Hæstiréttur íslands

Mál nr. 267/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Öryggisgæsla
  • Aðfinnslur


         

Föstudaginn 16. maí 2008.

Nr. 267/2008.

A

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

dómsmálaráðherra

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

 

Kærumál. Öryggisgæsla. Aðfinnslur.

Hafnað var kröfu skipaðs tilsjónarmanns A um að aflétt yrði í áföngum öryggisgæslu, sem honum hafði verið gert að sæta með dómi Hæstaréttar frá 2004.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 2. maí 2008. Skilja verður kæru hans svo að hann geri fyrir Hæstarétti sömu kröfu og í héraði, að hann verði leystur úr öryggisgæslu í áföngum. 

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Tilsjónarmaður sóknaraðila bar erindi hans, sem um er fjallað í þessu máli, undir Héraðsdóm Suðurlands með bréfi 30. janúar 2006. Fyrst með bréfi 29. ágúst 2006 óskaði dómstjóri héraðsdómsins eftir því við Magnús Skúlason yfirlækni við réttargeðdeildina að Sogni að hann léti dóminum í té skriflega umsögn um erindið, þar sem meðal annars skyldi koma fram „lýsing á klínísku ástandi A við komu hans á Sogn, breytingum á því og klínísku ástandi nú, og þá sérstaklega með sérstöku tilliti til innsæis hans í ástand sitt og getu til að bregðast við því. Þá verði greint frá lyfjameðferð hans, hvaða breytingar hafi orðið á henni og á hvaða lyfjum hann sé í dag.“ Þá var þess farið á leit að læknirinn léti í té álit á hvort breyta mætti öryggisgæslu þeirri eða meðferð sem sóknaraðili sætti og fleiru sem tengist svari við þessu. Með bréfum 16. febrúar, 1. október og 29. nóvember 2007 ítrekaði dómstjórinn erindið við lækninn og gerði alvarlegar athugasemdir við tafir sem orðnar væru á svörum hans. Það var svo ekki fyrr en 4. mars 2008 að læknirinn sendi héraðsdóminum bréf til svars við erindinu.

Tafir þær sem orðið hafa á afgreiðslu erindis sóknaraðila af framangreindum sökum eru aðfinnsluverðar, ekki síst vegna þess að af 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður ráðið að maður sem sætir öryggisgæslu geti borið erindi undir héraðsdóm um breytingu á henni á að minnsta kosti árs fresti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                        Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 30. apríl 2008.

I.

          Mál þetta var þingfest 14. desember sl. og tekið til úrskurðar 7. mars s.l. að lokinni skýrslutöku og munnlegum málflutningi.

          Sóknaraðili er B, skipaður tilsjónarmaður, f.h. A, kt. [...], Sogni, Ölfusi.

          Varnaraðili er dómsmálaráðherra, en ríkissaksóknari hefur annast meðferð málsins fyrir hans hönd.

          Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru að A verði leystur úr öryggisgæslu í áföngum þannig að honum verði heimiluð daglöng dvöl utan Réttargeðdeildarinnar á Sogni án fylgdar tvisvar í mánuði í þrjá mánuði og svo vikulega næstu þrjá mánuði sé hann hæfur til þess að mati yfirlæknis Réttargeðdeildarinnar að Sogni  Heimilt verði á þessu tímabili eða að því loknu að A flytji á sambýli þar sem hann njóti eftirlits heilbrigðisstarfsmanna Sogns í 12 mánuði en á eigin vegum eftir þann tíma  teljist hann hæfur til þess að mati yfirlæknis Réttargeðdeildarinnar að Sogni.

          Krafist er málskostnaðar í samræmi við framlagt málskostnaðaryfirlit. Sóknaraðila var veitt gjafsókn með bréfi dómsmálaráðherra 3. maí 2006.

          Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

II.

          Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 23. desember 2003, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands 13. maí 2004, var A gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Dómurinn taldi sannað að A hefði að kvöldi fimmtudagsins [dags.] 2002, veist að C, fæddum [...], á heimili hans að [...],og stungið hann með hnífi í brjóst, kvið og tvívegis í hægri framhandlegg, með þeim afleiðingum að C lést skömmu síðar af völdum stungusárs í brjóst sem náði inn í hjarta.   Var þessi háttsemi talin varða við 211. gr. sömu laga.  Þá var talið sannað að A hefði framið brot gegn valdstjórninni með því að hafa, fimmtudaginn 27. desember 2001, veist að D, kennitala [...], gæslumanni á réttargeðdeildinni að Sogni, sparkað í bak D bitið sundur málmól á armbandsúri hans og slegið hann tvö hnefahögg í vinstri vanga, með þeim afleiðingum að hann marðist á baki, marðist og hruflaðist á vinstri úlnlið, marðist á vinstri kinn, fékk glóðarauga og brotnaði upp úr fjórum tönnum.  Þessi háttsemi var talin varða við 1. mgr. 106. gr. sömu laga.

 Með bréfi, dagsettu 30. september 2002, óskaði fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík eftir því við Sigurð Pál Pálsson geðlækni að hann framkvæmdi geðrann­sókn á ákærða.  Í niðurstöðu þeirrar rannsóknar hans, sem dagsett er 22. desember 2002, segir:

          „1.  Það er niðurstaða mín að A sé sakhæfur.  Gögn málsins benda til þess að A hafi ekki haft geðrofseinkenni við morðið.  Þetta styðst einnig af geðskoðun undirritaðs sem fann engin merki alvarlegs geðsjúkdóms nokkrum dögum eftir morðið.  Engin einkenni rugls komu fram en ranghugmyndir og ofskynjannir komu fram nokkrum vikum seinna við breytingar og álag.  A var í neyslu fyrir mann­drápið.  Þó finnast enginn spor um eiturlyf í blóði eða þvagi.  A var hinsvegar undir talsverðum áhrifum prómethazine þegar morðið var framið.  A hefur þá líklegast verið undir niðri mjög ör, spenntur, tortrygginn og léttilega árásargjarn.  Stutt hefur þá verið í ofsafengin viðbrögð ef hann hefur talið sér ógnað.  Vímuáhrif þessi breyta þó í engu um sakhæfi hans. 

          2.  Erfitt er að meta hvort A þoli fangavist en ljóst er þó að A hefur áður verið vistaður í langan tíma í fangelsi og þá liðið misvel.  Neysla A innan og utan fangelsis gæti verið að auka einkenni hans á köflum.  A hefur hingað til haft mjög stutt tímabil án misnotkunar fíknilyfja.  Refsing hefur hingað til komið að litlu gagni.

          3.  A þarf vegna geðrofseinkenna sinna á tímabilum að hafa þétta læknismeðferð.  Ljóst er að geðlæknir þarf að meta hverju sinni hvar best sé að vista A.  Geðrofs sjúkdómsmynd A nú breytir í engu sakhæfi hans.

          4.  A hefur á tímabilum verið vistaður á Sogni vegna geðrofseinkenna og annarra vandamála og eðlilegt er að taka slíka vistun til athugunar reglulega.  Þó virðist ljóst að A hefur ekki nýtt sér ágætis meðferðar prógram þar á réttan hátt.  Forsenda og markmið fyrir vistun að Sogni þarf að vera skýr svo og hvernig skuli tekið á sífelldum agabrotum A.  Það að einstaklingur sé erfiður er ekki forsenda vistunar.  A er og mun verða erfiður á tímabilum breyti hann ekki hegðun sinni.  Þess á milli er hann ljúfur og þægilegur.  Fíknisjúkdómur A er líklegast stærsti einstaki þátturinn sem útskýrir geðsveiflur, ranghugmyndir og árásargirni.“

 Í tengslum við rekstur sakamálsins voru dómkvaddir tveir matsmenn, Sigmundur Sigfússon geðlæknir og Helgi Garðar Garðarsson geðlæknir til að meta hvort A væri sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga og ef niðurstaðan yrði sú að hann væri sakhæfur yrði metið hvort ætla mætti að refsing gæti borið árangur sbr. 16. gr. sömu laga.  Matsgerð er dagsett 8. september 2003.  Í kaflanum „Samantekt og álit” segir svo: 

          “A er tæplega 37 ára gamall karlmaður sem ákærður er fyrir að hafa banað manni með hnífsstungum hinn [...].

