Hæstiréttur íslands
Mál nr. 359/2015
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Matsgerð
- Frávísun frá héraðsdómi
Skaðabótamál. Líkamstjón. Matsgerð. Frávísun máls frá héraðsdómi.
A lenti í umferðarslysi og tók við greiðslu vátryggingabóta úr hendi V hf. á árinu 2009 á grundvelli matsgerðar tveggja lækna sem aðilar höfðu óskað sameiginlega eftir. Taldi A síðar að afleiðingar slyssins hefðu farið versnandi og óskaði hann því einhliða mats lögfræðings og tveggja lækna á afleiðingunum. Í kjölfarið höfðaði A mál þetta til endurupptöku bótaákvörðunarinnar á grundvelli síðargreindu matsgerðarinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þrátt fyrir að fyrrgreint mat hefði legið fyrir hefði A hvorki óskað eftir áliti örorkunefndar né aflað mats dómkvaddra manna eins og honum hefði staðið til boða að lögum. Þess í stað hefði hann aflað einhliða og án aðkomu V hf. mats þriggja manna. Vegna þessa aðdraganda yrði síðargreint sérfræðimat ekki lagt til grundvallar við ákvörðun um hvort skilyrði væru til að taka upp að nýju ákvörðun um bætur á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Var því talið að málatilbúnaður A færi í bága við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og málinu því vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 17. mars 2015, en ekki varð af þingfestingu þess 29. apríl sama ár og var því áfrýjað öðru sinni 22. maí það ár. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjandi dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara að stefnda verði gert að greiða sér 25.006.446 krónur en að því frágengnu 18.136.628 krónur, í báðum tilvikum með 4,5% ársvöxtum frá 2. desember 2009 til 15. nóvember 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.
Hæstiréttur hefur tekið málið til dóms án undangengins málflutnings, sbr. 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi lýtur mál þetta að fjárkröfu áfrýjanda vegna afleiðinga umferðarslyss sem hann lenti í 9. maí 2007 og þá einkum hvort skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé fullnægt. Aðilar máls þessa óskuðu sameiginlega með matsbeiðni 27. apríl 2009 eftir að læknarnir B og C legðu mat á afleiðingar slyssins. Var niðurstaða matsgerðar að áfrýjandi hefði orðið fyrir 8 stiga miska og 8% varanlegri örorku auk þess að hafa orðið fyrir tímabundnu tjóni. Voru aðilar sammála um að leggja matsgerð þessa til grundvallar uppgjöri sem fram fór 9. október 2009 og kemur fram á kvittun vegna greiðslu að hún sé fullnaðargreiðsla vegna slyssins.
Áfrýjandi taldi að afleiðingar slyssins hefðu farið versnandi og með matsbeiðni 29. janúar 2013 óskaði hann einhliða mats D lögfræðings og læknanna E og F til að meta afleiðingar umferðaslyssins. Í matsgerð þeirra 14. október 2013 var niðurstaðan sú að varanlegur miski væri 25 stig og varanleg örorka 50%.
Þegar fyrir liggur sérfræðilegt álit um örorku- og/eða miskastig tjónþola, eða þá læknisfræðilegu þætti sem meta þarf til þess að uppgjör bóta samkvæmt skaðabótalögum geti farið fram getur hvor um sig, tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta, borið álitið undir örorkunefnd, sbr. 10. gr. skaðabótalaga. Þrátt fyrir að fyrir hafi legið mat þeirra B og C óskaði áfrýjandi hvorki eftir áliti örorkunefndar né aflaði mats dómkvaddra manna, eins og honum stóð til boða að lögum. Þess í stað aflaði hann einhliða og án aðkomu stefnda mats þriggja manna 29. janúar 2013. Vegna þess aðdraganda verður síðargreint sérfræðimat ekki lagt til grundvallar ákvörðun um hvort skilyrði séu til að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur. Fer málatilbúnaður áfrýjanda í bága við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 31. mars 2015 í máli nr. 639/2014. Verður málinu því af sjálfsdáðum vísað frá héraðsdómi.
Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarákvæði hins áfrýjaða dóms verður staðfest.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarákvæði hins áfrýjaða dóms skal vera óraskað.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. desember 2014, var höfðað með stefnu útgefinni 2. desember 2013 af A, […], á hendur Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, 105 Reykjavík.
I.
Stefnandi gerir aðallega þá dómkröfu, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 25.006.446 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum af 1.632.000 krónum frá slysdegi 9. maí 2007 til 18. janúar 2008, en af 25.006.446 frá þeim degi til 15. nóvember 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi gerir til vara þá dómkröfu, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 18.136.628 krónur ásamt 4,5 % ársvöxtum af 1.632.000 krónum frá slysdegi 9. maí 2007 til 18. janúar 2008, en af 18.136.628 krónum frá þeim degi til 15. nóvember 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu, líkt og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál, ásamt lögmæltum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Til vara krefst stefndi þess að krafa stefnanda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.
II.
Málsatvik
Stefnandi slasaðist í umferðarslysi þann 9. maí 2007 en hann var þá ökumaður bifhjólsins […]. Slysið átti sér stað við […] skammt frá […]. Bifhjólið lenti í lausamöl, fór út af veginum í beygju og féll stefnandi af hjólinu. Bifhjólið var tryggt hjá stefnda.
Mál þetta lýtur að fjárkröfum stefnanda vegna afleiðinga slyssins og þá einkum aðallega því hvort skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé fullnægt. Stefnandi leitaði sér lækninga í kjölfarið vegna þeirra áverka er hann hlaut við slysið. Jafnframt leitaði hann til lögmanns og veitti honum umboð til að gæta hagsmuna sinna og leita bóta vegna afleiðinga slyssins. Stefnandi og stefndi óskuðu síðan sameiginlega, með matsbeiðni dags. 27. apríl 2009, eftir því að B dr. med og C læknir myndu leggja mat á afleiðingar slyss stefnanda samkvæmt skaðabótalögum. Það gerðu læknarnir og komust að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði orðið fyrir 8 stiga miska og 8% varanlegri örorku auk þess að hafa orðið fyrir tímabundnu tjóni og ætti hann rétt á þjáningabótum í um það bil 16 vikur. Málsaðilar sammæltust um að leggja matsniðurstöðu læknanna til grundvallar uppgjöri sem fór svo fram í kjölfarið þann 9. október 2009. Á tjónskvittun kemur fram að greiðslan sé fullnaðar- og lokagreiðsla vegna slyss stefnanda þann 9. maí 2007.
