Hæstiréttur íslands

Mál nr. 463/2010


Lykilorð

  • Nauðasamningur
  • Réttindaröð
  • Forgangskrafa
  • Laun


                                                         

Þriðjudaginn 19. apríl 2011.

Nr. 463/2010.

Þorsteinn Örn Guðmundsson

(Viðar Lúðvíksson hrl.)                     

gegn

Stoðum hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

og gagnsök

Nauðasamningur. Réttindaröð. Forgangskrafa. Laun.

S hf. sagði Þ upp störfum og greiddi honum laun í sex mánuði auk tiltekinna hlunninda sem hann hafði áður notið í starfi. Þ taldi sig eiga rétt til frekari greiðslna og vísaði til þess að í ráðningarsamningi hans hefði verið kveðið á um tólf mánaða uppsagnarfrest. Þ lýsti kröfu við nauðsamningsumleitanir S hf. vegna mismunarins og taldi að henni skyldi skipað í kröfuröð samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en S hf. samþykkti kröfuna sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar var hafnað þeirri málsástæðu S hf. að Þ hefði í raun starfað í þágu félags tengdu S hf. og að vinnuvinnuréttarsambandi aðila hefði verið lokið áður en Þ var sagt upp störfum. Vísað var til þess að skýrt hefði komið fram í ráðningarsamningi aðila og uppsagnarbréfi til Þ að Þ hefði enn verið starfmaður S hf. þegar honum var sagt upp. Einnig hefði við gerð nauðasamnings fyrir S hf. verið samþykkt krafa Þ sem reist var á því að félagið greiddi honum laun á uppsagnarfresti. S hf. vísaði til þess að starfsheiti Þ hjá félaginu hefði verið „framkvæmdastjóri Operation Management“ og að 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 ætti við um kröfu hans. Að mati Hæstaréttar lék vafi á því hvaða starfi Þ hafði gegnt þegar honum var sagt upp enda höfðu verið gerðir þrír ráðningarsamningar við Þ um störf hans fyrir S hf. og félög því tengdu, og voru þeir misvísandi um starfsheiti Þ. Tekið var fram að framangreint starfsheiti sem S hf. vísaði til félli ekki saman við starfsheiti í ráðningarsamningi aðila, sem var „SVP Corporate Strategy and Business Development FL GROUP“, og að hvorki nyti við í málinu lýsingar á starfinu né skipurits félagsins sjálfs. Engu að síður hefði Þ verið framkvæmdastjóri hjá S hf. og miðað við enskan starfstitil hefði hann haft með höndum rekstrarstjórn af einhverjum toga. Fram hefði komið að þegar Þ lauk tímabundnu starfi hjá einu af dótturfélögum S hf. hefðu mánaðarlaun og uppsagnarfrestur hans verið þau sömu og hjá dótturfélaginu. Hvort tveggja veitti vísbendingu um að ekki hefði orðið grundvallarbreyting á starfssviði hans við yfirstjórn S hf. Einnig hefði komið fram að Þ hefði verið í svokallaðri framkvæmdastjórn S hf. Þess vegna var fallist á með S hf. að 3. mgr. 112. gr. tæki til starfs Þ og var kröfu Þ því hafnað.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. júlí 2010 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 17.731.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 63.000 krónum frá 1. febrúar 2009 til 1. mars 2009, af 273.000 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2009, af 483.000 krónum frá þeim degi til 1. maí 2009, af 2.987.000 krónum frá þeim degi til 1. júní 2009, af 7.715.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2009, af 10.219.000 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2009, af 12.723.000 krónum frá þeim degi til 1. september 2009, af 15.227.000 krónum frá þeim degi til 1. október 2009 og af 17.731.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 1.000.000 krónur 16. júní 2009. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 4. ágúst 2010. Hann krefst þess að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti en niðurstaða héraðsdóms verði staðfest að öðru leyti.

I

Gagnáfrýjanda, sem áður bar heitið FL Group hf., var veitt heimild til greiðslustöðvunar 29. september 2008 samkvæmt III. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og 6. apríl 2009 fékk félagið heimild til að leita nauðasamnings við kröfuhafa sína samkvæmt VI. kafla sömu laga. Á fundi 26. maí sama ár, sem umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum hélt með kröfuhöfum, hlaut frumvarp hans um nauðasamning samþykki kröfuhafa og var það staðfest af Héraðsdómi Reykjavíkur 15. júní 2009. Meginefni þess var að samningskröfur að lægri fjárhæð en 1.000.000 krónur voru greiddar að fullu með reiðufé, en samningskröfuhafar sem áttu hærri kröfu en því nam, fengu einnig þessa sömu fjárhæð greidda með reiðufé, en að auki 5% af kröfufjárhæðinni með nýju hlutafé í gagnáfrýjanda að frádreginni áðurnefndri greiðslu.

Gagnáfrýjandi sagði aðaláfrýjanda upp starfi 30. september 2008, en greiddi honum laun í sex mánuði fyrir október 2008 til og með mars 2009 auk tiltekinna hlunninda, sem hann hafði áður notið í starfi, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Aðaláfrýjandi taldi sig eiga rétt til frekari greiðslna, enda hafi í ráðningarsamningi hans verið kveðið á um tólf mánaða uppsagnarfrest. Hann lýsi kröfu sinni 13. maí 2009 við nauðasamningsumleitanir gagnáfrýjanda, en um var að ræða kröfu um laun í sex mánuði, framlög til lífeyrissjóðs, áunninn orlofsrétt og greiðslu á ýmsum kostnaði, sem hann hafi notið í starfi, og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi. Kröfunni lýsti hann sem forgangskröfu með vísan til 1. til 4. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Gagnáfrýjandi mun hafa hafnað að krafa aðaláfrýjanda væri forgangskrafa og litið á hana sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. áðurnefndra laga, sem félli undir nauðasamning félagsins. Var aðaláfrýjanda í samræmi við það, sem áður var rakið, greiddar 1.000.000 krónur í reiðufé og afhent hlutafé í gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjandi höfðaði málið 9. desember 2009 á þeim grunni að krafan væri forgangskrafa og hefði nauðasamningur með réttu ekki átt að hafa áhrif á hana, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991. Hann telur sér heimilt að höfða mál eftir að gerð nauðasamnings sé lokið og krafa hans taki mið af því að innborgun gagnáfrýjanda komi til frádráttar.