          A fékk fyrstu einkenni um alvarlegan geðsjúkdóm með geðrofi árið 1987, 21 árs gamall.  Hann hafði þá um margra ára skeið haft sjúkdómseinkenni sem samrýmast forstigum geðklofasjúkdóms.  Við álítum að A hafi þegar á árinu 1987 uppfyllt skilmerki um aðsóknargeðklofa (Schizoprenia paranoides).  Það er einkum lýsing móður A á ástandi hans í aðdraganda fyrstu innlagnar hans á geðdeild Landspítala 14.10. 1987 sem gefur okkur skýrar vísbendingar um þetta.

          Allt frá barnsaldri hefur A átt í verulegum erfiðleikum með sjálfan sig og samskipti sín við annað fólk.  Þetta birtist í viðkvæmni hans, litlu kvíða- og mótlætisþoli, lítilli hvata- og reiðistjórn, þunglyndi með sjálfsvígshugsunum og verulegum erfiðleikum í félagslegum samskiptum.  Allt líf A hefur síðan markast af þessum sjúklegu einkennum með ósveigjanlegum hætti og komið í veg fyrir að hann hafi getað aðlagað sig umhverfi sínu og nýjum viðfangsefnum.  Þessi einkenni hafa komið í veg fyrir að góð greind A hafi nýst honum í lífsbaráttunni sem skyldi.  Hann hefur ekki getað fundið lífi sínu uppbyggilegan farveg.  Einkennin hafa haft í för með sér skaðlegar afleiðingar, bæði fyrir A sjálfan og þá sem lent hafa í samskiptum við hann.

          Við teljum engan vafa leika á því að A var haldinn alvarlegri persónu­leika­röskun allt frá 10 ára aldri.  Rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar með persónu­leikaröskun hafa mun oftar en aðrir önnur geðræn vandamál, til dæmis þunglyndi, hugrof (dissociation) og fíknisjúkdóma.  Umdeilt er hvort beint samband sé milli persónuleikaröskunar og geðrofssjúkdóms.

          A hefur allt frá unglingsárum á löngum tímabilum misnotað áfengi og önnur fíkniefni í þeim mæli að það hefur skaðað hann og umhverfi hans og spillt enn frekar hæfni hans til félagslegra samskipta.

          Við teljum, metið út frá gögnum og lýsingum viðmælenda okkar á A, að hann hafi verið í geðrofsástandi nær óslitið frá 21 árs aldri og því sé afar ólíklegt að hann hafi ekki verið í geðrofsástandi á þeim tímapunkti sem hann framkvæmdi verknaðinn [dags.].

          Fleira felst í sjúkdómsgreiningunni geðklofi en geðrofseinkenni.  Sjúkdómur­inn nær að jafnaði til nánast allra þátta í persónuleika og lífi fólks með gagngerum hætti (hugsanalíf, tilfinningalíf). Þótt sjúkdómur A hefði verið vel meðhöndlaður og hann ekki haft virk (productive) geðrofseinkenni (ofskynjanir, ranghugmyndir) á þeim tíma sem hann framdi afbrotið, þá hefði samt sem áður neikvæðra áhrifa sjúkdómsins gætt á dómgreind hans og hegðun á verknaðarstundu. Við teljum að þegar um svo alvarlegan geðsjúkdóm sé að ræða þá snúist spurningin um sakhæfi eða ósakhæfi ekki eingöngu um það hvort um virk geðrofseinkenni hafi verið að ræða á verknaðarstundu.  Við teljum að hin umfangsmiklu áhrif sjúkdómsins á dómgreind, hvatastjórn, reiðistjórn og fleira skipti jafn miklu máli.

