Hæstiréttur íslands
Mál nr. 20/2002
Lykilorð
- Skaðabætur
- Missir framfæranda
- Óvígð sambúð
- Dráttarvextir
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2002. |
|
Nr. 20/2002. |
X(Helgi Birgisson hrl.) gegn Páli Skúlasyni og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Skaðabætur. Missir framfæranda. Óvígð sambúð. Dráttarvextir.
Aðilar deildu um upphafstíma dráttarvaxta á bætur sem stefndi VÍS greiddi X fyrir missi framfæranda vegna andláts barnsmóður hans, A, sem lést í bifreiðaslysi í september 1996. VÍS hafði áður hafnað bótaskyldu þar sem ekki þætti unnt að fullyrða á grundvelli fyrirliggjandi gagna að X og A hafi verið í sambúð þegar A lést. Lagði X fram frekari gögn til staðfestingar á sambúð hans og A fyrir tjónanefnd vátryggingarfélaganna, sem lagði til 15. febrúar 2000, að fallist yrði á rétt X til bóta. VÍS hafnaði enn bótaskyldu og fór X með málið fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, sem staðfesti niðurstöðu tjónanefndar. Með dómi Hæstaréttar 1. mars 2001 í forsjármáli, sem foreldrar A höfðuðu á hendur X, var á það fallist að X hafi verið í sambúð með A þegar hún lést, en kröfur foreldra A byggðust á því að svo hefði ekki verið. Að gengnum þeim dómi greiddi VÍS lágmarksbætur til X samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga. Hæstiréttur taldi að X hafi ekki sýnt nægilega fram á að hann hafi verið í sambúð með A þegar hún lést fyrr en hann lagði erindi sitt, ásamt gögnum til staðfestingar sambúðinni, fyrir tjónanefnd vátryggingarfélaganna, sem nefndin tók afstöðu til 15. febrúar 2000. Þótti X því eiga rétt til dráttarvaxta af kröfu sinni frá 15. mars 2000, þegar mánuður var liðinn frá þeim degi er tjónanefnd komst að niðurstöðu sinni. Var með þessu hvorki fallist á aðalkröfu X né varakröfu. Þótti 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála ekki standa í vegi fyrir að X yrði dæmd sú fjárhæð sem af þessari niðurstöðu leiddi, enda sýnilegt að í heild yrði krafan lægri í þessari mynd en næmi heildarfjárhæð aðalkröfu eða varakröfu þegar tillit hefði verið tekið til áfallinna vaxta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2002. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða sér 3.172.750 krónur með 2% ársvöxtum frá 16. september 1996 til 11. júní 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.949.723 krónum. Til vara krefst áfrýjandi að stefndu verði dæmdir til að greiða sér 3.256.050 krónur með 2% ársvöxtum frá 16. september 1996 til 25. desember 1998, en frá þeim degi með dráttarvöxtum eins og að framan greinir, allt að frádreginni áðurnefndri innborgun. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast stefndu þess að þeim verði aðeins gert að greiða áfrýjanda dráttarvexti af 3.172.750 krónum frá 5. maí 2000 til 1. mars 2001 og falli þá málskostnaður niður.
I.
Eins og rakið er í héraðsdómi lést A í bifreiðarslysi 16. september 1996. Óumdeilt er í málinu að stefndu beri fébótaábyrgð vegna tjóns, sem hlaust af því slysi. A hafði eignast barn með áfrýjanda í febrúar 1996, en það var þó ekki feðrað fyrr en að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember sama árs. Með símbréfi til stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. 11. maí 1997 gerði áfrýjandi sem sambúðarmaður A heitinnar kröfu um greiðslu bóta fyrir missi framfæranda samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þessu bréfi fylgdu yfirlýsingar nokkurra manna, þar sem staðfest var að áfrýjandi og hin látna hafi búið saman og verið leigutakar hjá þeim eða í nábýli við þá á fjórum nánar tilgreindum stöðum á tímabilinu frá júní 1994 til september 1996. Bréfleg afstaða stefndu til kröfu áfrýjanda liggur ekki fyrir í málinu, en óumdeilt er að stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafnaði henni. Áfrýjandi leitaði á ný til félagsins með símbréfi 25. nóvember 1998 og ítrekaði kröfu sína um bætur. Lagði hann þá fram auk áðurgreindra yfirlýsinga staðfestingu Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, þar sem meðal annars kom fram að áfrýjandi hafi fylgt A í mæðraskoðanir á meðgöngutíma barns þeirra. Jafnframt lagði hann fram húsaleigusamning milli hennar og nafngreinds leigusala