Þann 21. janúar 2012 leitaði stefnandi síðan til G læknis vegna versnandi heilsufars. Með beiði dags. 15. ágúst 2012 óskaði lögmaður stefnanda eftir því við H lækni að hann skoðaði stefnanda og athugaði heilsufar hans með tilliti til þess hvort það hefði versnað frá því að hann var metinn til örorku þann 26. júní 2009 og liggur vottorð læknisins fyrir í málinu. Þá leitaði stefnandi einnig til I taugalæknis þann 7. september 2012 og þann 30. janúar óskaði lögmaður stefnanda eftir því að J athugaði hvort stefnandi hefði orðið fyrir andlegum afleiðingum af umferðarslysinu og útskýrði hvers eðlis þessar andlegu afleiðingar væru.
Með matsbeiðni, dags. 29. janúar 2013, óskaði lögmaður stefnanda einhliða og án samráðs við stefnda eftir því að D, lögfræðingur og sérfræðingur í líkamstjónarétti, E, læknir og sérfræðingur í geð- og embættislækningum, og F, læknir og sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, myndu skoða og meta afleiðingar umferðarslyssins þann 9. maí 2007. Í matsbeiðninni var spurt hvaða læknisfræðilega áverka, andlega og líkamlega, stefnandi hefði hlotið í slysinu og hvort heilsufar hans hefði versnað frá því að lokið var við fyrri matsgerð, dags. 26. júní 2009, og hverning það lýsti sér.
Stefndi var boðaður með tölvupósti á matsfund, en gerði bæði athugasemd við að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga væru ekki uppfyllt auk þess sem uppgjör hefði farið fram án fyrirvara og þá hefði stefndi ekki öll þau gögn undir höndum sem matsmenn tilgreindu að þeir hefðu undir höndum. Ekki var mætt á matsfund af hálfu stefnda.
Niðurstaða matsmanna skv. matsgerð, dags. 14. október 2013 var sú að varanlegur miski skv. 4. gr. væri 25 stig og varanleg örorka skv. 5. gr. 50% af hundraði.
Matsgerð þessari var komið á framfæri við stefnda með kröfubréfi dags. 15. október 2013 og krafist greiðslu að fjárhæð 19.582.460 kr. vegna þess að heilsufar stefnanda hefði versnað verulega. Stefndi brást við með bréfi 7. nóvember 2013 og hafnaði kröfum stefnanda þar sem greiddar hefðu verið bætur í samræmi við samkomulag um fullnaðaruppgjör sem enginn fyrirvari hefði verið gerður við og að matsgerð sem hefði verið einhliða aflað hnekkti ekki fyrirliggjandi matsgerð þeirra matsmanna sem málsaðilar hefðu sammælst um að fela að leysa úr álitaefnum um afleiðingar slyss stefnanda. Þá væri skilyrðum 11. greinar skaðabótalaga til endurupptöku mats á varanlegri örorku og varanlegum miska ekki til að dreifa.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að bótaskylda skv. 92 gr. umferðarlaga liggi fyrir í máli þessu. Bifhjólið […], sem stefnandi ók er hann slasaðist, hafi verið tryggt hjá stefnda. Málið snúist hins vegar aðallega um það hvort skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu fyrir hendi til grundvallar dómkröfum stefnanda. Það er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá því uppgjöri sem gert hafi verið á grundvelli matsgerðar B og C bæklunarlækna frá júní 2009 þannig að miski og örorka stefnanda vegna afleiðinga umferðaslyssins þann 9. maí 2007 væru verulega hærri en þar hefði verið metið. Stefnandi byggir dómkröfu sína á sérfræðimati frá 14. október 2013 sem stefnandi hafi aflað sér á grundvelli heimildar í 10. grein skaðabótalaga. Því sérfræðimati hafi ekki verið hnekkt, en niðurstaða þess sé að heilsufari stefnanda hafi hrakað verulega frá því í júní 2009 og það hafi verið ófyrirséð. Samkvæmt sérfræðimatinu sé miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins metinn 17 stigum hærri en í fyrra mati og örorka 42% hærri.
Stefnandi byggir dómkröfu sína tölulega með neðangreindum hætti samkvæmt skaðabótalögum og á niðurstöðu sérfræðimatsgerðarinnar frá 14. október 2013.
Bætur fyrir varanlegan miska:
9.960.0000 x 17stig 1.632.000 kr.
Bætur fyrir varanlega örorku:
5.800.000 x 8,396 x 42% 23.374.446 kr.
Samtals aðalkrafa 25.006.446 kr.
Stefnandi rökstyður kröfur sínar frekar með eftirfarandi hætti:
1. Bætur fyrir miska eru grundvallaðar á matsgerðinni og 4. gr. skaðabótalaga. 4.000.000 x 8170/3282 = 9.960.000. Byggt er á hækkun miskahöfuðstóls miðað við lánskjaravísitölu í október 20013, 8170 stig, samkvæmt 2. mgr. 15. greinar skaðabótalaga. Þá byggir stefnandi á þeirri 17 stiga hækkun sem orðið hafi á miskamati vegna afleiðinga slyssins skv. sérfræðimatsgerðinni frá október 2013.
