Hæstiréttur íslands
Mál nr. 418/2012
Lykilorð
- Aðild
- Einkahlutafélag
- Samruni
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2013. |
|
Nr. 418/2012.
|
Mango Tree B.V. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Eiríki Óskarssyni Óskari Erni Eiríkssyni Signýju Eiríksdóttur og Sigyn Eiríksdóttur (Halldór Þ. Birgisson hrl.) |
Aðild. Einkahlutafélag. Samruni. Aðfinnslur.
Fallist var á kröfu E, Ó, S og SE að forgangshlutir í L ehf. hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt M ehf. undir nafni hins síðarnefnda, m.a. með vísan til beinna fyrirmæla í samþykktum félagsins sem í gildi voru þegar samruninn átti sér stað og þess að ekki hefði verið leitast við að breyta ákvæðum samþykktanna fyrir samrunann. Þá var einnig fellt úr gildi tiltekið hluthafasamkomulag milli MT B.V. annars vegar og E, Ó, S og SE hins vegar. Í dómi Hæstaréttar var átalið hversu mjög meðferð málsins hefði dregist í héraði frá því málið var þingfest og þar til því var úthlutað til þess dómara, sem á endanum kvað upp dóm í því.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júní 2012. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefndu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þau þess að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. verði dæmt ógilt ,,samhliða því sem hluthafasamkomulag dags. 30.11.2007 milli Mango Tree B.V. (áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A., SICAR) verði dæmt ógilt“ og að áfrýjanda verði gert að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.
I
Eftir að nokkrum hluta krafna stefndu hafði verið vísað frá héraðsdómi með úrskurði 13. ágúst 2010 gerðu þau þær kröfur aðallega að viðurkennt yrði að forgangshlutir í Mogul Holding ehf. hafi breyst í almenna hluti við samruna Leikhúsmógúlsins ehf. við dótturfélag sitt undir nafni hins síðarnefnda og að hluthafasamkomulag 30. nóvember 2007 milli forvera áfrýjanda annars vegar og stefndu hins vegar yrði dæmt ógilt. Til vara gerðu þau þá kröfu að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. yrði dæmt ógilt. Í dómi héraðsdóms var fallist á aðalkröfu stefndu. Kom því varakrafa þeirra ekki til úrlausnar þar fyrir dómi. Eins og áður greinir krefjast stefndu þess fyrir Hæstarétti aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur en til vara að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. verði dæmt ógilt samhliða því sem hluthafasamkomulag 30. nóvember 2007 milli forvera áfrýjanda og stefndu verði dæmt ógilt. Í þessu felst að ef aðalkröfu yrði hafnað ætti engu að síður að taka hluta hennar aftur til úrlausnar við umfjöllun um varakröfu. Þetta er þversögn í málatilbúnaði stefndu, sem ekki getur komið til álita ef til úrlausnar varakröfunnar kemur. Verður því litið svo á að varakrafa stefndu lúti eingöngu að því að 2. mgr. 21. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. verði ógilt.
II
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram stofnuðu stefndu ásamt einum öðrum, sem síðar seldi hlut sinn tveimur mönnum, einkahlutafélagið Leikhúsmógúlinn á árinu 2000 í þeim tilgangi að setja upp sýningar á leikritinu Hellisbúanum í Þýskalandi. Hafði áður verið samið við höfund verksins um sýningarréttinn og greiðslur fyrir hann. Þegar til stóð að semja við höfundinn um sýningar á verkinu um allan heim á árinu 2006 var ákveðið að leita að fjárfesti sem væri tilbúinn til þess að kaupa hlut í einkahlutafélaginu og leggja fram fé til að taka þátt í að auka hlutaféð. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir því hverjir fjárfestu í einkahlutafélaginu og hvernig var að öðru leyti aflað fjár til þeirra verkefna sem til stóð að ráðast í. Nægði það fé til að greiða höfundi verksins 16.500.000 bandaríkjadali fyrir sýningarréttinn að leikverkinu. Af þessu fé skyldu nýir eigendur, sem áfrýjandi leiðir rétt sinn frá, leggja fram 7.200.000 bandaríkjadali, en fyrri eigendur 3.000.000 í sömu mynt.
Þegar samið var um þátttöku nýrra eigenda hluta í félaginu og fjárframlög var gert hluthafasamkomulag 21. ágúst 2006. Tilgangur þess og samninga sem því tengdust var að tryggja forgangsstöðu þeirra sem um þetta leyti lögðu fram fjármuni til félagsins. Samkvæmt því var heildarnafnverð hluta í félaginu 4.578.750 krónur, þar af voru svonefndir almennir hlutir að nafnverði 3.330.000 krónur en forgangshlutir að nafnverði 1.248.750 krónur. Í hluthafasamkomulaginu var jafnframt samið um ýmis önnur atriði svo sem forkaupsrétt og takmarkanir á framsali hluta. Sama dag var gerður samningur um ,,áskrift að forgangshlutum með breytirétti“ í félaginu. Í 3. grein þess samkomulags voru ákvæði um réttindi þeirra sem áttu forgangshluti í félaginu umfram eigendur almennra hluta. Skyldu þeir meðal annars eiga sérstakan rétt til arðs umfram eigendur almennra hluta, sérstakan rétt til greiðslna við slit félagsins, rétt til þess að krefjast innlausnar á hlutum sínum o.fl. Í grein 3.4 í samkomulaginu sagði meðal annars: ,,Sjálfkrafa umbreyting: Forgangshlutir skulu breytast sjálfkrafa í almenna hluti á því breytiverði sem þá gildir, ... (iii) þegar samningur tekur gildi um samruna, yfirtöku eða sölu á ráðandi hlut í félaginu eða nær öllum eignum þess, þ.á m. hugverkaréttindum félagsins til grandlauss þriðja aðila á verði á hlut sem nemur a.m.k. 3,5 földu upphafskaupverði hlutar (að teknu tilliti til útgáfu jöfnunarhluta, arðgreiðslna umfram 8%, sbr. skilgreiningu í gr. 3.1 að ofan, og atvika af þeim toga).“
Samþykktum félagsins var breytt 21. ágúst 2006 til samræmis við þá samninga sem gerðir höfðu verið. Þar var tilgreind skipting hluta í almenna hluti og forgangshluti eins og áður greinir, sérstök réttindi forgangshluta og aðrar reglur um þá. Í 4. grein samþykktanna var ákvæði um hvaða atvik yllu því að forgangshlutir breyttust í almenna hluti og var það sama efnis og áður hefur verið lýst.
Í 13. grein samþykktanna var áskilið að samþykki allra hluta í félaginu þyrfti til tiltekinna ákvarðana og 51% forgangshluta til ýmissa annarra ákvarðana þar á meðal tiltekinna ákvarðana sem lutu að stöðu forgangshluta í félaginu.
Í 22. grein samþykktanna sagði að þeim mætti breyta á lögmætum aðal- eða aukafundi þannig að breytingin væri samþykkt með 2/3 hlutum samanlagt greiddra atkvæða forgangshluta og almennra hluta, svo og með samþykki hluthafa sem réðu yfir að minnsta kosti 2/3 þeirra hluta sem farið væri með atkvæði fyrir á fundinum, enda væri annað atkvæðamagn ekki áskilið í lögum. Auk þess væri það skilyrði fyrir því að breytingar á samþykktum teldust gildar að þær hefðu verið samþykktar með 51% heildaratkvæða forgangshluta hið minnsta. Samþykktum var breytt á hluthafafundi 17. apríl 2008 án þess að þær breytingar hafi sérstaka þýðingu fyrir álitaefni málsins.
Annað hluthafasamkomulag milli stefndu og forvera áfrýjanda var gert 30. nóvember 2007. Með því var samið um hverjir skyldu vera stjórnarmenn í félaginu, en af þeim skyldu stefndu velja einn, forverar áfrýjanda einn og stjórnarformaður skyldi vera nafngreindur einstaklingur.
Þá var undirritaður 23. júlí 2008 samningur allra hluthafa í félaginu sem nefndur var ,,Samþykki hluthafa og eftirgjöf“. Þar var samið um að forverar áfrýjanda mættu framselja hluti sína í félaginu til hans, án þess að aðrir hluthafar neyttu forkaupsréttar eða annarra réttinda, sem þeir kynnu ella að öðlast við framsalið. Áfrýjandi undirritaði samninginn og lýsti því yfir að hann væri bundinn af þeim samningum, sem áður höfðu verið gerðir á vettvangi félagsins og lýst hefur verið.
Í skrá um eigendur hluta í félaginu sem staðfest var af stjórn 9. september 2008 var skipting hluta í almenna hluti og forgangshluti eins og áður er fram komið. Þar kom einnig fram að auk stefndu væru tveir menn eigendur hluta í félaginu og ætti annar þeirra, Guðmundur Magnason, einungis almenna hluti í því. Áfrýjandi var aðeins skráður fyrir forgangshlutum, en allir aðrir áttu hluti í báðum hlutaflokkum.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi samþykktu stjórnir einkahlutafélaganna Leikhúsmógúlsins og Mogul Holding, en sömu menn sátu í stjórnum beggja félaganna, að sameina þau þannig að hið síðarnefnda rynni inn í hið fyrrnefnda og að samþykktir þess giltu eftir samrunann, en félagið skyldi þó bera nafn hins síðarnefnda. Sameiningin skyldi miðast við 30. júní 2008 og gögn um sjálfan samrunann, þar með talið samþykktir félagsins, voru móttekin hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 13. mars 2009. Samkvæmt hlutaskrá í félaginu frá mars 2009 voru eigendur hluta hinir sömu og fyrir samrunann og skipting eignarhluta hin sama.
Lögmaður stefndu ritaði bréf fyrir þeirra hönd 3. apríl 2009 þar sem tilkynnt var að í kjölfar sameiningarinnar hefðu forgangshlutir í félaginu sjálfkrafa breyst í almenna hluti ,,sbr. lið (iii) í 5. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins.“ Var þess krafist að hluthafafundur yrði haldinn og þar tekinn fyrir dagskrárliðurinn; kjör stjórnar. Af hálfu áfrýjanda var því mótmælt að samruni móðurfélagsins Leikhúsmógúlsins ehf. og dótturfélagsins Mogul Holding ehf. hefði þau áhrif á stöðu forgangshluta sem stefndu héldu fram.
Stefndu höfðuðu málið gegn áfrýjanda, félaginu sjálfu og Bergsveini Jónssyni í júní 2009. Hluta krafna þeirra var, eins og fyrr greinir, vísað frá héraðsdómi með úrskurði 13. ágúst 2010, sem ekki er til endurskoðunar fyrir Hæstarétti nema að því leyti, að áfrýjandi krefst frávísunar málsins í heild frá héraðsdómi.
III
Kröfu sína um frávísun málsins reisir áfrýjandi í fyrsta lagi á því að málið sé höfðað til breytinga á samþykktum Mogul Holding ehf. án þess að öllum eigendum hluta í félaginu sé stefnt. Auk málsaðila sé Guðmundur Magnason hluthafi í félaginu og því hafi hann þurft að eiga aðild að málinu, enda hafi dómur áhrif á réttindi og skyldur allra hluthafa. Verði því að vísa málinu frá héraðsdómi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í öðru lagi er frávísunarkrafa áfrýjanda á því reist, að kröfur stefndu séu ódómtækar þar sem það eigi ekki undir dómstóla að ákvarða hvort efni samþykkta Mogul Holding ehf. skuli breytast eður ei. Það sé aðeins í valdi hluthafafundar í félaginu að taka ákvörðun um hvort forgangshlutir skuli breytast í almenna hluti. Samruninn hafi verið samþykktur á þeirri forsendu að samþykktir Leikhúsmógúlsins ehf. skyldu gilda óbreyttar í hinu sameinaða félagi. Hafi stjórn yfirtökufélagsins verið óheimilt að taka ákvörðun um samrunann nema því aðeins að samþykktir þess giltu áfram óbreyttar, sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þá bendir áfrýjandi á að þær samþykktir, sem stjórn hins sameinaða félags sendi til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, hafi verið óbreyttar að öðru leyti en því er varðar nafn félagsins. Í þriðja lagi kveður áfrýjandi að málssókn stefndu sé ekki beint að því að fá ógilda ákvörðun hluthafafundar eða stjórnar félagsins eins og nauðsynlegt hefði verið ef stefndu vildu ekki una slíkum ákvörðunum. Í fjórða lagi telur áfrýjandi viðurkenningarkröfuna ódómtæka af þeirri ástæðu að engin grein sé gerð fyrir því með hvaða hætti forgagnshlutir skuli breytast í almenna hluti, hvert skiptihlutfall skuli vera, frá hvaða tíma breytingin skuli eiga sér stað og hvernig skuli fara með rétt forgangshluta til uppsafnaðrar en ógreiddrar arðgreiðslu og ýmis önnur álitaefni. Viðurkenningarkrafa á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 leiði ekki til ,,réttarskapandi niðurstöðu fyrir stefndu og [sé] því í raun lögspurning“ sem eigi að leiða til frávísunar hennar frá dómi.
Ekki er um það deilt að Guðmundur Magnason á einungis almenna hluti í Mogul Holding ehf. Verði fallist á kröfu stefndu, verður sú breyting á, að þeir sem eiga forgangshluti í félaginu verða eigendur almennra hluta. Um eftirfarandi uppgjör í kjölfar slíks viðurkenningardóms verður ekki dæmt í þessu máli. Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að ef fleiri en einn eigi óskipt réttindi eða beri óskipta skyldu, eigi þeir óskipta aðild að dómsmáli. Vegna stöðu Guðmundar Magnasonar sem eiganda almennra hluta eru réttindi hans og skyldur ekki óskiptar með þeim sem eiga forgangshluti í félaginu á þann hátt að nauðsynlegt hafi verið að stefna honum í málinu. Ekki verður fallist á að dómstólar séu ekki bærir til að dæma um ágreiningsefni máls þessa, sbr. meginreglu 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Þá er hafnað röksemdum um að stefndu geti ekki á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laganna leitað viðurkenningar dómstóla á því að inntak réttinda þeirra sem hluthafa í Mogul Holding ehf. sé með tilteknum hætti, enda er um það ágreiningur með aðilum og lögvarðir hagsmunir þeirra af úrlausn hans ótvíræðir. Sem fyrr greinir verður í máli þessu dæmt um viðurkenningarkröfu stefndu og eftir atvikum kröfu um ógildingu annað hvort hluthafasamkomulags 30. nóvember 2007 eða tiltekins ákvæðis í samþykktum Mogul Holding ehf. Á hinn bóginn verður ekki dæmt um hvernig greitt verður úr stöðu aðila, ef á viðurkenningarkröfu stefndu verður fallist. Eru því ekki þeir annmarkar á málatilbúnaði stefndu að kröfur þeirra séu ekki dómtækar.
Samkvæmt framansögðu verður hafnað kröfu áfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi.
IV
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að réttaráhrif samruna einkahlutafélaganna Leikhúsmógúlsins og Mogul Holding hafi meðal annars verið þau að forgangshlutir hafi sjálfkrafa breyst í almenna hluti. Varð þessi breyting vegna beinna fyrirmæla í 5. málsgrein 4. greinar samþykkta félagsins sem í gildi voru þegar samruninn átti sér stað. Getur viðhorf einstakra stjórnarmanna, sem þó er ekki upplýst um, ekki haggað þessari niðurstöðu, sem leiðir af ótvíræðu orðalagi samþykktanna. Þá er fallist á með héraðsdómi að atvik sem síðar urðu og þar eru rakin hafi ekki leitt til þess að sjálfkrafa breyting forgangshluta í almenna hluti ætti að ganga til baka. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verður staðfest. Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Héraðsdómari sá, er málið dæmdi í héraði, tók við meðferð þess 25. nóvember 2011. Engar aðfinnslur eru við meðferð málsins frá þeim degi.
Málið var þingfest í héraði 30. júní 2009 og skiluðu stefndu í héraði greinargerðum 6. október sama ár. Málið var fyrst tekið fyrir, eftir úthlutun þess til dómara, 14. desember 2009 og flutt um frávísunarkröfu stefndu þar fyrir dómi 28. janúar 2010. Málið var endurflutt um þennan þátt þess fimm mánuðum síðar, 29. júní 2010. Úrskurður var fyrst kveðinn upp 13. ágúst sama ár, eftir að gætt hafði verið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Að liðnum fimm mánuðum, 18. janúar 2011, var málið næst tekið fyrir og þá veittur frestur til 3. febrúar sama ár til þess að afla þýðingar á einu dómskjali. Málið var ekki tekið fyrir þann dag heldur ellefu mánuðum síðar, 6. desember 2011, eftir að því hafði skömmu áður verið úthlutað til annars dómara. Engar haldbærar skýringar eru á þeim ítrekaða drætti sem varð á meðferð málsins þar til því var úthlutað á ný til þess dómara, er á endanum kvað upp dóm í því. Verður að átelja þann mikla drátt sem varð á málsmeðferðinni frá þingfestingu þess til 25. nóvember 2011.
Dómsorð:
Viðurkennt er að forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. kt. 450100-3660, hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt, Mogul Holding ehf., kt. 600106-2600, 30. júní 2008, undir nafni hins síðarnefnda.
Fellt er úr gildi hluthafasamkomulag 30. nóvember 2007, milli áfrýjanda Mango Tree B.V., áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A., SICAR, annars vegar og stefndu, Eiríks Óskarssonar, Óskars Arnar Eiríkssonar, Signýjar Eiríksdóttur og Sigynjar Eiríksdóttur, hins vegar.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefndu hverju fyrir sig málskostnað fyrir Hæstarétti, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. apríl sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Signýju Eiríksdóttur, Arnarhrauni 44, Hafnarfirði, Óskari Eiríkssyni, Sunnuvegi 1, Hafnarfirði, Sigyn Eiríksdóttur, Grenimel 1, Reykjavík og Eiríki Óskarssyni, Pósthússtræti 13, Reykjavík gegn Aufisco B.V., skr. 27128025 0000, Laan Copes van Cattenburch 52, 2585GB 's-Gravenhage, Hollandi, fyrir hönd Mango Tree B.V., skr. 27319229 0000, Laan Copes van Cattenburch 52, 2585GB´s-Gravenhage, Hollandi, Bergsveini Jónssyni, kt. 310567-3969, Vesturvangi 46, Hafnarfirði og Ástu Þórarinsdóttur, kt. 010270-3169, Hjallabrekku 10, Kópavogi, fyrir hönd Mogul Holding ehf., kt. 450100-3660, Kringlunni 70, Reykjavík, með stefnu birtri 25. júní 2009.
