Hæstiréttur íslands

Mál nr. 259/2004


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorðsrof
  • Viðurlög


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. október 2004.

Nr. 259/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Rúnari Þór Gunnarssyni

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

 

Líkamsárás. Skilorðsrof. Viðurlög.

R var dæmdur fyrir líkamsárás með því að hafa slegið Þ hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði, hlaut bólgu og fleiður á vörum og gervigómur í efri gómi hans brotnaði. Var brot hans heimfært undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Með brotinu rauf R skilorð 10 mánaða fangelsisdóms auk þess sem hann hafði sex sinnum verið dæmdur til skilorðsbundinnar refsingar, þar af einu sinni að hluta. Var refsing R ákveðin fangelsi í 11 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að refsing ákærða verði staðfest.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta.

Málið hlaut í héraði meðferð samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Var þá bókað að verjandi ákærða hefði ekkert við það að athuga. Verjandinn hefur, þrátt fyrir þetta, haldið því fram við áfrýjun málsins að fella hefði átt háttsemi ákærða undir 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þetta er málsatriði, sem Hæstarétti ber að gæta af sjálfsdáðum samkvæmt 2. mgr. 117. gr., sbr. 163. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum. Af þessu gefna tilefni skal tekið fram, að framangreind heimfærsla brots ákærða telst rétt í ákærunni og hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði var dæmdur fyrir skjalafals 6. mars 1996 í fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár. Rauf hann skilorð þess dóms með húsbroti 26. maí sama árs. Hann var dæmdur fyrir það brot 10. júlí 1996, en jafnframt var fyrrgreindur dómur dæmdur upp og refsing ákveðin fangelsi í sex mánuði, þar af þrír mánuðir skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var hann dæmdur fyrir fíkniefnabrot 17. febrúar 1997 í fangelsi í þrjá mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár, auk sektar. Var dæmdur með skilorðsbundinn hluti dómsins 10. júlí 1996, sem hann hafði rofið með broti sínu. Enn rauf ákærði skilorð með tilraun til þjófnaðar og var dæmdur fyrir það brot 23. mars 1998 í fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár. Einnig var dæmdur með vegna rofs á skilorði dómurinn frá 17. febrúar 1997. Þá var ákærði dæmdur fyrir fjársvik 2. september 1998 í fangelsi í sjö mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár. Var sá dómur hegningarauki við dóminn frá 23. mars 1998. Sakaferill ákærða er að öðru leyti rakinn í hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði hefur sex sinnum verið dæmdur til skilorðsbundinnar refsingar, þar af einu sinni að hluta. Hann hefur í öll skiptin rofið það skilorð. Að því athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.

 

 

          Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 13. janúar 2004 á hendur Rúnari Þór Gunnarssyni, [kt.], óstaðsettum í hús í Reykjavík, fyrir líkamsárás með því að hafa laugardagskvöldið 19. apríl 2003 á Langabar, Laugavegi 34a, Reykjavík, slegið A, [kt.], hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði, hlaut bólgu og fleiður á vörum og gervigómur í efri gómi hans brotnaði.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá krefst A skaðabóta að fjárhæð 1.205.379 krónur auk dráttarvaxta, samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 19. apríl 2003 til greiðsludags.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð verulega. Einnig krefst hann hæfilegrar þóknunar að mati dómsins.

Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda, lögmanni brotaþola og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt en hafnað greiðslu bótakröfu. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru. Ákærði er fæddur í febrúar 1968. Hann á allnokkurn sakarferil að baki sem hófst árið 1985. Eftir 18 ára aldur hefur hann á árunum 1986 til 1991 gengist þrisvar sinnum undir sátt vegna umferðarlagabrots, hilmingar og skjalafals. Hann var fyrst dæmdur til refsivistar 6. mars 1996 fyrir skjalafals, fangelsi í fjóra mánuði skilorðsbundið í þrjú ár, þá 10. júlí sama ár fyrir húsbrot, var þar um hegningarauka við dóminn frá 6. mars að ræða og var sá tekinn upp og heildarrefsing ákveðin sex mánaða fangelsi, þar af voru þrír mánuðir skilorðsbundnir í þrjú ár. Hinn 2. október sama ár hlaut hann sektardóm fyrir fíkniefnabrot, hinn 17. febrúar 1997 hlaut hann þriggja mánaða fangelsi fyrir fíkniefnabrot skilorðsbundið í þrjú ár og var skilorðshluti dómsins frá 17. febrúar sama ár dæmdur þar með þar sem um skilorðsrof var að ræða, einnig var honum gert að greiða sekt. Þá hlaut hann 6. febrúar 1998 sektardóm fyrir fíkniefnabrot, 23. mars sama ár fjögurra mánaða fangelsi fyrir þjófnað skilorðsbundið í þrjú ár og 2. september sama ár fyrir fjársvik. Var þar um hegningarauka að ræða við dóminn frá 6. febrúar 1998 og var sá dómur tekinn upp og bæði málin dæmd í einu lagi og honum gerð heildarrefsing, fangelsi í sjö mánuði, sem var skilorðsbundin í þrjú ár. Þá hlaut hann 29. desember sama ár sektardóm fyrir umferðarlagabrot og 3. maí 2000 sektardóm fyrir fíkniefnabrot. Þá hlaut ákærði 10 mánaða fangelsisdóm 22. nóvember 2000 fyrir brot gegn 151. gr. almennra hegningarlaga, skilorðsbundinn í þrjú ár, og var þar um að ræða hegningarauka við dóm frá 3. maí 2000 og einnig skilorðsrof á dómi frá 2. september 1998. Sá dómur var því tekinn upp í dóminum frá 22. nóvember 2000 og refsing ákveðin í einu lagi. Síðast hlaut ákærði 65.000 króna sekt 23. september 2003 fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.

Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð 10 mánaða fangelsisdóms frá 22. nóvember 2000 og ber með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp    dóminn og ákvarða refsingu ákærða í einu lagi fyrir brotin, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga.

Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði játaði brot sitt greiðlega en einnig verður horft til 1. og 2. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða þykir með hliðsjón af framangreindu hæfilega ákveðin 11 mánaða fangelsi, en með hliðsjón af ítrekuðum skilorðsrofum ákærða þykir skilorðsbinding refsingar ekki koma til greina.

Miskabótakrafa.

Róbert Árni Hreiðarsson héraðsdómslögmaður hefur sett fram bótakröfu fyrir hönd brotaþola að fjárhæð 1.205.379 vegna miska, þjáninga og útlagðs kostnaðar, auk kostnaðar við að halda fram kröfunni.

Með vísan til a-liðar 26. gr. skaðabótalaga er fallist á kröfu um miskabætur, sem þykja, að atvikum virtum, hæfilega ákveðnar 50.000 krónur. Þá er einnig fallist á kröfu um útlagðan kostnað að fjárhæð 18.514 krónur, enda er sá hluti kröfunnar studdur nægjanlegum gögnum. Aðrir hlutar kröfu um útlagðan kostnað og þjáningabætur eru ekki studdir nægjanlegum gögnum og er vísað frá dómi.

Fallist er á kröfu lögmanns brotaþola um kostnað af aðstoð lögmanns við að halda fram kröfunni, sem þykir hæfilega ákveðinn 40.000 krónur.

Miskabótakrafa var kynnt ákærða 30. desember 2003 og ber tildæmd fjárhæð, 108.514 krónur, dráttarvexti samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. janúar 2004 til greiðsludags.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 50.000 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Daði Kristjánsson, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Rúnar Þór Gunnarsson, sæti fangelsi í 11 mánuði.

Ákærði greiði A 108.514 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. janúar 2004 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, 50.000 krónur.