Hæstiréttur íslands

Mál nr. 233/2000


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Hegningarauki
  • Skilorð


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. nóvember 2000.

Nr. 233/2000.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Guðmundi Friðrik Stefánssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

                                                   

Þjófnaður. Hegningarauki. Skilorð.

G var dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi fyrir þjófnað. Við uppkvaðningu dómsins var dæmd upp skilorðsbundin refsing, sem G hafði hlotið með dómi 23. september 1998. Tók héraðsdómari ekki tillit til dóms 6. mars 2000 á hendur ákærða þar sem þegar hafði verið tekin upp hin skilorðsbundna refsing, sem ákærða var dæmd 23. september 1998. Hæstiréttur fór því með brot G sem hegningarauka við dóminn 6. mars 2000  án skilorðsrofs og dæmdi G í skilorðsbundið fangelsi í einn mánuð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2000 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærða verði gerð refsing sem hegningarauka án tillits til skilorðsbundins dóms frá 23. september 1998.

Ákærði krefst þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar, sem lög leyfa.

Sakargiftir á hendur ákærða í málinu eru fyrir að hafa á tímabilinu 9. til 11. desember 1998 stolið sjónauka af gerðinni Kalimar 8x21 að verðmæti 2.995 krónur. Játaði ákærði brotið. Var honum gert með hinum áfrýjaða dómi að sæta fangelsi í fimm mánuði, en með honum var dæmd upp fjögurra mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing, sem ákærði hlaut með dómi 23. september 1998, meðal annars fyrir tilraun til þjófnaðar. Við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms virðist héraðsdómaranum ekki hafa verið kunnugt um þá nýgenginn dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2000, þar sem ákærði var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals og umferðarlagabrot. Með síðastnefnda dóminum hafði dómurinn frá 23. september 1998 þegar verið tekinn upp og refsing samkvæmt honum dæmd með. Var refsing áfram bundin skilorði að öllu leyti.

Með dómi 6. mars 2000 hefur þegar verið dæmt um skilorðsrof ákærða og sætir niðurstaða hans ekki endurskoðun. Með brot ákærða nú verður farið sem hegningarauka við þann dóm án skilorðsrofs. Er hæfilegt að ákærði sæti fangelsi í einn mánuð og verður refsingin skilorðsbundin, eins og nánar greinir í dómsorði.

Áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Guðmundur Friðrik Stefánsson, sæti fangelsi í einn mánuð. Fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum þremur árum ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 25.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 7. þessa mánaðar, er höfðað af sýslumanninum í Kópavogi á hendur Berglindi Friðbergsdóttur, kt. 270565-2989, Stekkjartröð 4b, Egilsstöðum og Guðmundi Friðriki Stefánssyni, kt. 120880-4039, Mávahlíð 24, Reykjavík, með ákæru sem gefin var út þann 23. febrúar s.l.

Í þinghaldi 7. apríl s.l. ákvað dómari að skilja málið sundur og dæma sérstaklega mál Guðmundar Friðriks Stefánssonar, en láta mál Berglindar bíða seinni tíma vegna þess að ekki hefur tekist með neinum ráðum að hafa upp á henni.

Ákæran á hendur Guðmundi Friðriki Stefánssyni er á þá leið, að hann er ákærður fyrir þjófnað, með því að hafa á tímabilinu 9.-11. desember 1998, stolið einum sjónauka af gerðinni Kalimar 8x21 að verðmæti 2.995 krónur, úr vinnusal Fangelsins að Kópavogsbraut 17 í Kópavogi.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Mál þetta er dæmt samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Fyrir dómtöku tjáðu aðilar sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga varðandi þátt Guðmundar Friðriks Stefánssonar í málinu.

Með skýlausri játningu hans þykir sannað að hann hafi framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru og þar er réttilega fært til refsiákvæða.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann með dómi frá 23. september 1998 verið fundinn sekur um brot gegn 244. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga og hlaut hann þá 4ra mánaða fangelsi skilorðsbundið til 3ja ára. Önnur viðurlög sem ákærði hefur sætt samkvæmt sakavottorði sem liggur í réttinum þykja ekki skipta máli í þessu máli sem nú er til umfjöllunar.

Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorðs þess dóms sem áður er nefndur. Ber  því nú samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955, að dæma ákærða í einu lagi fyrir brot þau, sem fjallað var um í ofangreindum dómi, og það brot, sem hér er til meðferðar. Þykir refsing hans með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar, og falli hún niður að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Ákærði, Guðmundur Friðrik Stefánsson, sæti fangelsi í 5 mánuði, en festa skal fullnustu refsingar og falli hún niður eftir 3 ár frá uppkvaðningu dóms þessa ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar.