Hæstiréttur íslands

Mál nr. 129/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 27

 

Mánudaginn 27. mars 2006.

Nr. 129/2006.

Sperra ehf.

(Hilmar Magnússon hrl.)

gegn

Dynskógum ehf.

(Jón Magnússon hrl.)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Ekki var fallist á með héraðsdómara að grundvöllur máls S á hendur D hefði raskast svo undir rekstri þess að frávísun varðaði. Var frávísunarúrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 28. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2006, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvikum og málatilbúnaði aðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Ekki verður fallist á með héraðsdómara að málsgrundvöllur sá, sem lagður var í stefnu, hafi raskast svo undir rekstri málsins að frávísun varði. Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili eigi ógreidda þrjá nánar tilgreinda reikninga vegna verks, sem aðilar eru sammála um að sóknaraðili hafi unnið fyrir varnaraðila, þótt þá greini á um hvort þegar hafi verið greitt fyrir þá verkþætti sem reikningarnir varða. Verður ekki séð að vandkvæði séu á að fella efnisdóm á málið á þessum grunni. Ber því samkvæmt framansögðu að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður, en ákvörðun málskostnaðar í héraði bíður efnisdóms.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2006.

I

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 9. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sperru ehf., [kt.], Gullengi 29, Reykjavík, með stefnu birtri 8. marz 2005 á hendur Dynskógum ehf., [kt.], Ármúla 36, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 313.913, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 192.666 frá 10.12. 2003 til 25.12. s.á., en af kr. 243.950 frá þeim degi til 02.01. 2004, en af kr. 313.913 frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.

II

Málavextir

Í stefnu er ekki að finna aðra málavaxtalýsingu en þá, að krafa sé samkvæmt reikningum vegna vinnu við Bræðraborgarstíg 43, eignarhluta 0101.  Stefndi lýsir málavöxtum hins vegar í greinargerð sinni svo, að stefnandi hafi tekið að sér framkvæmdir við íbúð stefnda á fyrstu hæð að Bræðraborgarstíg 43, Reykjavík samkvæmt yfirlýsingu, sem dags. sé 17.01. 2003.  Í yfirlýsingunni sé fyrirhuguðum framkvæmdum lýst og þær taldar upp í 7 töluliðum.  Jafnframt hafi fyrirsvarsmaður stefnanda sett inn á yfirlýsinguna með penna það, sem hann hafi kallað grófa kostnaðaráætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda, sem hann hafi talið myndu nema kr. 1.630.000.

Sperra ehf. hafi keypt hluta jarðhæðar Bræðraborgarstígs 43, Reykjavík, í þeim tilgangi að setja þar upp tvær íbúðir, en Dynskógar ehf. hafi keypt hluta jarðhæðarinnar til að gera eina íbúð.

Af því, sem talið sé upp í fyrrgreindri yfirlýsingu, hafi stefnandi ekki sett upp eldhús, svo sem getið sé um í tl. 7 í yfirlýsingunni. 

Stefndi hafi þegar greitt stefnanda kr. 2.414.371 vegna þess verks, sem hér um ræði samkvæmt greiðsluyfirliti stefnanda eða verulega umfram það, sem áætlað hafi verið af stefnanda, að heildarverkið myndi kosta.  Auk þessa hafi stefnandi tekið út úr Húsasmiðjunni hf. vegna stefnda vörur fyrir alls kr. 433.175.  Samkvæmt greiðsluyfirliti, sem stefnandi hafi útbúið, komi fram, að stefndi eigi inni hjá stefnanda hinn 10.10. 2003 kr. 184.551. 

III

Málsástæður stefnanda

Í stefnu byggir stefnandi kröfu sína á eftirgreindum reikningum vegna vinnu við Bræðraborgarstíg 43, eignarhluta 0101.

 

Nr.

Útgáfudagur

Gjalddagi

Fjárhæð

195

30.11. 2003

10.12. 2003

192.666

199

15.12. 2003

25.12. 2003  

51.284

204

23.12. 2003

02.01. 2004 

69.963

 

Stefnandi kveður skuldina ekki hafa fengizt greidda, þrátt fyrir innheimtutilraunir.