frá 3. október 1995, en undir samninginn ritaði áfrýjandi sem vottur. Nokkrum dögum síðar bárust félaginu skattframtöl hinnar látnu fyrir gjaldárin 1995 og 1996. Af þessu tilefni leitaði stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. eftir álitsgerð lögmanns síns. Í niðurstöðu álitsgerðarinnar, sem hefur verið lögð fram í málinu og var dagsett 28. desember 1998, kom fram að ekki væri unnt að fullyrða á grundvelli þeirra gagna, sem fyrir lægju, að áfrýjandi og hin látna hefðu verið í sambúð þegar hún lést eða í sambúð, sem jafna mætti til hjúskapar. Tilkynnti félagið áfrýjanda með bréfi 12. janúar 1999 að það hefði aflað þessarar álitsgerðar, sem það tæki undir, og væri því hafnað kröfu áfrýjanda um bætur. Ekki verður séð að eintak af álitsgerðinni hafi fylgt þessu bréfi.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið að áfrýjandi hafi hafst frekar að um kröfu sína fyrr en hann beindi ódagsettu erindi til tjónanefndar vátryggingarfélaganna, þar sem hann leitaði úrlausnar um rétt sinn til bóta samkvæmt áðurnefndri 13. gr. skaðabótalaga. Með þessu erindi lét áfrýjandi fylgja nokkur ný gögn. Meðal þeirra voru vottorð ljósmóður um að áfrýjandi hafi verið viðstaddur fæðingu barns síns og A, vottorð vinnuveitanda um að þau hafi starfað saman við ræstingar, reikningsyfirlit frá banka, sem munu hafa borið með sér reglubundnar innborganir áfrýjanda á reikning hennar, og loks nokkrar minningargreinar úr Morgunblaðinu um A, þar sem ítrekað var rætt um áfrýjanda sem sambúðarmann hennar, meðal annars í æviágripi, sem fylgdi greinunum. Mun tjónanefndin hafa tekið afstöðu til þessa erindis áfrýjanda 15. febrúar 2000 og fallist á að hann ætti rétt til bóta samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga. Með bréfi 21. sama mánaðar til áfrýjanda lýsti stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. sig ósammála niðurstöðu tjónanefndar og ítrekaði að félagið féllist ekki á kröfu hans. Að svo vöxnu máli skaut áfrýjandi málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 24. mars 2000. Staðfesti hún niðurstöðu tjónanefndar 5. maí sama ár.
Skömmu eftir að framangreind niðurstaða tjónanefndar vátryggingarfélaganna lá fyrir höfðuðu foreldrar A mál á hendur áfrýjanda og kröfðust þess að þeim yrði dæmd forsjá barns hans og hinnar látnu. Reistu foreldrar A þessa kröfu aðallega á því að hin látna og áfrýjandi hefðu ekki verið í sambúð þegar hún lést og hafi því ákvæði 1. mgr. 31. gr. barnalaga nr. 20/1992 ekki átt við um forsjá barnsins eftir lát móður þess, heldur 3. mgr. sömu lagagreinar. Meðan það mál var rekið í héraði höfðaði áfrýjandi mál þetta 23. maí 2000 til heimtu bóta fyrir missi framfæranda að fjárhæð 3.148.720 krónur auk dráttarvaxta frá 16. september 1996 til greiðsludags.
Með dómi Hæstaréttar 1. mars 2001 í fyrrgreindu forsjármáli var á það fallist með áfrýjanda að hann hafi verið í sambúð með A þegar hún lést. Að gengnum þeim dómi féllust stefndu á að nægilega hafi verið staðreynt að áfrýjandi og hin látna hefðu verið í sambúð og hann nyti þar með réttar til bóta vegna missis framfæranda samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga. Greiddi því stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. áfrýjanda 27. mars 2001 lágmarksbætur samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 13. gr. laganna að fjárhæð 3.949.723 krónur að meðtöldum vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga til 1. mars 2001 og dráttarvöxtum frá þeim degi til 27. sama mánaðar. Jafnframt greiddi félagið áfrýjanda málskostnað að fjárhæð 524.090 krónur. Að fenginni þessari greiðslu breytti áfrýjandi dómkröfu sinni í það horf, sem hann heldur henni fram fyrir Hæstarétti og áður er getið. Upp frá því hefur ágreiningur aðilanna staðið um það eitt hvort áfrýjandi hafi átt rétt til dráttarvaxta af kröfu sinni frá fyrra tímamarki en hið stefnda félag miðaði framangreinda greiðslu sína við. Með hinum áfrýjaða dómi voru stefndu sýknaðir af kröfu áfrýjanda með því að fallist var á það með þeim að hann hafi ekki öðlast rétt til dráttarvaxta samkvæmt 15. gr. vaxtalaga fyrr en mánuði frá uppsögu dóms Hæstaréttar 1. mars 2001 í fyrrgreindu forsjármáli.
II.
