Hæstiréttur íslands
Mál nr. 5/2007
Lykilorð
- Laun
- Gjalddagi
- Dráttarvextir
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 14. júní 2007. |
|
Nr. 5/2007. |
Íslenska ríkið(Skarphéðinn Þórisson hrl. gegn Einari G. Guðjónssyni (Gylfi Thorlacius hrl.) |
Laun. Gjalddagi. Dráttarvextir. Fyrning.
E krafðist viðurkenningar á skyldu Í til greiðslu dráttarvaxta af vangoldnum launum til hans vegna tímabilsins 1. september 2001 til 1. maí 2004. Ágreiningur hafði verið um túlkun á kjarasamningi og stofnanasamningi Í og L, stéttarfélags E, en með dómum Hæstaréttar frá 18. mars 2004 var fallist á skilning L á efni samningsins. Í leiðrétti laun E í samræmi við dóma Hæstaréttar en taldi sér hins vegar ekki skylt að greiða dráttarvexti á hin vangoldnu laun. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 70/1996 skulu laun greidd eftir á fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 er kröfuhafa heimilt, þegar gjalddagi skuldar er ákveðinn, að krefja skuldara um dráttarvexti, sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Bar Í á grundvelli þessara ákvæða skyldu til greiðslu dráttarvaxta á hin vangreiddu laun E og skipti í því sambandi ekki máli þótt ágreiningur væri um greiðsluskyldu. Samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 fyrnast vextir á fjórum árum. Ekki var talið að líta mætti svo á að með greiðslu Í til E 7. og 14. maí 2004, sem ætlað var að greiða einungis höfuðstól hinna vangoldnu launa E, hafi falist viðurkenning á skyldu Í til greiðslu dráttarvaxta. Var því fallist á þá málsástæðu Í að þeir dráttarvextir sem féllu til fyrir 26. apríl 2002 væru fyrndir. Í samræmi við framangreint var viðurkennd skylda Í til greiðslu dráttarvaxta af vangoldnum launum til E vegna tímabilsins 26. apríl 2002 til 1. maí 2004.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari, Helgi Birgisson settur hæstaréttardómari og Stefán Már Stefánsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2007. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndi var skipaður lögreglumaður við embætti lögreglustjórans í Reykjavík til fimm ára frá 1. janúar 1999. Hann baðst lausnar í apríl það ár, en var settur til að gegna sama starfi frá 22. ágúst 2001. Hann var skipaður á ný til að gegna starfanum til fimm ára frá 1. mars 2002. Um réttarstöðu hans gilda einkum ákvæði lögreglulaga nr. 90/1996 og lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Áfrýjandi og Landssamband lögreglumanna gerðu með sér kjarasamning 13. júlí 2001. Sérstakur stofnanasamningur var gerður 21. nóvember sama ár. Ágreiningur reis um túlkun ákvæða þessara samninga, sem lutu að því, að hvaða leyti starfsaldur hefði áhrif á röðun í launaflokka. Taldi áfrýjandi að einungis bæri að miða við starfsaldur í lögreglu, en Landssamband lögreglumanna taldi að miða bæri við starfsaldur í lögreglustörfum og þess starfsaldur sem lögreglumenn kynnu að hafa áunnið sér í öðrum störfum hjá ríki og sveitarfélögum. Hafði sú regla gilt samkvæmt eldri kjarasamningi.
Áfrýjandi greiddi lögreglumönnum, þar með talið stefnda, laun í samræmi við framangreindan skilning sinn. Fimm lögreglumenn höfðuðu mál á hendur áfrýjanda og kröfðust viðurkenningar á rétti sínum til röðunar í tiltekna launaflokka samkvæmt framangreindum kjarasamningi. Fjórir þeirra kröfðust einnig greiðslu vangoldinna launa auk dráttarvaxta. Dæmt var í málum þeirra í Hæstarétti 18. mars 2004. Með þeim dómum var fallist á þann skilning á reglum um starfsaldur, sem Landssamband lögreglumanna hafði lagt til grundvallar, svo og á rétt þeirra, sem höfðu uppi fjárkröfur, til dráttarvaxta á vangoldin laun. Áfrýjandi leiðrétti laun stefnda til samræmis við dóma Hæstaréttar í áður nefndum málum með tveimur greiðslum 7. og 14. maí 2004 samtals 1.511.428 krónur.
Stefndi ritaði bréf til áfrýjanda 18. maí 2004 og krafði um dráttarvexti á þær greiðslur sem hann hafði fengið með vísan til dóms Hæstaréttar í einu framangreindra mála. Var kröfu hans hafnað. Í kjölfarið fylgdu tvö önnur bréf stefnda þar sem gerð var sama krafa og var þeim báðum svarað á þann veg að áfrýjandi teldi sér ekki skylt að greiða dráttarvexti. Síðasta svarbréf áfrýjanda er frá 16. nóvember 2004.
