Hæstiréttur íslands
Mál nr. 421/2006
Lykilorð
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Aðfinnslur
|
|
Mánudaginn 2. apríl 2007. |
|
Nr. 421/2006. |
Ákæruvaldið(Björn Þorvaldsson settur saksóknari) gegn Jóhanni Jóhannssyni (Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.) |
Staðgreiðsla opinberra gjalda. Aðfinnslur.
J, sem var framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins R, var sakfelldur fyrir að hafa með aðgerðarleysi sínu við að skila inn skilagreinum og staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldin var eftir af launum starfsmanna félagsins, af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Brot J var einnig talið varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing J var ákveðin fangelsi í 3 mánuði, skilorðsbundið í tvö ár, og 2.800.000 króna sekt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Pétur Kr. Hafstein fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 20. júlí 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur að því er ákærða varðar.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Það er athugavert að í héraðsdómi er á nokkrum stöðum vísað til dómskjala með því að nefna númer skjalanna í framlagningarröð fyrir dómi, en án þess að gera nægilega grein fyrir efni þeirra.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Jóhanns Jóhannssonar, og sakarkostnað hvað hann varðar.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 366.367 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Óla Björgvinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. maí sl., er höfðað með ákæru ríkislögreglustjórans, útgefinni 30. ágúst 2005 á hendur Jóhanni Jóhannssyni, Galtalind 11, Kópavogi og X [heimilisfang].
Ákærða, Jóhanni sem framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins Rex, [kennitala] og ákærða X, sem stjórnarmanni í félaginu, eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa ekki afhent skattyfirvöldum skilagreinar vegna greiðslna til launamanna hjá félaginu frá maí 2002 til desember 2002 og ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir að launum starfsmanna hlutafélagsins í eftirgreindum tilvikum, ákærða, X, fyrir að hafa ekki staðið skil á 3.030.451 krónu, en ákærða, Jóhanni, fyrir að hafa ekki staðið skil á 2.766.638 krónum, en þá hefur verið dregin frá heildarvanskilum staðgreiðsla vegna launa hans. Vanskil sundurliðast þannig:
Greiðslutímabil: Heildarvanskil:
Maí kr. 2.531
Júní kr. 310.230
Júlí kr. 291.290
Ágúst kr. 377.695
September kr. 365.885
Október kr. 626.976
Nóvember kr. 460.076
Desember kr. 277.116
Ódagsett kr. 318.652
Samtals: kr. 3.030.451
Greiðslutímabil: Vanskil að frádregnum vanskilum vegna launa ákærða Jóhanns:
Maí kr. 2.531
Júní kr. 310.230
Júlí kr. 291.290
Ágúst kr. 377.695
September kr. 317.890
Október kr. 578.981
Nóvember kr. 398.762
Desember kr. 218.602
Ódagsett kr. 270.657
Samtals: kr. 2.766.638
Telur ákæruvaldið þessa háttsemi varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1955 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998 og krefst þess að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Ákærði, X, krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi hans málsvarnarlauna að mati dómsins.
Ákærði, Jóhann, krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi hans málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik.
Ákærði, X, hefur játað þá háttsemi sem í ákæru greinir, en ákærði, Jóhann, neitar sök og byggir vörn sína á því að hann hafi ekki verið framkvæmdastjóri félagsins í raun. Hann kveður ákærða, X hafa séð um þau mál félagsins sem lutu að bókhaldi og fjármálum.
Ákærðu, Jóhann og X, stofnuðu einkahlutafélagið Rex 22. apríl 2002. Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár sátu þeir einir í stjórn félagsins og var ákærði, Jóhann, tilgreindur sem framkvæmdastjóri félagsins. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 3. desember 2003. Skiptum á búinu lauk 3. nóvember 2004.
Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins frá 24. maí 2004 hófst rannsókn skattrannsóknarstjóra 17. mars 2004, með því að tilkynning var send skiptastjóra þrotabús skattaðilans. Í skýrslunni kemur fram að á því tímabili sem rannsóknin tók til, hafi einungis ákærðu setið í stjórn félagsins. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra kvað ákærði, Jóhann, að meðákærði, X, og A, fyrrum bókari skattaðilans hefðu séð um daglegan rekstur félagsins, en ákærði, X, sagði í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra að meðákærði, Jóhann hefði séð um daglegan rekstur skattaðilans. Skýrsla skattrannsóknarstjóra var send ákærðu og A, svo og skiptastjóra í þrotabúi skattaðilans og mótmæli bárust frá ákærðu og A. Andmælin þóttu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni og var niðurstaða skýrslunnar sú að vangoldin staðgreiðsla árið 2002 hafi numið 3.030.451 krónu.