Við álítum að A hafi sökum geðveiki verið ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem hann framdi verknaðinn hinn [dags.]. Við álítum hann því vera ósakhæfan.“

 Álitaefnið um sakhæfi A var lagt fyrir læknaráð með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga um læknaráð nr. 14/1942.  Svar læknaráðs barst með bréfi dagsettu 19. nóvember 2003.  Þar segir m.a.: 

          „Svör læknaráðs við spurningum Héraðsdóms Reykjavíkur eru eftirfarandi og byggja á niðurstöðum réttarmáladeildar:

          1. Spurning: Er læknaráð sammála niðurstöðu Sigurðar Páls Pálssonar, geðlæknis um sakhæfi ákærða, sbr. það sem segir í skýrslu hans, dagsettri 22. desember 2002, bls. 30.

           Svar: Nei. Með vísan til ofangreindra gagna telur læknaráð flestar líkur benda til þess að A eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða (geðklofi með ofsóknarkennd). Læknaráð telur því líklegt að sakhæfi A hafi verið skert á þeirri stundu er umræddur verknaður var framinn þó ekki hafi verið sýnt fram á að hann hafi verið haldinn ranghugmyndum eða ofskynjunum í nánasta aðdraganda verknaðarins. Eðli umrædds sjúkdóms, vitræn geta viðkomandi og flkniefnaneysla geta torveldað greiningu og mat á sjúkdómsferli.

          2. Spurning: Er læknaráð sammála niðurstöðu geðlæknanna Helga Garðars Garðarssonar og Sigmundar Sigfússonar um sakhæfi, sbr. það sem segir í matsgerð þeirra, dagsettri 8. september 2003, bls. 24.

          Svar: Læknaráð telur ekki að sýnt hafi verið fram á að A hafi átt við geðrofsástand að stríða nær óslitið frá 21 árs aldri.

          Læknaráð fellst á niðurstöður geðlæknanna Helga Garðars Garðarssonar og Sigmundar Sigfússonar að því er varðar 3. mgr. spurningarinnar.

          Læknaráð telur sbr. að ofan að flestar líkur bendi til þess að sakhæfi A hafi verið skert á þeim tíma er viðkomandi verknaður var framinn en telur ekki að sýnt hafi verið fram á að A hafi á þeirri stundu verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum.

 3. Spurning: Ef læknaráð er sammála niðurstöðum Helga Garðars Garðarssonar og Sigmundar Sigfússonar, telur þá ráðið að:

a) ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem hann framdi brotin og því skuli eigi refsa ákærða, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

          Svar: Læknaráð telur að ekki hafi verið sýnt fram á að veikindi A hafi verið með þeim hætti þegar umræddur verknaður var framinn að ákvæði 15. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940 eigi við í þessu tilviki.

b) ákærði hafi ekki verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem hann framdi brotið og að refsing geti borið árangur, sbr. l. mgr. 16. gr. sömu laga?

          Svar: Læknaráð telur að A hafi ekki verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem umræddur verknaður var framinn en telur hins vegar að flestar líkur bendi til þess að ákvæði 16. greinar almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi við í þessu tilviki. Læknaráði þykir ljóst að A þurfi á reglubundnu eftirliti og meðferð geðlækna að halda.“

 Í  niðurstöðu dómsins segir svo:

          „Það er niðurstaða dómsins að ákærði, A, hafi framið þau brot sem lýst er í ákæru frá 31. janúar 2003 og í 1. lið ákæru frá 4. apríl sama ár, en að ósannað sé að háttsemi hans hafi verið eins og lýst er í í 2. lið sömu ákæru.

