi verið í bifreiðinni. Aðrar skýringar geti einnig komið til greina, t.d. ójafn loftþrýstingur í dekkjum eða að ekið hafi verið ofan í hjólför í malbikinu. Ekkert í gögnum málsins bendi til eða renni stoðum undir þá fullyrðingu stefnda að slysið verði rakið til háttsemi stefnanda.

Af framansögðu leiði að bótaréttur stefnanda verði ekki skertur nema full sönnun um hvort tveggja liggi fyrir:

  1. að sú háttsemi að taka sér far með bifreið sem of margir farþegar séu í sé stórkostlegt gáleysi
  2. að orsakatengsl séu á milli þeirrar háttsemi stefnanda, að taka sér far með bifreiðinni DG-579 í umrætt skipti, og þess að slysið hafi orðið.

Sönnunarbyrði um hvort tveggja hvíli á stefndu.

Þá verði ekki hjá því komist að benda á að samkvæmt 2. mgr. 73. gr. umferðarlaga sé það ökumaður bifreiðar sem beri ábyrgð á því að bifreiðinni sé ekki ekið með of marga farþega þannig að það valdi þeim eða öðrum hættu. Ábyrgð á og þar með skylda til að bifreið sé ekki ekið með of marga farþega innanborðs hvíli því ekki á farþegunum heldur ökumanninum sjálfum. Hljóti farþegi líkamstjón vegna þess að bifreið er ofhlaðin sé það á ábyrgð ökumannsins og því stofnist greiðsluskylda úr ábyrgðartryggingu ökutækisins samkvæmt 88. gr. umferðarlaga. Sé það meira að segja óháð sök ökumannsins, enda um hlutlæga bótareglu að ræða. Öðru máli kunni að gegna um bótarétt ökumannsins sjálfs úr slysatryggingu ökumanns, enda kunni að vera litið svo á að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að aka bifreiðinni með of marga farþega. Þá þyrfti að sýna fram á að háttsemin teljist stórkostlegt gáleysi og að orsakatengsl séu á milli háttseminnar og þess að slysið hafi orðið.

Þrátt fyrir að stefnandi haldi því fram að háttsemi hennar í umrætt skipti geti ekki talist stórkostlegt gáleysi þá haldi hún því jafnframt fram að við gáleysismatið verði að hafa hliðsjón af ungum aldri hennar og kunnáttu- og þekkingarleysi. Á slysdegi hafi stefnandi verið um það bil 17 ára og fjögurra mánaða gömul. Stefnandi hafi ekki verið búin að öðlast ökuréttindi á slysdegi og því hvorki haft reynslu né þekkingu á akstri ökutækja. Vitneskja hennar um þá hættu sem kunni að fylgja því að of margir farþegar séu í bifreið á sama tíma geti því ekki talist hafa verið til staðar. Gera verði þá kröfu við gáleysismat að sá sem eigi að hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi hafi mátt vita eða átt að vita um þá hættu sem af háttseminni gæti stafað. Um þetta vitni t.d. dómar Hæstaréttar Íslands um skerðingu bótaréttar í þeim tilvikum sem tjónþoli hafi tekið sér far með ölvuðum ökumanni. Við mat á því hvort skerða eigi bótarétt í þeim tilvikum sé haft til hliðsjónar hvort tjónþolanum hafi verið kunnugt um eða hafi mátt vera kunnugt um ölvunarástand ökumannsins og þar með hættu á slysi. 

Stefnandi haldi því fram að sú háttsemi hennar að spenna ekki öryggisbelti teljist ekki stórkostlegt gáleysi í skilningi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Þetta álitaefni hafi komið til úrlausnar Hæstaréttar Íslands, sbr. Hrd. 1997, bls. 3523. Við mat á því hvort það að spenna ekki öryggisbelti teljist stórkostlegt gáleysi, skipti ekki máli hvort tjónþoli hafi átt möguleika á að spenna öryggisbelti eða ekki, nema þannig að meint sök hljóti að minnka sé ekki hægt að spenna beltið.