Skattrannsóknarstjóri ríkisins aflaði upplýsinga frá innheimtumanni ríkissjóðs um hvort greitt hefði verið inn á staðgreiðsluskuld skattaðilans eftir það tímamark er greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, þ.e. eftir 17. mars 2004, en svo reyndist ekki vera.
Samkvæmt yfirliti yfir afdregna staðgreiðsluskatta af launum launþega Rex ehf. vegna tímabilanna maí til og með desember 2002, nam afgoldin staðgreiðsla eftir lögboðinn gjalddaga 2.776.638 krónum, eftir að dregin hafði verið frá staðgreiðsla af launum ákærða, Jóhanns, sem samtals nam 263.813 krónum.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Jóhann, kvað að í febrúar-mars 2002 hafi ákærði, X, komið að máli við sig og óskað eftir samstarfi við sig varðandi veitingarekstur hjá Rex. Þeir hafi breytt staðnum mikið, þar sem fyrirhugað hafi verið að reka þar veitingastað, en ekki einungis bar. Breytingarnar hafi hafist í apríl 2002. Þær framkvæmdir hafi vínbirgjar og meðákærði, X, fjármagnað, auk þess sem tekið hafði verið lán frá B hf. Rætt hafi verið um að ákærði, X, legði fram fé, en ákærði, Jóhann ætti að sjá um að ná í gestina. Fyrir það átti hann að fá 10 % eignarhald. Þá átti ákærði að vera með prókúru til að geta gefið út ávísanir til að borga birgjum. Einnig kvaðst ákærði hafa gefið út ávísanir vegna framkvæmda í byrjun. Varðandi skráningu ákærða sem framkvæmdastjóra félagsins, kvað ákærði að dag einn hefði X haft tilkynningu til Hlutafélagaskrár tilbúna og kallað í ákærða og beðið hann að skrifa undir. Hafi ákærði gert það í flýti og hafi meðákærði, X, sagt við ákærða að hann hafi skráð ákærða, Jóhann, sem framkvæmdastjóra, þar sem meðákærði, X, gæti ekki sjálfur verið framkvæmdastjóri. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hvað fælist í því að vera framkvæmdastjóri, enda kvaðst ákærði ekki hafa haft reynslu af því áður. Ákærði kvað fjármálastjórn hafa verið í höndum meðákærða, X. Ákærði kvaðst hafa séð um dagleg samskipti við starfsfólk og vaktafyrirkomulag. Þá hafi ákærði séð um að koma upplýsingum um tímakaup og tímafjölda starfsmanna til A, bókara félagsins, en hún hafi séð um að reikna út launin og greiða þau út. Ákærði kvaðst hafa séð um að greiða laun fyrir desember 2002, þar sem A hefði þá verið hætt. Ákærði kvaðst hafa verið veitingastjóri, en ákærði, X, hafi séð um fjármál félagsins. Þó kvaðst ákærði hafa séð um að greiða birgjum, með ávísun. Bókhald félagsins hafi verið geymt í Lækjargötu á skrifstofu meðákærða, X, og starfsstöð A bókara. Spurður um það hvort ákærði hefði haft aðgang að bókhaldi félagsins, kvað ákærði að sér hefði verið neitað um aðgang eftir að ákærði komst að því hversu illa félagið væri statt. Fram að þeim tíma kvað ákærði að hann hefði getað farið til A eða X til að fá aðgang að bókhaldinu ef hann hefði óskað eftir því, en hann hafi ekki gert það. Ákærði kvað uppgjör hvers dags hafa farið þannig fram að í lok dagsins, eða morguninn eftir hefði ákærði, Jóhann, gert upp posana og peningana og sett í umslög og skilið eftir í peningaskáp staðarins og X hefði svo náð í það.
Spurður um yfirlit í gögnum málsins, merkt sem V/1.1.1, kvaðst ákærði hafa lagt þessi gögn fram við rannsókn málsins, en gögnin hefði hann fengið hjá A. Ákærði kvaðst hafa handskrifað sjálfur inn á yfirlitið, samkvæmt upplýsingum sem hann aflaði úr banka sínum. Ákærði kvaðst ekki draga í efa að fjárhæðir í ákæru væru réttar.