          Deilt er um sakhæfi ákærða. Fyrir liggur geðheilbrigðisrannsókn Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis, dagsett 22. desember 2002, og matsgerð tveggja dómkvaddra matsmanna, geðlæknanna Helga Garðars Garðarssonar og Sigmundar Sigfússonar, dagsett 8. september 2003, og loks álit læknaráðs, dagsett 19. nóvember 2003. Framangreindir þrír læknar hafa einnig komið fyrir dóminn og gert nánari grein fyrir rannsóknum sínum á ákærða. Hafa álitin og vætti þeirra verið rakin hér að framan. Voru þeir sammála um það að ákærði hefði alvarlega persónuleikaröskun og fíknisjúkdóm, en ósammála um hvort hann skyldi greindur með aðsóknargeðklofa. Vitnið Sigurður Páll telur þetta ekki hafa verið staðfest, og telur ákærða ekki hafa átt nægilega löng tímabil án neyslu til þess að unnt sé að skera úr um hvort geðklofi sé í raun til staðar. Hann telur ákærða sjálfan bera ábyrgð á mikilli lyfja- og fíkniefnaneyslu og á því að nýta ekki læknismeðferð sem honum hafi staðið til boða. Matsmennirnir eru hins vegar sammála um að ákærði hafi greinst með geðklofa árið 1992 og ítrekað síðar og að afbrotasaga hans styðji þessa greiningu. Telja þeir báðir að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum þegar hann varð C að bana. Vitnið Sigurður Páll telur fullnægjandi aðstæður vera til staðar í fangelsum til að veita ákærða þá læknismeðferð og eftirlit sem hann þurfi. Matsmenn telja viðunandi aðstæður ekki vera til staðar í fangelsum þar sem ákærði þurfi hjúkrunarfólk með sér öllum stundum.

          Læknaráð kemst að þeirri niðurstöðu að flestar líkur bendi til þess að ákærði stríði við geðklofa með ofsóknarkennd og að sakhæfi hans hafi verið skert á þeirri stundu þegar hann varð mannsbani, en telur ekki að sýnt hafi verið fram á að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum. Það telur ekki að 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi við, en að 16. gr. sömu laga geti átt við. Læknaráð telur ljóst að ákærði þurfi á reglubundnu eftirliti og meðferð geðlækna að halda.

          Þegar framangreind álit sérfræðinga hafa verið skoðuð og sakarferill ákærða, virðist vera ljóst að hæfni hans til að stjórna viðbrögðum sínum sé skert og að minnsta kosti á stundum sé hann haldinn ranghugmyndunum og líklegur til að rangtúlka aðstæður þegar hann telur sér ógnað. Virðast þessi einkenni koma fram í báðum þeim málum, sem hér hafa verið til meðferðar, og hann er talinn hafa gerst brotlegur í. Telur dómurinn því að fallast beri á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um að ákærði sé ósakhæfur og að sýkna beri hann af kröfu ákæruvaldsins um refsingu, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig er fallist á það álit matsmanna að ákærði sé hættulegur. Réttaröryggis vegna skal því gera ráðstafanir til að varna því að hann valdi skaða. Þykir rétt að ákærði sæti öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 á viðeigandi stofnun.“ 

III.

          Vegna kröfu sóknaraðila um lausn úr öryggisgæslu hefur dómurinn fengið umsögn fagaðila á Réttargeðdeildinni að Sogni og tekið skýrslur af sóknaraðila og vitnum eins og nú verður rakið.

          Í umsögn Magnúsar Skúlasonar, yfirlæknis, dagsettri 4. mars sl. segir að á ýmsu hafi gengið á Sogni hjá sóknaraðila.  Hann sé karlmenni hið mesta að burðum og hafi ýmsum staðið beygur af honum.  Hann hafi undanfarið verið að breytast hægt og bítandi og hafi árekstrum stórfækkað.  Enda þótt ekki verið fullyrt um traustleika batans á núverandi stigi, t.d. einkum mótlætisþol og mótlætisviðbrögð, sé ljóst að nú sé tímabært að leika jákvæðum mótleik og viðurkenna með því ferlið og viðleitni sóknaraðila og sveigja aðstæður í samræmi við það í átt til aukins tilvistarlegs svigrúms.  Magnús taldi æskilegast að sóknaraðili gæti dvalist á vistunar- eða meðferðarheimili sem hefði metnað til að ástunda uppbyggingu, hvatningu og endurhæfingu á sem breiðustum grundvelli svo lengi sem þörf krefði, samhliða liðveislu og eftirliti.  Magnús kom fyrir dóm og staðfesti umsögn sína.