II

Þrír ráðningarsamningar aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda og tengd félög hafa verið lagðir fram í málinu. Hinn fyrsti er dagsettur 1. september 2005, en í 1. gr. hans segir að aðaláfrýjandi sé ráðinn sem framkvæmdastjóri „til að hafa umsjón með rekstri stefnumótun og viðskiptaþróun FL GROUP. Enskur starfstitill er SVP Corporate Strategy and Business Development FL GROUP.“ Í sömu grein samningsins segir einnig að næsti yfirmaður aðaláfrýjanda sé forstjóri FL Group hf. og að framkvæmdastjórinn sjái um ráðningar, uppsagnir og launasamninga við aðra starfsmenn stefnumótunar og viðskiptaþróunar í samráði við forstjóra FL Group hf. Föst mánaðarlaun aðaláfrýjanda skyldu ver 1.200.000 krónur og ýmis önnur hlunnindi tilgreind, en uppsagnarfrestur skyldi vera 12 mánuðir. Annar samningur er dagsettur 5. desember 2005 þar sem aðaláfrýjandi var ráðinn forstjóri FL Travel Group ehf.. Í inngangi samningsins segir að FL Group hf. muni stofna síðar í sama mánuði félag til að fara með eignarhald á ferðaþjónustufyrirtækjum FL Group hf. á Íslandi en um var að ræða sex tilgreind fyrirtæki. Í 2. gr. segir meðal annars að forstjórinn stýri daglegum rekstri félagsins og hafi ákvörðunarvald um öll rekstrarleg og fjárhagsleg málefni þess og umsjón með eignum. Þá hafi hann prókúruumboð fyrir félagið og sé stjórnarformaður í „öllum helstu dótturfélögum samstæðunnar“. Samkvæmt 5. gr. skyldu mánaðarlaun vera 1.600.000 krónur auk hlunninda, þar á meðal árlegur „bónus skv. kaupaukakerfi lykilstjórnenda FL GROUP HF, eins og það er hverju sinni.“ Ráðningin var sögð ótímabundin en þó að lágmarki í 2 ár og uppsagnarfrestur skyldi vera tólf mánuðir. Þriðji ráðningarsamningurinn er dagsettur 1. september 2007, en að honum stóðu auk aðaláfrýjanda, FL Group hf. og Northern Travel Holding hf., „hér eftir nefnt NTH“, eins og þar sagði, en síðastnefnt félag mun hafa verið að 34% í eigu FL Group hf. Í 1. gr. þessa samnings segir í upphafi: „Aðilar hafa komist að samkomulagi um að forstjóri, sem í dag gegnir starfi framkvæmdastjóra Operation Management hjá FL, taki að sér tímabundið starf forstjóra hjá NTH. FL hefur áfram heimild til að leita til forstjóra um ákveðin mál ... Samkomulag er um að laun og aðrar launatengdar greiðslur skulu nú sem fyrr vera greidd af FL. Skal NTH síðan endurgreiða FL allan þann kostnað sem af störfum forstjóra hlýst.“ Í 2. gr. segir að um sé að ræða tímabundið verkefni í 12 til 24 mánuði en síðan segir: „Er störfum forstjóra fyrir NTH lýkur, en það tímamark verður síðar ákveðið af stjórn NTH, FL og forstjóra, mun forstjóri taka við sambærilegu starfi/stöðu innan FL, og hann gegnir nú.“ Mánaðarlaun aðaláfrýjanda skyldu vera 1.800.000 krónur auk annarra greiðslna. Uppsagnarfestur var 6 mánuðir. Samningnum fylgdu tveir viðaukar, einnig dagsettir 1. september 2007. Annar þeirra var viðauki við ráðningarsamning aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda, en í 7. gr. viðaukans segir: „Öll ákvæði ráðningarsamnings og annarra samninga ... skulu halda gildi sínu skv. orðanna hljóðan. Forstjóri heldur öllum þeim réttindum sem hann hefur samkvæmt núverandi samningum við félagið.“

Aðaláfrýjandi lagði nýtt skjal fyrir Hæstarétt sem dagsett er 3. september 2008. Samkvæmt fyrirsögn sinni er það samkomulag milli gagnáfrýjanda NTH og aðaláfrýjanda um að sá síðastnefndi láti samdægurs af starfi sem forstjóri NTH og stjórnarmaður í dótturfélögum þess félags. Jafnframt skyldi NTH endurgreiða gagnáfrýjanda laun og aðrar greiðslur til aðaláfrýjanda með sama hætti og áður til loka mars 2009. Samkomulagið er undirritað af stjórnarformanni NTH og aðaláfrýjanda en ekki gagnáfrýjanda.

III

Gagnáfrýjandi reisir sýknukröfu sína meðal annars á því að krafa aðaláfrýjanda feli ekki í sér endurgjald fyrir vinnu í þágu gagnáfrýjanda, heldur hafi hann unnið í þágu NTH. Uppsagnarfrestur hans í því starfi hafi verið sex mánuðir. Vinnuréttarsambandi aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda hafi lokið 1. september 2007 þegar hann tók við starfi forstjóra NTH. Hann hafi að vísu átt rétt á að taka á ný við „sambærilegu starfi/stöðu“ og hann gegndi hjá gagnáfrýjanda þegar hann tók við forstjórastöðunni hjá NTH, en hafi ekki nýtt sér þennan samningsbundna rétt sinn og því hafi vinnuréttarsamband hans við gagnáfrýjanda ekki orðið virkt á ný. Launagreiðslur gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda frá október 2008 til mars 2009 hafi verið í þágu NTH og gagnáfrýjandi hafi beint endurkröfu að því félagi. Af hálfu aðaláfrýjanda er þessu síðastnefnda mótmælt og bent á að engra gagna njóti við í málinu um slíka endurkröfu.