Í október eða nóvember 2002 hafi þeir X og ákærði, hitt C, sem hafi látið þá vita að fjárhagsleg staða félagsins væri ekki allt of góð varðandi skuldastöðu við D. Þeir hafi beðið hann um að sýna smá biðlund varðandi skuldir félagsins. Eftir þennan fund hafi C hringt í ákærða og spurt hvernig honum litist á að hann, þ.e. C, kæmi inn í félagið til að rétta af fjárhagsstöðu þess. Kvaðst ákærði hafa sagt að honum litist vel á það. C hafi svo greitt inn í félagið 2,5 milljónir. Þá vikuna hafi ákærði spurt meðákærða, X, hvernig staðan væri og hafi hann sagt stöðuna vera góða. Þegar ákærði hafi farið að kanna þetta nánar, hafi komið í ljós að staðan var mjög slæm og hann hafi komið að lokuðum dyrum hjá birgjum. Því hafi ákærði farið í Landsbanka Íslands og fengið yfirlit yfir færslur af reikningi félagsins. Ákærði hafi því búið til lista, sem hann hefur lagt fram. Með þennan lista hafi þeir C farið á fund meðákærða, X, og spurt hvernig stæði á því að svo virtist sem meðákærði, X, væri að greiða fyrir einkaneyslu af reikningi félagsins. Meðákærði, X, hafi ekki verið sáttur við þetta. Í kjölfar þessa hafi hann reynt að fá meðákærða til að afhenda bókhaldið, en illa gengið. Í febrúar 2003 hafi verið svo komið fyrir félaginu, að ekki var hægt að halda rekstri þess áfram. Ákærði kvaðst ekki hafa hugmynd um hvers vegna afdregin staðgreiðsla var ekki greidd til innheimtumanns ríkissjóðs. Ákærði kvað aldrei hafa verið haldna stjórnarfundi í félaginu. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað um vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda í desember 2002.
Ákærði var spurður um dómskjöl nr. 20 og 21, þ.e. afrit af tveimur ávísunum. Ákærði kvað undirritun sína vera á báðum ávísununum, en með þeim hafi átt að greiða E, sem er fyrirtæki með ræstivörur, en ákærði kvaðst ekki vita hvað verið var að greiða með hinni ávísuninni.
Ákærði staðfesti lögregluskýrslu sem hann gaf í málinu.
Ákærði, X, kvaðst hafa kynnst meðákærða, Jóhanni, þegar Jóhann starfaði sem veitingastjóri á Kaffi Óperu. Ákærði kvað það ekki rétt að hann hefði haft frumkvæði að því við meðákærða að þeir opnuðu saman veitingastað, heldur hafi það verið á hinn veginn, að ákærði, X hafi látið tilleiðast, að beiðni meðákærða. Ákærði kvaðst hafa ráðið bókara til að sjá um bókhald félagsins og hafi bókari séð um að greiða reikninga sem bárust og greiða laun. Hún hafi greitt launin með bankalínu í heimabanka. Bókhald félagsins hafi verið geymt að Lækjargötu [...] og hafi meðákærði oft komið til hans ef eitthvað vantaði, en verið mest á veitingastaðnum sjálfum, í Austurstræti. Meðákærði, Jóhann, hafi alveg séð um rekstur staðarins. Ákærði kvað fjármálastjórn hafa verið í höndum þeirra tveggja og hafi meðákærði haft aðgang að bókhaldinu, ef hann hefði viljað. Ákærði kvað ástæðu þess að svo fór fyrir staðnum, sem raun bar vitni, hafa verið þá að staðurinn náði engum vinsældum. Ákærði kvað ekki rétt að meðákærða hafi verið neitað um aðgang að bókhaldi. Ákærði var spurður um það hver hefði tekið ákvörðun um að greiða ekki afdregna staðgreiðslu. Kvað ákærði engan hafa þurft til að taka þá ákvörðun, peningar hefðu ekki verið til fyrir þeim, og þeir peningar sem til voru hafi rétt dugað til að greiða laun og greiða inn á skuldir birgja. Nánar spurður kvað ákærði að þeir Jóhann hefðu sameiginlega rætt um hverjum ætti að greiða hverju sinni. Ákærði kvaðst að lágmarki hafa sett 12.000.000 króna inn í rekstur staðarins.
Ákærði var spurður um tvö dómskjöl, annars vegar dómskjal nr. 8 og hins vegar nr. 19. Ákærði kvað dómskjal nr. 8 þannig til komið að hann hefði farið á Tollstjóraskrifstofu, stuttu eftir að ákæra var gefin út og óskað eftir því að fá að greiða skuld sem ákæra lýtur að, en honum hafi verið tjáð að ekki væri víst að greiðslan færi inn á þá kröfu sem ákærufjárhæð lýtur að. Ávísunin á dómskjali nr. 19 sé til komin vegna þessa.
