Hæstiréttur íslands
Mál nr. 449/2000
Lykilorð
- Líkamsárás
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 8. mars 2001. |
|
Nr. 449/2000.
|
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Sigurði Stefáni Almarssyni (Sigurður Georgsson hrl.) |
Líkamsárás. Hegningarauki.
S var gefið að sök að hafa veist að M með þeim afleiðingum að hann varð fyrir talsverðum áverkum og hlaut meðal annars beinbrot á kjálka og fingri. S neitaði staðfastlega sakargiftum. Með hliðsjón af framburði vitna og gögnum sem lágu fyrir þótti sannað að S hefði valdið M þeim áverkum sem hann varð fyrir. Var S því dæmdur til fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. desember 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing verði milduð frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.
Í málinu er ákærði borinn sökum um að hafa á nánar tiltekinn hátt gerst sekur um líkamsárás 20. nóvember 1999. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis.
Eins og greinir í héraðsdómi hlaut ákærði dóm 17. apríl 2000 vegna umferðarlagabrota og var refsing hans í þessu máli því réttilega ákveðin sem hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í sakavottorði ákærða, sem lagt var fram í Hæstarétti, kemur fram að hann hlaut aftur dóm fyrir umferðarlagabrot 28. apríl 2000, en frá þeim dómi var ekki greint í sakavottorði, sem lá fyrir í héraði. Refsingu hans nú verður jafnframt að ákveða sem hegningarauka við þann dóm. Að þessu gættu og með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða, svo og um sakarkostnað.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Sigurður Stefán Almarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.
Héraðsdómur Reykjavíkur 17 apríl 2000.
I.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 9. maí 2000 á hendur ákærða, Sigurði Stefáni Almarssyni, kt. 300856-5519, Baldursgötu 31, Reykjavík “fyrir líkamsárás með því að hafa, að morgni laugardagsins 20. nóvember 1999, veist að Magnúsi Torfa Sighvatssyni, kt. 190844-2699, á heimili sínu á 2. hæð að Baldursgötu 31, Reykjavík, slegið hann hnefahögg í andlitið, snúið upp á hendur hans og er Magnús Torfi gekk niður stiga að útidyrum hússins, hrint honum niður stigann með þeim afleiðingum að Magnús Torfi hrasaði niður stigann og loks slegið Magnús Torfa mörg hnefahögg í andlitið þar sem hann lá við útidyr.
Hlaut Magnús Torfi við árásina opið beinbrot á neðri kjálka, skurði í neðri vör og beinbrot á baugfingri.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.
Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvalds í máli þessu, en til vara, komi til sakfellingar, að dæmd verði vægasta refsing sem lög framast leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna sér til handa.
II.
Málavextir.
Laugardaginn 20. nóvember 1999 kl. 7.29 fóru lögreglumenn að Baldursgötu 31 í Reykjavík, en þaðan hafði ákærði hringt og óskað eftir aðstoð vegna manns, sem dottið hefði niður stiga þar innandyra. Er lögregla kom á vettvang kom ákærði til dyra og sáu lögreglumenn hvar Magnús Torfi Sighvatsson lá á gólfinu innan við dyrnar. Lá Magnús á bakinu og sneri höfðinu að ofni, sem þar var. Fatnaður hans var úr lagi genginn þannig að sást í beran brjóstkassann og var hann nokkuð blóðugur í andliti við munn og nef. Auk þess voru litlir skurðir á augnlokum hans, einn skurður á hvoru augnloki. Fram kom á vettvangi að Magnús Torfi væri nýkominn úr lýtaaðgerð. Blóð var sjáanlegt á mottu við útidyrnar og á vegg í stigagangi á móts við þriðju tröppu neðan frá.
Vitnið, Elfa Björnsdóttir, var hjá Magnúsi og var hann með meðvitund. Var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild og fylgdi vitnið, Elfa, honum í sjúkrabifreiðinni.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að Baldursgata 31 sé fjölbýlishús, tvær hæðir og kjallari. Ákærði búi á efri hæðinni ásamt sambýliskonu sinni, vitninu Berglindi Guðmundsdóttur. Á milli hæða sé teppaklæddur, nokkuð brattur stigi, sem liggi í boga. Sextán tröppur séu í stiganum frá pallinum á efri hæðinni niður á pallinn þar sem Magnús lá, en stiginn liggi síðan áfram niður í kjallara. Þá sé handrið á stiganum. Í lögregluskýrslu segir að gengið sé inn í íbúð ákærða og Berglindar af stigapallinum og sé þá komið inn í stórt hol eða gang. Þar á vinstri hönd hafi verið sófi, tveir stólar og hringlaga sófaborð. Í sófanum hafi Berglind legið og sofið ölvunarsvefni. Á borðinu og á gólfinu við það hafi verið glös og áfengis- og bjórflöskur. Einnig hafi þar verið lyf, Mogadon og Voltaren Rapid. Gat hafi verið á vinstri buxnaskálm Berglindar og hún með áverka við vinstra hné. Ákærði hafi verið áberandi ölvaður eða undir áhrifum lyfja og hafi hann verið bæði valtur á fótum og þvoglumæltur. Hafi ákærði verið ber að ofan og hvorki blóð né áverka að sjá á honum. Ákærði hafi verið rólegur og kurteis í framkomu.
Í frumskýrslu lögreglu segir að ákærði hafi viðurkennt á vettvangi að hafa verið í átökum við Magnús Torfa og að átökin hefðu bæði átt sér stað í íbúðinni rétt áður og á Bergstaðastræti fyrr um nóttina. Ákærði hafi tekið fram að fyrra bragði að hann hefði ekki hrint Magnúsi niður tröppurnar heldur hefði Magnús hrasað sjálfur vegna ölvunar. Magnús hefði þá verið að fara. Þá er haft eftir ákærða að hann, Berglind og Magnús, en þau þekktust öll, hefðu verið á gangi á Bergstaðastræti fyrr um nóttina og hefði Magnús þá ráðist á Berglindi og hrint henni í götuna með þeim afleiðingum að Berglind hefði fengið áverka á vinstra fæti. Ákærða hefði ekki líkað þetta og því aðeins tekið á Magnúsi. Eftir það hefði Magnús horfið, en hann sjálfur og Berglind farið heim. Ákærði sagði að Magnús hefði fyrir stuttu komið á Baldursgötu 31 ásamt Elfu, sem ekki hefði verið með þeim fyrr um nóttina. Ákærði hefði ekki verið ánægður með komu Elfu. Hefði hann tekið aðeins í Magnús þarna inni og vísað honum og Elfu síðan út. Ákærði hefði staðið aðeins niðri í stiganum þegar Magnús hrasaði, en Magnús hefði þá verið kominn niður í miðjan stigann. Magnús hefði fyrst dottið utan í vegginn og farið síðan kollhnís niður stigann.
Eftir að hafa rætt við ákærða á vettvangi fóru lögreglumenn á slysadeild og var þar tjáð að svo liti út að Magnús væri mikið slasaður. Ekki var rætt við Magnús á slysadeild vegna ástands hans, en að beiðni lögreglu var tekið blóðsýni úr honum þar sem frá vitum hans lagði áfengisþef. Á slysadeild hafði lögregla hins vegar tal af vitninu, Elfu Björnsdóttur. Kvað hún Magnús hafa hringt í sig um nóttina og sagt sér að ákærði hefði lamið hann illa á Bergstaðastræti fyrr um nóttina og hefði hann óskað eftir nærveru hennar. Elfa kvaðst hafa tekið leigubíl heim til Magnúsar og þaðan hefðu þau bæði farið að Baldursgötu 31 og hitt þar Berglindi og ákærða. Þau hefðu öll sest niður í holinu inn af útidyrum íbúðarinnar. Samkynhneigð hefði borist í tal milli þeirra ákærða og Magnúsar, en Magnús væri samkynhneigður, og í framhaldi af því tali hefðu átök hafist þeirra á milli. Kvaðst Elfa hafa verið frammi á stigagangi og séð ákærða hrinda Magnúsi niður stigann.