Stefnendur gera aðallega þær dómkröfur (I) að viðurkennt verði að forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., kt. 4501100-3660 (áður Leikhúsmógúllinn ehf.), hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt Mogul Holding ehf., kt. 600106-2600, (II) að hluthafasamkomulag, dagsett 30. nóvember 2007, milli Mango Tree B.V. (áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A, SICAR), annars vegar og stefnenda hins vegar, verði dæmt ógilt og (III) að lagt verði fyrir stefnda, Mogul Holding ehf., að viðlögðum dagsektum, að gera þær breytingar á samþykktum félagsins sem nauðsynlegar eru til samræmis við breytingu forgangshluta í almenna hluti.
Til vara (I) að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf., verði dæmt ógilt, (II) að lögð verði sú skylda á stjórn stefnda, Mogul Holding ehf., að viðlögðum dagsektum, að boða til hluthafafundar þar sem kosið verði um nýjan stjórnarformann í samræmi við reglur laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.
Til þrautavara (I) að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf., verði breytt og (a) frestur félagsins gagnvart forgangshluthafa sem krefst greiðslu á sínum hluta matsverðs verði lengdur í allt að 365 daga, (b) að félaginu sé einungis skylt að greiða forgangshluthafa, sem krefst þess, hluta hans í matsverðinu að fengnu skriflegu mati endurskoðanda félagsins sem sýni að greiðslan muni ekki leiða til ógjaldfærni félagsins, þ. á m. hvorki til greiðslustöðvunar né gjaldþrots þess næstu 12 mánuði eftir að greiðslu skal inna af hendi, og (c) að óháðu fjármálafyrirtæki verði falið að leggja mat á verðmæti félagsins.
Þá er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar úr hendi stefndu, sameiginlega (in solidum), samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu stefnda, Mango Tree B.V., er þess aðallega krafist að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og málskostnaður greiddur úr hendi stefnenda.
Af hálfu stefnda, Mogul Holding ehf., er aðallega gerð sú krafa að málinu verði vísað frá dómi en til vara að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnenda og málskostnaður greiddur úr hendi stefnenda.
Stefndi, Bergsveinn Jónsson, hefur ekki látið málið til sín taka.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettum 13. ágúst 2010, var þriðju aðalkröfu, annarri varakröfu og þrautavarakröfu stefnanda vísað frá dómi en kröfu um frávísun málsins að öðru leyti hafnað.
Við fyrirtöku málsins þann 6. desember 2011 var því lýst yfir af hálfu stefnda, Mogul Holding ehf., að hann dragi til baka andmæli sín gegn dómkröfum stefnenda hvað stefnda Mogul Holding ehf. varðar.
Með úrskurði héraðsdóms, dagsettum 22. desember 2011, var hafnað kröfu stefnenda um að málið yrði fellt niður með vísan til a-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 þar sem stefndi, Mango Tree B.V., hafði fallist á fyrstu aðalkröfu stefnenda.
Málavextir
Helstu málavextir eru þeir að árið 2000 stofnuðu stefnendur ásamt Jóni Tryggvasyni félagið Leikhúsmógúlinn ehf. Upphaflega var tilgangur félagsins að setja upp sýningar á leikritinu Hellisbúanum í Þýskalandi. Höfðu stofnendur félagsins náð samningi við höfund leikritsins, Rob Becker, sem fól í sér sérstakt leyfi til handa félaginu til að setja upp leikritið í Þýskalandi, eftir atvikum í samstarfi við aðra aðila. Greiddi félagið fyrir leyfið með svonefndum „nytjaleyfisþóknunum“ til höfundar. Starfsemi félagsins gekk vel frá byrjun og innan skamms náði félagið nýjum samningum við höfund leikritsins um uppsetningar þess í fleiri Evrópulöndum. Á árunum 2004 2005 seldi Jón Tryggvason Bergsveini Jónssyni og Guðmundi Magnasyni hlut sinn í félaginu, en sá síðarnefndi á nú einungis almenna hluti í félaginu eftir að hafa selt forgangshluti sína til eignarhaldsfélagsins Mango Tree B.V.
Í byrjun árs 2006 kom í ljós að höfundur leikritsins var tilbúinn að selja félaginu höfundarrétt að leikritinu um allan heim gegn tilteknu kaupverði sem nam 16,5 milljónum Bandaríkjadala. Ákváðu þáverandi hluthafar að leita að fjárfesti sem væri reiðubúinn til að gerast hluthafi í félaginu og taka þátt í verulegri aukningu hlutafjár í því. Var þeim sérstaklega bent á fjárfestingarsjóðinn Brú II Venture Capital Fund S.C.A, SICAR sem áhugaverðan samstarfsaðila en félagið Thule Investments ehf. annaðist rekstur og umsýslu sjóðsins. Engu að síður varð úr að félagið Brú II ehf. fjárfesti upphaflega í félaginu en hlutur þess var skömmu síðar framseldur Brú II Venture Capital Fund S.C.A, SICAR, hér eftir nefndur Brú II, sem er skráð í Lúxemborg. Af hálfu stefnenda hafði sú staðreynd úrslitaáhrif um að ganga til samstarfs við Brú II að eigendur sjóðsins voru meðal stærstu lífeyrissjóða landsins, s.s. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðurinn Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, auk Straums fjárfestingarbanka og fleiri aðila.
Við frágang samningsgerðar við Brú II hinn 21. ágúst 2006 var undirritaður sérstakur áskriftarsamningur um forgangshluti í félaginu með breytirétti (e. Subscription Agreement for Convertible Preferred Shares in the firm Theater Mogul ehf.), hluthafasamkomulag (Shareholders Agreement) og nýjar samþykktir, sem fólu í sér að hlutum í félaginu var skipt í forgangshluti og almenna hluti, og margvíslegar aðrar breytingar gerðar sem gerðu stöðu forgangshluthafa í félaginu mun sterkari en almennra hluthafa, þ. á m. um rétt þeirra, ef lög heimila, til að krefjast innlausnar hjá félaginu á forgangshlut sínum, sbr. 21. gr. samþykktanna, að liðnum þremur árum frá dagsetningu þeirra.
Nánar tiltekið voru kaup félagsins á höfundarrétti að Hellisbúanum fjármögnuð með eftirfarandi hætti:
Brú II ehf. US$ 7,2 milljónir (US$ 6,0 milljónir + US$ 1,2 miljónir)
Frá eldri hluthöfumUS$ 3,0 milljónir
Lán frá LandsbankanumUS$ 1,5 milljónir
Frá félaginu sjálfuUS$ 0,3 milljónir
Lán seljanda til félagsinsUS$ 4,5 milljónir
Eftir þessar breytingar nam heildarhlutafé félagsins samtals 4.745.250 íslenskum krónum. Þar af námu forgangshlutir 1.415.250 kr. en almennir hlutir 3.330.000 kr.
Í kjölfar aðkomu Brúar II voru umsvif félagsins aukin og var opnuð skrifstofa í New York sem var ætlað að koma leikritinu Hellisbúanum á framfæri í Bandaríkjunum.
Þann 30. nóvember 2007 gerðu Brú II annars vegar og stefnendur „Fjölskyldan“ hins vegar með sér hluthafasamkomulag. Samkvæmt hluthafasamkomulagi þessu skuldbundu aðilar þess sig til að standa saman að kjöri stefnandans, Signýjar Eiríksdóttur, til setu í stjórn Leikhúsmógúlsins ehf. til næstu þriggja ára fyrir hönd almennra hluthafa. Jafnframt var ákveðið að í stjórn félagsins sætu Sigurður I. Björnsson, fyrir hönd Brúar II, og Ásta Þórarinsdóttir sem skyldi vera stjórnarformaður.
Þann 28. júlí 2008 samþykktu allir hluthafar Leikhúsmógúlsins ehf. framsal Brúar II og Lime á hlutum í félaginu til stefnda, Mango Tree B.V. Tókst stefndi, Mango Tree B.V., á hendur skuldbindingar Brúar II við stefnendur samkvæmt hluthafasamkomulaginu.
Um áramótin 2008/2009 var ákveðið að Leikhúsmógúllinn ehf., sem var hið upphaflega félag, sameinaðist dótturfélagi sínu, Mogul Holding ehf., en nýtt nafn hins sameinaða félags var Mogul Holding ehf. Miðast sameiningin við 30. júní 2008. Í framhaldi af sameiningunni eða þann 3. apríl 2009, sendi lögmaður stefnenda lögmanni stefnda Mango Tree B.V. og Brúar II bréf þar sem var tilkynnt að stefnendur teldu að forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., hefðu við sameininguna breyst í almenna hluti, sbr. lið iii í 5. mgr. 4. gr. framangreindra samþykkta félagsins, en þar komi efnislega fram að ef félagið sameinist öðru félagi breytist forgangshlutir sjálfkrafa í almenna hluti. Í bréfinu var jafnframt tilkynnt að forsendur væru brostnar fyrir hluthafasamkomulaginu frá 30. nóvember 2007 auk þess sem 1. gr. þess samkomulags yrði ekki túlkuð með þeim hætti sem forsvarsmenn Thule Investments og fulltrúar stefnda, Mango Tree B.V., gera. Á sama tíma sendu stefnendur stjórn stefnda, Mogul Holding ehf., bréf þar sem þess var krafist að boðað yrði til hluthafafundar þar sem kosin yrði ný stjórn fyrir félagið.
Lögmaður stefnda Mango Tree B.V., svaraði framangreindu erindi lögmanns stefnenda með bréfi, dagsettu 7. apríl 2009, þar sem því var mótmælt að framangreint ákvæði liðar iii. í 5. mgr. 4. gr. samþykkta Leikhúsmógúlsins ehf., hefði orðið virkt við samrunann. Þá var því jafnframt mótmælt að forsendur væru brostnar fyrir hluthafasamkomulaginu. Auk þessa var lýst yfir þeim skilningi Brúar II að 1. gr. hluthafasamkomulagsins fæli það í sér að allir þrír stjórnarmenn félagsins hefðu þar með verið kjörnir til næstu þriggja ára, en ekki einungis Signý Eiríksdóttir eins og stefnendur hafa haldið fram.
Málsástæður og lagarök stefnanda
I. Krafa um að viðurkennt verði að forgangshlutir hafi breyst í almenna hluti.
Í stefnu kemur fram að stefnandi telur að lögmaður stefnda, Mango Tree B.V., hafi viljað túlka ákvæði iii. liðar 5. mgr. 4. gr. samþykktanna svo að með sameiningu í ákvæðinu hafi ekki verið átt við þau tilvik þegar dótturfélag sé sameinað móðurfélagi eða öfugt heldur einungis samruna þar sem nýr þriðji aðili kæmi að félaginu. Þessu til stuðnings, sbr. bréf lögmanns stefnda, Mango Tree B.V., til lögmanns stefnenda, dagsett. 7. apríl 2009, hafi verið vísað til 3. mgr. 102. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 en ákvæðið sé svohljóðandi: „Eigi samrunafélögin hluti í yfirteknu félagi er ekki unnt að skipta þeim í hluti í yfirtökufélaginu.“
Í framangreindu bréfi sé ekki nánar skýrt hvers vegna stefndi Mango Tree B.V., telji að lagaákvæðið styðji þá túlkun er hann hafi haldið fram og telja stefnendur það ekki hafa nein áhrif.
Í framangreindu ákvæði iii. liðar 5. mgr. 4. gr. samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf., kemur skýrt fram að forgangshlutir skuli sjálfkrafa breytast í almenna hluti ef félagið sameinast öðru félagi eða er yfirtekið af öðru félagi. Ljóst sé að hér sé vísað til samruna í skilningi laga nr. 138/1994 en skilgreiningu á samruna sé að finna í 94. gr. laganna, en þar segi: „Ákvæði þessa kafla um samruna gilda þegar einkahlutafélagi er slitið án skuldaskila með þeim hætti að félagið er algerlega sameinað öðru einkahlutafélagi með yfirtöku eigna og skulda (samruni með yfirtöku) og þegar tvö eða fleiri einkahlutafélög renna saman í nýtt einkahlutafélag (samruni með stofnun nýs félags).“
Af þessu megi sjá að ekki sé gerð nein undantekning í skilgreiningunni á samruna og þar með gildissviði ákvæða einkahlutafélagalaga um samruna hvað varðar sameiningu móður- og dótturfélags eða yfirtöku annars þeirra á hinu. Samruni með þessum hætti hafi því sömu réttaráhrif að lögum og samruni þar sem nýr þriðji aðili komi inn. Þessu til stuðnings sé jafnframt vísað til 1. tl. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 138/1994 en ákvæðið sé svohljóðandi: „Ef einkahlutafélagi er slitið án skuldaskila þannig að það sé algerlega sameinað öðru einkahlutafélagi er á alla hluti í yfirtekna félaginu getur stjórn í yfirtekna félaginu tekið ákvörðun um samruna.“
Ljóst sé með vísan til ákvæðisins að gert sé ráð fyrir því í lögunum að samruni milli móður- og dótturfélags sé jafngildur annars konar samruna. Framangreint ákvæði iii liðar 5. mgr. 4. gr. samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf., hafi því orðið virkt við samruna félaganna. Í framangreindu bréfi lögmanns stefnda sé það gefið í skyn að sameiginlegur skilningur málsaðila við gerð áðurnefndra samþykkta Mogul Holding ehf. hafi verið sá að ákvæði iii. liðar 5. mgr. 4. gr. ætti einungis við þegar um samruna við þriðja aðila væri að ræða. Sé þessu stranglega mótmælt af hálfu stefnenda og skorað á stefnda, Mango Tree B.V., að leggja fram sönnunargögn þessari fullyrðingu til stuðnings.
Þá sé í framangreindu bréfi lögmanns stefnda, Mango Tree B.V., gefið í skyn að einn stefnenda, Signý Eiríksdóttir, hafi með því að koma að gerð hlutaskrár fyrir hið sameinaða félag, stefnda, Mogul Holding ehf., með einhverjum hætti viðurkennt að ákvæði iii. liðar 5. mgr. 4. gr. hafi ekki orðið virkt við samrunann eða þá að hún hafi með þessu afsalað sér rétti til að bera fyrir sig ákvæðið. Þessu sé mótmælt af hálfu stefnenda. Ljóst sé að Signý hafi einungis verið að uppfylla skyldur sínar sem stjórnarmaður hins sameinaða félags. Við gerð hlutaskrár sé einungis farið eftir þeim upplýsingum sem fyrir liggja, formlega séð, m.a. um að stefndi, Mango Tree B.V., hafi yfir forgangshlutum að ráða. Þangað til að leyst hafi verið úr deilu aðila um hvort ákvæði iii. liðar 5. mgr. 4. gr. hafi orðið virkt eða ekki með umræddum samruna sé ljóst að líta verði svo á að forgangshlutir séu formlega til staðar, enda séu þeir enn skráðir sem slíkir. Stefnendur telja hins vegar að efnislega hafi ákvæðið orðið virkt við samrunann og því hafi forgangshlutir breyst í almenna hluti eins og krafist sé að viðurkennt verði með dómi í þessu máli.
Þá beri að geta þess að samþykktum stefnda, Mogul Holding ehf., hafi ítrekað verið breytt eftir framangreindan samruna án þess að forgangshluthafar hafi hlutast til um að ákvæði iii. liðar 5. mgr. 4. gr. verði breytt. Verði að telja að með þessu hafi þeir að vissu leyti viðurkennt skilning stefnenda á ákvæðinu.
Með hliðsjón af framangreindu sé þess krafist á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 að viðurkennt verði með dómi að allir forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., hafi með framangreindum samruna breyst í almenna hluti.
II. Krafa um ógildingu hluthafasamkomulags
Krafa stefnenda um ógildingu hluthafasamkomulags, dagsett 30. nóvember 2007, milli stefnda Mango Tree B.V. (áður Brú II, Venture Capital Fund S.C.A, SICAR), annars vegar og stefnenda hins vegar, er í fyrsta lagi byggð á ólögfestum reglum samningaréttarins um brostnar forsendur. Eðli málsins samkvæmt er það forsenda fyrir því að krafan nái fram að ganga, á þessum grundvelli, að fallist verði á kröfu stefnenda í lið I hér að framan um að forgangshlutir í stefnda hafi breyst í almenna hluti.
Ljóst er að umrætt hluthafasamkomulag var byggt á þeirri forsendu að Brú II (nú stefndi Mango Tree B.V), hefði yfir að ráða forgangshlutum í félaginu. Var þessi forsenda jafnframt ákvörðunarástæða í skilningi samningaréttarins, hjá stefnendum, fyrir undirritun samkomulagsins og augljóst að stefnendur hefðu aldrei skrifað undir slíkt samkomulag ef Brú II, hefði einungis átt almenna hluti í félaginu. Samkomulagið var því aðeins gert til að kveða nánar á um og útfæra ýmis réttindi sem Brú II naut sem forgangshluthafi, sbr. áðurnefndar samþykktir stefnda Mogul Holding ehf.
Í öðru lagi er krafa um ógildingu á því byggð að samkomulagið hafi fallið niður við framsal hlutafjár Brúar II og Lime Tree til stefnda Mango Tree B.V. Í hluthafasamkomulagi (Shareholders Consent and Waiver), dagsettu 23. júlí 2008, er fjallað um framangreint framsal hlutafjár í Mogul Holding ehf. Í þessu skjali eru nánar tilgreind þau réttindi og skyldur sem stefndi Mango Tree B.V. undirgengst en hluthafasamkomulagsins milli stefnenda og Brúar II, frá 30. nóvember 2007, er þar hvergi getið. Telja stefnendur ljóst að samkomulagið hafi, samkvæmt þessu, fallið niður við framsalið.
