Hæstiréttur íslands

Mál nr. 537/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 13. ágúst 2014.

Nr. 537/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Snorri Sturluson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir  Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. ágúst 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. ágúst 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 2. september 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.   

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómi 11. júní 2014 var ákærði dæmdur í 10 mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár frá birtingu dómsins fyrir auðgunarbrot og fíkniefnalagabrot framin á árinu 2013. Í hinum kærða úrskurði segir ranglega að þrír mánuðir af refsingunni hafi verið skilorðsbundnir. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna úrskurðarins verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. ágúst 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til  þriðju­dagsins 2. september nk. kl. 16.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 8. júlí sl. í máli nr. [...]/[...] hafi kærða verið gert að sæta gæslu­varð­haldi allt til þriðjudagsins 5. ágúst kl. 16 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið að rannsóknum mála þar sem kærði sé grunaður um auðgunarbrot, umferðarlagabrot, vopnalagabrot og fíkni­efna­lagabrot. Nú sé rannsókn málanna lokið og hafi ákæra dagsett í dag 5. ágúst verið gefin út á hendur kærða af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess hafi lögregla enn til rannsóknar og meðferðar eftirfarandi mál sem kærði sé sterklega grunaður um: 

          Mál nr. 007-2014-40155

          Kærði sé grunaður um brot gegn valdstjórninni að kvöldi 7. júlí þegar kærði hafi verið handtekinn við hús nr. [...] í [...] í Reykjavík grunaður um þjófnað á matvöru úr verslun [...],[...] í Reykjavík. Við handtöku hafi kærði streist kröftuglega á móti og hafi í tvígang sparkað í höfuð lögreglumanns 1316. Þegar verið var að færa kærða í fangaklefa hafi hann orðið mjög æstur, sýnt ógnandi tilburði, reynt að bíta lögreglumann 1316 í lærið og hrækt á buxur lögreglumanns 1316.

          Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi kærði játað að hafa stolið matvöru úr verslun í Mjódd. Kærði hafi viðurkennt að hafa sparkað eitt spark í lögreglumann og að höggið hafi komið á axlir lögreglumannsins. Kærði hafi einnig viðurkennt að hafa hrækt á fatnað lögreglumanns.

                007-2014-39903

Kærði sé grunaður um rán og stórfellda líkamsáras í félagi við [...], [...] og [...], með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 6. júlí sl. við [...] í [...] veist að A, kýlt hann nokkrum sinnum í andlitið og sparkað í andlit hans er hann hafi legið á götunni og tekið af honum appelsínugula 66° norður úlpu, allt með þeim afleiðingum að A hafi hlotið skurð á nefi, hrufl í andliti og brotna framtönn.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagðist X hafa rifið A út úr bifreiðinni, hrint honum og sparkað tvisvar sinnum í bringuna á honum og eftir það hafi hann ekið í burtu.

                007-2014-032701

Kærði sé grunaður um þjófnað og vopnalagabrot, með því að hafa miðviku­dag­inn 4. júní 2014, brotist inn í hótelherbergi á [...], [...]í Reykjavík, með því að fara inn um glugga herbergisins, og stolið þaðan snjallsíma og veski sem innihélt tæplega 200 evrur, 500 dollara og greiðslukort og fyrir að hafa í vörslum sínum skæri.

                007-2014-33362

Kærði sé grunaður um nytjastuld með því að hafa fimmtudaginn 15. maí sl. í heimildarleysi tekið bifreiðina [...] þar sem hún hafi staðið við [...] í [...] og ekið henni víðsvegar um götur á höfuðborgarsvæðinu, en bifreiðin hafi hinn 10. júní sl. fundist við [...] í Reykjavík, eftir ábendingu kærða þann dag. Kærði sé einni grunaður um annan nytjastuld, með því að hafa fimmtudaginn 22. maí sl. í heimildarleysi tekið bifreiðina [...] við [...] í Reykjavík og ekið henni víðsvegar um götur á höfuðborgarsvæðinu, en bifreiðin sé ófundin.

                Kærði eigi sakarferil að baki þrátt fyrir ungan aldur. Hann hafi verið dæmdur í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára þann 23. mars 2012 vegna brota á almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Þann 8. júní 2012 hafi kærði verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi, skilorðbundið til tveggja ára vegna brota á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Hafi skilorðsdómurinn frá 23. mars 2012 verið dæmdur upp. Þann 27. september 2012 hafi kærði verið dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára vegna brots á almennum hegningarlögum. Þann 20. febrúar 2013 hafi kærði verið dæmdur í átta mánaða fangelsi, þar af hafi sex mánuðir verið skilorðsbundnir til þriggja ára, vegna brota á almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Hafi skilorðsdómurinn frá 27. júní 2013 verið dæmdur upp. Þann 27. febrúar 2013 hafi kærði verið dæmdur í tólf mánaða fangelsi, þar af hafi níu mánuðir verið skilorðsbundnir til þriggja ára. Hafi skilorðsdómurinn frá 20. febrúar 2013 verið dæmdur upp. Þann 4. júní 2013 hafi ákærði hlotið dóm vegna brota á almennum hegningarlögum en hafi ekki verið gerð sérstök refing. Þann 15. apríl 2014 hafi kærði gengist undir sátt hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna brots á lögum um ávana- og fíkniefni. Þann 11. júní 2014 hafi kærði verið dæmdur í tíu mánaða fangelsi, skilorðsbundinn til þriggja ára. Hafi skilorðsdómurinn frá 27. febrúar 2013 verið dæmdur upp. Sá dómur hafi verið birtur kærða 7. júlí sl. og kærði hafi sér áfrýjunarfrest. Við rannsókn mála kærða hjá lögreglu hafi komið í ljós að hann sé í mikilli neyslu fíkniefna, án atvinnu og hafi ekki fasta búsetu.

                Með vísan til framangreinds og brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing sé lögð við og að yfirgnæf­andi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

Samkvæmt gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið fjölmörg brot sem varðað geta fangelsi. Eins og þar er rakið er hann á þessu ári grunaður um að hafa framið níu brot með stuttu millibili. Í kjölfar handtöku kom til átaka á milli hans og lögreglu.

                Kærði kveðst neyta fíkniefna, hann er ekki í fastri vinnu og fær bætur frá félagsmálastofnun en auk þess hefur hann um þessar mundir ekki fastan dvalarstað. Telja verður líklegt með hliðsjón af ofangreindu að hann fjármagni neyslu sína að hluta til með afbrotum en auk þess hefur hann ítrekað verið undir áhrifum fíkniefna við handtöku.

Með vísan til framangreinds eru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 gr. en líklegt er talið að kærði muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið og því jafnframt uppfyllt skilyrði c. liðar ákvæðisins. Kærði var nýverið dæmdur í tíu mánaða fangelsi en þar af voru þrír mánuðir skilorðsbundnir. Áfrýjunarfrestur er ekki liðinn skv. 1. ml. 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008. Verður að telja sennilegt að kærði verði dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi verði hann sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök nú, þó hluti þeirra séu framin fyrir uppkvaðningu ofangreinds dóms. Verður því að telja skilyrði 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu einnig uppfyllt.

                Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er sett fram.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 2. september nk. kl. 16.00.