          Lögð hefur verið fram í málinu greinargerð John Donne De Niet, geðlæknis, dags. 26. febrúar sl.  Hann kvaðst hafa kynnst sóknaraðila þegar hann hóf störf að Sogni í september 2006.  Hann væri með geðklofa með aðsóknarhugmyndum samhliða andfélagslegri persónuleikaröskun.  Hann telur tímabært að leysa sóknaraðila undan öryggisgæslu með skilyrðum.  Hann gæti búið á stuðningsheimili þar sem væri sólarhringsgæsla með endurhæfingarmeðferð.  Hann þyrfti að vera áfram á lyfjameðferð og njóta geðlæknismeðferðar.  John kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína.

          Lögð hefur verið fram í málinu samantekt Víðis Hafberg Kristinssonar, sálfræðings dags. 20. febrúar sl.  Þar kemur fram að sóknaraðili hafi á köflum verið mjög erfiður og hafi í einhver skipti orðið að vista hann í „sellu“, jafnvel með lögregluaðstoð og jafnvel hafi hann verið fluttur í rammgerðari öryggisgæslu að Litla-Hrauni.  Hann hafi valdið skemmdum á húsnæði og lausafjármunum og á löngum tímabilum hafi fólk velt því fyrir sér hvort hann væri yfir höfuð meðferðarhæfur og hvort það þjónaði einhverjum tilgangi að hafa hann á stað eins og Sogni.  Fyrir einu og hálfu ári hafi farið að bóla á breytingum hjá honum eins og hann skynjaði að hegðun hans sjálfs hefði eitthvað með það að gera hvort hann losnaði einhvern tíma úr öryggisgæslu.  Hann hafi sýnt góðar hliðar, verið jákvæður og umtalsgóður en svo hafi komið geðræn sprengigos með ruddafengnum ummælum og framkomu.  Skoðuð hafi verið ýmis vistunarúrræði fyrir sóknaraðila, t.d. sambýli að X í Reykjavík, en í lok febrúar hafi sóknaraðili lýst því yfir að hann vildi ekki nýta sér þann möguleika þar sem hann teldi það of nálægt því umhverfi sem hann hafi verið í áður.  Víðir mælt með því að yrði fallist á rýmkun öryggisgæslu A til handa, yrði honum fyrst veitt aukið ferðafrelsi frá Sogni og hafi þar búsetu fram á haust en flytji síðan í annað vistunarpláss.  Víðir kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína.

          Atvikaskráning er tekin saman 8. nóvember 2007 af Drífu Eysteinsdóttur, deildarstjóra að Sogni og aðstoðardeildarstjórunum þar, þeim Hrafnhildi Guðmundsdóttur og Önnu Maríu  Gunnarsdóttur, hjúkrunarfræðingi.  Þar kemur fram að dvöl sóknaraðila á Sogni hafi meira og minna einkennst af miklum skapofsa og frekju á köflum en þess á milli hafi hann sýnt þokkalegt jafnvægi.  Þau atvik sem leitt hafi til skapofsa og reiði sóknaraðila séu í framhaldi af því að hann fái ekki það sem hann vilji og virðist hann ekki kunna önnur viðbrögð en að sýna líkamlegt ofbeldi.  Hins vegar líði alltaf lengri tími á milli slíkrar framkomu.  Hann hafi óhikað slegið til starfsfólks og lögreglu og hafi komið fyrir að menn hafi meiðst, þó ekki mjög alvarlega.  Síðasta atvik af þessari stærðargráðu hafi verið í júlí 2007, en þá hafi hann ráðist á starfsfólk af svipuðu tilefni og áður og m.a. bitið einn öryggisgæslumann í öxlina.  Þá hafi lyfjalöngun hans verið mikil, bæði í róandi lyf og alls konar önnur lyf, en hún hafi farið þverrandi.  Skráð hafi verið sérstaklega átök í 19 skipti sem oftast hafi verið að frumkvæði sóknaraðila en stundum annarra sjúklinga.  Hafi sóknaraðili sýnt skapofsa, frekju og yfirgang og verið með hótanir við starfsfólk og vistmenn.  Í júlí 2004 hafi hann dvalið á Litla-Hrauni í 8 daga vegna þess að hann hefði brotið allt og bramlað og slasað öryggisgæslumann.  Hafi þurft aðstoð lögreglu við að halda honum í skefjum.  Hafi stundum þurft að kalla á aðstoð lögreglu vegna átaka og sprautugjafa en sóknaraðili virðist sjá að sér við að sjá lögregluna.  Hafi þessi átök yfirleitt endað með selluvist í 1 til 4 sólarhringa eða hann hafi verið læstur inni á herbergi sínu frá nokkrum klukkustundum upp í 1 sólarhring.  Sóknaraðili hafi bætt hegðun sína árið 2007 með nokkrum undantekningum.  Í janúar og júlí hafi hann lent í átökum við vistmann og í framhaldi af því í stimpingum við hjúkrunarfræðing og gæslumenn.  Um páskana hafi  hann látið senda sér 50 töflur af Ritalini í páskaeggi.  Fram kemur í skýrslunni að síðan í júlí hafi orðið miklar breytingar til hins betra á sóknaraðila.  Hann hafi haft mikið gagn af sporavinnu sem AA félagi hafi farið í gegnum með honum.  Hann sé orðinn meðvitaðri um hvað skapofsinn og ógnandi framkoma hafi fráhrindandi áhrif á samferðafólkið.  Hann hafi loks þorað að sýna almennilegheit og kurteisi og uppskeri þá allt annað viðmót hjá fólki.  Að mati höfunda skýrslunnar sé nauðsynlegt að sóknaraðili fái að spreyta sig úti í samfélaginu.  Komi þar einna helst til greina þjónustuíbúðir fyrir geðfatlaða en ekki komi annað til greina en að 2 menn séu á vakt.  Þær Drífa og Hrafnhildur komu fyrir dóm og staðfestu ofangreinda skýrslu.