Í áðurnefndu uppsagnarbréfi gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda 30. september 2008 segir meðal annars: „ ... er hér með sagt upp starfssamningi þínum við félagið.“ Orðalagið veldur engum vafa um að vísað er til ráðningarsamnings gagnáfrýjanda sjálfs við aðaláfrýjanda en ekki samnings þess síðastnefnda við NTH svo sem gagnáfrýjandi ber fyrir sig. Orðalag í áðurnefndum ráðningarsamningi 1. september 2007 og viðauka við hann felur jafnframt skýrlega í sér að ráðningarsamningi aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda var ekki slitið, heldur tók sá fyrrnefndi tímabundið að sér starf fyrir NTH og að því loknu teldist hann vera í sambærilegu starfi hjá gagnáfrýjanda og hann var fyrir 1. september 2007. Sú skýring gagnáfrýjanda er haldlaus að samninginn beri að skýra á þann veg að aðaláfrýjandi hafi þurft að bera sig sérstaklega eftir því að fá starf hjá gagnáfrýjanda til þess að verða starfsmaður hans á ný.

Bæði í samningi gagnáfrýjanda við aðaláfrýjanda 1. september 2005 og dótturfélags gagnáfrýjanda við hann 5. desember sama ár var kveðið á um 12 mánaða uppsagnarfrest. Við gerð nauðasamnings fyrir gagnáfrýjanda vorið 2009 var samþykkt krafa aðaláfrýjanda, sem reist var á því að honum bæru laun í uppsagnarfresti í sex mánuði auk þeirra sex mánaða, sem gagnáfrýjandi hafði þegar greitt honum laun fyrir. Engin haldbær skýring er á þeirri viðurkenningu önnur en sú að aðaláfrýjandi hafi verið talinn starfsmaður gagnáfrýjanda og notið uppsagnarfrests í tólf mánuði. Breytir engu um það þótt ekki hafi verið fallist á að krafan nyti forgangsréttar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þessu getur sú málsástæða gagnáfrýjanda, sem að framan greinir, ekki leitt til þeirrar niðurstöðu sem hann krefst.

IV

Gagnáfrýjandi ber jafnframt fyrir sig þá málsástæðu að vegna 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 fylgi forgangsréttur ekki kröfu aðaláfrýjanda en samkvæmt ákvæðinu, eins og það var áður en því var breytt með lögum nr. 95/2010, njóti þeir ekki réttar samkvæmt 1.-3. tölulið 1. mgr. sömu greinar sem hafi átt sæti í stjórn eða haft með höndum framkvæmdastjórn félags eða stofnunar sem sé til gjaldþrotaskipta. Hið sama eigi við þegar um nauðasamning sé að ræða. Aðaláfrýjandi hafi haft þá stöðu hjá gagnáfrýjanda að forgangsréttur kröfu hans komi ekki til álita. Vísar hann um það til nokkurra dóma Hæstaréttar, sem hann telur vera fordæmi að þessu leyti, þar á meðal dóms réttarins 13. ágúst 2010 í máli nr. 440/2010 og 21. mars 2011 í máli nr. 114/2011.

Að framan var getið ráðningarsamninga aðaláfrýjanda við annars vegar gagnáfrýjanda 1. september 2005 og hins vegar dótturfélag hans 5. desember sama ár og helstu ákvæða þeirra um starfssvið aðaláfrýjanda og hlutverk samkvæmt þeim. Samkvæmt gögnum málsins leikur hins vegar vafi á því hvaða starfi aðaláfrýjandi gegndi hjá gagnáfrýjanda þegar honum var sagt upp 30. september 2008. Þannig segir í samningi hans við NTH 1. september 2007 að aðaláfrýjandi „sem í dag gegnir starfi framkvæmdastjóra Operation Management hjá FL ...“ fari í tímabundið starf hjá NTH og taki að því loknu við sambærilegu starfi/stöðu hjá gagnáfrýjanda og hann gegni nú. Af þessari knöppu lýsingu er þó ljóst að starf „framkvæmdastjóra Operation Management hjá FL“ getur ekki verið starf forstjóra hjá FL Travel Group ehf., sem ráðningarsamningur 5. desember 2005 tók til.

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu gagnáfrýjanda að aðaláfrýjandi hafi á árinu 2006 látið af starfi forstjóra hjá FL Travel Group ehf. og tekið við sem framkvæmdastjóri „Operation Management“ hjá gagnáfrýjanda. Það starf sé hið sama og upphafleg ráðning hans 1. september 2005 tók til. Þessi skýring hafði ekki komið fram áður og var mótmælt af hálfu aðaláfrýjanda, án þess þó að frekari skýringar kæmu fram af hans hálfu um inntak starfsins. Varðandi þetta er þess að gæta að starfsheitið „framkvæmdastjóri Operation Management“ fellur ekki saman við enskt starfsheiti í samningnum 1. september 2005, sem var eins og fram er komið „SVP Corporate Strategy and Business Development FL GROUP.“ Ekki hefur verið nánar upplýst um þetta og hvorki nýtur við í málinu lýsingar á starfi aðaláfrýjanda sem „framkvæmdastjóri Operation Management“ né skipurits félagsins sjálfs.

Við úrlausn um þessa málsástæðu gagnáfrýjanda verður litið til þess að aðaláfrýjandi var við uppsögn eftir sem áður framkvæmdastjóri hjá gagnáfrýjanda og virðist miðað við enskan starfstitil hafa haft með höndum rekstrarstjórn af einhverjum toga, en starfslýsing í ráðningarsamningi hans 1. september 2005 tók meðal annars til þess að stýra daglegum rekstri. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að aðaláfrýjandi hafi haldið sömu mánaðarlaunum og hann hafði hjá FL Travel Group ehf. og að ekki hafi verið hróflað við 12 mánaða uppsagnarfresti hans, en hvort tveggja veitir vísbendingu um að ekki hafi orðið grundvallarbreyting á starfssviði hans við yfirstjórn hjá gagnáfrýjanda. Einnig kom fram af hálfu gagnáfrýjanda að aðaláfrýjandi hafi eftir starfslok hjá FL Travel Group ehf. verið í svonefndri framkvæmdastjórn gagnáfrýjanda. Að öllu þessu virtu verður fallist á með þeim síðastnefnda að nægjanlega sé komið fram að starf aðaláfrýjanda hafi verið þess eðlis að þágildandi ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 taki til þess. Samkvæmt því verður kröfu aðaláfrýjanda hafnað og hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málkostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2010.

