Hæstiréttur íslands
Mál nr. 642/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. október 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. október 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 17. október 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot sem getur varðað fangelsisrefsingu samkvæmt lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. október 2017.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, fd. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 17. október 2017 kl. 16:00, og á þeim tíma verði honum gert að sæta einangrun.
Kærði mótmælti kröfu lögreglustjóra.
I
Í greinargerð kemur fram að lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi borist tilkynning frá Tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE), aðfararnótt 7. október 2017, um að kærði hefði verið stöðvaður á tollhliði vegna gruns um að hann hefði fíkniefni falin innvortis. Um svipað leiti hafi einnig borist tilkynning frá Tollgæslunni um að annar maður, Y, fd. [...], hefði verið stöðvaður í FLE, grunaður um að hafa fíkniefni falin innvortis. Hefði skoðun Tollgæslu leitt í ljós að kærði, X, hafði greitt flugmiða Y og þeir verið í sömu bókun að koma frá Amsterdam með flugi [...]. Í fyrstu hafi kærði ekkert viljað kannast við Y.
Við skoðun Tollgæslu hefði einnig komið í ljós að kærði kom hingað til lands þann 28. september sl. þar sem hann hafði jafnframt verið stöðvaður vegna gruns um að hafa fíkniefni innvortis og hafi sá grunur reynst réttur en kærði hafði þá 9,51 g af kókaíni innvortis [...].
Kærði og Y voru báðir færðir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í því skyni að rannsaka hvort þeir hefðu fíkniefni falin innvortis. Við þá skoðun reyndist kærði hreinn en Y hafði 21 pakkningu af fíkniefnum innvortis.
II
Lögreglustjóri segir rannsókn þessa máls á frumstigi. Rannsaka þurfi aðdraganda ferðar kærða og Y til og frá landinu. Þá þurfi ennfremur að rannsaka tengsl þeirra innbyrðis og við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða. Magn hinna meintu fíkniefna, sem þegar hafi fundist í fórum kærðu, þyki eindregið benda til þess að hin meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi hans kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni, telji lögreglustjóri brýna hagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 17. október 2017 kl. 16.00, og að kærði sæti einangrun á þeim tíma.
III
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á samseka eða koma sönnunargögnum undan. Með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr., og 2. mgr. 98. gr. laga um meðferð sakamála, er fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðahaldi og að honum verði gert að sæta eingrun meðan á gæsluvarðhaldi standi eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 17. október 2017 kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.