Varakröfur:
I. Krafa um ógildingu 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda
Ef ekki verður fallist á aðalkröfu I, þ.e. um að forgangshlutir hafi breyst í almenna hluti, þá er gerð sú varakrafa að dómurinn ógildi 2. mgr. 21. gr. margnefndra samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf. en ákvæðið er svohljóðandi:
„Forgangs hluthafar skulu eiga rétt til þess að félagið innleysi hluti þeirra, ef lög heimila, í fyrsta lagi 3 árum eftir dagsetningu samþykkta þessara. Innlausnarverð forgangshluta skal vera kaupverð þeirra að hlutum í félaginu við skráningu nýrra forgangshluta í ágúst 2006 að viðbættu 8% álagi fyrir hvert ár sem liðið er hafi það ekki verið greitt út til hluthafa á tímabilinu, nema að almennt markaðsverð hlutanna sé hærra og félagið og forgangs hluthafar þess séu sammála um slíkt verð. Verðmat skal framkvæmt af Straumi Burðaráss fjárfestingarbanka hf. komi félagið og forgangs hluthafar sér ekki saman um markaðsverð. Félagið skal hafa 60 daga til að greiða innlausnarverðið þegar það liggur fyrir. Hafi félagið ekki innleyst alla forgangs hluti samkvæmt þessu ákvæði innan 5 ára frá dagsetningu samþykkta þessara fellur niður réttur forgangs hluthafa til forgangs til úthlutaðs arðs. Skilyrði fyrir niðurfellingu þessa forgangs til 8% arðs af upphaflegu kaupverði er að félagið hafi greitt út arðinn til hluthafa öll 5 árin eða þar til forgangs hluthafi óskaði eftir innlausn.“
Í fyrsta lagi er á því byggt að ákvæðið standist ekki reglur félagaréttarins um innlausn hluta. Eins og tekið var fram í framangreindu ákvæði skulu forgangshluthafar einungis eiga rétt til innlausnar ef lög heimila. Í lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994 er að finna nokkrar reglur um innlausn hluta í einkahlutafélögum. Þannig er í 2. mgr. 7. gr. að finna upptalningu á ýmsum atriðum sem greina skal í samþykktum einkahlutafélaga, en í 1. tl. ákvæðisins segir: „hvort hluthafar skuli að nokkru eða öllu leyti sæta innlausn af hálfu félagsins eða annarra á hlutum sínum og eftir hvaða reglum.“
Framangreint ákvæði var tekið orðrétt upp úr 11. tl. 6. gr. laga um hlutafélög nr. 32/1978 (brottfallin) en í greinargerð með þeim lögum segir um ákvæðið: „Samsvarandi ákvæði er að finna í 6. tl. 3. gr. og 3. tl. 36. gr. gildandi laga. Áskilja má, að hluthafar séu skyldir til að þola innlausn á hlutum sínum, en setja þarf þá í drög að samþykktum reglur um innlausnina, sbr. ennfremur 42. gr. frumvarpsins, sem fjallar um lækkun hlutafjár með innlausn hluta eftir ákveðnum reglum.“
Með vísan til framangreinds orðalags er ljóst að ekki er gert ráð fyrir því að heimilt sé að kveða á um það í samþykktum einkahlutafélags að hluthafar eigi rétt til að félagið leysi til sín hluti þeirra. Þetta má leiða af orðalaginu: „Áskilja má, að hluthafar séu skyldir til að þola innlausn á hlutum sínum [...]“ en samkvæmt gagnályktun frá þessu má ætla að óheimilt sé að áskilja að félag þurfi að leysa til sín hluti tiltekinna hluthafa.
Að öðru leyti en að framan greinir er að finna nokkur ákvæði í lögum nr.138/1994 um innlausn hluta. Þannig byggja lögin á því að eignist einhver hluthafi meira en 90% í félagi þá eigi hann rétt til að leysa til sín hluti annarra hluthafa í félagi, sbr. 16. gr., auk þess sem aðrir hluthafar í minnihluta eignast samskonar rétt gagnvart slíkum aðila, sbr. 18. gr. Þá er einnig að finna nokkur sérákvæði um innlausnarrétt eða skyldu í vissum tilvikum í 2. mgr. 25. gr., 1. mgr. 37. gr., 6. mgr. 101. gr. og 106. gr. laga nr. 138/1994. Í þessum ákvæðum er hvergi fjallað um innlausnarskyldu félags gagnvart hluthöfum. Auk þessa er ljóst að lögin gera ekki ráð fyrir því að félög eigi meira en 10% af eigin hlutafé, sbr. 1. mgr. 38. gr. Er því óeðlilegt að eftir 21. ágúst 2009 muni hvíla sú skylda á stefnda Mogul Holding ehf. að kaupa, eftir kröfu forgangshluthafa, 22.41% af eigin hlutum.
Þá skal jafnframt vísað til reglna Evrópusambandsins um innlausn hluta í hlutafélögum. Lög nr. 138/1994 voru byggð á Félagaréttartilskipununum tólf og áttu að uppfylla ýmsar skyldur íslenska ríkisins samkvæmt þeim. Í annarri Félagaréttartilskipuninni, „Capital Directive“ 77/91/ECC, eru m.a. reglur um innlausn hluta í 35., 38. og 39. gr. Er þar m.a. að finna reglur um lokaða sjóði sem félög skuli hafa yfir að ráða sem innihaldi að minnsta kosti jafn mikið fjármagn og nauðsynlegt er til að innleysa hluti sem félagið getur orðið skuldbundið til að leysa til sín samkvæmt samþykktum, frá síðara tímamarki. Er það jafnframt gert að skilyrði, fyrir því að hluthafi geti í þessum tilvikum krafist innlausnar félags, að hluthafinn fái einungis greitt úr slíkum sjóðum, sbr. g-lið 1. mgr. 39. gr. tilskipunarinnar. Ekki er í 21. gr. samþykkta stefnda Mogul Holding ehf. kveðið á um slíka sjóði eða aðrar ráðstafanir til að tryggja að félagið geti uppfyllt skyldu sína samkvæmt ákvæðinu. Ljóst er að ef ákvæði 21. gr. samþykktanna verður ekki breytt eða það dæmt ógilt, getur það leitt til gríðarlegs tjóns fyrir stefnendur en framangreindum reglum annarrar Félagaréttartilskipunarinnar var einmitt ætlað að koma í veg fyrir slíkt.
Verði ekki fallist á að umrætt ákvæði 21. gr. samþykktanna brjóti gegn ákvæðum laga nr. 138/1994, framangreindrar Félagaréttartilskipunar eða annarra reglna félagaréttarins eins og hér hefur verið lýst, er í öðru lagi byggt á því að ákvæðið sé bersýnilega ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Nánar tiltekið er á því byggt að bersýnilega ósanngjarnt sé að leggja svo víðtæka skyldu á félagið að það þurfi í einu lagi að afla lausafjár til að greiða út hluthöfum 22,41% hluta félagsins samkvæmt markaðsvirði. Auk þessa sé bersýnilega ósanngjarnt að félagið skuli einungis hafa 60 daga til að greiða innlausnarverðið frá því að það liggur fyrir samkvæmt mati. Verður að telja þetta allt of skamman tíma fyrir félagið til að afla svo mikils lánsfjár og er þess því krafist, verði ekki fallist á að ákvæði 21. gr. sé ógilt, að þessi frestur verði lengdur eins og fjallað verður nánar um í þrautavarakröfu. Þá skal, í þessu sambandi, sérstaklega vakin athygli á orðalagi 36. gr. laga nr. 6/1936 en þar segir m.a. að ógilda megi samning yrði það talið andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Stefnendur telja það liggja ljóst fyrir að ef stefndi, Mango Tree B.V. myndi þann 21. ágúst 2009 bera fyrir sig ákvæði 21. gr. yrði það talið andstætt góðri viðskiptavenju, í skilningi 36. gr., þar sem slík ráðstöfun væri til þess eins fallin að keyra félagið í þrot ef ekki væri gefinn rýmri frestur en þeir 60 dagar sem 21. gr. gerir ráð fyrir að félagið hafi til að greiða fyrir hlutina. Þá skal í þessu sambandi jafnframt vísað til 33. gr. laga nr. 6/1936., varðandi það að ákvörðun um að bera fyrir sig 21. gr., á þann hátt sem að framan er lýst, hljóti að teljast óheiðarleg í skilningi 33. gr. laga nr. 6/1936.
Um varnarþing stefndu Bergsveins Jónssonar og Mogul Holding ehf. vísast til 32. og 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um varnarþing stefnda Mango Tree B.V. vísast til samninga milli aðila um varnarþing. Þannig segir í upphaflegum áskriftarsamningi (Subsciption agreement for Convertible Preferred Shares in the firm Theater Mogul ehf.) milli Brúar II og stefnenda, í 9. gr.: „The governing law of this agreement is Icelandic Law. All disputes must be resolved by the Reykjavík District Court.“ Sambærilegt ákvæði var jafnframt tekið upp í hluthafasamkomulag um framsal allra hluta Brúar II til stefnda Mango Tree B.V. (Shareholders Consent and Waiver) en þar segir um þetta atriði: „The governing law of this agreement is Icelandic Law. All disputes must be resolved by the Reykjavík District Court.“ Af þessum samningum leiðir að Varnarþing stefnda Mango Tree B.V. í málum er rísa vegna hlutafjár félagsins í stefnda Mogul Holding ehf. er Héraðsdómur Reykjavíkur.
Málsástæður og lagarök stefndu Mango Tree B.V.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að hann eigi enga aðild að máli þessu. Af stefnu verði helst ráðið að málið varði ógildingu á þeirri ákvörðun stjórnar meðstefnda, Mogul Holding ehf., að breyta ekki samþykktum félagsins þannig að í félaginu væri aðeins einn flokkur hluta eftir sameiningu móður- og dótturfélags þann 15. desember 2008. Málið er hins vegar rekið sem viðurkenningarmál. Ákvörðun stjórnar hlutafélags sem tekin er á löglegum stjórnarfundi og er í samræmi við lög um einkahlutafélög verður ekki breytt í viðurkenningarmáli heldur ógildingarmáli. Aðild að slíku máli eiga þeir hluthafar sem vilja ákvörðunina ógilta og stjórnin, sem ákvörðunina tók. Stefnandinn Signý yrði þá einnig til varnar í málinu.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu af fyrstu aðalkröfu stefnenda á þeirri málsástæðu að ákvörðun stjórnar Leikhúsmógúlsins ehf. og dótturfélagsins Mogul Holding ehf. í lok árs 2008 um að sameina þessi félög hafi ekki leitt til þess að forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum hafi átt að breytast sjálfkrafa í almenna hluti samkvæmt ákvæðum iii. liðar 5. mgr. 4. gr. samþykkta móðurfélagsins. Ákvæði þetta verði að túlka þröngt, annars vegar með hliðsjón af öðrum ákvæðum í samþykktum hins sameinað félags sem fjalla um réttarstöðu forgangshluthafa og hins vegar með hliðsjón af ákvæðum samnings um fjárfestingu í Leikhúsmógúlnum ehf., frá 21. ágúst 2006, þannig að orðin ,,ef félagið sameinaðist öðru félagi“ eigi aðeins við um samruna Leikhúsmógúlsins ehf. við félög með öðru og ólíku eignarhaldi.
Stefndi bendir í þessu sambandi í fyrsta lagi á 5. mgr. 13. gr. samþykkta félagsins þar sem segir ,,Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins eða sameiningu þess við önnur félög eða fyrirtæki má ekki taka til meðferðar á fundum þess nema þess hafi verið getið í fundarboði.“
Stefndi bendir í öðru lagi á ákvæði e-liðar 6. mgr. 13. gr. samþykkta félagsins, þar sem kveðið er á um að 51% forgangshluta þurfi til samþykktar á samruna eða annarri skipulagsbreytingu, nema breytingin sé í raun formbreyting.
Í því tilviki sem mál þetta snýst um hafi verið um formbreytingu á rekstri að tefla, dótturfélag hafi verið sameinað móðurfélagi án aðkomu hluthafafunda. Sameiningin hafi því engin áhrif haft á skiptingu hlutafjár í félaginu í tvo flokka. Þeirri skipan 4. gr. samþykkta félagins gat stjórn þess ekki breytt enda hafi hún ekki gert það, sbr. 2. mgr. 25. gr. samþykkta félagins.
Ákvörðun um að slíta starfsemi dótturfélagsins, Mogul Holding ehf., sem var að fullu í eigu Leikhúsmógúlsins ehf. og hafi því myndað samstæðu með móðurfélaginu í skilningi 4. mgr. 2. gr. laga nr. 138/1994, og renna öllum eignum, skuldum og skuldbindingum dótturfélagsins inn í móðurfélagið byggðist á heimild í 1. mgr. 104. gr. laga nr. 138/1994. Því þurfti ekki aðkomu hluthafafundar enda ekki þörf á neinum breytingum á samþykktum félagsins. Breyting þessi hafi verið formbreyting.
Ákvörðun um samruna var tekin af stjórnum félaganna sem skipaðar voru sömu aðilum. Ákvörðun þeirra um þennan óeiginlega samruna hafi hvorki haft í för með sér að nýir hluthafar kæmu að Leikhúsmógúlnum ehf. né að raskað yrði eignarhlutföllum milli hluthafa í Leikhúsmógúlnum ehf. Þegar samruni móðurfélagsins og dótturfélagsins var um garð genginn gerði stjórn yfirtökufélagsins, sem fengið hafði nafn dótturfélagsins, hlutaskrá þar sem hlutum félagins er skipt í tvo flokka eins og verið hafði fyrir samrunann.
Stjórn hins sameinaða félags var því þeirrar skoðunar að samruni móður- og dótturfélags, hefði ekki leitt til þess að forgangshlutir í móðurfélaginu hefðu breyst í almenna hluti á grundvelli iii. liðar 5. mgr. 4. gr. Voru þó í stjórn félagsins fulltrúar tveggja stærstu eigenda almennra hluta og forgangshluta í félaginu. Meðal stjórnarmanna, sem tóku ákvörðun um samruna móðurfélagsins og dótturfélagsins, var einn stefnenda máls þessa, Signý Eiríksdóttir. Stjórnarmanninum og stefnandanum Signýju snerist hins vegar hugur þegar stefndi hafi ekki verið tilbúinn að samþykkja kröfu fjölskyldunnar um að stjórnarformaður félagins viki úr stjórn.
Stefndi kveður hluthafa meðstefnda, Mogul Holding ehf., bundna bæði af þeirri ákvörðun stjórnar félagsins að sameina dótturfélagið móðurfélaginu og að halda samþykktum móðurfélagsins óbreyttum í kjölfar samrunans.
Þá bendir stefndi á 24. gr. samþykkta félagsins en þar er kveðið á um að við samruna eigi eigendur forgangshluta rétt til að fá úthlutað verðmætum úr félaginu sem nemur upphaflegu kaupverði ásamt 8% álagi fyrir hvert ár sem liðið er frá kaupunum hafi forgangsarður ekki verið greiddur. Sambærilegt ákvæði sé í grein 3.2 í samningnum frá 21. ágúst 2006. Af þessum ákvæðum leiðir að stefndi ætti að eignast 65,7% alls hlutafjár í meðstefnda væri fallist á kröfur stefnenda. Dómstóll getur ekki tekið kröfur stefnenda til greina, nema útreikningar um eignarhlutföll hluthafa í meðstefnda, Mogul Holding ehf., eftir breytingu forgangshluta í almenna hluti liggi fyrir. Stefndi áskilur sér allan rétt til að leggja fram gögn framangreindum útreikningi sínum til stuðnings.
Með vísan til framangreinds getur dómstóll ekki kveðið upp viðurkenningardóm um að allir forgangshlutir í meðstefnda, Mogul Holding ehf., hafi breyst sjálfkrafa í almenna hluti, við sameiningu móðurfélagsins og dótturfélagsins. Dómstóll geti heldur ekki breytt ákvörðun stjórnar móðurfélagsins og dótturfélagsins án þess að stjórnirnar eigi aðild að máli. Dómsmál til breytinga á ákvörðun stjórnar félags hljóti auk þess alltaf að vera ógildingarmál en ekki viðurkenningarmál. Dómstóll geti auk þess aðeins gert breytingu á ákvörðun stjórnar félags sé krafa um slíkt höfð uppi og það sé á færi dómsins að ákveða hvers efnis ákvörðun stjórnarinnar hefði réttilega átt að vera.
Stefndi kveður það sjálfgefið að ákvæði hluthafasamkomulagsins milli hans og stefnanda falli niður sé fyrsta aðalkrafan tekin til greina.
Stefndi krefst sýknu af fyrstu varakröfu stefnenda að því marki, sem hún kunni að beinast að honum. Stefndi kveður fyrstu varakröfuna vera einhvers konar lögspurningu, þar sem ekki liggur fyrir krafa um innlausn forgangshluta í félaginu. Meðan ekki liggi fyrir formleg krafa um innlausn forgangshluta geti dómstólar ekki metið hvað sé sanngjarnt eða ósanngjarnt í þeim efnum. Fullyrðingar í stefnu um hugsanlegt ,,gríðarlegt tjón“ fyrir stefnendur, ef félagið innleysir forgangshluti eru með öllu órökstuddar, eins og reyndar flestar kröfur máls þessa.
Um varnarþing stefndu, Bergsveins Jónssonar og Mogul Holding ehf., vísast til 32. og 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um varnarþing hins erlenda aðila stefnda Mango Tree B.V. vísast hins vegar til samninga milli aðila um varnarþing. Þannig segir í upphaflegum áskriftarsamningi (Subsciption agreement for Convertible Preferred Shares in the firm Theater Mogul ehf.) milli Brúar II og stefnenda, í 9. gr.: „The governing law of this agreement is Icelandic Law. All disputes must be resolved by the Reykjavík District Court.“ Sambærilegt ákvæði var jafnframt tekið upp í hluthafasamkomulag um framsal allra hluta Brúar II til stefnda Mango Tree B.V. (Shareholders Consent and Waiver) en þar segir um þetta atriði: „The governing law of this agreement is Icelandic Law. All disputes must be resolved by the Reykjavík District Court.“ Af þessum samningum leiðir að Varnarþing stefnda Mango Tree B.V. í málum er rísa vegna hlutafjár félagsins í stefnda Mogul Holding ehf. er Héraðsdómur Reykjavíkur.
Heimild stefnanda til að fá viðurkenningardóm um kröfu sína er byggð á 2. mgr. 25. gr. laga um nr. 91/1991 og heimild stefnanda til að krefjast sameiginlegrar aðildar stefndu er byggð á 19. gr. sömu laga.
Aðalkröfur stefnenda eru einkum byggðar á 94. gr. og 1. tl. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 138/1994 og ólögfestum reglum samningaréttarins um brostnar forsendur. Þá er um heimild til að krefjast dagsekta vísað til 114. gr. laga nr. 91/1991.
