Hæstiréttur íslands

Mál nr. 684/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinglýsing


Miðvikudaginn 16. febrúar 2011.

Nr. 684/2010.

Daði Einarsson og

Lambeyrabúið ehf.

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

gegn

dánarbúi Einars Valdimars Ólafssonar

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

Kærumál. Þinglýsing.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun þinglýsingarstjórans í B um að vísa frá þinglýsingu skiptayfirlýsingum dánarbús E um jörðina L og lóð 1 úr landi  jarðarinnar og jafnframt lagt fyrir þinglýsingarstjóra að þinglýsa yfirlýsingunum án athugasemda. Talið var að dánarbú E, sem var þinglýstur eigandi jarðarinnar og lóðarinnar, hefði haft heimild til að ráðstafa jörðinni og lóð 1 úr henni á þann veg sem greindi í skiptayfirlýsingum og ekki hefðu því verið efni til að vísa yfirlýsingunum frá þinglýsingu á grundvelli 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Þá hafi ekki þurft að greina í skiptayfirlýsingum til yfirfærslu á þinglýstri eignarheimild mörk jarðarinnar eða lóðar úr henni auk þess sem enginn vafi var talinn leika á til hvaða eigna yfirlýsingarnar tóku. Var því ekki heldur talið að e. eða f. liðir 1. mgr. 6. gr. laganna hefðu hindrað þinglýsingu. Var héraðsdómur því staðfestur með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 23. nóvember 2010, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Búðardal 15. september 2010 um að vísa frá þinglýsingu skiptayfirlýsingum varnaraðila, 30. ágúst sama ár, um annars vegar jörðina Lambeyrar og hins vegar lóð 1 úr jörðinni. Jafnframt var lagt fyrir sýslumann að þinglýsa yfirlýsingunum án athugasemda. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Búðardal frá 15. september 2010 um að vísa skiptayfirlýsingunum frá þinglýsingu. Sóknaraðilar krefjast þess einnig að varnaraðili verði dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur og sóknaraðilar dæmdir til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Daði Einarsson og Lambeyrabúið ehf., greiði varnaraðila, dánarbúi Einars Valdimars Ólafssonar, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 23. nóvember 2010.

Mál þetta var þingfest 19. október 2010 og tekið til úrskurðar 2. nóvember sama ár. Sóknaraðili er db. Einars V. Ólafssonar, sem síðast var til heimilis að Lambeyrum í Dalabyggð. Varnaraðilar eru Daði Einarsson og Lambeyrabúið ehf., en báðir varnaraðilar eru með aðsetur að Lambeyrum.

Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun þinglýsingarstjórans í Búðardal frá 15. september 2010 um að vísa frá þinglýsingu skiptayfirlýsingum 30. ágúst 2010 um eignarhald á annars vegar jörðinni Lambeyrum (landnúmer 137574) og hins vegar lóð 1 úr landi jarðarinnar (landnúmer 196900) og að þinglýsingarstjóra verði gert að þinglýsa yfirlýsingunum án athugasemda. Jafnframt krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun þinglýsingarstjórans verði staðfest. Þá gera varnaraðilar kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila.

I

Á sjötta áratug liðinnar aldar stofnaði Einar V. Ólafsson nýbýlið Lambeyrar úr jörðinni Dönustöðum í Dalabyggð. Einar hóf síðan búskap á Lambeyrum og frá árinu 1975 rak hann þar félagsbú ásamt syni sínum, varnaraðila Daða. Þótt þeir feðgar stæðu saman að búrekstrinum var jörðin þinglýst eign Einars.

Í kjölfar þess að þeir feðgar hættu sameiginlegum búrekstri árið 2003 gerðu þeir með sér samninga um eignarhald mannvirkja og réttinda tengd búrekstrinum. Að því marki sem horfir til skýringar á sakarefninu verður þessum gerningum lýst í helstu atriðum, en málið snertir þinglýsingu á yfirlýsingum um eignarhald á jörðinni og lóð úr jörðinni.