Ekki verður fallist á að áfrýjandi hafi með áðurnefndum gögnum, sem hann lagði fyrir stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. í maí 1997, sýnt nægilega fram á að hann hafi verið í sambúð með A þegar hún lést 16. september 1996. Þegar áfrýjandi ítrekaði kröfu sína við félagið í nóvember 1998 lagði hann sem áður segir fyrir það nokkur ný gögn. Þótt gögn þessi hafi styrkt nokkuð staðhæfingar áfrýjanda um sambúð sína og hinnar látnu verður að fallast á með stefndu að þau hafi ekki nægt til að taka svo af tvímæli um sambúðina að áfrýjandi geti nú notið réttar til dráttarvaxta af bótakröfu sinni frá þeim tíma. Þegar hann lagði á hinn bóginn fyrir tjónanefnd vátryggingarfélaganna ódagsett erindi sitt, sem hún tók afstöðu til 15. febrúar 2000, fylgdu því gögn, sem nægðu fyllilega til að sýna fram á sambúð hans og hinnar látnu. Þegar niðurstaða tjónanefndar lá fyrir hafði áfrýjandi því sannanlega lagt fram þau gögn, sem þörf var á til að meta hvort fullnægt væri skilyrðum 13. gr. skaðabótalaga fyrir greiðslu til hans á bótum fyrir missi framfæranda, svo og um fjárhæð bóta, sbr. 15. gr. vaxtalaga. Á áfrýjandi því rétt til dráttarvaxta af kröfu sinni frá 15. mars 2000, þegar mánuður var liðinn frá þeim degi, sem tjónanefnd komst að niðurstöðu sinni. Getur engu breytt í því sambandi að dómur hafi á því stigi enn ekki verið fallinn í Hæstarétti í fyrrgreindu forsjármáli.
Bæði í aðalkröfu áfrýjanda og varakröfu, svo og í útreikningi stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. á greiðslu til hans 27. mars 2001, hefur verið miðað við að fjárhæð bóta handa áfrýjanda ráðist af lágmarksfjárhæð bóta fyrir missi framfæranda samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 13. gr. skaðabótalaga, 3.000.000 krónur, en á hana verði reiknaðar verðbætur samkvæmt 15. gr. sömu laga frá gildistöku þeirra 1. júlí 1993 til þess tíma, sem dráttarvextir byrja að falla á kröfuna. Í aðalkröfu áfrýjanda fyrir Hæstarétti er við það miðað að framangreind fjárhæð sé verðbætt til 11. júní 1997 og beri krafan svo dráttarvexti frá þeim tíma, en í varakröfu hans að verðbætur falli á fjárhæðina til 25. desember 1998 og beri krafan svo dráttarvexti frá þeim tíma. Samkvæmt útreikningi, sem áfrýjandi lagði fram við málflutning fyrir Hæstarétti, nema áfallnir ársvextir samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af aðalkröfu hans á tímabilinu frá 16. september 1996 til 11. júní 1997 alls 47.274 krónum, en áfallnir dráttarvextir frá þeim degi 3.702.414 krónum. Að viðbættum höfuðstól kröfunnar, 3.172.750 krónum, en að frádreginni greiðslu stefndu 27. mars 2001 að fjárhæð 3.949.723 krónur, sé aðalkrafan samtals 2.972.715 krónur. Eftir sama útreikningi eru áfallnir ársvextir samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af varakröfu áfrýjanda á tímabilinu frá 16. september 1996 til 25. desember 1998 að fjárhæð 151.224 krónur, en dráttarvextir frá þeim degi 2.158.735 krónur. Að viðbættum höfuðstól varakröfunnar, 3.256.050 krónum, en að frádreginni áðurnefndri innborgun, nemi varakrafan 1.616.286 krónum.
Eins og rakið hefur verið hér að framan er hvorki fallist á aðalkröfu áfrýjanda né varakröfu hans, heldur miðað við að hann eigi fyrst rétt til dráttarvaxta samkvæmt 15. gr. vaxtalaga frá 15. mars 2000. Í samræmi við þá niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga verður áðurgreind lágmarksfjárhæð bóta fyrir missi framfæranda verðbætt til þess mánaðar, en þannig reiknuð verður hún 3.517.370 krónur. Aðilana greinir ekki á um að sú fjárhæð eigi að skerðast um 2% vegna aldurs A heitinnar á dánardegi, sbr. 9. gr. skaðabótalaga, eða um 70.347 krónur. Verður höfuðstóll kröfu áfrýjanda þannig 3.447.023 krónur. Ekki verður litið svo á að ákvæði 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standi í vegi fyrir að áfrýjanda verði dæmd sú fjárhæð, þótt hún fari fram úr höfuðstól aðalkröfu hans og varakröfu, enda sýnilegt að í heild verði krafan lægri í þessari mynd en nemur fyrrgreindri heildarfjárhæð aðalkröfu eða varakröfu þegar tillit hefur verið tekið til áfallinna vaxta. Verða áfrýjanda því dæmdar 3.447.023 krónur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum eins og nánar segir í dómsorð, allt að frádreginni greiðslu að fjárhæð 3.949.723 krónur inn á kröfuna eins og hún stóð 27. mars 2001.