Stefnandi vísar til meginreglu samninga- og kröfuréttarins um loforð og efndir fjárskuldbindinga.  Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 fram til 1/7 2001, en frá þeim degi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.  Krafan um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.  Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Við aðalmeðferð málsins var bókað eftir lögmanni stefnanda, að umstefndir reikningar væru byggðir á samþykktu tilboði á dskj. nr. 18, og væru allar málsástæður í greinargerð stefnda umstefndum reikningum í máli þessu óviðkomandi, þar sem þeir þættir verksins, sem þar sé fjallað um, séu greiddir.  Þá kvað hann málið nægilega skýrt fram sett og mótmælti öllum hugleiðingum um að því verði vísað frá dómi.

Málsástæður stefnda

Í greinargerð byggir stefndi sýknukröfu sína á því, að hann hafi þegar greitt stefnanda allt, sem honum beri að greiða stefnanda vegna framkvæmda við íbúð stefnda að Bræðraborgarstíg 43 í Reykjavík, og eigi stefnandi því engar kröfur á hendur stefnda.

Stefndi byggi á því, að aðilar hafi gert samning sín á milli um framkvæmdir stefnanda fyrir stefnda að Bræðraborgarstíg 43, og hafi í þeim samningi verið taldar upp þær framkvæmdir, sem stefnandi hafi tekið að sér að vinna fyrir stefnda og gerð gróf kostnaðaráætlun af stefnanda, um hvað hver verkliður myndi kosta og hvað heildarverð verksins myndi verða.  Samkvæmt þessu kostnaðarmati stefnanda, sbr. dskj. nr. 6, hafi áætlun stefnanda verið sú, að verkið myndi kosta alls kr. 1.630.000.  Hluta af því verki, sem stefnandi hafi tekið að sér að vinna, hafi hann ekki unnið, þ.e. að uppsetningu eldhúss, sbr. tl. 7 á dskj. nr. 6, þannig að ætla megi, að heildarverðið, miðað við kostnaðaráætlunina, að frádregnu því, sem stefnandi hafi ekki unnið, hafi numið tæpum kr. 1.500.000.

Ekkert ófyrirséð hafi komið upp við framkvæmd verksins, og því hefði kostnaðaráætlun átt að standast, a.m.k. með óverulegum frávikum, en þau frávik, sem hér ræði um, hafi stefnandi ekki fengizt til að skýra fyrir stefnda, nema að óverulegu leyti.

Stefnandi hafi ekki gert stefnda grein fyrir því fyrir fram, að verkið yrði dýrara en hann hefði áætlað og hafi ekki leitað eftir samþykki stefnda eða áliti á því, að frávik yrði frá kostnaðaráætlun.  Sú fjárhæð, sem stefnandi krefji stefnda um í máli þessu, sé ósanngjörn og langt umfram það, sem stefnandi hefði mátt ætlað, miðað við það, sem aðilum hafi farið á milli.

Stefndi telji, að stefnandi hafi fært kostnaðarliði vegna eigin íbúða að Bræðra­borgar­stíg 43, Reykjavík, á stefnda, en stefnandi hafi ekki farið vel út úr eigin framkvæmdum við eigin íbúðir.  Stefndi hafi á sínum tíma ákveðið að gera ekkert frekar í málinu, þar til umrædd málsókn hafi komið fram.

Stefnandi hafi látið stefnda í té verðáætlun, sbr. dskj. nr. 6, og megi verðið þegar af þeim ástæðum ekki fara verulega fram úr þeirri áætlun.  Miðað við það, sem stefndi hafi þegar greitt stefnanda, sé verðið komið verulega fram úr þeirri áætlun, sem stefnandi hafi gefið stefnda og beri stefnda þegar af þeirri ástæðu engin skylda til að greiða frekar en hann hafi gert.  Til viðbótar komi, að stefnandi hafi ekki gert grein fyrir því, í hverju svo mikill verðmunur geti verið fólginn.

Stefnandi hafi ekki gert fyrirvara um verð á þjónustu sinni að öðru leyti en því, að talað sé um grófa áætlun. 