Ákærði kvaðst ekki gera athugasemdir við fjárhæðir í ákæru. Ákærði var spurður um það hvers vegna ekki hafi verið skilað skilagreinum til skattyfirvalda. Kvað ákærði skýringuna þá að ekki hafi verið til peningar fyrir greiðslunum og því hafi skilagreinum ekki heldur verið skilað. Það hafi verið svo frá upphafi rekstrarins að peningar voru ekki nægir til að skila afdreginni staðgreiðslu. Ákærði staðfesti skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu 22. febrúar 2005 og að þar væri rétt eftir honum haft. Bornar voru undir ákærða ávísanir merktar sem dómskjal nr. 20 og 21. Kvaðst ákærði hafa þurft að greiða þær sjálfur, þar sem ekki hafi reynst innistæða fyrir þeim.
Vitnið, A,, kvaðst hafa starfað sem bókari hjá Rex ehf. Hún hafi reiknað út laun. Vitnið kvað ákærða, X, hafa verið yfirmann sinn. Vitnið kvað reikninga vegna matar og annarrar vöru hafa verið staðgreidda við komu á veitingastaðinn, en hún hafi greitt eitthvað í heimabanka. Vitnið kvað ákærða, Jóhann, hafa verið á veitingastaðnum en hann hafi haft aðgang að bókhaldi félagsins, ef hann hefði viljað. Vitnið kvaðst hafa fengið allar tölur og reikninga frá honum, sem greiða átti. Vitnið kvað það örugglega einhvern tíma hafa borist í tal að opinber gjöld hafi ekki verið greidd. Vitnið kvað að sér hefði aldrei verið falið að skila skilagreinum og aldrei verið falið að greiða opinber gjöld. Vitnið kvað ákærðu í sameiningu hafa tekið ákvörðun um hvað yrði greitt og hvað ekki. Vitnið kvað ástæðu þess að opinber gjöld voru ekki greidd, hafa verið þá að ekki voru til peningar til þess. Vitnið kvaðst í upphafi hafa séð um að greiða laun, en síðustu mánuðina hafi ákærði, Jóhann, séð um það. Vitnið kvað þau X hafa verið kærustupar á þessum tíma, en kvað að fjögur ár væru frá því að þau skildu að skiptum og kvaðst hún hvorki bera sérstakan hlýhug til ákærða í dag, né vera illa við hann.
Vitnið, F, kvaðst hafa verið að vinna fyrir Ísfossa, sem var eigandi Rex ehf. á sínum tíma. Á einhverjum tímapunkti hafi ákærði, Jóhann, og C komið til vitnisins vegna þess að einhver vandræði höfðu þá komið upp í samstarfi milli ákærða Jóhanns og ákærða X. Ákærði, Jóhann, hafi verið orðinn uggandi um sinn hag, þar sem hann hafi verið framkvæmdastjóri, en ekki verið með fingurna á peningamálunum, heldur hafi hann verið meira í því að sjá um rekstur staðarins. Þetta hafi þeir Jóhann og C sagt vitninu. Vitnið kvað þá C og Jóhann hafa átt í erfiðleikum með að fá upplýsingar úr bókhaldi félagsins.
Vitnið, G, kvaðst hafa séð um að fara yfir bókhald félagsins í nóvember 2002 og fram í janúar 2003. Ákærði, X, hafi ráðið hann til þessa starfa og hafi hann sett vitnið inn í starfið. Vitnið kvað sér hafa verið tjáð að ákærði, Jóhann, sæi um daglegan rekstur staðarins, en X væri með þessa bókhaldsþjónustu fyrir Rex ehf. Vitnið kvað bókhald félagsins hafa verið geymt í Lækjargötu. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að ákærði, Jóhann, hafi haft aðgang að bókhaldi félagsins. Ákærði, Jóhann, hafi einhvern tíma beðið vitnið um upplýsingar úr bókhaldi og hafi vitnið tjáð ákærða að hann myndi koma þeim skilaboðum til meðákærða, X, og svo myndu þeir Jóhann og X ræða það sín á milli. Vitnið kvað bókhaldið hafa verið mjög illa fært þegar vitnið kom að því. Vitnið kvað A hafa sagt að ákærði, Jóhann, ætti ekki að fá neinar upplýsingar úr bókhaldi nema í gegnum X. Vitnið kvaðst ekki reka minni til að hafa séð að um uppsafnaða staðgreiðsluskuld var að ræða og kvaðst vitnið telja að það hafi ekki verið rætt. Vitnið kvaðst ekki vita hvers vegna skilagreinum var ekki skilað og hvers vegna opinberum gjöldum var ekki skilað. Vitnið kvaðst hafa séð um útreikning á greiðslu launa, en kvaðst ekki vita hvor þeirra ákærðu hafi séð um að greiða launin út.