II.
Um gjalddaga launagreiðslna til stefnda vegna starfa hans hjá áfrýjanda gildir 10. gr. laga nr. 70/1996, en samkvæmt því skulu laun hans greidd eftir á fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Sé gjalddagi peningakrafna fyrir fram ákveðinn er mælt fyrir um í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, að kröfuhafa sé heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti, sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Áfrýjandi heldur því fram, að honum sé ekki skylt að greiða dráttarvexti á hin vangoldnu laun þar sem réttmætur ágreiningur hafi verið um skyldu hans til greiðslu launanna, sem ekki hafi verið skorið úr fyrr en með framangreindum dómum Hæstaréttar 18. mars 2004. Vísar hann til 7. gr. laga nr. 38/2001 þar sem segi meðal annars að ef atvik, sem varði kröfuhafa og skuldara verður ekki kennt um, valda því að greiðsla fer ekki fram skuli ekki reikna dráttarvexti á kröfuna. Telur hann að skýra beri reglu þessa svo, að hann leysist undan skyldu til að greiða dráttarvexti á hin vangoldnu laun.
Undantekningarreglu 1. málsl. 7. gr. laga nr. 38/2001 verður ekki beitt í tilviki eins og því sem hér er til úrlausnar, þótt ágreiningur hafi verið um túlkun á ákvæðum kjarasamnings og stofnanasamnings. Verður áfrýjandi að bera hallann af því að skilningi hans á reglum um starfsaldur var hafnað.
Áfrýjandi heldur því einnig fram að stefndi hafi með tómlæti sínu glatað rétti til dráttarvaxta, sem hann kann að hafa átt, enda hafi hann ekki gert kröfu um vangoldin laun né dráttarvexti fyrr en með bréfi 18. maí 2004 að hann krafðist dráttarvaxta, eftir að uppgjör launanna til hans hafði farið fram. Þótt stefndi hafi haldið að sér höndum um kröfugerð á meðan dómsmál um réttarstöðu starfsfélaga hans voru rekin og ekki gert kröfu um dráttarvexti fyrr en eftir að uppgjör á vangoldnum launum til hans hafði farið fram, verður ekki talið að hann hafi sýnt af sér tómlæti, sem hafa eigi réttarverkanir fyrir hann.
Þá teflir áfrýjandi fram þeirri málsástæðu, að hvað sem öðru líði séu dráttarvextir, sem kunni að hafa fallið á kröfu stefnda fyrir 26. apríl 2002, fyrndir. Vísar hann til þess að kröfur um vexti fyrnist á fjórum árum samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Stefna í málinu hafi verið birt 26. apríl 2006 og séu því vextir, sem fallið hafi til fyrir 26. apríl 2002, fyrndir. Stefndi heldur því fram, að greiðslur þær, sem áfrýjandi hafi innt af hendi 7. og 14. maí 2004, hafi falið í sér innborgun á skuld við hann og viðurkenningu áfrýjanda á skuldinni í skilningi 6. gr. laga nr. 14/1905. Hafi nýr fyrningarfrestur því hafist er innborgunin átti sér stað.
Í 6. gr. laga nr. 14/1905 segir meðal annars að viðurkenni skuldunautur skuld sína við kröfueiganda annað hvort með berum orðum eða á annan hátt, t.d. með því að lofa borgun eða greiða vexti, eftir þann tíma er fyrningarfrest ella hefði átt að telja frá, hefjist nýr fyrningarfrestur frá þeim degi er viðurkenningin átti sér stað.
Af gögnum málsins má sjá, að er áfrýjandi innti greiðslurnar af hendi, var það ætlan hans að greiða einungis höfuðstól hinna vangoldnu launa. Stefndi leit frá öndverðu einnig svo á. Hafði hann í samræmi við það uppi kröfur um dráttarvexti og höfðar mál þetta til viðurkenningar á rétti sínum til þeirra. Verður því ekki litið svo á, að greiðslu áfrýjanda hafi að einhverju leyti verið varið til lúkningar á áföllnum dráttarvöxtum. Greiðsla höfuðstóls skuldar og sú viðurkenning á skuldinni, sem í því kann að felast af hálfu skuldara, leiðir ekki til þess að líta beri sjálfkrafa svo á, að hann hafi einnig viðurkennt skyldu sína til greiðslu dráttarvaxta. Reglur laga nr. 14/1905 miða við að höfuðstóll skuldar annars vegar og vextir eða dráttarvextir hins vegar fyrnist sjálfstætt. Verður því að meta hverju sinni, hvort greiðsla höfuðstóls feli einnig í sér viðurkenningu á skyldu til að greiða vexti eða dráttarvexti. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að áfrýjandi hafi með greiðslu höfuðstóls hinna vangoldnu launa fallist á skyldu til að greiða dráttarvexti. Verður því fallist á að dráttarvextir, sem féllu til fyrir 26. apríl 2002, séu fyrndir.
