Hæstiréttur íslands

Mál nr. 94/2012


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Hegningarauki
  • Skilorðsrof
  • Einkaréttarkrafa


                                     

Fimmtudaginn 4. október 2012.

Nr. 94/2012.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Jóni Ásbjörnssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

(Lilja Jónasdóttir hrl. f.h. brotaþola)

Líkamsárás. Skilorð. Hegningarauki. Skilorðsrof. Einkaréttarkrafa.

J var sakfelldur fyrir líkamsárás með því að hafa haldið A niðri á meðan X sparkaði í andlit hans. Var háttsemin talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing J ákveðin sem hegningarauki við 4 mánaða skilorðsbundna fangelsisrefsingu samkvæmt héraðsdómi sem fallið hafði eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms, en í hinum fyrrgreinda dómi var 3 mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing J samkvæmt öðrum dómi tekin upp og dæmd með. Með vísan til 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga var refsing J hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði og var þá kveðið á um hana í einu lagi fyrir framangreinda háttsemi og samkvæmt héraðsdómunum tveimur. Var fullnustu refsingarinnar frestað og hún bundin skilorði. Þá var ákvæði héraðsdóms um greiðslu bóta til A staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. janúar 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi. 

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 1.027.747 krónur, en til vara aðra lægri fjárhæð, í báðum tilvikum með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. desember 2010 til 6. júlí 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Að þessu frágengnu krefst hann staðfestingar héraðsdóms. Loks krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt nýtt vottorð B læknis 2. febrúar 2012 þar sem leiðrétt eru ummæli í læknisvottorði hennar  6. mars 2011. Í hinu nýja vottorði dregur læknirinn til baka fyrri ummæli sín um að brotaþoli, A, „hafi verið greindur með ADHD“, en sú staðhæfing í sjúkraskýrslu hans sé ekki rétt. Þegar hann hafi verið skoðaður árið 2000 með lesblindu í huga hafi það mat verið innan eðlilegra marka. Þá hafi ummæli í eldra vottorðinu um lélega sjálfsmynd brotaþola tengst steranotkun, sem aðeins hafi varað tvo mánuði, en hann hafi alveg jafnað sig eftir það.

Málsatvikum er skilmerkilega lýst í héraðsdómi. Með vísan til forsendna hans er staðfest sú niðurstaða að sakfella beri ákærða fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp var ákærða gert, með dómi Héraðsdóms Reykjaness 6. desember 2011, að sæta fangelsi í fjóra mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað og hún bundin skilorði. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga var með dóminum tekinn upp dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. desember 2009 þar sem ákærði hafði verið dæmdur til þriggja mánaða skilorðbundinnar fangelsisrefsingar og refsing hans ákveðin í einu lagi með hliðsjón af 77. gr. sömu laga. Við uppkvaðningu umrædds dóms 6. desember 2011 láðist að taka tillit til þess að fjórum dögum áður hafði hinn áfrýjaði dómur verið kveðinn upp, en þar hafði réttilega verið tekinn upp dómurinn yfir ákærða 9. desember 2009 og refsing hans tiltekin eftir áðurnefndri lagagrein sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi. Með skírskotun til þess, sem rakið hefur verið, er óhjákvæmilegt að ákveða ákærða refsingu í þessu máli sem hegningarauka við refsingu samkvæmt dóminum 6. desember 2011 með hliðsjón af 78. gr. laganna.

Fyrir liggur í málinu að X, sem var sakfelldur í héraði ásamt ákærða fyrir að hafa ráðist á brotaþola umrætt sinn, veitti brotaþola einn þá miklu áverka sem hann hlaut. Af þeim sökum er hlutur ákærða í brotinu lítill í samanburði við þátt X í því. Að teknu tilliti til 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða því hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði og er þá kveðið í einu lagi á um refsingu fyrir þá háttsemi, sem að framan greinir, og samkvæmt áðurnefndum dómum 9. desember 2009 og 6. desember 2011. Rétt er að fullnustu refsingarinnar sé frestað skilorðsbundið eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms, sem lúta að sakarkostnaði ákærða, verða staðfest.

Þrátt fyrir að hlutur ákærða í broti því, sem hann hefur verið sakfelldur fyrir, sé eins og fyrr segir lítill í samanburði við þátt X ber hann engu að síður samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar óskipta bótaábyrgð ásamt honum á því tjóni sem brotaþoli varð fyrir. Að því virtu er staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um skaðabætur til handa brotaþola.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Miðað við fyrrgreinda niðurstöðu um skaðabótakröfu brotaþola á hendur ákærða er rétt að brotaþoli beri sjálfur kostnað af því að halda henni fram fyrir Hæstarétti.    

Dómsorð:

Ákærði, Jón Ásbjörnsson, sæti fangelsi í átta mánuði, en fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og skaðabætur til handa A skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 464.525 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar, hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur að öðru leyti niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. desember 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af Ríkissaksóknara 6. júní sl. á hendur X, kennitala [...], [...], [...], og Jóni Ásbjörnssyni, kennitala [...], [...], Hafnarfirði fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 19. desember 2010, á bifreiðarstæði við Smáralind, Hagasmára 1, Kópavogi, í félagi veist að A, ákærði Jón með því að taka A hálstaki, draga hann niður í götuna og halda honum á meðan ákærði X veittist að honum með því að traðka á og sparka ítrekað í höfuð hans. Við þetta hlaut A brot á augntóft og kinnbeini vinstra megin, eymsli í vöðvum hálshryggs og mar á augnlokum og augnsvæði.

Telst háttsemi ákærðu varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærðu verði dæmdir in solidum til greiðslu skaðabóta og útlagðs kostnaðar, samtals að fjárhæð krónur 1.027.747. Að auki er krafist vaxta samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af fjártjóni og miska frá tjónsdegi og þar til einn mánuður er liðinn frá því að bótakrafan hefur verið birt í samræmi við 1. mgr. 8. gr. laganna, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags, allt í samræmi við 9. gr. sömu laga. Þá er krafist kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.

Ákærði X játar þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæruskjali að öðru leyti en því að hann hafi ekki sparkað ítrekað í höfuð A eins og í ákæru segir heldur hafi hann einungis sparkað í höfuð hans einu sinni og einu sinni í líkama hans. Hann krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og þá krefst verjandi hans málsvarnarlauna að mati dómsins.

Ákærði Jón krefst sýknu og verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna að mati dómsins.

I.

Þá er ákærði X einnig ákærður með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 9. ágúst 2011 fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2010, nema annað sé tekið fram:

I.I.

[...]

I.II

[...]

I.III

[...]

Í málinu gerir eftirtaldir aðilar skaðabótakröfur á hendur ákærða, X:

[...]

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín og hefur hann jafnframt samþykkt framkomnar bótakröfu. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum eru gefin að sök í ákæru og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ekki verður fjallað frekar um ofangreind brot ákærða X hér að neðan að öðru leyti en við ákvörðun refsingar.

II.

Málavextir v. ákæru dags. 6. júní 2011.      

Í frumskýrslu lögreglu dags. 22. desember 2010 kom fram að A, brotaþoli, hafi komið til Lögreglunnar í Kópavogi, þar sem hann kvaðst vilja gefa kæruskýrslu vegna grófrar líkamsárásar sem hann hafi orðið fyrir þann 19. desember 2010 milli kl. 03:00 og 06:00, á efra bifreiðarplani er liggur milli Smáralindar og Smáratorgs 3, Kópavogi. Brotaþoli upplýsti að árásaraðilar í málinu hafi verið X og Jón Ásbjörnsson. Brotaþoli lýsti því að hann hafi komið á bifreiðarplanið við Smáralind þennan umrædda dag í bifreið með fólki sem hann hafi ekki þekkt og hafi hann setið í hægra aftursæti bifreiðarinnar. X hafi þá komið á staðinn og sest í hægra framsæti bifreiðarinnar sem brotaþoli sat í og hafi þeir byrjað að tala saman. Fljótlega hafi þeim sinnast eitthvað og hafi þá X snúið sér við og slegið í áttina að brotaþola. Brotaþoli sagðist hafa borið höndina fyrir sig og stöðvað höggið og hafi síðan farið út úr bifreiðinni og dregið X út úr bílnum og kastað honum frá sér. Hafi X þá haft uppi ógnandi tilburði við brotaþola. Í sama mund hafi Jón komið, tekið brotaþola hálstaki aftan frá, hert að, krækt fótum utan um brotaþola og dregið hann niður í jörðina. Hafi X þá komið að honum og stappað af afli með fætinum 12-13 sinnum í andlit brotaþola en brotaþoli hafi þó haldið meðvitund allan tímann. Í framhaldi af þessu hafi þeir X og Jón farið af vettvangi og hafi brotaþola verið hjálpað á fætur og honum keyrt upp á slysadeild Landspítalans. Hann hafi þó ekki viljað þiggja læknishjálp þegar þangað var komið. Hann hafi síðan farið daginn eftir upp á slysadeild Landspítalans. Brotaþoli kvaðst hafa drukkið 2-3 bjóra umrætt kvöld.

Á meðal gagna í málinu liggur fyrir læknisvottorð gert af C lækni. Þar kom fram að við skoðun hafi brotaþoli verið með mikið glóðarauga báðum megin, storkublóð í nefi en ekki merki um septal haematoma. Ekki hafi verið blóð í eyrnagöngum eða á bakvið hljóðhimnu. Augnhreyfingar hafi verið eðlilegar, engin tvísýni og engir verkir við augnhreyfingar. Ekkert merki hafi verið um brot á nefbeini og ekki hafi verið verkir við þreifingu á efri augntóftarbrún. Miklir verkir hafi verið við þreifingu á neðri augntóftarbrún og kinnbeini vinstra megin. Einnig nokkrir verkir hægra megin. Þá hafi brotaþoli lýst vægum eymslum í vöðvum í hálshrygg. Þá kom fram að brotaþoli þyrfti innlögn og aðgerð til að rétta brotin á kinnbeini.

Þá liggur einnig fyrir læknisvottorð B læknis við heilsugæsluna í [...], dags. 6. mars 2011. Þar kemur fram að brotaþoli hafi ekki leitað til heilsugæslunnar eftir umrædda áverka í desember 2010. Ekki var getið um nein markverð stoðkerfiseinkenni í  hans sjúkrasögu en hann hafi verið greindur með ADHD og lesblindu og hafi glímt við lélega sjálfsmynd.

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dóminum eftir því sem þurfa þykir:

Ákærði Jón Ásbjörnsson kvaðst fyrir dómi hafa verið á bílaplaninu við Smáralind þetta umrædda kvöld og hafi farið þangað til að hitta vinkonur sínar, D, E og F, en G hafi verið þarna líka. Ákærði kvaðst hafa verið á bíl með ákærða X sem hafi farið yfir í bílinn til stelpnanna þar sem brotaþoli var og hafi E farið yfir í bílinn sinn í staðinn. Ákærði kvaðst hafa séð X og vitnið G, farþega í hinum bílnum, rífast eitthvað og allt í einu hafi brotaþoli rokið út úr bílnum og rifið X út úr bílnum. Ákærði hafi þá stigið út úr bíl sínum og hlaupið í áttina til þeirra þar sem brotaþoli hafi verið ofan á X að lemja hann en ákærði taldi að brotaþoli hafi lamið hann með tveimur til þremur höggum. Aðspurður kvaðst ákærði Jón þá hafa tekið utan um síðu brotaþola og upp á háls hans og tekið hann af X og við það hafi brotaþoli orðið æstur og þá hafi hann haldið honum ennþá fastar svo að hann gæti ekki gert neitt. Hann hafi gert þetta til að stöðva frekari slagsmál. Þeir hafi síðan dottið aftur fyrir sig saman niður í jörðina og ákærði hélt utan um brotaþola með höndunum í einhvern smá tíma eftir að þeir féllu í jörðina. Brotaþoli hafi lent ofan á ákærða. Ákærði kvað svo að X hafi þá komið og sparkað eitthvað í brotaþola en hafi þó ekki séð hvar spörkin lentu eða hversu mörg þau voru en taldi þó spörkin hafa verið fleiri en eitt, líklega tvö til þrjú. Hann var þó viss um að brotaþoli hafi a.m.k. fengið eitt högg í hausinn en hann sjálfur hafi einnig fengið högg í sig en ekki vitað frá hverjum. Aðspurður kvaðst ákærði hafa haldið brotaþola á meðan X sparkaði en hafi síðan sleppt brotaþola, staðið upp, stöðvað X og tekið hann með sér í bílinn og ekið í burtu. Hann hafi þó ekki haldið brotaþola í þeim tilgangi að X gæti veist að honum. Ákærði kvaðst hafa séð að það blæddi úr andliti brotaþola þegar þeir fóru af vettvangi. Aðspurður kvaðst ákærði vera í skóla núna og sé búin með 2 ár í [...].