Stefndu verða dæmdir til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi svo sem í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til greiðslu stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. á málskostnaði til áfrýjanda, sem áður er getið.
Dómsorð:
Stefndu, Páll Skúlason og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði í sameiningu áfrýjanda, X, 3.447.023 krónur með 2% ársvöxtum frá 16. september 1996 til 15. mars 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 27. mars 2001 að fjárhæð 3.949.723 krónur.
Stefndu greiði áfrýjanda 300.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2001.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 8. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af X með stefnu birtri 23. maí 2000, á hendur Páli Skúlasyni, kt. 081245-4529, Furugrund 15, Akranesi, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda kr. 3.172.750 með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 16. september 1996 til 11. júní 1997, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. l. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 3.949.723, sem greiddar voru inn á kröfuna þann 27. marz 2001. Til vara gerir stefnandi þær kröfur, að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda kr. 3.256.050 með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 16. september 1996 til 25. desember 1998, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. l. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 3.949.723, sem greiddar voru inn á kröfuna þann 27. marz 2001. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að mati réttarins.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara, að stefndu verði aðeins gert að greiða stefnanda dráttarvexti af stefnufjárhæðinni frá 5. maí 2000 til 1. marz 2001, en sýknaðir af kröfum hans að öðru leyti og málskostnaður verði felldur niður.
II.
Málavextir:
Málsatvik eru þau, að þann 16. september 1996 beið A bana í bifreiðarslysi á leið í Borgarnes. Stefndi, Páll, var skráður eigandi bifreiðarinnar og stefndi, VÍS, var skylduvátryggjandi hennar. Stefnandi lét eftir sig soninn, b, fæddan 18. febrúar 1996. Ekki hafði verið gengið lögformlega frá faðerni barnsins, er A lézt, en hún hafði lýst stefnanda föður þess samkvæmt fæðingarskýrslu. Höfðaði Barnaverndarnefnd Reykjavíkur mál gegn stefnanda með kröfu um, að hann yrði dæmdur faðir barnsins. Gekkst stefnandi við faðerninu fyrir dómi. Var hann dæmdur faðir barnsins með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 1996 í málinu nr. E-4983/1996. Barnið slasaðist í bifreiðarslysinu með móður sinni og dvaldist á sjúkrahúsi til 24. okt. 1996, en var þá vistað á vistheimili barna í Reykjavík til 5. des. s.á. Frá þeim tíma hefur barnið verið í umsjá stefnanda.
Þann 11. maí 1997 gerði stefnandi fyrst kröfur á hendur stefnda, VÍS, um bætur fyrir missi framfæranda vegna andláts A. Félagið taldi stefnanda ekki eiga slíkan rétt, en skilyrði bótaréttar hjónaleysa er, að viðkomandi hafi verið í sambúð, sem jafnað verði til hjúskapar. Höfðu stefnandi og A hvorki verið skráð í sambúð né með sama lögheimili. Af hálfu stefnanda hófst í kjölfarið gagnaöflun til að sýna fram á, að um sambúð hefði verið að ræða. Að tilhlutan stefnanda var málið lagt fyrir tjónanefnd tryggingafélaganna, sem ályktaði 15. febrúar 2000, að hann ætti bótarétt. Stefndi, VÍS, vildi ekki una þeirri niðurstöðu. Var málinu skotið til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem gaf frá sér ályktun þann 5. maí 2000 á þá lund, að gögn málsins bæru eindregið með sér, að stefnandi og A hefðu verið í sambúð í skilningi skaðabótalaga, er hún lézt, og ætti stefnandi rétt á bótum skv. 13. gr. laganna. Afstaða stefnda, VÍS, var óbreytt, og tilkynnti félagið þann 18. maí 2000, að það myndi ekki hlíta niðurstöðu nefndarinnar. Höfðaði stefnandi þá mál þetta.