Verður niðurstaðan sú, að viðurkennd er skylda áfrýjanda til greiðslu dráttarvaxta af vangoldnum launum til stefnda vegna tímabilsins frá 26. apríl 2002 til 1. maí 2004.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkennd er skylda áfrýjanda, íslenska ríkisins, til greiðslu dráttarvaxta af vangoldnum launum til stefnda, Einars G. Guðjónssonar, vegna tímabilsins frá 26. apríl 2002 til 1. maí 2004.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2006.
Mál þetta höfðaði Einar G. Guðjónsson með stefnu birtri 26. apríl 2006 á hendur fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 3. nóvember sl.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skylda stefnda til greiðslu dráttarvaxta af vangoldnum launum til stefnanda vegna tímabilsins 1. september 2001 til 1. maí 2004, sem greidd voru 7. og 14. maí 2004. Stefnandi krefst málskostnaðar samkvæmt reikningi.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.
Ríkið og Landsamband lögreglumanna gerðu með sér samning um kjaramál lögreglumanna 13. júlí 2001. Síðan var gerður sérstakur stofnanasamningur 21. nóvember 2001. Með þessu samkomulagi var breytt nokkuð reglum um launahækkun vegna starfsaldurs. Urðu af þessu nokkrar deilur. Nokkrir lögreglumenn höfðuðu mál á hendur ríkinu og lauk þeim með dómum Hæstaréttar 18. mars 2004. Stefnandi þessa máls hafði ekki höfðað mál, en í framhaldi af dómum þessum voru launagreiðslur til hans fyrir tímabilið frá 1. september 2001 til apríl 2004 leiðréttar. Greiðslur þessar voru inntar af hendi 7. og 14. maí 2004. Námu þær samtals 1.511.428 krónum. Um var að ræða höfuðstól þess sem vantað hafði á fullar launagreiðslur, en vextir voru ekki greiddir. Svipaðar greiðslur munu hafa verið inntar af hendi til fleiri lögreglumanna, sem eins og stefnandi höfðu ekki höfðað mál.
Með bréfi til fjármálaráðuneytisins, dagsettu 18. maí 2004, óskaði stefnandi eftir því að greiddir yrðu dráttarvextir af hinni vangreiddu upphæð. Vísaði hann í bréfi sínu til dóms Hæstaréttar í einu af áðurnefndum málum.
Ráðuneytið svaraði stefnanda með bréfi 1. júlí 2004. Þar var beiðni stefnanda um greiðslu dráttarvaxta hafnað. Segir í bréfinu að grundvöllur til greiðslu dráttarvaxta sé sá að fjárkrafa hafi verið höfð uppi af hálfu aðila og að dráttur hafi orðið á greiðslu. Þar sem stefnandi hafi ekki haft uppi fjárkröfu fyrr en með bréfinu 18. maí 2004 hafi ekki orðið dráttur á greiðslu til hans.
Nokkur bréf gengu á mili aðila næstu mánuði, en afstaða þeirra breyttist ekki. Mál þetta var loks höfðað eins og áður segir með stefnu, birtri 26. apríl 2006.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að óumdeilt sé að honum hafi verið raðað í rangan launaflokk. Sú röðun hafi verið leiðrétt og vangoldin laun greidd. Hann eigi hins vegar kröfu um greiðslu dráttarvaxta af hinni vangreiddu fjárhæð. Stefnandi sé ríkisstarfsmaður. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 70/1996 sé gjalddagi launa ríkisstarfsmanna fyrsti virki dagur hvers mánaðar.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001 geti kröfuhafi krafist dráttarvaxta frá gjalddaga fram að greiðsludegi. Stefnandi telur að launakrafa sín sé peningakrafa. Ljóst sé að stefndi hafi ekki greitt honum laun í samræmi við kjarasamning.
Þar sem gjalddagi einstakra launagreiðslna sé fyrir fram ákveðinn beri að greiða dráttarvexti frá gjalddaga þar til greitt er. Stefnandi telur að því beri að fallast á kröfu sína um viðurkenningu á skyldu stefnda til að greiða dráttarvexti.
Þá vísar stefnandi til þess að með áðurnefndum hæstaréttardómi hafi lögreglumanni í sambærilegri stöðu og hann sjálfur, verið dæmd vangoldin laun auk dráttarvaxta. Synjun stefnda á því að greiða sér dráttarvexti telur stefnandi fela í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt meginreglum vinnuréttar hvíli engin kvöð á launþega að setja fram ákveðna launakröfu í hverjum mánuði eða krefja sérstaklega um greiðslu ef hann telur vanta upp á launagreiðslur. Hann hafi ekki sýnt af sér neins konar tómlæti við innheimtu kröfu sinnar.