Mál þetta, sem var dómtekið 20. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þorsteini Erni Guðmundssyni, Asparhvarfi 14, Kópavogi á hendur Stoðum hf., Hátúni 2b, Reykjavík, með stefnu birtri 9. desember 2009.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 17.731.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 63.000 kr. frá 01.02.2009 til 01.03.2009, af 273.000 kr. frá 01.03.2009 til 01.04.2009, af 483.000 kr. frá 01.04.2009 til 01.05.2009, af 2.987.000 kr. frá 01.05.2009 til 01.06.2009, af 7.715.000 kr. frá 01.06.2009 til 01.07.2009, af 10.219.000 kr. frá 01.07.2009 til 01.08.2009, af 12.723.000 kr. frá 01.08.2009 til 01.09.2009, af 15.227.000 kr. frá 01.09.2009 til 01.10.2009, og af 17.731.000 kr. frá 01.10.2009 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda að fjárhæð 1.000.000 kr. hinn 16. júní 2009.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda og taki tildæmdur málskostnaður mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilfellum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

Málavextir

Hinn 1. september 2005 gerðu málsaðilar ráðningarsamning, þar sem stefnandi var ráðinn framkvæmdastjóra til að hafa umsjón með rekstri, stefnumótun og viðskiptaþróun hjá Fl Group. Umsamin föst mánaðarlaun voru 1.200.000 kr. (miðað við 1. ágúst 2005), orlof var 28 virkir dagar og til viðbótar lögbundnum greiðslum í lífeyrissjóð skuldbatt stefndi sig til að greiða 5% af mánaðarlaunum í almennan frjálsan lífeyrissjóð, auk 100.000 kr. af mánaðarlaunum. Þá var jafnframt samið um ýmis hlunnindi til handa stefnanda, sbr. 6. gr. samnings aðila. Samkvæmt 8. gr. var gagnkvæmur uppsagnarfrestur 12 mánuðir.

Hinn 5. desember 2005 undirrituðu stefnandi og Hannes Smárason, f.h. FL Travel Group ehf., ráðningarsamning, þar sem stefnandi tók að sér stöðu forstjóra FL Travel Group ehf. FL Travel Group ehf. var stofnað til að fara með eignarhald á íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum sem voru þá í eigu stefnda, en þar var um að ræða Flugfélag Íslands ehf., Icelandair Hotels ehf., Bílaleigu Flugleiða ehf., Kynnisferðir ehf., Ferðaskrifstofu Íslands ehf. og Íslandsferðir ehf. Í 5. gr. samnings aðila var kveðið á um laun, 1.600.000 kr. á mánuði. Í 6. gr. var kveðið á um greiðslu iðgjalda og í 7. gr. var samið um ýmis hlunnindi til handa stefnanda. Jafnframt var samið um 6 vikna orlofsrétt stefnanda á ári hverju. Samkvæmt 10. gr. umrædds ráðningarsamnings var ráðningin ótímabundin, en þó að lágmarki 2 ár sem forstjóri FL Travel Group ehf. eða í sambærilegri stöðu innan FL Group hf. Þá var svo samið að gagnkvæmur uppsagnarfrestur væri 12 mánuðir.

Hinn 1. september 2007 undirrituðu stefnandi, stefndi og Northern Travel Holding hf. (NTH), samkomulag vegna upphafs starfa stefnanda fyrir NTH. Var um það samkomulag með aðilum að stefnandi tæki að sér stöðu forstjóra NTH hinn 1. september 2007 og var gert ráð fyrir að stefnandi gegndi þeirri stöðu í allt að 24 mánuði. Þegar störfum stefnanda fyrir NTH lyki, var jafnframt um það samið að stefnandi tæki aftur við sambærilegu/ri starfi/stöðu innan stefnda og hann gegndi fyrir fyrrgreint samkomulag aðila, sbr. 2.3 gr. Samkomulag var einnig með aðilum um að stefndi skyldi sem fyrr greiða stefnanda laun og aðrar launatengdar greiðslur og endurkrefja síðan NTH. Í 5. gr. samkomulagsins var kveðið á um laun og árangurstengdar greiðslur, í 6. gr. var kveðið á um hlunnindi og í 7. gr. var kveðið á um að stefnandi ætti 30 daga orlofsrétt ár hvert. Uppsagnarfrestur samkvæmt umræddum samningi var ákveðinn 6 mánuðir.

Hinn sama, dag eða 1. september 2007, rituðu málsaðilar undir viðauka við ráðningarsamning frá 5. desember 2005. Þar kemur fram að stefnandi skuli eftir sem áður vera starfsmaður FL Group. Í 4. gr. viðaukans var þó gerð sú breyting á fyrri ráðningarsamningi að laun stefnanda skyldu hækka í 1.800.000 kr. á mánuði, en að öðru leyti áttu ákvæði samnings frá 5. desember 2005 að gilda varðandi laun, hlunnindi og aðrar greiðslur.

Hinn 29. september 2008 var stefnda veitt heimild til greiðslustöðvunar. Daginn eftir, eða hinn 30. september 2008, var stefnanda sagt upp störfum og var það gert samkvæmt fyrirmælum frá umsjónarmanni stefnda í greiðslustöðvun, Jakobi Möller hrl. Vinnuframlags í þágu stefnda á uppsagnartíma var ekki krafist og greiddi stefndi laun í kjölfarið í sex mánuði og er síðasti launaseðill dagsettur 16. mars 2009. Þá fékk stefnandi greiðslur frá stefnda vegna rekstrarkostnaðar bifreiðar fram í janúar 2009, eða sem svarar í 3,7 mánuði.

Hinn 6. apríl 2009 fékk stefndi heimild til að leita nauðasamninga. Stefnandi lýsti kröfum sínum hinn 13. maí 2009 við nauðasamningsumleitanir stefnda skv. 45. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefnandi taldi launakröfu sína vera forgangskröfu í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Ekki var gerð athugasemd við lýsta réttarstöðu kröfunnar.

Með bréfi, dags. 29. maí 2009, hafnaði stefndi því að krafa stefnanda væri forgangskrafa og taldi að krafa stefnanda væri almenn krafa, sem félli undir nauðasamning félagsins.