Fyrsta varakrafa stefnenda eru einkum byggð á 2. mgr. 7. gr., 16. gr., 18. gr. og 1. mgr. 38. gr. laga nr. 138/1994. Þá er krafan jafnframt byggð á reglum annarrar Félagaréttartilskipunar Evrópusambandsins, nr. 77/91/ECC, einkum ákvæðum 35. gr. 38. gr. og 39. gr. Að lokum er krafan byggð á 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936.
Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og varðandi varnarþing vísast til 32. gr. og 33. gr. sömu laga.
Niðurstaða
Með vísan til 32. og 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 er mál þetta réttilega höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hvað varðar stefndu Bergsvein Jónsson og Mogul Holding ehf.
Í 9. gr. upphaflegs áskriftarsamnings (Subsciption agreement for Convertible Preferred Shares in the firm Theater Mogul ehf.) milli Brúar II ehf. og stefnenda frá 21. ágúst 2006, og í hluthafasamkomulagi um framsal allra hluta Brúar II ehf. til stefnda Mango Tree B.V. (Shareholders Consent and Waiver) kemur fram að mál sem rísa vegna samninganna skuli rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Með vísan til 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 telst málið því einnig höfðað á réttu varnarþingi hvað stefnda Mango Tree B.V. varðar.
Af hálfu stefnda Bergsveins Jónssonar hefur ekki verið haldið upp vörnum í málinu. Stefndi Mogul Holding ehf. hélt hins vegar uppi vörnum og skilaði inn greinargerð í þinghaldi þann 6. október 2009. Við fyrirtöku málsins þann 6. desember 2011 var því lýst yfir af hálfu stefnda Mogul Holding ehf. að hann dragi til baka andmæli sín gegn dómkröfum stefnanda hvað sig varðaði. Með hliðsjón af svo breyttri afstöðu stefnda Mogul Holding ehf. til sakarefnis verður ekki á því byggt sem fram er komið af hans hálfu í greinargerð en þar var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að stefndi yrði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Verður málið því að því er varðar stefndu Bergsvein Jónsson og Mogul Holding ehf. dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda og því leyti sem samrýmist framkomnum gögnum, sbr. 1. mgr. 96.gr. laga nr. 91/1991.
Eins og rakið hefur verið var um áramótin 2008/2009 ákveðið að stefndi Mogul Holding ehf., kt. 450100-3660, áður Leikhúsmógúllinn ehf., sameinaðist dótturfélagi sínu Mogul Holding ehf., kt. 600106-2600, og að nafn hins sameinaða félags yrði Mogul Holding ehf. Sameiningin miðaðist við 30. júní 2008 og hafa málsaðilar ekki dregið í efa lögmæti þeirrar sameiningar.
Fyrsta aðalkrafa stefnenda er að viðurkennt verði að forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt.
Stefndi Mango Tree B.V. byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að hann eigi enga aðild að máli þessu. Telur hann að af stefnu verði helst ráðið að málið varði ógildingu á þeirri ákvörðun stjórnar meðstefnda, Mogul Holding ehf., að breyta ekki samþykktum félagsins þannig að í félaginu væri aðeins einn flokkur hluta eftir sameiningu móður- og dótturfélags þann 15. desember 2008. Málið sé hins vegar rekið sem viðurkenningarmál. Ákvörðun stjórnar hlutafélags sem tekin er á löglegum stjórnarfundi og er í samræmi við lög um einkahlutafélög verður ekki breytt í viðurkenningarmáli heldur ógildingarmáli. Aðild að slíku máli eiga þeir hluthafar sem vilja ákvörðunina ógilta og stjórnin, sem ákvörðunina tók. Stefnandinn Signý yrði þá einnig til varnar í málinu.
Mál þetta höfða stefnendur sem viðurkenningarmál um kröfur sínar samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt framlöguðum gögnum eru stefnendur og stefndu Mango Tree B.V. og Bergsveinn Jónsson þeir aðilar sem eiga forgangshluti í félaginu og verða fyrir skerðingu á hagsmunum sínum verði krafa stefnenda tekin til greina. Þar af á stefndi Mango Tree B.V. stærstan hlut og hefur þar af leiðandi mesta hagsmuni af úrlausn sakarefnisins. Með hliðsjón af þessu er því hafnað að stefndi Mango Tree B.V. eigi enga aðild að málinu og því beri að sýkna félagið.
Af hálfu stefnenda er byggt á því að samruni með þessum hætti hafi sömu réttaráhrif að lögum og samruni þar sem nýr þriðji aðili komi inn og er til stuðnings vísað til 1. tl. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 138/1994 en stefnendur telja með vísan til ákvæðisins að gert sé ráð fyrir því í lögunum að samruni milli móður- og dótturfélags sé jafngildur annars konar samruna.
Stefndi Mango Tree B.V. byggir kröfu sína um sýknu af fyrstu aðalkröfu stefnenda á þeirri málsástæðu að ákvæði iii. liðar 5. mgr. 4. gr. verði að túlka þröngt, annars vegar með hliðsjón af öðrum ákvæðum í samþykktum hins sameinaða félags sem fjalla um réttarstöðu forgangshluthafa og hins vegar með hliðsjón af ákvæðum samnings um fjárfestingu í Leikhúsmógúlnum ehf., frá 21. ágúst 2006, þannig að orðin ,,ef félagið sameinaðist öðru félagi“ eigi aðeins við um samruna Leikhúsmógúlsins ehf. við félög með öðru og ólíku eignarhaldi.
Þessu til stuðnings bendir stefndi á 5. mgr. 13. gr. samþykkta félagsins þar sem segir: ,,Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins eða sameiningu þess við önnur félög eða fyrirtæki má ekki taka til meðferðar á fundum þess nema þess hafi verið getið í fundarboði.“ Í öðru lagi bendir hann á ákvæði e-liðar 6. mgr. 13. gr. samþykkta félagsins, þar sem kveðið er á um að 51% forgangshluta þurfi til samþykktar á samruna eða annarri skipulagsbreytingu, nema breytingin sé í raun formbreyting. Um formbreytingu á rekstri hafi verið að tefla, dótturfélag hafi verið sameinað móðurfélagi án aðkomu hluthafafunda og hafi sameiningin því engin áhrif haft á skiptingu hlutafjár í félaginu í tvo flokka. Þeirri skipan 4. gr. samþykkta félagsins gat stjórn þess ekki breytt enda hafi hún ekki gert það, sbr. 2. mgr. 25. gr. samþykkta félagsins. Samruninn hafi átt sér stað á grundvelli heimildar í 1. mgr. 104. gr. laga nr. 138/1994 og því þurfti ekki aðkomu hluthafafundar, enda ekki þörf á neinum breytingum á samþykktum félagsins. Breytingin hafi verið formbreyting.
Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. samþykkta stefnda Mogul Holding ehf. skulu forgangshlutir breytast í almenna hluti við ákveðnar aðstæður m.a. eins og þar segir í lið iii ef félagið sameinast öðru félagi, er yfirtekið af öðru félagi eða ráðandi hlutur í því er seldur. Ekki er ágreiningur um það milli aðila að ákvæðið hafi verið svona orðað í samþykktum Leikhúsmógúlsins ehf. fyrir sameininguna en samkvæmt samrunaáætlun frá 15. desember 2008 gilda þær samþykktir fyrir hið sameinaða félag. Stefnendur byggja málatilbúnað sinn á því að viðurkennt verði að við samruna, stefnda Mogul Holding ehf., við dótturfélag sitt hafi þær aðstæður skapast sem þarna eru nefndar og þá hafi forgangshlutirnir breyst í almenna hluti.
Ekki er byggt á því af hálfu aðila að sameiningin sem slík hafi ekki verið gild. Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort skilyrði iii. liðar um að forgangshlutir breyttust sjálfkrafa í almenna hluti hafi verið uppfyllt í umrætt sinn. Er hér vísað til samruna í skilningi laga nr. 138/1994 en í 94. gr. laganna segir: „Ákvæði þessa kafla um samruna gilda þegar einkahlutafélagi er slitið án skuldaskila með þeim hætti að félagið er algerlega sameinað öðru einkahlutafélagi með yfirtöku eigna og skulda (samruni með yfirtöku) og þegar tvö eða fleiri einkahlutafélög renna saman í nýtt einkahlutafélag (samruni með stofnun nýs félags).“ Í ákvæðinu eru ekki gerðar neinar undantekningar um þau tilvik þegar um er að ræða sameiningu móður- og dótturfélags né heldur er gerð nein undantekning sé samruni formsatriði enda er það hugtak ekki notað í ákvæðinu. Við meðferð málsins hefur ekkert komið fram sem bendir til að það hafi verið sameiginlegur skilningur málsaðila eða skilningur einhverra málsaðila að ákvæðið ætti einungis við þegar um samruna við þriðja aðila væri að ræða enda styður orðalag ákvæðisins á engan hátt þá niðurstöðu.
Stefndi byggir einnig á því að ákvörðun um samruna var tekin af stjórnum félaganna sem skipaðar voru sömu aðilum. Ákvörðun þeirra um þennan óeiginlega samruna hafi hvorki haft í för með sér að nýir hluthafar kæmu að Leikhúsmógúlnum ehf. né að raskað yrði eignarhlutföllum milli hluthafa í Leikhúsmógúlnum ehf. Þegar samruni móðurfélagsins og dótturfélagsins var um garð genginn, eða þann 17. mars 2009, gerði stjórn yfirtökufélagsins, hlutaskrá þar sem hlutum félagsins er skipt í tvo flokka eins og verið hafði fyrir samrunann.
Stefndi byggir á því að stjórn hins sameinaða félags hafi verið þeirrar skoðunar að samruninn hefði ekki leitt til þess að forgangshlutirnir hefðu breyst í almenna hluti og telur að hluthafar meðstefnda, Mogul Holding ehf., séu bundnir bæði af þeirri ákvörðun stjórnar félagsins að sameina dótturfélagið móðurfélaginu og að halda samþykktum móðurfélagsins óbreyttum í kjölfar samrunans.
Í stefnu er byggt á því af hálfu stefnenda að stefnandi Signý Eiríksdóttir, fyrrum stjórnarmaður í stefnda Mogul Holding ehf., hafi einungis verið að uppfylla skyldur sínar sem stjórnarmaður þegar hún kom að gerð hlutaskrár en þá hafi aðeins verið farið eftir þeim upplýsingum sem fyrir lágu, formlega séð, m.a. um að Mango Tree B.V. hefði yfir forgangshlutum að ráða. Þangað til leyst hafi verið úr deilu aðila um það hvort ákvæði nefnds iii. liðar hafi orðið virkt eða ekki verði að líta svo á að forgangshlutir séu formlega til staðar.
Einn þáverandi stjórnarmanna, áðurnefnd Signý, gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og kom fram hjá henni að hún hefði ekki komið mikið að samrunaferlinu en um það hefði eflaust verið fjallað á nokkrum fundum. Þetta hafi verið gert á miklum hraða og sagði hún að hún hefði eflaust átt að kynna sér gögnin sérstaklega. Hún staðfesti að hafa skrifað undir hlutaskrá þar sem haldið hafi verið í skiptinguna milli forgangshluta og almennra hluta. Aðspurð sagði hún að þegar hún hefði skrifað undir gögnin hafi hún ekki gert sér nákvæmlega grein fyrir því hvaða afleiðingar eða hvaða þýðingu, þessi sameining myndi hafa. Eftir að sameiningin hafði átt sér stað hafi henni verið bent á að þetta ákvæði samþykktanna um breytingu á forgangshlutum í almenna hluti hafi átt að gilda. Einnig liggur fyrir áðurnefnt bréf lögmanns félagsins fyrir hönd stjórnar þar sem því er hafnað að forgangshlutirnir hafi breyst við sameininguna. Það er mat dómarans að afstaða stjórnarmanna til réttaráhrif sameiningarinnar verður ekki talin bindandi fyrir hluthafa. Um er að ræða afstöðu sem gengur gegn ákvæði samþykkta félagsins og þeim verður einungis breytt á lögmætum aðalfundi.
Meðal framlagðra gagna er áðurnefnd samrunaáætlun sem undirrituð var af þeim einstaklingum sem þá sátu í stjórn Leikhúsmógúlsins ehf. og Mogul Holding ehf. Samkvæmt 1. gr. samrunaáætlunarinnar skal sameiningin miðast við 30. júní 2008. Í 2. gr. kemur fram að við sameininguna renna allar eignir og skuldir Mogul Holding ehf. inn í Leikhúsmógúlinn ehf. Af þessu má ráða að skilyrði 94. gr. laga nr. 138/1994 um að félagið hafi verið algerlega sameinað öðru einkahlutafélagi með yfirtöku eigna og skulda hafi verið uppfyllt. Einnig kemur fram í 2. gr. að samþykktir Leikhúsmógúlsins ehf. eigi að gilda um hið sameinaða félag. Loks segir í 5. gr. að ekki verði gerðar neinar ráðstafanir til hagsbóta eigendum hluta og skuldabréfa í félögunum.
Einnig hefur verið lögð fram sameiginleg greinargerð stjórna félaganna vegna samrunans, sem dagsett er 15. desember 2008. Þar segir að með samrunanum hafi verið sameinuð félögin Leikhúsmógúlinn ehf. og dótturfélag þess Mogul Holding ehf., sem hingað til hafi verið rekin hvort í sínu lagi, en bæði stundi sams konar rekstur og horfi það til mikillar hagræðingar að sameina þennan rekstur undir einum hatti.
Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að fyrir fram hafi farið umræða meðal hluthafa eða stjórnarmanna um gildi ákvæðis iii. liðar 5. mgr. 4. gr. fyrir eða eftir sameininguna eða að ákvörðun hafi verið tekin um að ákvæðið ætti ekki að gilda. Stjórn Leikhúsmógúlsins ehf. samþykkti samrunann á fundi þann 24. febrúar 2009. Ljóst er að ákvæðum um forgangshluti var haldið áfram óbreyttu í samþykktunum eftir sameiningu félaganna. Hlutaskrá var heldur ekki breytt til samræmis við það að þessar breytingar hafi átt sér stað á forgangshlutunum.
Gögn málsins bera með sér að fljótlega hafi komið upp ágreiningur á milli hluthafa um það hvort ákvæði iii. liðar ætti að gilda vegna samrunans sem hafi leitt til þess að dómsmál þetta var höfðað. Skömmu eftir að samrunninn var samþykktur á fundi stjórnar Leikhúsmógúlsins ehf., eða í apríl 2009, sendi lögmaður stefnenda stefnda Bergsveini, Guðmundi Magnasyni og lögmanni stefnda Mogul Holding ehf. bréf þar sem því er haldið fram að við sameininguna hafi forgangshlutir í félaginu breyst í almenna hluti. Í bréfi til lögmanns stefnda Mogul Holding ehf. er því einnig lýst yfir að stefnendur telji að 1. tl. hluthafasamkonulagsins sé fallinn úr gildi þar sem hann hafi einungis náð til aðalfundar 2008 og jafnframt sé ljóst að breyting forgangshluta í almenna hluta feli í sér gagngera breytingu á stöðu þeirra aðila sem að samkomulaginu standa. Með bréfi dagsettu 7. apríl 2009 hafnaði lögmaður stefnda Mogul Holding ehf., fyrir þess hönd, því að sameiningin hefði leitt til breytinga á forgangshlutunum.
Fyrir liggur fundargerð vegna aðalfundar vegna rekstrarársins 2008, sem haldinn var þann 7. júní 2011. Þar er bókað eftir lögmanni stefnenda „að 30. júní 2008 hafi hluthafarnir Signý Eiríksdóttir, Óskar Eiríksson, Sigyn Eiríksdóttir og Eiríkur Óskarsson, höfðað mál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur, og krafist viðurkenningar á því að allir forgangshlutir í félaginu hefðu breyst í almenna hluti, í sambandi við samruna Leikhúsmógúlsins og Moguls Holdings. Stjórnarmenn gera fyrirvara um skiptingu hluta í félaginu í forgangshluti og almenna hluti, og umbjóðandi minn hefur ákveðið að fallast á það að allit hlutir hans í félaginu hafi breyst í almenna hluti.“ Sambærileg bókun er einnig í fundargerð vegna rekstraráranna 2009 og 2010 sem dagsettar eru sama dag.
Með úrskurði héraðsdóms frá 22. desember 2011 var hafnað kröfu stefnenda um að mál þetta yrði fellt niður með vísan til a-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 með hliðsjón af afstöðu stefnda Mango Tree B.V. til sakarefnis í máli þess. Í niðurstöðu úrskurðarins segir m.a. að samkvæmt 45. gr. laga nr. 91/1991 feli yfirlýsing aðila sem gefin er fyrir dómi í sér ráðstöfun á sakarefni sem bindur hann eftir almennum reglum um gildi loforða ef hann hefur forræði á því. Fram hafi komið af hálfu lögmanns stefnda Mango Tree B.V. að hann hafi aldrei gefið málflutningsyfirlýsingu um neina af þeim kröfum sem uppi eru í málinu. Einnig segir í úrskurðinum að slíkar yfirlýsingar liggi ekki fyrir í málinu.
Af þeirri atburðarás sem átti sér stað eftir að félögin voru sameinuð og rakin hefur verið er ljóst að fljótlega voru gerðar athugsemdir við það að forgangshlutirnir hefðu ekki breyst við sameininguna en þá hafði ný hlutaskrá þegar verið gefin út. Af framburði Signýjar má fremur ráða að hún hafi ekki áttað sig á því fyrirfram að sameining gæti haft þessar breytingar í för með sér en að hún hafi ásamt öðrum stjórnarmönnum tekið meðvitaða ákvörðun um að hlutirnir hefðu ekki breyst.
Í 22. gr. samþykktanna segir að samþykktum verði breytt á lögmætum aðal- eða aukafundi. Ákvæði samþykktanna eru bindandi fyrir hluthafa og ekki í valdi stjórnarmanna að ákveða að þau gildi ekki í einstökum tilvikum. Samþykktirnar ráða réttarstöðu hlutahafa og er m.a. skylt, samkvæmt 7. gr. laga nr. 138/1994, að tilgreina þar ef ætlunin er að hlutum fylgi sérstök réttindi. Stjórn hlutafélags getur ekki breytt réttarstöðu hlutahafa með skráningu hlutaskrár á þennan hátt. Henni ber hins vegar að tryggja að þar séu skráðar réttar upplýsingar og að gerðar séu nauðsynlegar breytingar á hlutaskrá og eftir atvikum samþykktum í kjölfar breytinga á forgangshlutum í almenna hluti.