Ákærði X kom fyrir dóm og kvaðst hafa verið á umræddum stað þann 19. desember 2010. Hann hafi verið nokkuð drukkinn. Þegar hann kom á staðinn hafi hann sest í framsæti bílsins sem brotaþoli sat í og byrjað að tala við krakkana. Einhver ágreiningur hafi orðið á milli hans og G og allt í einu hafi brotaþoli stigið út úr bílnum, opnað framhurðina og dregið sig út úr bifreiðinni og kýlt sig fjórum til sex sinnum í andlitið. Þá hafi ákærði Jón komið út úr bílnum og stuttu seinna hafi þeir Jón og A báðir legið í jörðinni. Ákærði X kvaðst ekki hafa tekið nákvæmlega eftir því hvernig ákærði Jón hafi tekið í brotaþola enda nýbúin að fá nokkur högg í andlitið.  Eftir að þeir duttu í jörðina hafi ákærði X síðan ráðist á brotaþola þar sem hann lá í jörðinni. Aðspurður kvaðst ákærði hafa sparkað einu sinni í maga brotaþola og einu sinni í andlit hans en ekki ítrekað eins og haldið er fram í ákæru. Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvernig brotaþoli hafi legið í jörðinni, hvort hann hafi verið ofan á Jóni eða við hliðina á honum. Jón hafi síðan sleppt brotaþola og stoppað sig og þeir hafi síðan hafa farið af vettvangi. Aðspurður kvað ákærði brotaþola ekki hafa verið með hendurnar fastar þegar hann sparkaði í hann en mundi þó ekki nákvæmlega eftir því enda hafi þetta gerst mjög hratt. Aðspurður kvaðst ákærði vera hættur í allri neyslu síðan í ágúst á þessu ári en hann hafi verið í  mikilli fíkniefnaneyslu árið 2010. Hann hafi jafnframt fengið vinnu á frystitogara sem hann sé mjög ánægður með. Ákærði kvaðst sjá eftir þessari líkamsárás.

Brotaþolinn, A, kom fyrir dóminn sem vitni. Hann kvaðst hafa setið í bíl inn á bílaplani Smáralindar þessa umræddu nótt. X hafi síðan komið og sest í bílinn og einhver ágreiningur hafi orðið þeirra á milli og hafi X slegið til hans en brotaþoli varðist höggið. Brotaþoli hafi síðan staðið upp úr bílnum og dregið X út úr bílnum og fellt hann í jörðina. Brotaþoli kvaðst ekki hafa kýlt X. Hann hafi síðan staðið yfir X þegar Jón hafi komið aðvífandi og tekið hann hálstaki og hafi þeir fallið saman í jörðina. Brotaþoli hafi legið ofan á Jóni og Jón haldið honum. Síðan hafi X komið, sparkað ítrekað í hann, traðkað á honum og að lokum kýlt hann í andlitið. Jón hafi síðan sleppt honum og staðið upp og stöðvað frekari atlögu A að brotaþola. Ákærðu hafi síðan farið af vettvangi. Brotaþoli kvaðst ekki hafa viljað fá læknishjálp þessa nótt og hafi ætlað að sofa þetta úr sér en hafi síðan leitað til læknis daginn eftir. Brotaþoli hafi þurft að undirgangast aðgerð þar sem fjórar járnplötur voru settar í kinnbeinið og enn væri hætta á því að vinstra augað geti sogist niður í augntóftina og þá gæti hann misst hluta af sjóninni. Hann fái kul í andlitið þegar kalt er í veðri og finni hann ennþá fyrir afleiðingum árásarinnar. Hann hafi ekkert getað unnið fyrstu 3-4 mánuðina eftir árásina og hafi hann verið með dyravörslufyrirtæki sem hann hafi ekkert getað unnið í eftir árásina. Eins hafi hjartavandamál komið upp hjá honum eftir árásina og er það talið vera vegna kvíða. Hann kvaðst einnig hafa orðið fyrir andlegri vanlíðan eftir árásina.

Vitnið D kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í bílnum með X, G og brotaþola og setið í aftursætinu. Þá hafi ákærði X og G lent í einhverju orðaskaki og allt í einu hafi brotaþoli farið út úr bílnum og rifið ákærða X út úr bílnum. Þeir hafi lent í einhverjum átökum og dottið niður í jörðina. Þá hafi Jón komið aðvífandi og haldið brotaþola föstum þar sem hann lá og svo hafi X sparkað í hann. Hún taldi spörkin hafa lent á höfuðsvæði brotaþola. Vitnið kvað spörkin hafa verið fleiri en eitt en ekki vita hversu mörg í heildina þau hafi verið. Hún kvað svo ákærðu hafa farið af vettvangi og hún ásamt vinkonum sínum hafi síðan keyrt brotaþola á spítala og síðan heim til hans.

Vitnið E kom fyrir dóminn og kvaðst hafa setið í bílnum með ákærða Jóni á bílaplaninu við Smáralind þetta umrædda kvöld. Hún kvað eitthvað hafa farið á milli G og X og við það hafi brotaþoli reiðst og stigið út úr bílnum og dregið X út úr bílnum. Þeir hafi verið að rífast eitthvað fyrir utan bílinn og brotaþoli síðan tekið X niður í jörðina. Þá hafi Jón komið og tekið brotaþola niður í jörðina og haldið honum þar. X hafi síðan komið og sparkað í andlitið á brotaþola en hún gat þó ekki tjáð sig um hversu mörg spörkin voru en taldi þau hafa verið fleiri en eitt. Ákærðu hafi síðan farið af vettvangi og hún ásamt vinkonum sínum hafi hjálpað brotaþola á fætur og farið með hann á slysadeildina og síðan heim. 