2. Bætur fyrir varanlega örorku eru byggðar á niðurstöðu sérfræðimatsgerðarinnar um 50% varanlega örorku, þ.e. hækkun um 42%, sbr. venju. Byggir stefnandi á því að aðstæður hans er slysið varð hafi verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. greinar skaðabótalaga og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á framtíðartekjur stefnanda, en þær tekjur sem hann hafði þremur árum fyrir slysið. Stefnandi hafi verið lærður […] og hafði unnið slíka vinnu þar til hann hafi ákveðið að mennta sig frekar. Stefnandi hafi því verið við nám og vinnu með fram námi er hann slasaðist. Gerir stefnandi því kröfu til þess að árslaun verði miðuð við vinnu iðnaðarmanna/[…] samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands árið 2008 og sé meðaltal slíkra launa skv. upplýsingum Hagstofu Íslands 484.000 kr. á mánuði árið 2008, en þá urðu batahvörf stefnanda eftir slysið í skilningi 5. greinar skaðabótalaga. Byggir stefnandi á árslaunum að fjárhæð 484.000 x 12 = 5.800.000 kr. Stefnandi miðar við sama aldursstuðul og stuðst er við í uppgjöri frá 22. september 2009.
Varakrafa:
Bætur fyrir varanlegan miska:
9.960.0000 x 17stig 1.632.000 kr.
Bætur fyrir varanlega örorku:
4.095.360 x 8,396 x 42% 16.504.628 kr.
Samtals varakrafa 18.136.628 kr.
Varakröfu miðar stefnandi við sömu kröfu um bætur og fyrir varanlega örorku, sbr. aðalkröfu, og við sama árslaunaviðmið og gert var þann 22. september 2009, og byggir á því að stefndi sé bundinn við það árslaunaviðmið þar sem stefndi gerði engan fyrirvara við uppgjörið.
Stefnandi byggir á því að hann hafi ekki nýtt vinnugetu sína þannig að afla ekki tekna í skilningi 8. greinar skaðabótalaga og verði því að miða við aflahæfi og menntun stefnanda fyrir slysið skv. mati.
Til þrautavara miðar stefnandi við lágmarkslaun, 1.200.000 x 8170/3282 = 2.987.200 og sama aldursstuðul.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að miðað við niðurstöðu sérfræðimatsgerðarinnar frá 14. október 2013 og efni þeirra læknisvottorða sem sérfræðimatsgerðin byggi á, hafi verulegar og ófyrirséðar breytingar orðið á heilsu stefnanda frá júní 2009, eða eftir að gengið var frá bótagreiðslum til stefnanda á grundvelli matsgerðarinnar, frá 26. júní 2009, þ.e. frá þeim tíma þar til afleiðingar slyssins hafi verið metnar á nýjan leik árið 2013.
Stefnandi byggir á því að miðað við niðurstöðu og efni matsgerðarinnar frá 26. júní 2009 hafi breytingar þessar verið ófyrirséðar. Byggir stefnandi á því að breytingar á heilsu hans hafi einnig verið ófyrirséðar þar sem stefnandi hafi mátt treysta því að matsgerðin frá 26. júní 2009 væri rétt. Ekki megi horfa til þess að einhver vafi gæti hafa verið þar á þegar uppgjör fór fram.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á sérfræðimatsgerðinni frá 14. október 2013 sem og öðrum læknisfræðilegum gögnum málsins sem aflað hafi verið eftir að upphaflega örorkumatið fór fram í júní 2009.
Byggir stefnandi á því að hann hafi með framlagningu sérfræðimatsgerðarinnar frá 14. október 2013 og læknisvottorðum þeirra H bæklunarlæknis, I taugalæknis, J, geðlæknis og G heimilislæknis, sannað að heilsufar hans hafi versnað verulega frá júní 2009.
Jafnframt byggir stefnandi á því að til endurupptöku mála á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga nægi svokallað 10. greinar mat (utanréttarmat/sérfræðimat) og ekki þurfi að hnekkja fyrra mati með mati dómkvaddra matsmanna, sbr. 3. málslið 1. mgr. greinagerðar með 11. gr. skaðabótalaga , samanber og almenna skýringu á texta 10. og 11. greinar skaðabótalaga, þar sem matið hafi byggst á atvikum sem hafi orðið eftir þau atvik sem matið samkvæmt fyrri bótaákvörðuninni byggi á. Þannig hefjist málið í raun á nýjan leik samkvæmt 11. grein skaðabótalaga með sérfræðimatinu frá október 2013.
Þá byggir stefnandi á því að sú sérfræðimatsgerð, sem hann byggir dómkröfur sínar á, sé vel rökstudd af þremur sérfræðingum sem starfi hver á sínu sérsviði, bæklunarlæknisfræðisviði, geðlæknisfræðisviði og líkamtjónaréttarsviði. Matsgerðarinnar hafi og verið aflað á grundvelli 10. greinar skaðabótalaga eins og henni hafi verið breytt með 9. grein laga nr. 37/1999 og henni hafi ekki verið hnekkt, en í greinargerð með 9. grein laga nr. 37/1999 segi svo:
„Aðalreglan verði sú að málsaðilar afli sjálfir sérfræðilegs álits um örorku- og/eða miskastig og þá læknisfræðilegu þætti sem meta þarf skv. 2. og 3. gr. laganna til þess að ljúka megi bótauppgjöri. Sérfræðilegt mat, sem annar málsaðila aflar, geti tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta borið undir örorkunefnd.“
Stefnandi byggir á því að samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga sé heimilt að taka upp kröfu tjónþola að nýju til ákvörðunar um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur á grundvelli tveggja skilyrða. Í fyrsta lagi að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola og í öðru lagi að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður hafi verið talið. Þá komi fram í frumvarpi til laganna að skilyrði þessi séu í samræmi við almennar reglur fjármunaréttarins.
Samkvæmt örorkumatinu frá 26. júní 2009, sem var grundvöllur fyrri bótaákvörðunar, hafi starfs- og námsgeta stefnanda einungis verið talin skert í kjölfar slyssins sem svaraði til 8%. Stefnandi hafi getað reynt við léttar gönguferðir svo framarlega sem hann gengi ekki mikið upp í móti. Þá hafi geðrænum afleiðingum slyssins verið gefið lítið vægi og megináhersla lögð á skerta hreyfingu í mjóbaki. Hins vegar var skoðun á hrygg talin að öðru leyti eðlileg og skoðun gang- og griplima einnig sem og taugaskoðun. Ekki verði séð að læknar hafi talið einkenni hans geta versnað til muna frá þeim stöðuleikadegi, sem miðað var við, þ.e. 18.1.2008. Því verði að miða við að mat þetta hafi verið rétt miðað við júní 2009 varðandi líkamlegt og andlegt ástand stefnanda.
Stefnandi telur að matsgerðin frá 14. október 2013, ásamt þeim læknisfræðilegu gögnum sem stefnandi hefur aflað, hnekki upphaflegri matsgerð frá 26. júní 2009 að því leyti að matsgerðin frá 14. október 2013 sanni að heilsufar stefnanda hafi versnað. Miðað við núverandi ástand sé stefnandi nær óvinnufær og þar að auki hafi námsgetu hans hrakað verulega. Hann geti ekki lengur stundað gönguferðir þótt hann gangi niður í móti. Þá þjáist hann að auki af tíðum kvíðaköstum og þunglyndiseinkennum. Enn fremur hafi líkamlegt ástand hans versnað verulega frá upphaflegu mati.
Stefnandi telur ljóst að vegna ástands síns í dag uppfylli hann bæði skilyrði 11. gr. skaðabótalaga. Þannig megi lesa út úr læknisvottorði G, dags. 27. janúar 2012, læknisvottorði H bæklunarlæknis, dags. 6. nóv. 2012, læknisvottorði J geðlæknis, dags. 8. apríl 2013, læknisvottorði K, dags. 1 júlí 2013, læknisvottorði G, dags. 28. ágúst 2013, og matsgerðinni frá 14. okt. 2013, að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda. Ástandi hans sé þannig háttað í dag að hann geti ekki stundað vinnu og hafi ekki getað gert það að neinu marki undanfarin ár. Hafi stefnandi hafið nám í […] við Háskóla […] 2007 en orðið að hætta endanlega árið 2010 vegna verkja og geðrænna vandamála. Slæmt ástand stefnanda megi aðallega rekja til mun útbreiddari og umfangsmeiri einkenna í mjóbaki og aukinna geðrænna einkenna en fram komu í matsgerðinni frá 26. júní 2009. Gildi það að ákveðnu leyti einnig um einkenni í hálsi/brjóstbaki. Stefnandi vísar til þess sem segir í matsgerðinni frá 14. október 2013: „Þá er ekki hægt annað en að gera ráð fyrir að sú versnun sem hér um ræðir hafi verið ófyrirsjáanleg í skilningi 11. gr. SKL þegar matgerð [B] og [C] var látin af hendi þann 26. júní 2009. Ef horft er til sumars 2010/2011 (eða tímabilið þar í kring) sem tímapunkt versnunar, líða um eitt til tvö ár frá þeirri versnun sem varð og frá þeim degi þegar matgerðinni var skilað.“
Stefnandi bendir á að þegar metin hafi verið skilyrði fyrir því hvort um sé að ræða verulega hækkun á miska- og örorkumati, hafi í framkvæmd Hæstaréttar Íslands ekki verið talið unnt að horfa til þess hversu miskastig eða örorkustig hafi hækkað hlutfallslega frá því matið sem lagt var til grundvallar við upphaflega bótaákvörðun var gert, heldur verði að taka mið af hækkuninni sem slíkri í stigum talið. Þá hafi verið komist að þeirri niðurstöðu í dómi Hæstaréttar Íslands frá 30. september 2010 nr. 516/2009 að hækkun örorku um 5 stig nægði ekki til, svo að unnt væri að tala um að miska- eða örorkustig væri verulega hærra en áður var talið. Hins vegar hafi í dómi Hæstaréttar frá 13. júní 2013, nr. 9/2013 verið fallist á að skilyrðum 11. gr. væri fullnægt, en þar hafði miska- og örorkustig hækkað um 10 stig frá upphaflegu mati.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt niðurstöðu matsgerðarinnar frá 14. október 2013 sé varanlegur miski 25 stig og varaleg örorka 50%. Upphaflegt örorkumat, sem greiddar bætur voru grundvallaðar á, miði við 8 stiga miska og 8% örorku. Í málinu liggi fyrir gögn sérfræðinga í læknisfræði sem styðji kröfu hans.
Verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður stefnanda til grundvallar bótakröfum hans, byggir stefnandi á almennum reglum fjármunaréttar um rangar og brostnar forsendur. Þá verði að líta svo á að matsgerðin frá júní 2009 hafi ekki verið nægilega vel unnin og sé þar með röng. Stefnandi hafi ekki mátt gera ráð fyrir að svo væri. Stefnandi telur að ekki hafi verið gætt réttra matssjónarmiða skv. 5. grein skaðabótalaga. Ekki sé ljóst hvernig matsmenn meti varanlega læknisfræðilega örorku þar sem áverkarnir séu ekki færðir undir þá liði íslensku miskataflnanna sem mæli varanlegan miska og ekki komi því fram í matsgerðinni hvernig svokallaður miski sé metinn og hvort andlegar afleiðingar stefnanda eftir slysið séu þar metnar til stiga.
Einnig sé til þess að líta að í greinargerð með 10. grein skaðabótalaga sé greinilega gert ráð fyrir því að aðeins annar matsmanna sé læknir, hinn skuli verið lögfræðingur með þekkingu á mati á svokallaðri fjárhagslegri örorku. Verði það niðurstaðan í þessu máli að fyrri matsgerðin hafi ekki verið rétt úr garði gerð, hljóti það að skrifast á þá matsmenn sem að matsgerðinni stóðu, sem og á kostnað hins stefnda félags og þáverandi lögmann stefnanda.