Að svo búnu ákvað lögregla að fara aftur að Baldursgötu 31 til að rannsaka og ljósmynda vettvang og handtaka ákærða. Í íbúð ákærða og Berglindar voru öll ljós slökkt og hvorki síma né dyrabjöllu svarað. Lögregla fór aftur á staðinn kl. 13.18 sama dag og var þá hleypt inn. Virtust ákærði og Berglind þá nývöknuð. Þau heimiluðu lögreglu að skoða og ljósmynda vettvang. Þá voru tekin sýni af blóðinu á veggnum og mottunni. Ákærði kvaðst reiðubúinn til að fylgja lögreglu á lögreglustöð til skýrslutöku. Ekki reyndist þó unnt að taka af honum formlega skýrslu þar sem hann virtist enn undir áhrifum áfengis eða lyfja. Var hann því vistaður í fangaklefa. Berglind kvaðst ekki tilbúin til formlegrar skýrslutöku vegna ástands síns. Hún kvaðst ekkert geta tjáð sig um umrætt atvik á heimili hennar þar sem hún hefði líklega verið sofnuð ölvunarsvefni í sófanum þegar það hefði átt sér stað.
Í málinu liggur frammi vottorð Jóns Baldurssonar, yfirlæknis á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur, en vottorðið er ritað skömmu eftir komu Magnúsar Torfa þangað eða þann 20. nóvember 1999. Í vottorðinu segir m.a.:
“Magnús kom með sjúkrabifreið á slysa- og bráðamóttöku SHR í morgun 20.11. 1999 kl. 7.59, vottorð þetta er ritað kl. 10:00 sama dag. Ástæða komunnar var ofbeldi sem hann hafði orðið fyrir og nafngreindi hann árásarmanninn sem Sigurð Stefán Almarsson, þekktan undir nafninu “Malagafanginn”. Samkvæmt sögunni mun ofbeldi einkum hafa verið fólgið í margendurteknum hnefahöggum í andlit en einnig var Magnúsi hent niður stiga í húsi. Við komu hingað kvartar hann einkum um verk í kjálkanum og andlitinu og auk þess í bakinu. Þá hefur hann einnig meiðst á vi. baugfingri og kveðst hafa verið kýldur þar. Ekki kemur fram í sögunni, að hann hafi rotast við áverkana. Hins vegar mun hann nýlega hafa verið í lýtaaðgerð hjá Jens Kjartanssyni, lýtalækni og þá gerð á honum andlitslyfting báðum megin.
Við fyrstu skoðun koma í ljós áverkar á ýmsum stöðum. Tæplega 2 cm skurður er utanhallt í efra augnloki báðum megin. Í miðri efri vör er skurður aðallega að innanverðu. Í neðri góm eru lausar tennur og vaknar grunur um, að neðri kjálkinn kunni að vera brotinn en það hefur ekki tekist að staðfesta enn miðað við rtg. myndatöku. Maðurinn er dálítið drafandi í tali og áberandi áfengislykt úr vitum. Við hæ. eyrnasnepil er sár, rúmlega 1 cm langt. Í brjóstkassanum eru talsverð eymsli neðarlega vi. megin og eru þau bæði bein og óbein og vaknar því grunur um brot á rifbeinum þar. Lungnahlustun er hins vegar jöfn báðum megin og rtg. mynd af og (svo) lungum sýnir ekki áberandi merki um lungnaáverka en rtg. læknir á eftir að lesa úr þessum myndum. Við rót vi. baugfingurs er djúpur skurður lófamegin og nær nánast hálfhring utan um fingurrótina. Við komu er greinilegt brak, los og skekkja á nærkjúkunni nærlægt og er gerð gróf rétting á þessu broti strax við komu. Rtg. mynd staðfestir síðan, að brot er nærlægt í nærkjúkunni.
Ljóst er að við fyrstu athugun hafa greinst ýmsir áverkar, sem gætu vel samrýmst alvarlegu ofbeldi. Rétt er að taka fram, að eftir er að gera ýmsar rannsóknir á sjúklingnum og því ekki útilokað, að fleiri áverkar eigi eftir að koma í ljós hjá honum.”
Þá liggur frammi í málinu áverkavottorð fyrir Magnús Torfa ritað að beiðni lögreglu 24. nóvember 1999 af Guðmundi Ásgeiri Björnssyni, sérfræðingi í kjálka og munnholssjúkdómum. Í því segir eftirfarandi:
“Magnús var lagður hér inn á spítalann 20. nóvember 1999. Samkvæmt hans framburði hafði hann lent í áflogum og verið hrint niður stiga. M.a. leiddi þetta til opins beinbrots á neðri kjálka um stæði augntannar 3/3.
Magnús fór síðan í aðgerð 22. nóvember 1999 þar sem brot var spengt saman. Brotnað hefur úr augntönn 1/3 gómmegin og forjaxl 2/4 vararmegin. Magnús er enn í meðhöndlun vegna þessara áverka og á þessari stundu er ekki fyrirséð um endanlegan bata.
Í stuttu máli getur undirritaður ekki staðfest að áverkar á kjálkum eða tönnum séu eftir fall eða líkamsárás.”
Samkvæmt vottorði Rannsóknarstofu í lyfjafræði 23. nóvember 1999 var magn alkóhóls í blóði Magnúsar Torfa Sighvatssonar 2,88 og að reiknuðu 0,15 fráviki var endanleg niðurstaða rannsóknarinnar 2,73.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.
Ákærði neitaði sök. Hann kvað Magnús Torfa hafa hringt í Berglindi sambýliskonu sína og sagt henni að hann væri á leið niður í bæ til að ná í föt í viðgerð hjá konu í næsta húsi við þau ákærða og Berglindi. Hefði hann spurt hvort hann mætti ekki kíkja við hjá þeim og fá sér í glas með þeim. Það hefði verið auðsótt mál. Ákærði kvað Magnús hafa sótt fötin og komið síðan til þeirra Berglindar og þau drukkið saman vodkaflösku, sem Magnús hefði komið með með sér. Eitthvað hefði samkynhneigð komið til umræðu og hefði Magnús haldið því fram að ákærði væri samkynhneigður. Síðar um nóttina hefðu þau farið á skemmtistaðinn Spotlight, en áður hefði þeim verið vísað frá skemmtistaðnum Grandrokki vegna ölvunar Magnúsar. Á Spotlight hefði Magnús haldið áfram að vera með “sóðakjaft”, eins og ákærði orðaði það, hann hefði ýtt við ákærða og hellt yfir hann vínglasi. Hefði ákærði þá fengið nóg og farið út og Berglind á eftir honum. Magnús hefði komið hlaupandi á eftir þeim þar sem þau voru á Bergstaðastrætinu, hann ýtt á Berglindi, sem hefði dottið, og Magnús síðan dottið um fæturna á Berglindi. Ákærði kvaðst hafa dröslað Magnúsi ofan af Berglindi og einhver strákur hefði komið þarna að, sem hefði hjálpað Berglindi á fætur. Því næst hefði Magnús hlaupið í burtu. Síðar um nóttina hefði Elfa Björnsdóttir hringt heim til þeirra Berglindar og spurt hvort hún mætti koma í heimsókn og þau sagt að það væri í lagi. Þegar Elfa hefði komið á Baldursgötuna hefði Magnús verið með henni og sagst vera kominn til að ná í föt, sem hann hefði gleymt hjá þeim. Hefði ákærði sagt Magnúsi að hann fengi ekki fötin fyrr en hann væri búinn að borga buxur Berglindar. Hefðu þau þrasað heillengi út af fötum Magnúsar og að lokum hefði ákærði verið búinn að fá nóg af þessu “kjaftæði” og “hommakjaftæði”, eins og ákærði orðaði það, og hefði hann beðið þau um að fara. Ákærði kvað Elfu hafa gengið strax niður stigann en Magnús haldið áfram að tuða um fötin. Þegar ákærði hefði staðið upp hefði Magnús gengið út. Ákærði kvaðst hafa staðið í dyrunum á stigapallinum á meðan Magnús gekk niður stigann. Elfa hefði hins vegar staðið í miðjum hringnum á stiganum. Magnús hefði hlaupið niður stigann og hefði hann annað hvort rekið sig í fótinn á Elfu eða Elfa brugðið fyrir hann fæti, a.m.k. kosti hefði Magnús hlaupið hraðar niður stigann eftir það og stutt sig við handriðið. Ákærði kvaðst ekki hafa séð Magnús detta en hann hefði heyrt mikinn skell í hurðinni. Hefði hann haldið að Magnús væri að sparka í hurðina og hefði ákærði þá farið fram og litið niður stigapallinn og séð Magnús “leka niður með hurðinni”. Ákærði kvaðst hafa farið beint í símann og hringt í neyðarnúmerið 112. Á meðan ákærði hefði verið í símanum hefði lögreglan komið og ákærði farið niður og opnað fyrir henni.
Aðspurður kvað ákærði engin átök hafa átt sér stað á milli þeirra Magnúsar í íbúðinni. Ákærði kannaðist hvorki við að hafa slegið Magnús mörgum sinnum í andlit og háls á meðan hann sat í sófanum né að hafa snúið upp á hönd Magnúsar. Þá kannaðist ákærði ekki við að hafa hrint Magnúsi niður stigann eða að hafa haldið áfram að berja hann þar sem hann lá við útidyrnar.
Aðspurður kvað ákærði Magnús hafa verið rispaðan í andliti eftir fallið á Bergstaðastræti fyrr um kvöldið og hefði blætt úr honum. Hefði Magnús dottið beint á andlitið í götuna.
Ákærði var spurður út í það atriði í frumskýrslu lögreglu þar sem sagt er að ákærði hefði viðurkennt að hafa verið í átökum við Magnús og að átökin hefðu átt sér stað í íbúðinni og á Bergstaðastræti fyrr um nóttina. Ákærði kvað það geta verið að hann hefði tekið í öxlina á Magnúsi til að lyfta honum upp úr sófanum og koma honum út. Magnús hefði verið svo drukkinn að hann hefði varla getað gengið. Hefði hann setið í sófanum og verið farinn að klína blóði í hann. Þá hefði Elfa löngu verið farin niður stigann, en Magnús haldið áfram að tuða um fötin. Þá kannaðist ákærði við það atvik, sem fram kemur í skýrslu hans hjá lögreglu 21. nóvember 1999, að þegar ákærði hefði gengið að Magnúsi til að taka hann úr sófanum hefði Magnús sparkað í ákærða og ákærði þá snúið aðeins upp á fót Magnúsar. Einnig kannist ákærði við að hafa slegið Magnús í höfuðið með regnhlíf á Bergstaðastræti. Hefðu þetta verið einu átökin, sem átt hefðu sér stað þarna um kvöldið.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 21. nóvember 1999 og bar í megindráttum á sömu leið fyrir lögreglu og hér fyrir dómi. Kvaðst ákærði hafa beðið Magnús að koma sér út, gengið að honum og ætlað að taka hann úr sófanum, en þá hefði Magnús sparkað í ákærða. Ákærði sagðist þá hafa tekið í löppina á Magnúsi og snúið aðeins upp á hana. Hefði hann sleppt þegar Magnús hefði farið að kveinka sér. Magnús hefði þá staðið upp og gengið niður stigann og Elfa farið á eftir honum. Ákærði kvaðst hafa staðið efst í stigapallinum og hefði hann tekið eftir því að Magnúsi hefði skrikað fótur, farið fram fyrir sig og skollið á útidyrahurðina.
Í skýrslu, sem ákærði gaf hjá lögreglu 17. febrúar 2000, kemur fram að þar sem ákærði hefði staðið efst á stigapallinum hefði hann séð að Magnús rakst utan í Elfu og datt niður stigann. Ákærði neitaði því að hafa hringt í vitnið, Elfu, og reynt að hafa áhrif á framburð hennar.
Vitnið, Magnús Torfi Sighvatsson, kvað Berglindi hafa hringt í sig umrætt kvöld og beðið sig um að koma. Áður en hann fór heim til ákærða og Berglindar kvaðst hann hafa náð í föt í viðgerð á Freyjugötu. Síðar um kvöldið hefði verið ákveðið að fara á skemmtistað og hefðu .þau endað á skemmtistaðnum Spotlight á Hverfisgötu þar sem þau hefðu fengið sér í glas. Þaðan hefðu þau síðan gengið áleiðis heim til þeirra Berglindar og ákærða, en Magnús kvaðst hafa ætlað að ná í fyrrnefndan fatapoka og hringja þaðan á leigubíl. Er þau hefðu verið á gangi eftir Bergstaðastræti hefði ákærði dregist aftur úr. Hefði hann rifið veski úr rassvasa vitnisins og hent vitninu til þannig að það hefði lent á Berglindi og síðan á vegg. Hefði sprungið fyrir á augum vitnisins þannig að byrjað hefði að fossblæða. Þá hefði ákærði rifið af vitninu gullkeðjur, sem það hefði verið með um hálsinn og hlaupið að svo búnu afsíðis. Ákærði hefði síðan komið til baka og hent veskinu í vitnið. Þá hefði ákærði að svo búnu ráðist á vitnið og þjarmað að því. Ákærði hefði hætt þegar vegfaranda hefði borið að og hefði vitnið þá komist undan og hlaupið alblóðugt niður á Laugaveg.
Aðspurt kvaðst vitnið hafa verið nýkomið úr lýtaaðgerð og hefðu skurðirnir verið grónir en mjög viðkvæmir. Að öllum líkindum hefðu skurðir vegna aðgerðarinnar sprungið þarna upp og því hefði vitnið verið alblóðugt. Þá kvaðst vitnið hafa fundið fyrir miklum kvölum yfir brjóstið og það geri því ráð fyrir að það hafi rifbeinsbrotnað við þessi átök.
Vitnið kvaðst hafa komist niður á Laugaveg eins og fyrr greinir og náð þar í leigubíl og farið heim til sín. Þar hefði hann hringt í vinkonu sína, Elfu Björnsdóttur, þar sem það hefði verið miður sín vegna framangreinds. Elfa hefði komið og eindregið viljað fara heim til þeirra ákærða og Berglindar til að freista þess að fá peningana, skartgripina og fatapokann til baka. Hefðu þau tekið leigubíl á Baldursgötu og látið bílinn bíða á meðan þau fóru upp í íbúð þeirra ákærða og Berglindar. Þegar þau hefðu komið upp í holið hefðu þau sest niður við borðið í holinu og farið að ræða saman. Talið hefði sveigst að ætlaðri samkynhneigð ákærða. Hefðu ákærði og Berglind farið að rífast og í framhaldi af því hefði ákærði ráðist á vitnið þar sem það sat í sófanum og þjarmað að andliti þess. Vitnið var spurt hvað það ætti við með orðinu “þjarma” og kvaðst vitnið eiga við að ákærði hefði barið, slegið og “djöflast”. Kvaðst vitnið hafa borið hendur fyrir andlit sér, en þá hefði ákærði þrýst fingrum hans aftur og snúið upp á höndina þannig að hún hefði lent aftur fyrir bak og einn fingurinn brotnað. Við þessi átök hefði vitnið komist skríðandi fram á stigapallinn. Elfa hefði reynt að ganga á milli en ekki tekist það og hefði hún hlaupið á undan niður stigann. Svo sem fyrr greinir kvaðst vitnið hafa komið skríðandi fram á stigapallinn og hefði ákærði verið hálfpartinn ofan á vitninu. Vitninu hefði tekist að hífa sig upp á handriðinu efst í stiganum og í þann mund hefði ákærði annað hvort sparkað eða ýtt við vitninu þannig að það hefði henst niður stigann. Elfa hefði staðið fyrir neðan í stiganum og hefði hún tekið af sér fallið að einhverju leyti, en vitnið hefði þó farið niður allan stigann og ákærði komið á eftir. Vitnið kvaðst hafa lent við útidyrnar og þar hefði ákærði haldið áfram að sparka í vitnið og berja það. Vitnið kvað ákærða hafa sparkað í andlitið á sér og brjóstið. Við þetta hefði vitnið misst meðvitund og ekki rankað við sér fyrr en á sjúkrahúsinu.
Vitnið kvaðst gera ráð fyrir að það hefði kjálkabrotnað þegar ákærði sparkaði í það við útidyrnar án þess þó að geta fullyrt um það. Vitnið kvaðst ekki geta útilokað að það hefði fengið skurði á neðri vör eftir átökin á Bergstaðastræti því það hefði verið alblóðugt í andliti eftir þau.
Lögregla átti viðtal við vitnið á gæsludeild slysadeildar 20. nóvember kl. 14.00. Er þar haft eftir vitninu að á Bergstaðastræti á leið heim til ákærða og Berglindar hafi ákærði alveg upp úr þurru farið að kýla vitnið í andlitið nokkrum sinnum og hefði vitnið þá dottið í götuna. Hugsanlegt væri að hann hefði þá rekist utan í Berglindi og hún dottið. Ungur maður hefði komið þarna að og hefði ákærði þá hætt. Ákærði hefði hins vegar tekið seðlaveskið af vitninu og hlaupið með það í burtu en komið síðar og hent veskinu í vitnið. Vitnið skýrði frá því, sem síðar gerðist, á sömu lund og að ofan greinir. Í framhaldi af rifrildi ákærða og Berglindar hefði ákærði ráðist á vitnið og slegið það í andlitið. Hefði ákærði rifið vitnið upp úr sófanum og látið höggin dynja á andliti þess. Vitnið hefði sett fyrir sig hendurnar til þess að verja andlit sitt og hörfað í áttina að stigapallinum. Þegar vitnið hefði verið komið niður nokkrar tröppur hefði Sigurður sparkað í vitnið þannig að það hefði dottið niður stigann og hafnað á stigapallinum fyrir framan útidyrahurðina. Sagði vitnið að Elfa hefði verið komin úr holinu fram á stigapallinn þegar ákærði hefði sparkað í vitnið, en vitnið kvaðst ekki vita nákvæmlega hvar hún stóð. Berglind hefði verið inni í holinu. Vitnið kvaðst ekki hafa misst meðvitund, en það hefði verið mjög kvalið.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 29. nóvember 1999. Skýrði vitnið frá atburðinum á þann hátt að þau Berglind hefðu gengið á undan ákærða og verið að spjalla. Ákærði hefði hrint Magnúsi þannig að hann hefði dottið utan í Berglindi og hefðu þau tvö dottið í götuna. Þá hefði ákærði tekið seðlaveski úr rassvasa vitnisins, farið afsíðis, en komið síðar og hent veskinu í vitnið. Að svo búnu hefði ákærði slegið vitnið í andlitið. Vitnið lýsti því sem síðar gerðist á sama veg og áður. Hvað varðar átökin á heimili ákærða sagði vitnið að talið hefði sveigst að samkynhneigð og hefði vitnið haldið því fram að ákærði væri samkynhneigður. Upp hefði hafist rifrildi með ákærða og Berglindi. Hefði ákærði þá ráðist á vitnið og snúið upp á hendur þess og fett upp á fingur þess. Hefði hann keyrt hann í gólfið upp við einhvern ofn eða eitthvað, sem hefði verið hart viðkomu. Ákærði hefði síðan tekið vitnið upp og farið með það fram og hent því niður stigann. Hefði vitnið rúllað niður stigann. Ákærði hefði haldið áfram að hamast á vitninu þarna niðri, eins og það er orðað í lögregluskýrslu. Þá hefði hann sparkað í bakið á vitninu.
Vitnið gaf skýrslu á ný hjá lögreglu á árinu 2000, líklega 4. maí, en dagsetning skýrslunnar er ekki ljós. Vitnið skýrði á sömu lund og fyrr frá aðdraganda ætlaðra átaka í sjónvarpsholinu. Ákærði og Berglind hefðu farið að rífast og ákærði í framhaldi af því ráðist á vitnið. Hefði hann slegið vitnið í andlitið (vitnið mundi ekki hversu oft). Þá hefði ákærði snúið upp á vinstri höndina og fett fingurna aftur með þeim afleiðingum að baugfingur hefði brotnað. Ákærði hefði rifið vitnið upp úr sófanum og tekist að ná vitninu undir sig. Vitnið hefði dottið á gólfið og lent með höfuðið utan í einhverju hörðu, hugsanlega ofni. Vitnið sagði að sér hefði tekist að krafla sig fram á stigapallinn með ákærða yfir sér og hefði hann haldið vinstri hendi fyrir aftan bak. Vitnið kvaðst ekki vera meðvitað um það hvað hefði gerst nákvæmlega eftir það, þ.e.a.s. hvort vitninu hefði tekist að standa upp sjálfu eða hvort ákærði hefði togað hann upp. Sagði vitnið að það hefði verið ýtt aftan á það með þeim afleiðingum að það hefði dottið niður stigann. Sagðist vitnið hafa verið á stigapallinum þegar því var ýtt.
Vitninu var bent á misræmi, sem væri á framburði hans annars vegar í viðtalsskýrslu 20. nóvember 1999 og framburðarskýrslu hans hjá lögreglu 29. nóvember 1999. Kvað hann framburð sinn frá 29. nóvember réttan og hefði hann gefið aðeins nákvæmari lýsingu á atburðinum hér að ofan.
Vitnið sagði að þegar það hefði legið fyrir neðan stigann hefði ákærði komið og sparkað í vitnið. Hefði vitnið legið þarna í einum kút og myndi það ekki hvar ákærði sparkaði í hann. Þá kvaðst vitnið ekki vita hvort ákærði kýldi það, en það hefði a.m.k. fundið fyrir höggum. Hefði hann verið hálfrænulaus af kvölum. Hefði vitnið heyrt í Elfu í fjarska, gargandi, en það hefði ekki vitað hvar hún hefði staðið. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna hvort Elfa stóð á stigapallinum ásamt ákærða. Þegar vitnið var innt nánar út í það sagði það að það væri eins og því fyndist að Elfa hefði verið fyrir framan vitnið, þ.e.a.s. niðri í stiganum, þegar vitninu var ýtt niður stigann.
Vitnið, Elfa Björnsdóttir, kvað Magnús hafa hringt í sig umrædda nótt og tjáð sér að hann hefði orðið fyrir árás. Einnig hefðu verið teknar af honum gullfestar og peningar. Kvaðst vitnið hafa tekið leigubíl heim til Magnúsar og hefði Magnús verið miður sín yfir því sem gerst hafði. Aðspurt kvaðst vitnið enga áverka hafa séð á Magnúsi og hann hefði ekki verið blóðugur. Þeim Magnúsi hefði talast svo til að þau færu til Berglindar og ákærða og sæktu þessa hluti, sem Magnús taldi sig eiga hjá þeim. Hefðu þau tekið leigubíl að Baldursgötu og látið hann bíða fyrir utan þar sem þau hefðu ætlað að stoppa stutt við. Hún kvað allt hafa farið friðsamlega fram til að byrja með en síðan hefðu hafist átök, sem byrjað hefðu uppi í stofunni og síðan færst niður stigann. Vitnið kvaðst ekki muna hver tildrög átakanna voru, en þegar það var innt eftir því hvort umræða um samkynhneigð hefði komið af stað ósætti og síðar átökum, kvað vitnið það rétt vera.
Aðspurt kvaðst vitnið hafa verið undir áhrifum áfengis, en þó ekki verið mjög drukkið.
Þegar vitnið var innt eftir því hver hefði byrjað átökin og beðið að lýsa því hvernig þau þróuðust kvaðst vitnið ekki geta lýst því í smáatriðum. Kvaðst vitnið ekki geta svarað því hver hefði byrjað átökin. Þau hefðu setið í sófa og á stólum í holinu. Þar hefðu áflogin byrjað, eins og vitnið orðaði það, og síðar færst fram á stigapall og niður stigann. Þar hefði ákærði barið Magnús, en vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvar höggin lentu.
Hún staðfesti það, sem fram kemur í framburðarskýrslu hennar hjá lögreglu 21. nóvember 1999, að Magnús hefði borið á ákærða að hann væri samkynhneigður og að ákærði hefði orðið reiður. Vitnið og Magnús hefðu setið í sófanum, en ákærði og Berglind í stólunum gegnt sófanum. Ákærði hefði setið á ská á móti Magnúsi og Magnús hefði setið næst hurðinni að stigaganginum. Vitnið staðfesti einnig að ákærði hefði staðið upp og byrjað að slá Magnús mörgum sinnum í andlit og háls og látið höggin dynja í andlit og á háls Magnúsar þar sem hann sat í sófanum. Síðan hefði Magnús náð að standa upp og ákærði þá tekið hálstak á Magnúsi og dregið hann fram á stigaganginn. Vitnið hefði sagt við Magnús að þau skyldu forða sér og vitnið farið á undan niður stigann.
Vitnið kvaðst hafa staðið í miðjum stigapallinum þegar þeir ákærði og Magnús hefðu komið fljúgandi niður stigann, eins og vitnið orðaði það. Fyrst hefði Magnús komið niður stigann og ákærði á eftir. Þegar vitnið var innt eftir því hvernig það hefði viljað til að Magnús kom fljúgandi niður stigann svaraði vitnið: “Ég býst við að honum hafi verið hrint.” Kvaðst vitnið ekki hafa séð að honum hefði verið hrint. Magnús hefði aðeins lent á henni, en ekki alvarlega. Magnús hefði lent niðri við útidyr þar sem átökin hefðu haldið áfram. Ákærði hefði komið á eftir Magnúsi, slegið hann og tekið hann kverkataki. Vitnið kvaðst ekki hafa séð að ákærði sparkaði í Magnús.
Vitninu var kynntur framburður þess hjá lögreglu þar sem haft er eftir vitninu að Magnús hefði verið á leið niður stigann og verið staddur rétt fyrir ofan miðju stigans þegar ákærði hefði hrint honum þannig að Magnús hefði hrasað niður stigann. Kvaðst vitnið muna eftir þessu, en kvaðst þó ekki hafa séð hvernig ákærði hrinti Magnúsi.
Vitnið var þessu næst spurt að því hvort það teldi að Magnúsi hefði verið hrint og svaraði vitnið því svo til: “Ég tel ekkert að honum hafi verið hrint; honum var hrint.” Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa séð hvernig ákærði hrinti Magnúsi.
Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa orðið vitni að atviki, sem gæti skýrt brot á baugfingri Magnúsar. Var þá borið undir vitnið atriði í skýrslu þess hjá lögreglu 20. nóvember 1999 þar sem eftir vitninu er haft að það hafi séð að ákærði tók um baugfingur hægri handar á Magnúsi og sveigði fingurinn aftur. Kvaðst vitnið þá muna eftir þessu, en það hefði verið búið að gleyma þessu atviki. Aðspurt kvað vitnið að umrætt atvik hefði sennilega átt sér stað niðri í gangi eða niðri við útidyrahurð, eins og vitnið orðaði það.
Undir vitnið var borið atriði í lögregluskýrslu frá 20. nóvember 1999 þar sem haft er eftir vitninu að ákærði hefði gengið með Magnús að stiganum og hent honum niður. Jafnframt að Magnús hefði rúllað niður stigann og steinrotast. Kvað vitnið þetta ekki rétt eftir sér haft. Þá var borið undir ákærðu atriði í lögregluskýrslu frá 21. nóvember 1999 þar sem haft er eftir vitninu að Magnús hefði verð staddur rétt fyrir ofan miðju stigans þegar ákærði hefði hrint Magnúsi þannig að hann hefði hrasað niður stigann. Kvaðst vitnið telja að þetta væri rétt.
Vitnið kvaðst hafa reynt að rífa ákærða ofan af Magnúsi þar sem hann lá við útidyrahurðina og sagðist hafa kallað upp til Berglindar og beðið hana um að hringja á sjúkrabíl. Þegar vitninu var bent á að í frumskýrslu lögreglu kæmi fram að ákærði hefði hringt á lögreglu, sagði vitnið að sér fyndist endilega að Berglind hefði hringt, en vel gæti verið að ákærði hefði séð um að hringja.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 20. nóvember 1999 kl. 10.41. Um átökin á heimili ákærða sagði vitnið að Magnús hefði borið á ákærða að hann væri laumuhommi og hefði ákærði þá snöggreiðst og ráðist á Magnús. Hefði hann tekið Magnús upp úr sófanum og tekið um hálsinn á honum að framanverðu. Sagðist vitnið hafa séð ákærða taka um um baugfingur hægri handar á Magnúsi og hefði hann sveigt fingurinn aftur. Ákærði hefði gengið með Magnús að stiganum og hent honum niður. Hefði Magnús rúllað niður stigann og steinrotast. Óskaði vitnið eftir því að skýrslutöku væri frestað þar sem vitnið væri í sjokki og aðframkomið af þreytu.
Vitnið gaf skýrslu á ný hjá lögreglu daginn eftir kl. 10.00. Vitnið kvað Magnús hafa verið nýkominn úr lýtaaðgerð og því með ör fyrir ofan bæði augnlokin. Hins vegar hefði Magnús verið með bólgnar varir og með áverka við nef og undir augum eftir átökin á Bergstaðastræti. Um átökin í stofunni að Baldursgötu sagði vitnið að Magnús hefði ýjað að því að ákærði væri samkynhneigður og að ákærði hefði orðið reiður. Hefði ákærði staðið upp og byrjað að slá Magnús mörgum sinnum í andlit og á háls Magnúsar þar sem hann sat í sófanum. Magnús hefði náð að standa upp og hefði ákærði þá tekið hann hálstaki og dregið hann út á stigaganginn.
Þegar ákærði hefði verið búinn að draga Magnús að stiganum hefði hann sleppt takinu á honum. Kvaðst vitnið þá hafa sagt við Magnús: “Forðum okkur”. Sagðist hún hafa verið komin á undan Magnúsi niður stigann og verið stödd í miðjum stiganum og horft í átt til Magnúsar og ákærða, sem þá hefðu verið staddir efst í stiganum. Hefði Magnús byrjað að ganga niður stigann og verið staddur rétt fyrir ofan miðju stigans þegar ákærði hefði hrint Magnúsi þannig að hann hefði hrasað niður stigann. Sagði vitnið að hann hefði í fyrstu rúllað niður þangað sem vitnið stóð. Þar hefði Magnús lent á fótunum alveg klesst upp við vegginn, en misst aftur jafnvægið og fallið áfram niður stigann og að lokum hafnað við útidyrahurðina. Ákærði hefði fylgt á eftir og haldið áfram að berja á Magnúsi þar sem hann lá á gólfinu við útidyrahurðina. Hefði ákærði slegið Magnús í andlitið og einnig tekið hann hálstaki. Ákærði hefði alltaf slegið Magnús með krepptum hnefa og alltaf slegið hann í andlitið. Vitnið kvaðst hafa kallað á Berglindi og beðið hana um að hringja á lögreglu. Hefði ákærði þá hætt að berja á Magnúsi og farið upp í íbúðina. Ákærði hefði verið í buxum en ber að ofan þegar hann réðst á Magnús.
Vitnið, Berglind Guðmundsdóttir, sambýliskona ákærða, kvað Magnús Torfa hafa komið á heimili þeirra ákærða umrætt kvöld. Hefði hann komið með vínflösku með sér og boðið þeim í glas. Síðar um nóttina hefðu þau ákveðið að fara á skemmtistað. Magnúsi hefði verið meinaður aðgangur að skemmtistaðnum Grandrokki vegna ölvunar og hefðu þau því farið á skemmtistaðinn Spotlight. Sagði vitnið að Magnúsi hefði verið vísað út af þeim stað. Einnig hefðu þau ákærði farið út af staðnum og gengið áleiðis heim til sín. Hefði Magnús elt þau og rætt um samkynhneigða karlmenn. Sagðist vitnið hafa sagt við Magnús að nú væri komið nóg af þessu “hommakjaftæði” og hefði Magnús þá hrint vitninu þannig að það hefði dottið í götuna og gat komið á buxur þess. Vitnið kvað Magnús hafa ýtt á öxlina á vitninu og dottið ofan á sig, hvort sem það hefði verið viljandi eða óviljandi. Eftir fallið hefði Magnús verið blóðugur. Eftir þetta hefðu leiðir skilist með þeim Magnúsi. Síðar um nóttina hefði Magnús komið á heimili þeirra ákærða ásamt Elfu Björnsdóttur. Kvaðst vitnið halda að tilgangurinn með heimsókninni hefði verið sá að ná í fatapoka, sem Magnús hafði skilið eftir á Baldursgötunni. Ákærði hefði sagt Magnúsi að hann fengi ekki fötin nema hann borgaði vitninu buxurnar, sem skemmst hefðu. Hefði Magnús þá verið með einhvern ruddaskap og ákærði vísað þeim Elfu út. Eitthvert smávægilegt rifrildi hefði átt sér stað og hefði ákærði snúið upp á löppina á Magnúsi og sagt honum að hunska sér út. Engin átök eða slagsmál hefðu hins vegar átt sér stað og ekki kvaðst vitnið hafa séð ákærða grýta Magnúsi út, eins og vitnið orðaði það. Þá kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærða kýla Magnús í íbúðinni. Vitnið kvaðst hafa setið í sófanum í holinu þegar Magnús gekk niður stigann á leiðinni út og datt. Þá kvað vitnið ákærða hafa staðið í dyrunum allan tímann. Vitnið kvaðst hafa legið í sófanum í holinu og á móti sófanum sé stór spegill, sem hefði gert vitninu kleift að fylgjast með því, sem fram fór í dyrunum fram á stigapallinn. Vitnið kvaðst hafa verið í holinu allan tímann og það hefði dormað á meðan beðið var eftir sjúkrabílnum. Vitnið kvað ákærða hafa hringt á lögreglu og sjúkrabíl.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 21. nóvember 1999. Skýrði það í megindráttum á sömu lund frá aðdraganda átakanna á Bergstaðastræti og hér fyrir dómi. Vitnið skýrði svo frá atburðinum á Bergstaðastræti að Magnús hefði tekið um háls vitnisins að framanverðu og síðan ýtt á bak þess þannig að það hefði dottið í götuna. Hefði vitnið meiðst á hné, hálsi og höfði og buxur þess skemmst. Kvað vitnið að fokið hefði í ákærða og hefði hann tuskað Magnús aðeins til og togað í hárið á honum þannig að hárkolla hefði farið af Magnúsi. Síðar um nóttina hefðu Magnús og Elfa komið heim til þeirra ákærða. Hefði Magnús heimtað að fá fötin sín, en ákærði sagt við hann að þau fengi hann ekki fyrr en hann borgaði buxur vitnisins, sem skemmst hefðu. Magnús hefði neitað að borga buxurnar og hefði ákærði þá beðið þau Magnús og Elfu að fara út. Magnús og Elfa hefðu byrjað að “garga og góla” þarna, eins og vitnið orðaði það, en ákærði hefði þá ýtt Magnúsi að stigapallinum. Kvaðst vitnið hafa legið á sófanum og því ekki séð hvað gerðist frammi. Sagðist það hafa heyrt einhverja dynki og síðan einhver æ og ó og heyrt Elfu segja: “Reyndu að standa í lappirnar.” Vitnið kvaðst ekki hafa farið fram, það hefði sofnað í sófanum og vaknað þegar lögreglan hefði verið farin.
Vitnið var innt eftir því hvort einhver átök hefðu átt sér stað í sjónvarpsholinu áður en Magnús og Elfa fóru. Kvað vitnið nei við, hann hefði aðeins ýtt þeim fram á stigapallinn, eins og haft er eftir vitninu í lögregluskýrslu.
Niðurstaða:
Atburður sá, er um ræðir í máli þessu, átti sér stað undir morgun í íbúð ákærða og vitnisins, Berglindar Guðmundsdóttur. Ekki eru aðrir til frásagnar um viðskipti þeirra ákærða og Magnúsar Torfa Sighvatssonar í íbúðinni en þeir sjálfir og vitnin, Elfa Björnsdóttir og Berglind Guðmundsdóttir, sambýliskona ákærða. Hún kveðst þó ekki hafa orðið vitni að því er Magnús féll niður títtnefndan stiga. Fram hefur komið að ákærði, og framangreind vitni voru öll undir áhrifum áfengis og samkvæmt alkóhólrannsókn á blóðsýni úr vitninu Magnúsi var hann afar drukkinn.
Ákærði hefur staðfastlega neitað sakargiftum í máli þessu.
Nokkurt ósamræmi er á frásögn vitnisins, Berglindar, á atvikinu á Bergstaðastræti hjá lögreglu og hér fyrir dómi. Hjá lögreglu lýsti vitnið atvikinu á þann veg að Magnús hefði ráðist á vitnið, tekið um háls þess að framanverðu og síðan ýtt á bak þess þannig að það hefði dottið í götuna. Hér fyrir dómi var lýsing vitnisins á sama atviki hins vegar sú, að Magnús hefði hrint sér með því að ýta á öxlina á vitninu og dottið síðan ofan á vitnið, hvort sem það hefði verið viljandi eða óviljandi eins og vitnið orðaði það.
Hjá lögreglu lýsti vitnið atburðinum í íbúðinni á þann hátt að ákærði hefði beðið þau Magnús og Elfu að fara út, þau farið að garga og góla, eins og það er orðað í lögregluskýrslu, og hefði ákærði þá ýtt þeim fram á stigapallinn. Kvaðst vitnið hafa legið í sófanum og því ekki séð hvað gerðist frammi. Hér fyrir dómi sagði vitnið að þeim Elfu og Magnúsi hefði verið vísað út úr íbúðinni með því að þeim hefði verið sagt að hunska sér út. Engin átök hefðu hins vegar átt sér stað. Þó mundi vitnið eftir því að ákærði hefði snúið upp á fótinn á Magnúsi og sagt honum að koma sér út. Það hefði hins vegar ekki séð ákærða grýta Magnúsi út, eins og vitnið orðaði það. Þá kvaðst vitnið hafa séð ákærða standa á stigapallinum allan tímann. Vitnið hefði legið í sófanum í holinu og á móti honum væri stór spegill, sem gerði þeim, sem lægi í sófanum, kleift að sjá fram á stigapallinn.