Vitnið, H, kvað ákærða, Jóhann, hafa komið að máli við vitnið og borið upp við vitnið hvort vitnið vildi taka þátt í rekstri veitingahússins Oro með þeim ákærðu, Jóhanni og X. Vitnið kvaðst hafa tekið vel í það í fyrstu, en horfið frá því. Vitnið kvað að ákærði, X, hafi átt að sjá um rekstur og bókhald, en ákærði, Jóhann, hafi átt að vera þjónninn og sjá um þann hluta rekstrarins, en vitnið hafi átt að sjá um matseldina.
Vitnið, C, kvaðst hafa selt veitingastaðnum vín, en fyrirtæki vitnisins sé víninnflytjandi. Það hafi gengið vel í upphafi rekstrar Rex, en á fyrri hluta árs 2002, eða um mitt árið, hafi vitnið farið á fund með eigendum staðarins, ákærðu, X og Jóhanni og hafi þeir verið að reyna að semja við vitnið um greiðslufrest. Vitnið kvað ákærða, Jóhann, hafa haft frumkvæði að því að koma á fundi varðandi greiðslustöðu félagsins. Vitnið kvað þó hugsanlegt að þessi fyrsti fundur þeirra hafi verið síðar en um mitt árið 2002. Það sé ekki ólíklegt þar sem ekki hafi liðið mjög langur tími frá því að sá fundur var haldinn og þar til vitnið hefði lagt fram fé til rekstrarins. Hafi átt að ráðstafa hluta af þeirri greiðslu til að lækka skuld félagsins við fyrirtæki vitnisins. Vitnið hafi greitt inn í reksturinn 2,5 milljónir króna 18. október 2002. Ákærði, Jóhann, hafi farið að athuga hvert sú greiðsla hafi runnið og hafi þá komið upp einhverjar efasemdir um að greiðslan hefði farið inn í reksturinn. Á fundum vitnisins og ákærða, Jóhanns með X hafi þeir ítrekað beðið ákærða, X, um að fá að sjá bókhald félagsins, en það hafi gengið illa. Þeir hafi ekki fengið bókhald félagsins, eingöngu einhvers konar útprentun úr bókhaldi í lok ársins 2002, eða byrjun árs 2003. Vitnið og ákærði, Jóhann, hafi beðið um að bókhald félagsins yrði fengið óháðum aðila til skoðunar.
Niðurstaða.
Í málinu hafa ekki verið gerðar athugasemdir við ákærufjárhæð.
Ákærði, Jóhann, hefur byggt vörn sína á því að hann hafi ekki starfað sem raunverulegur framkvæmdastjóri félagsins og ekki haft innsýn í bókhald félagsins, en óumdeilt er að ákærði var skráður sem framkvæmdastjóri félagsins frá stofnun þess. Ákærði hefur borið fyrir dómi að hann hafi haft prókúru á bankareikning félagsins og séð um að borga birgjum, séð um að koma upplýsingum um tímakaup og tímafjölda starfsmanna til bókara félagsins, A, og greiða laun vegna desembermánaðar 2002. Þá hefur ákærði borið fyrir dómi að hann hefði getað fengið aðgang að bókhaldi félagsins, ef hann hefði óskað eftir því við A, eða meðákærða, X, en hann hefði ekki gert það, fyrr en hann vissi að í óefni var komið hjá félaginu.
Meðákærði, X, kvað þá báða hafa haft fjármálastjórn félagsins með höndum og að þeir hefðu tekið sameiginlega ákvörðun um hvaða skuldir átti að greiða hverju sinni. Ákærði, X, kvað að alveg frá því að rekstur félagsins hófst, hafi hann staðið í járnum og þegar í upphafi hafi ekki verið nægir peningar til að greiða afdregna staðgreiðslu. Því hafi ekki verið talin ástæða til að skila inn skilagreinum til skattyfirvalda.