          E, tengiliður sóknaraðila, kom fyrir dóm og kvaðst hafa aðstoðað hann í tengslum við starf AA samtakanna, þ.e.a.s. unnið með honum í 12 spora kerfinu.  Hann kvað sóknaraðila hafa náð árangri í þessari vinnu sinni í baráttu við áfengisfíknina og hafi það komið honum á óvart.  

          F, gæslumaður á Réttargeðdeildinni, kom fyrir dóm og kvað sóknaraðila hafa tekið gífurlegum framförum síðustu ár, hann væri í betra jafnvægi og yfirvegaðri en áður.  Hann kvað tímabært að leyfa honum að dvelja utan Sogns að einhverju marki.

          Sóknaraðili kom fyrir dóminn og kvað tímabært að öryggisgæslunni yrði aflétt en taldi þó rétt að farið væri varlega í þeim efnum.  Hann kvað hafa tekist að koma lyfjamálum sínum í rétt horf, en hann kvaðst vera fíkill og hafi átökin á Sogni snúist um að koma böndum á þau.  Sóknaraðili var viðstaddur vitnaleiðslur og kom þá í ljós verulegt hömluleysi hjá honum gagnvart framburði sumra vitnanna.

IV.

Í 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 kemur fram að ákveða megi í dómi, ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ráðstafanir til varnar því að háski verði af manni sem hefur verið sýknaður samkvæmt ákvæðum 15. gr. laganna. Á grundvelli þessa ákvæðis var sóknaraðila gert að sæta öryggisgæslu með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. desember 2003, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands 13. maí 2004.  Ótímabundin og algjör öryggisgæsla eru ýtrustu úrræði, en þeim skal aðeins beita komi vægari ráðstafanir, svo sem trygging, bann við dvöl á ákveðnum stöðum eða svipting lögræðis ekki að notum, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga. Framangreind úrræði 62. gr. eru ekki tæmandi talin. Ákvæðið hefur verið skýrt svo, að dómstólar geti breytt fyrri ákvörðun, ákveðið vægari úrræði en algjöra öryggisgæslu, eða hert gæslu allt eftir aðstæðum og nauðsyn hverju sinni. Einnig er litið svo á, og eru dómafordæmi fyrir því, að lausn eða mildun öryggisgæslu megi vera háð skilyrðum. Nauðsynlegt er að úrræði eða rýmkun á öryggisgæslu séu ákveðin svo skýrt sem verða má, þannig að viðeigandi stjórnsýsluaðili megi framfylgja þeim og sá sem í hlut á viti sem gleggst hvaða skilyrðum hann þurfi að hlíta.