Hinn 14. janúar 2003 gerðu feðgarnir stofnskrá fyrir Fasteignafélag Lambeyra ehf. Tilgangur félagsins var sagður eign, rekstur og leiga jarðarinnar Lambeyra í Dalabyggð, svo og skyldur rekstur. Hlutafé skiptist þannig að 60% kom í hlut Einars en 40% í hlut varnaraðila Daða. Var hlutaféð greitt með því að færa tilgreindar eignir inn í félagið, svo sem nánar var lýst í stofnskránni, en um var að ræða ræktun og mannvirki á jörðinni. Sama dag undirrituðu feðgarnir yfirlýsingu um eignarhald þeirra í sömu hlutföllum á nánar tilgreindum eignum, en þar á meðal var fjárhús með áburðarkjallara (fastanúmer 211-7007), flatgryfja (fastanúmer 211-7008), geymsla (fastanúmer 211-3386) og hlaða (224-3656). Þessi mannvirki standa á þeirri lóð úr jörðinni er ráðstafað hefur verið með annarri af skiptayfirlýsingunum sem málið snýst um.

Samhliða því að stofna Fasteignafélag Lambeyra ehf. stofnaði Einar V. Ólafsson félagið Lambeyrar ehf. Tilgangur þess félags var meðal annars eignarhald jarðarinnar Lambeyra. Samkvæmt stofnskrá var jörðin ásamt nánar tilgreindum fasteignaréttindum lögð til félagsins sem greiðsla á hlutafé, en allir hlutir í félaginu voru í eigu Einars.

Með yfirlýsingu 26. mars 2003 um eignarhald staðfestu feðgarnir að nánar tilgreindar eignir væru í eigu tveggja hlutafélaga, annars vegar Fasteignafélags Lambeyra ehf. og hins vegar Lambeyra ehf. Þær eignir sem lýstar voru í eigu Fasteignafélags Lambeyra ehf. voru þau mannvirki sem talin eru í fyrrgreindri yfirlýsingu 14. janúar sama ár um eignarhald og að auki ræktað land og skurðir (fastanúmer 211-6997). Í eigu Lambeyra ehf. var hins vegar tilgreint land jarðarinnar og hlunnindi. Í niðurlagi yfirlýsingarinnar var tekið fram að hún væri gefin þar sem verið væri að færa búreksturinn á jörðinni Lambeyrum inn í einkahlutafélag. Einnig sagði að yfirlýsingunni ætti að þinglýsa á jörðina, auk þess sem skrá bæri eignarhald hjá Fasteignamati ríkisins í samræmi við yfirlýsinguna. Skjalið var undirritað af feðgunum fyrir hönd Fasteignafélags Lambeyra ehf., auk þess sem Einar ritar undir skjalið fyrir hönd Lambeyra ehf. Þessari yfirlýsingu var þinglýst sem eignarheimild á jörðina 23. janúar 2004. 

Hinn 14. nóvember 2003 gaf Einar út stofnskjal fyrir lóð 1 úr Lambeyrum en á henni eru þau mannvirki auk ræktunar sem áður getur og eru þau tilgreind í skjalinu með fyrrnefndum fastanúmerum. Í stofnskjalinu segir að stærð lóðarinnar sé 97,53 hektarar og lögun hennar sögð vera eins og fram komi á meðfylgjandi uppdrætti. Á þeim uppdrætti kemur hins vegar fram að lóðin sé 5.025 fermetrar. Með aðilum er ágreiningslaust að lóðarstærðin sé rétt eins og hún er tilgreind í uppdrættinum. Stofnskjal fyrir lóðina var móttekið til þinglýsingar 30. desember 2003. Í kjölfarið eða 23. janúar 2004 var þinglýst á lóðina sem eignarheimild fyrrgreindri yfirlýsingu um eignarhald frá 26. mars 2003, sem tekur til mannvirkja á lóðinni auk ræktunar, en samhliða var þeirri yfirlýsingu þinglýst á jörðina, eins og áður getur.

Hinn 7. ágúst 2009 tilkynnti þinglýsingarstjóri Lambeyrum ehf. og Fasteignafélagi Lambeyra ehf. ákveðið hefði verið með vísan til 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 að skrá eftirfarandi athugasemd í þinglýsingabók vegna yfirlýsingar 26. mars 2003:

               

Þegar eignaryfirlýsingu, dags. 26. mars 2003, var þinglýst var Einar V. Ólafsson, kt. 021027-2199, þinglýstur eigandi allra þeirra eigna sem í skjalinu getur. Skorti því félögin Fasteignafélag Lambeyra ehf., kt. 700103-2340, og Lambeyrar ehf., kt. 700103-2690, þinglýsta heimild til ráðstöfunar eigna þeirra er í skjalinu greinir þegar því var þinglýst. Skjali hefði því átt að vísa frá þinglýsingu, sbr. 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.