Varamálsástæður stefnanda eru því þær, ef ekki verður fallist á málsástæður stefnanda hér að ofan, að fyrirliggjandi uppgjör sé ógilt á grundvelli ógildingarreglna samningaréttar og fjármunaréttar. Í öðru lagi að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni með því að taka við þeim skaðabótum sem honum hafi verið greiddar. Eigi stefndi meðal annarra sök á tjóni hans. Einnig byggir stefnandi á því að honum hafi ekki verið kunnugt um þessa kröfu sína fyrr en sú matsgerð, sem hann byggir kröfur sínar á, lá fyrir eða í fyrsta lagi er hann aflaði þeirra sérfræðivottorða sem liggja til grundvallar sérfræðimatsgerðinni frá október 2013.
Varðandi lagarök vísar stefnandi til þeirra lagareglan sem hér að ofan hafa verið tilgreindar. Stefnandi vísar einnig til 92. greinar umferðarlaga varðandi bótagrundvöll, en um sé að ræða slysatryggingu og styður stefnandi kröfur sínar sérstaklega við 11. gr. laga nr. 50/1993 um endurupptöku bóta og til 9. greinar laga nr. 37/1999, varðandi þá matsgerð sem hann hefur sótt í máli þessu. Einnig bendir stefnandi á, að í greinargerð með skaðabótalögum nr. 50/1993, sé lögð áhersla á að andlegar afleiðingar slysa skuli bæta jafnt á við svokallaða líkamlega áverka. Varamálsástæður sínar byggir stefnandi á reglum fjármunaréttar um rangar og brostnar forsendur og á reglum kröfuréttar um rétt kröfuhafa til fullra bóta. Í greinargerð byggði stefnandi á 31. grein samningalaga um misneytingu en féll frá þeirri málsástæðu við aðalmeðferð. Einnig vísar stefnandi til sakarreglunnar í því sambandi að ekki hafi verið gætt nægilega vel að öflun gagna og vinnu við fyrri matsgerð. Varðandi það vísar stefnandi til reglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð og til neytendaréttar og meginreglna vátryggingaréttarins um þau ákvæði er fjalli um neytendarétt. Þá skírskotar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um lögvarða hagsmuni sína, enda liggi fyrir vottorð lækna og sérfræðimatsgerð sem staðfesti verulega breytingu á áverkum stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að einhverju óbættu tjóni sé til að dreifa vegna slyss hans. Slík sönnun liggi ekki fyrir.
Stefndi hafi bætt stefnanda tjón hans í samræmi við samkomulag sem gert var við lögmann hans sem gætti hagsmuna stefnanda í fullu umboði hans. Við uppgjörið hafi stefnandi þannig notið aðstoðar lögmanns sem gaf fyrir hans hönd kvittun fyrir bótunum þar sem enginn fyrirvari var settur. Fyrirsögn skjalsins sé „Fullnaðaruppgjör“. Í kvittun stefnda, sem gefin hafi verið út í samræmi við fullnaðaruppgjör þetta, var því lýst án athugasemda af hálfu stefnanda að greiðslan væri fullnaðar- og lokagreiðsla vegna slyss stefnanda. Því beri að halda á lofti, eins og slegið hefur verið föstu af dómstólum, að nauðsynlegt sé að settir séu skýrir og ótvíræðir fyrirvarar um þau atriði uppgjörs sem nokkur ástæða kunni að vera til.
Stefnandi telji að eftir uppgjörið hafi orðið breytingar á heilsufari hans sem gefi tilefni til frekari kröfu á hendur stefnda. Í þeim efnum byggi stefnandi einkum á því að skilyrðum 11. gr. laga nr. 50/1993 sé fullnægt en til vara á því að reglur kröfuréttar um rangar og brostnar forsendur eigi við. Sé fyrst vikið að aðalmálsástæðu stefnanda byggi stefndi á því að stefnandi hafi í engu sannað að skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga sé fullnægt. Þá sé jafnframt á því byggt að komi það til einhverra álita að líta svo á, þá hafi stefnandi ekki axlað sönnunarbyrði fyrir því hverjar auknar afleiðingar slyss kynnu að vera.
Stefndi vísar til 11. gr. skaðabótalaga sem hljóðar svo:
„Að kröfu tjónþola er heimilt að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur. Skilyrði endurupptöku er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Ef mál er endurupptekið er heimilt að skjóta ákvörðun um miskastig eða örorkustig aftur til úrlausnar örorkunefndar, sbr. 10. gr.“
Litið hafi verið svo á að í þessu ákvæði felist sérregla um áhrif þess að forsendur, sem lagðar hafa verið til grundvallar við ákvörðun skaðabóta, reynist síðar brostnar.Taka þurfi þannig afstöðu til þess hvort fyrir hendi séu skilyrði til að taka upp að nýju fyrri bótaákvörðun á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga. Í þessum efnum beri einnig að halda því vel til haga að 11. gr. feli í sér lögfestingu eldri efnisreglna sem dómstólar höfðu slegið föstum. Þar sé sérstaklega vísað til þess að með skírskotun í lagaákvæðinu til ófyrirsjáanlegra breytinga verði breytingar á heilsu bótakrefjanda að vera af ófyrirsjáanlegum rótum runnar. Eigi þær skírskotun til fyrirliggjandi læknisfræðilegra gagna sem lágu fyrir við uppgjör verði ekki fallist á endurupptöku, sérstaklega þegar ekki sé gerður neinn fyrirvari við uppgjörið.