          Samkvæmt gögnum málsins er sóknaraðili haldinn geðklofa með aðsóknar- hugmyndum samhliða andfélagslegri persónuleikaröskun. Samkvæmt upplýsingum starfsfólks Réttargeðdeildarinnar að Sogni hefur hann sýnt þar af sér ofbeldisfulla og ógnandi hegðun á köflum þannig að þurft hefur að kalla eftir aðstoð lögreglu og í sumum tilvikum hefur þurft að færa hann í rammgerðari mannvirki.  Síðast er skráð atvik af þessu tagi í júlímánuði 2007.  Sóknaraðili hefur hins vegar tekið verulegum framförum undanfarið og hefur árekstrum fækkað.  Það er þó mat hjúkrunarfræðinga á Sogni að rétt sé að hafa a.m.k. tvo starfsmenn á vakt vegna hans.  Fram kemur í læknisfræðilegum gögnum að sóknaraðili hafi náð ákveðnum bata en þar er ekki fullyrt að um varanlegan bata sé að ræða.  Sóknaraðili hefur sjálfur lýst því yfir að rétt sé að fara varlega verði öryggisgæsla rýmkuð.  Dómendur urðu þess varir í vitnaleiðslum að verulegt hömluleysi virðist enn hrjá sóknaraðila

          Dómurinn hefur virt og metið allt það sem hér að framan hefur verið rakið um sjúkdóm, meðferð, bata og batahorfur sóknaraðila, viðhorf hans sjálfs til geðheilsu sinnar og aðstæðna allra.  Saga sóknaraðila bendir ótvírætt til þess að hann sé hættulegur umhverfi sínu og hefur ekki verið sýnt fram á að öryggi annarra verði tryggt með minni gæslu en nú er veitt.  Þar sem gögn málsins benda til þess að verulegur vafi leiki á því hvort ástand sóknaraðila sé orðið nægilega stöðugt til að raunhæft sé að reyna önnur úrræði en dvöl að Sogni í öryggisgæslu verður ekki hjá því komist að hafna kröfu hans um lausn úr öryggisgæslu eða rýmkun hennar.  Þessi niðurstaða kemur þó ekki í veg fyrir að sóknaraðila verði heimilað að fara á kaffihús eða í aðrar stuttar heimsóknir í fylgd gæslumanna eftir nánari ákvörðun yfirlæknis Réttargeðdeildarinnar á Sogni. 

          Í ljósi þess hve ógnvekjandi og hættuleg hegðun sóknaraðila hefur verið á köflum gagnvart starfsfólki Réttargeðdeildarinnar, bendir dómurinn á að nauðsynlegt gæti verið að afla mats dómkvaddra geðlækna á ástandi sóknaraðila til viðbótar við mat starfsmanna og sérfræðinga Réttargeðdeildarinnar að Sogni komi til þess að sóknaraðili sæki aftur um lausn úr öryggisgæslu.

Málskostnaður er felldur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, en hann er málflutningsþóknun lögmanns hans, Björns L. Bergssonar, hæstaréttarlögmanns, þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur utan virðisaukaskatts og greiðist úr ríkissjóði. 

Úrskurðinn kveður upp Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, ásamt Ástríði Grímsdóttur, héraðsdómara og Kristni Tómassyni, geð- og embættislækni.  Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna embættisanna dómenda.

Úrskurðarorð:

          Kröfu B, skipaðs tilsjónarmanns, f.h. A, um að aflétt verði öryggisgæslu sem A var gert að sæta samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, upp kveðnum 23. desember 2003 og staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 13. maí 2004, er hafnað.   Kröfu sóknaraðila um rýmkun öryggisgæslunnar er einnig hafnað.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, málflutningsþóknun lögmanns hans, Björns L. Bergssonar, hæstaréttarlögmanns, 350.000 krónur utan virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.