Móðir og stjúpfaðir A höfðu, strax eftir dauða hennar, leitað eftir að fá forsjá barnsins, B. Hinn 23. október 1996 sóttu þau til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að fá barnið í varanlegt fóstur. Þá áttu þau í deilum við stefnanda um umgengni við barnið. Hinn 24. febrúar 2000, eða þremur mánuðum áður en stefnandi höfðaði mál þetta, höfðuðu þau dómsmál á hendur stefnanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og kröfðust þess, að þeim yrði dæmd forsjá barnsins. Í því máli var meginálitaefnið, hvort stefnandi og A hefðu í reynd verið í sambúð, þegar hún lést, en á því valt, hvort stefnandi færi með forsjá barnsins að lögum eða ekki eftir andlát hennar, sbr. 3. mgr. 2. gr., 1. mgr. 30. gr. og l. mgr. 31. gr. barnalaga nr. 20/1992. Taldi stefndi, VÍS, því rétt, að bótamálið biði úrslita forsjármálsins, sem fyrr hafði verið höfðað og kveður samkomulag hafa orðið um það með aðilum. Gekk héraðsdómur í því máli 12. júlí 2000, þar sem stefndi var sýknaður af kröfum móður og stjúpföður A. Segir í héraðsdómi, að þegar litið sé til framlagðra gagna, m.a. þess að stefndi fór með móður barnsins í mæðraskoðanir, var viðstaddur fæðingu þess, aðstoðaði móðurina við ræstingar um tveggja ára skeið og að þau hjálpuðust að við framfærslu fjölskyldunnar, þyki ljóst, að um sambúð hefði verið að ræða. Móðir og stjúpfaðir A áfrýjuðu héraðsdóminum til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar þann 1. marz 2001 var héraðsdómur staðfestur.
Eftir að niðurstaða Hæstaréttar í forræðisdeilumálinu lá fyrir, féllst stefndi á bótaskyldu og greiddi stefnanda bótafjárhæðina þann 28. marz 2001 inn á reikning lögmanns stefnanda með verðbótum og ársvöxtum, sbr. 15. og 16. gr. skbl., frá slysdegi til 1. marz 2001 og með dráttarvöxtum frá þeim tíma til greiðsludags, auk lögmannsþóknunar. Bótafjárhæðin sjálf var óumdeild, þ.e. lágmarksbætur samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga. Stefnandi gerði hins vegar kröfu til dráttarvaxta af bótunum frá dánardægri A 16. september 1996. Stefndi hafnaði greiðslu dráttarvaxta frá fyrri tíma en uppsögu hæstaréttardómsins. Náðu aðilar ekki samkomulagi um, frá hvaða tíma greiða skyldi dráttarvexti af bótafjárhæðinni. Tók stefnandi við bótagreiðslunni með fyrirvara. Eftir stendur í máli þessu ágreiningur um upphafstíma dráttarvaxta.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi kveður kröfu sína eiga rætur að rekja til höfnunar Vátryggingafélags Íslands hf. á greiðslu bóta vegna missis framfæranda. Krafa stefnanda á hendur félaginu byggist á ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar [...] vegna andláts A þann 16. september 1996. Synjun vátryggingafélagsins hafi grundvallazt á því, að ekki hafi legið fyrir sannanir um, að stefnandi og A hafi búið saman sem hjón.
Stefnandi og A hafi hafið sambúð á árinu 1994, en A hafi þá verið einstæð móðir með eitt barn. Í upphafi sambúðar, frá júní 1994 til september 1995, hafi þau búið í herbergi, sem A hafði á leigu við [...] í Reykjavík. Þaðan hafi þau flutt í íbúð á [...], en leigt þar aðeins í skamman tíma, þ.e. til desember 1995, er þau skiluðu íbúðinni, sem ekki hafi verið boðleg til íbúðar, auk þess sem A hafi verið orðin ófrísk. Í framhaldi af því hafi þau fengið leigða íbúð að [...], Seltjarnarnesi. Um svipað leyti hafi A fengið svar frá húsnæðisnefnd Reykjavíkur um, að laus væri félagsleg íbúð að [...] í Reykjavík, sem henni stæði til boða að kaupa. Hafi þetta komið sér mjög vel fyrir þau, því A hafi verið að því komin að eiga barnið. Þau hafi því flutt að [...] í apríl 1996, en soninn, B, hafi þau eignazt 18. febrúar það ár. Í [...] hafi þau síðan búið, þar til A lést þann 16. september 1996 í bílslysi. Í málinu liggi fyrir staðfestingar íbúðareigenda og fyrrum sambýlinga stefnanda á framangreindu.
Ákvörðun Vátryggingafélags Íslands hf. um að synja stefnanda um bætur fyrir missi framfæranda virðist að meginstefnu til hafa byggzt á bréfi, dags. 20. desember 1999, sem móðir A, C, og stjúpfaðir, D, rituðu félaginu. Þar segi þau, að stefndi hafi ekki verið í neinu sambandi við A, sem kalla mætti sambúð, heldur hafi hann verið "setuprestur" á heimilinu. Ýmsar aðrar fullyrðingar komi fram í bréfinu, fæstar réttar og aðrar ekki svaraverðar. Í bréfinu komist þó til skila sú andúð og heift, sem þau beri til stefnanda.