Útreikningur stefnukröfu:

Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafi þegar greitt stefnanda bætur að 2/3 hlutum. Stefnandi telji aftur á móti að hún eigi rétt á fullri greiðslu. Stefnukrafan taki mið af þessu. Útreikningur stefnufjárhæðarinnar taki mið af ákvæðum skaðabótalaga og matsgerð Stefáns Carlssonar læknis og Guðmundar Péturssonar hrl. 3. júlí 2012. Útreikningurinn taki mið af lánskjaravísitölu í júlí 2012.

1.              Útlagður sjúkrakostnaður samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993

Vegna afleiðinga slyssins hafi stefnandi verið til meðferðar hjá Sjúkraþjálfaranum ehf. Útlagður sjúkrakostnaður stefnanda vegna meðferðarinnar sé 14.703 krónur. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafi þegar greitt stefnanda 2/3 hluta kostnaðarins. Eftir standi því 1/3. Krafa stefnanda vegna útlagðs sjúkrakostnaðar sé því 14.703 krónur x 33% = 4.852 krónur.

2.              Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. sbr. 15. gr. skaðabótalaga

Samkvæmt matsgerð sé tímabil þjáninga ein vika án rúmlegu. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafi þegar greitt stefnanda 2/3 hluta þjáningabótanna. Eftir standi því 1/3. Krafa stefnanda vegna þjáningabóta sé því (700 kr. x 7860/3282 = 1.680 kr.), (kr. 1.680 kr. x 7 dagar = 11.760 kr.) 11.760 krónur x 33%= 3.881 krónur.

3. Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. laganna

Samkvæmt matsgerð sé varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins metinn 15 stig. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafi þegar greitt stefnanda 2/3 hluta skaðabóta fyrir varanlegan miska. Eftir standi því 1/3. Krafa stefnanda vegna varanlegs miska sé því (4.000.000 kr. x 7860/3282 = 9.579.500 kr.), (9.579.500 kr. x 15% = 1.436.925 kr.), 1.436.925 krónur x 33% =  474.185 krónur.

4. Varanleg örorka samkvæmt 5-7. gr., sbr. 15. gr. skaðabótalaga

Samkvæmt áðurnefndri matsgerð sé varanleg örorka stefnanda vegna afleiðinga slyssins metin 15%. Stefndi Vátryggingafélags Íslands hf., hafi þegar greitt stefnanda 2/3 hluta skaðabóta fyrir varanlega örorku. Eftir standi því 1/3. Viðmiðunarlaun við útreikning skaðabóta fyrir varanlega örorku taki mið af 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Viðmiðunarlaunin séu því 1.200.000 kr. x 7142/3282 = 2.611.500 krónur.

Stöðugleikadagur sé samkvæmt matsgerð 20. september 2010. Þá hafi stefnandi verið 17 ára og 320 daga gömul. Margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga sé því 320/365 af mismuninum á margföldunarstuðli 17 ára og 18 ára einstaklings. Stuðullinn sé því (17,990 – 18,476 = -0,486 x 320/365 = -0,426), (17,990 + 0,426 = 18,416).

Útreikningur skaðabótakröfu fyrir varanlega örorku stefnanda sé því (2.611.500 kr. x 18,416 x 15% = 7.214.007 kr.), 7.214.007 krónur x 33% = 2.380.622 krónur.

Samtals krefjist stefnandi þessara skaðabóta:

1.            Bætur vegna útlagðs sjúkrakostnaðar                     kr.           4.852

2.            Bætur vegna þjáninga                                                kr.           3.881                             

3.            Bætur vegna varanlegs miska                                   kr.               474.185

4.            Bætur vegna varanlegrar örorku                               kr.            2.380.622

                Samtals                                                                         kr.           2.863.540

Ekki sé tölulegur ágreiningur um útreikning stefnufjárhæðarinnar.

Málskostnaðarkrafa stefnanda sé byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaður stefnanda beri virðisaukaskatt samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.

Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr., og 1. mgr. 42. gr. laga um meðferð einkamála. Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvaxta sé krafist frá því einn mánuður var liðinn frá því að lögmaður stefnanda hafi sent stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. kröfubréf þar sem krafist hafi verið skaðabóta í samræmi við ákvæði skaðabótalaga og matsgerð Stefáns Carlssonar læknis og Guðmundar Péturssonar hrl.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndu byggi kröfu sína um sýknu á því að með þegar greiddum bótum úr hendi stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. hafi stefnandi fengið tjón sitt bætt að fullu og eigi ekki rétt á frekari bótagreiðslum frá stefndu. Telji stefndu að beita beri heimild 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga sem kveði á um heimild til að skerða bótarétt í því tilviki að tjónþoli sýni af sér ásetning eða stórfellt gáleysi. Stefndu byggi á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi í umrætt sinn, þegar hún hafi tekið sér far með bifreiðinni DG-579 og grundvalli það nánar á eftirfarandi.

Fyrst sé að nefna að stefnandi hafi ekki verið í öryggisbelti í ökuferðinni. Með því hafi stefnandi brotið gegn hátternisreglum umferðarlaga, en í 71. gr. þeirra sé kveðið á um skyldu til að nota slíkt öryggistæki þegar bifreið er á ferð. Stefndu veki athygli á því að brot gegn þessu ákvæði er refsivert sbr. XIV. kafla umferðarlaga. Stefndu hafni því sérstaklega sem segi í stefnu að sök stefnanda hvað þetta varði sé minni þar sem hún hafi ekki átt þess kost að spenna öryggisbelti. Þvert á móti telji stefndu sök stefnanda meiri fyrir vikið, að hún hafi komið sér sjálfviljug í þær aðstæður að eiga þess ekki kost að nýta öryggisbúnað bifreiðarinnar. Stefndu bendi á að notkun öryggisbelta hafi verið lögbundin lengi og stefnandi því vitað, eða mátt vita, um þá skyldu. Einnig sé óumdeilt að sýnt hafi verið fram á það með margvíslegum hætti að notkun öryggisbelta dragi stórlega úr hættu á meiðslum þegar umferðarslys verði og megi ætla að það eigi ekki síst við þegar bifreið velti eins og í þetta sinn.

Stefndu hafni því alfarið sem röngu sem skilja megi af stefnu að orsakatengsl á milli hegðunar stefnanda hvað þetta varði og tjóns hennar séu ekki fyrir hendi. Í matsgerð lýsi stefnandi atvikinu þannig að hún hafi kastast til í bifreiðinni, fengið hina farþegana ofan á sig og orðið fyrir margskonar hnjaski. Stefndu telji að af þessari lýsingu megi vera ljóst að meginorsök þess að stefnandi slasaðist hafi verið að hún var laus í bifreiðinni. Að öðrum kosti hefði hún tæplega henst til og frá í veltunni og fengið högg á líkamann við það. Það séu því að mati stefndu bein tengsl á milli þeirra meiðsla sem stefnandi hafi hlotið í slysinu og tjón hennar miðist við og þess að hún hafi ekki notað öryggisbelti.

Í annan stað lýsi stórfellt gáleysi stefnanda sér í því að hún hafi meðvitað og sjálfviljug tekið sér far með bifreiðinni, án þess að fyrir hana væri sæti, og hafi hún legið ofan á öðrum farþegum í aftursætinu. Hafi stefnanda ekki getað dulist að þessi háttsemi hafi falið í sér verulega hættu á að tjón yrði, ef eitthvað myndi út af bregða við aksturinn, eins og komið hafi í ljós.

Stefndu hafni því sem stefnandi haldi fram í stefnu að það leiði af 3. mgr. 73. gr. umferðarlaga að ábyrgðin á því að farþegar hafi verið fleiri en leyfilegt hafi verið sé hjá ökumanni eingöngu. Leiði af eðli máls að þótt ökumaður geri ekki athugasemdir við að farþegar séu of margir og noti ekki öryggisbelti þá sé ákvörðun um það hvort viðkomandi taki sér far með bifreiðinni við þær aðstæður fyrst og fremst farþegans sjálfs, hér stefnanda. Geti stefnandi ekki velt ábyrgðinni af eigin ákvörðun og hegðun hvað þetta varði yfir á ökumann eða aðra.

Stefndu telji að á sama hátt séu bein orsakatengsl á milli tjóns stefnanda og þess að hún hafi tekið sér far með bifreiðinni, vitandi vits um að farþegar væru of margir, og hún því legið ofan á farþegum í aftursætinu. Orsakir meiðslanna sem stefnandi hafi orðið fyrir í slysinu sé því augljóslega einnig að rekja til hegðunar hennar sjálfrar sem verið hafi stórkostlega gálaus í umrætt sinn. Hafni stefndu alfarið öllum fullyrðingum stefnanda um skort á orsakatengslum hvað þetta varði.

Stefndu hafni því einnig alfarið að ungur aldur stefnanda og það að hún hafi ekki haft ökupróf, afsaki hegðun hennar og leiði til þess að gáleysi sé ekki stórfellt. Stefnandi hafi verið rúmlega 17 ára á slysdegi og hafi því haft aldur og þroska til að gera sér grein fyrir því að háttsemi hennar gæti auðveldlega haft afleiðingar fyrir hana og að hættulegt gæti verið að farþegar væru of margir. Bendi stefndu á áratuga langa skyldu til notkunar öryggisbelta í bifreiðum og endalausar ábendingar og fræðslu um nauðsyn þess um margra ára skeið. Telji stefndu að stefnandi hljóti að hafa alist upp við þennan öryggisbúnað bifreiða og skyldu til að nota hann allt frá barnsaldri og þannig vitað, eða í það minnsta mátt vita, að hætta fælist í því að farþegar væru of margir og að þeir ættu þess ekki allir kost að vera í öryggisbelti. Geti því aldrei komið til álita að stefnandi geti borið fyrir sig þekkingarleysi hvað þetta varði sem eigi að leiða til þess að líta beri mildari augum á hina stórkostlega gálausu hegðun hennar.

Stefndu telji það heldur ekki afsaka hátt gáleysisstig hegðunar stefnanda að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið reynslulaus og að hugsanlega hafi verið hálka á veginum. Ef eitthvað sé þá auki það enn frekar gáleysi hegðunar stefnanda að hún hafi ákveðið að taka sér far með bifreiðinni, með þeim hætti sem hún gerði, í myrkri og á árstíma þegar búast megi við hálku eftir sólarlag og þar að auki með óreyndan ökumann undir stýri.

Stefndu árétti að hér sé ekki verið að deila um hvort bótaábyrgð hafi stofnast vegna slyssins, og þar með ekki hvernig það hafi viljað til, heldur eingöngu hvort hegðun stefnanda hafi falið í sér það mikið gáleysi að eðlilegt sé að hún beri sjálf hluta af tjóni sínu, eins og heimilt sé að lögum, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga.

Stefndu byggi á því að það leiði af öllu framangreindu að sama hvernig litið sé á málið þá verði ekki hjá því komist að telja háttsemi stefnanda í umrætt sinn falla undir það að vera stórfellt gáleysi í skilningi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Af þeirri ástæðu beri að skerða bætur til stefnanda og telji stefndu skerðingu um 1/3 langt frá því að vera of mikla. Ekki komi því annað til álita en að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda þar sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafi þegar gert upp tjón stefnanda að 2/3 hlutum.

Verði ekki fallist á sýknukröfuna geri stefndi varakröfu um aðra skiptingu sakar og að stefndu verði þá eingöngu gert að greiða stefnanda þann mismun sem þá myndist. Stefndu byggi á sömu sjónarmiðum og rökum og varðandi aðalkröfu um sakarskiptingu og lagt sé í hendur dómsins að meta hvað hæfilegt teljist í því.

Kröfu um dráttarvexti sé hafnað frá fyrri tíma en dómsuppsögu enda liggi ekki fyrir fyrr en þá hvort stefnandi eigi kröfu á hendur stefndu og hvort vanefndir verði á greiðslu sem heimili að dráttarvextir séu reiknaðir samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001.

Stefndu byggi kröfur sínar á umferðarlögum, almennum reglum skaðabótaréttar og vátryggingaréttar og lögum um meðferð einkamála og byggi málskostnaðarkrafan á 129. og 130. gr. þeirra laga.