Þá bendir stefndi á 24. gr. samþykkta félagsins en þar er kveðið á um að við samruna eigi eigendur forgangshluta rétt til að fá úthlutað verðmætum úr félaginu sem nemur upphaflegu kaupverði ásamt 8% álagi fyrir hvert ár sem liðið er frá kaupunum hafi forgangsarður ekki verið greiddur. Sambærilegt ákvæði sé í grein 3.2 í samningnum frá 21. ágúst 2006. Af þessum ákvæðum leiði að stefndi Mango Tree B.V. ætti að eignast 65,7% alls hlutafjár í meðstefnda væri fallist á kröfur stefnenda. Þar sem ekki liggi fyrir útreikningar um eignarhluta félagsins eftir sameiningu verði fyrsta aðalkrafa stefnenda ekki tekin til greina né heldur getur dómstóll breytt ákvörðun stjórnar móðurfélagsins og dótturfélagsins án þess að stjórnirnar eigi aðild að máli. Dómsmál til breytinga á ákvörðun stjórnar félags eða félaga hljóti auk þess alltaf að vera ógildingarmál en ekki viðurkenningarmál. Dómstóll geti auk þess aðeins gert breytingu á ákvörðun stjórnar félags sé krafa um slíkt höfð upp og það sé á færi dómsins að ákveða hvers efnis ákvörðun stjórnarinnar hefði réttilega átt að vera.
Í fyrstu aðalkröfu stefnenda í máli þessu er ekki gerð krafa um að ákveðin ákvörðun stjórnar sem tekin var tiltekin dag verði ógild enda ekki á því byggt að slík formleg ákvörðun hafi verið tekin. Sú afstaða stjórnar að forgangshlutirnir hafi ekki breyst við sameininguna kom fyrst fram í bréfi lögmanns félagsins.
Í samþykktum félagsins, og áður samþykktum Leikhúsmógúlsins ehf., er að finna í 3. mgr. 4. gr. reglur um það hvernig forgangshlutum verði umbreytt í almenna hluti. Mál þetta er hins vegar höfðað sem viðurkenningarmál og samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 verður þess ekki krafist að dómur verði á þann veg að þegar mætti fullnægja honum með aðför. Er þess því ekki krafist að fyrir liggi tölulegar upplýsingar um þá hagsmuni sem málsaðilar hafi af málinu.
Þegar af þessum ástæðum er af hálfu dómarans hafnað þeirri málsástæðu stefndu að útreikningar um eignahlutföll hluthafa þurfi að liggja fyrir svo að fyrsta aðalkrafa stefnenda verði tekin til greina.
Eins og fram hefur komið kveður ákvæði nefnds iii. liðar skýrt á um það hvenær forgangshlutir breytist í almenna hluti. Sú sameining sem hér er til umfjöllunar er þar ekki undanskilin hvorki á grundvelli laga nr. 138/1994 né samþykkta félagsins. Af hálfu stjórnar félagsins var ekki leitast við að breyta nefndu ákvæði samþykktanna áður en af sameiningunni varð eins og rétt hefði verið að gera hefði ætlunin verið sú að forgangshlutir mundu ekki breytast við sameininguna. Sú staðreynd að stjórn félagsins gaf út nýja óbreytta hlutaskrá eftir sameininguna og sú afstaða stjórnarmanna að forgangshlutirnir hafi ekki átt að breytast er ekki bindandi fyrir hluthafa. Stjórn félags ber að fara eftir samþykktum í störfum sínum og það er ekki á valdi stjórnar að breyta þeim, sbr. 22. gr. samþykktanna.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það mat dómarans að forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. hafi breyst í almenna hluti við sameiningu þess við Mogul Holding ehf. þann 30. júní 2008.
Með annarri aðalkröfu sinni krefjast stefnendur þess að hluthafasamkomulag, dagsett 30. nóvember 2007, milli stefnda Mango Tree B.V. (áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A, SICAR), annars vegar og stefnenda hins vegar, verði dæmt ógilt. Stefnendur byggja kröfu sína á ólögfestum reglum samningaréttar um brostnar forsendur.
Krafa stefnenda um ógildingu hluthafasamkomulags er í fyrsta lagi byggð á ólögfestum reglum samningaréttarins um brostnar forsendur. Telja stefnendur að eðli málsins samkvæmt sé það forsenda fyrir því að krafan nái fram að ganga, á þessum grundvelli, að fallist verði á kröfu stefnenda í lið I hér að framan um að forgangshlutir í stefnda hafi breyst í almenna hluti.
Ljóst er að umrætt hluthafasamkomulag var byggt á þeirri forsendu að Brú II (nú stefndi Mango Tree B.V.) hefði yfir að ráða forgangshlutum í félaginu. Var þessi forsenda jafnframt ákvörðunarástæða stefnenda, í skilningi samningaréttarins, fyrir undirritun samkomulagsins. Samkomulagið var því einungis gert til að kveða nánar á um og útfæra ýmis réttindi sem Brú II, naut sem forgangshluthafi.
Stefndi Mango Tree B.V segir í greinargerð sinni að það sé sjálfgefið að ákvæði hluthafasamkomulagsins milli hans og stefnenda falli niður sé fyrsta aðalkrafa stefnenda tekin til greina.
Vegna afstöðu stefnenda og stefnda Mongo Tree B.V. til kröfunnar verður ekki annað ráðið en að þessir aðilar séu sammála um að forsendur sé brostnar fyrir hluthafasamkomulaginu þar sem fyrsta aðalkrafa stefnenda hefur verið tekin til greina. Er því litið svo á að stefndi Mongo Tree B.V. hafi fallist á aðra aðalkröfu stefnenda.
Samkomulagið byggir á þeim hlutum sem aðilar samkomulagsins höfðu yfir að ráða þegar samkomulagið var gert. Með þeirri breytingu sem verður með því að dómurinn féllst á fyrstu aðalkröfu stefnenda eru forsendur samkomulagsins brostnar.
Af þeirri ástæðu telur dómari ekki þörf á að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu sem stefnendur byggðu kröfu sína um ógildingu í öðru lagi á, það er því að samkomulagið hafi fallið niður við framsal hlutafjár Brúar II og Lime Tree til stefnda Mango Tree B.V. Það tímamark sem þar er miðað við er 23. júlí 2008 eða 23 dögum eftir sameininguna.
Með hliðsjón af ofangreindu er því fallist á fyrstu og aðra aðalkröfu stefnenda og annars vegar viðurkennt að forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., kt. 450100-3660, hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt Mogul Holding ehf., kt. 600106-2600, þann 30. júní 2008 og hins vegar er fellt úr gildi hluthafasamkomulag, dagsett 30. nóvember 2007, milli stefnda Mango Tree B.V., áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A., SICAR, annars vegar og stefnenda hins vegar.
Eftir þessari niðurstöðu, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, ber að dæma stefndu til að greiða stefnendum málskostnað. Telst hann hæfilega ákveðinn 1.000.000 kr. hvað varðar stefnda Mongo Tree B.V. og ber stefndi Mogul Holding ehf. sameiginlega (in solidum) ábyrgð á greiðslu helming þeirrar fjárhæðar, 500.000 kr., ásamt stefnda Mango Tree B.V. og stefndi Bergsveinn Jónsson ber ábyrgð á greiðslu 300.000 kr. af þeirri fjárhæð sameiginlega (in solidum) ásamt stefndu Mango Tree B.V. og Mogul Holding ehf. Í ofangreindum fjárhæðum hefur verið tekið tilliti til virðisaukaskatts.
Vegna embættisanna dómarans hefur dómsuppkvaðning dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari töldu hins vegar ekki þörf á því að málið yrði flutt að nýju.
Af hálfu stefnenda flutti mál þetta Björn Líndal hdl. og af hálfu stefnda Magno Tree B.V. flutti málið Sigurður G. Guðjónsson hrl.
Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Viðurkennt er að forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., kt. 450100-3660, hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt Mogul Holding ehf., kt. 600106-2600, þann 30. júní 2008.
Fellt er úr gildi hluthafasamkomulag, dagsett 30. nóvember 2007, milli stefnda Mango Tree B.V., áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A., SICAR, annars vegar og stefnenda hins vegar.
Stefndi, Mango Tree B.V., greiði stefnendum, 1.000.000 kr. í málskostnað, þar af greiði stefndi Mogul Holding ehf. sameiginlega (in solidum) með stefnda Mango Tree B.V. 500.000 kr. og stefndi Bergsveinn Jónsson sameiginlega (in solidum) ásamt stefndu Mango Tree B.V. og Mogul Holding ehf. 300.000 kr.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. ágúst 2010
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfur stefndu 29. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Signýu Eiríksdóttur, Arnarhrauni 44, Hafnarfirði, Óskari Eiríkssyni, Sunnuvegi 1, Hafnarfirði, Sigyn Eiríksdóttur, Grenimel 1, Reykjavík, og Eiríki Óskarssyni, Pósthússtræti 13, Reykjavík gegn Aufisco B.V., skr. 27128025 0000, Laan Copes van Cattenburch 52, 2585GB 's-Gravenhage, Hollandi, fyrir hönd Mango Tree B.V., skr. 27319229 0000, Laan Copes van Cattenburch 52, 2585GB´s-Gravenhage, Hollandi, Bergsveinn Jónsson, kt. 310567-3969, Vesturvangi 46, 220 Hafnarfirði og Ásta Þórarinsdóttir, kt. 010270-3169, Hjallabrekku 10, 200 Kópavogi, fyrir hönd Mogul Holding ehf., kt. 4501100-3660 , Kringlunni 70, 103 Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 25. júní 2009.
Dómkröfur stefnenda eru þessar:
Aðallega:
I. Að viðurkennt verði að forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., kt. 4501100-3660 (áður Leikhúsmógúllinn ehf.), hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt Mogul Holding ehf., kt. 600106-2600.
II. Að hluthafasamkomulag, dags. 30. nóvember 2007, milli Mango Tree B. V. (áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A, SICAR), annars vegar og stefnenda hins vegar, verði dæmt ógilt.
III. Að lagt verði fyrir stefnda, Mogul Holding ehf., að viðlögðum dagsektum, að gera þær breytingar á samþykktum félagsins sem nauðsynlegar eru til samræmis við breytingu forgangshluta í almenna hluti.
Til vara:
I. Að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf., verði dæmt ógilt.
II. Að lögð verði sú skylda á stjórn stefnda, Mogul Holding ehf., að viðlögðum dagsektum, að boða til hluthafafundar þar sem kosið verði um nýjan stjórnarformann í samræmi við reglur laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.
Til þrautavara:
I. Að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf., verði breytt og (a) frestur félagsins gagnvart forgangshluthafa sem krefst greiðslu á sínum hluta matsverðs verði lengdur í allt að 365 daga, (b) að félaginu sé einungis skylt að greiða forgangshluthafa, sem krefst þess, hluta hans í matsverðinu að fengnu skriflegu mati endurskoðanda félagsins sem sýni að greiðslan muni ekki leiða til ógjaldfærni félagsins, þ. á m. hvorki til greiðslustöðvunar né gjaldþrots þess næstu 12 mánuði eftir að greiðslu skal inna af hendi, og (c) að óháðu fjármálafyrirtæki verði falið að leggja mat á verðmæti félagsins.
Þá er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar úr hendi stefndu, in solidum, samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefnda Mogul Holding ehf. eru þessar:
Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi.
Til vara er þess krafist af hálfu stefnda að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda.
Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnenda samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefnda Mango Tree B.V.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda.
Þá gerir stefndi þá kröfu að stefnendur verði in solidum dæmdir til að greiða stefnda málskostnað auk virðisaukaskatts, hvort heldur sem aðal- eða varakrafa verður tekin til greina.
Í þessum þætti málsins eru til meðferðar kröfur stefndu um frávísun málsins. Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og málskostnaðar úr hendi þeirra.
Helstu málsatvik
Helstu málavextir eru þeir að árið 2000 stofnuðu stefnendur ásamt Jóni Tryggvasyni félagið Leikhúsmógúlinn ehf. Upphaflega var tilgangur félagsins að setja upp sýningar á leikritinu Hellisbúanum í Þýskalandi. Höfðu stofnendur félagsins náð samningi við höfund leikritsins, Rob Becker, sem fól í sér sérstakt leyfi til handa félaginu til að setja upp leikritið í Þýskalandi, eftir atvikum í samstarfi við aðra aðila. Greiddi félagið fyrir leyfið með svonefndum „nytjaleyfisþóknunum“ til höfundar. Starfsemi félagsins gekk vel frá byrjun og innan skamms náði félagið nýjum samningum við höfund leikritsins um uppsetningar þess í fleiri Evrópulöndum. Á árunum 2004 2005 seldi Jón Tryggvason hlut sinn í félaginu til stefnda Bergsveins Jónssonar og Guðmundar Magnasonar, en sá síðarnefndi á nú einungis almenna hluti í félaginu eftir að hafa selt forgangshluti sína til eignarhaldsfélagsins Mango Tree B. V.
Í byrjun árs 2006 kom í ljós að höfundur leikritsins var tilbúinn að selja félaginu höfundarrétt að leikritinu um allan heim gegn tilteknu kaupverði sem nam US$ 16,5 milljónir. Ákváðu þáverandi hluthafar að leita að fjárfesti sem væri reiðubúinn til að gerast hluthafi í félaginu og taka þátt í verulegri aukningu hlutafjár í því. Var þeim sérstaklega bent á fjárfestingarsjóðinn Brú II Venture Capital Fund S.C.A, SICAR sem áhugaverðan samstarfsaðila en félagið Thule Investments ehf. annast rekstur og umsýslu sjóðsins. Engu að síður varð úr að félagið Brú II ehf. fjárfesti upphaflega í félaginu en hlutur þess var skömmu síðar framseldur til Brú II Venture Capital Fund S.C.A, SICAR, hér eftir nefndur Brú II, sem er skráð í Luxemburg. Af hálfu stefnenda hafði sú staðreynd úrslitaáhrif um að ganga til samstarfs við Brú II að eigendur sjóðsins voru meðal stærstu lífeyrissjóða landsins, s. s. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðurinn Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, auk Straums fjárfestingarbanka og fleiri aðila.
Við frágang samningsgerðar við Brú II hinn 21. ágúst 2006 var undirritaður sérstakur áskriftarsamningur um forgangshluti í félaginu með breytirétti (e. Subscription Agreement for Convertible Preferred Shares in the firm Theater Mogul ehf.), hluthafasamkomulag (Shareholders Agreement) og nýjar samþykktir sem fólu í sér að hlutum í félaginu var skipt í forgangshluti og almenna hluti og margvíslegar aðrar breytingar gerðar sem gerðu stöðu forgangshluthafa í félaginu mun sterkari en almennra hluthafa, þ. á m. um rétt þeirra, ef lög heimila, til að krefjast innlausnar hjá félaginu á forgangshlut sínum, sbr. 21. gr. samþykktanna, að liðnum þremur árum frá dagsetningu þeirra.
Nánar tiltekið voru kaup félagsins á höfundarrétti að Hellisbúanum fjármögnuð með eftirfarandi hætti:
Brú II ehf. US$ 7,2 milljónir (US$ 6,0 milljónir + US$ 1,2 miljónir)
Frá eldri hluthöfum US$ 3,0 milljónir
Lán frá Landsbankanum US$ 1,5 milljónir
Frá félaginu sjálfu US$ 0,3 milljónir
Lán seljanda til félagsins US$ 4,5 milljónir
Eftir þessar breytingar nam heildarhlutafé félagsins samtals 4.745.250 íslenskum krónum. Þar af námu forgangshlutir 1.415.250 krónum en almennir hlutir 3.330.000 íslenskum krónum.
Í kjölfarið á aðkomu Brúar II voru umsvif félagsins aukin og skrifstofa opnuð í New York, sem var ætlað að koma leikritinu Hellisbúanum á framfæri í Bandaríkjunum.
Þann 30. nóvember 2007 gerðu Brú II annars vegar og stefnendur hins vegar ,,Fjölskyldan“ með sér hluthafasamkomulag. Samkvæmt hluthafasamkomulagi þessu skuldbundu aðilar þess sig til að standa saman að kjöri stefnandans, Signýjar Eiríksdóttur, til setu í stjórn Leikhúsmógúlsins til næstu þriggja ára fyrir hönd almennra hluthafa. Jafnframt var ákveðið að í stjórn félagsins sætu Sigurður I. Björnsson fyrir hönd Brúar II og Ásta Þórarinsdóttir sem skyldi vera stjórnarformaður.
Þann 28. júlí 2008 samþykktu allir hluthafar Leikhúsmógúlsins framsal Brúar II og Lime á hlutum í félaginu til stefnda, Mango Tree B.V. Tókst stefndi, Mango Tree, á herðar skuldbindingar Brúar II við stefnendur samkvæmt hluthafasamkomulaginu.
Um áramótin 2008/2009 var ákveðið að Leikhúsmógúllinn ehf., sem var hið upphaflega félag sameinaðist dótturfélagi sínu, Mogul Holding ehf., en nýtt nafn hins sameinaða félags er Mogul Holding ehf. Miðast sameiningin við 30. júní 2008. Í framhaldi af sameiningunni sendi lögmaður stefnenda lögmanni Mango Tree og Brúar II bréf þar sem var tilkynnt að stefnendur teldu að forgangshlutir í Mogul Holding hefðu við sameininguna breyst í almenna hluti, sbr. lið iii) í 5. mgr. 4. gr. framangreindra samþykkta félagsins, en þar komi efnislega fram að ef félagið sameinist öðru félagi breytist forgangshlutir sjálfkrafa í almenna hluti. Í bréfinu var jafnframt tilkynnt að forsendur væru brostnar fyrir hluthafasamkomulaginu frá 30. nóvember 2007 auk þess sem 1. gr. þess samkomulags yrði ekki túlkuð með þeim hætti sem forsvarsmenn Thule Investments sem fulltrúar Mango Tree, gera. Á sama tíma sendu stefnendur stjórn Mogul Holding ehf. bréf þar sem þess var krafist að boðað yrði til hluthafafundar þar sem kosin yrði ný stjórn fyrir félagið.
Lögmaður stefnda Magno Tree B.V. svaraði framangreindu erindi lögmanns stefnenda með bréfi, dags. 7. apríl 2009, þar sem því var mótmælt að framangreint ákvæði liðar iii) í 5. mgr. 4. gr. samþykkta Leikhúsmógúlsins, hefði orðið virkt við framangreindan samruna. Þá var því jafnframt mótmælt að forsendur væru brostnar fyrir hluthafasamkomulaginu. Auk þessa var lýst yfir þeim skilningi stefnda, Brú II ehf., að 1. gr. hluthafasamkomulagsins fæli það í sér að allir þrír stjórnarmenn félagsins hafi þar með verið kjörnir til næstu þriggja ára, en ekki einungis Signý Eiríksdóttir eins og stefnendur hafa haldið fram.