Í málflutningi mótmælti stefnandi því að hluti kröfu sinnar væri fyrndur. Miða yrði við að með greiðslunum í maí 2004 hafi verið greiddir áfallnir vextir og upp í höfuðstól og fyrning þar með verið rofin.
Auk áðurgreindra réttarheimilda vísar stefnandi til ákvæða kjarasamninga og almennra reglna um skuldbindingargildi samninga. Loks er vísað til meginreglna stjórnsýsluréttar og 5. og 6. gr. laga nr. 38/2001.
Í stefnu er kröfum beint að embætti lögreglustjórans í Reykjavík, auk íslenska ríkisins. Fallið hefur verið frá kröfum á hendur embættinu sérstaklega.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi segir að stefnandi hafi ekki haft uppi fjárkröfu fyrr en eftir að fullnaðaruppgjör hafði farið fram. Hann kveðst því hafna því að honum beri að greiða dráttarvexti af þeim fjárhæðum sem greiddar voru.
Stefndi telur að hann hafi haft lögmætar ástæður til að halda eftir greiðslum þar til dómur Hæstaréttar lá fyrir. Mikill vafi hafi leikið á um túlkun viðkomandi samningsákvæða. Vísar stefndi hér til 7. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Enginn samningur hafi verið gerður við stefnda um að niðurstöður í dómunum skyldu einnig gilda um hans mál. Telur stefndi sig því ekki bundinn gagnvart stefnanda af vaxtaákvörðun í dómunum.
Þá mótmælir stefndi því að með afstöðu sinni brjóti hann gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Það sé lögfræðilegur munur á máli stefnanda og þeirra lögreglumanna sem höfðuðu mál á sínum tíma. Dómur sé ekki bindandi nema fyrir aðila, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi hafi ekki haft uppi fjárkröfur fyrr en eftir að honum hafði verið greitt.
Stefndi telur að greiðsluskylda gagnvart stefnanda hafi fyrst orðið til er dómar gengu í málum lögreglumannanna þann 18. mars 2004. Enginn dráttur hafi því orðið á greiðslum til stefnanda. Vinnuveitandi hafi þurft að túlka kjarasamning og niðurstaða hafi ekki legið fyrir fyrr en með dómi Hæstaréttar. Réttur til dráttarvaxta stofnist ekki fyrr en sú niðurstaða liggi fyrir, í þeim tilvikum er viðkomandi hefur ekki reynt að sækja rétt sinn.
Loks vísar stefndi til þess að samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 fyrnist vextir á fjórum árum. Yrði fallist á kröfur stefnanda séu þó fyrndir vextir sem á hafi fallið fyrir 26. apríl 2002, en stefna var birt 26. apríl 2006.
Forsendur og niðurstaða.
Stefnandi hefur krafist viðurkenningar á rétti en ekki greiðslu tiltekinnar fjárhæðar. Er honum þetta heimilt hér samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Atvik máls þessa eru óumdeild. Stefndi ákvað að fylgja niðurstöðu Hæstaréttar um alla þá lögreglumenn sem eins var ástatt um og greiða þeim laun í samræmi við þá túlkun kjarasamnings sem rétturinn taldi rétta. Með dómi Hæstaréttar var ekki skapaður réttur, heldur viðurkennt að réttur væri fyrir hendi og veittur aðfararhæfur dómur til að honum yrði framfylgt. Viðurkenning stefnda á rétti stefnanda til frekari launagreiðslna fól því í sér viðurkenningu á því að greiða hefði átt samkvæmt þeim niðurstöðum sem Hæstiréttur komst að þegar frá byrjun sumarið 2001.
Gjalddagi launa er fyrir fram ákveðinn. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 bar stefnda því að greiða stefnanda dráttarvexti af þeim hluta sem vangreiddur var, frá gjalddaga hverrar greiðslu.
Krafa stefnanda er ekki fallin niður fyrir tómlæti eða fyrnd. Greiðslu stefnda í maí 2004 getur stefnandi metið sem greiðslu áfallinna vaxta og hluta höfuðstóls. Skiptir ekki máli í þessu sambandi þó ekki hafi verið formlega samið um að niðurstöður í áðurgreindum dómsmálum skyldu gilda um stefnanda.
Verða kröfur stefnanda samkvæmt framansögðu teknar til greina eins og nánar greinir í dómsorði. Stefnda ber að greiða stefnanda 275.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Viðurkennt er að stefnda, íslenska ríkinu, ber að greiða stefnanda, Einari G. Guðjónssyni, dráttarvexti af þeim vangreiddu launum sem honum voru greidd 7. og 14. maí 2004, frá gjalddaga hverrar greiðslu.
Stefndi greiði stefnanda 275.000 krónur í málskostnað.