Umræddur spegill kemur ekki fram á ljósmyndum, sem lögregla tók á vettvangi. Dómari gekk á vettvang ásamt aðilum og kom þá í ljós að á veggnum á móti sófanum úti í horni er fremur mjór spegill. Til þess að sjá fram á stigapallinn úr sófanum verður viðkomandi hins vegar að fara alveg út í hornið á móti. Á ljósmyndum lögreglu kemur hins vegar fram að er þær voru teknar var sófinn um það bil 20 til 30 cm frá veggnum og lítið borð á milli sófa og veggjar. Fram hefur komið að vitnið var undir áhrifum áfengis í umrætt sinn og er lögregla kom á staðinn lá vitnið í sófanum og svaf ölvunarsvefni. Vitnið hefur því verið afar drukkið þegar hér var komið sögu.
Í ljósi ofangreinds og þess að vitnið er sambýliskona ákærða þykir framburður þess ekki trúverðugur.
Nokkurt ósamræmi er á framburði ákærða fyrir dómi og hjá lögreglu. Fyrir dómi bar ákærði um það að Magnús hefði annað hvort rekið sig í fótinn á Elfu eða Elfa brugðið fyrir hann fæti þegar Magnús hljóp niður stigann, en slíkt kemur ekki fram í skýrslu hans hjá lögreglu 21. nóvember 1999. Þar segir hins vegar að Elfa hafi gengið á eftir Magnúsi niður stigann. Hafi hann tekið eftir því að Magnúsi skrikaði fótur, fór fram fyrir sig og skall á útidyrahurðina. Þá bar ákærði um það í fyrsta skipti fyrir dómnum að Elfa hefði hvatt til þess, eftir að Magnús datt niður stigann, að þau sendu hann heim í leigubíl en skiptu á milli sín 50.000 krónum úr seðlaveski Magnúsar. Þykir þetta ótrúverðugt í ljósi framburðar Magnúsar hér fyrir dómi.
Vitnið, Elfa Björnsdóttir, átti sem fyrr greinir í nokkrum erfiðleikum með að skýra sjálfstætt frá atburðum hér fyrir dómi. Hún staðfesti það, sem er eftir henni haft í lögregluskýrslum, og er framburður hennar fyrir dómi ekki í ósamræmi við framburð hennar hjá lögreglu í meginatriðum þótt vitnið virtist eiga í erfiðleikum með að rifja upp atburðarásina fyrir dómnum og greina frá henni í smáatriðum.
Framburður vitnisins, Magnúsar Torfa Sighvatssonar, hér fyrir dómi er í öllum meginatriðum í samræmi við skýrslur vitnisins hjá lögreglu 29. nóvember 1999 og á árinu 2000. Í vottorði yfirlæknis á slysadeild, sem ritað er að beiðni lögreglu um tveimur tímum eftir komu vitnisins þangað er haft eftir vitninu að það hefði orðið fyrir árás af hálfu ákærða og er hann nafngreindur. Enn fremur er haft eftir vitninu að ofbeldið hefði einkum verið fólgið í margendurteknum hnefahöggum í andlit, en einnig hefði því verið hent niður stiga í húsi. Þá tók lögregla stutta skýrslu af vitninu á slysadeild skömmu eftir hádegi 20. nóvember 1999. Er sú skýrsla einnig í samræmi við síðari skýrslur vitnisins hjá lögreglu og framburð vitnisins fyrir dómnum, en þar greinir vitnið þó hvorki frá því að ákærði hafi snúið upp á baugfingur þess né frá áframhaldandi líkamsmeiðingum ákærða við útidyrahurð. Við mat á henni ber að hafa í huga að hún er tekin skömmu eftir komu vitnisins á slysadeild, en þangað kom vitnið stórslasað, og skýrslan er ekki undirrituð af vitninu. Skýrslur vitnisins hjá lögreglu og framburður þess hér fyrir dómi er einnig í stórum dráttum í samræmi við framburð vitnisins, Elfu, fyrir lögreglu og hér fyrir dómi.
Með vísan til ofangreinds þykir framburður fyrrgreindra vitna trúverðugur.
Fram hefur komið hjá vitnunum, Magnúsi og Elfu, að er þau komu á heimili þeirra ákærða og Berglindar umrædda nótt hafi Magnús haldið því fram að ákærði væri samkynhneigður. Hafi ákærði reiðst Magnúsi vegna þessara ummæla og deilur og rifrildi upphafist með þeim fjórum. Á þetta sér einnig stoð í framburði ákærða og vitnisins, Berglindar, hér fyrir dómi.
Vitnið, Magnús, hefur borið um það að í framhaldi þessa hafi ákærði ráðist á vitnið þar sem það hafi setið í sófanum og byrjað að berja það og slá í framan. Hafi vitnið borðið hendur fyrir andlit sér, en þá hafi ákærði þrýst fingrum hans aftur og snúið upp á höndina þannig að hún hefði lent aftur fyrir bak og einn fingurinn brotnað. Vitnið, Elfa, staðfesti hér fyrir dómi það sem fram kemur í skýrslu hennar hjá lögreglu að ákærði hefði, er deildur upphófust vegna dylgna Magnúsar um samkynhneigð ákærða, staðið upp og byrjað að slá Magnús mörgum sinnum í andlit og háls og látið höggin dynja í andlit og á háls hans þar sem hann sat í sófanum. Jafnframt staðfesti vitnið að hafa séð ákærða taka um baugfingur á Magnúsi og sveigja fingurinn aftur.
Vitnið, Magnús, hefur lýst því að hann hafi komist skríðandi fram á stigapall með ákærða yfir sér og hafi þar náð að rísa á fætur. Þar sem vitnið hafi verið statt efst í stiganum hafi hann fundið að sér hafi verið ýtt eða að sparkað hafi verið í hann, þannig að hann hafi henst niður stigann. Vitnið, Elfa, hefur lýst því að ákærði hafi tekið Magnús hálstaki og dregið hann út á stigapallinn. Hafi vitnið þá sagt við Magnús að þau skyldu forða sér og farið niður stigann. Hafi vitnið staðið í miðjum stigaganginum þegar það hefði séð Magnús koma fljúgandi niður stigann og ákærða á eftir. Kvaðst vitnið ekki hafa séð hvernig ákærði hrinti Magnúsi, en að það hafi séð að Magnúsi var hrint niður stigann.
Fram hefur komið að vitnið, Berglind, sat í sófanum í sjónvarpsholinu á meðan þessu fór fram, en ákærði hefur viðurkennt að hafa staðið á stigapallinum þegar Magnús hrasaði niður stigann. Fram kom hjá ákærða og vitninu, Berglindi, fyrir dómnum að ákærði hefði vísað þeim Magnúsi og Elfu út úr íbúðinni, en þau ekki farið strax og sagði ákærði að Magnús hefði haldið áfram að tuða um fötin. Þá viðurkenndi ákærði að hafa tekið í öxlina á Magnúsi til að lyfta honum upp úr sófanum og koma honum út þar sem Elfa hefði verið farinn niður stigann fyrir löngu. Hefði Magnús risið á fætur en verið svo drukkinn að hann hefði varla staðið í fæturna. Þykir þessi framburður styðja framburð vitnanna, Magnúsar og Elfu, að ákærði hafi beitt valdi til að vísa Magnúsi út úr íbúðinni.