Engar slíkar ófyrirsjáanlegar breytingar hafi átt sér stað í tilviki stefnanda. Þær einu sem ekki eigi sér skírskotun í fyrirliggjandi gögnum séu af því tagi að ósannað sé með öllu að þær umkvartanir eigi rót að rekja til slyss stefnanda. Í þeim efnum megi nefna hálstognun sem fyrst sé minnst á árum síðar, löngu eftir slys. Ekki sé til að dreifa neinum samtímagögnum um að stefnandi hafi kvartað yfir hálstognun, að sama skapi verði andlegir erfiðleikar stefnanda ekki tengdir slysinu og að mati stefnda sé langsótt að J geðlækni sé tækt að greina stefnanda með áfallastreituröskun sex árum eftir slys. Greining hans virðist fyrst og fremst byggð á viðtali við stefnanda og að gefinni þeirri forsendu að mál hans hafi verið endurupptekið, án tillits til þess hvort forsendur séu til slíks. Ekki virðist heldur neinn gaumur gefinn að því að í mati því, sem samkomulag var um að framkvæmt yrði, var sérstaklega getið um þau einkenni sem J telur þessum árum síðar falla undir hugtaksskilgreiningu áfallastreituröskunar, endurlifun slyss og það að stefnandi forðist að horfa á fréttir og annað efni um slys í fjölmiðlum. Einkenni sem hafi verið til staðar og höfð voru til hliðsjónar við upphaflegt mat vegi ekki þyngra við matsniðurstöðu við það eitt að vera gefið samheiti eða greiningu sem röskun. Stefnandi hafi þannig ekki á nokkurn hátt sannað að verulegar breytingar hafi orðið á heilsu hans af völdum slyssins sem ekki hafi verið unnt að sjá fyrir er hann samdi um fullnaðarbætur.
Í þessum efnum beri og að hafa í huga að hafi stefnandi látið undir höfuð leggjast að greina matsmönnum í öndverðu með fullnægjandi hætti frá einkennum sínum þá ber ekki annar ábyrgð á því en stefnandi. Sé slíku til að dreifa hafi honum mátt vera ljóst að þær upplýsingar kynnu að hafa haft áhrif á matsniðurstöðu eða hafa kallað á viðeigandi rannsóknir. Endurupptaka verði ekki byggð á því að stefnandi sjái sig um hönd í þessum efnum.
Þá feli aukinn fjöldi læknisfræðilegra vottorða ekki einn og sér í sér sönnun þess að skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga sé fullnægt. Slíkra er eðlilega hægt að afla í áranna rás á því sex og hálfa ári, sem liðu frá slysdegi 9. maí 2007 þar til matsmenn stefnanda létu matsgerð í té í október 2013. Því megi ætla að skýring á muninum á matsgerðum liggi allt eins í því að stefnandi sé í dag mun betur rannsakaður og matsmenn hafi því haft betri möguleika á að átta sig á heilsutjóni hans nú en þá. Slíkt feli ekki í sér að stefnandi hafi fært fram sönnur fyrir því að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu hans eftir fullnaðaruppgjörið 9. október 2009.
Í matsgerð matsmanna þeirra, sem stefnandi leitaði til án samráðs við stefnda, séu í raun ekki tilfærð nein sérstök sjúkdómseinkenni, sem ekki hafi verið til staðar þegar upphaflegt mat fór fram, sem feli í sér ófyrirsjáanlegar breytingar. Því sé þvert á móti lýst að heilsu hans hafi að þeirra áliti farið að hraka þremur til fjórum árum eftir slys og álitamál um það á hvern hátt þessar breytingar hafi falið í sér ófyrirsjáanlegar breytingar sé afgreitt með eftirfarandi orðum: „Eins og áður segir er þá fyrst og fremst horft til geðrænna einkenna sem og einkenna í mjóbaki, en samt einnig einkenna frá hálsi/brjóstbaki. Á því tímabili sem um ræðir virðist líkamleg færni skerðast enn frekar og geta til að stunda leik, nám og störf. Þá er ekki hægt annað en að gera ráð fyrir að sú versnun sem hér um ræðir hafi verið ófyrirsjáanleg í skilningi 11. gr. SKL þegar matsgerð [B] og [C] var látin af hendi þann 26. júní 2009.“ Að mati stefnda verða svo óræð einkenni sem þessi, sem annaðhvort voru til staðar eða ósannað er að tengist slysi stefnanda, ekki lögð til grundvallar sem ófyrirsjáanleg þannig að grundvöllur sé til endurupptöku.
Í þessu sambandi verði einnig að vekja athygli á því að á sama tíma og matsmenn stefnanda telja að hann búi við 25 stiga miska og 50% varanlega örorku vegna langvarandi heilsubrests hafi stefnanda aldrei verið úrskurðuð örorka hjá Tryggingastofnun eftir því sem fyrir liggur í gögnum málsins. Stefnandi virðist einu sinni hafa sótt um örorkubætur, en engra greiðslna frá almannatryggingum er getið meðal tekjuupplýsinga. Fyrirliggjandi tekjupplýsingar spanni aftur til ársins 2004. Samkvæmt þeim hafi stefnandi búið við þrálátt atvinnuleysi og þurft oft á slíkum bótum að halda en engra frá lífeyrissjóði eða almannatryggingum. Slíkt sé fágætt hjá þeim sem lent hafi í slysi þar sem afleiðingar slyss séu metnar í tugprósenta vís. Þyngi það fremur en ekki sönnunarbyrði stefnanda.
Þá hafi því verið slegið föstu af dómstólum að beiðni um nýtt mat á varanlegum miska eða varanlegri örorku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga eigi að réttu lagi að lúta að því að metnar séu þær breytingar sem orðið hafi á heilsufari tjónþola eða starfsorku hans frá því að fyrra mat var gert. Með sama hætti eigi nýtt mat réttilega að lúta að þessum breytingum en almennt ekki að fela í sér nýtt heildarmat á þeim varanlegu afleiðingum sem tjónþoli hlaut af slysi. Fyrirliggjandi mat, sem stefnandi byggi dómkröfur sínar á, samrýmist þessu ekki því að það lúti ekki að því að meta þá þætti sem breyst hafi, heldur feli það í sér heildarmat. Í því ljósi verði matsgerðin ekki með neinni vissu talin fela í sér mat á breytingum á varanlegum afleiðingum líkamstjónsins frá fyrri matsgerð. Stefnandi hafi því ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á honum hvílir til þess að fallast megi á kröfu hans.