Að kröfu varnaraðila Daða var þinglýst yfirlýsingu frá 14. janúar 2003 á lóð úr jörðinni. Sú ákvörðun þinglýsingarstjóra frá 19. nóvember 2009 var borin undir dóminn og var hún felld úr gildi með úrskurði 30. desember sama ár. Með dómi Hæstaréttar 3. febrúar 2010 í máli nr. 35/2010 var úrskurðurinn staðfestur.

II

Hinn 19. nóvember 2007 andaðist Einar V. Ólafsson og var bú hans tekið til opinberra skipta 3. febrúar 2009.

Fyrsti skiptafundur í dánarbúinu var haldinn 23. febrúar 2009 og var mætt af hálfu allra erfingja. Á fundinum var gerð grein fyrir eignum búsins, en meðal þeirra var allt hlutafé í Lambeyrum ehf. Einnig kom fram að það félag ætti jörðina.

Á skiptafundi í búinu 17. nóvember 2009 var tekið til umfjöllunar hvort búið ætti að gefa út skiptayfirlýsingar um eignarhald jarðarinnar og lóðar 1 úr jörðinni til samræmis við fyrri yfirlýsingar um eignarhaldið. Af hálfu varnaraðila Daða var ekki fallist á þessa ráðstöfun og óskað eftir fresti til að koma á framfæri andmælum af hans hálfu. Var því beint til varnaraðila Daða að tilkynna skiptastjóra eigi síðar en 24. nóvember 2009 hvort þess væri óskað að málefninu yrði vísað til dómsins þar sem ágreiningur yrði ekki jafnaður.

Hinn 19. mars 2010 var boðað til skiptafundar í búinu til að fjalla á ný um þinglýsingu eignarheimilda jarðarinnar og lóðar 1 úr henni. Á fundinn var ekki mætt af hálfu varnaraðila Daða, en skrifleg andmæli hans höfðu borist fyrir fundinn. Tekin var sú ákvörðun á fundinum að gefnar yrðu út fyrir hönd búsins skiptayfirlýsingar til Lambeyra ehf. vegna jarðarinnar og Fasteignafélags Lambeyra ehf. vegna lóðar 1 og mannvirkja sem á henni standa. Málefnið var aftur tekið til umfjöllunar á skiptafundi 26. maí 2010 og var þá einnig samþykkt af hálfu meirihluta erfingja að gefa út umræddar skiptayfirlýsingar. Af hálfu varnaraðila Daða var ekki mætt á fundinn en skriflegum andmælum hans hafði verið komið á framfæri.

Hinn 30. ágúst 2010 gaf skiptastjóri út skiptayfirlýsingar annars vegar fyrir jörðina til Lambeyra ehf. og fyrir lóð 1 úr jörðinni til Fasteignafélagsins Lambeyra ehf. Í þessum yfirlýsingum var tekið fram að þær væru gefnar út til að taka af öll tvímæli um eignarhaldið. Einnig var vísað til þess að yfirlýsingarnar væru gefnar út á grundvelli samþykktar skiptafundar í búinu.

Með úrlausn þinglýsingarstjóra 15. september 2010 var umræddum skiptayfirlýsingum vísað frá þinglýsingu, en fyrir því voru færðar svohljóðandi forsendur:

Skilyrði, samkvæmt 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr., sbr. 2. mgr. 25. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, skortir til þess að skjali verði þinglýst. Skjali vísað frá þinglýsingu með vísun til 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga.    