C og D hafi, frá því að A lézt, sótt það fast að fá forsjá B og virðist með engu móti geta fallizt á stefnanda sem uppalanda barnsins. Þau hafi ritað barnaverndaryfirvöldum ófá bréf vegna ætlaðs vanbúnaðar, sem þau telji barnið búa við, og komið á framfæri símleiðis fjölmörgum kærum og kvörtunum til hinna ýmsu aðila. Athuganir barnaverndaryfiralda hafi í engum tilvikum leitt neitt óeðlilegt í ljós eða gefið tilefni til aðgerða af þeirra hálfu. Hafi þau, C og D, höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem þau hafi gert þá kröfu, að þeim yrði falin forsjá drengsins. Þeirri kröfu hafi verið hafnað, fyrst með dómi héraðsdóms og síðan með dómi Hæstaréttar.
Stefnandi hafi lagt fram fjölmörg gögn því til sönnunar, að A hafi verið sambýliskona hans. Þessi gögn hafi leitt til þess, að tjónanefnd tryggingafélaganna hafi komizt að þeirri niðurstöðu á fundi 15. febrúar árið 2000, að stefnandi ætti bótarétt fyrir missi framfæranda samkvæmt 13. gr. laga nr. 50/1993. Þessi niðurstaða hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd í vátryggingamálum þann 16. marz 2000.
Þrátt fyrir afgerandi niðurstöðu bæði tjónanefndar vátryggingafélaganna og úrskurðarnefndar í vátryggingamálum hafi Vátryggingafélag Íslands hf. ákveðið að neita greiðslu bóta til stefnanda vegna missis framfæranda.
Augljóst sé af fyrirliggjandi gögnum, að stefnandi og A hafi verið í óvígðri sambúð þegar hún lést 16. september árið 1996. Í Morgunblaðinu [...] segi í mörgum minningargreinum um A, að stefnandi hafi verið sambýlismaður hennar. Af reikningi hinnar látnu hjá Landsbanka Íslands megi sjá, að stefnandi hafi lagt hluta launa sinna inn á reikning hennar í hverjum mánuði, þar sem þau hefðu ákveðið að sameina tekjur sínar. Þá hafi verið vottað af fyrirtækinu, [...], að stefnandi hafi um tveggja ára skeið aðstoðað hina látnu við ræstingar fyrir fyrirtækið. Þá liggi fyrir gögn frá ljósmóður við Landspítalann um, að stefnandi hafi verið viðstaddur fæðingu barnsins, og gögn frá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur um, að stefnandi hafi komið í skoðun með A í öll skiptin nema eitt. Einnig liggi fyrir gögn frá Skálholtskirkju, þar sem sonur þeirra hafi verið skírður, þar sem á skírnarvottorði sjáist, að stefnandi hafi verið viðstaddur. Sama megi segja um reikninga frá Ferðaskrifstofu stúdenta, dags. 6. ágúst 1996, vegna sumarleyfisferðar stefnanda, A, og tveggja barna til Bretlands 13. ágúst til 30. ágúst 1996. Reikningurinn sé stílaður á stefnanda á þáverandi heimili hans og A að [...], Reykjavík. Þá megi sérstaklega benda á staðfestingar þeirra fjölmörgu, sem stefnandi og A leigðu hjá fyrir andlát hennar. Þar komi fram áreiðanleg sönnun þess, að þau hafi verið í sambýli, bæði þegar A lézt og fyrir þann tíma. Þá liggi fyrir vottorð læknis um veikindi stefnanda og óvinnufærni, sem hafi verið ástæða þess, að A fór ein með soninn, B, til Borgarness 16. september 1996.
Ýmsir persónulegir munir séu því til stuðnings, að stefnandi og A hafi búið saman sem hjón væru, þegar hún lézt, svo sem sendibréf, myndir af fjölskyldunni, heillaskeyti, jólakort og samúðarkort.
Allt bendi þetta ótvírætt til þess, að þau hafi búið saman sem hjón væru, þrátt fyrir að Vátryggingafélag Íslands hf. hafi, af óskiljanlegri ástæðu, ekki talið þessi gögn til nægjanlegrar sönnunar fullyrðinga stefnanda. Það sé ekki áskilið, þegar um óvígða sambúð sé að ræða, að hennar sé getið í þjóðskrá.
Dómkröfur stefnanda sundurliðast þannig:
Aðalkrafa:
Bætur á grundvelli 13. gr. skbl., kr. 3.000.000 x 3542/3282 (hækkun vegna verðlagsbr.) = 3.237.500 - 2% (lækkun v/aldurs) = kr. 3.172.906.
Varakrafa:
Bætur á grundvelli 13. gr. skbl., kr. 3.000.000 x 3635/3282 (hækkun vegna verðlagsbr.) = 3.322.500 - 2% (lækkun v/aldurs) = kr. 3.256.050.