Ósamræmi er á lýsingu ofangreindra vitna á ætluðum áframhaldandi barsmíðum ákærða á vitninu, Magnúsi, við útidyrahurð. Vitnið, Elfa, hefur borið fyrir lögreglu og hér fyrir dómi að Magnús hafi lent við útidyrahurð og þar hafi ákærði haldið áfram að berja Magnús og slá. Hafi ákærði slegið Magnús og tekið hann kverkataki. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa séð ákærða sparka í Magnús. Vitnið, Magnús, hefur hins vegar haldið fram að ákærði hafi haldið áfram að sparka í vitnið og berja það þar sem það lenti við útidyrnar. Hafi ákærði sparkað í andlit og brjóst á vitninu þar til vitnið missti meðvitund og hefði það ekki rankað við sér fyrr en á sjúkrahúsinu. Í skýrslu þeirri, sem vitnið gaf fyrir lögreglu 20. nóvember 1999 sagðist vitnið hins vegar ekki hafa misst meðvitund, en það hefði verið mjög kvalið og í skýrslu vitnisins hjá lögreglu 29. nóvember s.á. sagðist vitnið hafa verið hálfrænulaust af kvölum í umrætt sinn.
Í frumskýrslu lögreglu segir að er hún kom á vettvang hafi ákærði opnað útidyr hússins fyrir lögreglu og sjúkraflutningamönnum. Hafi Magnús legið á gólfinu fyrir innan dyrnar, nokkuð blóðugur í andliti við munn og nef. Þá hafi verið sjáanlegt blóð á mottu við útidyr og á vegg í stigagangi. Nokkuð virðist því hafa blætt úr vitninu, Magnúsi, eftir að það lenti við útidyrnar. Í frumskýrslu segir að ákærði hafi verið ber að ofan og hvorki blóð né áverka að sjá á honum. Þykir það ekki benda til þess að ákærði hafi tekið á vitninu við útidyrnar. Þá segir í skýrslunni að Magnús hafi verið með meðvitund og hafi hann beðið Elfu um að hjálpa sér heim því þangað vildi hann fara og ekkert annað. Er þetta í ósamræmi við framburð vitnisins hér fyrir dómi um að það hefði misst meðvitund við barsmíðar ákærða við útidyr og ekki rankað við sér fyrr en á sjúkrahúsinu.
Í vottorði yfirlæknis á slysadeild, sem ritað er að beiðni lögreglu um tveimur tímum eftir komu vitnisins þangað er haft eftir vitninu að það hefði orðið fyrir árás af hálfu ákærða og er hann nafngreindur. Enn fremur er haft eftir vitninu að ofbeldið hefði einkum verið fólgið í margendurteknum hnefahöggum í andlit, en einnig hefði því verið hent niður stiga í húsi.
Með vísan til ofangreinds og framburðar vitnanna, Magnúsar og Elfu, þykir sannað, þrátt fyrir að ákærði hafi staðfastlega neitað sakargiftum, að hann hafi veist að Magnúsi í íbúðinni að Baldursgötu, slegið hann hnefahögg í andlitið og snúið upp á hendur hans, eins og greinir í ákæru. Þá þykir enn fremur sannað með framburði ofangreindra vitna að ákærði hafi hrint Magnúsi er hann gekk niður niður stiga að útidyrum hússins með þeim afleiðingum að hann hrasaði niður stigann.
Með hliðsjón af fyrrgreindu ósamræmi, sem er á framburði vitnanna, Magnúsar og Elvu, um ætluð átök við útidyrahurð og því, sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu, þykir hins vegar ósannað að ákærði hafi slegið Magnús Torfa mörg hnefahögg í andlitið þar sem hann lá við útidyr.
Ákærði bar hér fyrir dómi að Magnús hefði verið rispaður í andliti eftir fallið á Bergstaðastræti fyrr um kvöldið og að blætt hefði úr honum. Vitnið, Elfa, kvaðst hins vegar enga áverka hafa séð á Magnúsi þegar hún kom heim til hans um nóttina og hann hefði ekki verið blóðugur. Vitnið, Berglind, kvað Magnús hafa verið blóðugan eftir fallið á Bergstaðastræti. Vitnið, Magnús, bar fyrir dómnum að skurðir fyrir ofan augu eftir lýtaaðgerð hefðu að öllum líkindum rifnað upp við átökin á Bergstaðastræti og hefði það verið alblóðugt á eftir. Þá kvaðst vitnið ekki geta útilokað að hann hefði fengið skurði á neðri vör eftir fyrrgreind átök. Með vísan til framangreinds þykir ósannað að Magnús hafi hlotið skurði á neðri vör eftir átökin í íbúðinni á Baldursgötu.
Verknaður ákærða var til þess fallin að valda þeim áverkum, sem Magnús bar að öðru leyti við komu hans á slysadeild, enda segir í vottorði Jóns Baldurssonar yfirlæknis á slysadeild, sem ritað var tveimur tímum eftir komu Magnúsar á slysadeild, að við fyrstu athugun hafi greinst ýmsir áverkar, sem vel gætu samrýmst alvarlegu ofbeldi. Í læknisvottorði Guðmundar Ásgeirs Björnssonar, sérfræðings í kjálka- og munnholssjúkdómum, segir hins vegar að hann geti ekki staðfest hvort áverkar á kjálkum eða tönnum væru eftir fall eða líkamsárás. Með vísan til framangreindra vottorða þykir sannað að Magnús hafi við líkamsárás ákærða og fallið niður títtnefndan stiga hlotið opið beinbrot á neðri kjálka og beinbrot á baugfingri.
Háttsemi ákærða er rétt færð til refsiákvæðis í ákæru.
Sakarferill ákærða er langur og nær allt aftur til ársins 1973. Hefur ákærði sætt viðurlögum m.a. fyrir áfengislagabrot, umferðarlagabrot, þjófnað, fjársvik, skjalafals, líkamsárás, eignaspjöll, nytjastuld og ólögmæta meðferð fundins fjár. Sakarferill ákærða er samfelldur. Hinn 5. nóvember 1992 var ákærði dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir fjársvik. Hinn 23. febrúar 1995 var ákærði dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot og var jafnframt sviptur ökurétti ævilangt frá sama degi. Hinn 13. ágúst 1996 fékk ákærði reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 61 degi. Hinn 14. september 1998 gekkst ákærði undir greiðslu sektar vegna fíkniefnalagabrots og 1. júní 1999 var ákærði dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í tvö ár fyrir ólögmæta meðferð fundins fjár. Síðast var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi hinn 17. apríl sl. fyrir ölvun við akstur og akstur án ökuréttar og var dómurinn frá 1. júní 1999 dæmdur með. Jafnframt var ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá sama tíma.
Brot það, sem ákærði er nú sakfelldur fyrir, framdi hann áður en dómurinn frá 17. apríl sl. gekk og ber því að dæma ákærða hegningarauka, sbr. 78. gr. alm. hegningarlaga.
Árás ákærða og sú háttsemi hans að hrinda Magnúsi niður stigann var fólskuleg, sérstaklega með hliðsjón af því hversu drukkinn Magnús var. Þá eru afleiðingar árásarinnar alvarlegar, m.a. opið beinbrot á kjálka. Með hliðsjón af framangreindu og sakarferli ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 100.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Lúðvíks Emils Kaaber hdl., sem þykir hæfileg að fjárhæð 60.000 krónur vegna starfa réttargæslumanns á rannsóknarstigi málsins og við meðferð málsins fyrir dómi.
Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna veikinda dómara og embættisanna.
Ragnheiður Bragadóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Sigurður Stefán Almarsson, sæti fangelsi í sex mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hrl., að fjárhæð 100.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Lúðvíks Emils Kaaber hdl, að fjárhæð 60.000 krónur.