Hæstiréttur íslands
Mál nr. 251/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 2. júlí 2003. |
|
Nr. 251/2003. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 3. júlí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Sóknaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 26. júní 2003. Hann krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 9. júlí nk.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði er varnaraðili grunaður um að hafa veitt A fimm stunguáverka aðfaranótt 1. júní 2003. Í skýrslu Þóru Steffensen réttarmeinafræðings 27. júní 2003 um réttarmeinafræðilega rannsókn, sem lögð hefur verið fyrir Hæstarétt, kemur fram það álit að hver og einn þriggja áverkanna hefði verið nægjanlegur til að valda dauða A, ef hann hefði ekki komist eins fljótt til aðgerðar eins og raun varð á. Hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi óslitið frá 4. júní sl. á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Sóknaraðili krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 25. júní sl. að gæsluvarðhald yfir varnaraðila yrði framlengt til 9. júlí nk. Í málatilbúnaði sóknaraðila kemur fram að rannsókn málsins beinist meðal annars að því hvort fleiri en varnaraðili hafi verið að verki umrætt sinn. Sé grunur um það reistur á framburði vitna og fái stoð í fyrrgreindri skýrslu Þóru Steffensen. Bíði sóknaraðili meðal annars eftir bráðabirgðaniðurstöðum úr DNA rannsókn frá Noregi. Nauðsynlegt sé að taka frekari skýrslur af vitnum og grunuðum mönnum.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir því að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi. Samkvæmt því verður krafa sóknaraðila tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði, en ekki eru efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 9. júlí nk. kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2003.
Ár 2003, fimmtudaginn 26. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Valtý Sigurðssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík krafðist þess í gær að X verði með vísan til a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 9. júlí 2003 kl. 16.00.
Dómarinn tók sér frest til ákvörðunar um niðurstöðu úrskurðarins.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kl. 6.02 að morgni sunnudagsins 1. júní sl. hafi lögreglunni í Reykjavík borist tilkynning um fjöldaslagsmál í Hafnarstræti í Reykjavík. Þegar lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi þeim verið tilkynnt að maður hefði verið stunginn með hnífi. Í ljós hafi komið að um hafi verið að ræða A og hafi hann í skyndi verið fluttur á bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss.
Samkvæmt læknisvottorði Þorvalds Jónssonar læknis á Landspítala háskólasjúkrahúsi, dags. 13. júní sl., hafi A við komu á sjúkrahúsið reynst vera með lífshættulega áverka sem honum hafi verið veittir með beittu lagvopni. Fram komi í vottorðinu að hann hafi verið með fimm sár, þar af hafi verið þrjú sem gengið hafi inn í líkamshol. Tvö sár hafi verið á lifur og eitt á gallblöðru sem hafi valdið miklu blóðtapi. Stórt sár hafi verið á hægri brjóstkassahluta með mjög virkri blæðingu frá slagæðum og hafði það lag gengið í gegnum gollurshús og að hluta í gegnum hjartavegg.
Rannsókn málsins hafi leitt í ljós að til átaka hafi komið á milli tveggja hópa manna í miðbæ Reykjavíkur um nóttina og framundir morgun. A hafi verið staddur í Hafnarstræti þegar hann hafi orðið fyrir framangreindri árás og hafi verið um 70 manns á vettvangi þegar lögreglan hafi komið þar að. Fjöldi manna hafi verið handtekinn en kærði hafi ekki verið á meðal þeirra. Sjálfur hafi hann tjáð lögreglu að hann hafi hlaupið í burtu og tekið leigubifreið til [...].
Rannsókn máls þessa hafi verið haldið sleitulaust áfram frá því atvik þetta átti sér stað. Í fyrstu hafi grunur lögreglu einkum beinst að þremur samlöndum kærða en þann 3. júní sl. hafi kærði gefið skýrslu hjá lögreglunni í Reykjavík og játað að hafa átt þarna hlut að máli. Lögreglan telji rökstuddan grun um að kærði hafi ekki verið einn að verki. Sé sú grunsemd lögreglu m.a. byggð á framburði nokkurra vitna sem beri að 2-3 menn hafi veist að brotaþola og að tveir hnífar hafi verið á lofti þegar þetta hafi átt sér stað. Þá hafi brotaþoli lýst því að hann hafi fengið á sig nokkur högg í sitt hvora síðuna, að því er hann taldi samtímis.