Í þessu sambandi verði jafnframt að horfa til þess að stefnandi hafi ekki nýtt sér þau úrræði sem lög áskilja til að fá fyrri matsgerðinni hnekkt. Stefnandi hafi þó fyrr verið sammála því að leggja þá matsgerð til grundvallar fyrirvaralausu uppgjöri við stefnda. Stefnandi hafi hvorki leitaði eftir afstöðu stefnda til að láta nýtt mat fara fram né hagnýtt sér heimild 10. gr. skaðabótalaga til að æskja álits örorkunefndar né æskt dómkvaðningar matsmanna, sbr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Þess í stað hafi hann kosið að velja matsmenn án nokkurs samráðs við stefnda og án þess að tryggja að stefnda væru handhæg öll þau gögn sem þeim mönnum voru látin í té. Þessi framgangsmáti rýri sönnunargildi matsgerðarinnar frá 14. október 2013 svo mjög að til engra álita komi að mati stefnda að dómur verði á því reistur.
Stefndi byggir á því að í ljósi alls ofanritaðs séu ekki uppfyllt skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um að tekin verði upp að nýju ákvörðun um bætur stefnanda til handa vegna þess líkamstjóns sem hann hlaut í umferðarslysi 9. maí 2007.
Varðandi varamálsástæður stefnanda þá vísar stefndi til þess að stefnandi telji að þau læknisfræðilegu gögn sem nú liggi fyrir staðfesti að forsendur matsgerðar sem lögð var til grundvallar bótauppgjöri 26. mars 2003 séu brostnar eða hafi frá upphafi verið rangar og það óháð 11. gr. skaðabótalaga. Þetta eigi sér enga stoð og verði ekki lagt til grundvallar þar sem stefnandi gerði enga fyrirvara við uppgjör málsaðila en dómafordæmi í þessum efnum séu afdráttarlaus.
Þá beri að horfa til þess að 11. gr. skaðabótalaga sé sérregla um áhrif þess að forsendur, sem lagðar hafa verið til grundvallar við ákvörðun skaðabóta, reynist síðar brostnar. Geti því ekki komið til álita óháð þessu ákvæði að ógilda samning um uppgjör bóta með stoð í ólögfestum reglum fjármunaréttar um brostnar forsendur, sem stefnandi hefur meðal annars stutt kröfu sína við. Þá séu heldur ekki efni til að fallast á það með stefnanda að unnt sé að víkja samningi málsaðila um uppgjör til hliðar á grundvelli ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, enda geti það hvorki talist ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi beri fyrir sig þennan samning, sem ekki verði haggað við eftir reglum 11. gr. skaðabótalaga.
Komi til einhverra álita að stefnandi eigi rétt til frekari bótagreiðslna er framsetningu aðal- og varakröfu stefnanda mótmælt af stefnda. Aðalkrafa stefnanda eigi ekki við nein rök að styðjast, enda hafi hann ekki sinn sjómannsstörfum um langt árabil áður en hann slasaðist og mest lítið sinnt iðnaðarstörfum í landi. Helst sýnist stefnandi, að námi slepptu, hafa unnið í þágu […] á liðnum árum og sé þá helst nefnd […] í því sambandi. Í raun hafi svo verið komið fyrir stefnanda fyrir slys að 8. gr. skaðabótalaga eigi við og þar með lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna. Standi þannig helst rök til þess að byggja á þrautavarakröfu stefnanda. Í uppgjöri aðila féllst stefnandi á að miðað yrði við árstekjur að fjárhæð 4.095.360 kr. þegar uppgjör fór fram. Við það sé hann bundinn enda engar forsendur fyrir hærra viðmiði. Á hinn bóginn sé stefndi ekki við það bundinn þar sem viðmið þetta sé umfram skyldu miðað við rétta túlkun skaðabótalaga. Stefndi féllst á að miða við 4.095.360 kr. enda við það miðað að um fullnaðaruppgjör væri að ræða án nokkurra fyrirvara, sú forsenda sé ekki lengur til staðar ef kröfugerð stefnanda nær fram að ganga.
Stefndi mómælir sérstaklega vaxtakröfu stefnanda þar sem hún sé að hluta fyrnd. Greiðsla til stefnanda 9. október 2009 hafi ekki falið í sér viðurkenningu á þeim kröfum sem stefnandi hefur uppi í máli þessu og sleit ekki fyrningu samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Mál þetta var höfðað 12. desember 2013 og eru því vextir sem krafan bar fram til 12. desember 2009 fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Dráttarvextir verði að mati stefnda fyrst dæmdir frá 2. desember 2013 er stefna máls þessa var birt fyrir stefnda.
Stefndi vísar til áðurgreindra lagaraka er varða sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafist er álags á málskostnað er nemur virðisaukaskatti, stefndi rekur ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og ber honum því nauðsyn til að fá dæmt álag er þeim skatti nemur á hendi stefnanda.
IV.
Niðurstaða
Ágreiningur í máli þessu snýst fyrst og fremst um það hvort svo ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá því uppgjöri sem gert var á grundvelli matsgerðar læknanna B og C frá júní 2009 að uppfyllt séu skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 til endurupptöku málsins. Skilyrði endurupptöku skv. 11. gr. er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að miskastig og örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.
Til þess að unnt sé að leggja mat á hvort slíkar ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsufari stefnanda hafi orðið eða ekki telst rétt að bera saman niðurstöður fyrrgreindrar matsgerðar læknanna B og C og matsgerðar þeirrar sem stefnandi aflaði einhliða frá læknunum E og F og D heitnum, lögfræðingi.