Með bréfi sóknaraðila 4. október 2010 var þinglýsingarstjóra tilkynnt um málskotið, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1978. Málinu var síðan vísað til dómsins með bréfi sóknaraðila 5. sama mánaðar. Erfingjum í dánarbúi Einars V. Ólafssonar var tilkynnt um málareksturinn og gefinn kostur á að láta málið til sín taka. Aðrir erfingjar en varnaraðili Daði hafa ekki látið sig málið varða. Í málinu hefur einnig tekið til varna Lambeyrabúið ehf., en það félag er í eigu varnaraðila Daða og hefur jörðina á leigu samkvæmt samningi 14. janúar 2003. Þá hefur réttinum verið tilkynnt af hálfu Lambeyra ehf. og Fasteignafélags Lambeyra ehf. félögin ætli ekki að láta málið sig varða, en leiðrétting á þinglýsingu með útgáfu skiptayfirlýsinga búsins sé gerð í samráði við félögin.

III

Sóknaraðili vísar til þess að skiptayfirlýsingar búsins 30. ágúst 2010 hafi verið gefnar út á grundvelli samþykkis meirihluta erfingja í því skyni að leiðrétta þinglýsingu að því er varðar eignarheimild jarðarinnar og lóðar 1 úr jörðinni. Í því sambandi tekur sóknaraðili fram að með þessu hafi dánarbúið tekið af allan vafa um eignarhaldið til að bregðast við athugasemd sem þinglýsingarstjóri hafi ritað í þinglýsingabók 7. ágúst 2009.

Sóknaraðili bendir á að Einar V. Ólafsson hafi á árinu 2003 lagt allar sínar fasteignir (jörð, útihús og hlunnindi) inn í einkahlutafélög. Að sama skapi hafi varnaraðili Daði lagt sinn hluta af mannvirkjum inn í einkahlutafélag. Í kjölfarið hafi hvorki Einar né síðar dánarbú hans talið þessar fasteignir til sinna eigna. Það hafi varnaraðili Daði ekki heldur gert fyrr en nú með því að halda því fram að hann eigi hluta af þessum eignum. Sú málsástæða fari hins vegar í bága við stofnskrá fyrir Fasteignafélag Lambeyra ehf. frá 14. janúar 2003, sem varnaraðili hafi ritað undir. Frá þessum tíma hafi Lambeyrar ehf. og Fasteignafélag Lambeyra ehf. talið sig eigendur umræddra fasteigna, en meðal hluthafa í þeim félögum sé varnaraðili Daði.

Sóknaraðili andmælir því að dánarbúinu sé óheimilt að grípa til þeirrar ráðstöfunar sem felst í útgáfu skiptayfirlýsinga um eignarhald jarðarinnar og lóðar úr henni eða að búið skorti þinglýsta heimild til ráðstöfunarinnar, eins og þinglýsingarstjóri virðist byggja á í úrlausn sinni um frávísun skjalanna. Þvert á móti bendir sóknaraðili að þinglýsingarstjóri hafi talið sig gera leiðréttingu á þinglýsingabókum með athugasemd 7. ágúst 2009, en afleiðing af því hafi orðið að umræddar fasteignir eru nú þinglýstar eignir sóknaraðila. Þrátt fyrir það telji þinglýsingarstjóri að sóknaraðila sé óheimilt að ráðstafa þessum eignum. Þessi niðurstaða fái með engu móti staðist, enda sé það ekki í verkahring þinglýsingarstjóra að standa í vegi þess að gripið sé til ráðstafana sem sóknaraðili telji bæði réttar og eðlilegar.

Sóknaraðili bendir á að skiptafundur 17. nóvember 2009 hafi verið sóttur af hálfu varnaraðila Daða, en þá hafi verið fjallað um að búið gæfi út skiptayfirlýsingar vegna jarðarinnar og lóðar 1 úr henni. Í kjölfarið hafi varnaraðili Daði ekki sótt skiptafundi og því hafi hann glatað rétti sínum til að andmæla skiptayfirlýsingum, sbr. 2. mgr. 71. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 21/1991.

Til stuðnings því að jörðin sé í eigu Lambeyra ehf. bendir sóknaraðili á að varnaraðili Lambeyrabúið ehf., sem er í eigu varnaraðila Daða, hafi tekið jörðina á leigu 14. janúar 2003 með samningi við Lambeyrar ehf. Einnig bendir sóknaraðili á að varnaraðili Lambeyrabúið ehf. hafi gefið út tryggingarbréf til Glitnis hf. með veði í umræddum fasteignum, en í bréfinu komi fram að þinglýstur eigandi jarðarinnar sé Lambeyrar ehf.