Kröfur um greiðslu úr hendi stefnda styður stefnandi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 12. og 13. gr. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður stefndu:
Aðalkrafa stefndu um sýknu sé á því byggð, að með bótauppgjöri stefnda, VÍS, þann 28. marz 2001, sbr. dskj. 38, hafi stefnandi fengið greiddar þær bætur með verðbótum, vöxtum og lögmannskostnaði, sem hann eigi rétt til úr hendi stefndu fyrir missi framfæranda vegna slyss A þann 16. september 1996. Hins vegar eigi stefnandi ekki rétt til dráttarvaxta af bótunum frá fyrri tíma en mánuði eftir að hæstaréttardómurinn gekk í forsjármálinu þann 1. marz 2001. Beri því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Í þessu sambandi bendi stefndu á, að áður en hæstaréttardómurinn í forsjármálinu gekk, hafi ríkt óvissa og ágreiningur um, hvort stefnandi og A hefðu í reynd verið í sambúð eða ekki, en sambúð þeirra hafi verið forsenda bótaréttar stefnanda. Þá hafi verið búið að höfða dómsmál gegn stefnanda, áður en stefnandi höfðaði bótamálið gegn stefndu, þar sem gagngert hafi reynt á þetta álitaefni. Úr því hafi síðan endanlega verið skorið með hæstaréttardóminum. Hafi stefndu því verið rétt að bíða úrslitanna í því máli, og fyrr hafi ekki verið forsenda til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta í skilningi 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og 24. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga. Fyrst með hæstaréttardóminum hafi legið fyrir afgerandi upplýsingar um, hvort um sambúð teldist vera að ræða eða ekki.
Verði ekki á sýknukröfu fallizt, sé varakrafan reist á því, að fullnægjandi upplýsingar fyrir stefndu til að meta, hvort stefnandi og A hefðu verið í sambúð eða ekki, hefðu fyrst legið fyrir með áliti úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þ. 5. maí 2000. Bendi stefndu á, að gögn í málinu hafi verið að tínast inn allt til þess að málið var lagt fyrir tjónanefnd og úrskurðarnefnd. Hafi stefnandi t.d. ekki móttekið vottorðið um íbúðaleigu stefnanda og A á dskj. nr. 13 á þeim tíma, sem það sé dagsett, heldur þann 25. nóvember 1998, sbr. dskj. nr. 33. Sama gildi um vottorð ljósmóður hjá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur á dskj. nr. 18. Skattframtöl hafi borizt stefnda í byrjun desember 1998, sbr. dskj. nr. 34, og fyrir tjónanefnd og úrskurðarnefnd hafi síðan verið lögð frekari gögn vorið 2000. Hafi því ekki legið fyrir fullnægjandi upplýsingar, sem gerðu stefndu fært að meta atvik og fjárhæð bótanna fyrr.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Fyrir liggur, að stefnandi og sambýliskona hans, A, lögðu sig fram um að dylja sambúðina fyrir opinberum aðilum af ástæðum, sem stefnandi tilgreinir í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar tryggingafélaganna. Þau voru hvorki í skráðri sambúð né með sameiginlegt lögheimili. Þau voru ekki samsköttuð og stóðu ekki sameiginlega að gerð húsaleigusamninga. Af þessum sökum lá ekki ljóst fyrir um sambúð þeirra, þegar tryggingafélagið, stefndi VÍS, fékk til afgreiðslu umsókn stefnanda um bætur vegna fráfalls A, sem byggði á því, að þau hefðu verið í sambúð samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga.
Krafa stefnanda barst stefnda, VÍS, í símbréfi, sem lagt hefur verið fram í málinu sem dskj. nr. 31. Kröfunni fylgdu yfirlýsingar ýmissa aðila á blaði 1 á dskj. nr. 13, um að þau hefðu haft íbúðir á leigu hér og þar á tímabilinu júní 1994 til september 1996. Leigusamningar fylgdu ekki, og kemur ekki fram, hvort þeirra var skráð leigutaki. Einungis einn húsaleigusamningur liggur fyrir í málinu milli A og leigusalanna, E og F, um leigu á íbúð að [...], Reykjavík, tímabilið 3. október 1995 til 30. september 1996. Sá samningur stangast hins vegar á við yfirlýsingar G og H á dskj. nr. 13 um leigutíma. Lá þessi samningur fyrir hjá stefnda, VÍS, þegar félagið tók afstöðu til kröfu stefnanda. Þórir Erlendur Gunnarsson, fulltrúi í tjónadeild VÍS kannaðist ekki við, fyrir dómi, að félagið hefði í fórum sínum yfirlýsingu á blaði 2 á dskj. nr. 13, sem skýrir áðurnefnt misræmi. Þá kannaðist hann ekki við, að hafa séð minningargreinar á dskj. nr. 10, skírnarvottorð eða persónuleg bréf, sem liggja fyrir í máli þessu og hefðu getað varpað ljósi á deiluefni aðila. Kom jafnframt fram í framburði hans, að m.a. hefðu misvísandi fullyrðingar um leiguhúsnæði haft áhrif á afstöðu félagsins, þegar það hafnaði bótakröfu stefnanda.