Vitnið F kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í bílnum með ákærða X ásamt G, brotaþola og D þetta umrædda kvöld. Einhver orðaskil hafi orðið á milli X og G og það endað með því að brotaþoli hafi staðið upp úr bílnum og dregið X út úr bílnum og hann dottið niður á jörðina. Síðan hafi Jón komið aðvífandi og tekið utan um hálsinn á brotaþola og svo hafi X komið og sparkað í brotaþola. Hún muni ekki eftir því hversu mörg spörkin hafi verið en sagði þó að einhver spörk hafi átt sér stað. Því næst hafi ákærðu farið af vettvangi og hún farið ásamt vinkonum sínum að hjálpa brotaþola. Vitnið staðfesti að lokum lögregluskýrslu sem hún gaf þann 13. janúar 2011.

Vitnið C læknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti læknisvottorð sem hann ritaði. Aðspurður kvað vitnið áverka brotaþola samrýmast því að hann hafi fengið fleiri en eitt högg í andlitið en þó sé ómögulegt að fullyrða það. Aðspurður kvað hann batahorfur brotaþola vera nokkuð góðar en það muni taka hann einhvern tíma að jafna sig. Hann taldi langtímaafleiðingar ekki þurfa að vera miklar ef að aðgerð hafi tekist vel.

Vitnið G kom fyrir dóminn en hann kvaðst hafa verið í bílnum með brotaþola, X, og D þetta umrædda kvöld. Vitnið kvaðst hafa byrjað að rífast við X í bílnum. Allt í einu hafi brotaþoli farið út úr bílnum, rifið X út úr bílnum og þeir lent í einhverjum slagsmálum. Síðan hafi Jón komið hlaupandi, tekið utan um brotaþola og þeir hafi fallið í götuna. Síðan hafi X traðkað á hausnum á brotaþola og sparkað í hann en hætt þegar Jón hafi öskraði á hann ,,að þetta væri komið gott“. Aðspurður kvað vitnið Jón hafa haldið brotaþola fyrst um sinn þegar X sparkaði í hann en sleppt honum síðan stuttu seinna. Aðspurður kvað vitnið að S hafi sparkað í brotaþola um fimm sinnum. Að lokum hafi ákærðu farið af vettvangi og hann hjálpað brotaþola á fætur og farið með hann upp á spítala og svo heim.

III.

Niðurstaða:

Í máli þessu er ákærða Jóni gefið að sök að hafa í félagi með ákærða X veist að A, ákærði Jón með því að taka A hálstaki, draga hann niður í götuna og halda honum á meðan ákærði X veittist að honum með því að traðka á og sparka ítrekað í höfuð hans.

Ákærði Jón hefur í skýrslu sinni hjá lögreglu og fyrir dómi neitað sök í málinu. Hann telur sig ekki eiga nokkurn þátt í þessu máli enda deilurnar og slagsmálin alfarið á milli brotaþola og ákærða X. Ákærði Jón telur sig einfaldlega hafa gengið á milli þeirra og reynt að stöðva átökin sem áttu sér stað. Hann neitar því jafnframt að hafa tekið brotaþola eiginlegu hálstaki og rifið hann viljandi niður í jörðina. Hann segist hafa tekið utan um síðu hans og upp á háls eða öxl brotaþola og saman hafi þeir dottið í jörðina. Hann viðurkennir að hafa haldið brotaþola í stuttan tíma eftir að þeir duttu niður í jörðina en það hafi ekki verið í þeim tilgangi að ákærði X gæti sparkað í hann. Hann hafi sjálfur fengið högg í sig en ekki vitað frá hverjum og segist hafa sleppt takinu á brotaþola mjög fljótlega þegar hann áttaði sig á aðstæðunum og staðið upp og stöðvað atlögu X að brotaþola.

Ákærði X kvaðst ekki muna eftir því hvernig Jón hafi tekið utan um brotaþola, hvort það hafi verið með hálstaki eða ekki og sagðist jafnframt ekki muna eftir því hvort að Jón hafi haldið honum eða ekki. Þó minnti hann að brotaþola hafa ekki verið haldið á meðan hann sparkaði í hann.

Vitnið D sagði fyrir dómi að Jón hafi komið og tekið brotaþola niður í jörðina og haldið honum þar þegar X sparkaði í hann. Hún mundi þó ekki í hvernig tökum Jón hafi haldið brotaþola. Að endingu hafi Jón staðið upp og stöðvað X.

