Hæstiréttur íslands
Mál nr. 394/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst héraðsdómi 19. júní 2017 og réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 14. júlí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að farbanni verði beitt í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að X, fæddum [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram, allt til föstudagsins 14. júlí 2017, klukkan 16.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að embættið hafi nú til rannsóknar mál er varði innflutning fíkniefna hingað til lands. Lögreglu hafi borist upplýsingar þess efnis að til stæði að flytja inn mikið magn af sterkum fíkniefnum til landsins með ferjunni Norrænu. Lögreglan hafi því verið með eftirlit á tollsvæðinu á Seyðisfirði þegar ferjan kom til landsins 25. apríl sl.
Bifreiðin [...] hafi vakið athygli lögreglu og tollvarða og hafi hún verið tekin til frekari skoðunar. Ökumaður bifreiðarinnar hafi verið meðkærði Y og hafi afskipti lögreglu og tollvarða af honum og bifreiðinni orðið til þess að grunsemdir vöknuðu um að í bifreiðinni væru falin fíkniefni. Lögreglan hafi í framhaldinu fengið heimild héraðsdóms til að koma fyrir eftirfararbúnaði og hljóðupptöku í bifreiðinni, sem og í farsíma Y.
Bifreiðinni hafi verið fylgt eftir til Reykjavíkur og hafi meðkærði Y ekið sem leið liggur til Keflavíkur þar sem hann hafi sótt kærða X á flugvöllinn. Þeir hafi síðan ekið að gistiheimilinu [...] þar sem þeir hafi átt pantað herbergi.
Hinn 27. apríl sl. hafi kærðu Y og X farið í verslunina [...] og keypt þar topplyklasett, sexkanta, nælonhanska, skrúfjárn og vigt. Hafi lögreglu grunað að þessi verkfæri væru ætluð til að ná fíkniefnum úr bifreiðinni. Kærðu Y og X hafi verið handteknir síðdegis 27. apríl sl. á gistiheimilinu [...] með rúmlega eitt kíló af fíkniefninu MDMA. Þegar þeir hafi verið handteknir hafi kærði X verið búinn að setja um helming efnanna inn á vasa á yfirhöfn sinni. Við leit í bifreiðinni [...] hafi fundist um tvö kíló af MDMA, en þau fíkniefni hafi verið í eins pakkningum og fíkniefnin sem áður höfðu fundist í herberginu á gistiheimilinu. Telji lögregla að kærðu hafi ætlað að afhenda efnin einhverjum óþekktum aðila.
Samkvæmt niðurstöðu Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði sé um mjög sterkt efni að ræða, en styrkur fíkniefnisins MDMA í sýninu hafi verið 80-81%, sem samsvari 95-96% af MDMA-klóríði.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi meðkærði Y verið inntur eftir því hvort hann þekkti einhvern á Íslandi. Hann hafi þá sagst vera að koma í heimsókn til [...] vinar síns, en þar hafi hann átt við kærða X. Hann hefði kynnst kærða í gegnum netið, þ.e. í gegnum auglýsingu um vinnu. Meðkærði Y hafi tjáð lögreglu að hann hefði ekið frá [...] til [...]. Bremsurnar á bílnum hefðu bilað og hefði hann þá hringt í kærða. Þeir hefðu ákveðið að hittast í [...] og hefði hann stoppað á [...], rétt fyrir utan [...]. Kærði X hefði farið með bílinn og verið nokkra klukkutíma í burtu. Af sms-samskiptum Y og X megi ráða að meðkærði Y hafi vitað af fíkniefnunum í bílnum. Í farsíma hans hafi fundist sms-samskipti milli hans og kærða X frá 23. apríl þar sem meðkærði Y hafi spurt kærða X við hverju hann skyldi búast ef þeir tækju hann til hliðar þegar hann færi úr ferjunni. X hafi sent honum svar um hæl um að hann skyldi vera slakur og rólegur því að hundur og röntgen ættu ekki séns í þetta, að hundur finni þetta ekki. Meðkærði Y hafi borið um að hann hefði hringt í kærða við komu sína til landsins og þá hafi kærði sagt honum að hann væri að koma með flugvél og að Y ætti að sækja hann. Eftir að kærði X hafði lent hefði hann hringt í Y sagt honum að hann væri kominn í gegn og að Y ætti að koma að sækja hann.
Í greinargerðinni segir að meðkærða Y hafi verið kynnt að lögregla hefði verið með herbergishlustun á hótelherbergi hans og kærða í herbergi nr. [...] að [...] í [...]. Í þeirri hlustun heyrðist Y spyrja kærða hvort kærði hefði sett þetta í sokka svo að það kæmu engin fingraför. Meðkærði Y hafi ekki getað svarað þessu, en hann lýsti sig hins vegar saklausan af þessu. Hann hafi ekki vitað um efnin, en þau gætu hafa verið sett í bílinn í [...].
Kærði X hafi að mestu neitað að tjá sig við skýrslutöku hjá lögreglu. Hafi hann sagst hafa komið hingað til lands vegna byggingarmála. Við skoðun á síma hans megi sjá að hann hafi leitað að bifreið af gerðinni [...] í janúar. Þá hafi hann einnig leitað að leiðbeiningum um hvernig fjarlægja megi mælaborð úr [...]-bifreiðum og ennfremur leitað að upplýsingum um fíkniefnið MDMA. Fram hafi komið í eftirliti lögreglu að kærði hitti mann sem lögregla þekki vegna fíkniefnamála og hafi kærði rætt við hann í dágóða stund. Kærði hafi ekki viljað tjá sig um það.
Rannsókn lögreglu sé nú á lokastigi. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 28. apríl sl. og hafi úrskurður héraðsdóms verið staðfestur í Hæstarétti sbr. dóm nr. 291/2017. Hann hafi nú sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála frá 19. maí sl.
Í ljósi ofangreinds og þeirra gagna sem lögreglan hafi aflað sé það mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að kærði sé undir sterkum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum hingað til lands. Ljóst sé að fíkniefnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á sé þess krafist að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Eins og að framan greinir hefur kærði frá 19. maí sl. sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dóm Hæstaréttar 24. maí 2017 í máli nr. 323/2017. Í þeim dómi var því slegið föstu að kærði væri undir sterkum grun um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað gæti allt að 12 árum. Að öðru leyti var í dómi Hæstaréttar vísað til forsendna héraðsdóms þar sem fallist var á að nauðsynlegt væri með tilliti til almannahagsmuna að kærði sætti áfram gæsluvarðhaldi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ekkert er fram komið í málinu sem breytir þessu mati og er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi áfram á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, allt eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, fæddur [...], sæti gæsluvarðhaldi áfram allt til föstudagsins 14. júlí nk., klukkan 16.