Matsgerð læknanna B og C er dagsett 26. júní 2009, þremur dögum eftir matsfund og rúmum tveimur árum eftir slysið. Læknarnir komust að þeirri niðurstöðu, eins og fram kemur í matsgerðinni, að stefnandi hefði í umræddu slysi hlotið áverka á mjóhrygg – brot á þremur þvertindum mjóhryggjar vinstra megin. Brotin voru sögð gróin þegar matið fór fram. Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir meðal annars eftirfarandi: slasaði endurupplifir slysið og forðast að horfa á fréttir eða annað efni um slys í fjölmiðlum. Varanlegur miski og hefðbundin læknisfræðileg örorka er metin 8%. Í miskatöflum Örorkunefndar frá 2006, sem jafnan eru hafðar til hliðsjónar við mat á varanlegum miska, er hryggtindabrot metið til 5-8% miska. Miðað við töflurnar er mat læknanna á varanlegum miska þannig í efri vikmörkum.
Matsgerð D heitins, lögfræðings og læknanna E og F, sem stefnandi aflaði einhliða, er dagsett 14. október 2013 en matsfundur var haldinn 26. júní 2013, rúmum sex árum eftir slysið.
Matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að heilsufar stefnanda hafi farið versnandi með tímanum, einkum 2-3 síðustu árin fyrir matsfundinn. Varanlegur miski er sundurliðaður í matsgerðinni og eru einkenni frá hálshrygg og brjósthrygg metin til 5 stiga, einkenni frá mjóhrygg til 10 stiga og geðræn einkenni, áfallastreituröskun, til 10 stiga. Samanlagt er varanlegur miski að mati þremenninganna þannig 25 stig eða 25%.
Hvað varðar ofangreind einkenni frá hálshrygg og brjósthrygg, sem greint er frá í matsgerð þremenninganna, þá er þeirra ekki getið í frumgögnum málsins. Umkvartana stefnanda um einkenni frá hálshrygg er fyrst getið í september 2009 eða rúmum tveimur árum eftir slysið samkvæmt læknisvottorði heimilislæknis stefnanda, G. Orsakasamhengi einkenna frá hálsi við slysið telst að mati dómsins, með hliðsjón af svo löngum tíma frá slysi, ekki vera fyrir hendi. Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi hafi endurtekið verið fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku vegna verkja frá brjóstkassa. Hefur stefnandi látið að því liggja að um hafi verið að ræða einkenni frá brjósthrygg eftir slysið. Að mati sérfræðinga á Landspítalanum voru einkennin talin samrýmast best streitu og álagi. Þá túlkar heimilislæknir stefnanda þessi einkenni sem hluta af ofsakvíðakasti í læknisvottorði sínu til Tryggingastofnunar ríkisins vegna umsóknar um örorkubætur. Að mati dómsins er ekki unnt að tengja ofangreind einkenni frá brjóstkassa við slysið af sömu ástæðu.
Um sjúkdómseinkenni stefnanda vegna áverka á mjóhrygg er all ítarlega fjallað í matsgerð læknanna C og B. Hið varanlega heilsutjón eða miski er af þeim metinn 8% en í matsgerð þeirri sem stefnandi aflaði einhliða er varanlegur miski metinn 10%.
Varanleg einkenni mjóhryggjaráverka af þeim toga sem stefnandi hlaut í slysinu hafa tilhneigingu til þess að vera sveiflukennd frá einum tíma til annars. Að mati dómsins teljast umkvartanir stefnanda frá mjóhrygg – eins og þeim er lýst í matsgerð læknanna E, F og D, heitins, lögfræðings – ekki vera ófyrirsjáanlegar.
Hvað varðar hin geðrænu einkenni stefnanda þá er þeirra getið í matsgerð læknanna C og B. Segir í matsgerðinni að stefnandi sé eitthvað skapstirðari en áður og viðbrigðinn. Hann kveðst forðast að hlusta og horfa á dánarfregnir eða hlusta á fréttir ogg horfa á kvikmyndir þar sem fjallað er um slys. Þá er þessara einkenna einnig getið í samantekt matsgerðarinnar svo sem fyrr er vikið að. Að mati dómsins teljast þau geðrænu einkenni sem stefnandi kvartar um á matsfundi í júní 2013 ekki hafa verið ófyrirsjáanleg. Einnig ber að geta þess að ofangreind einkenni eru, að viðbættum nokkrum öðrum, fyrst túlkuð sem áfallastreituröskun í læknisvottorði J í apríl 2013, eða rétt tæpum sex árum eftir slysið. Þá ber að halda því til haga að stefnandi hafði glímt við [...] áður en hann lenti í slysinu. Stefnandi leitaði til geðlæknis vegna [...] í nóvember 2008 eða einu og hálfu ári eftir slysið en í læknabréfi mun ekki hafa verið minnst á slysið. Í læknisvottorði G, heimilislæknis stefnanda, til Tryggingastofununar ríkisins vegna umsóknar um örorkubætur kemur fram að ástæður umsóknarinnar séu
1. Bakverkir eftir slys árið 2007
2. Verkir í hálsi og herðum síðan árið 2009
3. Kvíði með ofsakvíðaköstum.
Að mati dómsins er langsótt, og í raun mikil einföldun, að ætla að öll þau geðrænu einkenni sem stefnandi hefur umkvartanir um á matsfundi í júní 2013 sé að rekja til slyssins í maí 2007. Dómurinn lítur svo á að umrædd geðræn einkenni hafi ekki verið ófyrirsjáanleg þegar örorkumat fór fram í júní 2009.
Það er stefnandi sem ber sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði fyrrgreinds ákvæðis 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé uppfyllt. Með vísan til þess sem hér að framan hefur verið rakið verður ekki talið að stefnanda hafi tekist sönnun á því að skilyrðið 11. gr. skaðabótalaga sé uppfyllt. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Málskostnaður fellur niður, en gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar sem með er talinn lögmannskostnaður hans, greiðist úr ríkissjóði eins og kveðið er á um í dómsorði.
Mál þetta dæma Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari og sérfróðu meðdómsmennirnir Guðjón Baldursson læknir og Júlíus Valsson læknir.
Dómsorð:
Stefndi, Vörður tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talinn lögmannskostnaður hans, 1.270.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.