Vitnið E sagði fyrir dómi að Jón hafi komið og tekið brotaþola niður í jörðina og haldið honum þar. Hún kvaðst ekki muna með hvaða hætti hann hélt um brotaþola þegar hann tók hann niður í jörðina en sagði þó að brotaþola hafi verið haldið niðri þegar X sparkaði í hann.

Vitnið F sagði í framburði sínum að Jón hafi komið aðvífandi og tekið utan um háls brotaþola og haldið honum og svo hafi X komið og sparkað í hann. Hún mundi þó ekki hvort að þeir hafi legið í jörðinni eða ekki þegar spörkin áttu sér stað.

Vitnið G sagði í vitnisframburði sínum að Jón hafi komið og tekið utan um brotaþola og saman hafi þeir dottið í jörðina. Vitnið sagði að Jón hafi haldið brotaþola í jörðinni fyrst um sinn þegar X byrjaði að sparka í hann en hafi síðan sleppt brotaþola, staðið upp og kallað á X að þetta væri komið gott og tekið hann síðan með sér í bílinn og keyrt burtu.

Af framburði vitna má ætla að Jón hafi komið inn í deilurnar á milli brotaþola og X og tekið utan um brotaþola með einum eða öðrum hætti og þeir hafi saman fallið í jörðina. Ákærði Jón segir sjálfur að brotaþoli hafi fallið ofan á sig og að hann hafi haldið honum föstum í smá tíma. Öll vitnin eru sammála um það að Jón hafi haldið brotaþola niðri í einhvern tíma á meðan X sparkaði eða trampaði á andliti brotaþola. Vitnið F mundi þó ekki hvort að Jón og brotaþoli hafa legið í jörðinni þegar hann hélt honum. Ef ákærði Jón hefði sannarlega ætlað að koma í veg fyrir frekari átök á milli X og brotaþola, eins og hann hefur haldið fram, hefði honum verið það í lófa lagið að standa strax upp eftir að þeir skullu í jörðina og ýta X í burtu og þannig koma í veg fyrir frekari átök. Í stað þess lá hann í jörðinni um skamma stund, með brotaþola í tökum, fyrst um sinn þegar X sparkaði í höfuð brotaþola. Það var ekki fyrr en hann stóð upp og öskraði á X að þetta væri komið gott að X hætti atlögunni að brotaþola. Með þessari háttsemi ákærða lét hann sér það í léttu rúmi liggja að X næði að sparka í andlit brotaþola þegar hann hefði getað komið í veg fyrir spörkin með því að sleppa brotaþola strax og standa upp og ýta X í burtu.

Með vísan til framburða vitna og ákærða er það mat dómara að ákæruvaldinu hafi tekist lögfull sönnun þess að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir og réttilega er færð til refsiákvæða í ákæru.

Í máli þessu er ákærða X gefið að sök að hafa í félagi með Jóni veist að brotaþola þar sem hann lá í jörðinni með því að traðka á og sparka ítrekað í höfuð brotaþola.

Ákærði játaði í skýrslu sinni hjá lögreglu að hafa lent í átökum við brotaþola og viðurkennir að hafa kýlt hann nokkrum sinnum í andlitið og sparkað í hann einu sinni í höfuðið og einu sinni í magann. Hann neitaði hins vegar að hafa sparkað í hann ítrekað. Við skýrslugjöf ákærða fyrir dómi játaði ákærði jafnframt að hafa lent í átökum við brotaþola en hafnar því alfarið að hafa sparkað og traðkað ítrekað á höfði brotaþola. Ákærði sagðist hafa verið mjög reiður eftir að brotaþoli hafi rifið hann út úr bílnum og kýlt hann og þess vegna hafi hann sparkað í hann þegar brotaþoli lá í jörðinni, einu sinni í magann og einu sinni í andlitið.

Ákærði Jón kvað að X hafa sparkað eitthvað í brotaþola þegar hann lá í jörðinni og sagði að spörkin hafi verið fleiri en eitt, líklega tvö til þrjú. Hann hafi þó ekki séð hvar spörkin hæfðu brotaþola.

Brotaþoli kvað ákærða X hafa sparkað í sig 11-12 sinnum og sagði að höggin hafi öll lent á höfuðsvæðinu, flest í andliti hans. Brotaþoli sagði jafnframt að X hafi ekki hætt fyrr en Jón hafi staðið upp og sagt honum að hætta og tekið hann síðan með sér í bílinn og ekið burtu.

Vitnið D kvað að X hafa sparkað í höfuðið á brotaþola þar sem hann lá í jörðinni. Hún sagði að höggin hafi lent á höfuðsvæði brotaþola en gat þó ekki munað hversu mörg höggin hafa verið. Hún sagðist þó vera viss um að höggin hafi verið fleiri en eitt.