Niðurstaða

Samkvæmt því sem fram er komið í málinu bar slysið að með þeim hætti að ökumaður bifreiðarinnar missti stjórn á henni á hálkubletti eða ísingu á Suðurlandsvegi við Sandskeið með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af veginum og valt. Í bifreiðinni, sem aðeins er skráð fyrir fjóra farþega, voru þá sex ungmenni auk ökumanns. Upplýst er að þegar ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni, lá stefnandi ofan á þremur piltum sem sátu í aftursæti bifreiðarinnar með höfuð vinstra megin í bifreiðinni, fyrir aftan sæti bílstjórans. Aðeins pilturinn í miðju aftursætinu og ökumaðurinn hafi notað öryggisbelti, en hinir piltarnir þrír sem sátu í sætum búnum öryggisbeltum hafi ekki notað þau. Stefnandi og pilturinn sem lá í farangursgeymslunni áttu þess ekki kost að spenna belti, eins og þau höfðu komið sér fyrir í bifreiðinni. Samkvæmt lýsingum ökumanns og farþega voru farþegarnir þegar slysið varð ýmist sofandi eða hálfsofandi og engar samræður eða samskipti munu hafa átt sér í stað í bifreiðinni á þeim tíma.

Óumdeilt er að stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. er skylt að greiða bætur vegna slyssins á grundvelli lögboðinnar ábyrgðartryggingar bifreiðarinnar, sbr. 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Þessi stefndi hefur viðurkennt bótaskyldu sína vegna líkamstjóns sem stefnandi hlaut við bílveltuna, að gengnum úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum, að tveimur þriðju hlutum. Stefnandi hefur fengið greiddar bætur sem því nemur, en krefst fullra bóta og byggir á því að hún eigi enga sök á bílveltunni.

Í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga er heimild til að láta tjónþola sjálfan bera tjón sitt að hluta til eða að öllu leyti ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Stefndu vísa til ákvæðisins og þess að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að hafa tekið þátt í ökuferðinni og hafa brotið gegn 71. gr. umferðarlaga með því að hafa ekki verið með öryggisbelti. Byggt er á því að afleiðingar slyssins hefðu orðið minni fyrir stefnanda ef hún hefði verið í öryggisbelti og bifreiðin hefði ekki verið yfirfull af farþegum og þær aðstæður verði að meta henni til stórkostlegs gáleysis. Styðjast stefndu þar við lýsingu í matsgerð á því að stefnandi hafi orðið fyrir margskonar hnjaski þegar hún hafi kastast til í bifreiðinni og fengið hina farþegana ofan á sig.

Almennt er viðurkennt að minni líkur eru á því að alvarleg slys verði á fólki við umferðaróhöpp þegar öryggisbelti eru notuð. Taka verður undir það með stefndu að óvarlegt var og ábyrgðarlaust af stefnanda að taka sér far með yfirfullri bifreið og koma sér í þær aðstæður að hún átti þess ekki kost að nota öryggisbelti. Vitnisburðir ungmennanna fyrir dóminum voru afar misvísandi um það hvernig stóð á ferðum þeirra, ástæðum þess hvar þau sátu í bifreiðinni og um ástæður þess að ökumaður heimilaði þeim öllum að taka sér far með bifreiðinni til Reykjavíkur þessa nótt. Engum nema stefnanda sjálfri verður um það kennt að hún var í umræddum aðstæðum þegar slysið varð og lá þá óbundin í bifreiðinni. Stefnandi á því sjálf nokkra sök á tjóni sínu og verður fallist á það með stefndu að hún hafi með hegðun sinni sýnt af sér slíkt gáleysi að það skerði bótarétt hennar eftir reglu 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga vegna eigin sakar. Þykir hæfilegt að stefnandi beri þriðjung tjóns síns sjálf. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hefur þegar bætt stefnanda tjón hennar að tveimur þriðju hlutum og verða stefndu, eigandi bifreiðarinnar og hið stefnda vátryggingafélag, því sýknuð af dómkröfu stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu og greiðist málskostnaður hennar úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Styrmis Gunnarssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 990.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og Sverrir Jónsson, eru sýknuð af kröfum  stefnanda, Katrínar Ylfu Mjallardóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Styrmis Gunnarssonar hdl., 990.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.