Ekki hefur tekist að leysa ágreining málsaðila er því málshöfðun þessi til komin.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Aðalkröfur
I. Krafa um að viðurkennt verði að forgangshlutir hafi breyst í almenna hluti.
Með vísan til þess sem segi í málavaxtalýsingu sé ljóst að ágreiningur sé milli stefnenda og stefnda, Mango Tree B.V. (Brú II), um það hvernig túlka eigi ákvæði III. liðar 5. mgr. 4. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. en ákvæðið mæli fyrir um að forgangshlutir skuli sjálfkrafa breytast í almenna hluti ef félagið sameinist öðru félagi, sé yfirtekið af öðru félagi eða ráðandi hlutur í því seldur. Lögmaður stefnda hafi viljað túlka ákvæðið svo að með sameiningu, í ákvæðinu, hafi ekki verið átt við þau tilvik þegar dótturfélag sé sameinað móðurfélagi eða öfugt, heldur einungis samruna þar sem nýr þriðji aðili kæmi að félaginu. Þessu til stuðnings, sbr. bréf lögmanns stefnda til lögmanns stefnenda dags. 7. apríl 2009, hafi verið vísað til 3. mgr. 102. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 en ákvæðið sé svohljóðandi:
„Eigi samrunafélögin hluti í yfirteknu félagi er ekki unnt að skipta þeim í hluti í yfirtökufélaginu.“
Í framangreindu bréfi sé ekki nánar skýrt hvers vegna stefndi telji að lagaákvæðið styðji þá túlkun er hann hafi haldið fram og telja stefnendur það ekki hafa nein áhrif.
Í framangreindu ákvæði III. liðar 5. mgr. 4. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. komi skýrt fram að forgangshlutir skuli sjálfkrafa breytast í almenna hluti ef félagið sameinist öðru félagi eða sé yfirtekið af öðru félagi. Ljóst sé að hér sé vísað til samruna í skilningi laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 (ehl.) en skilgreiningu á samruna sé að finna í 94. gr. laganna, en þar segi:
„Ákvæði þessa kafla um samruna gilda þegar einkahlutafélagi er slitið án skuldaskila með þeim hætti að félagið er algerlega sameinað öðru einkahlutafélagi með yfirtöku eigna og skulda (samruni með yfirtöku) og þegar tvö eða fleiri einkahlutafélög renna saman í nýtt einkahlutafélag (samruni með stofnun nýs félags).“
Af þessu megi sjá að ekki sé gerð nein undantekning í skilgreiningunni á samruna, og þar með gildissviði ákvæða ehl. um samruna, hvað varðar sameiningu móður- og dótturfélags eða yfirtöku annars þeirra á hinu. Samruni með þessum hætti hafi því sömu réttaráhrif að lögum og samruni þar sem nýr þriðji aðili komi inn. Þessu til stuðnings sé jafnframt vísað til 1. tl. 1. mgr. 104. gr. ehl. en ákvæðið sé svohljóðandi:
„Ef einkahlutafélagi er slitið án skuldaskila þannig að það sé algerlega sameinað öðru einkahlutafélagi er á alla hluti í yfirtekna félaginu getur stjórn í yfirtekna félaginu tekið ákvörðun um samruna.“
Ljóst sé með vísan til ákvæðisins að gert sé ráð fyrir því í lögunum að samruni milli móður- og dótturfélags sé jafngildur annars konar samruna. Framangreint ákvæði III. liðar 5. mgr. 4. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. hafi því orðið virkt við samruna félaganna. Í framangreindu bréfi lögmanns stefnda sé það gefið í skyn að sameiginlegur skilningur málsaðila, við gerð áðurnefndra samþykkta Mogul Holding ehf., hafi verið sá að ákvæði III. liðar 5. mgr. 4. gr. ætti einungis við þegar um samruna við þriðja aðila sé að ræða. Sé þessu stranglega mótmælt af hálfu stefnenda og sé skorað á stefnda að leggja fram sönnunargögn þessari fullyrðingu til stuðnings.
Þá sé í framangreindu bréfi lögmanns stefnda gefið í skyn að einn stefnenda, Signý Eiríksdóttir, hafi með því að koma að gerð hlutaskrár fyrir hið sameinaða félag, Mogul Holding ehf., með einhverjum hætti viðurkennt að ákvæði III. liðar 5. mgr. 4. gr. hafi ekki orðið virkt við samrunann eða þá að hún hafi með þessu afsalað sér rétti til að bera fyrir sig ákvæðið. Þessu sé mótmælt af hálfu stefnenda. Ljóst sé að Signý hafi einungis verið að uppfylla skyldur sínar sem stjórnarmaður hins sameinaða félags. Við gerð hlutaskrár sé einungis farið eftir þeim upplýsingum sem fyrir liggja, formlega séð, m.a. um að Mango Tree B.V. hafi yfir forgangshlutum að ráða. Þangað til að leyst hafi verið úr deilu aðila um hvort ákvæði III. liðar 5. mgr. 4. gr. hafi orðið virkt eða ekki, með umræddum samruna, sé ljóst að líta verði svo á að forgangshlutir séu formlega til staðar, enda séu þeir enn skráðir sem slíkir. Stefnendur telja hins vegar að efnislega hafi ákvæðið orðið virkt við samrunann og því hafi forgangshlutir breyst í almenna hluti eins og krafist sé að viðurkennt verði með dómi í þessu máli.
Þá beri að get þess að samþykktum Mogul Holding ehf. hafi ítrekað verið breytt eftir framangreindan samruna án þess að forgangshluthafar hafi hlutast til um að ákvæði III. liðar 5. mgr. 4. gr. verði breytt. Verði að telja að með þessu hafi þeir að vissu leyti viðurkennt skilning stefnenda á ákvæðinu.
Með hliðsjón af framangreindu sé þess krafist á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að viðurkennt verði með dómi að allir forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., hafi með framangreindum samruna breyst í almenna hluti.
II. Krafa um ógildingu hluthafasamkomulags.
Krafa stefnenda um ógildingu hluthafasamkomulags , dags. 30. nóvember 2007, milli Mango Tree B.V. (áður Brú II, Venture Capital Fund S.C.A, SICAR), annars vegar og stefnenda hins vegar, sé í fyrsta lagi byggð á ólögfestum reglum samningaréttarins um brostnar forsendur. Eðli málsins samkvæmt sé það forsenda fyrir því að krafan nái fram að ganga, á þessum grundvelli, að fallist verði á kröfu stefnenda í lið I hér að framan um að forgangshlutir í stefnda hafi breyst í almenna hluti.
Ljóst sé að umrætt hluthafasamkomulag hafi verið byggt á þeirri forsendu að Brú II (nú Mango Tree B.V), hefði yfir að ráða forgangshlutum í félaginu. Hafi þessi forsenda jafnframt verið ákvörðunarástæða í skilningi samningaréttarins, hjá stefnendum, fyrir undirritun samkomulagsins og augljóst að stefnendur hefðu aldrei skrifað undir slíkt samkomulag ef Brú II, hefði einungis átt almenna hluti í félaginu. Samkomulagið hafi því einungis verið gert til að kveða nánar á um og útfæra ýmis réttindi sem Brú II, naut sem forgangshluthafi sbr. áðurnefndar samþykktir Mogul Holding ehf.
Í öðru lagi sé krafa um ógildingu á því byggð að samkomulagið hafi fallið niður við framsal hlutafjár Brú II og Lime Tree til Mango Tree. Í hluthafasamkomulagi (Shareholders Consent and Waiver), dags. 23. júlí 2008, sé fjallað um framangreint framsal hlutafjár í Mogul Holding. Í þessu skjali séu nánar tilgreind þau réttindi og skyldur sem Mango Tree B.V. hafi undirgengist en hluthafasamkomulagsins milli stefnenda og Brú II, frá 30. nóvember 2007, sé þar hvergi getið. Telja stefnendur ljóst að samkomulagið hafi, samkvæmt þessu, fallið
niður við framsalið.
III. Krafa um að stefnda verði gert skylt að breyta samþykktum félagsins.
Eðli málsins samkvæmt sé það forsenda fyrir því að krafan nái fram að ganga að fallist verði á kröfu stefnenda í lið I hér að framan um að forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., hafi breyst í almenna hluti. Verði svo sé í framhaldi af því nauðsynlegt að stefndi breyti samþykktum sínum til samræmis við breytta stöðu hlutafjárflokka innan félagsins. Í 3. mgr. 4. gr. samþykktanna sé fjallað um það hvernig breyta skuli samþykktunum ef ske kynni að forgangshlutir breyttust í almenna hluti. Segir þar: „skulu samþykktir þessar þá breytast í samræmi við slíka umbreytingu á forgangshlutum í almenna hluti.“ Ljóst sé að, þrátt fyrir að fallist verði á að forgangshlutir hafi sjálfkrafa breyst í almenna hluti sbr. dómkröfu I, þá breytist samþykktir félagsins ekki af sjálfu sér heldur þurfi að breyta þeim til samræmis. Sé þess því krafist að stjórn stefnda, Mogul Holding ehf., verði gert skylt að viðlögðum dagsektum, að framkvæma umrædda breytingu. Um heimild til þessarar kröfugerðar er vísað til 4. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 (eml.) en þar segi:
„Ekki má skírskota í dómi til sannana eða atvika sem kunna síðar að koma fram. Þó má verða við kröfu um að stefnda verði gert að leysa af hendi skyldu gegn tilteknu gagngjaldi úr hendi stefnanda eða að skylda verði lögð á stefnda til annars en peningagreiðslu að viðlögðum dagsektum.“
Þá sé þess krafist að dómurinn ákvarði fjárhæð dagsekta og að við þá ákvörðun verði tekið tillit til eðlis dagsekta þ.e. að þeim sé ætlað að knýja aðila til að efna þá skyldu sem á hann hafi verið lögð með dómi.
Varakröfur:
I. Krafa um ógildingu 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda.
Ef ekki verði fallist á aðalkröfu I, þ. e. um að forgangshlutir hafi breyst í almenna hluti, þá sé gerð sú varakrafa að dómurinn ógildi 2. mgr. 21. gr. margnefndra samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf. en ákvæðið sé svohljóðandi:
„Forgangs hluthafar skulu eiga rétt til þess að félagið innleysi hluti þeirra, ef lög heimila, í fyrsta lagi 3 árum eftir dagsetningu samþykkta þessara. Innlausnarverð forgangshluta skal vera kaupverð þeirra að hlutum í félaginu við skráningu nýrra forgangshluta í ágúst 2006 að viðbættu 8% álagi fyrir hvert ár sem liðið er hafi það ekki verið greitt út til hluthafa á tímabilinu, nema að almennt markaðsverð hlutanna sé hærra og félagið og forgangs hluthafar þess séu sammála um slíkt verð. Verðmat skal framkvæmt af Straumi Burðaráss fjárfestingarbanka hf. komi félagið og forgangs hluthafar sér ekki saman um markaðsverð. Félagið skal hafa 60 daga til að greiða innlausnarverðið þegar það liggur fyrir. Hafi félagið ekki innleyst alla forgangs hluti samkvæmt þessu ákvæði innan 5 ára frá dagsetningu samþykkta þessara fellur niður réttur forgangs hluthafa til forgangs til úthlutaðs arðs. Skilyrði fyrir niðurfellingu þessa forgangs til 8% arðs af upphaflegu kaupverði er að félagið hafi greitt út arðinn til hluthafa öll 5 árin eða þar til forgangs hluthafi óskaði eftir innlausn.“
Í fyrsta lagi sé á því byggt að ákvæðið standist ekki reglur félagaréttarins um innlausn hluta. Eins og tekið sé fram í framangreindu ákvæði þá skulu forgangshluthafar einungis eiga rétt til innlausnar ef lög heimila. Í ehl. sé að finna nokkrar reglur um innlausn hluta í einkahlutafélögum. Þannig sé í 2. mgr. 7. gr. ehl. að finna upptalningu á ýmsum atriðum sem greina skuli í samþykktum einkahlutafélaga, en í 1. tl. ákvæðisins segi:
„hvort hluthafar skuli að nokkru eða öllu leyti sæta innlausn af hálfu félagsins eða annarra á hlutum sínum og eftir hvaða reglum“
Framangreint ákvæði hafi verið tekið orðrétt upp úr 11. tl. 6. gr. laga um hlutafélög nr. 32/1978 (brottfallin) en í greinargerð með þeim lögum segi um ákvæðið:
„Samsvarandi ákvæði er að finna í 6. tl. 3. gr. og 3. tl. 36. gr. gildandi laga. Áskilja má, að hluthafar séu skyldir til að þola innlausn á hlutum sínum, en setja þarf þá í drög að samþykktum reglur um innlausnina, sbr. ennfremur 42. gr. frumvarpsins, sem fjallar um lækkun hlutafjár með innlausn hluta eftir ákveðnum reglum.“
Með vísan til framangreinds orðalags sé ljóst að ekki sé gert ráð fyrir því að heimilt sé að kveða á um það í samþykktum einkahlutafélags að hluthafar eigi rétt til að félagið leysi til sín hluti þeirra. Þetta megi leiða af orðalaginu: „Áskilja má, að hluthafar séu skyldir til að þola innlausn á hlutum sínum [...]“ en samkvæmt gagnályktun frá þessu má ætla að óheimilt sé að áskilja að félag þurfi að leysa til sín hluti tiltekinna hluthafa.
Að öðru leyti en að framan greinir sé að finna nokkur ákvæði í ehl. um innlausn hluta. Þannig byggi lögin á því að eignist einhver hluthafi meira en 90% í félagi þá eigi hann rétt til að leysa til sín hluti annarra hluthafa í félagi, sbr. 16. gr. ehl., auk þess sem aðrir hluthafar í minnihluta eignist samskonar rétt gagnvart slíkum aðila, sbr. 18. gr. ehl. Þá sé einnig að finna nokkur sérákvæði um innlausnarrétt eða skyldu í vissum tilvikum í 2. mgr. 25. gr., 1. mgr. 37. gr., 6. mgr. 101. gr. og 106. gr. ehl. Í þessum ákvæðum sé hvergi fjallað um innlausnarskyldu félags gagnvart hluthöfum. Auk þessa sé ljóst að ehl. geri ekki ráð fyrir því að félög eigi meira en 10% af eigin hlutafé, sbr. 1. mgr. 38. gr. ehl. Sé því óeðlilegt að eftir 21. ágúst 2009 muni hvíla sú skylda á félaginu Mogul Holding ehf. að kaupa, eftir kröfu forgangshluthafa, 22.41% af eigin hlutum.
Þá sé jafnframt vísað til reglna Evrópusambandsins um innlausn hluta í hlutafélögum. Lög um einkahlutafélög nr. 138/1994 hafi verið byggð á Félagaréttartilskipununum 12 og áttu að uppfylla ýmsar skyldur íslenska ríkisins samkvæmt þeim. Í annarri Félagaréttartilskipuninni, „Capital Directive“ 77/91/ECC, séu m.a. reglur um innlausn hluta í 35., 38. og 39. gr. Sé þar m.a. að finna reglur um lokaða sjóði sem félög skuli hafa yfir að ráða sem innihaldi að minnsta kosti jafn mikið fjármagn og nauðsynlegt sé til að innleysa hluti sem félagið geti orðið skuldbundið til að leysa til sín samkvæmt samþykktum, frá síðara tímamarki. Sé það jafnframt gert að skilyrði fyrir því að hluthafi geti í þessum tilvikum krafist innlausnar félags að hluthafinn fái einungis greitt úr slíkum sjóðum, sbr. g-lið 1. mgr. 39. gr. tilskipunarinnar. Ekki sé í 21. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. kveðið á um slíka sjóði eða aðrar ráðstafanir til að tryggja að félagið geti uppfyllt skyldu sína samkvæmt ákvæðinu. Ljóst sé að verði ákvæði 21. gr. samþykktanna ekki breytt eða það dæmt ógilt geti það leitt til gríðarlegs tjóns fyrir stefnendur en framangreindum reglum annarrar Félagaréttartilskipunarinnar hafi einmitt verið ætlað að koma í veg fyrir slíkt.
Verði ekki fallist á að umrætt ákvæði 21. gr. samþykktanna brjóti gegn ákvæðum ehl., framangreindrar Félagaréttartilskipunar eða annarra reglna félagaréttarins eins og hér hafi verið lýst, sé í öðru lagi byggt á því að ákvæðið sé bersýnilega ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 (smnl.) Nánar tiltekið sé á því byggt að bersýnilega ósanngjarnt sé að leggja svo víðtæka skyldu á félagið að það þurfi í einu lagi að afla lausafjár til að greiða út hluthöfum 22.41% hluta félagsins samkvæmt markaðsvirði. Auk þessa sé bersýnilega ósanngjarnt að félagið skuli einungis hafa 60 daga til að greiða innlausnarverðið frá því að það liggi fyrir samkvæmt mati. Verði að telja þetta allt of skamman tíma fyrir félagið til að afla svo mikils lánsfjár og sé þess því krafist, verði ekki fallist á að ákvæði 21. gr. sé ógilt, að þessi frestur verði lengdur eins og fjallað verði nánar um í þrautavarakröfu. Þá sé í þessu sambandi sérstaklega vakin athygli á orðalagi 36. gr. smnl. en þar segir m.a. að ógilda megi samning ef það yrði talið andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Stefnendur telja það liggja ljóst fyrir að ef stefndi, Mango Tree B.V. myndi bera fyrir sig ákvæði 21. gr. þá yrði það talið andstætt góðri viðskiptavenju í skilningi 36. gr., þar sem slík ráðstöfun væri til þess eins fallin að keyra félagið í þrot ef ekki væri gefinn rýmri frestur en þeir 60 dagar sem 21. gr. geri ráð fyrir að félagið hafi til að greiða fyrir hlutina. Þá sé jafnframt vísað til 33. gr. smnl., varðandi það að ákvörðun um að bera fyrir sig 21. gr. á þann hátt sem að framan sé lýst hljóti að teljast óheiðarleg í skilningi 33. gr. smnl.