 Með bréfi stefnda, dags. 8. júní 2009, var stefnanda tilkynnt að nauðasamningsfrumvarp félagsins hefði verið samþykkt. Fól það meðal annars í sér að allar viðskiptakröfur á hendur félaginu undir 1.000.000 kr. yrðu greiddar að fullu. Samkvæmt nauðasamningsfrumvarpi stefnda skyldu þeir samningskröfuhafar, sem ekki fengju fullnustu krafna sinna með greiðslu á allt að 1.000.000 kr., fá greidd 5% af eftirstöðvum kröfufjárhæðarinnar eins og hún stóð hinn 30. mars 2009 með nýju hlutafé í almennum flokki í félaginu gefnu út á genginu 1. Stefndi hefur gert upp við stefnanda á grundvelli þessa.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 11. júní 2009, var krafa stefnanda skv. fyrrnefndri kröfulýsingu ítrekuð og aftur hinn 20. júlí 2009.

Hinn 15. júní 2009 staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur nauðasamning stefnda.

Með bréfi lögmanns stefnda, dags. 7. september 2009, var kröfum stefnanda hafnað af hálfu stefnda og þeirri skoðun stefnda lýst að hann teldi kröfur stefnanda falla undir almennar kröfur og þar með nauðasamning stefnda. 

Mál þetta var síðan höfðað í desember 2009.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum vinnuréttar og ráðningarsamningum milli aðila. Þá vísar hann til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga.

Krafa stefnanda byggir á samningum stefnanda og stefnda um launakjör stefnanda. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi vanefnt þá samninga.

Stefnandi fékk greidd laun frá stefnda út mars 2009, en launagreiðslur frá og með apríl 2009 hafa ekki verið inntar af hendi. Stefndi hefur ekki skýrt út hvers vegna hann vanefndi ráðningarsamning stefnanda með því að hætta skyndilega að greiða stefnanda laun í samningsbundnum uppsagnarfresti.

Stefnandi naut 12 mánaða uppsagnarfrests á grundvelli 10.2 gr. í ráðningarsamningi, dags. 5. desember 2005, sbr. ákvæði 9.1 gr. í samkomulagi, dags. 1. september 2007. Á 12 mánaða uppsagnarfresti stefnanda hefur stefndi hins vegar einungis innt af hendi launagreiðslur til stefnanda í 6 mánuði og greiðslur vegna rekstrarkostnaðar bifreiðar í 3,7 mánuði.

Stefnandi krefst þess því að stefndi greiði honum rekstrarkostnað bifreiðar í 8,3 mánuði (þ.e. vegna hluta janúarmánaðar 2009 til og með september 2009) og laun auk annarra samningsbundinna réttinda í 6 mánuði (þ.e. vegna apríl til og með september 2009). Krafan hvílir á grundvelli gildandi samninga milli stefnanda og stefnda.

Stefnandi telur kröfu sína vera forgangskröfu í skilningi 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1.–4. tl. þeirrar málsgreinar, og ætti hún sem slík að njóta forgangsréttar í þrotabú stefnda ef til gjaldþrots kæmi. Þess vegna hefur nauðasamningur stefnda ekki áhrif á kröfu stefnanda, sbr. 28. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Auk þess hefði stefnda verið bæði rétt og skylt að inna hinar samningsbundnu greiðslur af hendi til stefnanda á greiðslustöðvunartíma, sbr. 20. og 21. gr. laga nr. 21/1991.

Stefnandi vann í þágu stefnda. Stefnandi getur því ekki fallist á þá skoðun stefnda að hafna því að kröfur hans njóti stöðu forgangskrafna í framangreindum skilningi. Í bréfi stefnda frá 7. september 2009 eru ekki færð nein rök fyrir því að hafna greiðslu á kröfu stefnanda.

Þó svo að stefnandi hafi tímabundið gegnt stöðu forstjóra hjá dótturfélagi stefnda þá greiddi stefndi honum alltaf laun og launatengd gjöld. Stefnandi var starfsmaður stefnda á meðan hann starfaði að verkefnum á vegum NTH, enda var það stefndi sem greiddi honum laun og sagði honum upp störfum.

Stefnandi byggir einnig á því að með greiðslum stefnda á hluta af launum stefnanda í 6 mánuði eftir að stefnanda var sagt upp hefur stefndi viðurkennt þær kröfur sem stefnandi hefur nú uppi og einnig viðurkennt að launakröfur stefnanda eru forgangskröfur í skilningi 112. gr. laga nr. 21/1991.

Þá ber að nefna þá afstöðu aðstoðarmanns með nauðasamningi stefnda að gera ekki athugasemd við að krafa stefnanda nyti forgangs. Af þeim sökum fékk stefnandi ekki atkvæðisrétt um frumvarp til nauðasamnings stefnda.

Stefnukrafan er sundurliðuð með svofelldum hætti:

  1. Mánaðarlegar launakröfur stefnda fyrir apríl 2009 til loka septembermánaðar 2009, ásamt samningsbundnum hlunnindum, þ.m.t. rekstrarkostnaði bifreiðar, samtals 2.504.000 kr. á mánuði, sundurliðað með svofelldum hætti:

a.       Mánaðarlaun í 6 mánuði (þ.e. vegna apríl til og með september 2009), 1.800.000 x 6 = 10.800.000 kr. Krafan byggir á 5. gr. samkomulagsins, dags. 1. september 2007.

b.       Krafa um greiðslu mótframlags í lífeyrissjóð. Lögbundið 8% framlag af mánaðarlaunum kröfuhafa (sbr. tölulið 1.a. hér að framan) nemur 144.000 kr. á mánuði. Samtals nemur því krafan 144.000 x 6 = 864.000 kr.

c.        Samkvæmt 6. gr. ráðningarsamningsins, dags. 5. desember 2005, sbr. 9. gr. samkomulagsins, dags. 1. september 2007, skyldi félagið greiða kröfuhafa 10% mótframlag af launum hans í lífeyrissjóð auk fasts framlags að fjárhæð 100.000 kr. á mánuði. Nemur sú fjárhæð samanlagt 280.000 kr. á mánuði. Samtals er því krafa vegna þessa, 280.000 x 6 = 1.680.000 kr.

d.       Kröfuhafi á rétt á greiðslu vegna símakostnaðar og trygginga á grundvelli ákvæða gr. 7.5 og 8 í ráðningarsamningnum. Áætlaður kostnaður vegna þessa þáttar er 70.000 kr. á mánuði. Samtals er því krafan vegna þessa 70.000 x 6 = 420.000 kr.

e.        Félagið hætti greiðslu á rekstrarkostnaði bifreiðar kröfuhafa í janúar 2009 er eldsneytiskorti kröfuhafa var lokað og bifreiðin var innkölluð af viðkomandi bifreiðaumboði. Eru því 8,3 mánuðir ógreiddir af þeim launagreiðslum, sem kröfuhafi á rétt á í formi greiðslna á rekstrarkostnaði af bifreið. Áætlaður mánaðarlegur kostnaður vegna þessa er 45.000 kr. vegna eldsneytis og rekstrar auk 165.000 kr. vegna bifreiðarinnar sjálfrar, þ.e. samtals 210.000 kr. á mánuði. Samtals er því krafan vegna þessa þáttar 210.000 x 8,3 = 1.743.000 kr.

Samtals er því mánaðarleg krafa stefnanda 2.504.000 kr. alls í 6 mánuði, sbr. framanritað, frá og með aprílmánuði 2009 til og með septembermánuði 2009, en auk þess er krafist ógreidds kostnaðar vegna bifreiðar stefnanda frá janúar 2009 til mars 2009, 2,3 mánuði og er krafan vegna þessa 210.000 x 2,3 = 483.000 kr.

Gjalddagar einstakra þátta í kröfu stefnanda eru eins og hér greinir:

Gjalddagi           Fjárhæð

    1. 01.02.2009             63.000,- (rekstrarkostnaður bifreiðar)
    2. 01.03.2009           210.000,- (rekstrarkostnaður bifreiðar)
    3. 01.04.2009           210.000,- (rekstrarkostnaður bifreiðar)
    4. 01.05.2009        2.504.000,-
    5. 01.06.2009        2.504.000,-
    6. 01.07.2009        2.504.000,-
    7. 01.08.2009        2.504.000,-
    8. 01.09.2009        2.504.000,-
    9. 01.10.2009        2.504.000,-

  1. Áunninn orlofsréttur með gjalddaga 1. maí 2009 nemur 2.224.000 kr. Stefnandi hefur áunnið sér fullan orlofsrétt á grundvelli almennra reglna á orlofsárinu 2008-2009, sbr. og ákvæði 9. gr. ráðningarsamnings, dags. 5. desember 2005, 7. gr. samkomulagsins, dags. 1. september 2007, og ákvæði laga nr. 30/1987 um orlof. Er gerð krafa um að orlofsréttur hans verði greiddur honum, þ.e. sem svarar til einna mánaðarlauna (1.800.000 kr.) auk eins mánaðar greiðslu af þeim fjárhæðum sem tilgreindar eru í liðum 1. b) og c) (144.000 kr. og 280.000 kr.), þ.e. samtals 2.224.000 kr.

Samtals nema kröfur stefnanda á hendur stefnda því 17.731.000 kr. auk dráttarvaxta. Inn á kröfu stefnanda hefur stefndi greitt innborgun 1.000.000 kr. hinn 16. júní 2009 sem dregst frá skaðabótakröfunni miðað við stöðuna á innborgunardegi og gengur fyrst til greiðslu áfallinna dráttarvaxta.

Dráttarvaxtakrafa stefnanda er byggð á 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 6. gr. sömu laga.

Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og því er nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Í fyrsta lagi byggir stefndi á því að með greiðslu í samræmi við staðfestan nauðasamning stefnda hafi fullnaðargreiðsla á kröfum stefnanda þegar átt sér stað. Ber þegar af þeim sökum að sýkna stefnda.

                Í öðru lagi, hvað sem fyrrgreindu líður, byggir sýknukrafa stefnda á því að krafa stefnanda nýtur ekki réttar skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þar sem stefnandi gegndi stöðu sem jafna má við stöðu framkvæmdastjóra þrotamanns, sbr. 3. mgr. 112. gr. sömu laga. Krafa stefnanda tilheyrir því ekki þeim flokki krafna sem sérstaklega eru undanþegnar nauðasamningi skv. 28. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt er bent á áðurnefnt ákvæði í 10. gr. ráðningarsamnings stefnanda frá 5. desember 2005, þar sem fram kom að stefnandi var ráðinn ótímabundið, en þó að lágmarki í 2 ár, sem forstjóri FL Travel Group ehf. eða í sambærilegri stöðu innan FL Group hf. Réttarstaða stefnanda innan stefnda var því í samningi aðila skilgreind þannig að stefndi gegndi þess háttar starfi sem ekki veitir forgangsrétt við gjaldþrot.

Stefnandi starfaði sem forstjóri NTH, dótturfélags stefnda. Hann var sjálfstæður í störfum sínum, laut ekki sérstakri stjórn stefnda og bar ábyrgð á starfsfólki og rekstri NTH. Verður því ekki á annan veg ráðið en að stefnandi hafi haft þá stöðu sem kveðið er á um í 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 og fellur krafa stefnanda því undir nauðasamning stefnda.

Í þriðja lagi byggir stefndi á því að með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 21/1991 verður ekki unnt að líta svo á að krafa stefnanda sé krafa um greiðslu launa í samræmi við 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laganna. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Með ákvæði þessu, sem skipar vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð, er vikið frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti. Verður ákvæðið því ekki skýrt á rýmri veg en leiðir af orðanna hljóðan. Þegar þannig er rætt um laun skv. ákvæðinu er ótvírætt sett sú regla að réttur til launa, sem þar getur átt undir, þurfi að eiga rætur að rekja til vinnu í þágu þrotamanns.