Stefndi telji, að hann eigi inni hjá stefnanda, sbr. yfirlit hans sjálfs, að minnsta kosti kr. 184.551.

Stefndi telji, að kröfugerð stefnanda sé svo langt frá öllum eðlilegum viðmiðunum, sem aðilar hafi samið um, að hann telji ekki á þessu stigi ástæðu til að fara fram á mat á verki stefnanda fyrir stefnda.

Stefndi vísar til almennra reglna kröfuréttarins og samningaréttarins og til l. nr. 42/2000 um lausafjárkaup, einkum 7. gr. og VII. kafla laganna.  Þá vísar stefndi til l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum varðandi kröfu um málskostnað.

Við aðalmeðferð kvað lögmaður stefnda málatilbúnaði stefnanda svo háttað, að vísa beri málinu frá dómi ex officio, sbr. e-lið 80. gr. eml.  Hann kvað málið í öðrum farvegi í dag, en þegar það var höfðað.  Viðurkennt hafi verið, að verkið sé heildarverk, þar sem verkþættir, sem fram koma á dskj. nr. 18, séu allir innifaldið í verkþáttum á dskj. nr. 6.  Þá virðist sem krafa stefnanda sé byggð á viðskiptayfirliti á dskj. nr. 7, en ekki á tilboði á dskj. nr. 18.  Hann kvað málið hafa verið svo vanreifað í upphafi, að stefndi hefði ekki getað tekið afstöðu til kröfunnar í greinargerð, eins og málið liggi fyrir nú.  Þá kvað hann engin efniskaup skráð á stefnda eða gögn lögð fram í málinu þeim til stuðnings.

IV

Forsendur og niðurstaða

Fyrirsvarsmaður stefnanda, Magnús Orri Einarsson, gaf skýrslu fyrir dómi, sem og Ólafur Geirsson, viðskiptafræðingur og aðaleigandi og stjórnarformaður stefnda.  Auk þeirra gaf skýrslu vitnið Elvar Snær Kristjánsson.

Svo sem fyrr er rakið er engin málavaxtalýsing í stefnu en eingöngu vísað til framlagðra reikninga vegna vinnu við Bræðraborgarstíg 43, eignarhluta 0101.  Engin grein er þar gerð fyrir tengslum stefnda við það húsnæði eða þá vinnu, sem unnin var.  Samkvæmt þeim reikningum, sem krafan byggir á, var hins vegar bæði um að ræða efniskaup og vinnu.  Ekki var gerð athugasemd við þennan málatilbúnað af hálfu stefnda í greinargerð, og var verksamband aðila viðurkennt, en tekið til varna á þeirri forsendu, að um væri að ræða kröfu, sem byggði á verkáætlun á dskj. nr. 6.  Var jafnframt bókað eftir lögmanni stefnda undir rekstri málsins, að hann hefði skilið kröfugerðina svo, að um væri að ræða kröfu vegna efnis og vinnu.  Við aðalmeðferð málsins kom í ljós, að stefnandi telur kröfur vegna verkþátta á dskj. nr. 6 uppgerða milli aðila, og kvaðst hann byggja kröfur sínar á verkum, sem talin eru upp í tilboði á dskj. nr. 18, sem samþykkt var af fyrirsvarsmanni stefnda, en allir þeir verkþættir, sem þar eru tilgreindir, eru innifaldir í verkáætlun þeirri, sem liggur fyrir á dskj. nr. 6.  Eins og málið var lagt fyrir af hálfu stefnanda við aðalmeðferð, er allur grundvöllur þess svo fjarri málatilbúnaði í stefnu, að ekki var við því að búast, að stefndi mætti sjá þá þróun fyrir eða taka til varna á þeim grundvelli, sem nú er byggt á.  Brýtur allur málatilbúnaður stefnanda svo verulega í bága við ákvæði 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað, að ekki er hjá því  komizt að vísa því frá dómi ex officio.

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 100.000.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málinu er vísað frá dómi ex officio.

Stefnandi, Sperra ehf., greiði stefnda, Dynskógum ehf., kr. 100.000 í málskostnað.