II. Krafa um að stjórn stefnda verði gert skylt að boða til hluthafafundar þar sem kosið verði um nýjan stjórnarformann félagsins í samræmi við reglur laga um einkahlutafélög.
Ágreiningur hafi verið milli stefnenda og stefnda, Mango Tree B.V. (Brú II), um hvernig eigi að túlka ákvæði 1. gr. framangreinds hluthafasamkomulags milli aðila, en ákvæðið sé svohljóðandi:
„Fjölskyldan standi saman að kjöri Signýjar Eiríksdóttur í stjórn félagsins til næstu þriggja ára fyrir hönd almennra hluthafa. Ofangreindu verður ekki breytt nema með samþykki Brú II. Fulltrúi Brú II í stjórninni verður Sigurður I. Björnsson og þriðji stjórnarmaðurinn sem samkvæmt samþykktum félagsins er stjórnarformaður, verður Ásta Þórarinsdóttir.“ [undirstrikun lögmanns stefnenda]
Brú II hafi haldið því fram að með framangreindu ákvæði hafi aðilar skuldbundið sig til næstu þriggja ára um kjör allra þriggja stjórnarmanna og því verði ekki breytt fyrr en að liðnum þeim tíma eða með samþykki Brú II (nú Mango Tree B.V.). Stefnendur vilja hins vegar túlka ákvæðið svo að þriggja ára skipunin hafi einungis náð til Signýjar Eiríksdóttur og því hafi með framangreindu ákvæði einungis verið ákveðið að stjórnarformaðurinn, Ásta Þórarinsdóttir, skyldi kjörin til eins árs eða fram að næsta aðalfundi félagsins. Sé þessi skilningur í fyrsta lagi byggður á skýringu ákvæðisins samkvæmt orðanna hljóðan en orðalagið „til næstu þriggja ára“ sé einungis notað um Signýju í ákvæðinu. Það styðji jafnframt þessa skýringu að 1. gr. hluthafasamkomulagsins hafi verið í upprunalegri mynd orðað á annan hátt en að framan greinir. Þegar Brú II lagði samkomulagið upphaflega fyrir stefnendur hafi ákvæðið verið orðað á eftirfarandi hátt:
„Fjölskyldan standi saman að kjöri Signýjar Eiríksdóttur í stjórn félagsins til næstu þriggja ára fyrir hönd almennra hluthafa. Fulltrúi Brú II í stjórninni verður Sigurður I. Björnsson og þriðji stjórnarmaðurinn sem samkvæmt samþykktum félagsins er stjórnarformaður, verður Ásta Þórarinsdóttir. Ofangreindu verður ekki breytt nema með samþykki Brú II.“
[undirstrikun lögmanns stefnenda]
Eins og sjá megi af ákvæðinu í þessari mynd þá hafi hin undirstrikaða setning verið færð síðar ofar í ákvæðið. Þetta hafi verið gert að beiðni Signýjar Eiríksdóttur þar sem hún hafi ekki viljað sætta sig við að Brú II hefði úrslitavald um það hvort eða hvenær nýr stjórnarformaður yrði kosinn, heldur skyldi kosning fara fram á aðalfundi félagsins ár hvert, sbr. 16. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. Hafi aðilar verið sammála um þennan skilning þegar framangreindu ákvæði hafi verið breytt á þann hátt sem hér hafi verið lýst.
Með vísan til framangreinds sé þess krafist að lagt verði fyrir stefnda, Mogul Holding ehf., að boða til hluthafafundar þar sem kjörinn verði stjórnarformaður félagsins, en stjórnin hafi hingað til algjörlega hundsað kröfur stefnenda í þessa átt. Í 16. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. sé ákvæði um stjórn félagsins og hvernig hún skuli kjörin, en þar segir m.a.:
„Stjórn félagsins skal skipuð þrem mönnum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn.
Almennir hluthafar kjósa 1 stjórnarmann og gilda atkvæði annarra hluthafa ekki við kosningu þess stjórnarmanns. Brú II ehf. kt. 690705-0790, skal kjósa einn stjórnarmann og gilda atkvæði annarra hluthafa ekki í kosningu þess stjórnarmanns.
Forgangs hluthafar og almennir hluthafar skulu koma sér saman um þriðja stjórnarmann félagsins, sem skal vera stjórnarformaður félagsins. Hljóti sá stjórnarmaður ekki atkvæði meira en helmings þeirra forgangshluta og almennra hluta sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundi skal héraðsdómur Reykjavíkur ákvarða á milli tveggja tilnefndra aðila. Skal forgangshluthöfum heimilt að tilnefna einn mann og almennum hluthöfum heimilað að tilnefna einn mann.“
Sé þess krafist að 3. mgr. 16. gr., um hvernig haga skuli kosningu stjórnarformanns á aðalfundi, verði ógilt og byggt verði á almennum reglum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 um kjör stjórnarformanns. Ástæða þessa sé sú að ákvæðið geri ráð fyrir því að ef ekki náist sátt um stjórnarformann þá skuli Héraðsdómur Reykjavíkur ákvarða milli þess aðila sem forgangshluthafar vilja og þess sem almennir hluthafar vilja. Verði að telja að það falli utan valdsviðs dómstóla að taka slíka ákvörðun enda sé ekki vísað til neinna hlutlægra mælikvarða um hvað skuli ráða ákvörðun héraðsdóms. Af þessum sökum yrði ákvörðunin eingöngu byggð á geðþótta þess dómara er hana tæki en slíkt samrýmist ekki 61. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um að dómendur skuli í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Þá samrýmist ákvæðið ekki heldur ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, er lúta að valdsviði dómstóla. Sé hér sérstaklega vísað til 24. gr. laganna þar sem segir að dómstólar hafi vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur nái til nema það sé skilið undan lögsögu þeirra samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu. Með vísan til þessa sé ljóst að það sé ekki í verkahring dómstóla að taka ákvarðanir um kjör stjórnarmanna einstakra fyrirtækja og yrði slíkri kröfu því augljóslega vísað frá dómi.
Á grundvelli framangreinds sé þess krafist að við kjör stjórnarformanns stefnda verði fylgt reglum 6. mgr. 39. gr. ehl. um kjör stjórnarmanna í félögum þar sem ekki sér að finna fyrirmæli í samþykktum um kjör stjórnarmanna.
Þrautavarakröfur:
I. Krafa um að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf., verði breytt á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Verði ekki fallist á varakröfu stefnenda um ógildingu 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda sé þess krafist að dómurinn breyti ákvæðinu á grundvelli þess að það sé bersýnilega ósanngjarnt í skilningi 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 (smnl.). Nánar tiltekið sé farið fram á eftirfarandi breytingar:
a) Að frestur til innlausnar verði lengdur
Telja stefnendur það ljóst að 60 daga fresturinn sem kveðið sé á um í ákvæðinu sé allt of skammur fyrir félagið til að afla svo mikils lánsfjár sem þyrfti til að leysa til sín 22.41% hlutafjár félagsins. Verði fresturinn látinn standa sé það til þess eins fallið að keyra félagið í þrot. Sé þess því krafist að fresturinn verði lengdur í allt að 365 daga, og dómnum þannig gefið svigrúm til að ákvarða félaginu sanngjarnan frest til að afla nauðsynlegs lánsfjár. Í þessu sambandi sé einnig vakin sérstök athygli á því erfiða ástandi sem nú ríki á fjármálamörkuðum, m.a. hvað varðar öflun lánsfjár, og telja stefnendur að líta þurfi til þess ástands við skýringu 36. gr. og þeirra krafna sem gerðar verða á grundvelli ákvæðisins.
b) Að innlausn sé einungis heimil ef félagið verður gjaldfært eftir innlausnina
Þá sé þess jafnframt krafist að ákvæði 2. mgr. 21. gr. verði breytt á þann veg að innlausn samkvæmt ákvæðinu megi einungis fara fram að fengnu skriflegu mati endurskoðanda félagsins sem sýni að greiðsla vegna innlausnar muni ekki leiða til greiðslustöðvunar eða gjaldþrots félagsins næstu 12 mánuði eftir að greiðsla sé innt af hendi. Þessi krafa sé jafnframt gerð á grundvelli 36. gr. smnl. en stefnendur telja að verði ákvæði 2. mgr. 21. gr. beitt á þann hátt að innlausn forgangshluthafa leiði til gjaldþrots félagsins, Mogul Holding ehf., þá sé um bersýnilega ósanngjarna niðurstöðu að ræða í skilningi 36. gr. Ljóst sé að það þjóni ekki hagsmunum neinna hluthafa félagsins að það verði tekið til gjaldþrotaskipta. Með vísan til þess sem áður segir telja stefnendur að rökin um erfitt ástand á fjármálamörkuðum hafi ekki síður áhrif á þennan hluta þrautavarakröfunnar og skýringu 36. gr. smnl. hvað þetta atriði varðar.
c) Að óháðu fjármálafyrirtæki verði falið að leggja mat á verðmæti félagsins.
Að lokum sé þess krafist að óháðu fjármálafyrirtæki verði falið að leggja mat á verðmæti félagsins. Í 2. mgr. 21. gr. segir að verðmat skuli framkvæmt af Straumi Burðaráss fjárfestingabanka hf. komi félagið og forgangs hluthafar sér ekki saman um markaðsverð. Stefnendur telja þetta atriði jafnframt bersýnilega ósanngjarnt í skilningi 36. gr. smnl. Ljóst sé að Straumur Burðarás eigi hlut í Brú II sem sé svo aðaleigandi stefnda, Mango Tree B.V. Af þessum sökum verði að telja félagið Straum Burðarás vanhæft til að framkvæma umrætt verðmat.
Um varnarþing
Um varnarþing stefndu Bergsveins Jónssonar og Mogul Holding ehf. sé vísað til 32. og 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um varnarþing hins erlenda aðila Mango Tree B.V. sé vísað hins vegar til samninga milli aðila um varnarþing. Þannig segi í upphaflegum áskriftarsamningi (Subsciption agreement for Convertible Preferred Shares in the firm Theater Mogul ehf.) milli Brú II og stefnenda, í 9. gr.: „The governing law of this agreement is Icelandic Law. All disputes must be resolved by the Reykjavík District Court.“ Sambærilegt ákvæði hafi jafnframt verið tekið upp í hluthafasamkomulag um framsal allra hluta í Brú II til Mango Tree B.V. (Shareholders Consent and Waiver) en þar segi um þetta atriði: „The governing law of this agreement is Icelandic Law. All disputes must be resolved by the Reykjavík District Court.“ Af þessum samningum leiði að varnarþing Mango Tree B.V. í málum er rísa vegna hlutafjár félagsins í Mogul Holding ehf. sé Héraðsdómur Reykjavíkur.
Heimild stefnenda til að fá viðurkenningardóm um kröfu sína sé byggð á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Heimild stefnenda til að krefjast sameiginlegrar aðildar stefndu sé byggð á 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Aðalkröfur stefnenda séu einkum byggðar á 94. gr. ehl., 1. tl. 1. mgr. 104. gr. ehl. og ólögfestum reglum samningaréttarins um brostnar forsendur. Þá sé um heimild til að krefjast dagsekta vísað til 114. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Fyrsta varakrafa stefnenda sé einkum byggð á 2. mgr. 7. gr. ehl., 16. gr. ehl., 18. gr. ehl. og 1. mgr. 38. gr. ehl. Þá sé krafan jafnframt byggð á reglum annarrar Félagaréttartilskipunar Evrópusambandsins nr. 77/91/ECC, einkum ákvæðum 35. gr. 38. gr. og 39. gr. Að lokum sé krafan byggð á 33. gr. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Önnur varakrafa stefnenda sé einkum byggð á 61. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 24. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þrautavarakröfur séu að meginstefnu byggðar á 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Málskostnaðarkrafa stefnenda sé byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Varðandi varnarþing er vísað til 32. gr. og 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda Mogul Holding ehf. vegna frávísunarkröfu
1. Krafa stefnda um frávísun máls
1.1 Vanreifun máls
Af hálfu stefnda Mogul Holding ehf. sé á því byggt að málið sé verulega vanreifað af hálfu stefnenda og kröfur þeirra ekki dómtækar, sbr. d.- og e.-liði 1. mgr. 80. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í fyrstu aðalkröfu stefnenda sé þess krafist að „forgangshlutir” í stefnda hafi breyst í „almenna hluti” við samruna félagsins við dótturfélag sitt. Sé fjöldi þeirra hluta sem dómkrafa stefnenda beinist að hins vegar ekki tilgreindur. Ekki fáist því séð hversu miklir hagsmunir séu í húfi. Þá séu þeir hlutir sem krafan varðar ekki tilgreindir sérstaklega með númerum og því óljóst hver eigi þá hagsmuni sem séu í húfi. Um sé að ræða hluti sem framseljanlegir séu til þriðja aðila.
Af þriðju aðalkröfu sé ekki alls kostar ljóst hvers stefnendur krefjist í raun af dóminum. Sé því ekki lýst að neinu leyti hvaða breytingar stefnda sé nauðsynlegt að gera á samþykktum til þess að forgangshlutir breytist í almenna hluti. Svo virðist því sem stefnendur krefjist þess að dómur ákveði sjálfur orðalag og innihald samþykkta stefnda. Ekki fáist séð að dómsorð sem byggt sé á þessari kröfugerð stefnenda geti ráðið ágreiningi aðila til lykta og sé því ekki unnt að byggja dóm á henni.
Af lestri málsástæðna er varða fyrri varakröfu stefnenda sé ómögulegt að henda reiður á rökstuðningi er hvíli að baki kröfunni eða á hvaða málsgrundvelli hún byggir. Lýsing stefnenda á málavöxtum og málsástæðum uppfylli ekki áskilnað e.-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýran og gagnorðan málatilbúnað. Sé því örðugt að grípa til varna vegna kröfunnar. Ótækt sé að varnir stefnda líði fyrir óskýran málatilbúnað í stefnu.
Hvað varðar síðari varakröfu stefnenda sé í fyrsta lagi bent á að þess sé hvergi getið í kröfunni fyrir hvaða tíma hluthafafundur skuli haldinn. Gæti stefndi því í raun boðað til hluthafafundar hvenær sem honum þóknaðist í ókominni framtíð og samt sem áður uppfyllt kröfu stefnenda í einu og öllu. Falli dómur stefnendum í vil í samræmi við orðalag kröfunnar sé ómögulegt að fullyrða hvenær stefnda væri það skylt að boða til hluthafafundar eða hvenær hann hefði vanrækt skyldu sína. Þegar af þeirri ástæðu sé krafan ekki til þess fallin að skapa stefnendum rétt á hendur stefnda. Í öðru lagi sé þess hvorki getið hversu háar dagsektir skuli lagðar á stefnda né frá og með hvaða tíma þær skuli lagðar á. Þess sé aðeins getið í umfjöllun um málsástæður að við ákvörðun um upphæð dagsekta skuli tekið mið af umfangi reksturs stefnda. Geti dómur auðsjáanlega ekki ákvarðað sjálfa upphæð dagsektanna enda sé tiltekinnar upphæðar ekki krafist sérstaklega, eða þá þess krafist að upphæðin skuli vera í samræmi við mat dómsins. Uppfylli krafan því ekki skilyrði d.- og e.-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Kröfugerð stefnenda í þrautavarakröfu sé ennfremur afar óljós. Virðast stefnendur t.a.m. krefjast þess að dómurinn ákveði inntak og efni ákvæðis 2. mgr. 21. gr. samþykkta hans og að efni ákvæðisins verði að hluta til breytt í samræmi við efnislýsingu samkvæmt þrautavarakröfu stefnenda. Ómögulegt sé að sjá það á kröfugerðinni hvort 2. mgr. 21. gr. samþykktanna skuli breytt og orðalag kröfunnar tekið orðrétt upp í ákvæðið eða hvort þess sé krafist að dómur verði kveðinn upp þess efnis að efnisatriði í kröfugerð stefnenda skuli tekin upp efnislega í samþykktir stefnda. Þá sé hvergi að finna rökstuðning fyrir kröfunni í málsástæðnakafla. Varnir stefnda í máli þessu velti að verulegu leyti á því hvors stefnendur krefjist í raun og veru og sé því erfitt fyrir stefnda að verjast slíkri kröfugerð og málatilbúnaði.
Að endingu skuli það nefnt að með þriðju aðalkröfu sinni krefjist stefnendur í raun þess sama og krafist sé í fyrstu aðalkröfu. Ekki sé unnt að fallast á báðar kröfur stefnenda í senn, þar eð þær skyldur sem krafist sé af stefnda í annarri kröfunni felist í raun í hinni. Varði það frávísun annarrar kröfunnar.
Samkvæmt framansögðu uppfylli málatilbúnaður stefnenda ekki skilyrði d.- og e.-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómsorð í samræmi við kröfugerð þeirra væri ekki til þess fallið að ráða til lykta ágreiningi aðila en myndi þess í stað aðeins skapa réttaróvissu. Að öðru leyti en greinir í umfjöllun hér að framan vísar stefndi til málsástæðna og rökstuðnings meðstefnda Mango Tree B.V. og gerir að sínum mutatis mutandis. Í ljósi þeirra miklu galla á málatilbúnaði stefnenda sem lýst hafi verið telur stefndi einsýnt að vísa beri máli þessu frá dómi í heild sinni. Afar erfitt sé að verjast kröfum stefnenda og málatilbúnaði þegar óljóst sé hvers sé í raun krafist af stefnda. Sé það ekki í verkahring stefnda að bæta úr vanköntum á málatilbúnaði stefnenda við meðferð málsins fyrir dómi.
a. Krafa um frávísun vegna skorts á samaðild
Stefndi telur að skilyrði 2. mgr. 18. gr. sbr. 1. mgr. sama ákvæðis séu ekki uppfyllt í máli þessu og beri því að vísa málinu frá dómi. Mango Tree B.V. sé stefnt í málinu vegna stöðu sinnar sem hluthafi í stefnda Mogul Holding ehf. Ekki hafi þó öllum öðrum hluthöfum í stefnda verið stefnt í máli þessu eða stjórn félagsins. Guðmundur Magnason, Brautarási 12, Reykjavík sé eigandi 666.000 hluta í stefnda. Eigi hann óskipt réttindi og beri óskipta skyldu með aðilum þessa máls. Þar sem Guðmundur Magnason sé hvorki einn stefnenda í málinu né einn af stefndu sé ljóst að um skort á samaðild sé að ræða. Þar sem kröfum sé beint að stjórn stefnda hefði verið nauðsynlegt að stefna henni allri.