Líkt og fyrr hefur verið fjallað um starfaði stefnandi sem forstjóri NTH, en í samningi á milli stefnda, NTH og stefnanda var svo um samið að stefndi greiddi laun stefnanda hjá NTH og síðastgreinda félagið skyldi svo endurgreiða stefnda þann kostnað. Krafa stefnanda byggir því ekki á endurgjaldi fyrir vinnu í þágu stefnda, heldur vann stefnandi þvert á móti í þágu NTH. Þó stefndi hafi samþykkt að greiða laun stefnanda gegn endurgreiðslu NTH, þá var ekki gerð krafa um vinnu í þágu stefnda. Þegar af þeim sökum verður að skipa kröfu stefnanda í réttindaröð skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 en ekki skv. 1. mgr. 112. gr. sömu laga. Þar af leiðir jafnframt að krafa stefnanda fellur undir nauðasamninga stefnda.

Í þessu samhengi mótmælir stefndi þeirri málsástæðu stefnanda að þar sem stefndi greiddi laun hans og launatengd gjöld, þá skuli kröfu hans skipað í réttindaröð skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Líkt og stefnandi greinir sjálfur frá, þá starfaði hann að verkefnum á vegum NTH. Í vinnu stefnanda fólst því ekki vinna í þágu stefnda, líkt og skýrlega er gert að skilyrði ef skipa á kröfum í réttindaröð skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

Þá er því mótmælt að stefndi hafi á einhvern hátt viðurkennt að skipa beri kröfu stefnanda í réttindaröð skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þar sem stefndi innti greiðslur af hendi til stefnanda í sex mánuði frá uppsögn. Stefnandi naut sem forstjóri NTH sex mánaða uppsagnarfrests, sbr. gr. 8.2. í samkomulagi aðila frá 1. september 2007. Þar sem stefndi gat krafið NTH um endurgreiðslu þessa kostnaðar sem félli til á þessum uppsagnarfresti, var það hvorki stefnda né kröfuhöfum stefnda til tjóns að greiðslur á sex mánaða uppsagnarfresti yrðu inntar af hendi.

Aukinheldur er þeirri málsástæðu stefnanda mótmælt að líta beri á kröfu stefnanda sem forgangskröfu, þar sem umsjónarmaður með nauðasamningi gerði ekki athugasemd við þá afstöðu sem fram kom í kröfulýsingu stefnanda um að krafa hans væri forgangskrafa. Kröfuhafi ber sjálfur ábyrgð á því að lýsa hvar kröfu hans skuli skipað í réttindaröð. Þar sem kröfunni var lýst sem forgangskröfu, þá var efni kröfunnar eða réttmæti hennar ekki frekar skoðað af aðstoðarmanni, þar sem slíkar kröfur falla utan nauðasamninga. Af þessari tilhögun kröfulýsingar verður stefnandi sjálfur að bera hallann.

Varakröfu sína um verulega lækkun dómkrafna stefnanda byggir stefndi á að einstakir kröfuliðir í kröfu stefnanda fela ekki í sér kröfu um greiðslu launa, sbr. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

Í stefnu er að finna sundurliðun stefnufjárhæðar. Stefndi telur þær forsendur sem stefnandi gefur sér til grundvallar heildarstefnufjárhæð í verulegum atriðum rangar.

Við skýringu á launahugtakinu skv. lögum nr. 21/1991 hefur í framkvæmd verið við það miðað að réttur launþega geti ekki náð lengra en til nettólauna, enda eru til dæmis innheimtumaður ríkissjóðs og lífeyrissjóður réttir aðilar til að krefjast staðgreiðslufjár og lífeyrissjóðsiðgjalda. Kröfu stefnanda um greiðslu heildarlauna (sbr. tölulið 1.a í sundurliðun), ber því að lækka á þann veg að stefnda verði aðeins gert að greiða stefnanda nettólaun en ekki heildarlaun eða brúttólaun. Með vísan til sömu sjónarmiða ber dóminum jafnframt að hafna kröfum stefnanda um greiðslu lögbundins mótframlags í lífeyrissjóð (sbr. tölulið 1.b í sundurliðun) og greiðslu samningsbundins mótframlags í lífeyrissjóð (sbr. tölulið 1.c í sundurliðun).

Sé mið tekið af síðasta launaseðli stefnanda ætti mánaðarleg krafa til greiðslu launa því að vera að hámarki 1.080.473 kr. Heildarkrafa vegna greiðslu launa í sex mánuði ætti því að hámarki að vera 6.482.838 kr., en ekki 13.344.000 kr. (sbr. töluliði 1.a-1.c í sundurliðun) líkt og stefnandi krefst.

Þá telur stefndi enga stoð fyrir því í lögum nr. 21/1991 að greiðslum vegna símakostnaðar, trygginga og rekstrarkostnaðar bifreiðar skuli skipað í réttindaröð skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 (sbr. töluliði 1.d og 1.e í sundurliðun). Kröfuliðir þessir eru í raun endurgjaldskröfur fyrir útlagðan kostnað, sem almennt er skipað utan forgangsréttar. Mánaðarleg krafa stefnanda skal því lækka sem þessum kröfuliðum nemur. Kröfuliður að fjárhæð 70.000 kr. á mánuði vegna símakostnaðar og trygginga verður því ekki samþykktur á grundvelli 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 og kröfuliður að fjárhæð 210.000 kr. á mánuði vegna rekstrarkostnaðar bifreiðar verður heldur ekki samþykktur af sömu ástæðum og áður er frá greint.

Með vísan til sömu sjónarmiða og fyrr hafa komið fram varðandi kröfuliði 1.a-1.e, ber dóminum einnig að lækka verulega kröfu í tölulið 2 í sundurliðun stefnufjárhæðar. Byggir sá kröfuliður stefnanda á sömu röngu forsendum og stefndi hefur hér fyrr vísað til.

Að lokum ber að vísa til þess að svo virðist sem stefnandi sjálfur telji kröfu sína vera skaðabótakröfu en ekki kröfu um greiðslu launa, sbr. umfjöllun stefnanda sjálfs í lokamálslið 3. kafla í stefnu. Skaðabótakröfum er skipað í réttindaröð skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 og teljast þær því samningskröfur við nauðasamninga, sbr. 29. gr. sömu laga. Styrkir þetta enn frekar kröfur stefnda.

Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda og styðst sú krafa stefnda við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laganna.

