Hæstiréttur íslands
Mál nr. 687/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Miðvikudaginn 9. desember 2009. |
|
Nr. 687/2009. |
A(Kristján Stefánsson hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Kristbjörg Stephensen hdl.) |
Kærumál. Lögræði.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tvö ár á grundvelli a. liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2009, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Kristbjargar Stephensen héraðsdómslögmanns, 124.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2009.
Með beiðni, dagsettri 13. nóvember 2009, hefur Velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að A, kt. [...],[...], verði sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár á grundvelli a- og b-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.
Varnaraðili mótmælir kröfunni.
Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili hafi greinst með geðklofa af aðsóknargerð. Hann hafi að auki greinst með geð- og atferlisröskun af völdum notkunar lyfja og annarra geðvirkra efna. Varnaraðili eigi að baki fjölmargar innlagnir á geðdeild Landspítala. Hafi lögregla þá oftast flutt hann nauðugan á geðdeild eftir að hann hefði sýnt af sér ofbeldi eða verið í sturlunarástandi. Hafi varnaraðili tvívegis sætt nauðungarvistun á geðdeild í desember 2002 og í september 2005. Þá eigi varnaraðili langan brotaferil að baki, sem tengist vímuefnaneyslu hans.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2006 var varnaraðili sviptur sjálfræði í eitt ár samkvæmt heimild í a-lið 4. gr. lögræðislaga, með vísan til þess að hann væri vegna alvarlegs geðsjúkdóms ófær um að ráða högum sínum sjálfur og því nauðsynlegt að tryggja honum viðeigandi læknismeðferð.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2007 var varnaraðili sviptur sjálfræði í tvö ár samkvæmt heimild í a- og b-lið 4. gr. lögræðislaga með vísan til þess að hann væri haldinn geðklofasýki og fíknisjúkdómi á svo háu stigi að hann væri ófær um að ráða sjálfur persónulegum högum sínum.
Meðal gagna málsins er vottorð Ólafs Bjarnasonar geðlæknis, dagsett 10. nóvember sl., þar sem kemur fram að varnaraðili sé haldinn langvarandi og alvarlegum geðsjúkdómi, geðklofa af aðsóknargerð, auk þess að vera með langvarandi fjöllyfjafíkn. Varnaraðili hafi dvalið á sambýli fyrir geðfatlaða frá 1. desember 2008. Eftir að hann flutti á sambýlið hafi hann verið undir stöðugu eftirliti í því skyni að halda honum frá vímuefnaneyslu og hafi nokkrum sinnum þurft að leggja hann inn á geðdeild eftir að hann varð uppvís að slíkri neyslu. Varnaraðili sé með viðvarandi sturlunareinkenni og skorti algerlega innsæi í veikindi sín. Mikil þörf sé á því að hann fái áframhaldandi og reglulega læknismeðferð með tilheyrandi lyfjagjöf. Hann sé mótfallinn geðlyfjameðferð og hafi engan skilning á þýðingu hennar. Reynslan sýni að hann mæti ekki sjálfviljugur á göngudeild til meðferðar. Því hafi læknismeðferð ekki skilað árangri áður en hann var sviptur sjálfræði. Vímuefnafíkn varnaraðila geri læknismeðferð enn erfiðari þar sem neysla fíkniefna viðhaldi sturlunareinkennum hans og vinni á móti læknandi áhrifum geðlyfjanna. Hann þarfnist aðhalds til að halda sig frá vímuefnum. Varnaraðili hafi ekki skilning á því að hann þurfi sértækt búsetuúrræði til þess að fá nauðsynlega hjálp og aðhald, heldur vilji hann flytja af sambýlinu. Þar sem um svo alvarleg og langvarandi veikindi sé að ræða og engin von um að varnaraðili öðlist innsæi í veikindi sín mælir læknirinn með að varnaraðili verði sviptur sjálfræði ótímabundið.
Ólafur Bjarnason kom fyrir dóminn sem vitni, staðfesti læknisvottorð sitt og ítrekaði það álit sem þar kemur fram.
Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Sagðist hann ekki vilja búa lengur á sambýlinu þar sem honum fyndist hann vera undir of miklu eftirliti. Hefði hann hug á að flytjast þaðan. Þá vísaði varnaraðili því á bug að hann væri sturlaður svo sem í læknisvottorði greinir.
Niðurstaða
Með framangreindu vottorði Ólafs Bjarnasonar geðlæknis og vætti sérfræðingsins fyrir dóminum, sem og framburði varnaraðila sjálfs, er sýnt fram á að varnaraðili sé, vegna alvarlegs geðsjúkdóms og vímufíknar, ófær um að ráða högum sínum sjálfur í skilningi a- og b-liðar 4. gr. lögræðislaga, þannig að ekki verði tryggt að hann muni hlíta nauðsynlegri læknismeðferð. Því þykir augljós hætta á að meðferð varnaraðila fari úr skorðum og einkenni geðsjúkdóms hans magnist. Verður varnaraðili sviptur sjálfræði til að tryggja megi að hann njóti læknismeðferðar við sjúkdómi sínum. Er svipting sjálfræðis miðuð við tvö ár frá uppkvaðningu úrskurðar þessa.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að dæma málskostnað, 133.200 krónur, úr ríkissjóði, þar með talið þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Harðardóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í tvö ár.
Málskostnaður, 133.200 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talið þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.