IV

Varnaraðilar vísa til þess að sá hafi þinglýsta eignarheimild sem þinglýsingabók nefnir eiganda á hverjum tíma, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 38/1978. Þegar gengið var frá yfirlýsingum árið 2003 um eignarhald fasteigna og réttinda þeim tengd hafi Lambeyrar ehf. og Fasteignafélag Lambeyra ehf. skort þinglýsta heimild að eignunum. Því hafi þessum eignum ekki verið ráðstafað með lögformlegum hætti. Af þessu leiði að sóknaraðili fari með þinglýsta eignarheimild en um það sé ekki deilt í málinu. Þar fyrir utan hafi ákvörðun þinglýsingarstjóra frá 7. ágúst 2009 ekki verið borin undir dóminn og því verði að líta svo á að sú úrlausn hafi verið samþykkt.

Varnaraðilar taka fram að efnisatriði séu ekki til umfjöllunar í máli þessu sem borið er undir dóminn eftir 3. gr. laga nr. 39/1978. Því komi aðeins til úrlausnar hvort þinglýsingarstjóri hafi farið að þinglýsingalögum þegar hann tók ákvörðun um að vísa frá þinglýsingu skiptayfirlýsingum sóknaraðila. Varnaraðilar halda því fram að skiptastjóra dánarbús beri samkvæmt grunnreglum þinglýsingalaga og meginreglum skiptaréttar að ráðstafa eignum dánarbús til erfingja þess. Því hafi skiptastjóra verið óheimilt að ráðstafa eignum til fyrrgreindra félaga og þinglýsingarstjóri með réttu vísað skjölunum frá þinglýsingu. Sama leiði einnig af 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 39/1978.

Varnaraðilar vísa til þess að varnaraðili Daði sé eigandi að 40% þeirra mannvirkja sem tilgreind eru á yfirlýsingu um eignarhald frá 14. janúar 2003, en þær eignir séu að stærstum hluta þær sömu og tilgreindar eru á skiptayfirlýsingu um lóð 1 úr landi jarðarinnar. Af þessu leiði að skiptastjóri sé ekki bær til að gefa út skiptayfirlýsingar til Lambeyra ehf. og Fasteignafélags Lambeyra ehf., bæði hvað varðar 40% eignarhluta varnaraðila Daða og 60% eignarhluta sóknaraðila. Til að svo megi vera þurfi samþykki varnaraðila Daða og því sé fyrir hendi vanheimild til ráðstöfunarinnar.

Varnaraðilar telja það annmarka á skiptayfirlýsingunni um lóð 1 úr landi jarðarinnar að landinu hafi ekki verið skipt upp eftir þeim mannvirkjum sem á henni standa. Af þeim sökum hafi þinglýsingarstjóra einnig borið að vísa skjalinu frá þinglýsingu þar sem skilyrðum b. liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 39/1978 hafi ekki verið fullnægt. Sami annmarki sé einnig á skiptayfirlýsingu vegna jarðarinnar.

Loks benda varnaraðilar á að í skiptayfirlýsingu fyrir lóð 1 úr landi jarðarinnar séu ekki talin upp öll þau mannvirki sem á lóðinni standa samkvæmt opinberum skrám. Auk þess komi ekki skýrlega fram afmörkun lands eða lóðar. Þetta valdi því einnig að vísa beri yfirlýsingunum frá þinglýsingu, sbr. b., e. og f. liðir 2. mgr. 6. gr. laga nr. 39/1978.

V

Hinn 15. september 2010 vísaði þinglýsingarstjórinn í Búðardal frá þinglýsingu skiptayfirlýsingum sóknaraðila 30. ágúst sama ár um annars vegar eignarhald jarðarinnar Lambeyra og hins vegar eignarhald á lóð 1 úr landi jarðarinnar. Þá úrlausn hefur sóknaraðili borið undir dóminn með máli þessu sem rekið er eftir 3. gr. laga nr. 39/1978. Í slíku máli verður ekki leyst úr ágreiningi um efnisatriði að baki skjali heldur aðeins hvort fullnægt hafi verið formlegum skilyrðum laga við þinglýsingu.