Vitnið, A, sem starfaði sem bókari hjá félaginu, kvaðst hafa fengið þá reikninga frá ákærða, Jóhanni, sem greiða átti og kvað þá ákærðu Jóhann og X hafa tekið sameiginlega ákvörðun um hvað greiða átti hverju sinni.
Þegar litið er til framangreinds framburðar ákærða sjálfs um verksvið hans í félaginu og framburðar meðákærða, X og A um það að þeir hafi staðið saman að töku ákvarðana um hvaða skuldir átti að greiða hverju sinni, er að mati dómsins fram komið að í verkahring ákærða voru störf sem almennt eru falin framkvæmdastjórum félaga.
Ákærði bar sem framkvæmdastjóri ábyrgð á því að starfsemi og skipulag félagsins væri í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Þar undir fellur ábyrgð á því að staðin séu skil á afdreginni staðgreiðslu en samkvæmt 1. málslið 3. mgr. sömu greinar skal félagsstjórn annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins og framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur. Undan þessari ábyrgð getur ákærði ekki vikist með því að bera fyrir sig vanþekkingu á skyldum og ábyrgð framkvæmdastjóra.
Ákærði, X, hefur játað brot sitt og samrýmist játning hans gögnum málsins. Hann er sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir.
Með aðgerðarleysi sínu um að skila inn skilagreinum og greiða lögboðin gjöld hafa ákærðu af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Með háttsemi sinni hafa ákærðu því gerst sekir um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, en þau verður að telja stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varða brot ákærðu því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og í ákæru greinir
Ákvörðun viðurlaga.
Með 1. gr. laga nr. 134/2005 var kveðið á um að fésektarlágmark samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda eigi ekki við, hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu samkvæmt skilagrein staðgreiðslu, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur séu miklar.
Samkvæmt 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ber að dæma eftir nýrri löggjöf, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu, hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður er framinn og til þess að dómur gengur. Verður því í máli þessu að taka afstöðu til hvort ákærðu hafi fullnægt skilyrðum hinna breyttu lagaákvæða.
Í málinu er fram komið að ákærðu skiluðu engum skilagreinum til skattyfirvalda vegna afdreginnar staðgreiðslu og ekkert greiddist inn á skuldina eftir gjalddaga hennar. Því eru ekki skilyrði til að beita fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 134/2005 í máli þessu.
Refsiákvörðun.
Ákærði, Jóhann, hefur ekki áður sætt refsingum sem áhrif geti haft á ákvörðun refsingar í máli þessu. Brot ákærða fólst ekki aðeins í að skila ekki afdreginni staðgreiðslu til innheimtumanns ríkissjóðs, heldur einnig í því að skila ekki staðgreiðsluskilagreinum. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 3 mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingar ákærða og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá verður ákærði með vísan til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, samhliða skilorðsbundinni refsivist, dæmdur til greiðslu sektar sem þykir hæfilega ákveðin 2.800.000 krónur og greiðist í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en ella sæti ákærði fangelsi í 48 daga. Við ákvörðun fjárhæðar sektar er höfð hliðsjón af dómvenju í sambærilegum málum þegar um tvo eða fleiri ákærðu er að ræða.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóhanns, Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, þykja hæfilega ákveðin 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Verður ákærða gert að greiða þau með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991.
Ákærði, X, hefur ekki áður sætt refsingum sem áhrif geti haft á ákvörðun refsingar í máli þessu. Brot ákærða fólst ekki aðeins í að skila ekki afdreginni staðgreiðslu til innheimtumanns ríkissjóðs, heldur einnig í því að skila ekki staðgreiðsluskilagreinum. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 3 mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingar ákærða og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá verður ákærði með vísan til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, samhliða skilorðsbundinni refsivist, dæmdur til greiðslu sektar sem þykir hæfilega ákveðin 3.400.000 krónur og greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en ella sæti ákærði fangelsi í 52 daga. Við ákvörðun fjárhæðar sektar, er höfð hliðsjón af dómvenju í sambærilegum málum þegar um tvo eða fleiri ákærðu er að ræða.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, Guðbjarna Eggertssonar héraðsdómslögmanns, þykja hæfilega ákveðin 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Verður ákærða gert að greiða þau með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991.
Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Jóhann, Jóhannsson sæti fangelsi í 3 mánuði, en frestað er fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði 2.800.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en ella sæti ákærði fangelsi í 48 daga.
Ákærði, Jóhann, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 mánuði, en frestað er fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði 3.400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en ella sæti ákærði fangelsi í 52 daga.
Ákærði, X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.