Rannsókn málsins hafi reynst mjög umfangsmikil og flókin og þrátt fyrir að mikil vinna hafi verið lögð í rannsóknina sé enn ýmislegt óljóst um málsatvik. Enn sé beðið eftir niðurstöðu úr DNA-rannsókn sem fram fari í Noregi en þess sé að vænta að niðurstaða liggi fyrir í næstu viku. Sé þar m.a. um að ræða rannsókn á ætluðu árásarvopni, blóðsýni sem tekið hafi verið af öðrum hugsanlegum sakborningi og fatnaði hans. Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur, vinni nú að álitsgerð um hvernig líklegt sé að staðið hafi verið að árásinni, m.a. með tilliti til þess hvort þar hafi verið einn eða fleiri menn að verki. Muni hún skila álitsgerð um þessi atriði í lok vikunnar eða byrjun næstu viku. Vinna tæknideildar embættisins sé á lokastigi en deildin eigi m.a. eftir að vinna úr myndbandsupptökum sem teknar hafi verið á vettvangi en það hafi reynst mjög tímafrek vinna. Loks megi nefna að nauðsyn beri til þess að yfirheyra aftur nokkur vitni og hugsanlega samseka á grundvelli þeirra gagna sem þegar hafi verið aflað og þeirra rannsókna sem nú sé unnið að.
Kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa veitt brotaþola lífshættulega áverka með hnífi. Kærði hafi játað að hafa átt þátt í árásinni en lögreglan telji að rökstuddur grunur leiki á því að annar maður eða aðrir menn hafi auk kærða átt þarna hlut að máli. Ef kærði haldi frelsi sínu nú hafi hann tök á því að torvelda rannsókn málsins m.a. með því að hafa áhrif á hugsanlega samseka og vitni málsins. Beri því brýna nauðsyn til þess að hann sæti gæsluvarðhaldi meðan rannsókn málsins fari fram.
Vísað er til þess að lögreglan í Reykjavík rannsaki nú ætlað brot kærða sem talið sé varða við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19,1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.
Niðurstaða
Að morgni sunnudagsins 1. júní sl. hlaut brotaþoli lífshættulega áverka af völdum fimm stungusára í miðbæ Reykjavíkur. Í beinu framhaldi af atburðinum voru nokkrir aðilar handteknir og var kærði ekki þar á meðal en hann gaf sig fram síðar. Var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald 4. júní sl. Kærði hefur viðurkennt aðild sína að árásinni en lögregla telur sig hafa rökstuddan grun um að kærði hafi ekki verið einn að verki. Á þeim tíma frá því að atvikið varð hefur lögregla yfirheyrt mikinn fjölda vitna og bera nokkur þeirra að tveir hnífar hafi verið á lofti þegar atvikið varð. Upplýst var af fulltrúa lögreglu í þinghaldinu að Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur. hafi munnlega staðfest að áverkarnir væru ekki af völdum eins hnífs. Sú álitsgerð mun þó ekki liggja endanlega fyrir fyrr en um helgina.
Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er ljóst að rannsókn málsins er enn ekki lokið og beinist hún nú einkum að vísbendingum eru að kærði hafi ekki verið einn að verki. Ber að fallast á með lögreglu að kærði gæti torveldað rannsóknina færi hann frjáls ferða sinna á meðan hún er á þessu stigi. Með vísan til a- liðar 1 mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála er því krafa lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina að öðru leyti en því að gæsluvarðhaldtíminn ákvarðast allt til fimmtudagsins 3. júlí nk. kl. 16.00.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 3. júlí 2003 kl. 16.00.