Svo sem hér hefur verið rakið var tekin sú ákvörðun á skiptafundi sóknaraðila að gefa út skiptayfirlýsingar vegna umræddra eigna. Ákvörðun þar að lútandi var ekki borin undir dóminn eftir reglum 71. gr. laga nr. 20/1991. Í kjölfar þess að fjallað var um málið á skiptafundum voru yfirlýsingarnar gefnar út af skiptastjóra, en hann er í fyrirsvari fyrir búið, sbr. 1. mgr. 67. gr. laganna. Verður ekki fallist á það með varnaraðilum að heimild skiptastjóra sé að formi til bundin við ráðstöfun eigna til erfingja.

Í yfirlýsingu um eignarhald 26. mars 2003 kemur fram að Lambeyrar ehf. eigandi að landi jarðarinnar, (úthaga) og hlunnindum. Þessari yfirlýsingu var þinglýst á jörðina 23. janúar 2004. Hinn 7. ágúst 2009 skráði þinglýsingarstjóri athugasemd í þinglýsingabók þess efnis að Lambeyrar ehf. hefði ekki öðlast þinglýsta heimild til eignarinnar og því hefði að réttu lagi átt að vísa skjalinu frá þinglýsingu, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1978. Þessi úrlausn þinglýsingarstjóra var ekki borin undir dóminn heldur var brugðið á það ráð að gefa út umdeilda skiptayfirlýsingu til að koma þinglýsingu jarðarinnar í sama horf og gert var ráð fyrir í fyrrgreindri yfirlýsingu um eignarhald. Þegar skiptayfirlýsingin var móttekin til þinglýsingar hafði sóknaraðili þinglýsta eignarheimild fyrir lóðinni, sbr. 1. mgr. 25. laganna.

Eftir að lóð 1 var mynduð úr landi jarðarinnar hefur henni ekki verið formlega ráðstafað, hvorki af hálfu Einars heitins né dánarbús hans. Er sóknaraðili því þinglýstur eigandi lóðarinnar á grundvelli stofnskjals 14. nóvember 2003, sem móttekið var til þinglýsingar 30. desember sama ár. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili þinglýsta eignarheimild fyrir lóðinni, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 39/1978.

Svo sem hér hefur verið rakið hefur sóknaraðili þinglýsta heimild til að ráðstafa jörðinni og lóð 1 úr henni á þann veg sem greinir í skiptayfirlýsingum vegna umræddra eigna. Voru því ekki efni til að vísa yfirlýsingunum frá þinglýsingu á þeim grundvelli að sóknaraðila hafi brostið heimild til eignanna á þann veg er skjölin greina, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1978. Einnig er með öllu haldlaus sú málsástæða að b. liður 2. mgr. 6. gr. laganna standi í vegi fyrir þinglýsingu. Þá þurfti ekki að greina í skiptayfirlýsingum til yfirfærslu á þinglýstri eignarheimild mörk jarðarinnar eða lóðar úr henni, auk þess sem enginn vafi leikur á til hvaða eigna yfirlýsingarnar taka. Verður því heldur ekki talið að e. og f. liðir 1. mgr. 6. gr. laganna hindri þinglýsingu. Samkvæmt öllu þessu verður felld úr gildi ákvörðun þinglýsingarstjóra um frávísun umræddra skjala frá þinglýsingu og er lagt fyrir hann að þinglýsa skiptayfirlýsingunum án athugasemda.

Varnaraðilar létu málið fyrst til sín taka eftir að það barst dóminum. Hefur málatilbúnaður þeirra ekki valdið sóknaraðila frekari kostnaði en dánarbúið hafði þegar orðið fyrir við að bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir dóminn. Krafa sóknaraðila um málskostnað úr hendi varnaraðila verður því ekki tekin til greina.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Felld er úr gildi ákvörðun þinglýsingarstjórans í Búðardal frá 15. september 2010 um að vísa frá þinglýsingu skiptayfirlýsingum sóknaraðila, dánarbús Einars V. Ólafssonar, 30. ágúst sama ár, um annars vegar jörðina Lambeyrar og hins vegar lóð 1 úr jörðinni. Jafnframt er lagt fyrir þinglýsingarstjóra að þinglýsa yfirlýsingunum án athugasemda.

Málskostnaður fellur niður.