Þá felist í fyrstu og þriðju aðalkröfu, auk fyrri varakröfu og þrautavarakröfu kröfur um breytingar á samþykktum stefnda. Breytingar á samþykktum krefjist einnig aðkomu hluthafa og stjórnar félagsins. Þar sem þeim aðilum sé ekki jafnframt stefnt í máli þessu sé skortur á samaðild fyrir hendi er varði frávísun krafnanna.
1.3 Sakarefnið eigi ekki undir ákvörðunarvald dómstóla
Stefndi byggir jafnframt á þeirri málsástæðu að sakarefnið í fyrstu og þriðju aðalkröfu, auk sakarefnis í varakröfu og þrautavarakröfu eigi ekki undir ákvörðunarvald dómstóla. Samþykktum verði aðeins breytt af hluthöfum stefnda á löglega boðuðum hluthafafundi. Sé það ekki í verkahring dómstóla að hlutast til um breytingar á samþykktum félaga, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Beri því að vísa fyrrgreindum kröfum frá dómi.
1.4 Dómur krafinn álits en ekki um úrlausn á deilu aðila
Stefndi telur að í fyrri varakröfu og þrautavarakröfu felist lögspurning og krafa um álit dómstóla á efni þeirra. Krefjist stefnendur þess annars vegar að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda verði dæmt ógilt en hins vegar að ákvæðinu verði breytt. Þess hafi þó aldrei verið krafist að stefndi innleysi hluti forgangshluthafa. Hafi ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykktanna aldrei verið beitt eða reynt að byggja á því rétt af hálfu stefnda, forgangshluthafa eða annarra hluthafa. Hafi stefnendur því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um álitaefnið. Beri því að vísa kröfunum frá dómi, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi byggir kröfur sínar um frávísun einkum á ákvæðum 18. gr., 1. mgr. 24. gr., 1. mgr. 25. gr. og d.- og e.- liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda Mango Tree B.V. vegna frávísunarkröfu
Stefndi Mango Tree B.V. byggir kröfu sína um frávísun málsins í fyrsta lagi á því að málshöfðun stefnenda sé andstæð samaðildarreglu 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og því beri að vísa málinu frá dómi og dæma stefnendur til að greiða stefnda málskostnað. Þessu til stuðnings bendir stefndi á að nauðsyn samaðildar til sóknar- eða varnar ráðist af efni máls og þeim réttarreglum, sem gildi um það.
Samaðild í máli þessu ráðist því m.a. af reglum félagaréttar um einkahlutafélög, samþykktum Mogul Holding, hlutahafasamningum og örðum skjölum er varða réttarstöðu hluthafa innbyrðis og gagnvart félaginu. Samkvæmt 12. gr. samþykkta Mogul Holding skuli boða til hluthafafunda í félaginu með tilkynningu til hvers hluthafa í ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða á annan jafnsannanlegan hátt. Í 2. mgr. 12. gr. samþykktanna segir að hluthafafundur sé lögmætur sé hann löglega boðaður og sé mætt fyrir minnst helming alls hlutafjár. Fari boðun hluthafafundar ekki fram með þeim hætti sem samþykktirnar bjóði sé ekki hægt að halda löglegan hluthafafund, nema allir hluthafar mæti og fallist á frávik frá reglum um boðun. Ákvarðanir, sem hluthafar taki á ólöglegum hluthafafundi, hafi ekkert gildi fyrir þann eða þá hluthafa, sem ekki hafi verið boðaðir löglega til hluthafafundarins. Þannig yrði samþykktum félags ekki breytt með löglegum hætti, ef fundur væri ólögmætur, þó til fundarins væru mættir hluthafar sem færu með nægjanlegan fjölda og magn atkvæða til að breyta samþykktunum.
Stefndi kveður að til þessa verði að horfa þegar metin sé nauðsyn samaðildar varnarmegin í máli þessu, þar sem stefnendur hafi uppi kröfur, er varða breytingar á samþykktum meðstefnda, Mogul Holding; kröfur sem hafi veruleg áhrif á hagsmuni annarra almennra hluthafa þar á meðal hagsmuni Guðmundar Magnasonar, sem þó sé ekki stefnt í máli þessu. Sé það í raun óskiljanleg ráðstöfun af hálfu stefnenda þegar horft sé til þess að Bergsveini Jónssyni sé stefnt til að þola dóm í máli þessu. Einkamál, sem bindi ekki alla, sem beinna hagsmuna hafi að gæta af efnisdómi í því, fari í bága við samaðildarreglur réttarfarslaga. Beri því að vísa máli þessu frá dómi.
Stefndi bendir einnig á að kröfugerð stefnenda lúti í raun að því að fá breytt ákvörðunum stjórna tveggja einkahlutafélaga. Ákvörðunum þeirra verði ekki breytt án þess að þær eigi aðild að því dómsmáli, þar sem um þær sé fjallað. Stefnendur geti ekki bætt úr þessum göllum á málatilbúnaði sínum eftir að frávísunarkrafa sé fram komin, sbr. 2. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála.
Stefndi kveður málssókn stefnenda ekki aðeins fara í bága við samaðildarreglur réttarfarslaga heldur sé kröfugerð og málatilbúnaður stefnenda að öðru leyti ekki í samræmi við 80. gr. laga um meðferð einkamála. Samkvæmt 80. gr. einkamálalaga skuli stefna greina svo glöggt sem verða má dómkröfur stefnanda, sbr. d-lið 1. mgr. ákvæðisins. Stefndu kveða framlagða stefnu í máli þessu ekki geyma glögga kröfugerð. Settar séu fram, aðalkrafa með þremur undirkröfum, varakrafa með tveimur undirkröfum og þrautavarakrafa.
Í fyrstu aðalkröfu stefnenda sé höfð uppi einhvers konar viðurkenningarkrafa á hendur meðstefnda, Mogul Holding, í þá veru að allir forgangshlutir í félaginu hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt. Hvergi í stefnu sé sýnt fram á eða færð rök fyrir því við hvaða verði forgangs hlutir skuli breytast í almenna hluti. Stefndi kveður kröfu þessa svo óljósa að hún uppfylli ekki skilyrði d-liðar 1. mgr. 80. gr. um form eða efni krafna í viðurkenningarmáli. Í viðurkenningarmálum sé hægt að krefjast viðurkenningar á tilteknum réttindum, ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu. Viðurkenningarkrafa stefnanda feli ekkert af þessu í sér. Óljóst sé með öllu hvort kröfunni sé beint að stefnda, Mango Tree, og meðstefnda, Bergsveini Jónssyni, sem báðir eigi forgangshluti í Mogul Holding. Sætti stefnendur sig ekki við ákvörðun stjórnar meðstefnda Mogul Holding varðandi samruna dótturfélags og móðurfélags, verði að höfða mál til ógildingar á þeirri ákvörðun. Stefnandinn Signý Eiríksdóttir yrði þá væntanlega bæði til sóknar og varnar í slíku máli, þar sem hún hafi setið í stjórn Leikhúsmógúlsins og stjórn dótturfélags þess Mogul Holding þegar ákvörðun um samruna félaganna var tekin. Signý hafi undirritað öll skjöl og skilríki, sem samrunanum tengdust án nokkurs fyrirvara um að forgangs hlutir í Leikhúsmógúlnum hefðu átt að breytast í almenna hluti við samruna Mogul Holding við félagið.
Í annarri aðalkröfu sé krafist ógildingar á hluthafasamkomulagi milli stefnenda og stefnda, Mango Tree, dagsettu 30. nóvember 2007. Sú krafa byggir á, að aðalkrafan verði tekin til greina. Verði máli ekki vísað frá dómi í heild, heldur einstökum kröfum felur frávísun fyrstu aðalkröfu í sér að þessi krafa sé sjálfkrafa niður fallin.
Í þriðju aðalkröfu sé þess krafist að lagt verði fyrir stefnda, Mogul Holding, að viðlögðum dagsektum, að gera þær breytingar á samþykktum félagsins sem nauðsynlegar séu til samræmis við breytingu á forgangs hlutum í almenna hluti. Í stefnu geri stefnendur ekki minnstu tilraun til að tilgreina þau ákvæði samþykktanna sem stefndi, Mogul Holding, eigi að gera breytingar á að viðlögðum dagsektum. Krafa þessi sé svo óljós að efnisdómur verði ekki á hana lagður. Stefndi, Mogul Holding, verði heldur ekki með dagsektum skikkaður til að breyta samþykktum, sem um starfsemi hans gilda. Samþykktum verði aðeins breytt á hluthafafundum af hluthöfum, sem ráði yfir þeim atkvæðafjölda er þurfi til breytinga á þeim samkvæmt samþykktum félagsins og lögum. Það sé því ekki á færi dómstóla að ákveða eða breyta efni samþykkta meðstefnda, Mogul Holding; samþykkta sem hafi á vettvangi félagsins fengið stjórnskipulega rétta umfjöllun og afgreiðslu, sbr. að þessu leyti 4. mgr. 71. gr. laga um einkahlutafélög. Sakarefni þetta eigi því ekki undir dómstóla. Beri því að vísa kröfu þessari frá dómi, sbr. 24. gr. laga um meðferð einkamála.
Stefndi kveður hið sama gilda um frávísun á fyrstu varakröfu stefnenda og rakið var hér að framan.
Stefndi kveður að vísa beri frá dómi annarri varakröfu stefnenda, þar sem engu sakarefni sé til að dreifa. Stjórn meðstefnda, Mogul Holding, hafi ekki látið undir höfuð leggjast að boða til hluthafafunda, sem hlutahafar hafi óskað eftir. Stefnendur hafi í það minnsta ekki lagt fram nein gögn um synjun stjórnar og þeir hafi í framhaldi ekki leitað til ráðherra af því tilefni samkvæmt 62. gr. laga um einkahlutafélög. Meðan atbeina ráðherra hafi ekki verið leitað sé það ekki dómsstóla að skikka stjórn Mogul Holding til að halda hluthafafundi að viðlögðum dagsektum. Beri því að vísa kröfu þessari frá dómi á grundvelli 24. gr. laga um meðferð einkamála.
Stefndi kveður þrautavarakröfu stefnenda vera sama marki brennda og aðrar kröfur þeirra í máli þessu, sem fjallað hafi verið um hér að framan. Sakarefnið eigi ekki undir dómstóla og því beri að vísa henni frá sbr. 24. gr. laga um meðferð einkamála.
Stefndi kveður málatilbúnað stefnenda að öðru leyti ekki vera í samræmi við réttarfarsreglur og feli m.a. í sér lögspurningar, sem sé andstætt 1. mgr. 25. gr. einkamálalaga.
Lýsing málsatvika og málsástæðna verði seint talin fullnægja því skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. að teljast gagnorð og skýr. Þetta geri það að verkum að í raun sé með öllu óljóst hvert sakarefni máls þessa sé. Stefnendur reki þannig í lögnu máli misklíð í stjórn Mogul Holding og óánægju sína með störf stjórnarinnar og þó sérstaklega stjórnarformannsins. Þá sé í stefnu fjallað um að stjórn félagsins skirrist við að boða til hluthafafunda að beiðni stefnenda. Engin gögn séu þó lögð fram fullyrðingu þessari til sönnunar.
Loks benda stefndu á að stefnendur hafi lagt fram nokkur skjöl á ensku án þess að íslensk þýðing þeirra liggi fyrir. Á efni þessara skjala sé byggt af stefnanda, ef mið sé tekið af stefnu. Framlagning skjala á erlendum tungumálum sé andstæð þeirri reglu 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð einkamála að þingmálið sé íslenska. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skuli skjali á erlendu tungumáli að jafnaði fylgja þýðing á íslensku að því leyti sem byggt sé á efni þess, nema dómari telji sér fært að þýða það. Þar til yfirlýsing liggi fyrir um að dómari telji sér fært að þýða hin erlendu skjöl sé gerð krafa um þýðingu þeirra.
Niðurstaða
Í fyrstu aðalkröfu krefjast stefnendur þess að viðurkennt verði að forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., (áður Leikhúsmógúllinn ehf.), hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt Mogul Holding ehf. Af hálfu beggja stefndu er á því byggt að þessi dómkrafa sé svo óljós að vísa beri henni frá dómi, auk þess sem málshöfðun stefnenda brjóti í bága við samaðildarreglu 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í 4. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. segir að hlutafé félagsins skiptist í forgangshluti og almenna hluti. Er þar tilgreint að forgangshlutir séu að fjárhæð kr. 1.415.250 og almennir hlutir að fjárhæð kr. 3.330.000. Í 5. mgr. 4. gr. samþykktanna er greint frá þeim tilvikum sem leiða til þess að forgangshlutir í félaginu breytast sjálfkrafa í almenna hluti. Þar segir í lið iii) að það gerist ef félagið sameinast öðru félagi, er yfirtekið af öðru félagi eða ráðandi hlutur í því er seldur. Byggja stefnendur á því að forgangshlutir í Mogul Holding hefðu breyst í almenna hluti, þegar Leikhúsmógúllinn ehf. sameinaðist dótturfélagi, en sú sameining var miðuð við 30. júní 2008. Efnislegur ágreiningur er með aðilum um það atriði. Verður að telja að unnt sé að leysa úr þeim ágreiningi fyrir dómi á grundvelli kröfugerðar stefnenda. Þá verður ekki fallist á að málshöfðun stefnenda, eins og hún er úr garði gerð, sé andstæð 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um samaðild. Hafnað er því kröfum stefndu um frávísun þessa kröfuliðar.
Í annarri aðalkröfu krefjast stefnendur þess að hluthafasamkomulag, dags. 30. nóvember 2007, milli Mango Tree B. V. (áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A, SICAR), annars vegar og stefnenda hins vegar, verði dæmt ógilt. Krafa þessi er í þeim tengslum við fyrstu aðalkröfu stefnenda að um hana verður einnig dæmt efnislega í málinu. Hafnað er því kröfum stefndu um frávísun þessa kröfuliðar.
Í þriðju aðalkröfu krefjast stefnendur þess að lagt verði fyrir stefnda, Mogul Holding ehf., að viðlögðum dagsektum, að gera þær breytingar á samþykktum félagsins sem nauðsynlegar eru til samræmis við breytingu forgangshluta í almenna hluti. Dómkrafa þessi er óljós þar sem ekki vísað til þeirra ákvæða samþykkta félagsins sem nauðsynlegt er að breyta í þessu skyni. Verður því fallist á málsástæður stefndu um það að þessari kröfu skuli vísað frá dómi.
Í fyrri varakröfu krefjast stefnendur þess að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf., verði dæmt ógilt. Tilgreint ákvæði samþykktanna varðar rétt forgangshluthafa til þess að félagið innleysi hluti þeirra. Ekki er fallist á málsástæður stefndu fyrir því að þessari kröfu skuli vísað frá dómi og er því hafnað.
Í síðari varakröfu krefjast stefnendur þess að lögð verði sú skylda á stjórn stefnda, Mogul Holding ehf., að viðlögðum dagsektum, að boða til hluthafafundar þar sem kosið verði um nýjan stjórnarformann í samræmi við reglur laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.
Í rökstuðningi stefnenda fyrir þessari kröfu kemur m.a. fram að þess sé krafist að 3. mgr. 16. gr., samþykkta stefnda Mogul Holding ehf. um hvernig haga skuli kosningu stjórnarformanns á aðalfundi verði ógilt og við kjör stjórnarformanns stefnda verði fylgt reglum 6. mgr. 39. gr. laga um einkahlutafélög. Er þeirrar kröfu þó ekki getið í kröfugerð stefnenda. Er að þessu leyti um að ræða ósamræmi milli kröfugerðar og málsástæðna, sem er andstætt ákvæðum e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt 62. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 skal félagsstjórn annast boðun til hluthafafunda. Ef félagið hefur enga starfandi stjórn eða félagsstjórn lætur hjá líða að boða til hluthafafundar sem halda skal samkvæmt lögum, félagssamþykktum eða ákvörðun hluthafafundar skal ráðherra láta boða til fundarins ef stjórnarmaður, framkvæmdastjóri, endurskoðandi, skoðunarmaður eða hluthafi krefst þess. Með bréfi til viðskiptaráðherra, dags. 16. júní sl., hefur Guðmundur Magnason, hluthafi í stefnda Mogul Holding ehf., farið þess á leit að ráðherra hlutist til um hluthafafund í félaginu á grundvelli lagaákvæðis þessa. Að svo komnu þykir þessi krafa stefnenda ekki eiga undir úrlausn dómstóla og er fallist á kröfu stefndu að henni skuli vísað frá dómi.
Til þrautavara krefjast stefnendur þess að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf., verði breytt og (a) frestur félagsins gagnvart forgangshluthafa sem krefst greiðslu á sínum hluta matsverðs verði lengdur í allt að 365 daga, (b) að félaginu sé einungis skylt að greiða forgangshluthafa, sem krefst þess, hluta hans í matsverðinu að fengnu skriflegu mati endurskoðanda félagsins sem sýni að greiðslan muni ekki leiða til ógjaldfærni félagsins, þ. á m. hvorki til greiðslustöðvunar né gjaldþrots þess næstu 12 mánuði eftir að greiðslu skal inna af hendi, og (c) að óháðu fjármálafyrirtæki verði falið að leggja mat á verðmæti félagsins.
Með kröfugerð þessari eru stefnendur að krefjast þess að dómurinn taki ákvörðun um og breyti ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta Mogul Holding ehf., eins og krafist er. Það er ekki hlutverk dómstóla að hlutast til um það, enda er æðsta vald í málefnum félagsins í höndum hluthafafunda, sbr. 10. gr. samþykkta félagsins og ákvæði 13. gr. samþykktanna um breytingu á ákvæðum þeirra, sbr. einnig 55. gr., 68. og 69. gr. laga nr. 138/1994. Verður því fallist á með stefndu að þessari kröfu verði vísað frá dómi.
Samkvæmt framansögðu ber að vísa frá dómi þriðju aðalkröfu, annarri varakröfu og þrautavarakröfu stefnenda. Að öðru leyti verða kröfur stefnenda teknar til efnislegrar úrlausnar.
Málskostnaður í þessum þætti bíður efnisdóms.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Þriðju aðalkröfu, annarri varakröfu og þrautavarakröfu stefnenda er vísað frá dómi. Að öðru leyti verða kröfur stefnenda teknar til efnislegrar úrlausnar.
Málskostnaður í þessum þætti bíður efnisdóms.