Niðurstaða

                Stefnandi gerir kröfu um greiðslu launa og tengdra gjalda í 6 mánuði auk rekstrarkostnaðar bifreiðar í 8,3 mánuði til loka uppsagnarfrests og byggir á gildandi samningum málsaðila um launakjör sín.

                Það liggja þrír samningar fyrir í málinu. Stefndi hefur lagt fram upphaflegan ráðningarsamning milli FL Group og stefnanda frá 1. september 2005. Þar er stefnandi ráðinn framkvæmdastjóri til að hafa umsjón með rekstri, stefnumótun og viðskiptaþróun FL Group. Þremur mánuðum seinna, eða 5. desember 2005, var stefnandi ráðinn forstjóri FL Travel Group. Samkvæmt þeim samningi var gagnkvæmur 12 mánaða uppsagnarfrestur.

Hinn 1. september 2007 er gert samkomulag milli FL Group hf., Northern Travel Holding hf. (NTH), og stefnanda. Þar kemur fram að stefnandi sé ráðinn tímabundið í starf forstjóra hjá NTH. FL Group hafi áfram heimild til að leita til stefnanda um ákveðin mál en þó þannig að starf forstjóra gangi fyrir. Skv. 1.2 gr. er samkomulag um að laun og aðrar launatengdar greiðslur skuli nú sem fyrr vera greidd af FL Group. NTH eigi síðar að endurgreiða FL Group allan kostnað sem hlýst af störfum forstjóra og ber FL Group að senda NTH reikning innan 7 daga frá greiðslum til stefnanda. Skv. 2.3 gr. skal stefnandi, eftir að störfum lýkur hjá NTH, taka við sambærilegu/ri starfi/stöðu innan FL. Í 3.1-3.8 gr. í 3. kafla samningsins er fjallað um verksvið, ábyrgð og vinnuframlag. Þar segir meðal annars að forstjóri skuli stýra daglegum rekstri NTH. Hann hafi með höndum yfirframkvæmdastjórn allrar daglegrar starfssemi NTH og hafi ákvörðunarvald um öll rekstrarleg og fjárhagsleg málefni NTH. Hann hafi prókúrumboð. Hann sé stjórnarformaður í öllum helstu dótturfélögum NTH samstæðunnar. Hann beri ábyrgð gagnvart félagsstjórn á daglegum rekstri og að í öllu sé farið eftir samþykktum NTH, lögum og reglum. Í 8.2 gr. er kveðið á um að hægt sé að segja samningum upp með sex mánaða fyrirvara. Að lokum segir í 9.1 gr. að öll ákvæði ráðningarsamnings og annarra samninga á milli stefnanda og FL Group, að undanskildum sérákvæðum í samkomulaginu, eigi að halda gildi sínu og að stefnandi eigi að halda öllum þeim réttindum sem hann hefur samkvæmt núverandi samningi við FL Group. Undir samning þennan ritar stefnandi og Hannes Smárason f.h. FL Group hf. Undirritun fyrir hönd Northern Travel Holding hf. er ólæsileg.

                Sama dag, þ.e. 1. september 2007, er gerður viðauki við ráðningarsamninginn milli FL Group hf. og stefnanda frá 5. desember 2005. Í 1.3 gr. segir svo: „Ekki er gert ráð fyrir að ráðning og störf forstjóra hafi nokkur áhrif á gildandi samninga hans við félagið eða skerði þá á nokkurn hátt, enda mun forstjóri nú sem fyrr vera starfsmaður félagins, sem síðan mun gera samning við NTH um tilhögun á endurgreiðslu launa og bónusgreiðslna.“ Síðan segir í 7.1 gr. að öll ákvæði ráðningarsamnings og annarra samninga að undanskildum sérákvæðum í viðauka þessum skuli halda gildi sínu og að stefnandi haldi öllum þeim réttindum er hann hefur samkvæmt núverandi samningi við félagið. Undir þennan samning rita stefnandi og Hannes Smárason fyrir hönd FL Group hf.

                Af þessum samningum, sem báðir eru gerðir eru 1. september 2007, má annars vegar ráða, að stefnandi hafi verið ráðinn forstjóri Northern Travel Holding hf., og hins vegar að hinn sami forstjóri verði „nú sem fyrr“ starfsmaður FL Group. Ljóst er að samningar þessir fara ekki saman. Stefnandi getur ekki á sama tíma verið í fullu starfi sem forstjóri Northern Travel Holding hf., með öllum þeim skyldum sem á honum hvíla samkvæmt samningum og ákvæðum hlutafélagalaga nr. 2/1995 og einnig verið starfsmaður FL Group hf.

                Stefnandi er samkvæmt samkomulaginu forstjóri NTH, sem er sérstakur lögaðili. Það félag greiðir honum laun þótt FL. Group leggi út fyrir þeim um hver mánaðamót. Með þessu fyrirkomulagi virðist ætlunin vera sú að tryggja að stefnandi fái laun sín á réttum tíma. FL Group innheimtir síðan launin hjá NTH innan 7 daga. Öll vinnuskylda stefnanda samkvæmt samkomulaginu er í þágu NTH og er það félag vinnuveitandi stefnanda. Laun þau er stefnandi fær hjá NTH geta ekki verið grundvöllur að kröfu hans á hendur stefnda, Stoðum hf. Hér er um annan aðila að ræða og launanna er aflað vegna þjónustu stefnanda við NTH, en ekki Stoða hf.

Stefnandi höfðar mál þetta gegn Stoðum hf. Nafn þess hlutafélags kemur hvergi fyrir í málsskjölum, en upplýst var við aðalmeðferð að FL Group hafi breytt um nafn og héti nú Stoðir hf., og um sömu kennitölu væri að ræða. Þá var einnig upplýst við aðalmeðferð málsins, að Northern Travel Holding hf., hafi verið úrskurðað gjaldþrota 14. september 2009.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi litið á stefnanda sem starfsmann FL Group/stefnda með því að stefndi hafi þegar greitt stefnanda samkvæmt staðfestum nauðasamningi. Við það situr og með vísan til 2. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. á stefnandi ekki frekari kröfur á hendur stefnda.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Stoðir hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Þorsteins Arnar Guðmundssonar.

Málskostnaður fellur niður.