Niðurstaða tjónanefndar vátryggingafélaganna liggur ekki fyrir í málinu, en aðilar eru sammála um, að hún hafi ekki verið rökstudd og þannig ekki af henni ráðið, á hvaða forsendum var byggt.
Í greinargerð stefnanda til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum útskýrir stefnandi misræmi það, sem lesið verður úr áðurnefndum leigumálum. Ekki verður ráðið, að ódagsett yfirlýsing leigusalanna, E og F, þar að lútandi, sem er blað 2 á dskj. nr. 13, hafi verið lögð fyrir úrskurðarnefndina. Álit úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir á dskj. nr. 25. Er þar vísað í fyrirliggjandi gögn og segir þar, að þau beri eindregið með sér, að stefnandi og hin látna hafi verið í sambúð í skilningi skaðabótalaga, er hún lézt. Gögn þau, sem nefndin hafði til að byggja á, voru, eftir því sem lesið verður úr greinargerð stefnanda til nefndarinnar á dskj. nr. 28 og álitsgerð nefndarinnar á dskj. nr. 25, þessi:
1. Vottorð leigusala, þ.e. síða 1 á dskj. nr. 13.
2. Húsaleigusamningur, dskj. nr. 4.
3. Vottorð frá ljósmóður á Landspítalanum, dskj. nr. 17.
4. Vottorð frá ljósmóður á mæðradeild Heilsuverndarstöðvarinnar, dskj. nr. 18.
5. Vottorð frá [...], dskj. nr. 19.
6. Skírnarvottorð frá Skálholtskirkju, liggur ekki fyrir í máli þessu.
7. Reikningsyfirlit frá Landsbanka Íslands, liggur ekki fyrir í máli þessu.
8. Minningargreinar úr Morgunblaðinu, dskj. nr. 10.
9. Símbréf lögmanns stefnanda til nefndarinnar, liggur ekki fyrir í máli þessu.
10 Bréf stefnda, VÍS, til nefndarinnar, dags. 05.04.2000, liggur ekki fyrir í máli þessu, auk fylgigagna með því, sem eru þessi:
a. Bréf Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, dags. 27.02.1998 og greinargerð stofnunarinnar, dags. 16.09.1998, liggja ekki fyrir í máli þessu.
b. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í barnsfaðernismálinu nr. E-4983/1996, dags. 28.11.1996, dskj. nr. 11.
c. Bréf stefnanda, dags. 25.04.1997, dskj. nr. 15.
d. Bréf stefnanda, ódagsett, til stefnda,VÍS, ásamt upplýsingum úr þjóðskrá, liggja ekki fyrir í máli þessu.
e. Bréf stefnda, VÍS, til nefndarinnar, dags. 28.04.2000, ásamt bréfi fiskvinnslu og launaseðli, liggja ekki fyrir í máli þessu.
f. Bréf stefnda, VÍS, til nefndarinnar, dags. 02.05.2000, ásamt yfirlýsingu aðila, dags. 01.05.2000, liggja ekki fyrir í máli þessu.
11. Niðurstaða tjónanefndar vátryggingafélaganna nr. 167/2000, liggur ekki fyrir í máli þessu.
Með vísan til þeirra gagna, sem nefndin hafði til að byggja álit sitt á, eru fjölmörg gögn, sem benda til náins sambands stefnanda og hinnar látnu, án þess að af þeim verði ráðið, að um sambúð hafi verið að ræða. Önnur gögn gefa misvísandi upplýsingar um búsetu. Af þeim gögnum, sem nefndin hafði til að styðjast við og fyrir liggja í máli þessu, eru það helzt minningargreinar um hina látnu, sem gefa beinlínis til kynna, að aðilar hafi verið í sambúð. Samkvæmt framburði vitnisins, Þóris Erlendar, voru þessi skjöl ekki í gögnum stefnda, VÍS. Með vísan til þessa er ósannað, að fyrir hafi legið óyggjandi vísbendingar um, að aðilar hafi verið í sambúð á þessum tíma, þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.
Eins og mál þetta allt var vaxið og með hliðsjón af þeim gögnum, sem lágu fyrir hjá stefnda, VÍS, má fallast á, að félaginu hafi verið rétt að bíða niðurstöðu forsjárdeilumáls vegna sonar stefnanda og hinnar látnu, en ljóst var, að niðurstaða þess réðst af því, hvort stefnandi og hin látna hefðu verið í sambúð. Dómur Hæstaréttar var kveðinn upp í því máli 1. marz 2001, og eftir að sú niðurstaða lá fyrir greiddi stefndi, VÍS, tryggingarfjárhæðina ásamt dráttarvöxtum frá uppkvaðningardegi dómsins. Með vísan til þess, sem að framan er rakið, er ekki fallizt á, að stefndu beri að greiða dráttarvexti frá fyrri tíma. Ber því að sýkna þá af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að aðilar beri hver sinn kostnað af máli þessu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Páll Skúlason og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.