Vitnið E bar svo fyrir dómi að hún hafi séð X sparka í andlitið á brotaþola þar sem hann lá í jörðinni. Hún gat ekki munað hversu mörg höggin voru en var þó nokkuð viss um að höggin hafi verið fleiri en eitt. Hún sagði jafnframt að X hafi ekki hætt fyrr en Jón hafi stöðvað hann.

Vitnið F kvaðst fyrir dómi hafa séð þegar X sparkaði í brotaþola. Hún sagði að einhver spörk hafi verið en gat þó ekki tjáð sig um fjölda þeirra né hvar þau lentu á brotaþola.

Vitnið G sagði fyrir dómi að hann hafi séð þegar X traðkaði á hausnum á brotaþola og sparkaði í hann þegar hann lá á jörðinni. Vitnið taldi að spörkin hafi verið um 5 talsins og sagði þau hafa beinst að höfði brotaþola og andliti. Vitnið sagði jafnframt að ákærði X hafi ekki hætt fyrr en Jón hafi staðið upp og kallað á hann að þetta væri komið gott og hafi tekið hann með sér út í bíl.

Af framburði vitna og ákærða liggur atburðarás kvöldsins 19. desember 2010 nokkuð ljós fyrir. Ákærði X og brotaþoli sátu saman í bifreið og eitthvað sinnaðist þeim sem varð til þess að brotaþoli rauk út úr bifreiðinni og dró X út úr bílnum. Ekki þykir sannað að X hafi slegið til brotaþola inn í bifreiðinni enda brotaþoli einn því til frásagnar og framburður vitna styður ekki þá frásögn. Einhver átök eða stympingar hafa orðið á milli ákærða og brotaþola sem leiddu til þess að ákærði Jón kom og tók brotaþola niður í jörðina með einum eða öðrum hætti og hélt honum þar. Ákærði X sagði fyrir dómi að hann hafi verið gríðarlega reiður út í brotaþola og hafi því ráðist á hann þegar hann lá varnarlaus í jörðinni og sparkað einu sinni í höfuð hans og einu sinni í maga. Af framburði vitna og brotaþola að dæma  er ekki fyllilega ljóst fyrir hversu mörg spörkin hafa verið eða hvort hann hafi einnig traðkað á höfði ákærða eins og segir í ákæru. Öll vitnin eru sammála því að spörkin hafi beinst að höfði og andliti brotaþola en vitnið G er sá eini, ásamt brotaþola, sem talaði um að ákærði hafi jafnframt traðkað á höfði brotaþola. Vitnin D og E sögðu báðar að spörkin hafi verið fleiri en eitt en gátu ekki tjáð sig um nákvæman fjölda sparka. Vitnið F sagði fyrir dómi að einhver spörk hafi verið af hálfu ákærða en gat þó ekki tjáð sig um fjölda þeirra. Vitnið G taldi að ákærði hafi sparkað og traðkað um fimm sinnum í höfuð ákærða.

Af gögnum málsins og framburði vitna og ákærðu þykir útilokað að leggja trúnað á að ákærði X hafi einungis sparkað einu sinni í andlit brotaþola og einu sinni í maga hans. Brotaþoli kvaðst ekki hafa fengið spark í magann og öll vitnin nema F báru um það að spörkin hafi hæft andlit og höfuð brotaþola. Að mati dómara hefur ákæruvaldi tekist að sanna að spörkin hafi verið fleiri en eitt sem beindust að höfði brotaþola og þar með ítrekuð. Eins bera áverkar brotaþola á andliti og læknisvottorð með sér að brotaþoli hafi fengið fleiri en eitt spark í andlitið.

Er samkvæmt þessu sannað að ákærði X hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Þá er fallist á það með ákæruvaldinu að háttsemi ákærða sé réttilega heimfærð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 enda um sérstaklega hættulega árás sem beindist að höfði brotaþola.

Ákvörðun refsingar:

Ákærði Jón er fæddur [...] og var því 18 ára þegar brotið var framið. Ákærði hefur ekki áður hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot en hlaut þó þriggja mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundin í tvö ár fyrir brot gegn 253. gr., 231. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þann 9. desember 2010. Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð dóms frá 9. desember 2010 og verður hann því dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og refsing tiltekin eftir 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með tilliti til ungs aldurs ákærða og þátt hans í brotinu þykir refsing hans nú hæfilega ákveðin 7 mánaða fangelsi. Að öllu virtu svo einkum þess að ekki er um ítrekað ofbeldisbrot að ræða þykir rétt að binda refsinguna skilorði til þriggja ára og að hún skuli niður falla að þeim tíma loknum frá birtingu dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði X er fæddur [...]. Á hann að baki alllangan sakaferil. Með dómi uppkveðnum 10. mars 2009 var hann sakfelldur fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga en ákvörðun refsingar hans var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þann 4. september 2009 gerði ákærði sátt við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu fyrir brot gegn 1. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Var ákærði sviptur ökurétti í 10 mánuði frá 4. september 2009 auk þess þurfti hann að greiða 140.000 kr. í sekt. Með dómi uppkveðnum 9. desember 2009 var hann sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr., 1. mgr. 254. gr., 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Var refsing ákvörðuð 10 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára auk þess sem hann var sviptur ökurétti í 2 ár og 6 mánuði frá 7. janúar 2010. Þann 7. júlí 2010 hlaut hann dóm fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og var refsing ákvörðuð 100.000 kr. sekt.  Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð dómsins frá 9. desember 2009 og er hann dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði veittist með alvarlegum hætti að brotaþola og beindust höggin að höfði brotaþola. Þó ber einnig að líta til þess að ákærði er ungur að árum og hefur játað þann verknað sem  hann er ákærður fyrir með ákæru dags. 9. ágúst 2011 og eins hefur hann játað verknaðarlýsingu ákæru dags. 6. júní 2011 að öðru leyti en fjölda sparka í brotaþola. Ákærði hefur verið samstarfsfús bæði hjá lögreglu og fyrir dómi og iðrast gjörða sinna. Eins ber að líta til þess að brotaþolinn átti sinn þátt í upptökunum að þeim átökum sem urðu á milli ákærða og brotaþola. Þykir refsing ákærða X nú hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi. Vegna sakaferils og alvarleika brotsins þykir skilorðbinding refsingar ekki koma til greina. Þá skal hann sæta sviptingu ökuréttar ævilangt frá birtingu dómsins. Þá skal ákærði sæta því  að fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233/2001.

Sakarkostnaður:

Eftir þessum málsúrslitum ber samkvæmt 218. gr. laga nr. 88/2008 að dæma ákærðu til greiðslu málskostnaðar.

Ákærðu greiði in solidum 60.000 krónur samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti sækjanda. Þá skulu þeir greiða sem sakarkostnað málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna þannig að ákærði Jón Ásbjörnsson greiði verjanda sínum Sveini Andra Sveinssyni hrl. 251.000 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti og ákærði X verjanda sínum Jóhanni Karli Hermannssyni hdl. 188.250 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá ber ákærða X einnig að greiða 65.208 krónur vegna sýnatöku sem fram fór við rannsókn málsins.

Bótakröfur:

Brotaþoli A á rétt á miskabótum úr höndum ákærðu á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem eru ákveðnar 600.000 krónur. Þess skal þó getið að enn liggur ekki fyrir varanlegur miski brotaþola vegna árásar þessarar. Þá bera ákærðu að greiða honum útlagðan kostnað vegna vitjunar hans til lækna 27.747 krónur og 125.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatt í lögmannskostnað fyrir að halda fram bótakröfunni. Vexti skal greiða eins og segir í dómsorði.

Ákærði X ber að greiða H, kt. [...]. f.h. I hf., kt. [...], skaðabætur að fjárhæð 3.803 kr. Vexti skal greiða eins og segir í dómsorði.

Ákærði X ber að greiða J, kt. [...], f.h. K hf., kt. [...], skaðabætur að fjárhæð 6.817 kr. Vexti skal greiða eins og segir í dómsorði.

Ákærði X ber að greiða L, kt. [...], f.h. M hf., kt. [...], skaðabætur að fjárhæð 14.582 kr. Vexti skal greiða eins og segir í dómsorði.

Einar Laxness fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sótti málið.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóminn

D ó m s o r ð:

Ákærði, Jón Ásbjörnsson, sæti fangelsi í 7 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður eftir þrjú ár frá birtingu dóms þessa ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði Jón greiði sem sakarkostnað málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., sem þykja hæfilega ákvörðuð 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði X, sæti fangelsi í 18 mánuði. Þá skal ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja. Þá sæti ákærði upptöku á 0,69 g af maríhúana-kannabis sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði X greiði sem sakarkostnað 253.458 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhanns Karls Hermannssonar hdl., 188.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Annan sakarkostnað að fjárhæð 60.000 krónur greiði ákærðu óskipt.

Ákærðu greiði A in solidum 753.247 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. desember 2010 til 6. júlí 2011 og dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Loks ber ákærða X að greiða H 3.803 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. maí 2010 og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga frá 9. september 2011 til greiðsludags.  

Þá ber ákærða X að greiða J 6.817 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. maí 2010 og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga frá 9. september 2011 til greiðsludags.  

Þá ber ákærða X að greiða L 14.582 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. maí 2010 og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga frá 9. september 2011 til greiðsludags.